Færsluflokkur: Tónlist

Annar í Airwaves

Tilly and the WallÁ pappírnum var ekki eins margt spennandi í boði annað Airwaves-kvöldið og það fyrsta, en það rættist heldur en ekki úr. Kvöldið byrjaði til að mynda mjög vel með fínni frammistöðu Johnny Sexual í 12 Tónum. Tónlistin skemmtilegt technodiskó með súrum textum. Annað var ekki í boði í bili, enda hætti Tilly and the Wall við að koma fram í búðinni vegna veikinda.

Fjörið hófst svo fyrir alvöru í Listasafni Reykjavíkur kl. 19:00 þegar Ske hóf leik sinn. Nýir liðsmenn voru áberandi í sveitinni, magnaður trommuleikar og síðan Höskuldur Óafsson, forðum söngvari Whool. Skemmst er fráþví að segja að Höskuldur stóð sig afbragðsvel, svo vel reyndar að ég var að spá í það um tíma af hverju hann væri í Ske. Svo bráði af mér og ég áttaði mig á að það sem fór í mig var að gömlu Skelögin pössuðu einhvernveginn ekki í rokkbúninginn, hér stóð olnbogi útúr og þar of stuttar skálmar. Nýju lögin gengu aftur á móti vel upp, en heldur fannst mér mikið tilfinningaklám í lokalaginu.

Þau hjón í Mates of State kunna vel að fara með hlutina; sönnuðu að einfaldleikinn er bestur. Trommur, hljómborð og tvær samstilltar söngraddir skiluðu mun meiri spennu og dramatík en fullt hús hljóðfæraleikara. Miklu skiptir vitanlega að lögin eru góð, en spilamennskan líka góð, þrátt fyrir hrösun hér og þar á hljómborðinu. Lokalagið var snilld - hrífandi útgáfa af Punchlines. Það eina sem ég saknaði er að fá ekki Running Out, besta lagið af Bring it Back.

Einhver seinkun hafði orðið í Nasa og því ná ég í blábyrjunina hjá Lay Low. Hún er gríðarlegt efni stelpan sú, afbragðs söngkona, góður lagasmiður og góður flytjandi. Sveitin hennar var líka fín og útsetningar vel unnar. Það eina sem stóð í mér voru textarnir, það var eins og þeir væri ekki um neitt, að henni lægi ekkert á hjarta. Fyrir vikið fékk ég snert af krútteitrun og varð frá að hverfa eftir nokkur lög, ákvað að fara út í Listasafn og bíða þar eftir Tilly and the Wall.

Á leiðinni í Listasafnið ákvað ég að kíkja aðeins inn á Gaukinn og eins gott að ég gerði það því þar var Skakkamanage í fínu formi. Frábær frammistaða sveitarinnar og mögnuð spilamennska - mig dauðlangaði að rjúka heim að hlusta á nýju Skakkamanageplötuna þegar þau höfðu lokið sér af.

Tilly and the Wall er sérkennileg sveit um margt, þrjár stelpur og þrír strákar, sem er ekki merkilegt í sjálfu sér, en sveitin sker sig úr fyrir að það er enginn trommuleikari í henni, heldur er takturinn framkallaður með fótunum - í sveitinni er steppdansari sem dansar á hljóðnemavæddum palli. Þar virkaði alla jafna afskaplega vel og ekki saknaði ég trommuleiks. Tónlist sveitarinnar er líka í fínu lagi, heldur meiri hamagangur reyndar en á breiðskífunni Wild Like Children, en nær því sem heyra má á Bottoms of Barrels. Á köflum fannst mér reyndar eins og sveitin væri að leggja of hart að sér, væri að vaða yfir áheyrendur frekar en að hrífa þá með sér.

Eftir smá skammt af Tilly and the Wall fór ég á Gaukinn og sá My Summer as a Salvation Soldier, sem mér er nú tamara að kalla Þóri. Skemmst er frá því að segja að hann stóð sig sérdeilis vel og gaman að heyra ný Þórislög. Það segir sitt um hve vel honum tókst upp að drykkjuskvaldur á staðnum hætti nánast alveg undir það síðasta - ef mann tekst að heilla drukkna blaðamenn og plötubransalið svo að það gleymir stælunum um stund þá er vel að verki staðið.

Af Gauknum hélt ég út í Iðnó að reyna að ná einhverjum af skjólstæðingum Bedroom Community og kom inn í tónleika Nico Muhly. Þar var heldur en ekki ævintýralegt stuð í gangi, magnaður bræðingur af pínaóspuna, framúrstefnulegri taktfléttu og fiðlufantasíu - einskonar nútímaklassík. Muhly er frábær píanóleikari og gaman eð heyra hvernig hann notaði píanóið sem einskonar slagverkshljóðfæri.

Á eftir Muhly kom Mugison en ekki á sama stað, spilaði í Listasafninu. Ég saknaði nýrra laga hjá honum, en það kom svosem ekki að sök því gömlu lögin eru góð og með svo magnaðar sveit og hann hefur komið sér upp hlaut útkoman að verða fyrsta flokks. Gaman að sjá (og heyra) Pétur Hallgrímsson á sviði að nýju.

Eftir nokkur lög af Mugison dreif ég mig upp í Þjóðleikhúskjallara og náði þar í smá skammt af Seabear. Mér skilst að í vændum sé plata með sveitinni á vegum Morr og ástæða til að hlakka til því lögin eru frábær og flutningur með miklum ágætum.

(Árni Torfason tók þessa fínu mynd af Tilly and the Wall. Sjá: arni.hamstur.is)


Fyrsti í Airwaves

at061018_forgotten-lores_006.jpgFyrsti í Airwaves var í gær og óvenju fjölbreytt dagskrá á miðvikudegi. Þegar við bætist að meira er í gangi á sunnudaginn en áður vantar ekki mikið upp á að hátíðin standi í heila viku. Mæting var líka fín í gærkvöldi, meira að segja fullt útúr dyrum á Grand Rokk og Gauknum og komust færri að en vildu. Það var líka fín mæting á Nasa, ekki alveg fullt fyrr en undir það síðasta, þannig að fólk þyrstir í tónlist sem aldrei fyrr.

Tók daginn snemma og byrjaði í 12 Tónum kl. 17:00 að sjá My Summer as a Salvation Soldier eða bara Þóri. Hann var fínn að vanda, nýju lögin hreint afbragð og ekki skemmdi að skömmu eftir tónleikana rétti hann mér upptöku af þeim - svona eiga sýslumenn að vera!

Rökkurró var næst á svið og stóð sig vel að vanda. Rólyndislegt kammerpopp sem lofar góðu, Skilst að 12 Tónar séu að semja við sveitina um samstarf og að Þórir ætli að vinna með sveitinni. Líka að þau haldi sameiginlega tónleika fyrir jól. Meira um það síðar.

Dagskráin riðlaðist lítillega, en ég átti að hitta sjónvarpsmenn kl. 19:00 til að vera í beinni Airwaves-útsendingu, en þeir mættu í 12 Tóna og rúlluðu inn viðtali þar, skilst að hvalafréttir (kvalafréttir) hafi rutt öllu til hliðar og því hafi verið hætt við að taka púlsinn í beinni.

Tími gafst því til að ljúka við lærða langloku um Ohran Pamuk sem ég hendi kannski inn á næstunni, læt hana gerjast aðeins og birti kannski í Mogganum fyrst. Að því loknu fór ég á kreik aftur og eftir smá flæking á milli staða staðnæmdist ég á Grand Rokk þar sem mér tókst að kjafta mig inn þó staðurinn vær smekkfullur eins og dyraverðir sögðu og biðröð fyrir utan, þó ekki væri hún svo ýkja löng.

Á Grand Rokk var Retro Stefson í mikilli sveiflu þegar ég komst loks upp í fjörið, byrjaði kl. 21:00. Mjög skemmtilegt band sem ég hafði ekki áður séð spila, en heyrt lög af MySpace síðu sveitarinnar. Retro Stefson spilar skemmtilegan bræðing af karíbsku poppi, rokki, chanson-sveiflu og salsa og syngur á nokkrum tungumálum. Sveitin er átta manna, tveir gítarleikara, trommur bassi, slagverk og nokkur hljómborð, mis-nútímaleg. Söngvari sveitarinnar og leiðtogi á svið er góður, röddin skemmtilega hrein þó ekki sé hún mjög öguð, og spilagleðin smitast út til áheyrenda. Fyrirtals gítarleikur, skemmtilega "cheesy" hljómborð og fínn bassaleikur þó bassaleikarinn hafi verið álíka hár og bassinn. Mjög efnilegt band.

Sprengjuhöllin var næst og fulllengi að koma sér á svið fannst mér, átti að byrja kl. 21:45 en syndgaði eitthvað uppá það. Tónlistin er hátimbrað húmorískt viðlagapopp, söngur yfirdrifinn og skemmtilegur, mikil dramatík í laglínum og sprett úr spori nokkuð reglulega.  Mjög skemmtileg, en kannski fullmikill menntaskólabragur á köflum.

Bent tróð upp á Nasa, átti að byrja kl. kl. 22:00, en var heldur seinni af stað, og kom skemmtilega á óvart hvað mæting var fín þó ekki hafi hún verið eins mikil og uppi á Grand Rokk. Hann var hálf einmanalegur á stóru sviðinu til að byrja með en fljótur að komast í gang. Textarnir fínir hjá honum og flutningurinn í góðu lagi, en taktarnir skiluðu sér ekki nógu vel út í sal framan af.

Mest aðsókn var á Gauknum, en þar áttu We Are Scientists að spila frá kl. 22:300 þó þeir hafi verið seinna á ferð eins og flest reyndar þetta kvöld. Það kostaði miklar þrengingar að komast inn á Gaukinn, man ekki eftir öðrum eins troðningi þar inni. Lét mig berast með straumnum í átt að sviðinu og því á ágætum stað þegar sveitin byrjaði að spila. Þeir voru heldur venjulegir fannst mér, lögin fín, vel spiluð og skemmtileg, en samt vantaði einhvern neista, eitthvað sem gerði þetta sérstakt.

Komst út um síðir og fór á Nasa þar sem Fræ var að byrja að spila, átti að byrja 22:45, en voru að byrja um ellefuleytið. Þau fóru á kostum, batna með hverjum tónleikum, en viðlagið í Freðnum fávita er fullfreðið orðið fyrir minn smekk.

Eftir smá skammt af Fræi hélt ég yfir á Gaukinn að sjá Diktu sem átti að byrja kl. 23:30. Þeir voru koma sér fyrir á sviðinu þegar ég kom þar inn, staðurinn nánast fullur en ekki yfirfullur eins og fyrr um kvöldið. Þegar Dikta byrjaði að spila bætti þó heldur í með tilheyrandi troðningi. Sveitin er geysiþétt og magnað að sjá hana á sviði; tónleikahald í útlöndum er alltaf góð lexía. Ein fremsta rokksveit landsins.

Þegar ég kom á Nasa aftur var Original Melody enn að spila, áttu að byrja á sama tíma og Dikta. Mikið stuð og mikið fjör, handapat og tilheyrandi, geggjað partíband.

Síðan var komið að aðalbandi kvöldsins að mínu viti, Forgotten Lores. Þeir voru í meira lagi magnaðir, taktarnir framúrstefnulegir og beittir og textagerðin framúrskarandi. Ég hef áður getið um það hvernig þeir stálu senunni á Airwaves 2004, en anno 2006 þurftu þeir engu að stela, þeir áttu kvöldið.

Í  Viðskiptablaðinu í gær var rætt um að FL Group væri að spá í að kaupa hlut í Árvakri - líst nú betur á FL Krew.

(Árni Torfa tók myndina af FL Krew.)


Sony sökkar!

Á meðan Sony heldur sig við Sonic Stage hugbúnað til að koma tónlist inn á spilara sína er engin von til þess að nokkur vilji eiga MP3-spilara frá Sony. Mér er til efs að verri hugbúnaður hafi verið fundinn upp, hægvirkur, óstöðugur og nánast óskiljanlegur. Þeir sem glíma þurfa við hann fara fljótlega að hata Sony, sjálfa sig fyrir að hafa látið blekkjast til að kaupa vöru frá fyrirtækinu og að lokum tónlist almennt. Svona fer fyrir þeim sem kjósa helsi frekar en frelsi.

 


mbl.is Sony kynnir nýja MP3-spilara með sérstaklega góðum rafhlöðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Beðið eftir Goldberg

Angela HewittFyrir nokkrum árum fékk Hyperion-útgáfan breska kanadíska píanóleikarann Angelu Hewitt til að taka upp syrpu af plötum með tónlist eftir Johann Sebastian Bach. Hewitt er einn af fremstu píanóleikurum okkar tíma, gríðarlega næm og býr yfir mikilli tækni. Ekki hef ég heyrt alla diskana sem hún hefur tekið upp fyrir Hyperion, en af Bach hefur hún spilað inn á fimmtán diska og einnig tekið upp verk eftir Chabrier, Chopin, Couperin, Messiaen og Ravel. Þriðji diskurinn sem Angela Hewitt tók upp í Bach-röðinni fyrir Hyperion var með Goldberg-tilbrigðunum, en af því verki eru margar útgáfur frægar og sumar umdeildar.

Bach samdi tilbrigðin fyrir táninginn Johann Gottlieb Goldberg 1741 og þá fyrir sembal, enda ekki búið að finna upp píanóið eins og við þekkjum það í dag. Fyrst til að spila verkið á þannig hljóðfæri á okkar tímum var Wanda Landowska sem fræg varð fyrir upptöku sína á því 1933. Hún tók það upp aftur 1945 en þá útgáfu þekki ég ekki. Sú fyrri er aftur á móti ævintýraleg í meira lagi, því þó sembal hafi frekar takmarkað tónsvið lifna tilbrigðin í höndum Landowska og hrynskipanin er stórbrotin. Á sínum tíma hugðist RCA gefa Goldberg tilbrigðin út í flutningi Claudio Arrau, sem var þá frægur fyrir flutning sinn á Bach, en síðan var ákveðið að láta hans upptöku bíða og gefa frekar út upptöku Wanda Landowska. (Upptakan með Arrau kom ekki út fyrr en 1988, en hann gaf á sínum tíma fúslega leyfi til að fresta útgáfunni enda var hann ekki sannfærður um að píanó hentaði til að flytja tilbrigðin.)

Bandaríski píanóleikarinn Rosalyn Tureck er gjarnan talin með bestu Bach-flytjendum og útgáfa hennar af tilbrigðunum er vissulega frábær, en full fáguð fyrir minn smekk. Meira gaman hef ég af kanadíska píanóleikaranum Glenn Gould sem tók upp einkar skemmtilega útgáfu af Goldberg tilbrigðunum 1955 - á köflum snargeggjaða finnst manni, en síðan koma kaflar af innblásinni snilld. Það kemur ekki á óvart að þessi útgáfa Goulds hafi vakið umtal og deilur, en hitt vita færri að þegar fyrstu Voyager geimflauginni var skotið á loft með ýmsar upplýsingar um mannkyn innan borðs, teikningar og skýringarmyndir, var plata með Goldberg-tilbrigðunum í flutningi Goulds frá 1955 látin fylgja og leiðbeiningar um hvernig ætti að spila hana.

Til viðbótar við Landowska, Tureck og Gould á ég til þrjár upptökur til af Goldberg tilbrigðunum; Pierre Hantaï sem Opus 111 gaf út og svo hins vegar enn betri útgáfu sem er tilefni þessara hugleiðinga, nefnilega upptöku Angelu Hewitt á verkinu frá því í ágúst 1998.

Hewitt var bókuð í upptökur í Lundúnum 17.-19. ágúst 1998. Hún tók verkið upp á þeim tíma og fagnaði síðan að verkinu væri lokið kvöldið 19. ágúst. Eftir að hún hafði matast með vinum sínum barst takið að Golbgert tilbrigðunum og hvaða tökum hún hefði tekið verkið. Til að skýra mál sitt bauð hún viðstöddum á impromptu tónleika uppi í hljóðveri og hélt þangað með hersinguna. Tæknimaður sem staddur var á staðnum hafði rænu á að kveikja á upptökutæki og þegar Hyperion-stjórar heyrðu upptökuna vissu þeir að þar var komin besta útgáfan og sú sem var á endanum gefin út.
 
Sem ég sat um daginn og hlustaði á Rosalyn Tureck spila Goldberg-tilbrigði Bachs langaði mig skyndilega til að heyra flutning Hewitt á því sama verki, en þann disk átti ég niðri í tónlistarherbergi, eða svo hélt ég í það minnsta. Eftir nokkra leit var diskinn aftur á móti hvergi að finna - einhver líkastil fengið hann að láni fyrir löngu og gleymt að skila. Nú eða ég gefið hann í tímabundnu æðiskasti.

Það er sama hvað margar plötur eru til í safninu - þegar mann langar til að heyra eitthvað ákveðið kemur ekkert í staðinn. Mér sýndist að það yrði ekki mikið mál að bæta úr því að Hewitt vantaði í safnið, ég myndi bara bregða mér í bæinn og kaupa annað eintak - það getur komið sér vel að eiga tvö eða fleiri eintök af frábærri tónlist.

Hewitt leiðangurinn hófst í Skífunni í Kringlunni, sem var einu sinni helsta plötubúð landsins. Gott ef salan í þeirri búið var ekki jafn mikil og í öllum plötubúðum öðrum í Reykjavík samanlagt fyrir nokkrum árum. Það er þó af sem áður var - hending ef maður sér nokkurn mann þar inni og smám saman er búðin að breytast í háfgerða skranbúð hvað varðar tónlist, hvað þá sígilda tónlist. Lítið sem ekkert úrval af klassík, aðallega ódýrir diskar, Naxos og annað merki sem ég veit ekki deili á. Verðið segir reyndar ekkert til um gæðin, til að mynda eru Naxos diskar margir frábærir, en engan disk fann ég með Angelu Hewitt.

Fyrir nokkrum árum var mjög metnaðarfull deild með klassískri tónlist í Skífunni á Laugavegi en hún er löngu horfin og eins flestir þeir rekkar sem geymdu slíka tónlist eins og ég sá við komuna þangað. Það þótti mér reyndar merkilegt hve úrvalið er orðið lítið á slíkri tónlist, tíu til fimmtán diskar af Bach var allt og sumt af verkum hans, mestmegnis kantötur og engin Angela Hewitt.

Nú er málum svo háttað að Skífan ber ægishjálm yfir alla aðrar plötusjoppur hér á landi; mér skilst að fyrirtækið sé með ríflega 70% af plötusölu á sinni hendi. Það er því stóralvarlegt mál að mínu viti þegar aðili sem komist hefur í slíka yfirburðastöðu, með blessun samkeppniseftirlitsins, nota bene, skuli taka slíkt skref að hætta nánast að selja sígilda tónlist.

Af leitinni að Hewitt er það annars að segja að hún er víst á leiðinni í 12 Tóna sögðu menn þar er ég leitaði þangað, pöntun væntanleg. Það má svo geta þess að í 12 Tónum var engin þurrð á klassík, til að mynda eitthvað á annað hundrað titla með J.S. Bach.


Allur tilfinningaskalinn

Under byenÞegar danska hljómsveitin Under byen steig sín fyrstu spor fyrir um áratug vakti meðal annars athygli manna að sungið var á dönsku, nokkuð sem menn áttu ekki að venjast í Danmörku - þar var þá, og er reyndar enn, alsiða að sungið væri á ensku. Þegar söngkonan og textahöfundurinn Henriette Sennenvaldt var spurð um þetta atriði í viðtali fyrir nokkru sagði hún að til að byrja með hefði hún sungið á ensku vegna þess að henni fannst auðveldara að syngja hana en dönskuna, en síðan fannst henni holur hljómur í enskunni, að hún næði ekki jafn vel til áheyrenda og ef hún notaði dönsku.

Þetta rímar nokkuð vel við það sem Björk Guðmundsdóttir sagði í viðtali fyrir nokkrum árum - henni hefði liðið eins og hún væri að ljúga þegar byrjaði að syngja á ensku, svo langt fannst henni frá tilfinningunni sem hún var að tjá í tungumálið erlenda sem hún notaði til að tjá þær. Með tímanum hefur hún eflaust minnkað þetta bil, en þegar maður heyrir frá henni stök orð eða setningar á íslensku í lögum hennar finnur maður að þau orð koma beina leið frá hjartanu og rata skemmri leiði beint í hjartastað þess sem hlustar.

Það eru fjölmargar ástæður fyrir því að menn syngja á öðru tungumáli en sínu eigin, en að mínu viti er það oftast ótti sem verður til þess, ótti við orð, við tilfinningar. Þannig getur söngvari horft í augu hundruða áheyrenda og sungið "I love you" en ef hann á að segja þau orð á íslensku roðnar hann og stamar. Prófaðu þetta ágæti lesandi og finndu hvernig íslensku orðin hafa allt aðra og dýpri merkingu en þau ensku, hvernig maður fyrirverður sig eiginlega að vera segja annað eins við ókunnuga upp á íslensku, en getur svosem látið það vaða á ensku. (Þeir sem eiga annað móðurmál en íslensku get snúið þessu við til að finna sömu áhrif.)

Tilfinningavirkið í hausnum á okkur er allt byggt upp á móðurmálinu og fyrir vikið næst best samband við tilfinningarnar í gegnum móðurmálið. Ég hef því aldrei skilið hvers vegna tónlistarmenn sem eru að syngja fyrir Íslendinga nota ekki allan tilfinningaskalann, hvers vegna þeir breiða teppi yfir lögin áður en þau eru borin á borð fyrir áheyrendur, hvers vegna þeir ganga ekki alla leið. Nema þeir hafi ekkert að segja.

Á þessu ári hafa mér borist sextíu íslenskar plötur ólíkrar gerðar og mis-góðar eins og gengur. Af þeim eru sjö án söngs, nítján á ensku og ein á ensku að mestu. Einhverjar af þeim plötum sem sungnar eru á ensku eru gefnar út ytra og því skiljanlegt að því leyti að menn séu að syngja á alþjóðlegu tungumáli, en flestar þó gefnar út fyrir íslenskan markað og stendur ekki til að gefa þær úr erlendis að því ég best veit.

Mín reynsla er sú að það sé ákveðinn þröskuldur á íslenskum markaði fyrir þá sem syngja á ensku, þær plötur seljast almennt betur sem notast við það mál sem flestir skilja og gildi einu hvort verið sé að syngja um eitthvað sem skiptir máli eða bulla út í eitt. Þó eru dæmi um íslenskar plötur sem sungnar hafa verið á ensku og selst bráðvel hér á landi þannig að ekki er það einhlítt.

Að þessu sögðu má gera ráð fyrir að einhverjir af þeim sem senda frá sér ísl-enskar plötur sem ég hef heyrt á árinu séu að horfa til útlanda - syngi á ensku til að auðvelda sér leið á erlendan markað. Það er þó hægar sagt en gert, þarf til mikla hæfileika eins og dæmin sanna og líka það að vera öðruvísi, að skera sig úr. Til dæmis að syngja á íslensku.

(Rétt er að geta þess að myndin er af Under byen. Henriette Sennenvaldt er lengst til vinstri. Til gamans má svo nefna að ég er á leið til Kaupmannahafnar í byrjun desember með það að markmiði að sjá hljómsveitina á sviði öðru sinni, en ég sá hana fyrst í Árósum fyrir nokkrum árum.)


Franskur metall

GojiraRétt að bæta við á Airwaves-listann frönsku rokksveitinni Gojira sem er hreint mögnuð. Hef mikið hlustað á nýja plötu hennar undanfarið, From Mars to Sirius.

Gojira er upp runnin í bílskúr skammt frá Bayonne fyrir um áratug, stofnuð af bræðrunum Joe og Mario Duplantier, sá fyrrnefndi spilar á gítar og syngur en sá síðarnefndi á trommur. Síðar slógust í hópinn Jean-Michel Labadie sem spilar á bassa og Christian Andreu á gítar.

Sveitin byrjaði undir nafninu Godzilla, en skipti um nafn skömmu áður en fyrsta platan kom út, en nýtt nafn, Gojira, segja þeir að sé japönskun á Godzilla.

Sveitin hefur verið iðin við spilamennsku heima í Frakklandi og plötur hennar hafa selst prýðilega að sögn. Fyrst kom út Terra Incognito, þá The Link og nú síðast From Mars to Sirius, sem kom út í Frakklandi í fyrra en er nú fyrst að koma út víðar um heim.

Gojira er býsna þung sveit, svolítið gamaldags en afskaplega skemmtileg og góðir sprettir hjá söngvara og trommuleikara sérstaklega. Hægt er að hlusta á allar plötur sveitarinnar á vefsetri hennar, www.gojira-music.com/. Mæli sérstaklega með Ocean Planet og From the Sky af nýju plötunni - það síðarnefnda er geggjað lag.


Blóðfjallið klifið

MastodonInnan tónlistarinnar rúmast margir kimar, menningarkimar og ómenningarkimar, óteljandi afbrigði af tónlist geta af sér óteljandi klíkur sem láta kannski duga að hlusta á tónlistina, en oftar en ekki fylgir sérstakur klæðaburður "einkennisbúningur" og hegðan. Allt er þetta til þess fallið að treysta samloðun hópsins; klíkufélagar standa saman gegn öðru klíkum og ekki síst gegn yfirvöldum eða yfirvaldi - þátttaka í hóp er uppreisn gegn ríkjandi hóp, ríkjandi smekk, ríkjandi tísku.

Gott dæmi um þetta er þungarokkið þar sem menn skipast í hópa efir því hversu harða tónlist þeir hlusta á, eða eftir inntaki texta eða eftir klæðaburði. Allt skarast þó og þannig hafa margir Slayer-vinir líka einhverja skemmtun af poppi á við Iron Maiden og þeir sem dá Meshuggah hlusta líka á Audioslave þó kannski ekki nema með öðru eyranu. Þungarokkunnendur eru semsagt flestir umburðarlyndir gagnvart öðru þungu rokki, enda finnst þeim sem þeir séu allir á sama báti þó hver sé í sinni káetu.

Málið vandast aftur á móti þegar lið úr annarri deild fer að kássast upp á jússurnar, þegar "indí"-lið fer að hlusta á þungarokk, mætir kannski á Slayer-tónleika í Sonic Youth bol eða þaðan af verra. Þá er hætt við að hinir hreintrúuðu snúi sér annað, saki hljómsveitir sem höfða til slíkra áheyrenda um listrænt hórerí; um að hafa svikið málstaðinn.

Bandaríska rokksveitin Mastodon glímir einmitt við þetta vandamál um þessar mundir. Sveitin spilar geysiþétt og hart þungarokk með grófum öskursöng, dæmigerð metalsveit um margt en síðasta plata hennar, Blood Mountain, hefur náð eyrum fjölmargra annarra en þungarokkvina. Nægir að nefna að hljómsveitin hefur verið áberandi í tímaritum og á vefsetrum sem alla jafna fjalla helst um nýbylgju og tilraunakennt rokk.

Mastodon er sprottin úr prog-rokksveitinni mögnuðu Today Is the Day, en þeir Bill Kelliher og Bränn Dailor voru báðir meðreiðarsveinar Steve Austin í Today Is the Day, sá fyrrnefndi á gítar og sá síðarnefndi á trommur. Today in the Day var og er fræg fyrir bræðing af þungarokki, harðkjarna og óhljóðum en þeir Kelliher og Dailor áttu ekki skap við Austin og stoppuðu þar stutt.

Kelliher og Dailor bjuggu þá í New York fylki en fluttust til Atlanta í leit að meira fjöri. Þar hittu þeir fyrir bassaleikarann Troy Sanders og gítarleikarann Brent Hinds, sem báðir eru að auki traustir söngvarar. Svo vel fór á með fjórmenningunum að þeir ákváðu að slá sama í hljómsveit og voru ekki lengi að semja upptökuhæft efni. Fyrstu upptökurnar sem Mastodon gerðu þeir vorið 2000 og héldu síðan í mikla tónleikaferð um Bandaríkin, ýmist að þeir héldu tónleika einir á smábúllum eða þeir hituðu upp fyrir ekki ómerkari sveitir en Queens of the Stone Age, Morbid Angel og Cannibal Corpse. Svo vel stóðu þeir félagar sig á sviði að eftir var tekið og dugði til að þeir fengu samning hjá rokkútgáfunni góðu Relapse.

Fyrsta Mastodon-platan var stuttskífan Lifesblood sem kom út haustið 2001. Fyrsta breiðskífan var svo hljóðrituð síðar um haustið með Matt Bayles við takkana, en hann er meðal annars þekktur fyrir að hafa unnið með þeirri frábæru sveit Isis. Remission hét platan og kom út snemma árs 2002. Það ár og fram eftir 2003 var sveitin síðan á tónleikaferðalagi meira og minna og kom meðal annars hingað til lands og lék á tvennum tónleikum um miðjan júlí 2003, en þá þegar voru fleiri en þungarokkvinir farnir að sperra eyrun, ekki síst fyrir það hve sveitin þótti mögnuð á tónleikum.

LeviathanHaustið 2003 hófst vinna við nýja plötu sem kom svo út í ágúst 2004 og hét Leviathan. Eins og sjá má af umslagi plötunnar er viðfangsefnið hvíti hvalurinn Moby Dick og nokkur lög á plötunni beinlínis samin uppúr bókinni eftir Herman Melville. Platan fékk frábæra dóma, en einhverjir kvörtuðu þó yfir því að þeir félagar hefðu teygt sig of langt frá þungarokkinu í átt að framúrstefnulegu rokki, að of mikið "progg" væri á plötunni og hljómur of hreinn. Hvað sem því líður þá varð Leviathan enn til að ýta undir áhuga á Mastodon og ekki bara hjá tónlistarunnendum, heldur tóku stórfyrirtækin við sér og kepptust um að bjóða sveitinni útgáfusamning. Á endanum sömu þeir félagar við Warner útgáfuna sem lofaði að leyfa þeim að ráð því sem þeir vildu við lagasmðiðar og upptökur.

Margur óttaðist að þar með væri Mastodon gengin hinu illa á hönd og eftir þetta yrðu plötur sveitarinnar álíka lap og síðustu fimmtán ár af Metallica. Á meðan menn biðu eftir nýrri plötu sem skera myndi úr um það héldu þeir Mastodon-menn gömlum og þó aðallega nýjum aðdáendum sínum við efnið með safnskífunni Call of the Mastodon. Það var mörgum síðan léttir þegar fyrsta Warner-platan kom út um daginn, Blood Mountain, og var ekki síðri en fyrri verk.

Blood MountainÁ Blood Mountain eru þeir Mastodon-félagar enn að dagrétta hljóm sinn og fínpússa músíkina, eitthvað sem gamlir þungarokkhundar eiga eflaust eftir að kveinka sér undan, en sveitin er á réttri leið að mínu mati, fórnar ekki krafti eða djöfullegri stemmningu fyrri verka, en miðar sér þó áfram, þróar tónmál sitt og hljóm úr stað þess að hjakka í sama farinu. Gestir á skífunni gera sitt til að gera plötuna skemmtilega, Josh Homme, Scott Kelly og Cedric Bixler-Zavala, en Blood Mountain er þó gegnheil Mastodon-plata - frábær plata og ein af bestu plötum ársins, svo mikið er víst.

Hluti af kynningarefni með skífunni er leiðarvísir um blóðfjallið sem skoða má neð því að smella hér (PDF-skjal) en gætið að því að það er mjög stórt, rúm 3 MB.


Einn var á heimsmælikvarða

Ég horfði um daginn á brot úr myndbandsupptöku af afmælistónleikum Bubba Morthens í Laugardalshöllinni í sumar. Þar var mikið í gangi og margir fremstu tónlistarmenn þjóðarinnar fóru á kostum, afbragðs spilamenn og sjóaðir. Einn bar þó af, einn var á heimsmælikvarða, eins og heyrðist með fyrstu tónunum úr hljóðfæri hans - Þorsteinn Magnússon, Steini í Eik, Stanya.

Mér flaug í hug sagan af því er Fats Waller var að spila á búllu og Art Tatum gekk í salinn. Þá stóð Waller upp til að víkja fyrir Tatum og sagði: Ég er bara píanóleikari, en guð er á staðnum.

Steini er með síðu á iSound. Ég sótti myndina þangað.


12 Tónar rokka

Þó mikið sé á seyði á Airwaves kvöld hvert er líka sitthvað við að vera á daginn. Þar hefur músíksjoppan 12 Tónar skarað framúr á síðustu hátíðum og þar hafa oftar en ekki verið haldnir skemmtilegustu tónleikarnir. Mér sýnist að svo verði og að þessu sinni og meira að segja hyggjast þeir 12 Tónamenn halda tónleika þeirrar íslensku sveitar sem ég hygg flesta fýsi að sjá spila, en hún leikur ekki á Airwaves.

Dagskráin í búðinni verður sem hér segir:

Miðvikudaginn 18. október frá kl. 16:00:

My Summer as a Salvation Soldier (Þórir Georg)

Fimmtudaginn 19. október frá kl. 16:00 til 19:00:

Hot Club de Paris
Johnny Sexual
Tilly and the Wall
Pétur Ben.

Föstudaginn 20. október frá kl. 17:00 til 19:00:

Patrick Watson
Reykjavík!
Kimono (!)

Laugardaginn 21. október frá kl. 15:00:

Eberg
Brazilian Girls
Hafdís Huld


Airwaves í vændum

Þá er búið að kynna dagskrá Airwaves 18. til 22. október þó hugsanlega eigi eitthvað eftir að bætast við. Ekki finnst mér eins margt spennandi í boði og á síðustu hátíð, en það er vitanlega smekkur minn sem ræður því - það er ekki eins margt sem mig langar til að sjá og heyra.

Kannski fór síðasta hátíð líka svolítið úr böndunum ef marka má biðraðirnar sem mynduðust fyrir utan Nasa til að mynda, en við fyrstu sýn er betra jafnvægi í framboðinu að þessu sinni.

Einu erlendu hljómsveitirnar sem ég ætla alls ekki að missa af eru The Go! Team og Mates of State; mér er sama um hitt.

Það er aftur á móti talsvert af sveitum íslenskum sem ég vil alls ekki sleppa: Lokbrá, Forgotten Lores, My Summer as a Salvation Soldier, Mugison, Seabear, Mammút, Stillusteypa, Jakobínarína, We Made God, Úlpa, Biggi, Unsound og Dr. Mister & Mr. Handsome svo nokkuð sé nefnt.

Sjáum hvernig það gengur upp. (Dagskráin á örugglega eftir að breytast með tilliti til tímasetninga, kannski til hins betra, en eins líklegt að planið fari allt í rugl. Annað eins hefur nú gerst.)

Eftirfarandi upptalning er semsé það sem ég ætla mér að sjá á Airwaves að þessu sinni, heildardagskrá er annars á vef hatíðarinnar, www.icelandairwaves.com/.

Miðvikudagur, 19. október 
22:30LokbráGrand Rokk
22:45FræNasa
23:30Forgotten LoresNasa
Fimmtudagur, 19. október 
19:45Mates of StateListasafn Reykjavíkur
20:00Egill SæbjörnssonIðnó
21:30My Summer as a Salvation SoldierGaukurinn
22:00Nico MuhlyIðnó
23:00MugisonListasafn Reykjavíkur
23:30SeabearÞjóðleikhúskjallarinn
00:00Love is AllNasa
00:15Langi Seli og SkuggarnirÞjóðleikhúskjallarinn
Föstudagur, 19. október 
20:00BaggalúturListasafn Reykjavíkur
20:45Benni Hemm HemmListasafn Reykjavíkur
21:30BiogenIðnó
21:30IslandsListasafn Reykjavíkur
22:15MammútGaukurinn
22:15StillusteypaIðnó
23:00JakobínarínaListasafn Reykjavíkur
00:00The Go! TeamListasafn Reykjavíkur
00:00GhostigitalIðnó
01:00Jeff Who?Gaukurinn
Laugardagur, 19. október 
20:00We Made GodGrand Rokk
20:45ÚlpaNasa
21:30BiggiListasafn Reykjavíkur
22:00UnsoundPravda
23:30Mr. SillaÞjóðleikhúskjallarinn
00:45Hafdís HuldIðnó
01:00HairdoctorGaukurinn
01:45Dr. Mister & Mr. HandsomeNasa

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.5.): 5
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 24
  • Frá upphafi: 117525

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 22
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband