Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Laugardagur, 28. janúar 2006
Íslenskan bráðum mun útaf deyja
Óttalegt væl fannst mér í Andra Snæ í útvarpinu í gær þegar hann var að tala um íslensku og hve allt breyttist hratt, eiginlega svo hratt, svo ógnarhratt að ég fékk áhyggjur af því að ég myndi ekki skilja hvað hann væri að segja áður en viðtalið væri búið. Hann (og fleiri væluskjóður) talar eins og það séu að myndast eyður í málfari ungmenna, það detti út orð og ekkert komi í staðinn ... geri ráð fyrir að hvaðsemþaðheitir verði algengasta orð í íslensku innan skamms, kannski strax í næstu viku ... nema það verði þá dottið út.
Svona hugsaði ég í fyrstu, en svo áttaði ég mig á því hvað hann væri að fara þegar ég var að fylgjast með yngra barnabarninu í baði í morgun. Þar sat drengurinn, nýorðinn tveggja ára, og var að leika sér með leikfang sem hann lét hrapa í vatnið hvað eftir annað: Þyrla sagði hann hróðugur og lyfti á loft grænu plastleikafangi. Þyrla, hugsaði ég, af hverju segir hann ekki helíkopter. Það setti að mér trega - orðið helikopter var að hverfa úr íslensku máli. Hver hélt uppi vörum fyrir það!? Hvað með það góða orð úr minni barnæsku og önnur álíka eins og fortó, sem hún amma notaði, eða skrípó eða kames? Horfin, horfin!
"Annars þjer einlæglega að segja held jeg, að íslenskan bráðum muni útaf deyja; reikna jeg, að varla muni nokkur skilja hana í Reykjavík að 100 árum liðnum, en varla nokkur í landinu að öðrum 200 árum þar upp frá, ef allt fer eins og hingað til og ekki verða rammar skorður við reistar; jafnvel hjá beztu mönnum er annaðhvort orð á dönsku; hjá almúganum mun hún haldast við lengst."
Svo segir í bréfi þess mæta manns Rasmus Kristians Rask til Bjarna Thorsteinssonar sem hann skrifaði 30. ágúst og 2. september 1813. Tekið upp úr minningarriti Björns Magnússonar Ólsen um Rask, Reykjavík 1888. Frá því Rask skrifaði þessi orð eru liðin 193 ár nú í haust. Kannski geta bara fræðimenn lesið þennan texta þá.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 30.5.2006 kl. 22:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 23. janúar 2006
Kvikmyndafyrirtæki í tilvistarkreppu
Kvikmyndafyrirtæki eru komin í sömu tilvistarkreppu og plötufyrirtæki hvað varðar dreifingu á efni yfir netið. Undanfarin ár hafa menn getað sótt sér kvikmyndir á netinu jafnharðan og þær hafa verið frumsýndar og oft nokkur áður en þær koma á almennan markað. Ekki er svo bara það að hægt hefur verið að finna myndirnar á netinu heldur hefur einnig verið hægt að kaupa þær á mörkuðum og hjá götusölum víða um heim löngu áður en þær koma á markað. (Það er reyndar ekkert nýtt, ég keypti From Dusk Till Dawn á VHS spólu á Brick Lane markaðnum nokkrum dögum eftir að hún var frumsýnd vestan hafs 1996.)
Framan af var tiltölulega algengt að menn væru að dreifa Cam-útgáfum, þ.e. myndum sem teknar voru upp á stafrænar vídeóvélar í bíói og gæðin eftir því. Það var reyndar eitt af atriðinum í átaki kvikmyndaframleiðenda gegn ólöglegri dreifingu á bíómyndum að leggja áherslu á hve gæðin á slíkum myndum væru lítil. Sá tími er þó löngu liðinn og nú lítur enginn við Cam-útgáfum, allir vilja DVD-ripp af myndum, þ.e. afrit sem tekið er af DVD disk með viðkomandi mynd, en af slíku er alltaf slatti í gangi, ýmist sem eintök sem send eru til gagnrýnenda, til meðlima kvikmyndaakademíunnar vegna óskarsverðlauna, eða til bíóhúsa víða um heim.
Dreifing á kvikmyndum á Netinu er orðin álíka algeng og á tónlist sýnist mér, þó framboðið sé vitanlega minna og enn sem komið er fátítt að menn sendi heilar myndir sin á milli í tölvupósti. Annað sem spilar hér inní er lítil apparöt sem hægt er að nota til að horfa á kvikmyndir, því þó lengi hafi verið hægt að fá DVD ferðaspilara er nú ekki þverfótað fyrir spilastokkum sem sýnt geta kvikmyndir, allt frá iPod í Archos. Sumir framleiðendur slíkra tækja vilja vingast við kvikmyndaframleiðendur, til að mynda Apple sem leggur talsvert uppúr að dreifa tónlist og kvikmyndum í DRM-umbúðum. Aðrir vilja vingast við notendur og gera þeim kleift að horfa a það sem þeir vilja, til að mynda Archos sem spilarar frá þeim framleiðanda spila DiVX:), og Creative, en nýr spilari frá Creative, Zen Vision:M, sem er býsna flottur, spilar eiginlega hvað sem er.
Innlegg í þessa umræðu var er Steven Soderbergh frumsýndi mynd sína Bubble vestan hafs um daginn. Sú mynd er merkileg fyrir ýmislegt. Soderberg notar þannig ekki atvinnuleikara, heldur eru áhugaleikarar í öllum hlutverkum og myndin tekin upp á stafrænar vélar og unnin í háskerpu. Kostaði enda ekki nema um 100 milljónir kr. sem er ævintýralega lítið fyrir kvikmynd þar í landi. Mesta byltingin er þó að myndin kom út á DVD og var sýnd á kapalstöð daginn eftir að hún var frumsýnd. Stóru kvikmyndahúsakeðjurnar vestan hafs neituðu að sýna myndina enda þykir mönnum þar á bæ þetta háttarlag ógnun við framtíð sína.
Alla jafna hafa menn hagað því svo að fyrst er mynd frumsýnd í kvikmyndahúsi, nokkru síðan er hún gefin út á sölumyndbandi og þá fer hún í sjónvarp. Þetta er einfölduð mynd af því hvernig kvikmyndir eru markaðssettar, en almennt er reglan sú að hver sérmarkaður er mjólkaður eftir megni áður en haldið er inn á þann næsta. Þetta módel er nú búið að syngja sitt síðasta og gildir einu þó menn reyni að neita því að breytingin sé að eiga sér stað eins og stóru bíóhúsakeðjurnar og samtök myndrétthafa. Málsóknir og kergja munu ekki koma í veg fyrir að fólk sæki sér myndir á Netið.
Það sem vakir fyrir aðstandendum myndar Soderbergs, sem högnuðust gríðarlega á netviðskiptum, er að spara sér kostnað vegna markaðssetningar myndarinnar. Með því að frumsýna hana, selja sjónvarpsrétt og gefa út á myndbandi nánast samtímis spara þeir mikið fé og þurfa því eðlilega ekki eins miklar tekjur til að skila góðum hagnaði. Ýmsir sem starfa í kvikmyndaiðnaðinum hafa reyndar rætt opinberlega að ástæða sé til að bregðast við og til að mynda er ekki langt síðan eitt stóru kvikmyndafyrirtækjanna lýsti því yfir að það myndi gefa myndir út samtímis á DVD og í sjónvarp. Hvort þar sé nog að gert þykir mér ólíklegt.
Kvikmyndafyrirtækin hafa skákað í því skjólinu að kvikmyndaskrár eru svo stórar að erfitt er að dreifa þeim um Netið. Það breytist þó hratt og ekki gott fyrir fyrirtæki að treysta á það að tæknin þróist eftir þeim hraða sem þau helst kjósa. Á þessu sviði, líkt og með tónlistina, geirir fólk það sem því langar, notar kvikmyndir eins og því finnst hentugast, og ef stórfyrirtækin svara ekki kalli tímans gera það aðrir.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 20.4.2006 kl. 12:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 4. janúar 2006
Karlmennskan óbeisluð
Fræg eru þau ummæli Dino De Laurentiis: "When the monkey die, everybody cry", sem hann lét falla um endurgerð sína af King Kong frá 1976. Laurentiis var þá að vísa í Jaws, enda felldi enginn tár þegar óvætturinn sá gaf upp öndina ólíkt því þegar apinn mikli fellur til jarðar í King Kong Peters Jacksons sem ég sá í gærkvöldi með félögum mínum.
Jackson er um margt gallaður kvikmyndagerðarmaður eins og sást af sögunni um Frodo og félaga hans þar sem langdregnar bardagasenur voru að drepa mann, sérstaklega í þriðju og síðustu myndinni (mér fannst hún miklu betri er ég horfði á hana í annað sinn, enda þá með fjarstýringu og gat hraðspólað yfir mesta bardagaruglið). En í Kong tekst honum býsna vel upp, missir reyndar aðeins um miðjuna, en annað er fyrsta flokks, ekki mikið innihald en þess meiri og glæsilegri umbúðir.
Ágætt dæmi um það hve Jackson á erfitt með sig var hremmingar leitarmanna á ferð um eyna, fyrst glíma við risaeðlur og svo ógeðsleg skorkvikindi og mannætusæbjúgu (vel lýst á Salon: " ... a squad of vicious sea-cucumber-type things that resemble uncircumcised penises outfitted with vagina dentata. Sjá hér. ) Mér Jóhanni Páll bíófélagi minn líka lýsa þessu vel: Allt of mikið dýralíf um miðjuna.
Það má reyndar líta á þennan langdregna eltingarleik og skrímslastríðið sem gamaninnskot því Jackson er býsna mikill húmoristi. Þannig er í myndinni fjöldi broslegra smáatriða og þá ekki bara mannskapurinn á skipinu (upp til hópa skrípamyndir) heldur einnig hinar merkingaþrungnu setningar sem hann skýtur inn í hér og þar, nefni sem dæmi það sem Carl Denham (Jack Black) segir við Ann Darrow (Naomi Watts) þegar hann gefur henni að borða (makkarónur með osti): "You're the saddest girl I've ever met."
Fyndin tilgerð en mjög í takt við myndina - í henni er allt stórskorið, ekki bara apinn. Þau atriði þar sem skipið er við að steyta á höfuðskeljasker eru þannig frábærlega útfærð og ná vel að draga það fram hve menn eru í raun hjálparvana í greipum hafsins, sama hve skipið er stórt eða traustbyggt. (Gaman væri að sjá Jackson glíma við hvíta hvalinn.)
Mér finnst hann líka fara vel með frumbyggjana sem eru gersamlega búnir á sálinni eftir nábýlið við Toru Kong (ætlaði að segja sál og líkama, en þeir voru nú margir býsna massaðir sem er svosem á skjön við ömurlegar aðstæður).
Mér skilst að Jackson hafi ætlað sér að gera King Kong áður en hann tók til við hringaþríleikinn mikla og hugsanlega hefði myndin verið betri þá, ekki eins miklir peningar og fyrir vikið ekki eins mikið tölvudót.
Það er svo langt síðan ég sá fyrstu myndina (af myndbandi) að ég man varla eftir henni en þó það að í henni var apinn ófreskja og ekkert reynt að vekja samúð með honum. Í myndinni hans Laurentiis, sem John Guillermin leikstýrði, er höfuðáherslan lögð á samband fríðu og dýrsins og eins í myndinni hans Jacksons - ástin milli þeirra Kong og Darrow er ekki andleg. Apinn mikli karlmennskan óbeisluð, þrótt- og kraftmikil, og stúlkan girnilegur biti fyrir slíkan hlunk.
Þegar King Kong fyrsti var sýndur var þekkt minni í bandarísku samfélagi hve blökkumenn þráðu að hafa mök við ungar ljóshærðar stúlkur, ímynd hreinleika og fegurðar. Það var því vel til fundið að nýta sér þennan undirliggjandi ótta og Kong-höfundar voru ekki einir um það - á næstu árum var gerður grúi slíkra mynda þar sem mis-hávaxinn api réðst á fáklæddar stúlkur, til að mynda Bride of the Gorilla (1951), Nabonga (1944), Zamba (1949) og Konga (1961). Sumar þessara mynda gengu býsna langt í átt að erótíkinni, enda kjörið tækifæri til að sýna túttur þegar menn voru að sýna myndir af frumstæðum ættbálkum, og sumar nánast alla leið eins og sjá má á myndinni sem fylgir, en hún er úr kanadísku myndinni Tanya's Island frá 1980.
(Kannski viðeigandi að minnast þess að í King Kong mynd Laurentiis léku tvíturnarnir í New York eitt aðalhlutverkanna, þessir miklu minnisvarðar um græðgi áttunda áratugarins sem sýnast nú í öðru ljósi er maður sér þeim bregða fyrir í gamalli kvikmynd. Svona leikur sagan okkur, snýr ólund í einskonar trega.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt 20.4.2006 kl. 12:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tenglar
Vefgreinar
- Dont Legalize Drugs by Theodore Dalrymple, City Journal Spring 1997 Advocates have almost convinced Americans that legalization will remove most of the evil that drugs inflict on society. Dont believe them. City Journal - Spring 1997
Vefmiðlar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (4.2.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar