Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Svíkjum fólkið, mettum börnin

Sú var tíðin að það besta sem hægt var að bjóða Íslendingum var ókeypis brennivín. Eftir að Bretinn kom og fólk kynntist peningum varð það besta að fá ókeypis peninga. Óprúttnir spila inn á það, hvort sem það er með peningakeðjubréfum eða píramídafyrirtækjum. Ekki hef ég tölu á þeim píramídafyrirtækjum sem sprottið hafa upp hér á landi sem hafa alla jafna horfið jafnóðum, oftar en ekki eftir að þátttakendur hafa glatað fé, sumir stórfé.

Nýtt píramídaæði virðist í uppsiglingu hér á landi, Nourish the Children, fyrirbæri sem gengið hefur vestan hafs síðan á síðasta ári. Það er nýstárlegt að því leyti að í stað þess að kaupa dót til endursölu, nefúða, afsláttarkort, heilsuvörur eða álíka dót, kaupa menn þurrmat sem síðan er sendur þurfandi. Þarna er viðkomandi fyrirtæki, NuSkin Enterprises, að spila á samviskubitið og græðgina samtímis sem er býsna magnað hanastél.

NuSkin Enterprises, sem tengist Nourish the Children náið - á Pharmanex sem hannaði fóðurblönduna, First Harvest International sem framleiðir hana, Big Planet Mall sem selur hana og Nourish the Children sem er einskonar andlit á öllu saman - er dæmigert píramídafyrirtæki og hefur iðulega lent uppá kant við Federal Trade Commission, viðskiptaeftirlit Bandaríkjanna.

Mér sýnist þetta vera svo:

NuSkin framleiðir þurrmat úr linsubaunum og hrísgrjónum, vítamínbætir hann og pakkar. Þeir sem þátt taka í Nourish the Children kaupa matinn af fyrirtækinu en í stað þess að éta hann sjálfir sendir fyrirtækið hann til þurfandi barna (og gefur líka einn pakka fyrir hverja átta sem þátttakendur kaupa. Þátttakendur fá síðan aðra til að kaupa pakka (auglýsa og kynna) og fá prósentur af því sem aðrir kaupa. Þeir fá líka kvittun fyrir þeim pökkum sem sendir eru út í þeirra nafni og geta notað þá kvittun til að fá skattaafslátt þar sem slíkt er heimilt.

Á bloggi eins þátttakanda í VitaMeal ævintýrinu kemur fram að hann kaupi hvern VitaMeal-poka frá First Harvest International á um 1500 krónur (sem er vissulega býsna hátt verð fyrir malaðar linsubaunir og vítamín, en látum það vera). Fyrir hvern poka sem keyptur er af honum fær hann síðan 150 krónur. Til að hafa upp í meðal mánaðarlaun þarf hann því að selja nokkuð marga pakka. (Mér skilst að tekjur af hverjum pakka séu mis-háar eftir hvað hver selur mikið á mánuði og því ekki einföld margföldun.)

Ég fær ekki betur séð en að NuSkin / Nourish the Children sé dæmigert píramídafyrirtæki þó því sé pakkað inn líknarstarfsbúning. Það má meira að segja halda því fram að það sé subbulegra en mörg slík fyrirtæki, enda lágkúrulegt að mínu mati að skreyta markaðsdót sitt myndum af svöngum börnum þegar það gefur augaleið að eini tilgangur NuSkin er að hagnast.

Fyrirbæri eins og Nourish the Children byggjast á því að sífellt koma nýir sölumenn inn og þannig heldur fé áfram að streyma til NuSkin. Reyndar er málum svo háttað í dæmigerðum píramídafyrirtækjum að innan við 0,5% þeirra sem þátt taka í slíku verkefni græða, ná til sín gróðanum frá þeim ríflega 99,5% sem tapa. Fyrirtækin sem eru á bak við píramídann, efst í honum, hagnast alltaf, enda eru þau sífellt að fá inn nýjar rollur til að rýja - áætlað er að um helmingur þátttakenda detti út á hverju ári og nýir koma í staðinn.

Píramídafyrirtæki byggjast á trúgirni, hún er í raun eina hreyfiafl þeirra. Fólkið á botninum, neðst í píramídanum tapar alltaf og tap þess er gróði þeirra sem ofar sitja. Það er svo sérstök tegund af siðblindu að skreyta sig með því að verið sé að fæða hungruð börn á sama tíma og fé er svikið út úr trúgjörnum. Hvaðan halda menn að peningarnir komi sem renna til toppanna? Það fer engin virðisaukandi starfsemi fram í píramídafyrirtækjum, þau eru svikamyllur djöfulsins.


Bless, Spánn

Þó spænska liðið hafi verið eitt það skemmtilegasta í HM að þessu sinni og spilað á tíðum snilldarlega vel er það með litlum trega sem ég sé á eftir því úr keppninni. Málið er nefnilega að það dragnast með ómögulegan þjálfara, fordómafantinn Luis Aragones, sem kallaði Thierry Henry negro de mierda, svartan skít, og fékk litlar skammir fyrir í heimalandinu. Það var svo til að kóróna niðurlægingu Aragones að þeldökkur leikmaður, Patrick Vieira, skoraði markið sem gerði út um vonir Spánverja.
mbl.is Frakkar slógu Spánverja út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einkaleyfi á skoðunum

Undarleg þykir mér árátta margra hægrimanna í fjölmiðlastétt vestan hafs að amast sífellt við því er listamenn, tónlistarmenn, leikarar eða rithöfundar, svo dæmi séu tekin, láta í ljós pólitískar skoðanir. (Fyrir einhver sérkennilegheit hnýta menn reyndar aðeins í þá sem ekki eru sammála forseta Bandaríkjanna og liðsmönnum hans - enginn amast við Toby Keith en allir hamast að Dixie Chicks.)

Menn stilla því gjarnan svo upp að svo og svo mikil hætta sé á að aðdáendur viðkomandi eigi eftir að snúa baki við þeim, en alla jafna er það nú svo að ef aðdáendur þekkja sín átrúnaðargoð á annað borð þá kippa þeir sér varla upp við það þó viðkomandi hafi skoðanir. Þannig kom Living with War Neil Young-vinum varla í opna skjöldu, nú eða þá aðdáendum Bruce Springsteen að hann kunni lítt að meta George Bush.

Í viðtali við sjónvarpsfréttamanninn Soledad O'Brien á CNN fyrir skemmstu svaraði Springsteen vel fyrir sig og sumt býsna eitrað, en Soledad O'Brien er þekkt fyrir annað en skynsamlegar spurningar:

O'BRIEN: In 2004 you came out very strongly in support of John Kerry and performed with him - your fellow guitarist, I think is how you introduced him to the crowd. And some people gave you a lot of flack for being a musician who took a political stand. I remember ...

SPRINGSTEEN: Yeah, they should let Ann Coulter do it instead.

O'BRIEN: There is a whole school of thought, as you well know, that says that musicians – I mean you see it with the Dixie Chicks - you know, go play your music and stop.

SPRINGSTEEN: Well, if you turn it on, present company included, the idiots rambling on on cable television on any given night of the week, and you’re saying that musicians shouldn’t speak up? It’s insane. It’s funny.

O'BRIEN: As a musician though, I’d be curious to know if there is a concern that you start talking about politics, you came out at one point and said, I think in USA Today listen, the country would be better off if George Bush were replaced as President. Is there a worry where you start getting political and you could alienate your audience?

SPRINGSTEEN: Well that’s called common sense. I don’t even see that as politics at this point. So I mean that’s, you know, you can get me started, I’ll be glad to go. […] You don’t take a country like the United States into a major war on circumstantial evidence. You lose your job for that. That’s my opinion, and I have no problem voicing it. And some people like it and some people boo ya, you know?

Það komast ekki margir upp með það að kalla spyril sinn hálfvita í beinni útsendingu ("Well, if you turn it on, present company included, the idiots rambling on on cable television on any given night of the week"). Svar hans við spurningunni um ummæli hans úr USA Today (að tímabært sé að skipta um forseta) er líka eitrað: "Well that’s called common sense. I don’t even see that as politics at this point."

Tengill á síðu með viðtalinu er hér.


Trú og trúleysi

Richard DawkinsSérkennileg spurning í Morgunblaðinu í dag í annars ágætu viðtali við breska þróunarlíffræðinginn Richard Dawkins: "Af hverju kýst þú að vera trúleysingi?"

Nú veit ég ekki hvernig spurningin hljóðaði á ensku, kannski var hún bara "Why are you an atheist?" en eins og hún hljómar á íslensku er líklegra að hún hafi verið "Why did you decide to be an atheist" eða "Why did you choose to be an atheist?" Það þykir mér sýna sérkennilegan skilning á trúleysi - stillir því upp eins og kerfisbundnu hugmyndakerfi, nánast eins og trúarbrögðum.

Að mínu viti er lítið betra að tilheyra trúleysissöfnuði en trúarsöfnuði. Annað hvort trúa menn eða ekki. Það þarf enga ástæðu fyrir því eða réttlætingu. Trúleysi er augljóst fyrir hinum trúlausu á sama hátt og trúin er augljós fyrir þeim sem trúa.


Lifrarbólgan er meinið

Algeng er sú alþýðuskýring að indverskir og kínverskir foreldrar séu svo sólgnir í pilta að þeir láti unnvörpum eyða stúlkufóstrum. Fyrir vikið sé ástandið svo slæmt í þessum löndum að mikill skortur sé á konum eins og nefnt er í þessari frétt sem hér er tengt við þar sem segir, eins og það sé löngu sannað og vitað mál: "Kvennafæð er vaxandi vandi á Indlandi þar sem fjöldi foreldra lætur eyða fóstrum sem eru kvenkyns, þar sem betra þykir að eignast dreng en stúlku."

Ýmislegt er við þessa setningu að athuga, meðal annars það að samkvæmt nýjum rannsóknum má skýra stærsta hluta mismunandi fjölda meyfæðinga og sveinfæðinga með lifrarbólgu. Í ljós hefur komið, meðal annars með því að rannsaka fæðingatölur frá því áður en fóstureyðingar urðu almennt mögulegar í þessum löndum, að fleiri drengir fæðast en stúlkur á þeim landsvæðum þar sem lifrarbólga B er landlæg. Sjá þannig rannsóknarniðurstöðu Emily Oster hjá Havard háskóla með því að smella hér. Ágæt grein um þetta líka í BusinessWeek Online.


mbl.is Eiginkonur leigðar út á Indlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Friðarsinni og mannvinur

Lauk í vikunni við A Man Without a Country, hugleiðingar Kurts Vonnegut um að hvernig sé að lifa undir stjórn George Bush og kóna hans. Bókin sú er um margt skemmtileg, kannski ekki ýkja veigamikil, en mjög í anda Vonneguts, húmorísk og meinhæðin í bland við barnaskap og yfirborðskenndara snakk. Þannig eru bækur hans, og kannski það sem gerir þær einna skemmtilegastar, hvernig hann blandar saman alvöru og barnslegri einlægni, djúpri hugsun og sakleysislegu hjali.

Vonnegut er í nöp við Bush, sem kemur víða fram í bókinni, en hann er þó aðallega að beina sjónum sínum að mannkyninu, hvernig mannkynið allt sé meira og minna á leið til helvítis. Ekki frumleg hugsun hjá gömlum manni, en hann færir þó einhver rök fyrir mati sínu, aukinheldur sem þeirri skoðun skýtur upp hjá honum, og hefur heyrst oft áður, að kárínur þær sem dunið hafa á jarðarbúum undanfarin ár séu til marks um að jörðin sé að gera sig líklega til að hreinsa sig af óværunni: "Þegar síðasta lífveran / hefur gefið upp öndina af okkar völdum / hversu ljóðrænt það þá yrði / ef Jörðin gæti sagt / í rödd sem bærist upp / kannski / frá botni / Miklagils / "það er gert". / Fólki líkaði ekki veran."

Kurt Vonnegut var meðal stríðsfanga í Dresden þegar fræg loftárás var gerð á borgina í seinni heimsstyrjöldinni og sú árás varð vendipuktur í ævi hans eins og sjá má í bókum hans, mótaði lífsskoðun hans og gerði að einlægum friðarsinna. Segir sitt um áhrif árásarinnar að í A Man Without a Country skuli hann enn vitna í árásina og afleiðingar hennar. Hann er og við sama heygarðshornið og í Slaughterhouse 5, sinni fyrstu og helstu bók, er hann heldur fram að loftárás bandamanna á Dresden hafi verið "mestu fjöldamorð í sögu Evrópu" eins og hann orðar það og heldur svo áfram: "Ég veit vitanlega um Auschwitz, en fjöldamorð er eitthvað sem gerist skyndilega, dráp á fjölda fólks á mjög skömmum tíma. Í Dresden, 13. febrúar 1945, fórust um 135.000 manns á einni nóttu í eldsprengjuárás Breta."

Þessi setning rímar vel við það sem breski rithöfundurinn David Irving hélt fram í bók sinni Apocalypse 1945: The Destruction of Dresden. (Sjá hér.) Helstu heimildir Irvings eru síðan frá áróðursteymi Göbbels sem ýkti íbúatölur og tölur yfir fjölda fallinna, en stjórnvöld í Austur-Þýskalandi beittu álíka áróðri frá 1950 og héldu því fram að árásin hefði verið að undirlagi Bandaríkjamanna. Nýnasistar hafa svo nýtt þessar staðleysur og bent á árásina á Dresden sem sönnun þess að þó nasistar hafi verið vondir þá hafi það bara verið vegna vonsku bandamanna - þýska þjóðin hafi verið að berjast fyrir lífi sínu.

Í bókinni Dresden: Tuesday 13 February 1945 eftir breska sagnfræðinginn Frederick Taylor kemur fram að þó margir hafi farist í loftárásinni á Dresden-árásinni þá bendi gögn til þess að þeir hafi verið mun færri, um 25.000 - mikið, mjög mikið reyndar en þó mun færri en Vonnegut og Irving hafa haldið fram og talsvert færri en létust í einni árás á Hamborg 27. júlí 1943 (árásin sú var kölluð "Gomorra áætlunin"). Sjá viðtal við Taylor á vef Der Spiegel og eins góða grein um loftárásirnar á Dresden á vef Wikipedia.

Í ljósi hryllingsins sem loftárásir á óbreytta borgara eru skiptir engu hvort 25.000 manns fórust eða 135.000 og það er að vissu leyti ógeðfellt að menn séu að metast um annað eins, þ.e. hvorir drápu fleiri. Mér finnst þó ólíklegt að friðarsinninn og mannvinurinn (þrátt fyrir allt) Kurt Vonnegut kunni að meta það að óþjóðalýður og nasistapakk skuli nýta orð hans til að kalla til sín fleiri fylgismenn.


Blátt, blátt, grænt, grænt og appelsínugult

Mikið skil ég vel þann sem lagði fram þessa óneitanlega þörfu kæru, enda lenti ég í álíka óskemmtilegri reynslu þegar ég fór á kjörstað í Öldutúnsskóla.

Ég mætti glaðbeittur í skólann á björtum vordegi, þess albúinn að kjósa hvað sem er. Þegar ég var svo kominn með kjörseðilinn í hendurnar og gekk í átt að kjörklefanum blasti við mér blátt tjaldið, hreinræktuð áróðursdula! Skyndilega lagðist þoka yfir huga minn og dimm rödd tók að kyrja X-D, X-D.

Ég dró tjaldið frá eins og vélmenni, þræll hinna illu áforma áróðursmeistara Sjálfstæðisflokksins. Þegar ég lagði hægri höndina á stólinn í kjörklefanum til að setjast niður varð mér litið á stólsetuna og sjá: hún var græn! Þokunni létti skyndilega og í stað raddarinnar dimmu og óttalegu heyrðist nú jarmað X-B, X-B.

Ég breiddi úr kjörseðlinum og bjóst til að merkja við B. Æ, æ, blýanturinn var appelsínugulur - ég krossaði óvænt við V.


mbl.is Kærir vegna blárra tjalda í kjörklefum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jokket i spinaten

Eins og með svo margt annað dettur maður inn í mikið dálæti á einstökum grænmetistegundum þegar matseldin er annars vegar.

Þannig man ég eftir eggaldintímabili, þegar ekkert var hægt að elda án þess að eggaldin kæmi við sögu, síðan var okra-æðið mikla, og um tíma var kúrbítur í aðalhluverki, matreiddur á ýmsa vegu.

Síðustu mánuði hefur spínat verið í uppáhaldi, ferskt spínat vitanlega, en nú vandast málið því uppháhalds grænmeti mitt í dag er Guðni Ágústsson.


Listin að græða

Aldraðir eru orðnir áberandi þrýstihópur í seinni tíð, bera sig aumlega vegna fjárskorts og ills aðbúnaðar. Gott ef menn voru ekki að spá í sérframboð aldraðra fyrir stuttu (bíddu við ... var það ekki Frjálslyndir?). Í því sambandi vill svo skemmtilega til að sú kynslóð aldraðra sem nú hefur hæst er einmitt sama kysnlóðin og græddi hvað mest á verðbólgunni á sínum tíma og, eins og fram kemur í grein Magnúsar Árna Skúlasonar í fasteignablaði Morgunblaðsins á morgun, græðir mest á þeirri verðhækkun á fasteignum sem orðið hefur síðustu árin.

Segja má tilfærsla hafi átt sér stað frá ungu fólki eldra fólks, þar sem fyrri hópurinn er að stíga sín fyrstu skref á fasteignamarkaði og þarf einnig á stærra húsnæði að halda til framtíðar, en síðari hópurinn er að minnka við sig og getur því leyst töluvert eigið fé út úr fasteignum sínum og fjárfest í vaxtaberandi eignum eins og skuldabréfum. Þetta er því öfugt við það sem átti sér stað fyrir 1979 þegar sparifé eldra fólks brann upp og myndaði tilfærslu til þeirra er skulduðu vegna neikvæðra raunvaxta, sem er líklega sama kynslóð og nýtur góðs af hækkun húsnæðiverðs í dag.

Semsé: Þeir sem græddu á forfeðrum sínum græða nú á afkomendunum.


Hatursguðspjallið

Þeir eru samir við sig höfuðsmenn hræsninnar í repúblikanaflokknum vestan hafs. Árum saman hefur Fred Waldron Phelps, leiðtogi baptistakirkjunnar í Westboro, og hyski hans komið sér fyrir við útfarir samkynhneigðra, með spjöld og borða þar sem því er haldið fram að hinn látni sé nú í vítisloga og þaðan af verra og gert hróp að syrgjendum. (Þess má geta að Phelps hefur látið þau orð falla að biblían mæli fyrir um dauðrefsingu við samkynhneigð.)

Stjórnvöld hafa látið sér þetta atferli Phelps og fylgjenda í léttu rúmi liggja og vísað í lög um tjáningarfrelsi.

Fred Phelps lét þó ekki þar við sitja, hann sækist eftir athygli og fannst menn ekki taka nógu vel eftir mótmælunum við útfarin samkynhneigðra. Næst á dagskrá var þá að mótmæla við útfarir þekktra manna og ættingja þeirra, til að mynda mótmælti hann er faðir Al Gore var jarðsettur, Barry Goldwater, Sonny Bono, Móðir Clintons og svo má telja.

Nú síðast tók Phelps og safnaðarmeðlimir, sem eru víst allir ættingjar hans utan einn, að mótmæla við útfarir hermanna sem fallið hafa í Írak, enda tekja þeir að mannfallið þar sé refsing guðs vegna þess að Bandaríkjamenn skeri ekki upp herör gegn samkynhneigð. Þá loks bregðast menn við á þingi vestan hafs og setja lög um að bannað sé að mótmæla innan 100 metra frá kirkjugarði og í 50 metra frá veg að kirkjugarði.

Af Fred Phelps er það annað að segja að saga hans hljómar eins og lygasaga. Ekki er bara að maðurinn sé upp fullur af hatri og fordómum, heldur var hann ofbeldisfullur fíkniefnaneytandi áratugum samana, misþyrmdi konu sinni og börnum, stal og laug og gerði börnin út sem þjófagengi til að fjármagna neysluna. Wikipedia er með ágæta samantekt og eins er til á netinu bók sem skrifuð var um hann, Addicted to Hate.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Feb. 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.2.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband