Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Miðvikudagur, 17. maí 2006
Össur og svifrykið
Sá gagnmerki stjórnmálamaður Össur Skarphéðinsson skrifar í Blaðið í dag um lagningu fyrirhugaðrar Sundabrautar og leggur eindregið til að hún verði sett í jarðgöng undir Elliðavog. Hann tínir til ýmis rök, mis-veigamikil, þar á meðal mengunina: "Lífríkið í Sundunum myndi í engu skaðast, og svifryksmengun yrði í lágmarki."
Ég geri ráð fyrir að svifryk það sem Össur nefnir sé sá hluti svifryks sem verður til við akstur á vegum, en magn slíks svifryks í andrúmslofti er eðlilega misjafnt eftir því hvar er mælt. Þegar mælt er við Miklubraut er svifryk sem rekja má beint til umferðar um 75% af svifryki, en ef mælt væri til að mynda á brú yfir Elliðavog væri hlutfallið hugsanlega annað, til að mynda væri jarðvegur mun hærra hlutfall en við Miklubraut (fjórðungur samkvæmt rannsókn sem birt er á síðu Umhverfisstofnunar, sjá hér).
Þau jarðgöng undir Elliðavog sem Össur nefnir í grein sinni eru ætluð bílum og af þeirri umferð mun skapast svifryk líkt og af annarri umferð. Hvað verður síðan um það svifryk? Ekki verður það eftir í göngunum, svo mikið er víst - því verður dælt út með annarri mengun sem myndast þar inni. Í stað þess að mengunin þynnist út í miklu loftrými mun hún því þyrlast út við enda ganganna.
Þriðjudagur, 16. maí 2006
Menningarbyltingin mikla
Þessi yfirlýsing hrinti af stað mestu hörmungum sem gengið hafa yfir eina þjóð. Menningaryltingin var í raun leikur Maós í valdatafli innan kommúnistaflokksins, enda vildu menn þar skáka honum til hliðar eftir klúður í efnahagsmálum og óstjórn, meðal annar hvað varðaði framfarastökkið mikla svonefnda.
Menningarbyltingin hafði gríðarleg áhrif á kínverskt þjóðfélag, lamaði efnahagslíf meira og minna árum saman, tugmilljónir manna létu lífið vegna harðræðis, hungurs eða ofbeldisverka rauðu varðliðanna sem fóru um allt land og rændu og rupluðu á milli þess sem þeir börðu, niðurlægðu og myrtu þá sem þeim þótti ekki nógu byltingarsinnaðir. Ekki var bara að þeir gerðu fólki mein heldur eyðilögðu þeir ómælt af ómetanlegum fornminjum, listaverkum, bókum, hofum og sögufrægum byggingum.
Ekki er got að segja hvenær menningarbyltingunni lauk, en Maó náði að ganga milli bols of höfuðs á andstæðingum sínum og það var ekki fyrr en hann féll frá áratug síðar að hægt var brjóta "fjórmenningaklíkuna" á bak aftur.
Ég man það vel hve menn litu Maó og verk hans rómantískum augum, maðurinn var skáld og skrifaði hið merkilega Rauða kver sem allir áttu, allir sem ég þekkti í það minnsta, og allir lásu. Með tímanum kemur æ betur í ljós hvurslags maður hann var og þó ekki sé allt sannfærandi sem sagt er um hann í ævisögunni merkilegu sem þau skrifuðu Jung Chang og Jon Halliday (Mao: The Unknown Story) þá var hann býsna langt frá því að vera lausnarinn mikli eins og þeir héldu gjarnan fram félagar í eik(ml). Hvar eru þeir nú?
Stjórnmál og samfélag | Breytt 17.5.2006 kl. 12:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 5. maí 2006
NFS sekkur
Ég hef ekki alltaf verið dús við Róbert Marshall, fréttamann og nú forstöðumann NFS, en eftir frétt í Morgunblaðinu í dag, þar sem rætt er um útkomu NFS í nýjustu áhorfskönnun IMG Gallup hækkar hann óneitanlega nokkuð í áliti hjá mér.
Málið er að í téðri áhorfskönnun kemur fram meðal annars að hjá fréttavaktinni á NFS fyrir hádegi mælist áhorf 1,2% og þátturinn skelfilegi Hrafnaþing með 1,2%. Þessi niðurstaða er lakari en nokkurn hefði grunað, eða það hélt ég í það minnsta þar til ég las orð Róberts: "Áhorfið yfir daginn er í mjög miklu samræmi við það sem við áttum von á."
Ekki minnkar aðdáun mín þegar Róbert svarar spurningum vegna Kompáss (fínn þáttur reyndar), sem samsendur er á Stöð 2 og NFS. Þó hann sé í opinni dagskrá á tveimur stöðvum horfa á hann ekki nema rúm 17% og áhorf annarra en áskrifenda Stöðvar 2 lítið. "[Þ]ar eru mikil sóknarfæri," segir Róbert.
Svona eiga sýslumenn að vera, láta það ekki á sig fá þó skútan sé að sökkva og eiginlega sokkin að hluta. Það eina sem ég sakna er að hann skuli ekki hafa nefnt þau sóknarfæri sem felist í því að áhorf á suma dagskrárliði sé ekki nema í kringum eitt prósent - varla þarf mikið átak til að hífa áhorf upp um 100% eða kannski meira. Það væri þá hægt að slá því upp í næstu könnun.
(Þeir sem þekkja Supertramp, þá annars leiðinlegu hljómsveit, skilja væntanlega hvers vegna þessi myndskreyting var valin. Þeir geta þá látið ljós sitt skína í athugasemdum ef vill.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Laugardagur, 22. apríl 2006
Þjóðernissinnaðar verkalýðshetjur
Það er í sjálfu sér ekki tíðindi að Ásgeir Hannes Eiríksson pylsusali hyggist stofna þjóðernissinnaðan stjórnmálaflokk, hann er frægur fyrir að velja rangan málstað. Hitt þykir mér verra að samkvæmt skoaðanakönnum Gallup, sem gerð var að undirlagi hans, gæti þriðjungur aðspurðra hugsað sér að kjósa flokk sem hefði á stefnuskrá sinni að draga úr fjölda innflytjenda til landsins.
Það kemur eflaust einhverjum á óvart að andúð á útlendingum sé svo útbreidd sem þessi könnun gefur til kynna, en hvernig má annað vera þar sem menn hamast við að mála skrattann á vegginn og þeir sem gjarnan kenna sig við vinstrimennsku, sem einkennist víst af manngæsku og skilningi, ganga fram fyrir skjöldu um að breiða út fáfræði og fordóma?
Varla líður nefnilega sá fréttatími að verkalýðsforkólfar koma ekki í útvarp og sjónvarp að formæla útlendingum sem komi hingað til að vinna fyrir lægri laun en Íslendingar, að því þeir segja, og dragi þannig niður kjör íslenskra verkamanna og hafi af þeim vinnu.
Flokkar þjóðernissinna beita jafnan hræðsluáróðri og blekkingum og afskræma staðreyndir til að auka fylgi við málstað sinn. Liðsmenn þjóðernissinna í þeim slag eru verkalýðsforkólfar, forsvarsmenn ASÍ og fleiri verkalýðsfélaga og samtaka, sem verður tíðrætt um að þeir sem hingað koma til að vinna séu eiginlega að grafa undan öllu saman, erlent verkafólk sé að eyðileggja íslenskan vinnumarkað, draga niður laun og gott ef þeir eru ekki að ræna vinnu frá íslenskum verkamönnum (ÍSLENSKUM verkamönnum!!). Vatn á myllu þjóðernissinna eins og Ásgeirs Hannesar.
Þegar rýnt er í tölur um atvinnuleysi kemur aftur á móti í ljós að atvinnuleysi hér á landi er ekki nema hálft annað prósent, sem er í raun ekkert atvinnuleysi, og mikil eftirspurn eftir vinnuafli. Það er því ljóst að allir þeir Íslendingar sem vilja hafa vinnu og þeir hafa ágætis vinnu, því þeir eru almennt ekki að vinna í fiski, á dekkjaverkstæðum eða í umönnun - það sjá útlendingarnir um og það er ekki nóg af þeim.
Nú væri ráð að stjórnmálaflokkar settu á stefnuskrá sína að draga úr fjölda þjóðernisöfgamanna. Líka þeir stjórnmálaflokkar sem stæra sig af góðum tengslum við verkalýðshreyfinguna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Mánudagur, 27. febrúar 2006
Er David Irving sagnfræðingur?
Fyrsta bók Irvings, Apocalypse 1945: The Destruction of Dresden, er gott dæmi um vinnubrögð hans. en í henni fer hann með ýmsar staðleysur um loftárásir Breta á borgina 13. febrúar 1945. (Bók Irvings er hægt að sækja ókeypis á vefsetur hans.) Irving byggir bókina að mestu á áróðri þýskra stjórnvalda, enda hófst áróðursteymi Göbbels handa tveimur dögum eftir árásina við að ýkja íbúatölur og tölur yfir fjölda fallinna. Stjórnvöld í Austur-Þýskalandi tóku þráðinn upp í kringum 1950 og héldu því meðal annars fram að árásin hefði verið að undirlagi Bandaríkjamanna.
Árásin á Dresden hefur alla tíð verið eitt helsta sameiningartákn nýnasista sem nýtt hafa sér rangfærslur nasista og kommúnista, aukinheldur sem ýmsir aðrir hafa orðið til að ýta undir rangtúlkun á árásinni, til að mynda bandaríski rithöfundurinn Kurt Vonnegut (sjá bókina Slaughterhouse Five). Meðal þess sem Irving og skoðanabræður hans hafa haldið á lofti er að 250.000 manns hafi látist í árásinni (sumir segja 135.000, aðrir 320.000) sem sé meira en í nokkurri loftárás sögunnar, fleiri en í Nagasaki og Hiroshima samanlagt. Eins er því haldið fram að borgin hafi verið óvarin og ekki haft neina hernaðarlega þýðingu, eiginlega verið athvarf flóttamanna fyrst og fremst.
Í nýlegri bók eftir sagnfræðinginn Frederick Taylor, Dresden: Tuesday 13 February 1945, kemur fram að staðhæfingar Irvings eru staðleysur. Víst fórust margir í Dresden-árásinni en mun færri en áður hafði verið talið, 25.000 (til samanburðar má geta þess að um 40.000 fórust í einni árás á Hamborg í júlí 1943). Eins gegndi borgin hernaðarlegu hlutverki líkt og aðrar helstu borgir Þýskalands, þar voru hergagnaverksmiðjur og stjórnstöð herflutninga á austurvígstöðvarnar. Fróðlegt viðtal við Taylor er á vef Der Spiegel. (Gaman að því að tengill á þetta viðtal barst mér í spam-pósti frá þýskum nýnasistum fyrir nokkru.)
Ólíkt David Irving er Frederick Taylor sagnfræðingur, menntaður sem slíkur og vinnur í samræmi við starfshætti sagnfræðinga. Það kom fram í réttarhöldum vegna máls sem David Irving höfðaði gegn Deborah Lipstadt og Penguin útgáfunni að Irving beitir öðrum vinnubrögðum, hann notar þær heimildir sem honum þykir henta en sleppir öðrum, setur fram tilgátur sem hann rökstyður ekki og þýðir vísvitandi vitlaust ef það hentar honum. Það er því rangt að kalla hann sagnfræðing og í raun móðgun við þá sem stunda sagnfræðileg vinnubrögð.
Í kjölfar þess að Irving var dæmdur í fangelsi í Austurríki fyrir að þræta fyrir að nasistar hafi stundað skipulagða útrýmingu á gyðingum hafa ýmsir haft orð á því að með því að dæma Irving í fanglesi fái hann frægð sem hann hafi þráð, best sé að láta sem hann sé ekki til. Að mínu viti er þetta óttalegt bull. Sömu raddir heyrðust þegar Irving höfðaði málið gegn Lipstadt og Penguin - að það að þau skyldu taka til varna hafi verið til þess falli að auka hróður Irvings, hann myndi nota tímann í réttinum til að útvarpa skoðunum sínum. Annað kom á daginn - eftir réttarhöldin var Irving rúinn ærunni (og gjaldþrota) og hefur vart borið sitt barr síðan.
Eins hafa menn haft orð á því að það sé aðför að málfrelsi að banna David Irving að halda fram sínum fáránlegu skoðunum. Mér eru minnisstæðar bækur sem ég hef lesið um fjöldamorð Hútúa á Tútsum í Rúanda 1994. Snar þáttur í morðæðinu var það er Hútúar voru hvattir til að myrða Tútsa, samlanda sína, á fjölmörgum útvarpsstöðvum. Þar lögðu menn að Hútúum að láta nú hendur skipa, æstu menn upp og hvöttu til mannvíga, lásu upp lista yfir Tútsa með heimilisföngum þeirra og lofsungu þá sem harðast gengu fram í morðunum. Þeir voru að nota málfrelsi sitt.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 16.3.2006 kl. 10:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 20. febrúar 2006
Nútíminn er vondur
Sumt slíkra rannsókna má kalla gervivísindi, eins og rafsegulbylgjubullið sem gýs upp aftur og aftur, ósannaðar staðhæfingar um heilsufarsvandann ógurlega sem fylgi raflínum, farsímum og álíka búnaði. Líkt og var með járnbrautavæðingu fyrri tíma mun tíminn afsanna rafsegulbullið, eða hver heldur því fram í dag að það að fara hraðar en ríðandi hestur sé óhollt og eigi eftir að kalla fram allskyns kvilla og krankleika? Minni á að þrátt fyrir alla farsímavæðingu og raflagnafjöld bólar ekki á heilsufarsvandanum mikla - fyrsta farsímasamtalið fór fram fyrir 33 árum.
Dæmi um gagnslausar rannsóknir er obbi rannsókna um skaðsemi sjónvarpsáhorfs. Slíkar rannsóknir skoða oft hvernig börnum sem horfa mikið á sjónvarp farnast í skóla miðað við börn sem horfa lítið á sjónvarp sem er ótækur samanburður því það er svo margt annað sem spilar inní og eins líklegt að grunnástæða þess að börnin horfi mikið á sjónvarp sé orsakavaldur frekar en sjónvarpsglápið sjálft.
Tökum dæmi. Nú kemst ég að því að börnum sem búa í einbýlishúsum sem eru 250 fermetrar eða stærri vegnar betur í skóla en börnum sem búa í íbúðum sem eru 70 fermetrar eða minni. Þar er komin rannsóknarniðurstaða sem bendir til þess að fermetrafjöldi skipti máli við námsárangur. Þetta er vitanlega della og álíka della reyndar og með það hvort sjónvarpsáhorf sé slæmt, hér spilar annað inní.
Í frægri grein velta þeir Stephen J. Dubner og Steven D. Levitt því einmitt fyrir sér hvað skipti máli þegar námsárangur barna er annars vegar. Í greininni, sem birtist í USA Today og er einnig birt nokkuð breytt í bók þeirra Freakonomics, segja þeir frá mikilli rannsókn vestan hafs á námsárangri 20.000 barna, Early Childhood Longitudinal Study, sem sýnir meðal annars að líkastil sé ofmælt að fjórðungi bregði til fósturs.
Í rannsókninni kemur fram að ef fimmtíu bækur eða fleiri séu til á heimili barns fái það að jafnaði betri einkunn en ef engar bækur er þar að finna. Ef bækurnar eru hundrað eða fleiri hækka einkunnir barnsins enn. Þetta er allt gott og blessað, en málið bara það að hér virðast erfðir skipta meira máli en bækurnar, þ.e. bókafjöldinn er frekar til marks um að foreldrarnir séu gáfaðir, en að hann auki gáfur barnanna. Í rannsókninni kemur einmitt fram að gáfaðir foreldrar eru líklegri til að eignast gáfuð börn, en heimskir foreldrar (tökum umræðu um gáfur og gjövileika seinna).
Dubner og Levitt greina þetta svo:
- Skiptir máli: Fjöldi bóka, menntun foreldra, háar tekjur foreldra, móðir barnsins þrítug eða eldri við fæðingu, foreldrarnir taka virkan þátt í skólastarfi.
- Skipti ekki máli: Lesið er fyrir barnið, barnið horfir mikið á sjónvarp, móðir barnsins er heimavinnandi, foreldrarnir fara með barnið á söfn, barnið er rassskellt reglulega.
Draga má þessa rannsókn þeirra Dubners og Levitts saman svo: Það skiptir meira máli hvert foreldrið er en hvernig foreldrið er. (Ekki má skilja þetta svo að ekki skipti máli hvernig foreldri eru, það skiptir gríðarlegu máli, en þó meira máli hver þau eru.)
Í Slate er grein um álíka rannsókn, sjá hér en í henni komust tveir hagfræðingar við háskólann í Chicago, Matthew Gentzkow og Jesse Shapiro, að því að lítil fylgni væri á milli sjónvarpsáhorfs og þess hvernig börnum gengi í skóla. Vísbending væri þó um að ef börn innflytjenda sem ekki tala ensku horfa mikið á sjónvarp gengur þeim betur í skóla en ella af augljósum ástæðum.
"We find strong evidence against the prevailing wisdom that childhood television viewing causes harm to cognitive or educational development. Our preferred point estimate indicates that an additional year of preschool television exposure raises average test scores [...] For reading and general knowledge scores - domains where intuition and existing evidence suggest that learning from television could be important - we find marginally statistically significant positive effect."
Rannsókn þeirra Gentzkows og Shapiros er fróðleg, hægt er að lesa pdf af henni með því að smella hér, ekki síst fyrir það hvernig þeir fundu leið til að mæla sjónvarpsáhorf og áhrif þess. Mjög forvitnileg er líka samantekt þeirra um útbreiðslu sjónvarps vestan hafs.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 16.3.2006 kl. 10:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 14. febrúar 2006
HAGVÖXTUR TVÖFALDAST!
Zantinge var hingað kominn til að mæra ljósleiðaravæðingu Orkuveitunnar, sem hófst sem óljós og óskynsamleg tilraun til að koma á gagnaflutningum um raflínur. Það má eiginlega segja að þessi ljósleiðaravæðing hafi verið á fölskum forsendum, laumað í gegnum borgarkerfið af mönnum sem ekki gátu gengist við því að hafa tekið ranga ákvörðun í upphafi.
Ef litið er framhjá því hvernig draumurinn um ljósleiðaraland varð til, er hægt að taka undir það að ljósleiðaravæðing er hið besta mál, ekki síst ef það er gert af einkaaðilum upp á eigin kostnað og áhættu. Víst á það eftir að hafa mikið áhrif þegar allir eru komnir í ljósleiðarasamband og það mun örgugglega hafa talsverð áhrif á rekstarumhverfi fyrirtækja að hafa háhraðaaðgang inn á Netið.
Nú hafa mörg fyrirtæki háhraðaðagang að Netinu, eða svo finnst þeim eflaust, með kopartengingar upp á nokkra megabita, jafnvel 10-12 Mbita á sek. Það er ekki nema hjóm eitt í ljósi þess að fljótlega mun ljósleiðaratækni bjóða upp á 400 Gb á sek.
Ekki er ástæða til að hlusta of mikið á þá sem segja að engin not séu fyrir tæknina, enda er þetta flutningsgeta af þeirri stærðargráðu að hún mun kalla fram nýja hugsun og nýjar hugmyndir. Gætum okkur líka á því að láta aulaganginn hjá Orkuveitunni í gegnum tíðina ekki þvælast fyrir okkur. Þar hafa menn gripið til ýmissa ráðstafana og endurskipulagningar til að beina fyrirtækinu inn rétta braut og skipstjórinn á ljósleiðaraskútunni, Jónatan S. Svavarsson, er mjög traustur maður að mínu mati.
Málið er aftur á móti það að það skiptir ekki svo miklu hver flutningsgetan verður hér innan lands, á meðan við búum við ótraust og óörugg samskipti milli landa. Gleymum því ekki að samband um Farice-strenginn rofnaði fimmtán sinnum á síðasta ári.
Á meðan svo er er lítið gagn af því að fá hingað sérfræðinga í samskiptatækni sem mæra ljósleiðaranet Orkuveitunnar. Jafnvel þó þeir spái því að hagvöxtur tvöfaldist (TVÖFALDIST!!). Það að líkja kopar vs. ljósleiðara við ritvél vs. einkatölvu gefur sérfræðikunnáttu Dolf Zantinge svo ákveðna einkunn. Eiginlega falleinkunn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 16.3.2006 kl. 10:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 8. febrúar 2006
Breiði pensillinn
Ívar Páll hefur pistilinn á þessum orðum: "Lýðræði og mannréttindi eru af einhverjum orsökum ekki við lýði í ríkum múslima."
Múslimar í heiminum eru nokkuð á annan milljarð. Af múslimum eru arabar fimmtungur eða þar um bil. 20% múslima búa í Afríku sunnan Sahara. 30% í Suðaustur-Asíu. Fjölmennir hópar múslima eru í Kína, Evrópu, Mið-Asíu og Rússlandi.
Meðal þeirra fimm landa þar sem múslimar eru fjölmennastir er ekkert arabaríki: Indónesía, Pakistan, Bangladesh, Indland og Tyrkland. Af þessum löndum má segja að Indónesía, Bangladesh og Tyrkland séu ríki múslima, því þar eru múslimar í meirhluta. Þau eru lýðræðisríki, þó vissulega sé víða pottur brotinn í mannréttindamálum.
Í pistli Ívars segir: "Flestir afkastamestu hryðjuverkamenn síðustu ára eru múslimar og arabar." Villandi, því þó þeir séu múslimar flestir, held ég að þeir sem ekki eru arabar séu býsna margir. Sjá til að mynda hryðjuverkið á Balí í október 2002 og annað mannskætt hryðjuverk þar í landi í ágúst 2003. Í þeim tilfellum voru illvirkjarnir Indónesar. Ekki arabar. Bendi og á að hryðjuverkamennirnir í Lundúnum fyrir ekki svo löngu voru Bretar ættaðir frá Pakistan.
Yfirskrift pistils Ívars Páls er lærð tilvísun hans í hugvekju Johns Donnes, "Devotions upon Emergent Occasions", frá 1623. Sú hugvekja er mögnuð lesning, eins og flest það sem Donne skrifaði, og gegnsýrt af húmanískri kristni, eiginlega sósíalískri kristni. Í þeim þrengingum Dana sem nú standa yfir geta þeir huggað sig við þessa tilvitnun í téða hugvekju:
"No man hath affliction enough that is not matured and ripened by it, and made fit for God by that affliction."
Stjórnmál og samfélag | Breytt 16.3.2006 kl. 10:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 7. febrúar 2006
Friedan og valfemínismi
Ef ég man söguna rétt hugðist Friedan skrifa bók um stúlkurnar sem útskrifuðust með henni úr háskóla vorið 1942, hvernig þeim hafði farnast í lífinu. Öðrum þræði vildi hún sanna það að háskólanám nýttist konum ekki síður en körlum til betra lífs. Annað kom á daginn, því þegar stúlkurnar stofnuðu heimili komust þær að því að glerþakið var heima fyrst og fremst.
Menn tóku bókinni hennar Friedan ekki nema mátulega vel þegar hún kom út, voru ekki að kaupa röksemdirnar og fannst hún jafnvel yfirborðskennd. Hún var þó síst af öllu yfirborðkennd, Friedan var að vekja máls á veigamiklu vandamáli og bókin átti eftir að hafa gríðarleg áhhrif á réttindabaráttu kvenna og kynjaumræðu almennt. Hún er sennilega með merkilegustu bókum á sínu sviði sem út hafa komið.
Friedan komst seinna upp á kant við aðra femínista vestan hafs, en mig brestur þekking til að greina þær deilur frekar. Eitt af því sem deilt var um, veit ég þó, er það hvort hvort konur þurfi/eigi að gera upp á milli starfsframa og fjölskyldunnar. Sú umræða lifir góðu lífi í dag.
Til einföldunar má segja að þar fari annars vegar þeir sem segja að femínisminn hafi snúist um það fyrst og fremst að konur hafi val og ef þær velji að vera heima þá sé það hið besta mál. Á móti eru svo þeir sem segja að þær konur sem velji að vera heima, oft eftir að hafa lokið veigamiklu námi við helstu háskóla, séu að velja vitlaust og á röngum forsendum. Sjá mjög skemmtilega grein eftir Lindu Hirshman í American Prospect þar sem hún vitnar meðal annars í Mark Twain: Maður sem kýs að lesa ekki er jafn fáfróður og sá sem ekki kann að lesa.
Í greininni ræðir Hirsman meðal annars um umdeilda grein um þessi mál sem birtist í New York Times í haust, en þar var því slegið fram að stór hluti ungra kvenna kysi að vera heima og ala upp börn frekar en að fara út á vinnumarkaðinn. Sú grein var gölluð, eins og fram hefur komið, en Hirsman bendir á að hún hafi rekist á álíka þróun í rannsóknum sínum, sérstaklega meðal vel menntaðra vel stæðra kvenna.
Þessi umræða hefur ekki náð í íslenska fjölmiðla og á kannski seint eftir að kvikna hér, en þó er verið að glíma við mjög veigamilar spurningar að mínu mati.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 16.3.2006 kl. 10:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 31. janúar 2006
Dómgreindarlaus ritstjóri
Stjórnmál og samfélag | Breytt 20.4.2006 kl. 12:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tenglar
Vefgreinar
- Dont Legalize Drugs by Theodore Dalrymple, City Journal Spring 1997 Advocates have almost convinced Americans that legalization will remove most of the evil that drugs inflict on society. Dont believe them. City Journal - Spring 1997
Vefmiðlar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (4.2.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar