Föstudagur, 29. september 2006
Allur tilfinningaskalinn
Þegar danska hljómsveitin Under byen steig sín fyrstu spor fyrir um áratug vakti meðal annars athygli manna að sungið var á dönsku, nokkuð sem menn áttu ekki að venjast í Danmörku - þar var þá, og er reyndar enn, alsiða að sungið væri á ensku. Þegar söngkonan og textahöfundurinn Henriette Sennenvaldt var spurð um þetta atriði í viðtali fyrir nokkru sagði hún að til að byrja með hefði hún sungið á ensku vegna þess að henni fannst auðveldara að syngja hana en dönskuna, en síðan fannst henni holur hljómur í enskunni, að hún næði ekki jafn vel til áheyrenda og ef hún notaði dönsku.
Þetta rímar nokkuð vel við það sem Björk Guðmundsdóttir sagði í viðtali fyrir nokkrum árum - henni hefði liðið eins og hún væri að ljúga þegar byrjaði að syngja á ensku, svo langt fannst henni frá tilfinningunni sem hún var að tjá í tungumálið erlenda sem hún notaði til að tjá þær. Með tímanum hefur hún eflaust minnkað þetta bil, en þegar maður heyrir frá henni stök orð eða setningar á íslensku í lögum hennar finnur maður að þau orð koma beina leið frá hjartanu og rata skemmri leiði beint í hjartastað þess sem hlustar.
Það eru fjölmargar ástæður fyrir því að menn syngja á öðru tungumáli en sínu eigin, en að mínu viti er það oftast ótti sem verður til þess, ótti við orð, við tilfinningar. Þannig getur söngvari horft í augu hundruða áheyrenda og sungið "I love you" en ef hann á að segja þau orð á íslensku roðnar hann og stamar. Prófaðu þetta ágæti lesandi og finndu hvernig íslensku orðin hafa allt aðra og dýpri merkingu en þau ensku, hvernig maður fyrirverður sig eiginlega að vera segja annað eins við ókunnuga upp á íslensku, en getur svosem látið það vaða á ensku. (Þeir sem eiga annað móðurmál en íslensku get snúið þessu við til að finna sömu áhrif.)
Tilfinningavirkið í hausnum á okkur er allt byggt upp á móðurmálinu og fyrir vikið næst best samband við tilfinningarnar í gegnum móðurmálið. Ég hef því aldrei skilið hvers vegna tónlistarmenn sem eru að syngja fyrir Íslendinga nota ekki allan tilfinningaskalann, hvers vegna þeir breiða teppi yfir lögin áður en þau eru borin á borð fyrir áheyrendur, hvers vegna þeir ganga ekki alla leið. Nema þeir hafi ekkert að segja.
Á þessu ári hafa mér borist sextíu íslenskar plötur ólíkrar gerðar og mis-góðar eins og gengur. Af þeim eru sjö án söngs, nítján á ensku og ein á ensku að mestu. Einhverjar af þeim plötum sem sungnar eru á ensku eru gefnar út ytra og því skiljanlegt að því leyti að menn séu að syngja á alþjóðlegu tungumáli, en flestar þó gefnar út fyrir íslenskan markað og stendur ekki til að gefa þær úr erlendis að því ég best veit.
Mín reynsla er sú að það sé ákveðinn þröskuldur á íslenskum markaði fyrir þá sem syngja á ensku, þær plötur seljast almennt betur sem notast við það mál sem flestir skilja og gildi einu hvort verið sé að syngja um eitthvað sem skiptir máli eða bulla út í eitt. Þó eru dæmi um íslenskar plötur sem sungnar hafa verið á ensku og selst bráðvel hér á landi þannig að ekki er það einhlítt.
Að þessu sögðu má gera ráð fyrir að einhverjir af þeim sem senda frá sér ísl-enskar plötur sem ég hef heyrt á árinu séu að horfa til útlanda - syngi á ensku til að auðvelda sér leið á erlendan markað. Það er þó hægar sagt en gert, þarf til mikla hæfileika eins og dæmin sanna og líka það að vera öðruvísi, að skera sig úr. Til dæmis að syngja á íslensku.
(Rétt er að geta þess að myndin er af Under byen. Henriette Sennenvaldt er lengst til vinstri. Til gamans má svo nefna að ég er á leið til Kaupmannahafnar í byrjun desember með það að markmiði að sjá hljómsveitina á sviði öðru sinni, en ég sá hana fyrst í Árósum fyrir nokkrum árum.)
Tónlist | Breytt 30.9.2006 kl. 11:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 28. september 2006
Franskur metall
Rétt að bæta við á Airwaves-listann frönsku rokksveitinni Gojira sem er hreint mögnuð. Hef mikið hlustað á nýja plötu hennar undanfarið, From Mars to Sirius.
Gojira er upp runnin í bílskúr skammt frá Bayonne fyrir um áratug, stofnuð af bræðrunum Joe og Mario Duplantier, sá fyrrnefndi spilar á gítar og syngur en sá síðarnefndi á trommur. Síðar slógust í hópinn Jean-Michel Labadie sem spilar á bassa og Christian Andreu á gítar.
Sveitin byrjaði undir nafninu Godzilla, en skipti um nafn skömmu áður en fyrsta platan kom út, en nýtt nafn, Gojira, segja þeir að sé japönskun á Godzilla.
Sveitin hefur verið iðin við spilamennsku heima í Frakklandi og plötur hennar hafa selst prýðilega að sögn. Fyrst kom út Terra Incognito, þá The Link og nú síðast From Mars to Sirius, sem kom út í Frakklandi í fyrra en er nú fyrst að koma út víðar um heim.
Gojira er býsna þung sveit, svolítið gamaldags en afskaplega skemmtileg og góðir sprettir hjá söngvara og trommuleikara sérstaklega. Hægt er að hlusta á allar plötur sveitarinnar á vefsetri hennar, www.gojira-music.com/. Mæli sérstaklega með Ocean Planet og From the Sky af nýju plötunni - það síðarnefnda er geggjað lag.
Tónlist | Breytt 29.9.2006 kl. 21:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 28. september 2006
Ólundarleg bloggfærsla
Óttalega er ólundarleg bloggfærslan hans Denna frá Ómarsgöngu. Mér þótti það nú nokkur tíðindi að svo margir skyldu ganga á móti virkjuninni, hvort sem þeir voru 5.000 eða 15.000 (12.000 sagði í Mogganum).
Hvað varðar auglýsinguna "rosalegu" má til samanburðar nefna að í vor auglýsti Framsóknarflokkurinn í Reykjavík vissulega "rosalega" mikið og fékk þó ekki nema 4.056 í sína göngu þrátt fyrir "aðra þætti á borð við afar gott veður, lélega sjónvarpsdagskrá og þrælpólitískt mál". Og svo var frjáls mæting í þá göngu allan daginn.
Miðvikudagur, 27. september 2006
Blóðfjallið klifið
Innan tónlistarinnar rúmast margir kimar, menningarkimar og ómenningarkimar, óteljandi afbrigði af tónlist geta af sér óteljandi klíkur sem láta kannski duga að hlusta á tónlistina, en oftar en ekki fylgir sérstakur klæðaburður "einkennisbúningur" og hegðan. Allt er þetta til þess fallið að treysta samloðun hópsins; klíkufélagar standa saman gegn öðru klíkum og ekki síst gegn yfirvöldum eða yfirvaldi - þátttaka í hóp er uppreisn gegn ríkjandi hóp, ríkjandi smekk, ríkjandi tísku.
Gott dæmi um þetta er þungarokkið þar sem menn skipast í hópa efir því hversu harða tónlist þeir hlusta á, eða eftir inntaki texta eða eftir klæðaburði. Allt skarast þó og þannig hafa margir Slayer-vinir líka einhverja skemmtun af poppi á við Iron Maiden og þeir sem dá Meshuggah hlusta líka á Audioslave þó kannski ekki nema með öðru eyranu. Þungarokkunnendur eru semsagt flestir umburðarlyndir gagnvart öðru þungu rokki, enda finnst þeim sem þeir séu allir á sama báti þó hver sé í sinni káetu.
Málið vandast aftur á móti þegar lið úr annarri deild fer að kássast upp á jússurnar, þegar "indí"-lið fer að hlusta á þungarokk, mætir kannski á Slayer-tónleika í Sonic Youth bol eða þaðan af verra. Þá er hætt við að hinir hreintrúuðu snúi sér annað, saki hljómsveitir sem höfða til slíkra áheyrenda um listrænt hórerí; um að hafa svikið málstaðinn.
Bandaríska rokksveitin Mastodon glímir einmitt við þetta vandamál um þessar mundir. Sveitin spilar geysiþétt og hart þungarokk með grófum öskursöng, dæmigerð metalsveit um margt en síðasta plata hennar, Blood Mountain, hefur náð eyrum fjölmargra annarra en þungarokkvina. Nægir að nefna að hljómsveitin hefur verið áberandi í tímaritum og á vefsetrum sem alla jafna fjalla helst um nýbylgju og tilraunakennt rokk.
Mastodon er sprottin úr prog-rokksveitinni mögnuðu Today Is the Day, en þeir Bill Kelliher og Bränn Dailor voru báðir meðreiðarsveinar Steve Austin í Today Is the Day, sá fyrrnefndi á gítar og sá síðarnefndi á trommur. Today in the Day var og er fræg fyrir bræðing af þungarokki, harðkjarna og óhljóðum en þeir Kelliher og Dailor áttu ekki skap við Austin og stoppuðu þar stutt.
Kelliher og Dailor bjuggu þá í New York fylki en fluttust til Atlanta í leit að meira fjöri. Þar hittu þeir fyrir bassaleikarann Troy Sanders og gítarleikarann Brent Hinds, sem báðir eru að auki traustir söngvarar. Svo vel fór á með fjórmenningunum að þeir ákváðu að slá sama í hljómsveit og voru ekki lengi að semja upptökuhæft efni. Fyrstu upptökurnar sem Mastodon gerðu þeir vorið 2000 og héldu síðan í mikla tónleikaferð um Bandaríkin, ýmist að þeir héldu tónleika einir á smábúllum eða þeir hituðu upp fyrir ekki ómerkari sveitir en Queens of the Stone Age, Morbid Angel og Cannibal Corpse. Svo vel stóðu þeir félagar sig á sviði að eftir var tekið og dugði til að þeir fengu samning hjá rokkútgáfunni góðu Relapse.
Fyrsta Mastodon-platan var stuttskífan Lifesblood sem kom út haustið 2001. Fyrsta breiðskífan var svo hljóðrituð síðar um haustið með Matt Bayles við takkana, en hann er meðal annars þekktur fyrir að hafa unnið með þeirri frábæru sveit Isis. Remission hét platan og kom út snemma árs 2002. Það ár og fram eftir 2003 var sveitin síðan á tónleikaferðalagi meira og minna og kom meðal annars hingað til lands og lék á tvennum tónleikum um miðjan júlí 2003, en þá þegar voru fleiri en þungarokkvinir farnir að sperra eyrun, ekki síst fyrir það hve sveitin þótti mögnuð á tónleikum.
Haustið 2003 hófst vinna við nýja plötu sem kom svo út í ágúst 2004 og hét Leviathan. Eins og sjá má af umslagi plötunnar er viðfangsefnið hvíti hvalurinn Moby Dick og nokkur lög á plötunni beinlínis samin uppúr bókinni eftir Herman Melville. Platan fékk frábæra dóma, en einhverjir kvörtuðu þó yfir því að þeir félagar hefðu teygt sig of langt frá þungarokkinu í átt að framúrstefnulegu rokki, að of mikið "progg" væri á plötunni og hljómur of hreinn. Hvað sem því líður þá varð Leviathan enn til að ýta undir áhuga á Mastodon og ekki bara hjá tónlistarunnendum, heldur tóku stórfyrirtækin við sér og kepptust um að bjóða sveitinni útgáfusamning. Á endanum sömu þeir félagar við Warner útgáfuna sem lofaði að leyfa þeim að ráð því sem þeir vildu við lagasmðiðar og upptökur.
Margur óttaðist að þar með væri Mastodon gengin hinu illa á hönd og eftir þetta yrðu plötur sveitarinnar álíka lap og síðustu fimmtán ár af Metallica. Á meðan menn biðu eftir nýrri plötu sem skera myndi úr um það héldu þeir Mastodon-menn gömlum og þó aðallega nýjum aðdáendum sínum við efnið með safnskífunni Call of the Mastodon. Það var mörgum síðan léttir þegar fyrsta Warner-platan kom út um daginn, Blood Mountain, og var ekki síðri en fyrri verk.
Á Blood Mountain eru þeir Mastodon-félagar enn að dagrétta hljóm sinn og fínpússa músíkina, eitthvað sem gamlir þungarokkhundar eiga eflaust eftir að kveinka sér undan, en sveitin er á réttri leið að mínu mati, fórnar ekki krafti eða djöfullegri stemmningu fyrri verka, en miðar sér þó áfram, þróar tónmál sitt og hljóm úr stað þess að hjakka í sama farinu. Gestir á skífunni gera sitt til að gera plötuna skemmtilega, Josh Homme, Scott Kelly og Cedric Bixler-Zavala, en Blood Mountain er þó gegnheil Mastodon-plata - frábær plata og ein af bestu plötum ársins, svo mikið er víst.
Hluti af kynningarefni með skífunni er leiðarvísir um blóðfjallið sem skoða má neð því að smella hér (PDF-skjal) en gætið að því að það er mjög stórt, rúm 3 MB.
Tónlist | Breytt 6.10.2006 kl. 12:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 21. september 2006
Fram og aftur blindgötuna
Sé að heimildarmyndin The Road to Guantánamo eftir Michael Winterbottom og Mat Whitecross verður meðal mynda á kvikmyndahátíðinni sem hefst í Reykjavík eftir viku en myndin lýsir dvöl þremenninganna Shafiq Rasul, Asif Iqbal og Rhuhel Ahmed "sem máttu dúsa þar, saklausir, við skelfilegar aðstæður í tvö ár", eins og segir í kynningarbæklingi hátíðarinnar, en þeir voru aldrei kærðir fyrir eitt né neitt.
Myndin sem er hér til hliðar er af kynningarspjaldi sem notað hefur verið vegna myndarinnar í Evrópu að mér sýnist, en vestur í Amríku var annað kynningarspjald notað og varð býsna umdeilt, enda bannaði bandaríska kvikmyndaeftirlitið upprunalega gerð þess og því varð að búa til nýtt. Kvikmyndaeftirlitinu, MPAA, þótti sem myndin, sem sjá má til vinstri hér fyrir neðan, of hryllileg til að hengja mætti hana upp þar sem börn og viðkvæmar sálir gætu séð það enda benti strigahauspokinn sem fanginn ber til þess að verið væri að pynta hann.
Ekki vil ég vanmeta umhyggju kvikmyndaeftirlitsins fyrir bandarískum börnum, en ótal dæmi eru um hryllileg veggspjöld sem eftirlitið hefur engar athugasemdir gert við, til að mynda veit ég ekki betur en að á auglýsingaspjöldum fyrir þá ömurlegu mynd Saw II hafi verið afskornir líkamshlutar. Það sem gerir þessa ákvörðun svo sérdeilis öfugsnúna er að samkvæmt túlkun varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna á það ekkert skylt við pyntingar að setja á menn hauspoka á þann hátt sem sýnt er á spjaldinu og brýtur ekki í bága við bandaríska mannréttindahefð. (Þeim, og forsetanum, finnst það reyndar ekki heldur brjóta í bága við þá hefð að draga menn fyrir rétt og dæma síðan fyrir óljós afbrot byggt á sönnunargögnum sem ekki má skýra frá hver eru og framburði vitna sem njóta nafnleyndar og enginn má lesa framburðinn, sjá eða heyra.) Það brýtur aftur á móti í bága við reglurnar að tjóðra menn á þann hátt sem sýndur er á seinni myndinni, þeirri hægra megin. Það má því segja að MPAA hafi bannað myndspjald sem sýnir löglega meðhöndlun fanga (að mati varnarmálaráðuneytisins) en leyft spjald sem sýnir ólöglegar aðfarir.
Þess má svo geta að tveir þremenninganna verða gestir hátíðarinnar og Amnesty International og taka þátt í málþingi um Guantánamo-fangabúðirnar í Iðnó. (Það verður fróðlegt að sjá þá, ekki síst í ljósi þess að þeim (og öðrum föngum í Guantánamo) var lýst sem þeir væru verstir allra (The Worst of the Worst) af háttsettum yfirmanni í bandaríska hernum.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 20. september 2006
Einn var á heimsmælikvarða
Ég horfði um daginn á brot úr myndbandsupptöku af afmælistónleikum Bubba Morthens í Laugardalshöllinni í sumar. Þar var mikið í gangi og margir fremstu tónlistarmenn þjóðarinnar fóru á kostum, afbragðs spilamenn og sjóaðir. Einn bar þó af, einn var á heimsmælikvarða, eins og heyrðist með fyrstu tónunum úr hljóðfæri hans - Þorsteinn Magnússon, Steini í Eik, Stanya.
Mér flaug í hug sagan af því er Fats Waller var að spila á búllu og Art Tatum gekk í salinn. Þá stóð Waller upp til að víkja fyrir Tatum og sagði: Ég er bara píanóleikari, en guð er á staðnum.
Steini er með síðu á iSound. Ég sótti myndina þangað.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 12:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 15. september 2006
12 Tónar rokka
Þó mikið sé á seyði á Airwaves kvöld hvert er líka sitthvað við að vera á daginn. Þar hefur músíksjoppan 12 Tónar skarað framúr á síðustu hátíðum og þar hafa oftar en ekki verið haldnir skemmtilegustu tónleikarnir. Mér sýnist að svo verði og að þessu sinni og meira að segja hyggjast þeir 12 Tónamenn halda tónleika þeirrar íslensku sveitar sem ég hygg flesta fýsi að sjá spila, en hún leikur ekki á Airwaves.
Dagskráin í búðinni verður sem hér segir:
Miðvikudaginn 18. október frá kl. 16:00:
My Summer as a Salvation Soldier (Þórir Georg)
Fimmtudaginn 19. október frá kl. 16:00 til 19:00:
Hot Club de Paris
Johnny Sexual
Tilly and the Wall
Pétur Ben.
Föstudaginn 20. október frá kl. 17:00 til 19:00:
Patrick Watson
Reykjavík!
Kimono (!)
Laugardaginn 21. október frá kl. 15:00:
Eberg
Brazilian Girls
Hafdís Huld
Tónlist | Breytt 26.9.2006 kl. 09:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 14. september 2006
Dagsbrún umbreytir sér í ekki neitt
Fyrir rétt rúmu ári var kynnt stofnun nýs móðurfélags Og Vodafone, 365 prentmiðla, 365 ljósvakamiðla og P/F Kall í Færeyjum sem bera myndi nafnið Dagsbrún. Skipulag samstæðunnar nýju tók gildi 1. október. Í frétt frá fyrirtækinu sem birtist í Morgunbaðinu 5. ágúst sl segir svo:
"Dagsbrún hf. mun verða hið skráða félag í Kauphöll Íslands í stað Og fjarskipta. Það hyggst marka sér stöðu á sviði fjarskipta, fjölmiðlunar og afþreyingar og stefnir að umbreytingum á þessum sviðum hérlendis og útrás á erlenda markaði."
Mikið var fjallað um hið nýja félag í fréttum í kjölfarið og aðallega á jákvæðum nótum. Þannig birtust fréttir af hagnaði Dagsbúnar á fyrstu níu mánuðum ársins 2005 rúmum mánuði eftir að fyrirtækið varð til, en sá hagnaður nam 554 milljónum króna eftir skatta sem var nokkuð meira en á fyrstu níu mánuðum ársins 2004 er hann var 367 milljónir (hagnaður af rekstri Og Fjarskipta (Og Vodafone)).
Í yfirliti sem fylgdi téðri frétt segir að skuldir séu 13.509 milljónir króna og eigið fé 8.943 m.kr. Handbært fé frá rekstri er 499 m.kr. og eiginfjárhlutfall 39,8% svo tíndar séu til nokkrar stærðir. (Á hluthafafundi Dagsbrúnar í apríl. sl. kom fram að félagið stefndi að 35-40% eiginfjárhlutfalli til lengri tíma.)
Umsvif fyrirtækisins jukust hratt í kjölfar stofnunar þess, enda háleit markmið sett í upphafi eins og ég nefni hér að framan. Meðal annars var stefnt á stórsókn í útlöndum, keypt prentverk í Bretlandi (Wyndeham - "góður fjárfestingakostur sem fellur að langtímastefnu Dagsbrúnar"), unnið að stofnun fríblaðs í Danmörku og svo má telja, aukinheldur sem fyrirtækið keypti allt það sem það óttaðist að Síminn myndi annars kaupa hér heima.
Í sumar gerðust þær raddir háværar sem hermdu að ekki væri allt með felldu í rekstri fyrirtækisins og 17. ágúst sl. birtust svo fréttir af því að Dagsbrún hefði verið rekin með 1,5 milljarða tapi á fyrri hluta ársins. Þrátt fyrir það voru menn bjartsýnir, í það minnsta útávið, og forstjóri félagsins, Gunnar Smári Egilsson, sagði við Viðskiptablað Morgunblaðsins að stjórnendur Dagsbrúnar teldu að afkoma félagsins ætti að vera betri en niðurstöður fyrri hluta ársins sýndu. Hann bar sig þó vel og sagði að þegar hefði verið brugðist við ákveðnum þáttum og áfram yrði unnið að því að bæta kostnaðarhlutföll í rekstrinum.
6. september sl. birtist í Viðskiptablaðinu þessi merkilega tafla:
Lykiltölur 30.6. 2006 (m.kr.) | |
Sala | 20.176 |
EBITDA | 2.096 |
EBIT | 676 |
Hagnaður (tap) | (1.522) |
Handbært fé frá rekstri f. vexti og skatta | 500 |
Greiddir vextir og skattar | -681 |
Handbært fé frá rekstri | -181 |
Fjárfestingar (net CAPEX) | -1.360 |
Frjálst fjárflæði | -1.541 |
Vaxtaberandi skuldir | 55.654 |
Eigið fé | 17.682 |
Eiginfjárhlutfall | 19% |
Nú kann ég lítið fyrir mér í hagfræði en verð þó að segja að ég varð sleginn yfir þessum tölum enda bentu þær til þess að fyrirtækið stæði verr að vígi en mann hefði grunað. Það kom því ekki á óvart þegar almannarómur hermdi að hitnað hefði undir forstjóranum og að Dagsbrún yrði skipt upp. Orðið skúbbaði á því eins og svo mörgu, sjá til að mynda þessa frétt frá 28. ágúst og svo þessa frá 6 september.
Í gær birtist svo í Morgunblaðinu frétt um það að Dagsbrún hafi verið skipt í tvö félög. Í þeirri frétt er rætt við Þórdísi Sigurðardóttur, stjórnarformann Dagbrúnar, sem fer fögrum orðum um uppskiptin og nýju fyrirtækin tvö enda muni aðgerðirnar skila sér í tveimur öflugum félögum "sem í dag eru hvort um sig jafnstórt eða stærra heldur en Dagsbrún var í upphafi ársins". (Góð uppskipti það að taka fyrirtæki, lima það í sundur, selja fasteignir og fyrirtæki sem það átti og eftir standi tvö fyrirtæki sem eru hvort um sig jafnstórt eða stærra en það gamla.)
Þórdís fer á kostum í viðtalinu en best af öllu er svar hennar við spurningunni um hvort sagan hafi ekki sýnt að viðskiptamódel Dagsbrúnar hefði ekki gengið upp:
"Svaraði hún því til að það hefði gengið fullkomlega upp og myndi gera svo áfram. "Dagsbrún gaf sig út fyrir það að vera umbreytingarfélag og því höfum við sannarlega fylgt eftir núna.""
Þarna er svo vel svarað að maður stendur eiginlega á öndinni. Dagsbrún sneri þokkalegum hagnaði í gríðarleg tap á innan við ári, umbreytti hagnaði í tap, hefði Þórdís eflaust sagt og bent á að það hafi verið í samræmi við tilganginn með fyrirtækinu sem var svo mikið umbreytingafélag að það umbreytti sér á endanum í ekki neitt.
Þegar ég las þetta óborganlega svar Þórdísar rifjaðist upp fyrir mér Dilbert ræma sem fjallar um það að ein leið til að meta hvaða augum viðmælandi lítur mann er að skoða hvernig hann lýgur að manni. Í ræmunni glímir Dilbert við svikulan samstarfsmann sem segist ekki hafa unnið umbeðið verk vegna þess að honum hafi verið rænt af íkornum sem hyggist leggja undir sig heiminn. Svo fjarstæðukennd saga sýnir að viðkomandi bar minna en enga virðingu fyrir viðmælandanum. Hvaða virðingu ætli eigendur Dagsbrúnar beri fyrir íslenskum fjölmiðlum?
Bloggar | Breytt 15.9.2006 kl. 16:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 13. september 2006
Airwaves í vændum
Þá er búið að kynna dagskrá Airwaves 18. til 22. október þó hugsanlega eigi eitthvað eftir að bætast við. Ekki finnst mér eins margt spennandi í boði og á síðustu hátíð, en það er vitanlega smekkur minn sem ræður því - það er ekki eins margt sem mig langar til að sjá og heyra.
Kannski fór síðasta hátíð líka svolítið úr böndunum ef marka má biðraðirnar sem mynduðust fyrir utan Nasa til að mynda, en við fyrstu sýn er betra jafnvægi í framboðinu að þessu sinni.
Einu erlendu hljómsveitirnar sem ég ætla alls ekki að missa af eru The Go! Team og Mates of State; mér er sama um hitt.
Það er aftur á móti talsvert af sveitum íslenskum sem ég vil alls ekki sleppa: Lokbrá, Forgotten Lores, My Summer as a Salvation Soldier, Mugison, Seabear, Mammút, Stillusteypa, Jakobínarína, We Made God, Úlpa, Biggi, Unsound og Dr. Mister & Mr. Handsome svo nokkuð sé nefnt.
Sjáum hvernig það gengur upp. (Dagskráin á örugglega eftir að breytast með tilliti til tímasetninga, kannski til hins betra, en eins líklegt að planið fari allt í rugl. Annað eins hefur nú gerst.)
Eftirfarandi upptalning er semsé það sem ég ætla mér að sjá á Airwaves að þessu sinni, heildardagskrá er annars á vef hatíðarinnar, www.icelandairwaves.com/.
Miðvikudagur, 19. október | ||
22:30 | Lokbrá | Grand Rokk |
22:45 | Fræ | Nasa |
23:30 | Forgotten Lores | Nasa |
Fimmtudagur, 19. október | ||
19:45 | Mates of State | Listasafn Reykjavíkur |
20:00 | Egill Sæbjörnsson | Iðnó |
21:30 | My Summer as a Salvation Soldier | Gaukurinn |
22:00 | Nico Muhly | Iðnó |
23:00 | Mugison | Listasafn Reykjavíkur |
23:30 | Seabear | Þjóðleikhúskjallarinn |
00:00 | Love is All | Nasa |
00:15 | Langi Seli og Skuggarnir | Þjóðleikhúskjallarinn |
Föstudagur, 19. október | ||
20:00 | Baggalútur | Listasafn Reykjavíkur |
20:45 | Benni Hemm Hemm | Listasafn Reykjavíkur |
21:30 | Biogen | Iðnó |
21:30 | Islands | Listasafn Reykjavíkur |
22:15 | Mammút | Gaukurinn |
22:15 | Stillusteypa | Iðnó |
23:00 | Jakobínarína | Listasafn Reykjavíkur |
00:00 | The Go! Team | Listasafn Reykjavíkur |
00:00 | Ghostigital | Iðnó |
01:00 | Jeff Who? | Gaukurinn |
Laugardagur, 19. október | ||
20:00 | We Made God | Grand Rokk |
20:45 | Úlpa | Nasa |
21:30 | Biggi | Listasafn Reykjavíkur |
22:00 | Unsound | Pravda |
23:30 | Mr. Silla | Þjóðleikhúskjallarinn |
00:45 | Hafdís Huld | Iðnó |
01:00 | Hairdoctor | Gaukurinn |
01:45 | Dr. Mister & Mr. Handsome | Nasa |
Tónlist | Breytt 26.9.2006 kl. 09:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 13. september 2006
Klippt og skorið
Plötusnúðar eru ýmiskonar, allt frá því að sitja við spilarann og skipta um plötur næsta vélrænt í það að vera tónlistarmenn sjálfir sem leika af fingrum fram með plöturnar sem sitt hráefni, tónlist annarra. Þeir sem lengt ná í þeim efnum eru mikils metnir um heim allan, enda ekki hægt að líkja því við annað en tónleika þegar þeir troða upp, blanda saman gleymdri tónlist og alþekktri, flétta saman saman taktinn úr þessu lagi og sönginn úr hinu, ekki bara til að láta lögin renna saman heldur til að skapa eitthvað nýtt. En af hverju ekki að ganga lengra, af hverju ekki að líta á tónlistina sem hreint hráefni og fara alla leið, hrista saman það besta úr nokkrum góðum lögum svo úr verður mögnuð snilld?
Mashup kallast það þegar menn skeyta saman lögum líkt og frægt varð hér á landi þegar einhver gárunginn setti saman Celine Dion og Sigur Rós, Sealion Dion vs. Cigar Ros. Helsti spámaður þessara tónvísinda er kanadíska tónskáldið John Oswald sem er frægast fyrir Plunderphonics sem hann kallar svo, en sú hugsun felst í því að setja saman nýja tónlist úr gömlum upptökum. Hann byrjaði á sínum klippiverkum á sjöunda áratugnum og frægt varð er hann skeytti saman gítarfrösum frá Jimmy Page og prédikun bandarísks bókstafstrúarmanns.
Oswald lét þau orð eitt sinn falla að ef við hugsum okkur tónsköpun sem sléttan völl sé höfundarrétturinn girðingarnar og hann og fleiri hafa barist gegn þeirri þróun að sífellt er verið að lengja gildistíma höfundarréttar, aðallega fyrir tilstilli fyrirtækja sem vilji halda áfram að hagnast á hugverkum löngu eftir að höfundurinn er fallinn fá og jafnvel börn hans og barnabörn líka.
Mashup er yfirleitt notað yfir það þegar lög eru felld saman í heilu lagi eða hér um bil, en ótal afbrigði eru til á því sem Oswald kallaði Plunderphonics (fyrsta Plunderphonic diskinn er hægt að sækja á vefsetur Oswalds, plunderphonics.com). Það er til að mynda aðeins útfærsluatriði að nota búta úr lögum eins og legokubba, setja saman lag úr mörgum misstuttum bútum, kannski tugum búta eða hundruðum. Bókstafstrúarmenn kalla það ekki mashup, en merkimiðinn skiptir í sjálfu sér ekki máli, heldur framkvæmdin.
Frægar plötur með tónlist þessarar gerðar eru til að mynda fyrsta platan Oswalds sem getið er og CBS og lögmenn Michaels Jacksons létu eyðileggja, plata Negativland sem U2 stoppaði, Gráa albúmið eftir Danger Mouse, sem steypti saman Hvíta albúmi Bítlanna og Svarta albúmi Jay-Z, en EMI kom í veg fyrir dreifingu hennar þó hægt sé að sækja hana á netið (sjá http://www.illegal-art.org/audio/index.html) - beinn tengill á plötuna (torrent á zip-skrá) hér). Oft eru viðkomandi verk unnin með samþykki höfundarréttareigenda eða þegjandi samþykki, en algengara þó að unnið sé í óleyfi. Dæmi um samþykki eru Radio Soulwax-plöturnar (2 Many DJs) sem á eru mashup sem leyfi fengust fyrir og dæmi um þegjandi samþykki er platan magnaða Three Sinister Syllables, 75 mínútna flétta 250 lagabúta sem margir eru ekki nema taktur eða rödd. Á þeim 75 mínutum segja þeir Jay Glaze & Pro-Celebrity Golf sögu hiphopsins með magnaðri keyrslu (en þess má og geta að á umslagi er nafn plötunnar ritað með stöfum sem klipptir hafa verið úr umslögum á ýmsum sígildum hiphop-plötum). Heyr til að mynda þessa MF Doom syrpu, 26 lög á tæpum átta mínútum.
Three Sinister Syllables var tvö ár í smíðum, enda flókin vinna að púsla saman þó notast sé við tölvur. Dæmi um verk sem enn seinlegra var að vinna er til að mynda upptökur félaganna sem kalla sig Cassetteboy, en þeir notuðu snældur og skæri við iðju sína. The Parker Tapes er frægasta verk þeirra og tók sjö ár, en á því tæta þeir í sig ýmsa frammámenn í bresku þjóðlífi í 99 lögum, til að mynda fær Jamie Oliver eftirminnilega yfirhalningu eins og heyra má með því að smella hér. Á The Parker Tapes nota Cassetteboy félagar að mestu upptökur af talmáli og verkið fellur því að miklu leyti utan viðfangsefnis þessa pistils, en þeir nota líka nota upptökurnar til að gera grín sem nýtur verndar samkvæmd dómi hæstaréttar vestan hafs í máli erfingja Roy Orbison gegn 2 Live Crew á sínum tíma vegna lagsins Pretty Woman (útgáfa 2 Live Crew er ömurleg eins og heyra má með því að smella hér).
Margir klippararnir líta á iðju sína sem hálfgert hugsjónastarf og kæra sig ekki um að leyfi þó það standi til boða, en fleiri virðast þó gjarnan vilja hafa allt á þurru, en það getur verið snúið að afla heimilda fyrir bútum. Dæmi um það er lagið 99 Problems sem Danger Mouse bræðir saman við Helter Skelter á Gráu plötunni.
Á Svörtu plötunni, plötu Jay-Z, eru fjórir útgefendur skráðir fyrir laginu. Til þess að nota lagið þurfti Danger Mouse því að fá leyfi frá þeim útgefendum öllum að ekki sér talað um útgefanda Helter Skelter. Gera má því skóna að þeir hefðu krafið hann um fulla greiðslu fyrir fyrirframgreitt og engar líkur á að hann gæti náð þeim peningum til baka. Kemur ekki á óvart að margir fara þá leið að spyrja hvorki kóng né prest og gefa lögin síðan út á Netinu þar sem hver sem vill getur sótt þau.
Einn af þeim sem sigla milli skers og báru í þessum efnum er tónlistarmaðurinn Girl Talk sem sendi frá sér sérdeilis skemmtilega plötu fyrr á árinu, Night Ripper. Á bak við Girl Talk nafnið er lífefnafræðingurinn Greg Gillis - dagfarsprúður verkfræðingur í hvítum slopp á virkum dögum, en hálfber villtur plötusnúður um helgar. Hann lifir því tvöföldu lífi og vill víst helst hafa það svo, sem sést meðal annars af því að hann neitar blöðum í heimaborg sinni, Pittsburgh, um viðtöl til að halda því leyndu hvað hann gerir í frítíma sínum.
Gillis lærði tónlist sem barn, spilaði á trompet, en fór síðan að fást við óhljóðalist sem unglingur, segist hafa verið í hljómsveit sem framleiddi hávaða og braut hluti. Þegar það bráði af honum fór hann að hlusta á poppmúsík en nálgaðist hana út annarri átt en gengur og gerist. Fyrsta Girl Talk platan kom út 2002 eftir að Gillis hafði setið við klippingar í á annað ár.
Fyrsta plata hans var tilraunakenndari en síðar varð en Gillis segist hafa fljótlega hafa misst áhugann á tilraununum og sneri sér því að hiphopi og poppi. Hiphop er reyndar obbinn af hráefninu sem Gillis notar, enda falla pælingar hans vel að grunninum að góðu hiphopi - smalatækni og liprar klippingar.
Á Night Ripper eru brot úr lögum 167 listamanna eða hljómsveita, um 250 bútar alls, enda notaði hann fleiri en einn bút frá sumum, en alls segist hann hafa haft undir um 6.000 búta þegar hann var að setja plötuna saman. Þetta er mögnuð blanda, en ef marka má tónleikaumsagnir er Gillis enn magnaðri á tónleikum, en þar blandar hann á staðnum, skeytir saman bútum úr öllum áttum eftir stemningunni á staðnum og því í hvaða stuði hann er. Á slíkum tónleikum eru ekki eiginleg lög, frekar eins mögnuð löng syrpa og reyndar hefur hann látið þau orð falla að lögin á Night Ripper séu ekki eiginleg lög, það megi líta á plötuna sem eitt 42 mínútna lag, en þeim hafi verið skipt niður í hæfilega skammta til að tryggja að þeir renni ljúflegar niður.
Skoðum til að mynda upphafslag plötunnar með aðstoð Wikipedia: Lagið, sem er 2:40 mínútur og hægt að sækja með því að smella hér, heitir Once Again og hefst með broti úr Goodies sem crunk-gellan Chiara flutti 2004. Síðan er framvindan þessi:
0:09 Boston - Foreplay/Long Time
0:12 Ludacris - Pimpin' All Over The World
0:32 Fabolous - Breathe
1:16 Ying Yang Twins - Wait
1:25 The Verve - Bittersweet Symphony
1:44 Slim Thug - I Ain't Heard Of That
1:57 Oasis - Wonderwall
2:06 Arrested Development - Tennessee
2:08 Webbie - Give Me That
2:08 Young Jeezy ft. Mannie Fresh - And Then What
2:19 Genesis - Follow You Follow Me
2:19 Ratatat - Bustelo
2:19 Boredoms - Acid Police
2:30 The Five Stairsteps - O-o-h Child
2:38 Eminem - Ass Like That
Nokkuð dæmigert fyrir plötuna alla og takturinn þrælþéttur og drífandi. Partíplata frá helvíti og allt kolólöglegt miðað við dómaframkvæmd vestan hafs. Enginn eigandi höfundarréttar hefur þó enn gripið til varna og óvíst hvort nokkur geri slíkt, litlir peningar í spilinu og það hefur skaðað fyrirtæki þegar þau hafa gengið of hart fram í slíkum efnum. Girl Talk og útgefandi hans, Illegal Art, er þó á gráu svæði ef ekki svörtu í þessu máli og segir sitt að fyrirtækið lenti í erfiðleikum með framleiðslu á disknum vegna tregðu framleiðenda þó tekist hafi að komam plötunni út um síðir.
(Hluti af þessari færslu birtist í Morgunblaðinu 19. sept.)
Tónlist | Breytt 26.9.2006 kl. 09:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tenglar
Vefgreinar
- Dont Legalize Drugs by Theodore Dalrymple, City Journal Spring 1997 Advocates have almost convinced Americans that legalization will remove most of the evil that drugs inflict on society. Dont believe them. City Journal - Spring 1997
Vefmiðlar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 1
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 117725
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar