Tölvupóstur til Falklandseyja

Steve ToltzFleyg urðu þau orð Halldórs Laxness að menn ættu að skrifa skáldsögur eins og væru þeir að semja símskeyti til Falklandseyja – orðið er dýrt! Hann beitti hnífnum líka óspart sjálfur, skar og tálgaði, stytti og stýfði, snyrti og snikkaði þar til tvö þúsund síður voru orðnar tvö hundurð og jafnvel minna. Það er kúnst og víst mættu fleiri tileinka sér þá kúnst; Paul Auster gerast smásagnahöfundur, Ólafur Jóhann skrifa vinjettur, Tom Wolfe skrifa ferskeytlur og Hallgrímur Helgason, tja, væri hann ekki fínn í málshætti?

Sumir höfundar gleyma sér líka við skrifin, týna sér í smáatriðum, klifa sífellt á sömu hugsun og eru ýmist of duglegir að búa til nýjar persónur eða ekki nógu duglegir við að drepa þær sem fyrir eru. Hvað á það til dæmis að þýða þegar Neal Stephenson skrifar fyrst Cryptonomicon upp á 918 síður og svo forleik hennar á 944+815+912 síðum (The Baroque Cycle: Quicksilver, The Confusion og The System of the World)? Mig þraut örendi á síðu 2.318 af 2.671. Ég klára hana í sumar. Eða ekki. Á borðinu hjá mér liggur svo næsta bók hans, Anathem, sem ég ætla líka að lesa í sumar, 935 síður.

Hvað sem því líður eru sumar bækur góðar fyrir orðaflauminn, gaman að stinga sér í hann og svamla dagsstund, eða nokkra daga ef út í það er farið. Hver myndi þannig treysta sér til að stytta Sacred Games eftir Vikram Chandra án þess að glata keimnum af Mumbay sem gegnsýrir bókina (915 síður)? Hver getur tálgað af Tom Jones eftir Henry Fielding á þess að spilla framvindu hennar (hvert einasta atvik í bókinni miðar frásögninni áfram – 981 síður). Sama má eiginlega segja um Gravity's Rainbow eftir Thomas Pynchon; þegar maður er loks búinn að þræla sér í gegnum hana, 760 síður, áttaði maður sig á því að hún er meistaraverk og þá aðallega fyrir orðbólguna, ruglið, subbuskapinn, stílleysið.

Oftar en ekki eru það ungir rithöfundar sem eiga svo erfitt með að hemja sig, kunna sér ekki læti, að úr verður doðrantur, „doorstopper“ segja enskumælandi. Þeir skrifa líka oft eins og þeir eigi lífið að leysa, fái aðeins þetta eina tækifæri til að koma öllu frá sér sem hefur ólgað í hausnum á þeim í ár eða áratugi. Það getur verið þreytandi að lesa slíkan texta, sjá til að mynda þá annars ágætu bók Special Topics in Calamity Physics eftir Marisha Pessl (528 síður) sem er eiginlega allt of löng, þó í henni séu snilldarsprettir. Það getur þó líka verið gaman að ungæðiskap og orðfimi og þar komum við loks að frumlaginu – nýrri skáldsögu, fyrstu skáldsögu, Ástralans Steve Tolzs sem heitir Fraction of the Whole, 710 síður og engu ofaukið.

Steve Toltz er á fertugsaldri, fæddur í Sidney, en hefur víða farið, búið og starfað í Montreal, Vancouver, New York, Barcelona og París, unnið sem myndatökumaður, handritshöfundur, símasölumaður, öryggisvörður, einkaspæjari og enskukennari.

Líkt og vill vera með rithöfunda var hann sífellt að skrifa frá barnsaldri, ljóð og hugleiðingar ýmsar en þrátt fyrir ýmsar atlögur að skáldsögum segir hann aldrei hafa komist nema nokkrar síður inn í þær þegar hann var búinn að fá leið á sögunni. Í viðtali við netmiðilinn BookBrowse segir hann að hann hafi ekki endilega langað til að verða rithöfundur þó hann hafi alltaf verið að skrifa, en eftir því sem láglaunadjobbunum fjölgaði á ferilskránni áttaði hann sig á því að líklega væru ritstörf eina vinnan sem hann gæti stundað skammlaust.

Fyrir rúmum fjórum árum komast hann svo vel af stað með skáldsögu þegar hann bjó úti í Barcelona og hélt dampi þau ár sem þurfti til að skrifa bókina. Hann segir reyndar að fyrsta árið hafi hann verið í tómu tjóni og endað í körfunni, enda kom í ljós eftir því sem honum miðaði áfram að hann var einfaldlega ekki eins góður og honum fannst þegar hann byrjaði á bókinni. „Það að skrifa skáldsögu gerir mann að rithöfundi,“ sagði hann í viðtali við BookPage fyrir stuttu og má til sanns vegar færa, það er eiginlega handverk sem menn læra af því að gera.

Toltz er iðinn við að vitna í aðra höfunda sem hann segir hafa haft áhrif á sig og á vefsetri hans, www.stevetoltz.com, mætir manni bunki af bókum eftir aðra höfunda, þeir eru í öndvegi á upphafssíðunni: Louis-Ferdinand Celine, John Fante (margar bækur), John Cheever, Henry Miller, Sherwood Anderson, Jorge Louis Borges, Emile Michel Cioran og Knut Hamsun (margar bækur), en einnig nefnir hann Woody Allen, Thomas Bernhard, Ralph Waldo Emerson, Júrí Lemertov og Raymond Chandler sem áhrifavalda.

Í áðurnefndu viðtali segist Toltz hafa velt því fyrir sér eitt sinn hvernig það sé að vera barn manns sem sífellt sé í sviðsljósinu, hvort sem það er vegna þess að viðkomandi sé hataður af öllum þorra manna eða dáður. Upp úr eim vangavelta varð þessi mikla bók, enda er sögumaður hennar, Jasper Dean, sonur manns sem er fyrst elskaður af Áströlum öllum, en síðan svo hataður að hann hrökklast úr landi.

Sagan er ekki svo flókin á yfirborðinu: Jasper Dean situr í fangaklefa og hefur lýsingu á föður sínum, Martin Dean, heimspekingi og draumóramanni, mannhatara sem á þá ósk heitasta að vera almenningi að gagni („lík hans mun aldrei finnast“ eru síðustu orð fyrsta kafla). Það segir sitt um söguna að Martin Dean er hataðasti maður ástralskrar sögu en Terry Dean hálfbróðir hans, siðblindur glæpamaður og ofbeldisseggur, ástmögur Ástrala. Martin á í stöðugum erfiðleikum í samskiptum við fólk, skilur það ekki og fólk skilur ekki hann; hugsanlega vegna þess að hann liggur í dái í fjögur ár og fjóra mánuði og kemst eiginlega aldrei í samband aftur.

Þrátt fyrir það fór hann víða og gerði margt, flest sérkennilegt eða ævintýraleg. Eins og Jasper rekur söguna var Martin þó enginn ævintýramaður, þvert á móti, hann lagði hart að sér til að vera venjulegur, en gat það ekki, hausinn á honum þvældist fyrir honum hvort sem hann var að vinna sem smygill, flóttamaður, þingmaður eða velgjörðarmaður mannsins á götunni.

Svo vindur fram sögunni og Martin Dean fer úr hverju óláninu í annað, allt sem hann gerir er dæmt til að mistakast, allt verður honum að ógæfu og enginn fær að kenna á því eins og hans nánustu. Saga hans er líka saga illmennisins bróður hans, Astrid óræðu sem er móðir Jaspers, andlitsins þungbúna sem grúfir yfir lífi Jaspers og lífi Astrid, Anouk og hins dularfulla Eddie með myndavélarnar sínar. Hver er það? Hverjum er ekki sama þegar maður er að lesa tölvupóst til Falklandseyja – engin lengdartakmörk á okkar tímum.

Á hverri síðu fer Toltz heljarstökk í málfari og hugmyndaauðgi, ryður út úr sér frumlegum setningum og óvenjulegum uppákomum – svona fjörlega skrifa bara þeir sem vita ekki að þeir eiga ekki að skrifa svona. Booker-verðlaunin? Ójá!

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur Ragnarsson

Sæll Árni!Þakka fræðandi grein.ekki ætla ég mér að blanda mér í hver skrifaði upphafsorð hennar.En ég bæði sendi og fékk tölvupóst  á Falklandaeyjum er ég var í siglingum þangað með"general cargo"frá Englandi fyrir nokkrum árum.kært kvaddur

Ólafur Ragnarsson, 26.7.2008 kl. 15:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband