Færsluflokkur: Bloggar

Hugmyndafræðilegur orðaskógur

Joanna NewsomTónleikar Joanna Newsom í Fríkirkjunni fyrr á árinu eru eftirminnilegir fyrir margt og þá kannski helst það að þeir voru einhvernveginn allt öðruvísi en maður átti von á. Í stað gelgjulegrar framúrstefnu, grípandi léttra laglína, stuttra laga og eilítið falsks söngs bauð hún upp á snúna og víraða lagabálka, lög sem flæktust um hugmyndafræðilegan orðaskóg þar sem tónlistin nánast hvarf í flóð orða, setninga sem brotnuðu upp rétt þegar þær virtust nálgast merkingarkjarna, hugsana sem tvístruðust eins og stóðhestahópur á ódáinsengi.

Að þessu sögðu tók Joanna Newsom aðeins þrjú ný lög í Fríkirkjunni, þó maður muni eiginlega ekki eftir nema þessum þremur lögum, en þá er líka til þess að líta að þessi þrjú lög tóku samtals rúman hálftíma í flutningi og voru því helmingur reglulegrar tónleikadagskrár hennar.

Fyrir stuttu kom út önnur breiðskífa Joanna Newsom, Ys heitir sú og hefur að geyma Fríkirkjulögin og tvö lög til, hátt í klukkutíma af tónlist alls. Eins og tónleikarnir títtnefndu gáfu til kynna er sú Joanna Newsom sem birtist okkur á Ys, talsvert frábrugðin þeirri sem heillaði okkur á The Milk-Eyed Mender, víst er þetta sama listakona, en það er eins og hún hafi tekið út áratuga þroska á þeim rúmum tveimur árum sem liðin eru frá því The Milk-Eyed Mender kom út.
Eitt af því sem vekur áhuga og forvitni þeirra sem hagvanir eru í tónlistarsögunni er að útsetningar á plötunni, sem eru íburðarmiklar og ævintýralegar á köflum, eru skrifaðar á Van Dyke Parks, sem er einn sérkennilegasti og fremsti upptökustjóri bandarískrar tónlistarsögu. Parks er frægastur fyrir að hafa unnið með mörgum helstu tónlistarmönnum vestan hafs og austan, til að mynda Beach Boys, The Byrds, Tim Buckley, Ry Cooder, Ringo Starr, Gabby Pahinui og Fiona Apple, en hann sendi líka frá sér sólóskífur á árum áður, sem sumar eru sannkölluð meistaraverk, til að mynda Song Cycle, Discover America og Jump!

Varla þarf að taka fram að Van Dyke Parks er löngu hættur að nenna að vinna nema þau verkefni sem honum þykja skemmtileg og kostar líka sitt að fá hann til starfa. Joanna Newsom lýsti því í spjalli í apríl sl. að hún hafi eiginlega ekki gert sér grein fyrir við hvern hún var að tala, þekkti Parks ekki nema fyrir það sem hún hafði heyrt frá honum og vissi ekki hversu mikils metinn hann var almennt og frægur. Parks tók henni líka vel og eftir að hún hélt prívattónleika fyrir hann og konu hans, flaug til Kaliforníu með hörpuna og spilaði lögin nýju fyrir þau. Hann vildi ólmur vinna með Newsom og sló af taxtanum þar til útgáfa hennar, smáfyrirtækið Drag City, hafði efni á að ráða hann.

Þó erfitt sé fyrir hlustanda að stíga inn í lögin á Ys grípur maður lögin smám saman, úr textabrotunum, upp úr póstmódernísku flóðinu, stíga myndir. Newsom hefur líka gefið lykla að verkinu í viðtölum, þann helstan að lögin fjögur Emily, Monkey & Bear, Sawdust & Diamonds og Cosmia lýsa ári í lífi hennar, fjórir af helstu viðburðum í lífi hennar sem allir áttu sér stað það ár. Fimmta lagið, Only Skin, bindur síðan plötuna saman merkingarlega, tengir saman lögin fjögur í eina heild. Með þetta að leiðarljósi er léttara að rata þó enn eigi maður eftir langt ferðalag.

Að því hún hefur sagt vatt hvert lag smám saman upp á sig og lengdist eftir því sem hún mjakaðist nær því sem hún vildi segja og eins og hún nefndi í vor fór hljómsveit snemma að hljóma í kolli hennar og henni varð líka snemma ljóst að hún þyrfti aðstoð til að búa lögin svo að sómi væri að.

Í fróðlegu viðtali í vefritinu Pitchfork lýsir Newsom því hvernig þau Parks unnu útsetningarnar og fer ekki á milli mála að hún réð ferðinni. Þannig sendi hún honum punkta um hverja textalínu, hvað hún sæi fyrir sér þegar hún syngi hana, stemmningu, lit og áferð. Það var síðan Parks að ná sýninni fram á þann hátt að hún yrði sátt. Og sátt var hún að eigin sögn, segir að Parks hafi sjaldan viljað fara aðra leið en hún lagði til en þegar hann þráaðist við segist hún líka hafa fljótlega áttað sig á að hann hafði rétt fyrir sér.

Þegar Joanna Newsom kom hingað var hún bara með hörpuna í för með sér og því sérkennilegt til að byrja með að heyra lögin komin í fullan skrúða á Ys. Hún varð líka að grípa til sparnaðarráðstafana þegar hún lagði upp í tónleikaferð að kynna plötuna - í stað strengja koma cimbalon og harmonikka - en einir tónleikar að minnsta kosti verða með fullskipaðri sinfóníuhljómsveit því hún heldur tónleika í Barbican í Lundúnum 19. janúar næstkomandi með Sinfóníuhljómsveit Lundúnaborgar.


Tölfræðileg ósannindi

Fyrirsögn þessarar fréttar er gott dæmi um það hvernig villa má fyrir fólki með réttu orðavali. Það þarf nefnilega að lesa aðeins lengra þar til kemur í ljós að það er ekki rétt að útstreymi gróðurhúsalofttegunda hjá Alcan hafi minnkað sl. sextán ár, það hefur nefnilega aukist nokkuð á þessum tíma.

Þessi frétt er liður í kosningabaráttu vegna fyrirhugaðrar stækkunar Alcan sem Lúðvík Geirsson og umhverfssóðagengi hans (les: Samfylkingin) hefur þegar samþykkt fyrir sitt leyti. Það má vel vera að útstreymi gróðurhúsalofttegunda hjá Alcan hafi minnkað verulega á 16 árum, jafnvel um 70% eins og haldið er fram í fréttinni, en það er útstreymi fyrir hvert framleitt tonn áls. Þegar svo litið er til þess að framleiðsla álversins hefur aukist um 80% á þessum sextán árum, var 100.000 tonn 1990 og er 180.000 tonn núna, gefur augaleið að útstreymi gróðurhúsalofttegunda vegna álversins í Straumsvík hefur aukist, ekki minnkað. (Það væru svo gaman að vita hvers vegna miðað er við árið 1990, eiga Alcan-menn ekki eldri tölur?)

Sé rýnt í tölur um um hlutfall álversins í Straumsvík sem hlutfall af heildarlosun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi má líka greina aukninguna, því frá 1990 hefur verið stöðug aukning losnunar gróðurhúsalofttegunda hér á landi, úr 3.282.000 tonnum 1990 í 3.631.000 tonn 2004 (skv. tölum Umhverfisstofnunar), og hlutfall álversins í þeirri losun hefur verið nokkuð stöðugt frá 1998 - er meira að segja meira í dag en það var 1993 til 1999 þrátt fyrir "öfluga umhverfisstjórnun" Alcan-manna.

Menn geta síðan skemmt sér við að reikna hverju 280 þúsund tonna framleiðsluaukningu á ári á eftir að skila. Að ekki sé talað um ef geðveikislegustu hugmyndir Alcan-manna og Lúðvíks álgreifa Geirssonar verða að veruleika - allt að 460 þúsund tonna ársframleiðsla! Ef teknar eru tölur frá Alcan-mönnum, 47 kíló af flúorkolefnum á tonn ("algengt er að útstreymi vegna framleiðslunnar sé um 47 kg á tonn"), þá hyggjast Alcan-menn dæla út yfir Hafnfirðinga ríflega 21.000 tonnum af  flúorkolefnum á ári, en þess má geta að flúorkolefni eru margfalt virkari gróðurhúsalofttegund en koltvíildi. Geri aðrir betur!

(Til gamans má nefna að glærurnar sem Guðrún Þóra Magnúsdóttir, "leiðtogi umhverfismála hjá Alcan" notaði á á fundi hjá Samtökum atvinnulífsins um útstreymi frá álverum á Íslandi í vikunni, og hér er vitnað til, eru nánast þær sömu og Hildur Atladóttir notaði á Umhverfisþingi 2005. Alcan sýnir hugmyndaflug í endurvinnslu ...)
 


mbl.is Útstreymi gróðurhúsalofttegunda hjá Alcan minnkað um 70% á 16 árum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hungri útrýmt vestan hafs

Þegar stjórnvöld standa frammi fyrir óþægilegum staðreyndum er stundum betra að breyta skilgreiningu á vandamáli frekar en að ráðast að rótum þess. Dæmi um slíkt væri til að mynda ef maður skilgreindi fílfa sem garðaprýði, frekar en illgresi og sjá: óræktargarðurinn breytist í unaðsreit. Þetta kunna stjórnvöld vestan hafs vel eins og oft hefur komið í ljós - Bush og félagar hans hafa löngu komið auga a að auðveldara (og fljótlegra) er að finna upp ný orð en finna lausnir.

Síðustu fimm ár hefur þeim fjölgað vestan hafs sem ekki eiga alltaf fé til að kaupa sér fæðu þegar líkaminn kallar á nærningu. Hingað til hafa menn kallað slíkt hungur og reynt að henda reiður á hve marga þetta hendir ár hvert og tilgreint fjöldann í skýrslu sem gefin er út reglulega. Í frétt í Washington Post um daginn kemur fram að fyrir ekki svo löngu hafi verið tekin ákvörðun um að hætta að nota orðið hungur í opinberum skýrslum og samantektum, enda sé það ekki nógu "vísindalegt" og ekki til viðurkenndir mælikvarðar á fyrirbærið. Á vef Landbúnaðarráðuneytis Bandaríkjanna er orðið hungur þannig varla að finna lengur en áður mátti sjá það notað með orðunum "fæðuöryggi" og "fæðuóöryggi", "food security" og "food insecurity".

Áður fyrr töldust þeir sem borða reglulega án þess að fá alltaf nóga næringu búa við fæðuóöryggi án hungurs. Þeir sem borðuðu ekki reglulega töldust þá búa við fæðuóöryggi með hungri. Nú er allt með öðrum brag: þeir sem ekki fá nóga fæðu til að uppfylla lágmarks næringarþörf þjást af "litlu fæðuöryggi" og þeir sem ekki fá alltaf að borða þjást af "miklu fæðuóöryggi". Semsé búið að útrýma orðinu ónákvæma hungri og setja í staðinn hin vísindalegu nákvæmu orð "mikið" og "lítið" ... og svo hljómar það svo miklu betur. (Til gamans má geta að um 35 milljónir Bandaríkjamanna búa við mikið eða lítið fæðuóöryggi, eða með öðrum orðum: 35 milljónir manna þurfta að glíma við hungur vestan hafs, mis-mikið þó. Einnig má nefna að forsetinn sjálfur hélt því fram að sögur af hungri í ríki hans, meðal annars í Texas, væru ekki sannar. Hann hefur nú eytt þeim ágreiningi.)


Magga Stína syngur Megas

Magga StínaÞað er mikil kúnst að túlka lög og einna mest ef verið er að glíma við lög annarra, ekki síst ef við komandi hefur flutt lögin opinberlega sjálfur. Þeir tónlistarmenn eru legíó sem klúðrað hafa slíkum flutningi, en líka mörg dæmi um að menn hafa flutt lög svo vel að upprunaleg útgáfa, hversu góð sem hún annars var, hverfur gersamlega í skuggann. One í flutningi Johnny Cash er gott dæmi um það. Eins nýleg útgáfa Gillian Welch á Radiohead-laginu Black Star. Og Magga Stína syngur Fílahirðinn svo vel að það lag er eiginlega orðið hennar í mínum eyrum.

 

Sumir lagahöfundar eru svo sérstakir flytjendur að erfitt er fyrir aðra að feta í þeirra spor. Víst er erfitt að heyra aðra syngja lög Magnúsar Þórs Jónssonar án þess maður heyri líka óminn af Megasi. Þetta var áberandi á skífunni Megasarlög, sem kom út fyrir nokkrum árum, þó þar hafi margt verið vel gert og svo eins á plötunni Pældu í því sem pælandi er í sem gefin var út fyrir skemmstu. Sumt gengur upp og annað ekki, reyndar ekki nema þrjú lög á síðarnefndu plötunni þar sem Trabant syngur Björt ljós, borgarljós, KK Dauða Snorra Sturlusonar og Rúnar Júlíusson Borgarblús, en í síðasttalda laginu fer Rúnar á kostum. Annað á plötunni er miður og sumt svo slæmt að það er ekki hafandi eftir.

 

Af hverju það er svo slæmt er ekki gott að segja. Sumir þeirra sem koma við sögu á skífunni bera kannski full mikla virðingu fyrir upphaflegri útgáfu, aðrir kunna kannski ekki að meta Megas, hafa jafnvel lítið hlustað á hann og á stundum finnst manni sem söngvarinn skilji ekki textann almennilega. Þeir eru líka margir all-lyklaðir og snúnir svo þeim er kannski vorkunn.

 

Magga Stína hélt tónleika í Salnum um daginn, í miðju slíku óveðri að búið var að vara fólk við að vera á ferli. Veðrið var nú ekki svo slæmt þegar á reyndi og hlýtt og bjart í Salnum, enda var hann smekkfullur af fólki. Hún var að kynna nýja plötu sína þar sem hún syngur lög eftir Megas með hljómsveitarundirleik og var með hljómsveit með sér þó ekki væri það nákvæmlega sama sveit og kemur fram á plötunni.

 

Lögin sem Magga söng í Salnum eru og lögin sem hún syngur á plötunni, þó flutningurinn hafi verið eilítið frjálslegri þetta kvöld eins og við var að búast, ekki síst fyrir frábærlega lipra og lifandi spilamennsku Sigtryggs Baldurssonar, lífrænn og ekki of agaður. Ekki má gleyma öðrum knáum liðsmönnum; Hörður organisti Bragason, Kristinn Árnason gítarfimleikamaður og svo Jakob Smári Magnússon bassameistari.

 

Útsetningar laganna finnast mér einkar vel af hendi leystar og rýmið sem þeim var gefið á tónleikunum dró það líka vel fram hve þessi lög eru vel samin. Fáir eru lagnari lagasmiðir en Magnús Þór Jónsson - hans verk eru gerð af meistarans höndum.

Það er mikil og góð upplifun að heyra listamenn fara höndum um annarra listaverk, ekki síst ef í hlut eiga lög sem hafa tekið sér bólfestu í manni sjálfum. Best af öllu er þegar menn fara svo fimlega með að maður rétt kannast við lag sem maður þekkti áður vel í upprunalegum búningi. Hamskipti Voulez Vous? eru til sannindamerkis um það - víst veit maður hvaða lag um ræðir en þó ekki, hér var komið eitthvað allt annað. Magga Stína gengur ekki svo langt en víða hefur hún sniðið lögin svo til og skorið að þau verða ný, öðlast nýtt líf. Fílahirðirinn hefur þannig verið að mótast í hennar meðförum ansi lengi og er til að mynda býsna breyttur frá því á Náttúrutónleikunum fyrir margt löngu. Stundum vildi maður að hún gengi aðeins lengra, tæki sér meira skáldaleyfi. Þannig lifnaði Aðeins eina nótt ekki vel í höndum hennar og hljómsveitarinnar, í það minnsta ekki fyrir þeim sem man Megas syngja það lag í Óperunni á sínum tíma. Önnur lög fengu svo nýtt rúm í kollinum á manni, sérstaklega Fílahirðirinn og svo Flökkusagan sem var í hreint magnaðri útsetningu þetta magnaða kvöld í Salnum.

 (Björg tók myndina í Salnum.)


Patrick Watson rokkar

Patrick WatsonÁ hverri Airwaves hátíð uppgötvar maður eittvað nýtt, bæði innlent og erlent, stundum eru hljómsveitir miklu betri en plötur þeirra höfðu gefið tilefni til að ætla og stundum standast þær allar væntingar og gott betur. Þannig var það til að mynda með kanadísku hljómsveitina Patrick Watson, sem heitir eftir píanóleikara hennar og söngvara, en hún lék þrívegis á þessari Airwaves hátíð; fyrst í 12 tónum, þá í Þjóðleikhúskjallaranum og loks á Gauknum - allt magnaðir tónleikar og mjög ólíkir.

Sjá hér lokalag tónleikann í Þjóðleikhúskjallaranum:


Víst bjóst maður við því að tónleikar Watsons og félaga yrðu með helstu uppákomum Airwaves að þessu sinni því nýútkomin breiðskífa sveitarinnar, Close to Paradise, er mögnuð (fæst í 12 tónum), en sveitin gerði gott betur, fór hreinlega á kostum.

Þó Patrick Watson, sem sveitin hefur nafn sitt af, teljist kanadískur er hann fæddur í Kaliforníu, en ólst síðan upp í smábæ vestur af Montreal. Allir karlmenn í fjölskyldu hans voru flugmenn og hafði svo verið í einhverja ættliði, en Watson ungi var svarti sauðurinn, vildi frekar syngja en fljúga. Hann byrjaði líka snemma að syngja, var farinn aðsyngja í kirkjukór sjö ára gamall, en stundaði siðar nám í klassískum píanóleik og djass, tónsmíðum, útsetningum og tilheyrandi - hámenntaður músíkant eina og heyra mátti þegar Gnossienne eftir Eric Satie var tekin fyrir á tónleikunum á Gauknum sælla minninga.

Fyrsta hljómsveitin sem hann lék með, Gangster Politics, spilaði ska en entist ekki lengi. Á næstu árum fór Watson að vinna að eigin tónlist og þá að flétta saman stílum og stefnum, allt frá framúrstefnulegri klassík í grípandi popp. Um líkt leyti byrjaði hann að vinna með myndlistakonunni Brigitte Henry og gerði með henni neðansjávarmynda- og tónlistarverkið Waterproof9, en það var síðar gefið út á bók með meðfylgjandi geisladisk og er margverðlaunað. Watson kom gjarnan fram einn um það leyti en eftir stutta heimsókn til Víetnams haustið 2001 fannst honum tími til kominn að setja saman hljómsveit.

Hann byrjaði á að kalla til liðs við sig gítarleikarann Simon Angell, sem lék áður með honum í Gangster Politics, síðan bassaleikarann Mishka Stein og loks trommuleikarann magnaða Robbie Kuster, sem fór hreinlega á kostum á tónleikum sveitarinnar hér á landi um daginn.

Fyrstu plötuna, Just Another Ordinary Day, hálfgerð kynningarupptaka, gáfu þeir félagar út í sameiningu 2003. Smám saman vann sveitin sér nafn með mikill spilamennsku og sló síðan í gegn á rokkhátíð í Montreal. Í kjölfarið gerðu sveitin svo samning við nýtt kanadískt fyrirtæki, Secret City Records, um útgáfu á nýrri breiðskífu.

Eins og Simon Angell rakti söguna á spjalli í kjallaranum á 12 tónum um daginn voru þeir félagar búnir að vinna mikið í lögunum áður en haldið var í hljóðverið haustið 2005, sum laganna sagði hann að þeir félagar hefðu dundað sér við í á annað ár og þó eiginleg hljóðversvinna hafi byrjað haustið 2005 voru þeir búnir að vera að taka upp mun lengur. Patrick Watson semur lungann af lögum sveitarinnar, en þeir félagar hans leggja líka sitthvað til málanna, hvort sem það eru heil lög eða hlutar úr þeim. Ýmsir fleiri komu að gerð skífunnar, til að mynda sat Jace Lasek við takka í nokkrum lögum (frægur fyrir samstarf sitt við Wolf Parade) og Jean Massicotte í nokkrum öðrum laganna. Amon Tobin lagði sveitinni síðan til rafeindahljóð.

Í spilaranum hér til hliðar eru tvö Watson-lög, Giver og Luscious Life sem standa mönnum til boða á vefsetri hans og eins hjá útgáfunni, Secret City Records. Að lokum myndband við Drifters:


Fjórði í Airwaves

BiggiÞað var sannkallaður langur laugardagur á Airwaves - fjörið byrjaði kl. 17:00 og stóð til um kl. 3:00. Þetta var líka einn besti dagurinn og um daginn og kvöldið sá ég þrennt af því sem helst mun lifa í minningunni um Airwaves 2006. Það fyrsta var einmitt eitt það besta sem ég sá - Jóhann Jóhannsson í Fríkirkjunni. Jóhann var öðrum þræði að kynna nýútkomna plötu sína IBM 1401, A Users Manual sem 4AD gefur út. Tónlistin var þó ekki öll þaðan, heyrðist mér, heldur líka nokkrir smellir í bland. Frábær og hrífandi tónlist og ég varð að sitja á mér að faðma ekki alla sem ég hitti í kirkjudyrunum að tónleikunum loknum. Missti mig þó við nokkra, en þeir föðmuðu bara á móti.

Tónleikahald á Grand Rokk fór nokkuð úr skorðum við það að ein hljómsveit dró sig í hlé og því þurfti ég að hinkra aðeins eftir We Made God. Breytingin bitnaði líka á þeim að því leyti að þeir fengu víst ekkert sándtékk eins og heyra mátti á fyrstu lögunum, en síðan small allt saman. Mjög skemmtilegir tónleikar og sérstaklega var síðasta lagið magnað. Þess má geta að ritstjóri Kerrang! sem ég vélaði á tónleikana lauk lofsorði á þá pilta. Veit vonandi á gott.

Vegna seinkunarinnar missti ég af Úlpu og Pétri Ben sem er vitanlega hið versta mál, en mætti þó á réttum tíma til að sjá Bigga með alrafmagnaða hljómsveit. Fyrsta lag sveitarinnar var afbragðs og annað lag ekki síðra. Sveitin er býsna fjölmenn en nær þó vel saman og lögin bera vel útsetninguna. Mér fannst Biggi líka syngja mjög vel og betur en ég hef áður heyrt til hans.

Johnny Sexual var á Gauknum með sitt siðspillta lostadiskó, frábær tónlist ef uppsetningin á sviðinu gekk illa upp. Grafíkin var þó fín og Johnny hæfilega fjörugur miðað við lakónískan sönginn. Myndastyttan með hljómborðið lagði aftur á móti ekki mikið til málanna.

Vegna tafa í Iðnó náði ég í smá af lágstemmdri Kiru Kiru. Í kjölfarið greip ég svo tillögu Atla Bollasonar á lofti og steðjaði upp í Þjóðleikhúskjallara að sjá Hjaltalín. Það var skemmtileg blanda af kammerpoppi og smá tilraunakenndu rokki. Fín sveit og efnileg með frábæran söngvara.

Aftur var haldið af stað niðrí bæ, nú til að sjá Evil Madness. Sú súpergrúppa var þó lengi að hitna og mér fannst til að mynda fyrsti stundarfjórðungurinn heldur klénn, þó aðeins hafi verið slegið í eftir því sem á leið Ekki nógu evil fyrir minn smekk.

Ekkert vantaði aftur á móti uppá fjörið hjá FM Belfast á Pravda, geggjað diskófjör, NB: 21. aldar diskó. Mæli með því að fólk sæki sér lög á myspace.com/fmbelfast (hlustið eða notið MySpaceMP3Gopher).

Við komuna út í Iðnó var Stórsveit Nix Nolte einmitt að stilla upp. Hugmyndin á bak við sveitina var frábær á sínum tíma en er kannski orðin dáldið þreytt. Hvað sem því líður var engin þreytumerki að finna á músíkinni og fyrsta lagið var spilað af íþrótt - mjög skemmtilegt klifunarkennt lag. Annað lag sveitarinnar var aftur á móti heldur venjulegra og við svo búið hélt ég af stað upp í Þjóðleikhúskjallara.

Jen Lekman datt víst inn fyrir Jenny Wilson þegar sú síðarnefnda heltist úr lestinni vegna veikinda.  Hann var einn á ferð með ukulele og fór skemmtilega með; gamansamur náungi og viðkunnanlegur þó hann hafi ekki verið vel undirbúinn fannst manni. Erlend Øye mætti á staðinn og tók með honum eitt lag og í lokin mætti Benni Hemm Hemm með hluta af sínum fríða hornaflokki og sló botninn í lokalag tónleikanna.

Patrick Watson sýndi í 12 Tónum að þar færi ein af stjörnum hátíðarinnar og hann brást ekki í kjallaranum, gríðarlega skemmtilegir tónleikar þar sem hann og sveitin öll fór á kostum. Flottur söngvari hann Watson og hljómsveitin frábær.

Það var komið fram á nótt þegar Patrick Watson söng síðustu laglínuna, klukan að verða tvö, en ég ákvað samt að ég þyrfti aðeins meiri músík og ákvað að skella mér í Nasa að sjá þá Ívar og Guðna Rúnar, Dr. Mister & Mr. Handsome. Þegar ég kom niðreftir var Hermigervill enn að þó komið væri fram yfir áætlaðan tíma hans. Hann vildi og meira og gekk erfiðlega að koma honum af sviðinu. Margt af því sem hann var að spila var gott en sumt fannst mér gamaldags.

Þegar Hermigervill loks þagnaði voru menn skotfljótir að koma upp græjum fyrir strákana, en heldur lengi að tengja tölvubúnað. Það gekk þó á endanum og stuðið byrjaði. Þeir félagar Dr. Mister & Mr. Handsome voru fljótir að koma fjörinu af stað, mikið stuð og skemmtilegt fannst mér þó ég hafi ekki verið í kösinni fyrir framan sviðið - þrælfínt band.

(Árni Torfason tók myndina af Bigga, sjá: arni.hamstur.is)


Þriðji í Airwaves

JakobínarínaMikið var í boði föstudaginn, hálfgerði valþröng. Þannig voru á listanum sextán hljómsveitin sem mig langaði að sjá, en heimskuleg eðlisfræðileg lögmál komu í veg fyrir að það gengi upp.

Eins gott að viðurkenna það strax, ég náði ekki nema í tvö síðustu lögin af Bigga í 12 Tónum. Hefði betur mætt fyrr því þessi tvö lög sem ég heyrði voru hreint afbragð, miklu betri ég ég átti von á. Tónlistin var órafmögnuð að mestu sem átti afskaplega vel við lögin, þó Biggi hafi haft allskyns fyrirvara á því og lagði áherslu á að mestu skipti að sjá sveitina með allt í botni.

Á eftir Bigga kom kanadíska hljómsveitin Patrick Watson. Hún heitir eftir söngvaranum og píanóleikaranum, en aðrir í sveitinni eru henni líka mikilvægir, bæði sem lagasmiðir og sem skapandi hljóðfæraleikarar. Trymbillinn er til að mynda með bestu trommuleikurum sem hingað hafa komið og gítarleikarinn einnig lipur og frumlegur. Þeir félagar slógu ekkert af í 12 Tónum, keyrðu í gegnum nokkur lög af fádæma öryggi og minntu þannig rækilega á nýja plötu sína, Close to Paradise.

Fjörið var ekki búið í 12 Tónum, því næst á svið var Reykjavík! sem spilaði sennilega oftast allra hljómsveita á Airwaves að þessu sinni. Hamagangurinn var magnaður hjá þeim og bensínið í botni allan tímann.

Margir biður eflaust spenntir eftir að fá að heyra í Kimono í 12 Tónum, enda sveitin ekki með á Airwaves að þessu sinni. Þeir Kimono-menn voru þó ekki eins spenntir, vildu ekki halda tónleika nema með eitthvað nýtt í farteskinu og brugðu því á leik; í stað Kimono komu Kimono-börn og spiluðu af fingrum fram í smá stund. Skemmtileg uppákoma, en ekki ýkja innihaldsrík.

Öllu meira innihald og mun meira fjör var í Jakobínurínu sem hituðu sig rækilega upp fyrir spilamennsku seinna um kvöldið með magnaðri frammistöðu í 12 Tónabúðinni. Geggjuð keyrsla og mikið stuð - þeir spengdu nánast utan af sér húsnæðið.

Svo hafði teygst úr fjörinu í 12 Tónum að Baggalútur varð að víkja fyrir frumþörfum. Það kom sér svo vel að vera kominn í stuð aftur þegar Benni Hemm Hemm byrjaði að spila í Listasafninu. Hljómburður í Listasafninu þessa Airwaves-daga var allt frá þvi að vera frábær í að vera skerandi óþægilegur eins og kom í ljós síðar þetta kvöld. Ég get svosem trúað því að erfitt sé að hljóðstýra hljómsveit á við Benni og blásara hans, en það tókst merkilega vel - krafturinn í lúðrablæstrinum skilaði sér  mjög vel og eins hálfrafmagnaðar raddirnar. Það hjálpaði til að gera þessa uppákomu eins skemmtilega og hún vissulega var.

Islands var eina af þeim hljómsveitum sem ég hlakkaði mikið til að sjá og stóð undir væntingum. Ég átti reyndar ekki von á eins mikilli sýru, eins miklu djammi, en það gerði sveitina bara skemmtilegri.

Einar Sonic stakk því að mér að ég ætti að kíkja á norsku sveitina 120 Days sem spilaði á Gauknum og ég sé ekki eftir að hafa farið að hans ráðum því það var magnað stuð í gangi - þétt krautrokkkeyrsla, eiginlega diskósíbylja.

Fyrst ég var kominn á staðinn ákvað ég að bíða aðeins eftir Mammút, ekki séð sveitina í nokkurn tíma. Sú bið var vel þessi virði, því Mammút hefur tekið miklum framförum og breyst talsvert. Ekki er bara að nýr bassaleikari ber með sé nýja stemmningu heldur er sveitin greinilega að vinna í gítarhljómum og -samspili. Nýju lögin eru líka sterk, vek mótið og kröftug.

Í Nasa héldu menn Kerrang! kvöld líkt og þeir hafa gert áður. Þegar ég mætti þangað var franska metalsveitin Gojira að koma sér af stað með miklum tilfæringum við trommusettið. Það kom svo snemma í ljós af hverju svo mikið var stússað við trommurnar því trymbill sveitarinnar er magnaður. Mikið hefði líka verið gaman ef aðrir hljómsveitarmenn hefðu staðið honum á sporði - í fyrsta laginu hugsaði maður: "Djö... er þetta góður trommari." Í þriðja laginu: "Hmm ... ekkert nema trommarinn."

Í Listasafninu var Jakobínarína að klára með látum og ekki minna stuð hjá þeim en í 12 Tónum. Erfitt þó að ná til áheyrenda í Listasafninu og staður sem henta kannski ekki vel fyrir þá pilta.

Í kjölfar Jakobínurínu kom Go! Team og mikil eftirvænting í salnum. Sveitin fór líka af stað með látum, fullmiklum látum kannski. Svo mikil keyrsla var a græjunum að maður fékk snemma höfuðverk af skerandi hvellum hljómnum og á endanum forðaði ég mér út. Mikil vonbrigði, kannski þau mestu þetta árið.

Vegna seinkunar á dagskrá í Nasa var Mínus ekki byrjuð þegar ég mætti þangað aftur. Sveitin er að koam sér í gang aftur eftir gott frí og byrjar fersk - nýju lögin tvö sem þeir félagar byrjuðu með hljóma einkar vel, grípandi kraftmikið rokk.

Frá Nasa rauk ég út í Nasa og náði í skottið á Ghostigital. Þeir félagar Einar og Curver voru einir á sviðinu líkt og eir höfðu hagað málum í langri tónleikaferð sinni um Bandaríkin og kom mjög vel út að mér fannst, lögin nutu sín betur en oftast áður og búningurinn fór þeim vel; minna af gítar.

(Árni Torfason tók myndina af Jakobínurínu, sjá: arni.hamstur.is)


Annar í Airwaves

Tilly and the WallÁ pappírnum var ekki eins margt spennandi í boði annað Airwaves-kvöldið og það fyrsta, en það rættist heldur en ekki úr. Kvöldið byrjaði til að mynda mjög vel með fínni frammistöðu Johnny Sexual í 12 Tónum. Tónlistin skemmtilegt technodiskó með súrum textum. Annað var ekki í boði í bili, enda hætti Tilly and the Wall við að koma fram í búðinni vegna veikinda.

Fjörið hófst svo fyrir alvöru í Listasafni Reykjavíkur kl. 19:00 þegar Ske hóf leik sinn. Nýir liðsmenn voru áberandi í sveitinni, magnaður trommuleikar og síðan Höskuldur Óafsson, forðum söngvari Whool. Skemmst er fráþví að segja að Höskuldur stóð sig afbragðsvel, svo vel reyndar að ég var að spá í það um tíma af hverju hann væri í Ske. Svo bráði af mér og ég áttaði mig á að það sem fór í mig var að gömlu Skelögin pössuðu einhvernveginn ekki í rokkbúninginn, hér stóð olnbogi útúr og þar of stuttar skálmar. Nýju lögin gengu aftur á móti vel upp, en heldur fannst mér mikið tilfinningaklám í lokalaginu.

Þau hjón í Mates of State kunna vel að fara með hlutina; sönnuðu að einfaldleikinn er bestur. Trommur, hljómborð og tvær samstilltar söngraddir skiluðu mun meiri spennu og dramatík en fullt hús hljóðfæraleikara. Miklu skiptir vitanlega að lögin eru góð, en spilamennskan líka góð, þrátt fyrir hrösun hér og þar á hljómborðinu. Lokalagið var snilld - hrífandi útgáfa af Punchlines. Það eina sem ég saknaði er að fá ekki Running Out, besta lagið af Bring it Back.

Einhver seinkun hafði orðið í Nasa og því ná ég í blábyrjunina hjá Lay Low. Hún er gríðarlegt efni stelpan sú, afbragðs söngkona, góður lagasmiður og góður flytjandi. Sveitin hennar var líka fín og útsetningar vel unnar. Það eina sem stóð í mér voru textarnir, það var eins og þeir væri ekki um neitt, að henni lægi ekkert á hjarta. Fyrir vikið fékk ég snert af krútteitrun og varð frá að hverfa eftir nokkur lög, ákvað að fara út í Listasafn og bíða þar eftir Tilly and the Wall.

Á leiðinni í Listasafnið ákvað ég að kíkja aðeins inn á Gaukinn og eins gott að ég gerði það því þar var Skakkamanage í fínu formi. Frábær frammistaða sveitarinnar og mögnuð spilamennska - mig dauðlangaði að rjúka heim að hlusta á nýju Skakkamanageplötuna þegar þau höfðu lokið sér af.

Tilly and the Wall er sérkennileg sveit um margt, þrjár stelpur og þrír strákar, sem er ekki merkilegt í sjálfu sér, en sveitin sker sig úr fyrir að það er enginn trommuleikari í henni, heldur er takturinn framkallaður með fótunum - í sveitinni er steppdansari sem dansar á hljóðnemavæddum palli. Þar virkaði alla jafna afskaplega vel og ekki saknaði ég trommuleiks. Tónlist sveitarinnar er líka í fínu lagi, heldur meiri hamagangur reyndar en á breiðskífunni Wild Like Children, en nær því sem heyra má á Bottoms of Barrels. Á köflum fannst mér reyndar eins og sveitin væri að leggja of hart að sér, væri að vaða yfir áheyrendur frekar en að hrífa þá með sér.

Eftir smá skammt af Tilly and the Wall fór ég á Gaukinn og sá My Summer as a Salvation Soldier, sem mér er nú tamara að kalla Þóri. Skemmst er frá því að segja að hann stóð sig sérdeilis vel og gaman að heyra ný Þórislög. Það segir sitt um hve vel honum tókst upp að drykkjuskvaldur á staðnum hætti nánast alveg undir það síðasta - ef mann tekst að heilla drukkna blaðamenn og plötubransalið svo að það gleymir stælunum um stund þá er vel að verki staðið.

Af Gauknum hélt ég út í Iðnó að reyna að ná einhverjum af skjólstæðingum Bedroom Community og kom inn í tónleika Nico Muhly. Þar var heldur en ekki ævintýralegt stuð í gangi, magnaður bræðingur af pínaóspuna, framúrstefnulegri taktfléttu og fiðlufantasíu - einskonar nútímaklassík. Muhly er frábær píanóleikari og gaman eð heyra hvernig hann notaði píanóið sem einskonar slagverkshljóðfæri.

Á eftir Muhly kom Mugison en ekki á sama stað, spilaði í Listasafninu. Ég saknaði nýrra laga hjá honum, en það kom svosem ekki að sök því gömlu lögin eru góð og með svo magnaðar sveit og hann hefur komið sér upp hlaut útkoman að verða fyrsta flokks. Gaman að sjá (og heyra) Pétur Hallgrímsson á sviði að nýju.

Eftir nokkur lög af Mugison dreif ég mig upp í Þjóðleikhúskjallara og náði þar í smá skammt af Seabear. Mér skilst að í vændum sé plata með sveitinni á vegum Morr og ástæða til að hlakka til því lögin eru frábær og flutningur með miklum ágætum.

(Árni Torfason tók þessa fínu mynd af Tilly and the Wall. Sjá: arni.hamstur.is)


Fyrsti í Airwaves

at061018_forgotten-lores_006.jpgFyrsti í Airwaves var í gær og óvenju fjölbreytt dagskrá á miðvikudegi. Þegar við bætist að meira er í gangi á sunnudaginn en áður vantar ekki mikið upp á að hátíðin standi í heila viku. Mæting var líka fín í gærkvöldi, meira að segja fullt útúr dyrum á Grand Rokk og Gauknum og komust færri að en vildu. Það var líka fín mæting á Nasa, ekki alveg fullt fyrr en undir það síðasta, þannig að fólk þyrstir í tónlist sem aldrei fyrr.

Tók daginn snemma og byrjaði í 12 Tónum kl. 17:00 að sjá My Summer as a Salvation Soldier eða bara Þóri. Hann var fínn að vanda, nýju lögin hreint afbragð og ekki skemmdi að skömmu eftir tónleikana rétti hann mér upptöku af þeim - svona eiga sýslumenn að vera!

Rökkurró var næst á svið og stóð sig vel að vanda. Rólyndislegt kammerpopp sem lofar góðu, Skilst að 12 Tónar séu að semja við sveitina um samstarf og að Þórir ætli að vinna með sveitinni. Líka að þau haldi sameiginlega tónleika fyrir jól. Meira um það síðar.

Dagskráin riðlaðist lítillega, en ég átti að hitta sjónvarpsmenn kl. 19:00 til að vera í beinni Airwaves-útsendingu, en þeir mættu í 12 Tóna og rúlluðu inn viðtali þar, skilst að hvalafréttir (kvalafréttir) hafi rutt öllu til hliðar og því hafi verið hætt við að taka púlsinn í beinni.

Tími gafst því til að ljúka við lærða langloku um Ohran Pamuk sem ég hendi kannski inn á næstunni, læt hana gerjast aðeins og birti kannski í Mogganum fyrst. Að því loknu fór ég á kreik aftur og eftir smá flæking á milli staða staðnæmdist ég á Grand Rokk þar sem mér tókst að kjafta mig inn þó staðurinn vær smekkfullur eins og dyraverðir sögðu og biðröð fyrir utan, þó ekki væri hún svo ýkja löng.

Á Grand Rokk var Retro Stefson í mikilli sveiflu þegar ég komst loks upp í fjörið, byrjaði kl. 21:00. Mjög skemmtilegt band sem ég hafði ekki áður séð spila, en heyrt lög af MySpace síðu sveitarinnar. Retro Stefson spilar skemmtilegan bræðing af karíbsku poppi, rokki, chanson-sveiflu og salsa og syngur á nokkrum tungumálum. Sveitin er átta manna, tveir gítarleikara, trommur bassi, slagverk og nokkur hljómborð, mis-nútímaleg. Söngvari sveitarinnar og leiðtogi á svið er góður, röddin skemmtilega hrein þó ekki sé hún mjög öguð, og spilagleðin smitast út til áheyrenda. Fyrirtals gítarleikur, skemmtilega "cheesy" hljómborð og fínn bassaleikur þó bassaleikarinn hafi verið álíka hár og bassinn. Mjög efnilegt band.

Sprengjuhöllin var næst og fulllengi að koma sér á svið fannst mér, átti að byrja kl. 21:45 en syndgaði eitthvað uppá það. Tónlistin er hátimbrað húmorískt viðlagapopp, söngur yfirdrifinn og skemmtilegur, mikil dramatík í laglínum og sprett úr spori nokkuð reglulega.  Mjög skemmtileg, en kannski fullmikill menntaskólabragur á köflum.

Bent tróð upp á Nasa, átti að byrja kl. kl. 22:00, en var heldur seinni af stað, og kom skemmtilega á óvart hvað mæting var fín þó ekki hafi hún verið eins mikil og uppi á Grand Rokk. Hann var hálf einmanalegur á stóru sviðinu til að byrja með en fljótur að komast í gang. Textarnir fínir hjá honum og flutningurinn í góðu lagi, en taktarnir skiluðu sér ekki nógu vel út í sal framan af.

Mest aðsókn var á Gauknum, en þar áttu We Are Scientists að spila frá kl. 22:300 þó þeir hafi verið seinna á ferð eins og flest reyndar þetta kvöld. Það kostaði miklar þrengingar að komast inn á Gaukinn, man ekki eftir öðrum eins troðningi þar inni. Lét mig berast með straumnum í átt að sviðinu og því á ágætum stað þegar sveitin byrjaði að spila. Þeir voru heldur venjulegir fannst mér, lögin fín, vel spiluð og skemmtileg, en samt vantaði einhvern neista, eitthvað sem gerði þetta sérstakt.

Komst út um síðir og fór á Nasa þar sem Fræ var að byrja að spila, átti að byrja 22:45, en voru að byrja um ellefuleytið. Þau fóru á kostum, batna með hverjum tónleikum, en viðlagið í Freðnum fávita er fullfreðið orðið fyrir minn smekk.

Eftir smá skammt af Fræi hélt ég yfir á Gaukinn að sjá Diktu sem átti að byrja kl. 23:30. Þeir voru koma sér fyrir á sviðinu þegar ég kom þar inn, staðurinn nánast fullur en ekki yfirfullur eins og fyrr um kvöldið. Þegar Dikta byrjaði að spila bætti þó heldur í með tilheyrandi troðningi. Sveitin er geysiþétt og magnað að sjá hana á sviði; tónleikahald í útlöndum er alltaf góð lexía. Ein fremsta rokksveit landsins.

Þegar ég kom á Nasa aftur var Original Melody enn að spila, áttu að byrja á sama tíma og Dikta. Mikið stuð og mikið fjör, handapat og tilheyrandi, geggjað partíband.

Síðan var komið að aðalbandi kvöldsins að mínu viti, Forgotten Lores. Þeir voru í meira lagi magnaðir, taktarnir framúrstefnulegir og beittir og textagerðin framúrskarandi. Ég hef áður getið um það hvernig þeir stálu senunni á Airwaves 2004, en anno 2006 þurftu þeir engu að stela, þeir áttu kvöldið.

Í  Viðskiptablaðinu í gær var rætt um að FL Group væri að spá í að kaupa hlut í Árvakri - líst nú betur á FL Krew.

(Árni Torfa tók myndina af FL Krew.)


Pamuk fær Nóbelinn

Orhan PamukÉg er ekki hissa á því að Orhan Pamuk hafi fengið Nóbelinn - af þeim sem nefndir höfðu verið í þessu sambandi bar hann af að mínu viti og þá ekki bara sem rithöfundur, heldur líka sem samviska þjóðar sinnar. Nóbelsverðlaunanefndin sænska hefur jafnan verið veik fyrir svoleiðis mönnum og það virðist oft vera það sem ræður úrslitum, þ.e. ef nokkrir rithöfundar standa jafnir hvað varðar listfengi og íþrótt skoða menn oft stöðu þeirra í heimalandinu.

Nú hef ég ekki lesið allt sem Pamuk hefur skrifað, en það sem ég hef lesið er framúrskarandi. Hæst ber að mínu mati bækurnar Nýtt líf, (Yeni Hayat / New Life), Ég heiti rauður (Benim Adim Kirmizi / My Name is Red), Snjór (Kar / Snow) og síðan minningabók hans um Istanbul sem ég hef verið að lesa undanfarið (Istanbul - Hatiralar ve Sehir / Istanbul - Memories of a City). (Áhugasömum um Pamuk bendi ég á að í Granta 85 er að finna smásögu, A Religious Conversation, sem er einn af lyklunum að Snjó.)

Ágæt síða um hann hjá Wikipedia.


mbl.is Orhan Pamuk hlýtur bókmenntaverðlaun Nóbels
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband