Fimmtudagur, 19. október 2006
Fyrsti í Airwaves
Fyrsti í Airwaves var í gær og óvenju fjölbreytt dagskrá á miðvikudegi. Þegar við bætist að meira er í gangi á sunnudaginn en áður vantar ekki mikið upp á að hátíðin standi í heila viku. Mæting var líka fín í gærkvöldi, meira að segja fullt útúr dyrum á Grand Rokk og Gauknum og komust færri að en vildu. Það var líka fín mæting á Nasa, ekki alveg fullt fyrr en undir það síðasta, þannig að fólk þyrstir í tónlist sem aldrei fyrr.
Tók daginn snemma og byrjaði í 12 Tónum kl. 17:00 að sjá My Summer as a Salvation Soldier eða bara Þóri. Hann var fínn að vanda, nýju lögin hreint afbragð og ekki skemmdi að skömmu eftir tónleikana rétti hann mér upptöku af þeim - svona eiga sýslumenn að vera!
Rökkurró var næst á svið og stóð sig vel að vanda. Rólyndislegt kammerpopp sem lofar góðu, Skilst að 12 Tónar séu að semja við sveitina um samstarf og að Þórir ætli að vinna með sveitinni. Líka að þau haldi sameiginlega tónleika fyrir jól. Meira um það síðar.
Dagskráin riðlaðist lítillega, en ég átti að hitta sjónvarpsmenn kl. 19:00 til að vera í beinni Airwaves-útsendingu, en þeir mættu í 12 Tóna og rúlluðu inn viðtali þar, skilst að hvalafréttir (kvalafréttir) hafi rutt öllu til hliðar og því hafi verið hætt við að taka púlsinn í beinni.
Tími gafst því til að ljúka við lærða langloku um Ohran Pamuk sem ég hendi kannski inn á næstunni, læt hana gerjast aðeins og birti kannski í Mogganum fyrst. Að því loknu fór ég á kreik aftur og eftir smá flæking á milli staða staðnæmdist ég á Grand Rokk þar sem mér tókst að kjafta mig inn þó staðurinn vær smekkfullur eins og dyraverðir sögðu og biðröð fyrir utan, þó ekki væri hún svo ýkja löng.
Á Grand Rokk var Retro Stefson í mikilli sveiflu þegar ég komst loks upp í fjörið, byrjaði kl. 21:00. Mjög skemmtilegt band sem ég hafði ekki áður séð spila, en heyrt lög af MySpace síðu sveitarinnar. Retro Stefson spilar skemmtilegan bræðing af karíbsku poppi, rokki, chanson-sveiflu og salsa og syngur á nokkrum tungumálum. Sveitin er átta manna, tveir gítarleikara, trommur bassi, slagverk og nokkur hljómborð, mis-nútímaleg. Söngvari sveitarinnar og leiðtogi á svið er góður, röddin skemmtilega hrein þó ekki sé hún mjög öguð, og spilagleðin smitast út til áheyrenda. Fyrirtals gítarleikur, skemmtilega "cheesy" hljómborð og fínn bassaleikur þó bassaleikarinn hafi verið álíka hár og bassinn. Mjög efnilegt band.
Sprengjuhöllin var næst og fulllengi að koma sér á svið fannst mér, átti að byrja kl. 21:45 en syndgaði eitthvað uppá það. Tónlistin er hátimbrað húmorískt viðlagapopp, söngur yfirdrifinn og skemmtilegur, mikil dramatík í laglínum og sprett úr spori nokkuð reglulega. Mjög skemmtileg, en kannski fullmikill menntaskólabragur á köflum.
Bent tróð upp á Nasa, átti að byrja kl. kl. 22:00, en var heldur seinni af stað, og kom skemmtilega á óvart hvað mæting var fín þó ekki hafi hún verið eins mikil og uppi á Grand Rokk. Hann var hálf einmanalegur á stóru sviðinu til að byrja með en fljótur að komast í gang. Textarnir fínir hjá honum og flutningurinn í góðu lagi, en taktarnir skiluðu sér ekki nógu vel út í sal framan af.
Mest aðsókn var á Gauknum, en þar áttu We Are Scientists að spila frá kl. 22:300 þó þeir hafi verið seinna á ferð eins og flest reyndar þetta kvöld. Það kostaði miklar þrengingar að komast inn á Gaukinn, man ekki eftir öðrum eins troðningi þar inni. Lét mig berast með straumnum í átt að sviðinu og því á ágætum stað þegar sveitin byrjaði að spila. Þeir voru heldur venjulegir fannst mér, lögin fín, vel spiluð og skemmtileg, en samt vantaði einhvern neista, eitthvað sem gerði þetta sérstakt.
Komst út um síðir og fór á Nasa þar sem Fræ var að byrja að spila, átti að byrja 22:45, en voru að byrja um ellefuleytið. Þau fóru á kostum, batna með hverjum tónleikum, en viðlagið í Freðnum fávita er fullfreðið orðið fyrir minn smekk.
Eftir smá skammt af Fræi hélt ég yfir á Gaukinn að sjá Diktu sem átti að byrja kl. 23:30. Þeir voru koma sér fyrir á sviðinu þegar ég kom þar inn, staðurinn nánast fullur en ekki yfirfullur eins og fyrr um kvöldið. Þegar Dikta byrjaði að spila bætti þó heldur í með tilheyrandi troðningi. Sveitin er geysiþétt og magnað að sjá hana á sviði; tónleikahald í útlöndum er alltaf góð lexía. Ein fremsta rokksveit landsins.
Þegar ég kom á Nasa aftur var Original Melody enn að spila, áttu að byrja á sama tíma og Dikta. Mikið stuð og mikið fjör, handapat og tilheyrandi, geggjað partíband.
Síðan var komið að aðalbandi kvöldsins að mínu viti, Forgotten Lores. Þeir voru í meira lagi magnaðir, taktarnir framúrstefnulegir og beittir og textagerðin framúrskarandi. Ég hef áður getið um það hvernig þeir stálu senunni á Airwaves 2004, en anno 2006 þurftu þeir engu að stela, þeir áttu kvöldið.
Í Viðskiptablaðinu í gær var rætt um að FL Group væri að spá í að kaupa hlut í Árvakri - líst nú betur á FL Krew.
(Árni Torfa tók myndina af FL Krew.)
Tónlist | Breytt s.d. kl. 11:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 12. október 2006
Sony sökkar!
Á meðan Sony heldur sig við Sonic Stage hugbúnað til að koma tónlist inn á spilara sína er engin von til þess að nokkur vilji eiga MP3-spilara frá Sony. Mér er til efs að verri hugbúnaður hafi verið fundinn upp, hægvirkur, óstöðugur og nánast óskiljanlegur. Þeir sem glíma þurfa við hann fara fljótlega að hata Sony, sjálfa sig fyrir að hafa látið blekkjast til að kaupa vöru frá fyrirtækinu og að lokum tónlist almennt. Svona fer fyrir þeim sem kjósa helsi frekar en frelsi.
Sony kynnir nýja MP3-spilara með sérstaklega góðum rafhlöðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 12. október 2006
Pamuk fær Nóbelinn
Ég er ekki hissa á því að Orhan Pamuk hafi fengið Nóbelinn - af þeim sem nefndir höfðu verið í þessu sambandi bar hann af að mínu viti og þá ekki bara sem rithöfundur, heldur líka sem samviska þjóðar sinnar. Nóbelsverðlaunanefndin sænska hefur jafnan verið veik fyrir svoleiðis mönnum og það virðist oft vera það sem ræður úrslitum, þ.e. ef nokkrir rithöfundar standa jafnir hvað varðar listfengi og íþrótt skoða menn oft stöðu þeirra í heimalandinu.
Nú hef ég ekki lesið allt sem Pamuk hefur skrifað, en það sem ég hef lesið er framúrskarandi. Hæst ber að mínu mati bækurnar Nýtt líf, (Yeni Hayat / New Life), Ég heiti rauður (Benim Adim Kirmizi / My Name is Red), Snjór (Kar / Snow) og síðan minningabók hans um Istanbul sem ég hef verið að lesa undanfarið (Istanbul - Hatiralar ve Sehir / Istanbul - Memories of a City). (Áhugasömum um Pamuk bendi ég á að í Granta 85 er að finna smásögu, A Religious Conversation, sem er einn af lyklunum að Snjó.)
Ágæt síða um hann hjá Wikipedia.
Orhan Pamuk hlýtur bókmenntaverðlaun Nóbels | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 11. október 2006
655.000 fallnir
Sláandi tölur sem breska læknisfræðitímaritið The Lancet birtir í dag - 655.000 Írakar hafa látið lífið vegna innrásar Bandaríkjamanna og Breta fyrir þremur árum. Þessar tölur eru margfalt hærri en þær sem Bush sjálfur hefur nefnt, 35.000, og eins umtalsvert hærri en kemur fram á vefsetrinu iraqbodycount.org/, 43-48.000. Á síðarnefnda vefsetrinu, og hjá Bush væntanlega líka, eru menn reyndar aðeins að telja þá sem falla í beinum hernaðaraðgerðum, hvort sem það er vegna framferðis bandamanna eða vegna borgarastríðsins í Írak.
Aðferðarfræði Lancet-manna og samantektina má sjá með því að smella hér (PDF-skjal), en ekki sýnist mér í fljótu bragði að hægt sé að vefengja hana. Í skjalinu kemur einnig fram að dánartíðnin fer hækkandi, þ.e. það farast fleiri á degi hverjum um þessar mundir en fyrir ári. Gleymum því ekki í þessu samhengi að ekki er bara verið að tala um þá sem bandamenn hafa fellt (eða myrt í einhverjum tilvika), heldur einnig þá sem falla vegna bardaga milli ólíkra trúarhópa, eru myrtir af glæpamönnum (löggæsla í molum) eða vegna vandræða sem tengast innrásinni beint eða óbeint (skortur á lyfjum og læknisaðstoð, vatni, rafmagni eða álíka).
Eflaust munu margir bera þessar tölur saman við tölur um mannfall vegna harðstjórans Saddams Hussein, en þeir ættu þá að hafa í huga að Saddam vann sín illvirki á þremur áratugum, en Bandaríkjamenn og Bretar hafa aðeins ráðið Írak í þrjú ár.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 10. október 2006
Harmleikurinn um Gasolin'
Meðal mynda á nýafstaðinni kvikmyndahátíð var heimildarmynd um dönsku hljómsveitina Gasolin'. Sú var á sinni tíð vinsælasta hljómsveit Danmerkur og margir Íslendingar kannast við hana frá blómaskeiðinu hennar undir lok áttunda áratugarins. Enn fleiri þekkja þó helsta liðsmann hennar, Kim Larsen, sem tók þátt í að stofna sveitina á sínum tíma og síðan að leggja hana af þegar hann hugðist hefja sinn sólóferil.
Gasolin' hætti á toppnum, var vinsælasta hljómsveit Danmerkur þegar hún lagði upp laupana eftir tónleika á Bornhólmi 1978. Þeir félagar í sveitinni, Willy Jönsson, Kim Larsen, Franz Beckerlee og Søren Berlev höfðu gert með sér það samkomulag að þeir myndu hætta leik þá hæst stóð og þó Beckerlee vildi halda áfram eitthvað lengur voru hinir sammála um að nóg væri komið þar sem þeir sátu á krá á Bornhólmi undir lok júlí 1978, en síðustu tónleikar Gasolin' voru svo í Málmhaugum 21. ágúst.
Gasolin' hefur ekki komið saman aftur og að því félagarnir segja mun það aldrei gerast. Sveitin nýtur enn talsverðra vinsælda heima fyrir eins og sjá má á metsölu á safnplötum, en einnig er heimildarmyndin sem sýnd var á Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík á dögunum vinsælasta heimildarmynd allra tíma í Danmörku.
Svo langvarandi vinsældir Gasolin' ráðast sjálfsagt að einhverju leyti af því að andlit sveitarinnar, Kim Larsen, naut mikilla vinsælda eftir að sveitin hætti og nýtur enn. Einnig liggur eftir sveitina talsvert af skemmtilegum lögum og svo er saga hennar forvitnileg, ekki síst fyrir togstreituna á milli þeirra Kim Larsen og Franz Beckerlee, pólanna tveggja í sveitinni eins og sést svo vel í myndinni títtnefndu - Beckerlee metnaðarfullur tónlistarmaður sem áhuga hafði á framúrstefnu og spuna og náttúrubarnið Larsen sem var beintengdur í danska þjóðarsál með öllum sínum mótsetningum, gamni og alvöru.
Beckerlee varð undir í slagnum við Larsen, fyrst þegar Larsen ákvað að syngja á dönsku, en til að byrja með voru allir textar á ensku, móðurmáli rokksins að mati Beckerlee. Sá síðastnefndi hætti nánast í sveitinni um tíma, en lét þetta þó yfir sig ganga. Hann átti þó eftir að gleypa stærri bita því næsta stríð innan sveitarinnar var það sem kalla má tónlistarlegan ágreining - Metnaður Beckerlees var annar en Larsens; Larsen vildi skemmta fólki en Beckerlee vekja það til umhugsunar.
Það stríð vann Larsen líka og það á afgerandi hátt því lögin sem félögum hans í Gasolin' fannst ekki nógu góð tók hann upp fyrir sólóskífu, Værsgo', sem naut þvílíkra vinsælda að ekki varð litið framhjá því - eftir það var það Kim Larsen sem réð ferðinni og enginn hafnaði hans lögum upp frá því. Í myndinni kemur þessi vendipunktur einmitt vel í ljós og frá þeim tíma breytist hún í einskonar harmleik; maður finnur til með Franz Beckerlee, utanvelta sem drengur og nú undirokaður í eigin hljómsveit.
Það er nú samt svo að þó Franz Beckerlee hafi verið snjall gítarleikari þá var aðeins ein stjarna í hópnum, einn í hljómsveitinni sem skar sig úr hvað varðaði hæfileika eins og sagan hefur sannað svo eftirminnilega - Kim Larsen er vinsælasti tónlistarmaður Danmerkur fyrr og síðar og vinsældir hans síst í rénun. Þegar ég hugsa til að mynda til þess eina skiptis sem ég sá Gasolin' spila, í Kristianíu 1972 eða 73, man ég fátt af þeim tónleikum fyrir ýmsar sakir, en ljóslifandi er þó þessi magnaði söngvari, löðursveittur og úfinn - það geislaði af honum slíkur lífskraftur að maður stóð eiginlega á öndinni. Ég tók varla ekkert gítarleikaranum, enda til nóg af slíkum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 10. október 2006
Bono er handbendi djöfulsins!
Í húsi föður míns eru margar vistarverur, er haft eftir Jesú Jósepssyni í Jóhanesarguðspjalli. Það sannast vel vestan hafs þó sumar af þeim vistarverum séu líkari fóðruðum klefum. Dæmi þar um er Stephen Baldvin, bróðir leikarans Alec Baldvin, en Stephen reyndi fyrir sér í Hollywood um tíma, eða þar til hann "endurfæddist" í guðstrú eftir árásirnar á tvíturnana 11. september 2001.
Stephen fer nú um Bandaríkin og kallar ungmenni til liðs við sig og Krist - heldur skemmtanir þar sem skeitarar sýna listir í nafni Krists, selur Jesúboli og Jesúhúfur og prédikar, á stundum mjög skrautlega. Sjálfsævisaga hans, The Unusual Suspect, hefur selst vel en í henni heldur hann því meðal annars fram að frjáls vilji sé verkfæri djöfulsins sem hafi menn eins og Bono að handbendi. Baldvin telur að Bono eigi að eyða tíma sínum í að boða trúna á MTV, en láta Guð sjá um skuldstöðu Afríkuríkja, enda sé tilgangslaust að bæta hag fólks ef það trúi ekki á Jesú eins og hann lýsir svo snyrtilega í viðtali í tímaritinu Radar:
The problem I have is this: Let's say those poor people in those poor countries are relieved of their debt, but they don't know Jesus. Okay, so their life's more comfortable, but then what happens, according to the Bible? You tell me what the point of that is.
Þrátt fyrir allt telur Stephen Baldvin að Bono eigi vísa himnavist, enda sé ekki ástæða til að efast um trúarsannfæringu hans. Hann fær þó ekki eins góðar viðtökur og George Bush:
Oh, he's going to have a nice room in Heaven, Georgie is.
Fimmtudagur, 5. október 2006
Tilfinningaklám og "byltingin" í Rúmeníu
Kanadíski kvikmyndagerðarmaðurinn Atom Egoyan var verðlaunaður af Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík fyrir framúrskarandi listræna kvikmyndasýn um daginn. Hann er eflaust vel að þeim verðlaunum kominn, mig brestur þekking til að meta það, en ekki fannst mér myndin Framhaldslífið ljúfa / The Sweet Hereafter skemmtileg, fullmikið tilfinningaklám fyrir minn smekk. Hún var þó vel gerð um margt og góðar senur, til að mynda þegar rútan fer niðrum ísinn, þegar Ian Holm sér rútuna í fyrsta sinn og þegar Tom McCamus / Sam bögglast með dóttur sína, Sarah Polley / Nicole, lamaða upp tröppur.
Annað er ekki gott. Söngatriðið í upphafi er til að mynda misheppnað, hljómur allt of góður fyrir útitónleika og ankannalegt að sjá söngkonu syngja svo langt frá hljóðnemanum. Ekki fannst mér það heldur koma vel í ljós að koma lögfræðingsins hafi eins mikið áhrif og nauðsynlegt er til að lygin í lokin hafi eitthvert gildi. Svo var mér eiginlega ómótt af öllu tilfinningaflóðinu.
Miklu betri þótti mér mynd sem ég sá fyrr um daginn, 12:08, austur af Búkarest, eftir rúmenska leikstjórann Corneliu Porumboiu. Hún gerist að mestu í kvikmyndaveri í beinni útsendingu þegar stjórnandi sjónvarpsstöðvar í smáborg austur af Búkarest (sem er ófélegasta borgarheiti sem ég þekki) kallar til sín tvo borgarbúa til að ræða um atburðina 22. desember 1989 þegar Nicolae Ceausescu hraktist frá völdum. Tilefni umræðunnar er að sextán ár eru liðin frá byltingunni og spurningin sem stjórnandi þáttarins varpar fram er hvort bylting hafi líka verið í borginni þeirra - hvort fólk hafi byrjaði sín mótmæli fyrir kl. 12:08 eða eftir að búið var að steypa Ceausescu. Þeirri spurningu er eiginlega ekki svarað, enda flækist málið þegar fólk fer að hringja inn í þáttinn með ýmsar skoðanir á því sem fram fór.
Myndin er bráðfyndin á köflum, en er um leið að fjalla um grafalvarlegt mál, byltinguna rúmensku sem var dularfull í meira lagi (hvaða hlutverk lék Ion Iliescu? af hverju slóst öryggislögreglan í hóp mótmælenda? hvað lá á að drepa Ceausescu? - reyndar ekki spurningar sem varpað var fram í myndinni). Leikarar standa sig vel, þeir Mircea Andreescu, Teodor Corban og Ion Sapdaru bera myndina uppi, sérstaklega Ion Sapdaru. Lúðrasveitin stendur sig líka vel og rúmenska salsað bráðfyndið. Frábær mynd.
Miðvikudagur, 4. október 2006
Beðið eftir Goldberg
Fyrir nokkrum árum fékk Hyperion-útgáfan breska kanadíska píanóleikarann Angelu Hewitt til að taka upp syrpu af plötum með tónlist eftir Johann Sebastian Bach. Hewitt er einn af fremstu píanóleikurum okkar tíma, gríðarlega næm og býr yfir mikilli tækni. Ekki hef ég heyrt alla diskana sem hún hefur tekið upp fyrir Hyperion, en af Bach hefur hún spilað inn á fimmtán diska og einnig tekið upp verk eftir Chabrier, Chopin, Couperin, Messiaen og Ravel. Þriðji diskurinn sem Angela Hewitt tók upp í Bach-röðinni fyrir Hyperion var með Goldberg-tilbrigðunum, en af því verki eru margar útgáfur frægar og sumar umdeildar.
Bach samdi tilbrigðin fyrir táninginn Johann Gottlieb Goldberg 1741 og þá fyrir sembal, enda ekki búið að finna upp píanóið eins og við þekkjum það í dag. Fyrst til að spila verkið á þannig hljóðfæri á okkar tímum var Wanda Landowska sem fræg varð fyrir upptöku sína á því 1933. Hún tók það upp aftur 1945 en þá útgáfu þekki ég ekki. Sú fyrri er aftur á móti ævintýraleg í meira lagi, því þó sembal hafi frekar takmarkað tónsvið lifna tilbrigðin í höndum Landowska og hrynskipanin er stórbrotin. Á sínum tíma hugðist RCA gefa Goldberg tilbrigðin út í flutningi Claudio Arrau, sem var þá frægur fyrir flutning sinn á Bach, en síðan var ákveðið að láta hans upptöku bíða og gefa frekar út upptöku Wanda Landowska. (Upptakan með Arrau kom ekki út fyrr en 1988, en hann gaf á sínum tíma fúslega leyfi til að fresta útgáfunni enda var hann ekki sannfærður um að píanó hentaði til að flytja tilbrigðin.)
Bandaríski píanóleikarinn Rosalyn Tureck er gjarnan talin með bestu Bach-flytjendum og útgáfa hennar af tilbrigðunum er vissulega frábær, en full fáguð fyrir minn smekk. Meira gaman hef ég af kanadíska píanóleikaranum Glenn Gould sem tók upp einkar skemmtilega útgáfu af Goldberg tilbrigðunum 1955 - á köflum snargeggjaða finnst manni, en síðan koma kaflar af innblásinni snilld. Það kemur ekki á óvart að þessi útgáfa Goulds hafi vakið umtal og deilur, en hitt vita færri að þegar fyrstu Voyager geimflauginni var skotið á loft með ýmsar upplýsingar um mannkyn innan borðs, teikningar og skýringarmyndir, var plata með Goldberg-tilbrigðunum í flutningi Goulds frá 1955 látin fylgja og leiðbeiningar um hvernig ætti að spila hana.
Til viðbótar við Landowska, Tureck og Gould á ég til þrjár upptökur til af Goldberg tilbrigðunum; Pierre Hantaï sem Opus 111 gaf út og svo hins vegar enn betri útgáfu sem er tilefni þessara hugleiðinga, nefnilega upptöku Angelu Hewitt á verkinu frá því í ágúst 1998.
Hewitt var bókuð í upptökur í Lundúnum 17.-19. ágúst 1998. Hún tók verkið upp á þeim tíma og fagnaði síðan að verkinu væri lokið kvöldið 19. ágúst. Eftir að hún hafði matast með vinum sínum barst takið að Golbgert tilbrigðunum og hvaða tökum hún hefði tekið verkið. Til að skýra mál sitt bauð hún viðstöddum á impromptu tónleika uppi í hljóðveri og hélt þangað með hersinguna. Tæknimaður sem staddur var á staðnum hafði rænu á að kveikja á upptökutæki og þegar Hyperion-stjórar heyrðu upptökuna vissu þeir að þar var komin besta útgáfan og sú sem var á endanum gefin út.
Sem ég sat um daginn og hlustaði á Rosalyn Tureck spila Goldberg-tilbrigði Bachs langaði mig skyndilega til að heyra flutning Hewitt á því sama verki, en þann disk átti ég niðri í tónlistarherbergi, eða svo hélt ég í það minnsta. Eftir nokkra leit var diskinn aftur á móti hvergi að finna - einhver líkastil fengið hann að láni fyrir löngu og gleymt að skila. Nú eða ég gefið hann í tímabundnu æðiskasti.
Það er sama hvað margar plötur eru til í safninu - þegar mann langar til að heyra eitthvað ákveðið kemur ekkert í staðinn. Mér sýndist að það yrði ekki mikið mál að bæta úr því að Hewitt vantaði í safnið, ég myndi bara bregða mér í bæinn og kaupa annað eintak - það getur komið sér vel að eiga tvö eða fleiri eintök af frábærri tónlist.
Hewitt leiðangurinn hófst í Skífunni í Kringlunni, sem var einu sinni helsta plötubúð landsins. Gott ef salan í þeirri búið var ekki jafn mikil og í öllum plötubúðum öðrum í Reykjavík samanlagt fyrir nokkrum árum. Það er þó af sem áður var - hending ef maður sér nokkurn mann þar inni og smám saman er búðin að breytast í háfgerða skranbúð hvað varðar tónlist, hvað þá sígilda tónlist. Lítið sem ekkert úrval af klassík, aðallega ódýrir diskar, Naxos og annað merki sem ég veit ekki deili á. Verðið segir reyndar ekkert til um gæðin, til að mynda eru Naxos diskar margir frábærir, en engan disk fann ég með Angelu Hewitt.
Fyrir nokkrum árum var mjög metnaðarfull deild með klassískri tónlist í Skífunni á Laugavegi en hún er löngu horfin og eins flestir þeir rekkar sem geymdu slíka tónlist eins og ég sá við komuna þangað. Það þótti mér reyndar merkilegt hve úrvalið er orðið lítið á slíkri tónlist, tíu til fimmtán diskar af Bach var allt og sumt af verkum hans, mestmegnis kantötur og engin Angela Hewitt.
Nú er málum svo háttað að Skífan ber ægishjálm yfir alla aðrar plötusjoppur hér á landi; mér skilst að fyrirtækið sé með ríflega 70% af plötusölu á sinni hendi. Það er því stóralvarlegt mál að mínu viti þegar aðili sem komist hefur í slíka yfirburðastöðu, með blessun samkeppniseftirlitsins, nota bene, skuli taka slíkt skref að hætta nánast að selja sígilda tónlist.
Af leitinni að Hewitt er það annars að segja að hún er víst á leiðinni í 12 Tóna sögðu menn þar er ég leitaði þangað, pöntun væntanleg. Það má svo geta þess að í 12 Tónum var engin þurrð á klassík, til að mynda eitthvað á annað hundrað titla með J.S. Bach.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Þriðjudagur, 3. október 2006
Dagar á milli
In Between Days sem sýnd var í Iðnó gærkvöldi var prýðileg mynd, einföld og beinskeytt. Hún sagði frá kóresku stúlkunni Aimie, sem Jiseon Kim lék einkar vel, sem flytur frá Kóreu til Kanada með móður sinni sem unglingur. Hún á í erfiðleikum með að samsama sig lífinu í Kanada, einangruð og leiðist í skólanum, en kynni hennar af kóresk-kanadískum pilt, Tran, Taegu Andy Kang, gera lífið áhugaverðara um stund.
Höfundur myndarinnar, So Yong Kim, sem byggði hana að einhverju leyti á eigin reynslu, nær vel að sýna leiðindin og tilgangsleysið sem einkenna svo gjarnan líf unglinga og þess heldur unglings er er á milli þjóðfélaga.
Þau Aimie og Tran ná ekki saman nema að vissu marki, hann vill nánara samband en hún, enda hefur hún ekki gert upp við sig hvort hún vilji halda í gamla heiminn - öryggi og áhyggjuleysi æskunnar. Á endanum stígur hún skrefið inn í nýtt líf, nýjan heim, og skilur þá Tran eftir í gamla heiminum. Mjög snyrtilegur endir á myndinni sem er hæfilega tvíræður.
Annað sem er skemmtilega leyst í myndinni er samræður Aimie við föður sinn, sem eftir varð í Kóreu, og skotið er inn á milli atriða. Þau hefjast að morgni snemma í myndinni og lýkur síðan að kvöldi er í ljós kemur að hún hefur ákveðið að vera sátt við hlutskipti sitt. Kim sagði það reyndar í spjalli eftir myndina að faðirinn hafi haft hlutverk í myndinni en síðan verið klipptur út, en mér fannst það eiginlega betra að hann skyldi ekki sjást.
Gaman var heyra í Rottweilerhundunum í partíinum í myndinni, þó partíin sjálf hafi ekki verið ýkja villt - að minnsta kosti ekki á íslenskan mælikvarða.
Mánudagur, 2. október 2006
Leynilíf orðanna
Þá komst maður loks í gang á kvikmyndahátíð - sá í gærkvöldi myndina Leynilíf orðanna, La vida secreta de las palabras, eftir Isabel Coixet. Mjög áhrifamikil mynd þó ekki sé hún gallalaus. Undir lokin ræðir söguhetjan Josef, sem Tim Robbins leikur, við Julie Christie sem er í hlutverki Inge, forstöðumanns, alþjóðastofnunar sem hjálpar fórnarlömbum pyntinga. Þau eru að ræða um hjúkrunarkonuna Hönnu, sem Sarah Polley leikur, sem sinnti Robbins eftir alvarlegt slys. Í því samtali segir Cristie Robbins að það versta sem fórnarlömb þjóðernishreinsana og gegndarlauss ofbeldis í Balkanskagastríðum þurfi að glíma við, en Hanna var hart leikin af löndum sínum, sé skömmin yfir því að hafa komist að.
Þetta rímar vel við það sem ítalski rithöfundurinn Primo Levi segir í bókinn I sommersi ei salvati, The Drowned and the Saved, sem var síðasta bókin sem hann lauk við og kom út 1986. Í þriðja kafla bókarinnar, Skömm, segir hann frá því hve erfitt það reyndist mörgum að hafa komist af og hve margir hafi svipt sig lífi eftir að hafa verið bjargað úr fanga- eða útrýmingarbúðum Þjóðverja. Eins og Levi orðaði það þá áttuðu menn sig þá fyrst á niðurlægingunni þegar henni lauk, og margir áttu erfitt með að horfast í augu við sjálfa sig. Hann ræðir einnig um þá tilfinningu að einhver annar hefði frekar átt að lifa af "hvert okkar [...] hefur tekið sess nágranna síns og lifir í hans stað".
Að mati Levis voru það aðeins hinir verstu sem lifðu hörmungarnar af, hinir sjálfselsku, svikulu, eigingjörnu, fláráðu komust af en hinir göfugu, góðu, hughraustu fórust, drukknuðu. Þeir sem fórust voru þeir einu sem þekktu til fullnustu hörmungar útrýmingarbúðanna og voru fyrir vikið ófærir um að segja frá reynslu sinni.
Eins og Levi lýsti því átti hann sífellt erfiðara með að sætta sig við að hafa komist af þegar svo margir létust, sektarkenndin varð æ sterkari eftir því sem hann lifði lengur. Enn deila menn um það hvort það hafi verið sektin sem varð til þess að hann stytti sér aldur 11. apríl 1987 í stigaganginum heima hjá sér eða hvort hann hafi fallið fyrir slysni.
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 09:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tenglar
Vefgreinar
- Dont Legalize Drugs by Theodore Dalrymple, City Journal Spring 1997 Advocates have almost convinced Americans that legalization will remove most of the evil that drugs inflict on society. Dont believe them. City Journal - Spring 1997
Vefmiðlar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar