Fyrsti í Airwaves

at061018_forgotten-lores_006.jpgFyrsti í Airwaves var í gær og óvenju fjölbreytt dagskrá á miðvikudegi. Þegar við bætist að meira er í gangi á sunnudaginn en áður vantar ekki mikið upp á að hátíðin standi í heila viku. Mæting var líka fín í gærkvöldi, meira að segja fullt útúr dyrum á Grand Rokk og Gauknum og komust færri að en vildu. Það var líka fín mæting á Nasa, ekki alveg fullt fyrr en undir það síðasta, þannig að fólk þyrstir í tónlist sem aldrei fyrr.

Tók daginn snemma og byrjaði í 12 Tónum kl. 17:00 að sjá My Summer as a Salvation Soldier eða bara Þóri. Hann var fínn að vanda, nýju lögin hreint afbragð og ekki skemmdi að skömmu eftir tónleikana rétti hann mér upptöku af þeim - svona eiga sýslumenn að vera!

Rökkurró var næst á svið og stóð sig vel að vanda. Rólyndislegt kammerpopp sem lofar góðu, Skilst að 12 Tónar séu að semja við sveitina um samstarf og að Þórir ætli að vinna með sveitinni. Líka að þau haldi sameiginlega tónleika fyrir jól. Meira um það síðar.

Dagskráin riðlaðist lítillega, en ég átti að hitta sjónvarpsmenn kl. 19:00 til að vera í beinni Airwaves-útsendingu, en þeir mættu í 12 Tóna og rúlluðu inn viðtali þar, skilst að hvalafréttir (kvalafréttir) hafi rutt öllu til hliðar og því hafi verið hætt við að taka púlsinn í beinni.

Tími gafst því til að ljúka við lærða langloku um Ohran Pamuk sem ég hendi kannski inn á næstunni, læt hana gerjast aðeins og birti kannski í Mogganum fyrst. Að því loknu fór ég á kreik aftur og eftir smá flæking á milli staða staðnæmdist ég á Grand Rokk þar sem mér tókst að kjafta mig inn þó staðurinn vær smekkfullur eins og dyraverðir sögðu og biðröð fyrir utan, þó ekki væri hún svo ýkja löng.

Á Grand Rokk var Retro Stefson í mikilli sveiflu þegar ég komst loks upp í fjörið, byrjaði kl. 21:00. Mjög skemmtilegt band sem ég hafði ekki áður séð spila, en heyrt lög af MySpace síðu sveitarinnar. Retro Stefson spilar skemmtilegan bræðing af karíbsku poppi, rokki, chanson-sveiflu og salsa og syngur á nokkrum tungumálum. Sveitin er átta manna, tveir gítarleikara, trommur bassi, slagverk og nokkur hljómborð, mis-nútímaleg. Söngvari sveitarinnar og leiðtogi á svið er góður, röddin skemmtilega hrein þó ekki sé hún mjög öguð, og spilagleðin smitast út til áheyrenda. Fyrirtals gítarleikur, skemmtilega "cheesy" hljómborð og fínn bassaleikur þó bassaleikarinn hafi verið álíka hár og bassinn. Mjög efnilegt band.

Sprengjuhöllin var næst og fulllengi að koma sér á svið fannst mér, átti að byrja kl. 21:45 en syndgaði eitthvað uppá það. Tónlistin er hátimbrað húmorískt viðlagapopp, söngur yfirdrifinn og skemmtilegur, mikil dramatík í laglínum og sprett úr spori nokkuð reglulega.  Mjög skemmtileg, en kannski fullmikill menntaskólabragur á köflum.

Bent tróð upp á Nasa, átti að byrja kl. kl. 22:00, en var heldur seinni af stað, og kom skemmtilega á óvart hvað mæting var fín þó ekki hafi hún verið eins mikil og uppi á Grand Rokk. Hann var hálf einmanalegur á stóru sviðinu til að byrja með en fljótur að komast í gang. Textarnir fínir hjá honum og flutningurinn í góðu lagi, en taktarnir skiluðu sér ekki nógu vel út í sal framan af.

Mest aðsókn var á Gauknum, en þar áttu We Are Scientists að spila frá kl. 22:300 þó þeir hafi verið seinna á ferð eins og flest reyndar þetta kvöld. Það kostaði miklar þrengingar að komast inn á Gaukinn, man ekki eftir öðrum eins troðningi þar inni. Lét mig berast með straumnum í átt að sviðinu og því á ágætum stað þegar sveitin byrjaði að spila. Þeir voru heldur venjulegir fannst mér, lögin fín, vel spiluð og skemmtileg, en samt vantaði einhvern neista, eitthvað sem gerði þetta sérstakt.

Komst út um síðir og fór á Nasa þar sem Fræ var að byrja að spila, átti að byrja 22:45, en voru að byrja um ellefuleytið. Þau fóru á kostum, batna með hverjum tónleikum, en viðlagið í Freðnum fávita er fullfreðið orðið fyrir minn smekk.

Eftir smá skammt af Fræi hélt ég yfir á Gaukinn að sjá Diktu sem átti að byrja kl. 23:30. Þeir voru koma sér fyrir á sviðinu þegar ég kom þar inn, staðurinn nánast fullur en ekki yfirfullur eins og fyrr um kvöldið. Þegar Dikta byrjaði að spila bætti þó heldur í með tilheyrandi troðningi. Sveitin er geysiþétt og magnað að sjá hana á sviði; tónleikahald í útlöndum er alltaf góð lexía. Ein fremsta rokksveit landsins.

Þegar ég kom á Nasa aftur var Original Melody enn að spila, áttu að byrja á sama tíma og Dikta. Mikið stuð og mikið fjör, handapat og tilheyrandi, geggjað partíband.

Síðan var komið að aðalbandi kvöldsins að mínu viti, Forgotten Lores. Þeir voru í meira lagi magnaðir, taktarnir framúrstefnulegir og beittir og textagerðin framúrskarandi. Ég hef áður getið um það hvernig þeir stálu senunni á Airwaves 2004, en anno 2006 þurftu þeir engu að stela, þeir áttu kvöldið.

Í  Viðskiptablaðinu í gær var rætt um að FL Group væri að spá í að kaupa hlut í Árvakri - líst nú betur á FL Krew.

(Árni Torfa tók myndina af FL Krew.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (1.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 17
  • Frá upphafi: 117506

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 17
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband