Einfaldlega flókið

Mér þótti merkileg þessi staðhæfing í fréttaskýringu Viðskiptablaði Morgunblaðsins í morgun:

"En hvers vegna leitast fyrirtækin við að sameinast? Jú, ástæðan er í raun sáraeinföld. Ólöglegt niðurhal á tónlist hefur gert það að verkum að risarnir fjórir sjá tekjur sínar dragast saman ár frá ári, og stjórnendur þeirra telja að eitthvað verði að gera til að sporna við því að þau leggi upp laupana."

Það er sjaldgæft að eins umdeild staðhæfing sé stimpluð eins og afdráttarlaus sannleikur í fréttaskýringu, enda átta blaðamenn sig yfirleitt á því að í heimi viðskipta (líka heimi tónlistarviðskipta) er fátt ef nokkuð "sáraeinfalt".

Það er nefnilega langtífrá að það sé viðurkenndur sannleikur að "ólöglegt" niðurhal á tónlist (sett í gæsalappir vegna þess að það er ekki ólöglegt hér á landi) sé eina ástæðan fyrir því að það halli undan fæti fyrir fyrirtækjunum.

Blaðamaður hefði til að mynda mátt kynna sér hvernig sölu var háttað á tónlist vestan hafs á síðasta ári og þá hefði komið í ljós að þessi staðhæfing sem hann slær fram á ekki við traust rök að styðjast. Til að mynda jókst sala hjá Universal á síðasta ári og enginn samdráttur varð hjá Warner þó samdráttur hafi orðið hjá hinum. Sala jókst einnig hjá fjölmörgum smáfyrirtækjum og markaðshlutdeild þeirra jókst umtalsvert.

Vissulega verður ekki litið hjá því að heldur hefur hallað undan fæti fyrir plöturisunum á síðustu árum, en ekki hægt að halda því fram að ástæðan sé sáraeinföld. Þar spilar margt inní. Neysla á tónlist hefur til að mynda breyst verulega, er sennilega útbreiddari en nokkru sinni en flest bendir til þess að dagar plötunnar séu taldir að miklu leyti, þ.e. fólk hlustar á tónlist á annan hátt, er gefnara fyrir stök lög en heilar plötur með sama listamanninum. Þannig vilja margir kaupa eitt eða tvö lög með viðkomandi listamanni, en ekki heila plötu, en vill svo til að það er mun meiri velta og hagnaður í því fyrir fyrirtækin að selja heila plötu en eitt eða tvö lög (að vísu minni framleiðslukostnaður að hluta (upptaka og hljóðvinnsla), en hann er bara brot af heildarkostnaðinum, markaðssetning og dreifing er svo stór kostnaðarliður og hann minnkar lítið sem ekkert þó lögunum fækki á hverjum disk).  

Það eru einnig breytt valdahlutföll á markaðnum frá því að plötukaupendur þurftu að treysta útgefendum fyrir því að velja til útgáfu þá tónlist sem best væri og vönduðust. Gallinn við þá högun var að kaupandinn gat ekki fylgst með því hvernig útgefandinn stóð við sína hlið mála, gat ekki metið hvað lá á bak við ákvörðun útgefanda um að gefa út tiltekna plötu, hvort væri vegna gæða hennar eða sérhagsmuna útgefandans. Eins gat hann ekki metið hvort hann væri að greiða sanngjarnt verð fyrir plötuna, því allar plötur voru á sama eða áþekku verði þó vitað væri að kostnaður við gerð hverrar plötu væri mjög ólíkur.

Netið breytti þessu og nú getur kaupandinn aflað sér ítarlegra upplýsinga, kynnt sér tónlistina rækilega áður en hann ákveður að kaupa hana, til að mynda á MySpace-síðu listamannsins eða með því að skiptast á skrám við aðra áhugamenn. Við þetta hefur meðal annars komið í ljós að smekkur manna er ekki eins einsleitur og útgefendur vildu halda fram og þó stöku listamaður eigi eftir að ná að krossa, eins og menn kalla það í bransanum, þ.e. ná til margra ólíkra hópa samtímis, eru dagar stórstjörnunnar að mestu liðnir. Þetta kemur eðlilega einna verst við þau fyrirtæki sem byggja allt sitt á að selja stórstjörnur, þ.e. semja við grúa af listamönnum í þeirri von að nokkrar stórstjörnur borgi tapið og gott betur á öllum þeim sem ekki selja fyrir kostnaði.

Það er því fjölmargt sem veldur breyttu landslagi á markaði:

  • Ólögleg dreifing á tónlist (á Netinu, ólögleg framleiðsla (sem er veruleg) o.fl.)
  • Samkeppni við aðra skemmtun (DVD, tölvuleiki, sjónvarp, Netið)
  • Breytt neyslumynstur (færri stórstjörnur, dreifðari sala)
  • Nýjar dreifingarleiðir (sala á Netinu sem stórfyrirtækin ráða ekki, bein sala listamanna o.fl.)
  • Léleg stjórnun (vandræði Sony á síðustu árum skrifast að stærstum hluta á valdabaráttu og klúður)

Meira um þetta: Frelsi eða helsi? og Vandi vestan hafs


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Villi Asgeirsson

Vildi bara segja, sammála síðasta ræðumanni. Góð og vel úthugsuð grein.

Villi Asgeirsson, 29.6.2006 kl. 10:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband