Föstudagur, 25. júlí 2008
Bestu tímar allra tíma
Í viðtali við Þjóðviljann 24. október 1976 var Haukur Morthens spurður um tildrög þess að hann fór að gefa út sjálfur:
"Ég gerði það nú vegna þess að mér fannst það ekki skipta máli, hvort maður stæði í þessu sjálfur og léti plötuna standa undir kostnaði, því það hefur aldrei fengist neitt út úr plötuútgáfu hér. Ekki úr því að syngja inn á þær. Engin laun."
Og síðar í svarinu segir hann þetta: " - ég er ekki að horfa í aurinn, en það er bara það, hver fær peninginn? Á ég ekki að njóta góðs af því eins og einhver maður úti í bæ sem ég er að raula fyrir."
Þessi ummæli Hauks hefði eins getað fallið á síðustu mánuðum; þau gætu verið þrjátíu daga gömul, en ekki þrjátíu ára, því síðustu ár hefur það verið vinsælt umræðuefni hvort og þá hvernig bjarga eigi plötufyrirtækjunum. Málið er nefnilega það að varla er til eins óskilvirkur iðnaður og plötuútgáfa og lítill gróðabisness fyrir útgefendur og hvað þá fyrir listamennina.
Við getum tekið dæmi um vinsæla hljómsveit sem er á mála hjá íslensku útgáfufyrirtæki og með hefðbundinn útgáfusamning. Ef við segjum sem svo að plata sveitarinnar seljist mjög vel, til að mynda í 8.000 eintökum, má gera ráð fyrir að hljómsveitin fái út úr því um tvær milljónir sem skiptist svo niður eftir meðlimafjölda. Ef viðkomandi hljómsveit gefur út sjálf og nær sömu sölu yrði þessi tala talsvert hærri ef sama sala næst.
Víst eru í þessu fjölmargir óvissuþættir; getur sveitin náð niður upptökukostaði með því að taka plötuna að mestu upp heima í stofu eða í félagsheimilinu á Flúðum? Verða auglýsingar dýrari vegna þess að hún hefur ekki sömu samningsstöðu og stórfyrirtæki, eða ódýrari vegna þess að samskipti eru á persónulegri nótum? Myndi sveitarmenn vinna meira sjálfir og spara þannig ýmislegan kostnað? Fær hún sama aðgang að stórmörkuðum og sömu uppstillingu í plötuverslunum? og svo má lengi telja.
Ofangreind orð Hauks Morthens eiga ekki að öllu leyti eins vel við í dag og þau gerðu áður, ástandið er mun betra í dag hvað varðar réttindi listamanna og greiðslur til þeirra vegna plötuútgáfu, enda tíðkaðist víða á árum áður hálfgerð sjóræningjamennska í útgáfumálum, menn fengu lítið borgað eða ekki neitt, voru jafnvel ekki beðnir leyfis áður en tónlistar var gefin út og fengu engu um ráðið í hvaða búningi það var gert.
Á undanförnum árum hefur þeim fjölgað mikið sem gefa sjálfir út sína tónlist; af 151 plötu sem fjallað var um í Morgunblaðinu á síðasta ári voru 88 eigin útgáfa og stefni í álíka á þessu ári því af þeim 63 plötum sem teknar hafa verið til umfjöllunar hingað til eru 27 eigin útgáfa. Skýringarnar á því að hverju menn kjósa að gefa út sjálfir eru eðlilega fjölmargar. Oft er það eflaust vegna þess að engin fannst útgáfan, en æ oftar heyrir maður þá skýringu frá tónlistarmönnum að þeim hafi þótt eðlilegast að gera þetta allt sjálfir, þeir eigi þá ekkert undir öðrum með þau mál, fái meira í sinn snúð af hverju seldu eintaki og eigi allan rétt sjálfir.
Fyrr í sumar var ég leiðbeinandi á námskeiði fyrir norræna tónlistarblaðamenn í Árósum. Það var fróðlegt að fá innsýn inn í það hvaða vandamál tónlistarblaðamenn glíma við á hinum Norðurlöndunum þó það hafi reyndar komið í ljós að það voru sömu vandamál og menn fást við hér á landi (nema hvað!). Einn dönsku blaðamannanna kom mér þó verulega á óvart er hann barmaði sér yfir því hve lífið væri orðið erfitt.
Hann lýsti því hvað það hefði verið þægilegt að mæta í vinnuna á hverjum mánudagsmorgni og þá beið hans kassi frá útgefendum með nýútkomnum og væntanlegum plötum sem hann gat svo tekið til kosta og umfjöllunar. "Nú flæðir þetta yfir mann," sagði hann mæddur, "og hvernig á maður að ná að fylgjast með öllu því sem gefið er út?"
Þetta þótti mér skondin ræða enda finnst mér sem sá tími sem nú er uppi sé besti tími allra tíma, í það minnsta þegar tónlist er annars vegar - það hefur aldrei verið auðveldara að nálgast tónlist hvort sem maður kaupir hana á plasti í eða sem niðurhal í plötu- og tónlistarverslunum á netinu. Einnig er hægt að nálgast milljónir ókeypis laga á netinu, til að mynda í gegnum MySpace þar sem þrjár milljónir tónlistarmanna bjóða fólki að hlusta, en einnig er hægt að sækja tugmilljónir ókeypis laga úr ýmsum áttum.
Að þessu sögðu hafði blaðamaðurinn danski nokkuð til síns máls; plötufyrirtækin hafa virkað eins og nokkurskonar sía, hafa helst gefið það út sem var gott og/eða söluvænlegt. Eins og áður hefur komið fram er hængurinn á því fyrirkomulagi sá að engin leið hefur verið að sannreyna að þeir séu í raun að gefa út það besta, en ekki bara það sem þeim hentar að gefa út fyrir einhverjar sakir. Nú þegar við höfum frelsið til að kynna okkur málin sjálf kallar það á aðrar síur, aðra sem hafa tíma og þekkingu til að hlusta og meta og geta síðan miðlað þeim upplýsingum skammlaust. Útgefendur koma vitanlega þar að áfram, en einnig útvarpsmenn og tónlistarblaðamenn.
(Hluti úr þessum pistli birtist í Morgunblaðinu. Sverrir Vilhelmsson tók myndina á Hótel Borg í nóvember 1987.)
Meginflokkur: Tónlist | Aukaflokkur: Bloggar | Breytt 26.7.2008 kl. 10:38 | Facebook
Tenglar
Vefgreinar
- Dont Legalize Drugs by Theodore Dalrymple, City Journal Spring 1997 Advocates have almost convinced Americans that legalization will remove most of the evil that drugs inflict on society. Dont believe them. City Journal - Spring 1997
Vefmiðlar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (18.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Ég ákvað 1974 að gefa mínar plötur út sjálfur eftir að hafa margoft heimsótt útgefandann, af mínum fyrstu tveim plötum, í nýja húsið sem hann var að byggja. Ég vissi að plöturnar mínar seldust mjög vel en ég sá enga peninga og ég spurði sjálfan mig þegar ég skoðaði hús útgefandans; hvað skyldi ég hafa sett mikinn pening í þetta hús? Í dag 20 plötum seinna sé ég ekki eftir þessari ákvörðun. Það er betra að lifa við þá staðreynd að peningarnir skili sér hægt aftur í vasa manns en að vita að þeir skili sér alls ekki.
Í gærkvöldi var ég að lesa viðtal frá 1984, sem Skúli Már tók við mig í Kapmannahöfn, þar sem ég var einmitt að tala um þessi mál og lýsa þeim en það viðtal gæti allt eins verið tekið við ungan tónlistarmann í dag. En eru til einhverjir tónlistarmenn sem hafa gefið sjálfir út eitthvað magn af eigin tónlist og textum og eiga öll réttindin?
Eitt er nefnilega að tala og annað að framkvæma. Kærar þakkir fyrir góða grein.
Hörður Torfason (IP-tala skráð) 26.7.2008 kl. 00:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.