Færsluflokkur: Bloggar
Þriðjudagur, 22. ágúst 2006
Spilastokkur fyrir frelsisunnendur
Eitt af því besta við MP3-væðinguna eru spilastokkar, mikil þarfaþing og talsvert hagnýtari og þægilegri í notkun en fyrri ferðaspilarar, allt frá Walkman snældutækinu í ferðageislaspilara. Ég hef átt nokkra MP33-pilara frá því ég keypti 64 MB RCA Lyra spilastokk vorið 1999. Það var afleit græja og lítið notuð, en ágætis kynning á fyrirbærinu. Eitt af því sem mér fannst verst við Lyruna, að því frátöldu hvað lítið pláss var fyrir músík, var að tónlistin var vistuð á öðru sniði en Mp3 (MPX). Fyrir vikið tók lengri tíma að lesa tónlist inn á tækið og þurfti sérstak forrit til þess.
Frá því Lyran fór niður í skúffu hef ég keypt nokkra spilastokka til að fylgjast með tækninni, en hef ekki notað þá nema þann tíma sem þurfti til að kynnast þeim rækilega - eftir það fóru þeir niðrí skúffu eða krakkarnir tóku þá sér til handagagns. Fæstir stóðust þeir einföldustu kröfur:
Almennilegu hljómur (svo langt sem það nær - MP3 er lossy þjöppun)
Mikið rými (ekki minna en ca 50-100 plötur)
Þokkalegur skjár
Góð rafhlöðuending
Lítill um sig
Stöðluð tengi (USB eða Mini-USB tengi)
Frelsi (hægt að afrita tónlist beint á spilarann - MSC)
Þetta eru ósköp einfaldar kröfur en getur þó verið snúið að fá þær uppfylltar. iPodinn uppfyllir til að mynda ekki síðustu kröfuna, sem er þó ein sú mikilvægasta að mínu mati ef ekki sú mikilvægasta. Fyrir vikið hef ég ekki fengið af mér að nota iPod þó ég hafi átt slíkt apparat og reyndar keypt nokkra slíka til gjafa. Málið er nefnilega að mér finnst iTunes afskaplega leiðinlegur hugbúnaður og einkar gott dæmi um þráláta löngun Apple til að skerða frelsi viðskiptavina sinna. (Annað gott dæmi heitir Macintosh.)
Fyrir nokkrum árum fékk ég mér Rio spilara sem var með 4 GB hörðum disk og reyndist prýðilega. Hann uppfyllti öll ofangreind skilyrði nema eitt, skjárinn var lélegur. Þegar hann bilaði (hljóðstyrkshnappurinn) og ljóst að ekki væri hægt að gera við hann (Rio hætti að selja spilastokka), fékk ég mér 6 GB Creative Zen Micro Photo. Hann uppfyllir öll skilyrðin, nema mér finnst rafrhlöðuending ekki alveg nógu góð.
Í síðustu viku komst ég svo yfir nýjan spilara frá SanDisk, Sansa e270. Hann uppfyllir öll skilyrðin nema það með tengin, því á spilaranum er sérstakt tengi fyrir USB snúruna og því þarf maður að passa upp á snúruna. Rafhlöðuending sýnist mér mjög góð. Þeir SanDisk menn segja hana u.þ.b. 20 tíma, sem getur vel staðist.
Sansa línan frá SanDisk notar Flash-minni sem gerir þá traustari og sparneytnari en ella álíka og Nano spilastokkurinn frá Apple. Sansa e270 er álíka stór og Nano, jafn langur og breiður, en heldur þykkari. Skjárinn er talsvert stærri. Hann er með innbygt útvarp (hægt að taka upp beint úr útvarpinu) og hljóðnema fyrir upptöku. Á honum er rauf fyrir minniskort. Innra minni í spilaranum er 6 GB, en í gær kynnti SanDisk nýtt módel sem er 8 GB.
Hægt er að sýna ljósmyndir og myndbönd á spilaranum en til þess að það sé unnt verður að breyta viðkomandi skrám með hugbúnaði sem fylgir (Sansa Media Converter). Það gengur alla jafna vel og tekur skamman tíma. Ég prófaði til að mynda með teiknimynd (Wallace & Gromit: Curse of the Were-Rabbit) og leikna mynd (Life Aquatic) og þær skiluðu sér merkilega vel miðað við skjástærð. Ég rippaði Walace & Gromit myndina með DVD Decrypter og vann rippið síðan með AutoGK (Auto Gordian Knot), hvort tveggja afbragðsforrit. Það fyrrnefnda er víst ekki lengur ókeypis en hitt er opinn hugbúnaður sem finna má hér. Life Aquatic fann ég á Netinu sem 2x700 MB skrár. Það er vo skemmtilegt útaf fyrir sig að Sansa Media Converter varpar kvikmyndum yfir í QuickTime.
SanDisk hefir kynnt spilastokka sína með umdeildum auglýsingum þar sem mikið grín er gert að iPod-hjörðinni. Sjá: idont.com
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 14. júlí 2006
Leyfi til að drepa
Merkilegur andskoti.
Sprengingar í Mumbai, á annað hundrað óbreyttra borgara ferst, mikil rannsókn, 300 handteknir.
Sprengingar í Beirút, hátt í hundrað óbeyttra borgara ferst. Enginn handtekinn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Miðvikudagur, 12. júlí 2006
Rottur!
Skemmtilegur pistill eftir Þormóð Dagsson í Morgunblaðinu í dag um þá merku menningarstarfsemi sem stunduð var í Siglufjarðarprentsmiðju á níunda áratugnum (Hasarblöðin frá Siglufirði). Þar var gefin út íslensk útgáfa hasarblaða, aðallega frá Marvel og DC Comics, meðal annars blöð um Tarsan og Korak son hans, Gög & Gokke, Superman, Hulk, Batman, Kóngulóarmanninn og Tomma & Jenna.
Eitt það skemmtilegasta við blöðin voru þýðingarnar sem voru oft frábærlega klaufalegar. Segir sitt að Superman var íslenskaður með því að skeyta n-i við titil blaðsins sem hét eftir það Supermann - merkilegur andskoti að láta hasarblað heita eftir heiti söguhetjunnar í þolfalli!
Eins var gaman að lesa (og nota upp frá því) upphrópanir eins og "úh-oh", "rottur!" og "ó, bróðir", sem Þormóður nefnir í grein sinni, og svo voru það setningar sem voru svo klunnalega þýddar að maður gleymir þeim ekki. Gott dæmi er eftirfarandi setning sem hraut af vörum Koraks í einu blaðinu: "Tennur mínar hlaupa í vatni."
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 10. júlí 2006
Kurt Wagner = Lambchop
Lambchop er býsna skemmtileg sveit ættuð frá Nashville. Sveitin hefur verið að í fimmtán ár undir styrkri stjórn Kurts Wagners og sent frá sér átta plötur - sú níunda, Damaged, kemur út í lok ágúst.
Þó Lambchop hafi haldið sig að mestu við einskonar nýkántrí eða nútímalegt þjóðlagarokk hefur sveitin daðrað við flestar gerðir tónlistar í gegnum árin og stækkað og minnkað eftir þörfum - um tíma voru sautján manns í sveitinni en alla jafna eru þeir fimm. Undanfarin ár hefur Wagner verið venju fremur duglegur; til að mynda gaf Lambchop út tvær breiðskífur sama daginn í hitteðfyrra og plöturnar á þessu ári verða líka tvær - um daginn kom út b-hliðaplatan The Decline of Country and Western Civilization og eins og getið er kemur Damaged út eftir mánuð. Sú plata hljómar einkar vel, heyr til að mynda lagið Crackers.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 7. júlí 2006
Ensemble: taka tvö
Ensemble er listamannsnafn franska tónlistarmannsins Olivier Alary sem tók sér það fyrir átta árum um líkt leyti og hann fluttist til Lundúna. Til að byrja með notaði hann reyndar nafnið Hearing Is Our Concern og sendi til að mynda fyrstu prufu sína út undir því nafni til Fat Cat úgtáfunnar sem er Íslendingum að góðu kunn. Fyrsta platan, Sketch Proposals, kom þó út á vegum Rephlex Records árið 2000.
Sagan hermir að Björk Guðmundsdóttir hafi mikið hlustað á Sketch Proposals þegar hún vann að Vespertine og kemur ekki á óvart að hún fékk Ensemble til að véla um tvö lög af plötunni, Sun In My Mouth og Cocoon, sem voru síðan notuð sem b-hliðar. Ensemble samdi síðan með henni lag á Medulla, Desired Constellation, og gerði sérútgáfu af Triumph of a Heart.
Eins og getið er kom Sketch Proposals út fyrir sex árum en síðan ekki söguna meir - Olivier "Ensemble" Alary tók sér góðan tíma í að gera næstu skífu og það var ekki fyrr en í vor að hann lauk loks við hana eftrir þriggja ára upptökur víða um heim. Gestir á plötunni eru ýmsir, til að mynda Chan Marshall, sem flestir þekkja sem Cat Power, Lou Barlow Dinosaur Jr. bóndi og Adam Pierce úr Mice Parade sem hefur einnig spilað með múm.
Lagið sem Cat Power syngur á plötunni heitir Disown, Delete og er öldungis frábært. Rakst á tengil á það á netinu en sá er týndur. Þessi virkar aftur á móti.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 4. júlí 2006
Natchez brennur
Hinn 23. apríl 1940 var haldin skemmtun í Natchez, smábæ í Mississippi, um 200 kílómetra norðvestur af New Orleans. Skemmtunin var í gamalli bárujárnsskemmu og neglt fyrir gluggana til að koma í veg fyrir að menn svindluðu sér inn. Skemman var um 70 metrar að lengd og á henni einar dyr, fyrir endanum, og eina loftræsingin var vifta sem blés lofti í átt að þeim dyrum. Í nokkur ár hafði verið rekin í henni hrynklúbburinn, The Rhythm Club, vinsæll staður til að skvetta úr klaufunum, en hann var ætlaður svertingjum.
Skemmst er frá því að segja að það kviknaði í mosaskreytingu sem var um allan skálann að innan. Mosinn sem notaður var, spánarmosi, sem er reyndar ekki mosi, er mjög eldfimur og klúbburinn, sem var troðfullur af fólki, varð alelda á svipstundu. Erfitt var fyrir fólk að komast út vegna troðnings og æsings og ekki bætti úr skák að dyrnar einu opnuðust inn og fyrir vikið komust fáir út. Alls létust 212 í brunanum, 212 negrar, eins og tekið var fram í dagblaðinu Nashville Banner daginn eftir.
Hljómsveitin sem spilaði þetta kvöld hét Walter Barnes and his Royal Creolians Orchestra, en Barnes var vinsæll hljómsveitastjóri á sinni tíð og virtur. Sagan segir að Barnes hafi verið eini rólegi maðurinn í eldhafinu, hann hafi reynt að róa fólk niður, en allt kom fyrir ekki. Hljómsveitin hélt þó áfram að spila þótt hljómsveitarmenn væru banvænir - síðasta lagið sem spilað var hét Marie og það síðasta sem heyrðist frá hljómsveitinni var tær trompettónn um leið og þakið hrundi.
Þessi fallega saga og átakanlega er meðal annars rakin í bókinni Lost Delta Found sem Vanderbilt-háskóli gefur út, en í þeirri bók er safnað saman áður týndum rannsóknarskjölum þriggja litra fræðimanna. Fræðimennirnir héldu til Mississippi á vegum Fisk-háskóla, háskóla svartra, 1942 meðal annars til að leita laga sem samin hefðu verið um þennan hörmulega atburð, en þar sem stærstur hluti negra var ólæs og óskrifandi á þeim slóðum á þessum tíma var munnleg geymd mjög mikilvæg til að miðla fréttum, frásögnum og skoðunum manna á milli. Í kafla sem segir frá brunanum er meðal annars vitnað í einn þeirra sem komust úr eldinum við illan leik og hann lýsir þessu svo: "[Hljómsveitin kaus] ekki hlutverk hugleysingjans. Þeir voru eins og hugdjarfur skipstjóri og áhöfn hans sem fer í dauðann með skipi sínu."
Ég geri ráð fyrir að eins sé farið flestum þeim sem þetta lesa og mér - ósjálfrátt kemur upp í hugann hljómsveitin á ólánsfleyinu Titanic sem lék undir harmleiknum og fór síðan niður með skipinu vorið 1912. Sá harmleikur átti sér líka stað í apríl, ólánsdaginn 14. apríl sem blökkumenn nefndu svo því þann dag 1985 féll lausnarinn mikli Abraham Lincoln fyrir morðingjahendi. Lincoln var að vísu ekki lýstur látinn fyrr en morguninn fimmtánda apríl, en 14., föstudagurinn langi, var ólánsdagurinn. Uppáhaldssálmur Lincolns var "Nearer, My God, to Thee" eftir ensku skáldkonuna Sarah Flower Adams og var sunginn við útför hans. Eftir andlát og útför Lincolns varð sálmurinn gríðarlega vinsæll vestan hafs.
(Matthías Jochumsson heyrði sálminn sunginn í Chicago-för sinni 1893 og hreifst af, snaraði honum á íslensku sem "Hærra minn Guð til þín" og birti í tímaritinu Sameiningunni í Winnipeg sama ár.)
Á Titanic var átta manna hljómsveit undir stjórn Englendingsins Wallaces Hartleys. Skipið sigldi á ísjaka að kvöldi 14. apríl 1912 og hóf þegar að sökkva. Upp úr miðnætti aðfaranótt fimmtánda apríl kom hljómsveitin sér fyrir í stássstofu fyrsta farrýmis og byrjaði að spila til að reyna að róa fólk. Síðar færði hljómsveitin sig framarlega á bátadekkið og spilaði á meðan skipið sökk. Ýmsar sögur hafa verið uppi um hvaða lag hljómsveitin lék er hún hvarf í djúpið en mestra vinsælda naut snemma sú að það hefði verið sálmurinn "Hærra minn Guð til þín".
Fræðimennirnir frá Fisk-háskóla héldu til Mississippi að leita að söngvum um brunann í Natchez og af slíkum söngvum er líka til nóg. Það var líka til gríðarmikið af söngvum um Titanic-slysið. Einn af þeim sem sömdu slíka söngva, slíka blúsa, var Blind Lemon Jefferson.
Framan af tónlistarferlinum framfleytti Blind Lemon Jefferson sér með því að syngja á götum úti, í samkvæmum og á skemmtunum blökkumanna, jafnan við annan mann. Einn af þeim sem spiluðu með honum á þeim tíma var Huddie William Ledbetter sem þekktur varð sem Lead Belly eða Leadbelly. Hann spilaði með Jefferson í Dallas og eitt laganna sem hann sagðist hafa lært af honum var "The Titanic", fyrsta lagið sem hann lærði að spila á tólfstrengja gítar.
Lead Belly tók The Titanic í tveimur útgáfum, en hann breytti textanum ef hann var að syngja fyrir hvíta. Texti annarrar útgáfunnar hefst svo:
"It was midnight on the sea,
Band playin' "Nearer My Got to Thee".
Cryin' "Fare thee, Titanic, fare the well"."
Það var hluti af þjóðtrú bandarískra negra að hnefaleikakappinn Jack Johnson hefði verið meðal þeirra sem ætluðu að fara með Titanic frá Liverpool til New York en honum hefði verið neitað um pláss á fyrsta farrými þar sem hann var svartur. Leadbelly segir frá þessu í útgáfunni sem hvítir fengu helst ekki að heyra:
"Jack Johnson wanted to ge on boa'd;
Captain Smith hollered, "I ain' haulin' no coal."
Cryin', "Fare thee, Titanic, fare thee well"."
Fyrir vikið, sagði sagan, fórst enginn svartur maður með Titanic og þegar Johnson heyrði um skipsskaðann dansaði hann og söng:
"Black man oughta shout for joy.
Never lost a girl or either a boy.
Cryin', "Fare thee, Titanic, fare thee well."
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Föstudagur, 30. júní 2006
Gamalt og gott
Spoon átti eina ágætustu plötu síðasta árs, Gimme Fiction, og fyrri verk hafa einnig verið góð, Kill The Moonlight og Girls Can Tell. Erfiðlega hefur þó gengið að ná í eldra efni sveitarinnar, en á meðan menn bíða eftir nýrri plötu sem kemur væntanlega ekki út fyrr en á næsta ári, hafa þeir Merge-menn (útgefandinn góði) tekið sig til og pakkað saman á einn tvöfaldan disk fyrstu plötum Spoon, breiðskífunni Telephono og stuttskífunni Soft Effects sem hafa verið ófáanlega lengi (Telephono kom út 1996 og Soft Effects 1997, báðar á vegum Matador). Útgáfudagur er 25. júlí.
Tvö Spoon-lög frá í fornöld:
Idiot Driver (af Telephono)
Mountain To Sound (af Soft Effects)
Bloggar | Breytt 30.8.2006 kl. 13:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 30. júní 2006
Vatnið og Jón
Jón Ólafsson kaupsýslumaður seldi allar eigur sínar hér á landi og fluttist til Lundúna fyrir nokkrum árum. Fram að því hafði hallað undan fæti í flestum þeim fyrirtækjum sem hann tengdist og sum voru komin í verulegan vanda, en Jón var á sinni tíð einn umsvifamesti grósseri á Íslandi, sannkallaður Bör Börsson sem efldist við hverja þraut þar til um þraut.
Nú býr Jón semsé í útlöndum en hefur byggt upp vatnsverksmiðju hér á landi, í Þorlákshöfn, sem gengur að sögn vel. Hann vill stækka hana til muna, en til þess þarf hann að afla verulegs hlutafjár. Í Viðskiptablaðinu í dag segir: "Að sögn Jóns virðast íslenskir fjárfestar ekki vera áhugasamir um verkefnið ..." Af hverju ætli það sé?
(Skemmtileg kynning á vatninu hans Jóns hér ("noted Icelandic businessman Jon Olafsson, known for his passionate stewardship of his countrys environment").)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 29. júní 2006
Einfaldlega flókið
Mér þótti merkileg þessi staðhæfing í fréttaskýringu Viðskiptablaði Morgunblaðsins í morgun:
"En hvers vegna leitast fyrirtækin við að sameinast? Jú, ástæðan er í raun sáraeinföld. Ólöglegt niðurhal á tónlist hefur gert það að verkum að risarnir fjórir sjá tekjur sínar dragast saman ár frá ári, og stjórnendur þeirra telja að eitthvað verði að gera til að sporna við því að þau leggi upp laupana."
Það er sjaldgæft að eins umdeild staðhæfing sé stimpluð eins og afdráttarlaus sannleikur í fréttaskýringu, enda átta blaðamenn sig yfirleitt á því að í heimi viðskipta (líka heimi tónlistarviðskipta) er fátt ef nokkuð "sáraeinfalt".
Það er nefnilega langtífrá að það sé viðurkenndur sannleikur að "ólöglegt" niðurhal á tónlist (sett í gæsalappir vegna þess að það er ekki ólöglegt hér á landi) sé eina ástæðan fyrir því að það halli undan fæti fyrir fyrirtækjunum.
Blaðamaður hefði til að mynda mátt kynna sér hvernig sölu var háttað á tónlist vestan hafs á síðasta ári og þá hefði komið í ljós að þessi staðhæfing sem hann slær fram á ekki við traust rök að styðjast. Til að mynda jókst sala hjá Universal á síðasta ári og enginn samdráttur varð hjá Warner þó samdráttur hafi orðið hjá hinum. Sala jókst einnig hjá fjölmörgum smáfyrirtækjum og markaðshlutdeild þeirra jókst umtalsvert.
Vissulega verður ekki litið hjá því að heldur hefur hallað undan fæti fyrir plöturisunum á síðustu árum, en ekki hægt að halda því fram að ástæðan sé sáraeinföld. Þar spilar margt inní. Neysla á tónlist hefur til að mynda breyst verulega, er sennilega útbreiddari en nokkru sinni en flest bendir til þess að dagar plötunnar séu taldir að miklu leyti, þ.e. fólk hlustar á tónlist á annan hátt, er gefnara fyrir stök lög en heilar plötur með sama listamanninum. Þannig vilja margir kaupa eitt eða tvö lög með viðkomandi listamanni, en ekki heila plötu, en vill svo til að það er mun meiri velta og hagnaður í því fyrir fyrirtækin að selja heila plötu en eitt eða tvö lög (að vísu minni framleiðslukostnaður að hluta (upptaka og hljóðvinnsla), en hann er bara brot af heildarkostnaðinum, markaðssetning og dreifing er svo stór kostnaðarliður og hann minnkar lítið sem ekkert þó lögunum fækki á hverjum disk).
Það eru einnig breytt valdahlutföll á markaðnum frá því að plötukaupendur þurftu að treysta útgefendum fyrir því að velja til útgáfu þá tónlist sem best væri og vönduðust. Gallinn við þá högun var að kaupandinn gat ekki fylgst með því hvernig útgefandinn stóð við sína hlið mála, gat ekki metið hvað lá á bak við ákvörðun útgefanda um að gefa út tiltekna plötu, hvort væri vegna gæða hennar eða sérhagsmuna útgefandans. Eins gat hann ekki metið hvort hann væri að greiða sanngjarnt verð fyrir plötuna, því allar plötur voru á sama eða áþekku verði þó vitað væri að kostnaður við gerð hverrar plötu væri mjög ólíkur.
Netið breytti þessu og nú getur kaupandinn aflað sér ítarlegra upplýsinga, kynnt sér tónlistina rækilega áður en hann ákveður að kaupa hana, til að mynda á MySpace-síðu listamannsins eða með því að skiptast á skrám við aðra áhugamenn. Við þetta hefur meðal annars komið í ljós að smekkur manna er ekki eins einsleitur og útgefendur vildu halda fram og þó stöku listamaður eigi eftir að ná að krossa, eins og menn kalla það í bransanum, þ.e. ná til margra ólíkra hópa samtímis, eru dagar stórstjörnunnar að mestu liðnir. Þetta kemur eðlilega einna verst við þau fyrirtæki sem byggja allt sitt á að selja stórstjörnur, þ.e. semja við grúa af listamönnum í þeirri von að nokkrar stórstjörnur borgi tapið og gott betur á öllum þeim sem ekki selja fyrir kostnaði.
Það er því fjölmargt sem veldur breyttu landslagi á markaði:
- Ólögleg dreifing á tónlist (á Netinu, ólögleg framleiðsla (sem er veruleg) o.fl.)
- Samkeppni við aðra skemmtun (DVD, tölvuleiki, sjónvarp, Netið)
- Breytt neyslumynstur (færri stórstjörnur, dreifðari sala)
- Nýjar dreifingarleiðir (sala á Netinu sem stórfyrirtækin ráða ekki, bein sala listamanna o.fl.)
- Léleg stjórnun (vandræði Sony á síðustu árum skrifast að stærstum hluta á valdabaráttu og klúður)
Meira um þetta: Frelsi eða helsi? og Vandi vestan hafs
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 28. júní 2006
Svíkjum fólkið, mettum börnin
Sú var tíðin að það besta sem hægt var að bjóða Íslendingum var ókeypis brennivín. Eftir að Bretinn kom og fólk kynntist peningum varð það besta að fá ókeypis peninga. Óprúttnir spila inn á það, hvort sem það er með peningakeðjubréfum eða píramídafyrirtækjum. Ekki hef ég tölu á þeim píramídafyrirtækjum sem sprottið hafa upp hér á landi sem hafa alla jafna horfið jafnóðum, oftar en ekki eftir að þátttakendur hafa glatað fé, sumir stórfé.
Nýtt píramídaæði virðist í uppsiglingu hér á landi, Nourish the Children, fyrirbæri sem gengið hefur vestan hafs síðan á síðasta ári. Það er nýstárlegt að því leyti að í stað þess að kaupa dót til endursölu, nefúða, afsláttarkort, heilsuvörur eða álíka dót, kaupa menn þurrmat sem síðan er sendur þurfandi. Þarna er viðkomandi fyrirtæki, NuSkin Enterprises, að spila á samviskubitið og græðgina samtímis sem er býsna magnað hanastél.
NuSkin Enterprises, sem tengist Nourish the Children náið - á Pharmanex sem hannaði fóðurblönduna, First Harvest International sem framleiðir hana, Big Planet Mall sem selur hana og Nourish the Children sem er einskonar andlit á öllu saman - er dæmigert píramídafyrirtæki og hefur iðulega lent uppá kant við Federal Trade Commission, viðskiptaeftirlit Bandaríkjanna.
Mér sýnist þetta vera svo:
NuSkin framleiðir þurrmat úr linsubaunum og hrísgrjónum, vítamínbætir hann og pakkar. Þeir sem þátt taka í Nourish the Children kaupa matinn af fyrirtækinu en í stað þess að éta hann sjálfir sendir fyrirtækið hann til þurfandi barna (og gefur líka einn pakka fyrir hverja átta sem þátttakendur kaupa. Þátttakendur fá síðan aðra til að kaupa pakka (auglýsa og kynna) og fá prósentur af því sem aðrir kaupa. Þeir fá líka kvittun fyrir þeim pökkum sem sendir eru út í þeirra nafni og geta notað þá kvittun til að fá skattaafslátt þar sem slíkt er heimilt.
Á bloggi eins þátttakanda í VitaMeal ævintýrinu kemur fram að hann kaupi hvern VitaMeal-poka frá First Harvest International á um 1500 krónur (sem er vissulega býsna hátt verð fyrir malaðar linsubaunir og vítamín, en látum það vera). Fyrir hvern poka sem keyptur er af honum fær hann síðan 150 krónur. Til að hafa upp í meðal mánaðarlaun þarf hann því að selja nokkuð marga pakka. (Mér skilst að tekjur af hverjum pakka séu mis-háar eftir hvað hver selur mikið á mánuði og því ekki einföld margföldun.)
Ég fær ekki betur séð en að NuSkin / Nourish the Children sé dæmigert píramídafyrirtæki þó því sé pakkað inn líknarstarfsbúning. Það má meira að segja halda því fram að það sé subbulegra en mörg slík fyrirtæki, enda lágkúrulegt að mínu mati að skreyta markaðsdót sitt myndum af svöngum börnum þegar það gefur augaleið að eini tilgangur NuSkin er að hagnast.
Fyrirbæri eins og Nourish the Children byggjast á því að sífellt koma nýir sölumenn inn og þannig heldur fé áfram að streyma til NuSkin. Reyndar er málum svo háttað í dæmigerðum píramídafyrirtækjum að innan við 0,5% þeirra sem þátt taka í slíku verkefni græða, ná til sín gróðanum frá þeim ríflega 99,5% sem tapa. Fyrirtækin sem eru á bak við píramídann, efst í honum, hagnast alltaf, enda eru þau sífellt að fá inn nýjar rollur til að rýja - áætlað er að um helmingur þátttakenda detti út á hverju ári og nýir koma í staðinn.
Píramídafyrirtæki byggjast á trúgirni, hún er í raun eina hreyfiafl þeirra. Fólkið á botninum, neðst í píramídanum tapar alltaf og tap þess er gróði þeirra sem ofar sitja. Það er svo sérstök tegund af siðblindu að skreyta sig með því að verið sé að fæða hungruð börn á sama tíma og fé er svikið út úr trúgjörnum. Hvaðan halda menn að peningarnir komi sem renna til toppanna? Það fer engin virðisaukandi starfsemi fram í píramídafyrirtækjum, þau eru svikamyllur djöfulsins.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tenglar
Vefgreinar
- Dont Legalize Drugs by Theodore Dalrymple, City Journal Spring 1997 Advocates have almost convinced Americans that legalization will remove most of the evil that drugs inflict on society. Dont believe them. City Journal - Spring 1997
Vefmiðlar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar