Færsluflokkur: Bloggar

Dagsbrún umbreytir sér í ekki neitt

Fyrir rétt rúmu ári var kynnt stofnun nýs móðurfélags Og Vodafone, 365 prentmiðla, 365 ljósvakamiðla og P/F Kall í Færeyjum sem bera myndi nafnið Dagsbrún. Skipulag samstæðunnar nýju tók gildi 1. október. Í frétt frá fyrirtækinu sem birtist í Morgunbaðinu 5. ágúst sl segir svo:

"Dagsbrún hf. mun verða hið skráða félag í Kauphöll Íslands í stað Og fjarskipta. Það hyggst marka sér stöðu á sviði fjarskipta, fjölmiðlunar og afþreyingar og stefnir að umbreytingum á þessum sviðum hérlendis og útrás á erlenda markaði."

Mikið var fjallað um hið nýja félag í fréttum í kjölfarið og aðallega á jákvæðum nótum. Þannig birtust fréttir af hagnaði Dagsbúnar á fyrstu níu mánuðum ársins 2005 rúmum mánuði eftir að fyrirtækið varð til, en sá hagnaður nam 554 milljónum króna eftir skatta sem var nokkuð meira en á fyrstu níu mánuðum ársins 2004 er hann var 367 milljónir (hagnaður af rekstri Og Fjarskipta (Og Vodafone)).

Í yfirliti sem fylgdi téðri frétt segir að skuldir séu 13.509 milljónir króna og eigið fé 8.943 m.kr. Handbært fé frá rekstri er 499 m.kr. og eiginfjárhlutfall 39,8% svo tíndar séu til nokkrar stærðir. (Á hluthafafundi Dagsbrúnar í apríl. sl. kom fram að félagið stefndi að 35-40% eiginfjárhlutfalli til lengri tíma.)

Umsvif fyrirtækisins jukust hratt í kjölfar stofnunar þess, enda háleit markmið sett í upphafi eins og ég nefni hér að framan. Meðal annars var stefnt á stórsókn í útlöndum, keypt prentverk í Bretlandi (Wyndeham - "góður fjárfestingakostur sem fellur að langtímastefnu Dagsbrúnar"), unnið að stofnun fríblaðs í Danmörku og svo má telja, aukinheldur sem fyrirtækið keypti allt það sem það óttaðist að Síminn myndi annars kaupa hér heima.

Í sumar gerðust þær raddir háværar sem hermdu að ekki væri allt með felldu í rekstri fyrirtækisins og 17. ágúst sl. birtust svo fréttir af því að Dagsbrún hefði verið rekin með 1,5 milljarða tapi á fyrri hluta ársins. Þrátt fyrir það voru menn bjartsýnir,  í það minnsta útávið, og forstjóri félagsins, Gunnar Smári Egilsson, sagði við Viðskiptablað Morgunblaðsins að stjórnendur Dagsbrúnar teldu að afkoma félagsins ætti að vera betri en niðurstöður fyrri hluta ársins sýndu. Hann bar sig þó vel og sagði að þegar hefði verið brugðist við ákveðnum þáttum og áfram yrði unnið að því að bæta kostnaðarhlutföll í rekstrinum.

6. september sl. birtist í Viðskiptablaðinu þessi merkilega tafla:

Lykiltölur 30.6. 2006 (m.kr.)
Sala20.176
EBITDA2.096
EBIT676
Hagnaður (tap)(1.522)
Handbært fé frá rekstri f. vexti og skatta500
Greiddir vextir og skattar-681
Handbært fé frá rekstri-181
Fjárfestingar (net CAPEX)-1.360
Frjálst fjárflæði-1.541
Vaxtaberandi skuldir55.654
Eigið fé17.682
Eiginfjárhlutfall19%

Nú kann ég lítið fyrir mér í hagfræði en verð þó að segja að ég varð sleginn yfir þessum tölum enda bentu þær til þess að fyrirtækið stæði verr að vígi en mann hefði grunað. Það kom því ekki á óvart þegar almannarómur hermdi að hitnað hefði undir forstjóranum og að Dagsbrún yrði skipt upp. Orðið skúbbaði á því eins og svo mörgu, sjá til að mynda þessa frétt frá 28. ágúst og svo þessa frá 6 september.

Í gær birtist svo í Morgunblaðinu frétt um það að Dagsbrún hafi verið skipt í tvö félög. Í þeirri frétt er rætt við Þórdísi Sigurðardóttur, stjórnarformann Dagbrúnar, sem fer fögrum orðum um uppskiptin og nýju fyrirtækin tvö enda muni aðgerðirnar skila sér í tveimur öflugum félögum "sem í dag eru hvort um sig jafnstórt eða stærra heldur en Dagsbrún var í upphafi ársins". (Góð uppskipti það að taka fyrirtæki, lima það í sundur, selja fasteignir og fyrirtæki sem það átti og eftir standi tvö fyrirtæki sem eru hvort um sig jafnstórt eða stærra en það gamla.)

Þórdís fer á kostum í viðtalinu en best af öllu er svar hennar við spurningunni um hvort sagan hafi ekki sýnt að viðskiptamódel Dagsbrúnar hefði ekki gengið upp:

"Svaraði hún því til að það hefði gengið fullkomlega upp og myndi gera svo áfram. "Dagsbrún gaf sig út fyrir það að vera umbreytingarfélag og því höfum við sannarlega fylgt eftir núna.""

Þarna er svo vel svarað að maður stendur eiginlega á öndinni. Dagsbrún sneri þokkalegum hagnaði í gríðarleg tap á innan við ári, umbreytti hagnaði í tap, hefði Þórdís eflaust sagt og bent á að það hafi verið í samræmi við tilganginn með fyrirtækinu sem var svo mikið umbreytingafélag að það umbreytti sér á endanum í ekki neitt.

Þegar ég las þetta óborganlega svar Þórdísar rifjaðist upp fyrir mér Dilbert ræma sem fjallar um það að ein leið til að meta hvaða augum viðmælandi lítur mann er að skoða hvernig hann lýgur að manni. Í ræmunni glímir Dilbert við svikulan samstarfsmann sem segist ekki hafa unnið umbeðið verk vegna þess að honum hafi verið rænt af íkornum sem hyggist leggja undir sig heiminn. Svo fjarstæðukennd saga sýnir að viðkomandi bar minna en enga virðingu fyrir viðmælandanum. Hvaða virðingu ætli eigendur Dagsbrúnar beri fyrir íslenskum fjölmiðlum?


Airwaves í vændum

Þá er búið að kynna dagskrá Airwaves 18. til 22. október þó hugsanlega eigi eitthvað eftir að bætast við. Ekki finnst mér eins margt spennandi í boði og á síðustu hátíð, en það er vitanlega smekkur minn sem ræður því - það er ekki eins margt sem mig langar til að sjá og heyra.

Kannski fór síðasta hátíð líka svolítið úr böndunum ef marka má biðraðirnar sem mynduðust fyrir utan Nasa til að mynda, en við fyrstu sýn er betra jafnvægi í framboðinu að þessu sinni.

Einu erlendu hljómsveitirnar sem ég ætla alls ekki að missa af eru The Go! Team og Mates of State; mér er sama um hitt.

Það er aftur á móti talsvert af sveitum íslenskum sem ég vil alls ekki sleppa: Lokbrá, Forgotten Lores, My Summer as a Salvation Soldier, Mugison, Seabear, Mammút, Stillusteypa, Jakobínarína, We Made God, Úlpa, Biggi, Unsound og Dr. Mister & Mr. Handsome svo nokkuð sé nefnt.

Sjáum hvernig það gengur upp. (Dagskráin á örugglega eftir að breytast með tilliti til tímasetninga, kannski til hins betra, en eins líklegt að planið fari allt í rugl. Annað eins hefur nú gerst.)

Eftirfarandi upptalning er semsé það sem ég ætla mér að sjá á Airwaves að þessu sinni, heildardagskrá er annars á vef hatíðarinnar, www.icelandairwaves.com/.

Miðvikudagur, 19. október 
22:30LokbráGrand Rokk
22:45FræNasa
23:30Forgotten LoresNasa
Fimmtudagur, 19. október 
19:45Mates of StateListasafn Reykjavíkur
20:00Egill SæbjörnssonIðnó
21:30My Summer as a Salvation SoldierGaukurinn
22:00Nico MuhlyIðnó
23:00MugisonListasafn Reykjavíkur
23:30SeabearÞjóðleikhúskjallarinn
00:00Love is AllNasa
00:15Langi Seli og SkuggarnirÞjóðleikhúskjallarinn
Föstudagur, 19. október 
20:00BaggalúturListasafn Reykjavíkur
20:45Benni Hemm HemmListasafn Reykjavíkur
21:30BiogenIðnó
21:30IslandsListasafn Reykjavíkur
22:15MammútGaukurinn
22:15StillusteypaIðnó
23:00JakobínarínaListasafn Reykjavíkur
00:00The Go! TeamListasafn Reykjavíkur
00:00GhostigitalIðnó
01:00Jeff Who?Gaukurinn
Laugardagur, 19. október 
20:00We Made GodGrand Rokk
20:45ÚlpaNasa
21:30BiggiListasafn Reykjavíkur
22:00UnsoundPravda
23:30Mr. SillaÞjóðleikhúskjallarinn
00:45Hafdís HuldIðnó
01:00HairdoctorGaukurinn
01:45Dr. Mister & Mr. HandsomeNasa

Klippt og skorið

Plötusnúðar eru ýmiskonar, allt frá því að sitja við spilarann og skipta um plötur næsta vélrænt í það að vera tónlistarmenn sjálfir sem leika af fingrum fram með plöturnar sem sitt hráefni, tónlist annarra. Þeir sem lengt ná í þeim efnum eru mikils metnir um heim allan, enda ekki hægt að líkja því við annað en tónleika þegar þeir troða upp, blanda saman gleymdri tónlist og alþekktri, flétta saman saman taktinn úr þessu lagi og sönginn úr hinu, ekki bara til að láta lögin renna saman heldur til að skapa eitthvað nýtt. En af hverju ekki að ganga lengra, af hverju ekki að líta á tónlistina sem hreint hráefni og fara alla leið, hrista saman það besta úr nokkrum góðum lögum svo úr verður mögnuð snilld?

Mashup kallast það þegar menn skeyta saman lögum líkt og frægt varð hér á landi þegar einhver gárunginn setti saman  Celine Dion og Sigur Rós, Sealion Dion vs. Cigar Ros. Helsti spámaður þessara tónvísinda er kanadíska tónskáldið John Oswald sem er frægast fyrir Plunderphonics sem hann kallar svo, en sú hugsun felst í því að setja saman nýja tónlist úr gömlum upptökum. Hann byrjaði á sínum klippiverkum á sjöunda áratugnum og frægt varð er hann skeytti saman gítarfrösum frá Jimmy Page og prédikun bandarísks bókstafstrúarmanns.

Oswald lét þau orð eitt sinn falla að ef við hugsum okkur tónsköpun sem sléttan völl sé höfundarrétturinn girðingarnar og hann og fleiri hafa barist gegn þeirri þróun að sífellt er verið að lengja gildistíma höfundarréttar, aðallega fyrir tilstilli fyrirtækja sem vilji halda áfram að hagnast á hugverkum löngu eftir að höfundurinn er fallinn fá og jafnvel börn hans og barnabörn líka.

Mashup er yfirleitt notað yfir það þegar lög eru felld saman í heilu lagi eða hér um bil, en ótal afbrigði eru til á því sem Oswald kallaði Plunderphonics (fyrsta Plunderphonic diskinn er hægt að sækja á vefsetur Oswalds, plunderphonics.com). Það er til að mynda aðeins útfærsluatriði að nota búta úr lögum eins og legokubba, setja saman lag úr mörgum misstuttum bútum, kannski tugum búta eða hundruðum. Bókstafstrúarmenn kalla það ekki mashup, en merkimiðinn skiptir í sjálfu sér ekki máli, heldur framkvæmdin.

Frægar plötur með tónlist þessarar gerðar eru til að mynda fyrsta platan Oswalds sem getið er og CBS og lögmenn Michaels Jacksons létu eyðileggja, plata Negativland sem U2 stoppaði, Gráa albúmið eftir Danger Mouse, sem steypti saman Hvíta albúmi Bítlanna og Svarta albúmi Jay-Z, en EMI kom í veg fyrir dreifingu hennar þó hægt sé að sækja hana á netið (sjá http://www.illegal-art.org/audio/index.html) - beinn tengill á plötuna (torrent á zip-skrá) hér). Oft eru viðkomandi verk unnin með samþykki höfundarréttareigenda eða þegjandi samþykki, en algengara þó að unnið sé í óleyfi. Dæmi um samþykki eru Radio Soulwax-plöturnar (2 Many DJs) sem á eru mashup sem leyfi fengust fyrir og dæmi um þegjandi samþykki er platan magnaða Three Sinister Syllables, 75 mínútna flétta 250 lagabúta sem margir eru ekki nema taktur eða rödd. Á þeim 75 mínutum segja þeir Jay Glaze & Pro-Celebrity Golf sögu hiphopsins með magnaðri keyrslu (en þess má og geta að á umslagi er nafn plötunnar ritað með stöfum sem klipptir hafa verið úr umslögum á ýmsum sígildum hiphop-plötum). Heyr til að mynda þessa MF Doom syrpu, 26 lög á tæpum átta mínútum.

Three Sinister Syllables var tvö ár í smíðum, enda flókin vinna að púsla saman þó notast sé við tölvur. Dæmi um verk sem enn seinlegra var að vinna er til að mynda upptökur félaganna sem kalla sig Cassetteboy, en þeir notuðu snældur og skæri við iðju sína. The Parker Tapes er frægasta verk þeirra og tók sjö ár, en á því tæta þeir í sig ýmsa frammámenn í bresku þjóðlífi í 99 lögum, til að mynda fær Jamie Oliver eftirminnilega yfirhalningu eins og heyra má með því að smella hér. Á The Parker Tapes nota Cassetteboy félagar að mestu upptökur af talmáli og verkið fellur því að miklu leyti utan viðfangsefnis þessa pistils, en þeir nota líka nota upptökurnar til að gera grín sem nýtur verndar samkvæmd dómi hæstaréttar vestan hafs í máli erfingja Roy Orbison gegn 2 Live Crew á sínum tíma vegna lagsins Pretty Woman (útgáfa 2 Live Crew er ömurleg eins og heyra má með því að smella hér).

Margir klippararnir líta á iðju sína sem hálfgert hugsjónastarf og kæra sig ekki um að leyfi þó það standi til boða, en fleiri virðast þó gjarnan vilja hafa allt á þurru, en það getur verið snúið að afla heimilda fyrir bútum. Dæmi um það er lagið 99 Problems sem Danger Mouse bræðir saman við Helter Skelter á Gráu plötunni.

Á Svörtu plötunni, plötu Jay-Z, eru fjórir útgefendur skráðir fyrir laginu. Til þess að nota lagið þurfti Danger Mouse því að fá leyfi frá þeim útgefendum öllum að ekki sér talað um útgefanda Helter Skelter. Gera má því skóna að þeir hefðu krafið hann um fulla greiðslu fyrir fyrirframgreitt og engar líkur á að hann gæti náð þeim peningum til baka. Kemur ekki á óvart að margir fara þá leið að spyrja hvorki kóng né prest og gefa lögin síðan út á Netinu þar sem hver sem vill getur sótt þau.

Einn af þeim sem sigla milli skers og báru í þessum efnum er tónlistarmaðurinn Girl Talk sem sendi frá sér sérdeilis skemmtilega plötu fyrr á árinu, Night Ripper. Á bak við Girl Talk nafnið er lífefnafræðingurinn Greg Gillis - dagfarsprúður verkfræðingur í hvítum slopp á virkum dögum, en hálfber villtur plötusnúður um helgar. Hann lifir því tvöföldu lífi og vill víst helst hafa það svo, sem sést meðal annars af því að hann neitar blöðum í heimaborg sinni, Pittsburgh, um viðtöl til að halda því leyndu hvað hann gerir í frítíma sínum.

Gillis lærði tónlist sem barn, spilaði á trompet, en fór síðan að fást við óhljóðalist sem unglingur, segist hafa verið í hljómsveit sem framleiddi hávaða og braut hluti. Þegar það bráði af honum fór hann að hlusta á poppmúsík en nálgaðist hana út annarri átt en gengur og gerist. Fyrsta Girl Talk platan kom út 2002 eftir að Gillis hafði setið við klippingar í á annað ár.

Fyrsta plata hans var tilraunakenndari en síðar varð en Gillis segist hafa fljótlega hafa misst áhugann á tilraununum og sneri sér því að hiphopi og poppi. Hiphop er reyndar obbinn af hráefninu sem Gillis notar, enda falla pælingar hans vel að grunninum að góðu hiphopi - smalatækni og liprar klippingar.

Á Night Ripper eru brot úr lögum 167 listamanna eða hljómsveita, um 250 bútar alls, enda notaði hann fleiri en einn bút frá sumum, en alls segist hann hafa haft undir um 6.000 búta þegar hann var að setja plötuna saman. Þetta er mögnuð blanda, en ef marka má tónleikaumsagnir er Gillis enn magnaðri á tónleikum, en þar blandar hann á staðnum, skeytir saman bútum úr öllum áttum eftir stemningunni á staðnum og því í hvaða stuði hann er. Á slíkum tónleikum eru ekki eiginleg lög, frekar eins mögnuð löng syrpa og reyndar hefur hann látið þau orð falla að lögin á Night Ripper séu ekki eiginleg lög, það megi líta á plötuna sem eitt 42 mínútna lag, en þeim hafi verið skipt niður í hæfilega skammta til að tryggja að þeir renni ljúflegar niður.

Skoðum til að mynda upphafslag plötunnar með aðstoð Wikipedia: Lagið, sem er 2:40 mínútur og hægt að sækja með því að smella hér, heitir Once Again og hefst með broti úr Goodies sem crunk-gellan Chiara flutti 2004. Síðan er framvindan þessi:

0:09 Boston - Foreplay/Long Time
0:12 Ludacris - Pimpin' All Over The World
0:32 Fabolous - Breathe
1:16 Ying Yang Twins - Wait
1:25 The Verve - Bittersweet Symphony
1:44 Slim Thug - I Ain't Heard Of That
1:57 Oasis - Wonderwall
2:06 Arrested Development - Tennessee
2:08 Webbie - Give Me That
2:08 Young Jeezy ft. Mannie Fresh - And Then What
2:19 Genesis - Follow You Follow Me
2:19 Ratatat - Bustelo
2:19 Boredoms - Acid Police
2:30 The Five Stairsteps - O-o-h Child
2:38 Eminem - Ass Like That

Nokkuð dæmigert fyrir plötuna alla og takturinn þrælþéttur og drífandi. Partíplata frá helvíti og allt kolólöglegt miðað við dómaframkvæmd vestan hafs. Enginn eigandi höfundarréttar hefur þó enn gripið til varna og óvíst hvort nokkur geri slíkt, litlir peningar í spilinu og það hefur skaðað fyrirtæki þegar þau hafa gengið of hart fram í slíkum efnum. Girl Talk og útgefandi hans, Illegal Art, er þó á gráu svæði ef ekki svörtu í þessu máli og segir sitt að fyrirtækið lenti í erfiðleikum með framleiðslu á disknum vegna tregðu framleiðenda þó tekist hafi að komam plötunni út um síðir.

(Hluti af þessari færslu birtist í Morgunblaðinu 19. sept.)


Tónlist er ómeðvituð talning

Í bréfi sem Gottfried Leibniz skrifaði Christian Goldbach vini sínum 27. apríl 1712 varpaði hann fram þeirri tilgátu að sú sæla sem skapast af því að hlusta á tónlist sé í raun sælan af því að telja óafvitandi - tónlist sé ómeðvituð talning.

Þetta rímar við allar gerðir tónlistar þegar grannt er skoðað, enda felur hún í sér ýmist takt eða taktleysi og ótal tilbrigði við það. Gott dæmi er kajagum-tónlist frá Kóreu sem er með svo torræðum takti að spennan sem felst í að greina takt eða taktleysi gerir að verkum að maður hlustar dolfallinn.

Í nýrri bók, This Is Your Brain on Music, eftir Daniel J. Levitin er þessi tilgáta síðan sönnuð með því að fylgjast með heilastarfsemi fólks sem hlustaði á tónlist. Að sögn Levitins mátti sjá á starfsemi heilahnykils viðkomandi að hann var að fylgjast með taktinum hvort sem hann vissi af því eða ekki og síðan að þar spratt fram ánægjutilfinning við taktbreytingar.

Í ljósi þess að heilahnykillinn gegnir veigamiklu hlutverki í líkamshreyfingu, meðal annars í samhæfingu hreyfinga, kemur varla á óvart að flestir eiga erfitt með að hemja sig undir grípandi takti og standa sig jafnvel að því að slá taktinn sér þvert um geð.

 


Noruwei no mori

Fyrir stuttu kom út á íslensku skáldsagan Norwegian Wood eftir Haruki Murakami og kominn tími til finnst eflaust einhverjum, enda nauðsynleg bók að lesa til að fá sem besta mynd af þessum merkilega rithöfundi, en nítján ár eru síðan bókin kom út í Japan. Bjartur gefur út.

Aftan á íslenskri útgáfu bókarinnar stendur þessi setning: "Þessi áhrifamikla saga skaut Haruki Murakami upp á stjörnuhimin bókmenntanna (og metsölulista heimsins)."

Víst er það rétt að bókin varð metsölubók í Japan, en hitt er della að hún hafi skotið honum á metsölulista heimsins, enda kom hún ekki út utan Japans fyrr en mörgum árum eftir að Murakami sló í gegn sem rithöfundur utan heimalandsins.

Samkvæmt Wikipedia er útgáfuröðin þessi: 

Kaze no uta wo kike / Hear the Wind Sing 1979
1973-nen no pinboru / Pinball 1980
Hitsuji o meguru boken / A Wild Sheep Chase 1982
Sekai no owari to hadoboirudo wandarando / Hard-Boiled Wonderland and the End of the World 1985
Noruwei no mori / Norwegian Wood 1987
Dansu dansu dansu / Dance Dance Dance 1988
Kokkyo no minami, taiyo no nishi / South of the Border, West of the Sun 1992
Nejimaki-dori kuronikuru / The Wind-Up Bird Chronicle 1992-1995
Suputoniku no koibito / Sputnik Sweetheart 1999
Umibe no Kafuka / Kafka on the Shore 2002
Afutadaku / After Dark 2004

Noruwei no mori, sem heitir eftir Bítlalaginu Norwegian Wood (og þó ekki, betur útskýrt síðar í þessu bloggi), var semsé fimmta skáldsaga Murakamis og sú sem gerði hann að stjörnu í heimalandi sínu. Fram að því höfðu bækur hans selst þokkalega, í 50.000-100.000 eintökum hver. Murakami hefur lýst því að vinsældir Noruwei no mori / Norwegian Wood hafi komið sér óþægilega á óvart; hann hafi verið sáttur við að hafa í kringum 100.000 lesendur sem dáðu hann og elskuðu en þegar Norwegian Wood skreið yfir milljón eintaka múrinn hafi honum þótt sem allir hafi farið að hata hann. Í kjölfarið treysti hann sér ekki til að skrifa skáldsögu í nokkur ár, en hann lauk við Dance Dance Dance um það leyti sem Norwegian Wood æðið hófst.

Fyrir ókunnugan er erfitt að gera sér grein fyrir því hvers vegna Norwegian Wood sló svo rækilega í gegn í Japan, en í ljósi þess að það voru víst unglingsstúlkur sem féllu fyrst fyrir bókinni má gera því skóna að það sé hvaða tökum Murakami tekur ást og kynlíf í bókinni. Unglingsstúlkurnar hrifust af bókinni og síðan aðeins eldri stúlkur, svo ungar konur, þá konur á miðjum aldri og svo koll af kolli. Síðan bættust piltar við, þá ungir menn og svo má telja. Í lok árs 1988, ári eftir að bókin kom út, hafði hún selst í hálfri fjórðu milljón eintaka í Japan sem var og er fáheyrt.

Um gervallt Japan var Murakami æði, eða réttara sagt Norwegian Wood æði og ýmis annar varningur kom á markað til að nýta æðið - hægt var að kaupa gríðarstóra veggmyndir af norskum furuskógi, sælgæti sem hét eftir bókinni, geisladiskar og fleira, aukinheldur sem sala á Rubber Soul tók kipp.

Bein þýðing á japönsku heiti bókar Murakamis er skógur í Noregi eða norskur skógur, ekki Norwegian Wood, norskur viður, en alla jafna skildu japanskir Bítlaaðdáendur titil lagsins svo að verið væri að syngja um ástarfund í norskum skógi.

Réttur skilningur á titlinum er þó annar, því hann vísar til svefnherbergisinnréttingar úr furu. Lennon var að syngja um það er hann hélt framhjá Cynthiu Lennon, en vildi þó ekki segja það svo beint að hún myndi skilja það. Hann lýsti því eitt sinn að hann hafi viljað gera grín að stúlkum sem keyptu sér ódýrar furuinnréttingar og kölluðu norskan við, en benti þó á að titillinn Cheap Pine hefði vissulega ekki hljómað eins vel.

I once had a girl, or should I say, she once had me.
She showed me her room, isn't it good, Norwegian wood?
She asked me to stay and she told me to sit anywhere,
So I looked around and I noticed there wasn't a chair.

I sat on a rug, biding my time, drinking her wine.
We talked until two and then she said, "it's time for bed".
She told me she worked in the morning and started to laugh.
I told her I didn't and crawled off to sleep in the bath.

And when i awoke I was alone, this bird had flown.
So I lit a fire, isn't it good, Norwegian wood.

Eins og sjá má segir textinn frá því er sögumaður hittir stúlku og fer með henni heim. Hún sýnir honum þó ekki þá hlýju sem hann hefði helst óskað og á endanum neyðist hann til að sofa í baðkarinu. Hann kemur þó fram hefndum að lokum því hann hann kveikir í viðarinnréttingunni góðu.

Þegar Lennon samdi lagið haustið 1965 var hann undir sterkum áhrifum frá Bob Dylan, gekk með samskonar húfu og Dylan var með á umslagi fyrstu plötu sinnar, Bob Dylan, sem kom út 1962, og var nú farinn að semja lög eins og Dylan sem heyra má af Norwegian Wood. Lennon sagði frá því í viðtali löngu síðar að félagar hans hefðu strítt honum mikið á Dylan-áráttunni, en í Revolution in the Head, því lykilverki Bítlafræða, segir Ian MacDonald frá því að Norwegian Wood sé fyrsta Bítlalagið þar sem texinn er mikilvægari en lagið. Í þeirri bók kemur og fram að þeir félaga hafi baslað talsvert við lagið og tekið það upp í mjög ólíkum. Heyr til að mynda fjórðu tökuna.

Dylan tók víst stælingunni með jafnaðargeði og svaraði fyrir sig með góðlátlegri stælingu á Norwegian Wood, laginu 4th Time Around sem er á meistarastykki hans Blonde on Blonde (kom út 1966). Ekki er bara að hann er greinilega að snúa útúr textanum heldur snýr hann líka útúr laglínunni.

Eins og getið er fjallar texti Lennons um stúlku sem dregur sögumann með sér heim en sýnir honum síðan fálæti en í 4th Time Around segir frá manni sem á stormasöm samskipti við vændiskonu, ekki síst eftir að hann reyndir að borga henni fyrir greiðann með tyggjói:

I stood there and hummed,
I tapped on her drum and asked her how come.
And she buttoned her boot,
And straightened her suit,
Then she said, dont get cute.
So I forced my hands in my pockets
And felt with my thumbs,
And gallantly handed her
My very last piece of gum.

Þeim viðskiptum lýkur með því að hún fær flog og fellur að fótum honum:

She screamed till her face got so red
Then she fell on the floor,
And I covered her up and then
Thought Id go look through her drawer.

Dylan fór ekkert leynt með að hann hefði verið að stæla Norwegian Wood og staðfesti það í viðtölum. Hann kunni víst vel að meta Lennon, en fannst lítið til Pauls McCartneys koma og finnst víst enn.

Eins og fram kemur í upptalningunni sem ég fann á Wikipedia kom Norwegian Wood út í Japan 1987. Hún var síðan gefin út á ensku í Kodansha English Library 1989, en þá aðeins til sölu í Japan. Þar keypti íslenskur vinur minn hana fyrir mig um miðjan tíunda árautuginn og reyndar líka Hear the Wind Sing og Pinball, 1973, fyrstu og aðra bókina í Rottu þríleiknum (sú þriðja er Wild Sheep Chase), en þær bækur vill Murakami víst ekki gefa út á Vesturlöndum. Það er því ljóst að Murakami var orðinn stjarna áður en Norwegian Wood kom út.


Milljónir myndbanda

YouTube er vefsetur fyrir myndskeið þar sem notendur vefsetursins lesa sjálfir inn efnið. Ef marka má stofnendur YouTube var það ætlun þeirra að vefsetrið yrði vettvangur fyrir myndbönd almennings, myndbönd sem fólk gerði sjálft, hvort sem um væri að ræða listarænar stuttmyndir eða myndir af gæludýrum eða börnum. Það hefur og orðið raunin, á YouTube eru milljónir myndbanda eftir milljónir höfunda, en einnig er þar að finna tugþúsundur myndbanda sem sett eru inn án vitundar og vilja höfundarréttareigenda; myndskeið úr íþróttakappleikjum, tónlistarmyndbönd, brot úr sjónvarpsþáttum og bíómyndum og svo má telja. Samkvæmt nýlegum upplýsingum frá fyrirtækinu senda notendur YouTube inn um 70.000 myndskeið á sólarhring.

Mest ber þó enn á því efni sem almenningur hefur sjálfur sett saman og enda eiga milljónir manna myndbandstökuvélar, enn fleiri síma með myndbandmöguleika og grúi á líka vefmyndavélar sem tengdar eru beint við tölvur. Hægðarleikur er síðan að komast yfir hugbúnað til að vinna myndböndin og hann fylgir til dæmis með helsta stýrikerfi sem notað er í dag. Þetta notar fólk sér og sem dæmi má nefna mashup-myndbönd sem eru gríðarlega vinsæl á YouTube, en þá hafa menn blandað saman efni úr ólíkum áttum til að gera út eitt verk. Dæmi um það er til að mynda myndband þar sem setningar úr The Big Lebowski er blandað saman við myndbrot He-Man, en óteljandi slíkar kássur er hægt að finna á YouTube. Eins er nokkuð um það að tónlistarmenn noti YouTube til að kynna sig sig, til að mynda með því að sýna færni á hljóðfæri. Með vinsælustu myndböndum á YouTube er þannig heimagert myndband eftir tævanskan gítarleikara sem spilar útsetningu á verki eftir Pachebel, en í myndbandinu sýnir hann ævintýralega tækni á rafgítarinn og varð heimsþekktur fyrir vikið.

Upphaflegur tilgangur YouTube, að gera fólki auðveldara að tjá sig með myndböndum, hefur því gengið eftir en einna mestur vaxtarbroddur er þó í að setja inn forvitnileg myndskeið úr sjónvarpi. Þannig rata flest þau myndskeið sem vekja athygli vestan hafs beint á YouTube og oft nánast um leið. Dæmi um það er klúðrið hjá CNN um daginn þegar spjall vinkvenna var óvart sent yfir ræðu George Bush. Öll mismæli og klúður rata þannig beint inn, umdeildar yfirlýsingar, bilanir og  klaufagangur. Gera má ráð fyrir því að í kosningarbaráttunni sem framundan er vestan hafs muni YouTube skipta miklu máli, enda lifir á YouTube öll vitleysa sem frambjóðendur láta frá sér fara in hita leiksins. Sjá til að mynda hvernig fór fyrir frambjóðandanum George Allen sem gerði lítið úr bandarískum kvikmyndatökumanni af indverskum ættum á framboðsfundi - ummælí hans fóru beint inn á YouTube og þaðan í aðra fjölmiðla og í kjölfarið hvarf forskot hans, sem var á annan tug prósenta.

Samkvæmt vefmælingum er YouTube ein af vinsælustu vefsíðum heims, í þrettánda sæti og á uppleið. Gestir á mánuði eru í kringum tuttugu milljónir og alls er horft á um hundrað milljón myndbönd á dag hjá YouTube. Mismunurinn á fjölda gesta og myndbanda skýrist af því að auðvelt er fyrir notendur að vísa á myndbönd sem vistuð eru hjá YouTube og láta þau spilast á viðkomandi vefsíðu. Gríðarlega vinsælt er að birta YouTube myndbönd á bloggsíðum og einnig hafa sprottið upp vefsíður sem veita aðgang að ýmislegu efni sem er í raun vistað hjá YouTube. Gott dæmi um það eru vefsetur sem veita aðgang að anime, japönskum teiknimyndum, en þau haga mörg málum svo að þau halda utan um lýsingar á þáttum, yfirlit yfir þá og tilheyrandi, en þegar notandi vill síðan horfa er myndbandinu streymt frá YouTube. Þar sem ekki má setja lengri myndbönd en tíu mínútur inn á YouTube sjá þannig vefsetur um að þræða efnið saman svo hálftíma þáttur virðist vera heill en ekki í þrem hlutum. (Reyndar er hægt að setja lengri myndskeið inn á YouTube, en til þess þurfa menn að skrá sig sérstakri "leikstjóraskráningu".)

Það gefur augaleið að svo mikið magn af höfundarréttarvörðu efni vekur ýmsar spurningar og þá helst af hverju þeir sem eiga höfundar- og birtingarrétt á viðkomandi efni skuli ekki hafa látið í sér heyra. Nú er því svo háttað vestan hafs að netþjónustur bera almennt ekki ábyrgð á því efni sem viðskiptavinir þeirra dreifa nema þær heykist á því að fjarlægja efnið sé þeim bent á það. YouTue hefur einmitt haft fyrir sið að taka snarlega út efnið um leið og rétthafi þess lætur í sér heyra, en þegar um 70.000 myndskeið eru sett inn á hverjum sólarhring getur nærri að erfitt er við að eiga. Varla þarf að taka fram að ógerningur er fyrir rétthafa að stefna hverjum og einum notanda og heimskulegar aðgerðir sambands hljómplötuframeiðenda vestan hafs, RIAA, gegn nokkrum einstaklingum hafa engu skilað nema aukinni óvild í garð útgefenda.

Kvikmyndafyrirtæki hafa mörg áttað sig á að YouTube er fín leið til að kynna kvikmyndir og hafa því séð í gegnum fingur sér þó einstaklingar hafu verið að setja inn brot úr myndum eða kynningarmyndbönd nýrra mynda. Eins hafa mörg plötufyrirtæki látið afskiptalaust þó á YouTube sé að finna tónlistarmyndbönd, enda eru slík myndbönd alla jafna hreinræktaðar auglýsingar hvorteðer (og geta haft mikið heimildagildi, ef leitað er að sugarcubes birthday lee finnst  myndband sem byggir á tónleikaupptöku frá öðrum tónleikum Sykurmolanna í Lundúnum (1987)).

Aðstandendur YouTube lýst því yfir að fljótlega muni fyrirtækið vista öll tónlistarmyndbönd sem gerð hafi verið vestan hafs og hvað verður þá um MTV?

(Lengri gerð greinar sem birtist í Morgunblaðinu 2. september.)


Fram og aftur tónlistargötuna

Bob Dylan varð snemma frægur fyrir það hve fljótur hann var að læra lög og sagði sjálfur að hann þyrfti ekki að heyra lag nema tvisvar til að geta spilað það sjálfur. Þessi hæfileiki kom í góðar þarfur þegar hann var að þroskast sem tónlistarmaður í lok sjötta áratugarins og upphafi þess sjöunda. Þannig lá hann yfir plötum og sótti tónleika sem mest hann mátti þegar hann var að undirbúa fyrstu plötu sína sem hann tók upp í lok nóvember 1961, en platan kom út í byrjun árs 1962.

Á fimmta og sjötta áratugnum varð mikil vakning í þjóðlagatónlist vestan hafs, meðal annars fyrir tilstilli manna eins og Pete Seeger og Woody Guthrie, en sá síðarnefndi varð ein helsta fyrirmynd hins unga Dylans. Þeir Seeger og Guthrie voru gangandi alfræðibækur af þjóðlegri tónlist og Guthrie að auki einn helsti þjóðlagasmiður Bandaríkjanna, ef við skilgreinum þjóðlög svo að þar sé komið lag sem þjóðin lærir og syngur. Seeger, sem er enn á lífi, var bjartsýnn sósíalisti, jákvæður baráttumaður fyrir jöfnuði og réttlæti. Guthrie, sem lést 1967, var öllu forvitnilegri, beittari í skoðunum og harðskeyttari, enda hafði hann kynnst skuggahliðum lífsins, fátækt og vonbrigðum í skugga ameríska draumsins eins og heyra má í laginu fræga This Land is Your Land. Guthrie var sósíalisti á ameríska vísu, sem við myndum kannski skilgreina frekar sem sósíaldemókratisma, en í lögum hans er ekki að finna sömu barnalegu bjartsýnina sem einkenndi Seeger og tónlistarfélaga hans. 

Síðasta mánuðinn áður en Dylan hélt í hljóðver lá hann yfir Anthology of American Folk Music, sex plötu safni sem Harry Smith tók saman fyrir Folkways-útgáfu Moses Asch og kom út 1952. Á því safni, sem var endurútgefið 1997, er að finna gríðarleg magn af þjóðagatónlist sem spannar flest afbrigði af  bandarískri tónlist, cajun, blús, vísnasöngur, sjómannalög og svo má telja. Í þennan sjóð sótti Dylan lög sem hann flutti á tónleikum og átti síðar eftir að taka upp, en hann nýtti þau líka sem hugmyndasjóð fyrir eigin lagasmíðar, sótti þangað textabrot, laglínur og hugmyndir ein og heyra hefur mátt í tónlist hans meira og minna upp frá því.

Á fyrstu plötu Dylans eru ekki nema tvö frumsamin lög, Talkin' New Yorkog Song to Woody (og eitt lag af Folkways safninu mikla, See That My Grave Is Kept Clean eftir Blind Lemon Jefferson). Síðarnefnda lagið er gott dæmi um hvernig Dylan nýtir sé hugmyndir frá öðrum, enda er að að miklu leyti byggt á Guthrie-laginu 1913 Massacre, sem segir frá umdeildum harmleik í Michigan. Ágæt samantekt um Guthrie-lagið hér og hægt að hlusta á það.

Því er títt haldið fram að á níunda áratugnum hafi Bob Dylan hafi ekki gefið út sín bestu verk og ágætt dæmi um það má reyndar heyra á The Bootleg Series Volumes 1-3 sem kom út 1991, en þar er meðal annars lagið frábæra Blind Willie McTell sem Dylan tók upp fyrir Infidels (og eins Foot Of Pride sem einnig var tekið upp fyrir Infidels en rataði ekki á þá plötu). Blind Willie McTell er afbragðs lag og góð vísbending um hvað væri framundan því lagið er einskonar uppgjör við nútímann - Dylan sækir sér sniðmát aftur til fimmta áratugarins, þegar hann sökkti sér niður í þjóðlagasöng og blús, og ber það við nútímann:

Seen the arrow on the doorpost
Saying, "This land is condemned
All the way from New Orleans
To Jerusalem."
I traveled through East Texas
Where many martyrs fell
And I know no one can sing the blues
Like Blind Willie McTell

[...]

Well, God is in heaven
And we all want what's his
But power and greed and corruptible seed
Seem to be all that there is
I'm gazing out the window
Of the St. James Hotel
And I know no one can sing the blues
Like Blind Willie McTell

Annað sem Dylan tók upp á þessum tíma var að miklu leyti trúarlegt, margt framúrskarandi en ekki nema ein plata sem hægt er að kalla framúrskarandi, Empire Burlesque, sem kom út 1985. Næst síðasta Dylan-plata níunda áratugarins, Oh Mercy, var þó ágæt og fékk fína dóma, en upptökustjórnin á henni (Daniel Lanois) var full tilgerðarleg fyrir minn smekk og ég kann því síður að meta hana sem ég heyri hana oftar. Síðasta platan, Under the Red Sky, sem kom út 1990, var aftur á móti mikið léttmeti með hreinum barnalögum inn á milli. Hún var tileinkuð dóttur Dylans sem þá var fimm ára, Desiree Gabrielle Dennis-Dylan, sem bar gælunafnið  Gabby Goo Goo.

Eins og Blind Willie McTell benti til var Dylan mjög farinn að velta fyrir séu tónlistarlegum uppruna sínum og á næstu plötum tók hann fyrir þjóðlagaarfinn en hann fór lengra og leitaði aftur í blúsinn. Þannig eru á plötunum Good as I Been to You (1992) og World Gone Wrong (1993) fjölmargir blúsar, þar á meðal eftir þann mæta söngvara Blind Willie McTell, en einnig lög sem Dylan hefur væntanlega heyrt fyrst í flutningi Mississippi John Hurt og fleiri Piedmont-blúsara.

Það liðu sjö ár frá því Dylan sendi frá sér Under the Red Sky að næsta plata hans með frumsömdu efni kom út, Time Out of Mind, sem gefin var út 1997. Platan var tekin upp í janúar það ár og aftur var Lanois við stjórnvölinn. Andinn á plötunni er fremur myrkur, sem skýrist kannski að einhverju leyti af því að lögin eru samin í snjóþyngslum og myrkri á búgarði Dylans í Minnesota. Plötunni var óvenju vel tekið af Dylan plötu, og rokkunnendur kunnu vel að meta hljóm á henni og stemmninguna sem skrifast á Lanois.

Eins og getið er var platan tekin upp í janúar og fyrirhugað að gefa hana út um haustið. Um vorið fékk Dylan hættulega sýkingu í hjarta og var vart hugað líf um tíma. Hann var þó fljótur að ná sér og byrjaður á tónleikahaldi að nýju um mitt sumar. Af þeim plötum sem fylgdu í kjölfarið finnst manni þó líklegt að þessi uppákoma hafi orðið til þess að hann tók að velta fyrir sér dauðanum sem síðan fléttaðist saman við títtnefndar vangaveltur um söngvasjóðinn sem kom honum af stað.

Á Love and Theft, sem kom út í september 2001, má vel heyra, að mínu mati, að Dylan var að vinna úr fortíðinni. Lögin á plötunni eru öll ný, en í þeim fléttar hann saman þræði úr fortíðinni. Hann stýrir upptökum sjálfur á plötunni undir dulnefninu  og fyrir vikið er hljómur á henni allur skemmtilegri og líflegri en þegar Lanois sat við takkana. Reyndar heyrist manni að Dylan hafi gefið mönnum lausan tauminn að mestu, en í hljóðverinu var með honum lunginn úr tónleikasveit hans til margra ára.

Bob Dylan hefur verið venju fremur duglegur undanfarin ár og eins hefur verkefnavalið verið óvenju fjölbreytt (minni á Victoria's Secret auglýsinguna alræmdu).

Hann fékkst við fleira, lék í kvikmynd, gaf út fyrsta bindi ævisögu sinnar, Chronicles Vol. 1, og svo má telja. Í febrúar sl. fór hann svo í hljóðver að taka upp nýja plötu sem nú hefur litið dagsins ljós: Modern Times. Enn stýrir Dylan upptökunum sjálfur sem Jack Frost og stemmningin á henni er ekki síður lífleg og skemmtileg en á Love and Theft.

Segja má að Modern Times sé þriðju hluti þríleiksins sem hófst með Time Out of Mind, því enn er Dylan að velta fyrir sér fortíðinni, sækir þangað yrkisefni, laglínur og textahendingar. Heiti margra laganna gæti til að mynda eins verið heiti laga í lagasafni frá því í fyrndinni og sum eru meira að segja þekkt á öðrum lögum; Thunder on the Mountain, Spirit on the Water, Rollin' and Tumblin', When the Deal Goes Down, Workingman's Blues #2 og The Levee's Gonna Break. Hann vitnar síðan beint í Muddy Waters í Rollin' and Tumblin, notar laglínu og brot úr textanum.

Well, I rolled and I tumbled,
Cried the whole night long.
Well, I rolled and I tumbled,
Cried the whole night long.
Well, I woke up this mornin,
Didn't know right from wrong

syngur Waters en Dylan bregður snemma útaf:

I rolled and I tumbled,
I cried the whole night long
I rolled and I tumbled,
I cried the whole night long
Woke up this mornin',
I must have bet my money wrong.

Sjálfur sótti Muddy grunninn að lagi og texta til Hambone Willie Newbern, sem tók upp Roll and Tumble Blues 1929. Robert Johnson notaði líka brot úr lagi Hambone Willie eins og heyra má í If I Had Possession Over Judgment Day:

And I rolled and I tumbled and I
cried the whole night long
And I rolled and I tumbled and I
cried the whole night long
Boy, I woke up this mornin'
my biscuit roller gone

(Johnson var áíka og Dylan, drakk í sig áhrif víða að og skilaði í frábærum lögum og textum. Í If I Had Possession Over Judgment Day vitnar hann til að mynda í Hambone Willie Newbern og einnig í Son House læriföður sinn. Þeir Johnson og Dylan eru svo báðir undr sterkum áhrifum frá Lonnie Johnson, en það er önnur saga.)

Annað dæmi af Modern Times: Í Nettie Moore vitnar Dylan í vinsælt lag frá átjándu öld í nafninu og viðlagi:

Oh, I miss you, Nettie Moore
And my happiness is o'r
Winter's gone, the river's on the rise
I loved you then, and ever shall
But there's no one left here to tell
The world has gone black before my eyes

syngur Dylan en upprunalegur texti er:

Oh, I miss you, Nettie Moore, and my happiness is o'er
While a spirit sad around my heart has come,
And the busy days are long, and the nights are lonely now,
For you're gone from our little cottage home.

Í textanum vitnar hann einnig í The Yellow Dog Rag eftir þann gamla þrjót William Christopher Handy sem skráði sig höfund að lögum sem hann heyrði fátæka blökkumenn syngja í Mississippi undir lok nítjándu aldar. Handy skráði textann svo:

Dear Sue, your Easy Rider struck this burg today
On a southboun' railer side-door Pullman car.
Seen him here an' he was on the hog.
  (The smoke was broke, no joke,
  not a [fifty?] on him.)
Easy Riders got a stay away,
So he had to vamp it--but the hike aint far,
He's gone where the Southern cross' the Yellow Dog.

og Dylan bregður sér í hlutverk Lee sem Sue leitar að:

I've gone where the Southern crosses The Yellow Dog
Get away from all these demagogues
And these bad luck women stick like glue
It's either one or the other or neither of the two

(Til skýringar má nefna að The Southern var járbrautalína og Yellow Dog var önnur slík lína sem hét Yazoo Delta. Þær skerast í Moorhead í Mississippi.)

Fleiri dæmi má nefna:  The Levee's Gonna Break byggir á When the Levee Breaks eftir Memphis Minnie sem Led Zeppelin tók sér til handargagns á Led Zeppelin IV. Memphis Minnie söng:

If it keeps on rainin', levee's goin' to break,
If it keeps on rainin', levee's goin' to break,
When The Levee Breaks I'll have no place to stay. 

en Dylan syngur:

If it keep on rainin', the levee gonna break
If it keep on rainin', the levee gonna break
Everybody saying this is a day only the Lord could make

og breytir laginu í persónulegt uppgjör, færir það innávið og lýsir tilfinningalegu flóði ekki síður en raunverulegu. Á sínum tíma söng Memphis Minnie um flóðin miklu í Mississippi-fljóti 1927 og ýmsir hafa viljað tengja þetta lag Dylans við flóðin miklu í kjölfar Katrinu fyrir ári, en að mínu viti er það ekki svo einfalt:

If it keep on rainin', the levee gonna break
If it keep on rainin', the levee gonna break
I tried to get you to love me, but I won't repeat that mistake

(Alla texta plötunnar má finna hér.)


Við Mórberjastræti

Booker verðlaunin bresku eru ein helstu bókaverðlaun hins enskumælandi heims, en þau verðlauna helstu bók hvers árs. verðlaunin hafa verið umdeild alla tíð eða allt frá því þau voru fyrst tilkynnt fyrir tæpum fjórum áratugum. Ýmist hamast menn að verðlaunanefndinni fyrir að bækurnar séu eiginlega allar eins eða þá að hún sé að velja of óvenjulegar bækur. Fyrir stuttu var birtur svonefndur longlist Booker verðlaunanna 2006, sem var víst óvenju lengi í smíðum, en úr þeim nítján bókum sem er að finna á þeim lista er síðan valdar sex bækur á styttri lista sem kynntur verður síðar á árinu, en þær bækur eru líka verðlaunaðar, og svo loks verða verðlaunin sjálf kynnt 10. október næstkomandi.

Þegar nítján bóka listinn var kynntur fyrir skemmstu fannst mörgum sem hann væri full venjulegur á honum væru nánast allir góðkunningjar bókmenntafræðanna undanfarin ár en fátt um nýja og spennandi höfunda. Innan um þekkta höfunda eins og Sarah Waters, Peter Carey, David Mitchell, Nadine Gordimer og Barry Unsworth er einn sem komst á listann með sína fyrstu bók, Hisham Matar, en bók hans, In the Country of Men, kom út fyrir tæpum mánuði.

In the Country of Men segir frá Suleiman, níu ára dreng, sem býr í Lýbíu undir lok áttunda áratugarins, um það leyti er Muammar al-Gaddafi, "hinn bróðurlegi leiðtogi byltingarinnar" hafði verið við völd í um áratug. Gaddafi stjórnaði landinu af mikilli hörku, allt andóf var harðlega bannað og þeir sem létu á sér kræla voru handteknir, pyntaðir og síðan myrtir.

Suleiman og leikfélagar hans þekkja til svartklæddra útsendara byltingarráðsins sem allir óttast án þess þó að gera sér grein fyrir því hvers vegna þeir eru svo óttalegir - vita þó að menn eiga það til að hverfa fyrir litar sem engar sakir og sjást aldrei meir. Smám saman rennur þó upp fyrir Suleiman að faðir hans er einn af þeim mönnum sem byltingarráðið hefur illan bifur á, faðir hans er sem sé andófsmaður, dreymir um að koma á lýðræði í Lýbíu og því í mikilli hættu.

Smám saman vex spennan í bókinni og óhugnaðurinn eykst og ekki er annað að sjá en að Sumleiman eigi eftir að steypa fjölskyldu sinni í glötun í viðleitni sinni til að bjarga henni, en móðir, sem gift var sér tvöfalt eldri manni aðeins fjórtán ára gömul, er ráðvillt, drykkfelld og bitur. Hún var nefnilega gift með hraði til að forða mannorði fjölskyldunnar enda hafði sést til hennar þar sem hún leiddi jafnaldra pilt. Biturleiki hennar snýr þó ekki beinlínis að eiginmanninum heldur frekar að því sem hann að hefst þegar hann fer í "viðskiptaferðir" sínar, en oftar en ekki eru þær ferðir farnar til að blása í glæður frelsis og lýðræðis.

Suleiman býr við Mórberjastræti í Trípólí og mórber koma við sögu sem einskonar leiðistef, enda eru þau í huga Suleimans gjöf ungra engla til mannkyns eftir að þau Adam og Eva hafa verið gerð útlæg úr paradís - englarnir vilja gera þeim útlegðina bærilegri og gróðursetja því mórber, besta ávöxt sem guð hafi skapað og guð, sem vitanlega er alvitur, sér í gegnum fingur sér við englana. Vandamálið er bara það að sá sem er alvitur í Lýbíu þessa tíma, og allt fram á okkar daga, er harðstjórinn grimmi Muammar al-Gaddafi og þeir sem ætla að sá lýðræði uppskera þjáningar og dauða. Gaddafi er reyndar aldrei nefndur á nafn, en iðulega er getið um "Leiðsögumanninn" og byltingarráð hans.


Hisham Matar er að nokkru leyti að skrifa eftir eigin reynslu, enda rændu flugumenn Gaddafis föður hans, sem þá bjó í Kaíró, og fluttu til Lýbíu. Ekkert hefur til hans spurst síðan. Ekki er bara að faðir Matars hafi horfið þannig, og hafi líklega verið myrtur, heldur segir Matar gjarnan frá því að frændur hans, föðurbróðir og vinir hafi verið hengdir fyrir að gera eitthvað á hlut hins "bróðurlega" leiðtoga, aukinheldur sem hann eigi ættingja og vini í fangelsum í Lýbíu.

Faðir Matars var sendifulltrúi Lýbíu hjá Sameinuðu þjóðunum í New York og þar fæddist Matar og ólst upp í New York og síðar í Trípolí þar sem faðir hans rak fyrirtæki. Þegar hans síðan rakst á nafn sitt á lista yfir menn sem stóð til að kalla til yfirheyrslu fyrir byltingarráðinu fluttist fjölskyldan til Kaíró 1979, líkt og fer fyrir Suleiman í lokin, þó hann sé þá einn á ferð. Í framhaldinu snerist faðir Matars gegn Gaddafi og lá ekki á skoðunum sínum. Það átti eftir að verða hans bani, eins og getið er í upphafi. Matar var þá níu ára gamall, líkt og Suleiman, og eftir að hafa alist upp í Kaíró hélt hann til Bretlands í skóla og var einmitt við nám í Lundúnum þegar föður hans var rænt.

Matar lýsti því í viðtali við Guardian fyrir stuttu að hann hafi í raun ekki átt margt sameiginlegt með Suleiman þó lífshlaupi þeirra svipi saman um margt. Eitt nefnir hann þó sem gefur góða mynd af andrúmsloftinu í landi þar sem íbúarnir búa við stöðuga skoðanakúgun: "Ég fann að það var sitthvað sem ekki mátti segja. Maður sat kannski við matarborðið og einhver frændanna sagði eitthvað og allir þögnuðu vegna þess að þeir áttuðu sig á því að það var barn við borðið sem myndi kannski endurtaka það sem sagt var utan hússins og þá yrði einhver handtekinn."

Matar lærði arkitektúr og starfaði um hríð við fagið, rak eigin teiknistofu. Löngunin til að skrifa var þó sterk og fékk útrás í ljóðagerð. Eitt ljóðanna varð síðar að bókarkafla sem varð kveikjan að In the Country of Men. Í kaflanum segir frá því er Suleiman er að tína mórber í eina mórberjatrénu sem eftir er við Mórberjastræti - kemur væntanlega ekki á óvart að það er í garði andófsmanns sem tekinn er höndum rétt áður en frásögn bókarinnar hefst. Í kaflanum, sem er býsna ljóðrænn þó Matar hafi skrifað hann út úr ljóðinu vegna takmarkana ljóðaformsins að því hann segir sjálfur, klifrar Suleiman upp í tréð og les mórber sem mest hann má, finnst hann vera nánast kominn í himnaríki en fær svo sólsting, eða kannski of mikið af mórberjum, of mikið frelsi.

Smám saman tók bókin á sig mynd og Matar varð haldinn þráhyggju, eins og hann lýsir því, og fljótlega fór það ekki saman að teikna hún og smíða skáldsögu, arkitektúrinn varð að víkja og í hans stað kom íhlaupavinna sem veitti Matar meira frelsi til að skrifa, en þýddi líka stopulli og minni tekjur. Svo aðþrengdur var hann orðinn, þó kona hans hafi unnið úti, að hann var að semja við leigusala sinn um loka, loka lokafrest á greiðslu leiguskuldar þegar hann fékk fréttir af því að útgefandi hefði keypt útgáfuréttinn. Segir sitt að hann þurfti að fá að hringja hjá leigusalanum til að segja konu sinni góðu fréttirnar - hann átti ekki inneign á farsímanum.

Í viðtali á BBC fyrir stuttu lagði Matar þannig áherslu á að bókin sé ekki sannsöguleg þó víst sé margt í henni byggt á raunverulegum atburðum og raunverulegri upplifun Matars frá því hann var níu ára gamall. Hann lýsir til að mynda yfirheyrslu sem Suleiman sér í sjónvarpinu þar sem verið er að yfirheyra verksmiðjueiganda sem sakaður er um að vera kapítalisti, mann sem greinilega er búið að berja rækilega og sem mígur á sig í miðri yfirheyrslu. Í þeim kafla er Matar að lýsa eigin upplifun, því slíkar útsendingarnar voru algengar og ætlaðar til að halda fólki í greipum óttans. "Ég sá fjölmargar slíkar yfirheyrslur í sjónvarpinu," segir Matar, "og margar verri en sú sem ég lýsi."

 


Vandamál með handfarangur

Fyrir nokkrum áratugum vann faðir minn starf sem kallaði á tíðar ferðir til útlanda. Á þeim tíma voru flugsamgöngur ekki eins almennar og vel skipulagðar og nú er og því kom oft fyrir að heimsferðinni seinkaði fyrir ýmsar sakir. Ein slík seinkun er mér ofarlega í huga en þá tafðist flug frá Lundúnum vegna verkfalls hlaðmanna. Málið var að nokkrir hlaðmenn staðnir að því að stela úr farangri á Heathrow-flugvelli og voru reknir fyrir. Þetta sættu starfsfélagar þeirra sig ekki við og fóru í verkfall til að þrýsta á að mennirnir yrðu ráðnir aftur. Fyrir vikið tafðist flug frá og til Lundúna þar tilbúið var að ráða mennina aftur.

Þessi saga rifjaðist upp fyrir mér er öryggisreglur voru svo hertar eftir meint fyrirhugað sprengjutilræði fyrir stuttu að fólki var bannað að hafa handfarangur með sér í flugi. Ég geri ráð fyrir að flestir hafi það í handfarangri sem verðmætast og viðkvæmast því þó aðstæður séu gerbreyttar hvað varðar meðferð á farangri í flugi, mun sjaldséðara að töskur séu skemmdar eða að þær hafi verið opnaðar, þá er það svo að verðmætin vill maður helst hafa í augsýn á heimleiðinni, ekki síst ef skipta þarf oft um flugvél.

Ég verð því að segja að ég skil áhyggjur breskra tónlistarmanna mjög vel (og ekki bara breskra, sjá þessa frétt) en það hljóta fleiri að hafa áhyggjur af því hvert stefni, til að mynda atvinnuljósmyndarar og fleiri þeir sem bera þurfa með sér dýran og viðkvæman búnað milli landa og eins hlýtur tryggingamönnum að renna kalt vatn milli skinns og hörund


mbl.is Öryggisreglur á breskum flugvöllum reiðarslag fyrir tónlistarmenn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Uppskrúfaður ritstjóri

Naumast hann er uppskrúfaður ritstjóri væntanlegs (hugsanlegs?) blaðs Dagsbrúnar í Danmörku, Nyhedavisen. Á meðan þarlendir bíða þess að útgáfa hefst bloggar ritstjórinn, David Trads, á léni blaðsins, avisen.dk og er svo hástemmdur að manni þykir nóg um:

"Hvordan sikrer jeg, at avisen.dk (og dermed Nyhedsavisen) blir selve det danske medie, hvor elitens barrierer blir trukket væk – og hvor alles holdning er lige meget værd?"

Einfalt svar við þessu er að þetta er ekki hægt þar sem eigendur hvers blaðs hljóti alltaf að fá aðra meðferð en utanaðkomandi, eins og dæmin sanna (og ekkert að því, þ.e. að eigendur fjölmiðils beiti honum eins og þeim þykir henta). Rómantíkin sem felst í þessum orðum ritstjórans nýja er því í besta falli hjákátleg.

Það er svo annað mál hvernig Nyhedsavisen mun takast að gera avisen.dk að einu vinsælasta vefsetri Danmerkur sem er markmið þeirra ("Avisen.dk vil være blandt landets fem mest læste websites").  Það eru örugglega sóknarfæri á vefnum í Danmörku svo framarlega sem menn fara aðrar leiðir en Dagsbrún hefur fetað hér á landi.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband