Færsluflokkur: Tónlist

Ómetanleg tónlistarhátíð

We Made GodTónlistarhátíðin Airwaves, sem stóð frá 17. til 21. október sl., hefur að nokkru á sér blæ kaupstefnu, enda var til hennar stofnað með það í hyggju að auka viðskipti; Flugleiðir vildu skapa hátíð sem draga myndi hingað ferðamenn á annars daufum tíma. Það féll svo vel að þeirri hugmynd að liðsinna íslenskum tónlistarmönnum í leiðinni; vænlegra þótti að fá hingað blaðamenn og útsendara plötufyrirtækja en senda út hljómsveitir að spila. Hvort tveggja hefur gengið eftir og vel það; Airwaves hefur vaxið svo fiskur um hrygg að hátíðin skilar kaupsýslumönnum milljónum og hljómsveitum athygli.

Því hefur verið haldið fram að Airwaves sé 3-500 milljóna króna innspýting í miðbæ Reykjavíkur ár hvert, enda talið að hingað komi allt að 600 manns að utan til að fylgjast með og grúi manna kemur í miðbæinn til að njóta þess sem þar er í boði.

Spurningunni um hvað tónlistarmennirnir fá fyrir sinn snúð er erfiðara að svara, enda spila flestir eða allir íslensku listamennirnir ókeypis á hátíðinni. Víst má nefna dæmi um hljómsveitir sem fengið hafa útgáfusamning í kjölfar Airwaves eða svo mikla fjölmiðlaathygli að fleytt hefur þeim áfram, en erfitt að meta hversu stóran þátt Airwaves átti í þeim samningum.

Ég held það velkist þó enginn í vafa um að Airwaves hafi verið íslensku tónlistarlífi lyftistöng og aukið grósku, fagmennsku og metnað íslenskra hljómsveita. Það er ómetanlegt að hafa svo veigamikinn viðburð til að stefna að og ótal dæmi voru um hljómsveitir sem blómstruðu einmitt á Airwaves að þessu sinni eftir stífar æfingar og undirbúning.

Þó vel hafi tekist til að þessu sinni og enn betur en á síðasta ári þarf hátíð eins og Airwaves samt að vera í sífelldri endurskoðun og stöðugri þróun. Menn hafa náð því markmiði að auka hag Icelandair á haustin og eins að ýta undir frekari metnað og dug íslenskra tónlistarmanna.

Uppselt hefur verið á Aiwaves undanfarin þrjú ár og spurning hvort það gefi ekki svigrúm til að bæta hana enn frekar hvað varðar aðkomu íslenskra listamanna að henni. Er ekki lag að styrkja enn faglegan þátt hátíðarinnar, að aðstoða þær hljómsveitir sem þátt taka í hátíðinni við að ná eyrum málsmetandi manna í útgáfuheiminum og eins að ná meiri umfjöllun í erlendum fjölmiðlum?

Af Airwaves 2007 er annars það að segja að meira var um atriði utan dagskrár en áður, sem veit vonandi á gott, og þeir sem nennu höfðu til gátu séð býsna mörg af forvitnilegustu atriðum hátíðarinnar á tónleikum víða um bæ, í 12 Tónum, Máli og menningu, Poppi, Rokki & rósum og Smekkleysu, Skífunni á Laugavegi og í Norræna húsinu. Meira að segja var hægt að hefja daginn með rokki og beikoni á Prikinu, ef sá gállinn var á mönnum, og víst að það er ógleymanlegt að hlusta á Rass á Prikinu kl. 10 á föstudagsmorgni.

Dagskráin í Norræna húsinu var metnaðarfull og margt skemmtilegt að sjá og heyra. Þar er líka svigrúm til að vera með faglegri dagskrá á næstu hátíð, hugsanlega fyrirlestra eða tilheyrandi.

Ekki sá ég margar af erlendu sveitunum, en þó nóg til að sjá að !!! er almögnuð tónleikasveit, Plants & Animals frábærlega forvitnileg og Buck 65 ævintýralega góður, en hann sá ég tvisvar og Plants & Animals reyndar þrisvar.

Af þeim tæplega sextíu íslensku hljómsveitum sem ég sá spila vöktu mesta athygli mína Hjaltalín, sem blómstraði í Listasafninu, We Made God, sem var ótrúlega kraftmikil á Gauknum, Skakkamanage, sem átti tvöfaldan stjörnuleik á Nasa, FM Belfast, sem ég sá fjórum sinnum spila þessa Airwaves-daga, Mugison, sem Sammi lýsti svo: "þetta var eins og að vera nauðgað af nashyrningi", hin fjölmenna og fjölhæfa Retro Stefson, múm, sem átti frábæran leik í Listasafninu, og svo Dr. Spock, sem sýndi að öfgar göfga – viðlíka geggjun hefur ekki sést á sviði.

Aðrar íslenskar hljómsveitir sem stóðu sig afburðavel: Perla, For a Minor Reflection, Soundspell, Benni Hemm Hemm, Bloodgroup, Ghostigital, Kimono, Jónas Sigurðsson, My Summer as a Salvation Soldier, Ólöf Arnalds, Sprengjuhöllin og æringjarnir í 1985!

(Björg Sveinsdóttir tók myndina.)


Pepper liðþjálfi fertugur

Sgt. Pepper'sÞess er minnst víða að í dag eru fjörutíu ár síðan Bítlarnir sendu frá sér tímamótaverkið Sgt. Pepper's Lonely Hearts Club Band, áttundu breiðskífu sína á fjórum árum. Menn eru ekki á einu máli um gæði plötunnar, sumir telja aðrar Bítlaplötur betri, ég hallast að Rubber Soul, en ekki verður deilt um mikilvægi hennar – Sgt. Pepper's Lonely Hearts Club Band er merkilegasta plata poppsögunnar og áhrif hennar verða seint ofmetin. Ekki var bara að Bítlarnir komu sítar, skælifetlum, suðboxi og strengjum á poppkortið, heldur voru þeir líka frumherjar í ýmiss konar hljóðverstækni og segulbandapúsli. Margir ganga líka svo langt að segja að með Sgt. Pepper's hafi þeir gengið af popplaginu dauðu, þ.e. hinu klassíska þriggja mínútna popplagi – í stað þess að menn einblíndu á smáskífur fóru þeir að hugsa í stórum plötum, heildarverkum, og þess sér stað enn þann dag í dag.

Sgt. Pepper's var síðasta platan sem Bítlarnir gerðu sem hljómsveit því þótt þeir ættu eftir að gefa út fleiri plötur þá vann hver þeirra að þeim meira og minna út af fyrir sig.

Upptökur tóku líka lengri tíma en á fyrri verkum og fyrst hljómsveitin var hætt að leika á tónleikum gafst tími til að liggja aðeins yfir hlutunum. Segir sitt að 700 hljóðverstímar fóru í upptökurnar, en fyrsta Bítlaplatan var tekin upp á innan við tíu tímum.

Umslag plötunnar vakti mikla athygli á sínum tíma og er eitt frægasta umslag rokksögunnar. Sagan segir að það hafi líka verið dýrasta umslag sögunnar þegar platan kom út, sumir áætla að það hafi verið að minnsta kosti hundrað sinnum dýrara en hefðbundin plötuumslög á þeim tíma og þætti svosem dýrt í dag – framreiknað var kostnaðurinn hálf fimmta milljón.

Hjónin Peter Blake og Jann Haworth hönnuðu umslagið með þá ósk Lennons og McCartneys í huga að Bítlarnir yrðu í gervi annarrar hljómsveitar og því líkast sem sú hljómsveit væri rétt búin að ljúka tónleikum í almenningsgarði. Í framhaldi af því datt Blake í hug að hafa fólk með á myndinni, aftan við hljómsveitina, og Bítlarnir settust niður til að skrifa óskalista yfir það fólk sem þeir héldu mest upp á eða töldu áhrifamest. Ekki fóru allar tillögur inn, til að mynda fannst mönnum ótækt að hafa Hitler og Jesú á myndinni, eins og Lennon stakk upp á, og ekki féll í kramið sú ósk hans að hafa Ghandi á myndinni, enda óttaðist EMI í Indlandi að íbúar þar myndu taka því illa. Ghandi er reyndar á umslaginu, ef svo má segja, en pálmatréð lengst til hægri á myndinni var sett yfir andlitið á honum. Blake heldur því reyndar fram líka að mynd sé af Hitler en á bak við sveitina, sem erfitt er að sannreyna. Eins var málað yfir leikarann Leo Gorcey vegna þess að hann vildi fá borgað fyrir að vera á myndinni.

Að Ghandi og Hitler frátöldum, vaxmyndum, styttum og málverkum eru myndir af sextíu manns á umslaginu, Bítlarnir meðtaldir. Ringo Starr valdi engan á myndina og George Harrison bara indverska hugleiðslukennara og predikara. Af öðrum sem komust á umslagið má nefna Aleister Crowley, Mae West, sem vildi ekki vera með en lét undan þrábeiðni Bítlanna, Lenny Bruce, Karlheinz Stockhausen, Carl Gustav Jung, Bob Dylan, Aldous Huxley, Marilyn Monroe, William S. Burroughs, spaugarana Stan Laurel, Oliver Hardy og Karl Marx, Sigmund Freud, Marlon Brando, Lewis Carroll, T.E. Lawrence, Shirley Temple, Albert Einstein, Marlene Dietrich og mexíkóska leikarinn Tin Tan sem er dulbúinn sem pálmatré.

Þess má svo geta að lokum að þó Bretar fagni útgáfu Sgt. Peppers í dag, ættu Amríkanar ekki að gera það fyrr en á morgun, því platan kom út 2. júlí vestan hafs. 


Hjartað slitið úr Mosfellsbæ

Bryndís SchramFyrir rúmum tuttugu árum settu menn í Mosfelsbæ á skipulag vegspotta sem tengja átti íbúðahverfi við helstu umferðaræðar. Gatan sú átti að vera svonefnd safngata og þjóna 200 íbúa byggð. Á skipulaginu lá hún skammt frá verksmiðjuhúsum í niðurníðslu í kvos við Varmá og öllum var sama.

Það breytist margt á tuttugu árum, 200 íbúa byggðin verður víst 1200 manna og hrófatildrin í Varmárkvosinni breyttust í íbúðarhús, menningarsetur, listakvos, Álafosskvos.

Um það leyti sem ég byrjaði að skrifa um tónlist fyrir Moggann, fyrir rúmum tuttugu árum, var Mosfellsbærinn fyrir mér bara staður þar sem hægt var að kaupa bensín. Ekki löngu síðar höfðu samband við mig strákar úr Mosfellsbæ sem þá voru nýkomnir frá útlöndum.

AmiinaHljómsveitin þeirra hét Gildran, hafði verið á samningi hjá útgáfu sem ekkert varð úr, en ætlaði nú að hasla sér völl hér heima. Talsmaður Gildrunnar var Karl Tómasson, framúrskarandi trommuleikari, en Birgir Haraldsson sá um söng og gítarleik og Þórhallur Árnason var geysiþéttur bassaleikari. Ég heimsótti Gildruna í Mosfellsbæinn oftar en einu sinni og komst síðan í kynni við fleiri hljómsveitir sem ráku ættir sínar þangað.

Álafosskvosin tók að byggjast upp á þessum árum, ýmislegt hugsjónafólk tók til við að endurbyggja hús í kvosinni og fluttist síðan þangað. Þorlákur Kristinsson vinur minn kom sér þar upp vinnustofu og þangað kom ég á sýningar eða til að sníkja kafi. Annar vinur, Arnþór Jónsson, sellóleikari, settist þar líka að. Smám saman byggist upp sérstakt samfélag í kvosinni, einskonar listamannanýlenda, þó ekki hafi allir íbúarnir verið listaspírur.

Sigur RósÞað var alltaf tilhlökkunarefni að koma í kvosina, aka í gegnum steinsteypu- og malbiksmartröð og síðan eftir eina beygju og nokkur hundruð metra var maður kominn upp í sveit, fann hvernig spennan hvarf úr líkamanum við það eitt að stíga út úr bílnum í kyrrðinni, kominn til annars lands, í annan heim. Hér sló hjarta Mosfellbæjar.

Fyrir um áratug byrjuðu ungir strákar að æfa í bílskúr í Mosfellsbænum. Þeir byrjuðu á Smashing Pumpkins lögum en áttuðu sig snemma á því að það væri ömurlegt og fóru að semja eigin lög. Með tímanum óx þeim ásmegin og þeir tóku upp plötu í Mosfelslbænum, máluðu hljóðver til að borga fyrir stúdíótíma.

Steindór í ÁsgarðiNæstu plötu unnu þeir að miklu leyti í Reykjavík, en þeir héldu tryggð við uppruna sinn og um leið og kostur gafst komu þeir sér upp vinnuaðstöðu þar, keyptu sundlaugina gömlu í kvosinni og breyttu í hljóðver. Þegar Sigur Rós var búin að sigra heiminn, sneri hún heim í sína heimabyggð.

Vegspottinn sem settur var á skipulag fyrir tutugu árum óx og dafnaði ofan í skúffu hjá bæjarstjórninni, byggðin sem hann átti að þjóna blés út og hann stækkaði að sama skapi eins og ormur á gulli, glópagulli. Á þessu áttuðu menn sig skyndilega - byggðin í kvosinni hafði þróast til hins betra, Álafosskvosin iðaði af mannlífi og var orðinn einn helsti ferðamannastaður Mosfellsbæjar, en vegurinn þróast til verri vegar og orðinn að ófreskju. Að þvílíkri ófreskju að einsýnt er að verði hann lagður eins og ætlað er er úti um sérstöðu Álafosskvosarinnar, útséð um listalíf það sem, þar hefur þróast, hjartað slitið úr bænum.

Pétur BenÞað er svo gráglettni örlaganna að Gildrumaðurinn Karl Tómasson sé einn helsti fjandi menningarlífsins í kvosinni, nú orðinn forseti bæjarstjórnar.

Nú er það svo að vegaspottinn ógurlegi, Helgafellsvegur er opinbert heiti hans, liggur ekki í gegnum kvosina, en hann liggur utan í kvosinni á þannig stað að úti verður um friðsældina, mengun eykst umtalsvert og mikið lýti verður af þessari framkvæmd. (Það er svo til að bíta höfuðið af skömminni að bæjaryfirvöld skuli birta á vefsetri sínu skekkta mynd af svæðinu eins og sjá má ef smellt er hér. Þessi mynd er nefnilega teygð eins og menn sjá væntanlega um leið, en mér þykir líklegt að það sé fyrir aulagang, frekar en vísvitandi gert.)

Steindór og SigurðurÍ gær voru í Verinu vestur í bæ tónleikar til styrktar Varmársamtökunum, samtökum sem tekið hafa að sér að berjast fyrir lífi Álafosskvosarinnar. Mæting var fín á tónleikana, húsið fullt og rúmlega það, sennilega vel á áttunda hundrað gesta í húsinu.

Á tónleikunum léku hljómsveitir og tónlistarmenn sem unnið hafa í hljóðverinu í kvosinni, Sundlauginni, eða tengast henni á annan hátt. Fram komu Amiina, Sigur Rós, Pétur Ben, Dór DNA, Bogomil Font og Flís og Benni Hemm Hemm. Ýmsir komu einnig við sögu, fluttu tölur og kynningar, fóru með gamanmál og kváðu rímur. Best að taka það fram hér að ég tók þátt í þessari skemmtan, flutti stutta ræðu og kynnti Sigur Rós á svið.

Dóri DNABryndís Schram setti tónleikana, flutti inngangsorð. Henni höfum við margt að þakka, því það var hún sem settist fyrir framan gröfurnar og kom þessari geðveikisframkvæmd þannig í alla fjölmiðla, gerði baráttu í héraði að landsmálabaráttu. Hún nefndi það og í sínu spjalli að baráttan gegn vegnum um kvosina er liður í stærri baráttu, baráttu gegn umhverfisspjöllum og skeytingareysi stjótrnvalda víðar - við byrjum í kvosinni, sagði hún efnislega, næst björgum við Hafnarfirði og svo landinu öllu.

Fyrsta hljómsveit á svið var Amina, sem átt hefur margar stundir í Sundlauginni, en segja má að Amiina hafi verið á sviðinu stóran hluta kvöldsins, því Amiinu-stöllur léku einnig með Sigur Rós og Pétri Ben. Upphafslag þeirra var einskonar elegía vegna kvosarinnar, ábending um hvernig farið getur, en lokalagið upp fullt af von og kærleika. Frábært lag sem hljómað hefur í kollinum á mér síðan.

Sigur Rós spilaði órafmagnað, ef svo má segja, hljóðfæri mækuð upp en ekki rafmögnuð sjálf. Það fannst mér ganga vel upp og viðeigandi af þessu tilefni. Lokalag þeirra félaga var Ágætis byrjun sem segir frá því er þeir luku við Von, plötu sem varð að mestu til í Mosfellbæ, og tilfinningunum sem bærðust með þeim þegar þeir höfðu lokið við hana, léttinum og voninni.

Á fætur Sigur Rósar komu á svið félagar úr listasmiðjunni í Ásgarði og sögðu frá tilurð hennar og starfi sem mér fannst mjög merkilegt. Ég náð því miður aðeins nafni annars þeirra, Steindórs, en frásögnin var góð.

Bogomil FontPétur Ben hefur unnið talsvert í Sundlauginni, gert þar tvær bíómyndir og að auki eina breiðskífu. Sú skífa, Wine for My Weakness, var vel heppnuð og því gat maður átt von á góðum tónleikum frá Pétri. Hann stóð og undir þeim væntingum því frammistaða hans var hreint út sagt framúrskarandi og lögin komu frábærlega vel út, hvort sem þau voru af plötunni eða úr bíómynd.

Þeir félagar Steindór Andersen og Sigurður Sigurðarson, sem aldrei er kallaður annað en Sigurður dýralæknir, tróðu næstir upp, fóru með gamanmál, kveðlinga og vísur, og kváðu svo rímu sem þeir áður tóku upp undir brúnni við Sundlaugina. Mjög skemmtileg uppákoma og bráðfyndin.

UnaSteindór kynnti á svið Halldór Halldórsson, Dóra DNA, sem fór hreinlega á kostum í magnaðri ræðu. Hann byrjaði mál sitt á að rifja upp fyrsta sleikinn sem hann upplifði tólf ára gamall í kvosinni þjóðhátíðardag einn fyrir löngu Hann rakti síðan hve bæjaryfirvöldum í Mosfellsbæ hefur illa tekist upp í viðleitni sinni að gæða bæinn lífi. Sannar ekki Helgafellsvegurinn að þau horfa jafnan í ranga átt? Leyfa græðginni að ráða.

Bogomil Font söng einmitt um græðgina, Perlur fyrir svín, í fínni sveiflu. Frábær hljómnsveit Flís og Bogomil í fínu formi, en þess má geta að skömmu áður átti hann stjörnuleik á trommurnar með Pétri Ben.

Ung stúlka úr Álafosskvosinni, sem ólst þar upp og hefur búið frá barnsaldri, kynnti lokaatriði kvöldsins,  Benna Hemm Hemm, en sagði okkur í leiðinni stuttega frá lífinu í kvosinni, hvernig það var að alast upp þar, fyrstu árin innan um hálfhrunda hættulega kofa og úreltar verksmiðjur sem síðan öðluðust nýtt líf. Færði okkur aðeins nær fólkinu sem býr í kvosinni og vill fá að búa þar í friði - ekki óðelileg ósk, eða hvað.

benni Hemm HemmFáar hljómsveitir eru eins skemmtilegar á sviði og Benni Hemm Hemm, með sín epísku háreistu mögnuðu lög. Því miður fengum við ekki nema þjú lög að þessu sinni, en Benni og félagar stóðu sig frábærlega vel, slógu botninni í fjölbreytta og skemmtilega tónleika með góðan og göfugan tilgang.

(Björg Sveinsdóttir tók myndirnar. Sleppi mönnum við mynd af mér.)

Fékk "vinsamlega" ábendingu um að núlli væri ofaukið. Það hefur verið leiðrétt í færslunni.


... úr allt annarri átt,

Cansei de Ser SexyÁrslistar eru til margs brúklegir en einna best nýtast þeir til að leita að nýrri músík, tónlist sem maður missti af á árinu eða hlustaði ekki nógu mikið á. Víst eru þeir oft svo almennar upptalningar að lítið er á þeim að græða, allir með nýju Dylan plötuna, Scott Walker (ein af þessum plötum sem kemst á lista án þess að menn geti hlutað á hana), Arctic Monkeys allstaðar, Yeah Yeah Yeahs líka og gott ef Band of Horses er ekki á öllum listum.

Skemmtilegast er að rekast á eitthvað sem maður þekkir ekki, að ekki sé talað um ef það er mikil snilld, og þó það gerist því miður ekki oft verður það æ algengara, hugsanlega vegna netvæðingar heimsins, skyndilega opnast fyrr mönnum að til er heill heimur tónlistar sem er fersk, framandlega og spennandi, við þurfum ekki að sitja föst í vestrænni rokkformúlu eða iðnaðarpoppi.

Það er kannski óskhyggja, en síðustu ár hefur mér sýnst ég sjá breytingu á árslistum hjá helstu plötuverslunum á Netinu og gott dæmi árslisti Amazon netverslunarinnar, þar sem tíundaðar eru bestu plötur að mati tónlistarritstjórnar verslunarinnar. Þegar skoðaðar eru þrjátíu bestu plöturnar gefur að líta allt það sem búast mátti við, Dylan, Beck, TV on the Radio og Hold Steady, svo dæmi séu tekin, en kemur á óvart hve margar plötur eru úr allt annarri átt, frá öðrum löndum en þessum venjulegu, Bandaríkjunum og Bretlandi. Fimm plötur er með breskum listamönnum, fjórtán bandarískar, en síðan eru plötur frá ýmsum löndum, ein frá Kanada, ein frá Venesúela, ein frá Ástralíu, tvær frá Malí, ein frá Mexíkó, ein frá Frakklandi, ein frá Noregi og þrjár frá Brasilíu.

Væntanlega þekkja margir kanadísku söngkonuna Neko Case, frönsku sveitina Gotan Project og Ástralina í Wolfmother. Eins má gera ráð fyrir því að einhverjir kannist við norska söngvarann Sondre Lerche og Malímennina Ali Farka Toure og Toumani Diabate, en sá fyrrnefndi lék eitt sinn hér á landi. Væntanlega þekkja svo fáir venesúelsku fjörkálfana í Los Amigos Invisibles, sem sendu frá sér stuðplötuna Superpop Venezuela og rataði á lista Amazon - blanda af fönki, dansdjass, merengue og diskó, en lögin á skífunni, sautján alls, eru einskonar saga venesúelsks vinsældapopps síðustu áratuga. Eins geri ég ráð fyrir að fæstir kannist við mexíkóska parið Rodrigo Sanchez og Gabriela Quintero, sem hafa þó náð hylli á Írlandi sem Rodrigo y Gabriela, en þau leika líflegt kassagítarpopp og taka meðal annars Zepplin-lummuna Stairway to Heaven og  Metallicu-lagið Orion á síðustu skífu sinni.

Af öðru forvitnilegu sem Amazon tínir til er þrjár skífur brasilískar; Tropicalia-safnplata, ný plata Badi Assad og einkar skemmtileg plata CSS, Cansei de Ser Sexy, sem er upp full með nýbylgjukenndu dansskotnu rokki - frábær plata.

Í áratugi hafa útgefendur skammtað okkur tónlist sem iðulega var frekar að sem þeim hentaði að selja frekar en það sem okkur langaði til að heyra og nú þegar netið hefur rutt þeim úr vegi að mestu uppgötvar maður ótalmargt nýtt, hvort sem það er á MySpace, YouTube.com, eMusic, Pitchforkmedia, Stylus Magazine, mundanesounds eða einhverju af þeim milljón músíkbloggum sem dreifa mis-löglegri tónlist.

(Þess má geta að Cansei de Ser Sexy, sem er á meðfylgjandi mynd, heitir eftir heimskulegu tilsvari Beyonce sem sagðist eitt sinn vera leið á því að vera kynþokkafull, cansei de ser sexy upp á portúgölsku.)


Keppt í lýsingarorðaklámi

Sigur Rós í MogganumÍ viðtali við Morgunblaðið fyrir nokkrum árum lét Atli Heimir Sveinsson þau orð falla að menn skyldu hafa hugfast að listir séu ekki íþróttakeppni, "listsköpun snýst ekki um að hreppa verðlaunasæti og enn hefur ekki verið sett heimsmet í listum," sagði hann. Það er nú samt svo að okkur finnst gaman að raða listamönnum í verðlaunasæti, velja bestu bækur, plötur eða myndir, fjasa um þær söluhæstu og svo má telja. Öðrum þræði er slíkt markaðstengt, þ.e. blöð velja lista til að selja fleiri eintök, útvarpsstöðvar spila topplista til að fleiri hlusti og svo má telja. (Líka er gaman að benda öðrum á einhverja snilld sem maður hefur sjálfur uppgötvað, en það er eiginlega til hliðar við þennan pistil.)

Alllengi hafa bókaútgefendur haldið úti bókmenntaverðlaunum sem nokkur sátt gefur verið um, en þau eru fyrst og fremst til að selja bækur, sýnist mér - eftir tilnefningu er merkimiða smellt á allar bækur sem tilnefndar hafa verið til að auka á þeim söluna. Nú veit ég ekki hversu vel hefur tekist til við þá söluaukningu, en skilst að sambærileg verðlaun bresk, Booker verðlaunin, hafi stóraukið sölu á þeim bókum sem tilnefndar eru. Íslensk tónlist á sér líka verðlaun, Íslensku tónlistarverðlaunin (hljómar eiginlega betur að segja Hin Íslensku tónlistarverðlaun, en kannski full hátíðlegt). Þau voru fyrst veitt 1993, en mér skilst að félagsmenn úr rokkdeild FÍH hafi verið upphafsmenn verðlaunanna, en síðastliðin ár hefur Samtónn "verið ábyrgðaraðili Íslensku tónlistarverðlaunanna" eins og það er orðað á síðu þeirra.

Fyrir þeim sem fylgjast með íslenskri tónlist hafa íslensku tónlistarverðlaunin eiginlega alltaf verið hálf hallærisleg og tilnefningar oft svo útúr kú að ekki er hægt annað en skella uppúr þegar þær eru lesnar. Hugsanleg skýring á þessu er að þeir sem um véla eru ekki að fylgjast með íslenskri tónlist og ég get borið vitni um það að í þau tvö skipti sem ég tók þátt í slíku vali var ég hissa á því hve sumt samstarfsfólk mitt í því vali, "samdómarar", var úti að aka, höfðu til að mynda ekki hlustað á alla þá diska sem velja átti úr, en völdu samt.

Tilnefningar vegna síðustu verðlauna þóttu mér til að mynda sérstaklega ankannanlegar, hljómsveit tilnefnd sem bjartasta vonin sem var að gefa út sína þriðju breiðskífu, tilnefnd hljómsveit sem ekki hafði gefið neitt út og svo má telja. (Vilji menn leita lengra aftur má nefna er Björk Guðmundsdóttir söng fyrir milljarða manna á Ólympíuleikunum árið sem Medúlla kom út og fékk enga tilnefningu þó.) Þetta ár er líka slæmt hvað þetta varðar að mínu viti, tilnefningarnar gefa mjög skakka og villandi mynd af tónlistarárinu og fyrir vikið eru Íslensku tónlistarverðlaunin sama ruglið og endranær. Hvernig stendur til að mynda á því að Sigur Rós er ekki tilnefnd fyrir að hafa spilað fyrir þorra þjóðarinnar á þessu ári með magnaðri tónleikaferð um landi síðsumars? (Ekkert tuð um að hún hafi ekkert gefið út, takk, annað eins hefur nú gerst.) Hvernig stendur á því að Jóhann Jóhansson er hvergi að finna? Hvernig stendur á því að Pældu í því sem pælandi (ýmsir flytja Megasarlög) er tilnefnd sem dægurtónlistarhljómplata ársins en Skakkamanage kemst ekki á lista?

Á síðu tónlistarverðlaunanna má síðan lesa rökstuðning dómnefndar sem er hvorki vandaður né ítarlegur: "Frábær frumraun söngkonunnar sem byrjaði að ferðast um heiminn með Gus Gus þegar hún var aðeins 15 ára gömul," segir til að mynda um plötu Hafdísar Huldar, en ekki ljóst hvort rökin fyrir tilnefningunni eru þau að frumraun hennar sé frábær eða að hún hafi ung lagst í ferðalög. "Popp með lúðrasveitaívafi er sjaldgæft og því sérstakt" segir í rökstuðningi vegna tilnefningar Kajak, þeirrar fínu plötu Benna Hemm Hemm. Þess má geta að hann fékk Íslensku tónlistarverðlaunin 2005 fyrir áþekka plötu.

Annars eru þessar "röksemdir" að mestu lýsingarorðaklám: "Afskaplega mikill gleðigjafi", "hljómsveitin sem íslenska þjóðin elskar að elska, aftur og aftur...", "Ein ferskasta rokkplata sem komið hefur út á Íslandi í langan tíma", "Heillandi nýliði ... " "Frábær frumraun ... " (aftur!), "Skemmtileg fjölbreytni ... ", "það er margt í mörgu" (!), ""Hressandi plata með suðrænni stemmningu", "Falleg tónlist ... Klassík fyrir popparana ... ?-)" (!), "Einn óvæntasti gleðigjafi ársins ... Algjör gullmoli!", " ... frábærir textar og æðislegar útsetningar", "SöngvarINN!", "Næstum fullkomið lag!", "Hún er sjúkleg á nýju ... plötunni ... ", "Ein sérstakasta gulrótin í matjurtagarðinum þetta misserið", "Óþarfi að segja meira".

Óttalegur vaðall er þetta. Hvað þýðir það til að mynda að einhver sé "SöngvarINN!"? Og hvað er átt við með þessum orðum: " ... hljómsveitin sem íslenska þjóðin elskar að elska, aftur og aftur..."? Óneitanlega setur þessi "rökstuðningur" Íslensku tónlistarverðlaunin í ankannalegt ljós, en hæfir skel kjafti.


Hugmyndafræðilegur orðaskógur

Joanna NewsomTónleikar Joanna Newsom í Fríkirkjunni fyrr á árinu eru eftirminnilegir fyrir margt og þá kannski helst það að þeir voru einhvernveginn allt öðruvísi en maður átti von á. Í stað gelgjulegrar framúrstefnu, grípandi léttra laglína, stuttra laga og eilítið falsks söngs bauð hún upp á snúna og víraða lagabálka, lög sem flæktust um hugmyndafræðilegan orðaskóg þar sem tónlistin nánast hvarf í flóð orða, setninga sem brotnuðu upp rétt þegar þær virtust nálgast merkingarkjarna, hugsana sem tvístruðust eins og stóðhestahópur á ódáinsengi.

Að þessu sögðu tók Joanna Newsom aðeins þrjú ný lög í Fríkirkjunni, þó maður muni eiginlega ekki eftir nema þessum þremur lögum, en þá er líka til þess að líta að þessi þrjú lög tóku samtals rúman hálftíma í flutningi og voru því helmingur reglulegrar tónleikadagskrár hennar.

Fyrir stuttu kom út önnur breiðskífa Joanna Newsom, Ys heitir sú og hefur að geyma Fríkirkjulögin og tvö lög til, hátt í klukkutíma af tónlist alls. Eins og tónleikarnir títtnefndu gáfu til kynna er sú Joanna Newsom sem birtist okkur á Ys, talsvert frábrugðin þeirri sem heillaði okkur á The Milk-Eyed Mender, víst er þetta sama listakona, en það er eins og hún hafi tekið út áratuga þroska á þeim rúmum tveimur árum sem liðin eru frá því The Milk-Eyed Mender kom út.
Eitt af því sem vekur áhuga og forvitni þeirra sem hagvanir eru í tónlistarsögunni er að útsetningar á plötunni, sem eru íburðarmiklar og ævintýralegar á köflum, eru skrifaðar á Van Dyke Parks, sem er einn sérkennilegasti og fremsti upptökustjóri bandarískrar tónlistarsögu. Parks er frægastur fyrir að hafa unnið með mörgum helstu tónlistarmönnum vestan hafs og austan, til að mynda Beach Boys, The Byrds, Tim Buckley, Ry Cooder, Ringo Starr, Gabby Pahinui og Fiona Apple, en hann sendi líka frá sér sólóskífur á árum áður, sem sumar eru sannkölluð meistaraverk, til að mynda Song Cycle, Discover America og Jump!

Varla þarf að taka fram að Van Dyke Parks er löngu hættur að nenna að vinna nema þau verkefni sem honum þykja skemmtileg og kostar líka sitt að fá hann til starfa. Joanna Newsom lýsti því í spjalli í apríl sl. að hún hafi eiginlega ekki gert sér grein fyrir við hvern hún var að tala, þekkti Parks ekki nema fyrir það sem hún hafði heyrt frá honum og vissi ekki hversu mikils metinn hann var almennt og frægur. Parks tók henni líka vel og eftir að hún hélt prívattónleika fyrir hann og konu hans, flaug til Kaliforníu með hörpuna og spilaði lögin nýju fyrir þau. Hann vildi ólmur vinna með Newsom og sló af taxtanum þar til útgáfa hennar, smáfyrirtækið Drag City, hafði efni á að ráða hann.

Þó erfitt sé fyrir hlustanda að stíga inn í lögin á Ys grípur maður lögin smám saman, úr textabrotunum, upp úr póstmódernísku flóðinu, stíga myndir. Newsom hefur líka gefið lykla að verkinu í viðtölum, þann helstan að lögin fjögur Emily, Monkey & Bear, Sawdust & Diamonds og Cosmia lýsa ári í lífi hennar, fjórir af helstu viðburðum í lífi hennar sem allir áttu sér stað það ár. Fimmta lagið, Only Skin, bindur síðan plötuna saman merkingarlega, tengir saman lögin fjögur í eina heild. Með þetta að leiðarljósi er léttara að rata þó enn eigi maður eftir langt ferðalag.

Að því hún hefur sagt vatt hvert lag smám saman upp á sig og lengdist eftir því sem hún mjakaðist nær því sem hún vildi segja og eins og hún nefndi í vor fór hljómsveit snemma að hljóma í kolli hennar og henni varð líka snemma ljóst að hún þyrfti aðstoð til að búa lögin svo að sómi væri að.

Í fróðlegu viðtali í vefritinu Pitchfork lýsir Newsom því hvernig þau Parks unnu útsetningarnar og fer ekki á milli mála að hún réð ferðinni. Þannig sendi hún honum punkta um hverja textalínu, hvað hún sæi fyrir sér þegar hún syngi hana, stemmningu, lit og áferð. Það var síðan Parks að ná sýninni fram á þann hátt að hún yrði sátt. Og sátt var hún að eigin sögn, segir að Parks hafi sjaldan viljað fara aðra leið en hún lagði til en þegar hann þráaðist við segist hún líka hafa fljótlega áttað sig á að hann hafði rétt fyrir sér.

Þegar Joanna Newsom kom hingað var hún bara með hörpuna í för með sér og því sérkennilegt til að byrja með að heyra lögin komin í fullan skrúða á Ys. Hún varð líka að grípa til sparnaðarráðstafana þegar hún lagði upp í tónleikaferð að kynna plötuna - í stað strengja koma cimbalon og harmonikka - en einir tónleikar að minnsta kosti verða með fullskipaðri sinfóníuhljómsveit því hún heldur tónleika í Barbican í Lundúnum 19. janúar næstkomandi með Sinfóníuhljómsveit Lundúnaborgar.


Magga Stína syngur Megas

Magga StínaÞað er mikil kúnst að túlka lög og einna mest ef verið er að glíma við lög annarra, ekki síst ef við komandi hefur flutt lögin opinberlega sjálfur. Þeir tónlistarmenn eru legíó sem klúðrað hafa slíkum flutningi, en líka mörg dæmi um að menn hafa flutt lög svo vel að upprunaleg útgáfa, hversu góð sem hún annars var, hverfur gersamlega í skuggann. One í flutningi Johnny Cash er gott dæmi um það. Eins nýleg útgáfa Gillian Welch á Radiohead-laginu Black Star. Og Magga Stína syngur Fílahirðinn svo vel að það lag er eiginlega orðið hennar í mínum eyrum.

 

Sumir lagahöfundar eru svo sérstakir flytjendur að erfitt er fyrir aðra að feta í þeirra spor. Víst er erfitt að heyra aðra syngja lög Magnúsar Þórs Jónssonar án þess maður heyri líka óminn af Megasi. Þetta var áberandi á skífunni Megasarlög, sem kom út fyrir nokkrum árum, þó þar hafi margt verið vel gert og svo eins á plötunni Pældu í því sem pælandi er í sem gefin var út fyrir skemmstu. Sumt gengur upp og annað ekki, reyndar ekki nema þrjú lög á síðarnefndu plötunni þar sem Trabant syngur Björt ljós, borgarljós, KK Dauða Snorra Sturlusonar og Rúnar Júlíusson Borgarblús, en í síðasttalda laginu fer Rúnar á kostum. Annað á plötunni er miður og sumt svo slæmt að það er ekki hafandi eftir.

 

Af hverju það er svo slæmt er ekki gott að segja. Sumir þeirra sem koma við sögu á skífunni bera kannski full mikla virðingu fyrir upphaflegri útgáfu, aðrir kunna kannski ekki að meta Megas, hafa jafnvel lítið hlustað á hann og á stundum finnst manni sem söngvarinn skilji ekki textann almennilega. Þeir eru líka margir all-lyklaðir og snúnir svo þeim er kannski vorkunn.

 

Magga Stína hélt tónleika í Salnum um daginn, í miðju slíku óveðri að búið var að vara fólk við að vera á ferli. Veðrið var nú ekki svo slæmt þegar á reyndi og hlýtt og bjart í Salnum, enda var hann smekkfullur af fólki. Hún var að kynna nýja plötu sína þar sem hún syngur lög eftir Megas með hljómsveitarundirleik og var með hljómsveit með sér þó ekki væri það nákvæmlega sama sveit og kemur fram á plötunni.

 

Lögin sem Magga söng í Salnum eru og lögin sem hún syngur á plötunni, þó flutningurinn hafi verið eilítið frjálslegri þetta kvöld eins og við var að búast, ekki síst fyrir frábærlega lipra og lifandi spilamennsku Sigtryggs Baldurssonar, lífrænn og ekki of agaður. Ekki má gleyma öðrum knáum liðsmönnum; Hörður organisti Bragason, Kristinn Árnason gítarfimleikamaður og svo Jakob Smári Magnússon bassameistari.

 

Útsetningar laganna finnast mér einkar vel af hendi leystar og rýmið sem þeim var gefið á tónleikunum dró það líka vel fram hve þessi lög eru vel samin. Fáir eru lagnari lagasmiðir en Magnús Þór Jónsson - hans verk eru gerð af meistarans höndum.

Það er mikil og góð upplifun að heyra listamenn fara höndum um annarra listaverk, ekki síst ef í hlut eiga lög sem hafa tekið sér bólfestu í manni sjálfum. Best af öllu er þegar menn fara svo fimlega með að maður rétt kannast við lag sem maður þekkti áður vel í upprunalegum búningi. Hamskipti Voulez Vous? eru til sannindamerkis um það - víst veit maður hvaða lag um ræðir en þó ekki, hér var komið eitthvað allt annað. Magga Stína gengur ekki svo langt en víða hefur hún sniðið lögin svo til og skorið að þau verða ný, öðlast nýtt líf. Fílahirðirinn hefur þannig verið að mótast í hennar meðförum ansi lengi og er til að mynda býsna breyttur frá því á Náttúrutónleikunum fyrir margt löngu. Stundum vildi maður að hún gengi aðeins lengra, tæki sér meira skáldaleyfi. Þannig lifnaði Aðeins eina nótt ekki vel í höndum hennar og hljómsveitarinnar, í það minnsta ekki fyrir þeim sem man Megas syngja það lag í Óperunni á sínum tíma. Önnur lög fengu svo nýtt rúm í kollinum á manni, sérstaklega Fílahirðirinn og svo Flökkusagan sem var í hreint magnaðri útsetningu þetta magnaða kvöld í Salnum.

 (Björg tók myndina í Salnum.)


Patrick Watson rokkar

Patrick WatsonÁ hverri Airwaves hátíð uppgötvar maður eittvað nýtt, bæði innlent og erlent, stundum eru hljómsveitir miklu betri en plötur þeirra höfðu gefið tilefni til að ætla og stundum standast þær allar væntingar og gott betur. Þannig var það til að mynda með kanadísku hljómsveitina Patrick Watson, sem heitir eftir píanóleikara hennar og söngvara, en hún lék þrívegis á þessari Airwaves hátíð; fyrst í 12 tónum, þá í Þjóðleikhúskjallaranum og loks á Gauknum - allt magnaðir tónleikar og mjög ólíkir.

Sjá hér lokalag tónleikann í Þjóðleikhúskjallaranum:


Víst bjóst maður við því að tónleikar Watsons og félaga yrðu með helstu uppákomum Airwaves að þessu sinni því nýútkomin breiðskífa sveitarinnar, Close to Paradise, er mögnuð (fæst í 12 tónum), en sveitin gerði gott betur, fór hreinlega á kostum.

Þó Patrick Watson, sem sveitin hefur nafn sitt af, teljist kanadískur er hann fæddur í Kaliforníu, en ólst síðan upp í smábæ vestur af Montreal. Allir karlmenn í fjölskyldu hans voru flugmenn og hafði svo verið í einhverja ættliði, en Watson ungi var svarti sauðurinn, vildi frekar syngja en fljúga. Hann byrjaði líka snemma að syngja, var farinn aðsyngja í kirkjukór sjö ára gamall, en stundaði siðar nám í klassískum píanóleik og djass, tónsmíðum, útsetningum og tilheyrandi - hámenntaður músíkant eina og heyra mátti þegar Gnossienne eftir Eric Satie var tekin fyrir á tónleikunum á Gauknum sælla minninga.

Fyrsta hljómsveitin sem hann lék með, Gangster Politics, spilaði ska en entist ekki lengi. Á næstu árum fór Watson að vinna að eigin tónlist og þá að flétta saman stílum og stefnum, allt frá framúrstefnulegri klassík í grípandi popp. Um líkt leyti byrjaði hann að vinna með myndlistakonunni Brigitte Henry og gerði með henni neðansjávarmynda- og tónlistarverkið Waterproof9, en það var síðar gefið út á bók með meðfylgjandi geisladisk og er margverðlaunað. Watson kom gjarnan fram einn um það leyti en eftir stutta heimsókn til Víetnams haustið 2001 fannst honum tími til kominn að setja saman hljómsveit.

Hann byrjaði á að kalla til liðs við sig gítarleikarann Simon Angell, sem lék áður með honum í Gangster Politics, síðan bassaleikarann Mishka Stein og loks trommuleikarann magnaða Robbie Kuster, sem fór hreinlega á kostum á tónleikum sveitarinnar hér á landi um daginn.

Fyrstu plötuna, Just Another Ordinary Day, hálfgerð kynningarupptaka, gáfu þeir félagar út í sameiningu 2003. Smám saman vann sveitin sér nafn með mikill spilamennsku og sló síðan í gegn á rokkhátíð í Montreal. Í kjölfarið gerðu sveitin svo samning við nýtt kanadískt fyrirtæki, Secret City Records, um útgáfu á nýrri breiðskífu.

Eins og Simon Angell rakti söguna á spjalli í kjallaranum á 12 tónum um daginn voru þeir félagar búnir að vinna mikið í lögunum áður en haldið var í hljóðverið haustið 2005, sum laganna sagði hann að þeir félagar hefðu dundað sér við í á annað ár og þó eiginleg hljóðversvinna hafi byrjað haustið 2005 voru þeir búnir að vera að taka upp mun lengur. Patrick Watson semur lungann af lögum sveitarinnar, en þeir félagar hans leggja líka sitthvað til málanna, hvort sem það eru heil lög eða hlutar úr þeim. Ýmsir fleiri komu að gerð skífunnar, til að mynda sat Jace Lasek við takka í nokkrum lögum (frægur fyrir samstarf sitt við Wolf Parade) og Jean Massicotte í nokkrum öðrum laganna. Amon Tobin lagði sveitinni síðan til rafeindahljóð.

Í spilaranum hér til hliðar eru tvö Watson-lög, Giver og Luscious Life sem standa mönnum til boða á vefsetri hans og eins hjá útgáfunni, Secret City Records. Að lokum myndband við Drifters:


Fjórði í Airwaves

BiggiÞað var sannkallaður langur laugardagur á Airwaves - fjörið byrjaði kl. 17:00 og stóð til um kl. 3:00. Þetta var líka einn besti dagurinn og um daginn og kvöldið sá ég þrennt af því sem helst mun lifa í minningunni um Airwaves 2006. Það fyrsta var einmitt eitt það besta sem ég sá - Jóhann Jóhannsson í Fríkirkjunni. Jóhann var öðrum þræði að kynna nýútkomna plötu sína IBM 1401, A Users Manual sem 4AD gefur út. Tónlistin var þó ekki öll þaðan, heyrðist mér, heldur líka nokkrir smellir í bland. Frábær og hrífandi tónlist og ég varð að sitja á mér að faðma ekki alla sem ég hitti í kirkjudyrunum að tónleikunum loknum. Missti mig þó við nokkra, en þeir föðmuðu bara á móti.

Tónleikahald á Grand Rokk fór nokkuð úr skorðum við það að ein hljómsveit dró sig í hlé og því þurfti ég að hinkra aðeins eftir We Made God. Breytingin bitnaði líka á þeim að því leyti að þeir fengu víst ekkert sándtékk eins og heyra mátti á fyrstu lögunum, en síðan small allt saman. Mjög skemmtilegir tónleikar og sérstaklega var síðasta lagið magnað. Þess má geta að ritstjóri Kerrang! sem ég vélaði á tónleikana lauk lofsorði á þá pilta. Veit vonandi á gott.

Vegna seinkunarinnar missti ég af Úlpu og Pétri Ben sem er vitanlega hið versta mál, en mætti þó á réttum tíma til að sjá Bigga með alrafmagnaða hljómsveit. Fyrsta lag sveitarinnar var afbragðs og annað lag ekki síðra. Sveitin er býsna fjölmenn en nær þó vel saman og lögin bera vel útsetninguna. Mér fannst Biggi líka syngja mjög vel og betur en ég hef áður heyrt til hans.

Johnny Sexual var á Gauknum með sitt siðspillta lostadiskó, frábær tónlist ef uppsetningin á sviðinu gekk illa upp. Grafíkin var þó fín og Johnny hæfilega fjörugur miðað við lakónískan sönginn. Myndastyttan með hljómborðið lagði aftur á móti ekki mikið til málanna.

Vegna tafa í Iðnó náði ég í smá af lágstemmdri Kiru Kiru. Í kjölfarið greip ég svo tillögu Atla Bollasonar á lofti og steðjaði upp í Þjóðleikhúskjallara að sjá Hjaltalín. Það var skemmtileg blanda af kammerpoppi og smá tilraunakenndu rokki. Fín sveit og efnileg með frábæran söngvara.

Aftur var haldið af stað niðrí bæ, nú til að sjá Evil Madness. Sú súpergrúppa var þó lengi að hitna og mér fannst til að mynda fyrsti stundarfjórðungurinn heldur klénn, þó aðeins hafi verið slegið í eftir því sem á leið Ekki nógu evil fyrir minn smekk.

Ekkert vantaði aftur á móti uppá fjörið hjá FM Belfast á Pravda, geggjað diskófjör, NB: 21. aldar diskó. Mæli með því að fólk sæki sér lög á myspace.com/fmbelfast (hlustið eða notið MySpaceMP3Gopher).

Við komuna út í Iðnó var Stórsveit Nix Nolte einmitt að stilla upp. Hugmyndin á bak við sveitina var frábær á sínum tíma en er kannski orðin dáldið þreytt. Hvað sem því líður var engin þreytumerki að finna á músíkinni og fyrsta lagið var spilað af íþrótt - mjög skemmtilegt klifunarkennt lag. Annað lag sveitarinnar var aftur á móti heldur venjulegra og við svo búið hélt ég af stað upp í Þjóðleikhúskjallara.

Jen Lekman datt víst inn fyrir Jenny Wilson þegar sú síðarnefnda heltist úr lestinni vegna veikinda.  Hann var einn á ferð með ukulele og fór skemmtilega með; gamansamur náungi og viðkunnanlegur þó hann hafi ekki verið vel undirbúinn fannst manni. Erlend Øye mætti á staðinn og tók með honum eitt lag og í lokin mætti Benni Hemm Hemm með hluta af sínum fríða hornaflokki og sló botninn í lokalag tónleikanna.

Patrick Watson sýndi í 12 Tónum að þar færi ein af stjörnum hátíðarinnar og hann brást ekki í kjallaranum, gríðarlega skemmtilegir tónleikar þar sem hann og sveitin öll fór á kostum. Flottur söngvari hann Watson og hljómsveitin frábær.

Það var komið fram á nótt þegar Patrick Watson söng síðustu laglínuna, klukan að verða tvö, en ég ákvað samt að ég þyrfti aðeins meiri músík og ákvað að skella mér í Nasa að sjá þá Ívar og Guðna Rúnar, Dr. Mister & Mr. Handsome. Þegar ég kom niðreftir var Hermigervill enn að þó komið væri fram yfir áætlaðan tíma hans. Hann vildi og meira og gekk erfiðlega að koma honum af sviðinu. Margt af því sem hann var að spila var gott en sumt fannst mér gamaldags.

Þegar Hermigervill loks þagnaði voru menn skotfljótir að koma upp græjum fyrir strákana, en heldur lengi að tengja tölvubúnað. Það gekk þó á endanum og stuðið byrjaði. Þeir félagar Dr. Mister & Mr. Handsome voru fljótir að koma fjörinu af stað, mikið stuð og skemmtilegt fannst mér þó ég hafi ekki verið í kösinni fyrir framan sviðið - þrælfínt band.

(Árni Torfason tók myndina af Bigga, sjá: arni.hamstur.is)


Þriðji í Airwaves

JakobínarínaMikið var í boði föstudaginn, hálfgerði valþröng. Þannig voru á listanum sextán hljómsveitin sem mig langaði að sjá, en heimskuleg eðlisfræðileg lögmál komu í veg fyrir að það gengi upp.

Eins gott að viðurkenna það strax, ég náði ekki nema í tvö síðustu lögin af Bigga í 12 Tónum. Hefði betur mætt fyrr því þessi tvö lög sem ég heyrði voru hreint afbragð, miklu betri ég ég átti von á. Tónlistin var órafmögnuð að mestu sem átti afskaplega vel við lögin, þó Biggi hafi haft allskyns fyrirvara á því og lagði áherslu á að mestu skipti að sjá sveitina með allt í botni.

Á eftir Bigga kom kanadíska hljómsveitin Patrick Watson. Hún heitir eftir söngvaranum og píanóleikaranum, en aðrir í sveitinni eru henni líka mikilvægir, bæði sem lagasmiðir og sem skapandi hljóðfæraleikarar. Trymbillinn er til að mynda með bestu trommuleikurum sem hingað hafa komið og gítarleikarinn einnig lipur og frumlegur. Þeir félagar slógu ekkert af í 12 Tónum, keyrðu í gegnum nokkur lög af fádæma öryggi og minntu þannig rækilega á nýja plötu sína, Close to Paradise.

Fjörið var ekki búið í 12 Tónum, því næst á svið var Reykjavík! sem spilaði sennilega oftast allra hljómsveita á Airwaves að þessu sinni. Hamagangurinn var magnaður hjá þeim og bensínið í botni allan tímann.

Margir biður eflaust spenntir eftir að fá að heyra í Kimono í 12 Tónum, enda sveitin ekki með á Airwaves að þessu sinni. Þeir Kimono-menn voru þó ekki eins spenntir, vildu ekki halda tónleika nema með eitthvað nýtt í farteskinu og brugðu því á leik; í stað Kimono komu Kimono-börn og spiluðu af fingrum fram í smá stund. Skemmtileg uppákoma, en ekki ýkja innihaldsrík.

Öllu meira innihald og mun meira fjör var í Jakobínurínu sem hituðu sig rækilega upp fyrir spilamennsku seinna um kvöldið með magnaðri frammistöðu í 12 Tónabúðinni. Geggjuð keyrsla og mikið stuð - þeir spengdu nánast utan af sér húsnæðið.

Svo hafði teygst úr fjörinu í 12 Tónum að Baggalútur varð að víkja fyrir frumþörfum. Það kom sér svo vel að vera kominn í stuð aftur þegar Benni Hemm Hemm byrjaði að spila í Listasafninu. Hljómburður í Listasafninu þessa Airwaves-daga var allt frá þvi að vera frábær í að vera skerandi óþægilegur eins og kom í ljós síðar þetta kvöld. Ég get svosem trúað því að erfitt sé að hljóðstýra hljómsveit á við Benni og blásara hans, en það tókst merkilega vel - krafturinn í lúðrablæstrinum skilaði sér  mjög vel og eins hálfrafmagnaðar raddirnar. Það hjálpaði til að gera þessa uppákomu eins skemmtilega og hún vissulega var.

Islands var eina af þeim hljómsveitum sem ég hlakkaði mikið til að sjá og stóð undir væntingum. Ég átti reyndar ekki von á eins mikilli sýru, eins miklu djammi, en það gerði sveitina bara skemmtilegri.

Einar Sonic stakk því að mér að ég ætti að kíkja á norsku sveitina 120 Days sem spilaði á Gauknum og ég sé ekki eftir að hafa farið að hans ráðum því það var magnað stuð í gangi - þétt krautrokkkeyrsla, eiginlega diskósíbylja.

Fyrst ég var kominn á staðinn ákvað ég að bíða aðeins eftir Mammút, ekki séð sveitina í nokkurn tíma. Sú bið var vel þessi virði, því Mammút hefur tekið miklum framförum og breyst talsvert. Ekki er bara að nýr bassaleikari ber með sé nýja stemmningu heldur er sveitin greinilega að vinna í gítarhljómum og -samspili. Nýju lögin eru líka sterk, vek mótið og kröftug.

Í Nasa héldu menn Kerrang! kvöld líkt og þeir hafa gert áður. Þegar ég mætti þangað var franska metalsveitin Gojira að koma sér af stað með miklum tilfæringum við trommusettið. Það kom svo snemma í ljós af hverju svo mikið var stússað við trommurnar því trymbill sveitarinnar er magnaður. Mikið hefði líka verið gaman ef aðrir hljómsveitarmenn hefðu staðið honum á sporði - í fyrsta laginu hugsaði maður: "Djö... er þetta góður trommari." Í þriðja laginu: "Hmm ... ekkert nema trommarinn."

Í Listasafninu var Jakobínarína að klára með látum og ekki minna stuð hjá þeim en í 12 Tónum. Erfitt þó að ná til áheyrenda í Listasafninu og staður sem henta kannski ekki vel fyrir þá pilta.

Í kjölfar Jakobínurínu kom Go! Team og mikil eftirvænting í salnum. Sveitin fór líka af stað með látum, fullmiklum látum kannski. Svo mikil keyrsla var a græjunum að maður fékk snemma höfuðverk af skerandi hvellum hljómnum og á endanum forðaði ég mér út. Mikil vonbrigði, kannski þau mestu þetta árið.

Vegna seinkunar á dagskrá í Nasa var Mínus ekki byrjuð þegar ég mætti þangað aftur. Sveitin er að koam sér í gang aftur eftir gott frí og byrjar fersk - nýju lögin tvö sem þeir félagar byrjuðu með hljóma einkar vel, grípandi kraftmikið rokk.

Frá Nasa rauk ég út í Nasa og náði í skottið á Ghostigital. Þeir félagar Einar og Curver voru einir á sviðinu líkt og eir höfðu hagað málum í langri tónleikaferð sinni um Bandaríkin og kom mjög vel út að mér fannst, lögin nutu sín betur en oftast áður og búningurinn fór þeim vel; minna af gítar.

(Árni Torfason tók myndina af Jakobínurínu, sjá: arni.hamstur.is)


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 12
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 12
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband