Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Líf á öðrum plánetum

Halldór Laxness 1937
Rithöfundurinn Alan Bennett segir frá því í ritgerðasafninu The Uncommon Reader að konunglegur bókavörður Elísabetar Bretadrottningar hafi haldið að henni skáldsögum eftir Jane Austen en drottning hafi ekki kunnað að meta þær, því hún var svo hátt yfir alla landa sína hafin að hún skildi ekki yfirstéttartogstreituna sem knýr framvindu bóka Austen að miklu leyti. Hann lýsir því svo að úr sessi drottningar hafi persónurnar verið svo fjarlægar að þær voru sem maurar og frásögnin því fræðileg en ekki skemmtun.

Þessi saga er ekki rifjuð upp til að gera lítið úr Bretadrottningu, staða hennar er ekki hennar sök nema að litlu leyti. Það er ekki heldur ástæða til að gera lítið úr menntamönnum sem skilja ekki alþýðufólk, háskólafróðu fólki sem skilur ekki hvað almenningur er að hugsa, að hverju hann leitar og hvers hann krefst. Þrátt fyrir það skilningsleysi hafa mennta- og listamenn aftur á móti iðulega leitast við að ná til almennings, en með misjöfnum árangri. Sjá til að mynda Halldór Laxness þar sem hann stendur með félögum sínum í Kommúnistaflokki Íslands á Akureyri sumarið 1937; þessi snyrtilegi fagurkeri, sem alltaf var bísperrtur og glæsilegur á top notch-skóm stendur eilítið hokinn í hnjám, með hendur í vösum í flaksandi gabardínfrakka – gerir í því að vera sem verkamannslegastur. Það er eins og hann sé að segja: Sjáið mig, verkamanninn!

Á þeim tíma, fjórða áratug síðustu aldar og fram eftir öldinni, voru kommúnistar að berjast fyrir alþýðuna, fyrir verkamennina, en deildu þó ekki kjörum með henni, komnir af alþýðufólki en komnir á annan stað, í annað umhverfi og oftar en ekki orðnir menningarlega sinnaðir heimsborgarar sem skildu ekki alþýðumenn og -konur og lífsbaráttu þeirra. Hugsjónir knúðu þessa menn áfram, en líf verkamannsins var þeim fjarlægt, líkara lífi á annarri plánetu en þeim veruleika sem blasti við þeim í Moskva og Kaupinhafn.

Hægimenn elska einstaklinginn en hata almúgann, en því er öfugt farið með vinstrimenn, eða það hefði maður haldið. Annað kom þó á daginn í kjölfar síðustu kosninga þar sem vinstriflokkar guldu afhroð. Vinstrisinnað mennta- og listafólk hefur nefnilega verið gjarnt á að formæla löndum sínum fyrir að kjósa ekki „flokka alþýðunnar“, segja þá hafa gullfiskaminni, þeir séu haldnir Stokkhólmsheilkenninu, vanþakklátir einfeldningar og auðveld bráð illa innrættum stjórnmálamönnum. Samt er það nú svo að þessir landar okkar eru ekkert öðruvísi og í engu ómerkari en sá fjórðungur þjóðarinnar sem kaus vinstriflokkana.

Í áðurnefndri frásögn Bennets kemur fram að með tímanum hafi Bretadrottning lært að meta Jane Austen eftir því sem hún öðlaðist meiri skilning á bókmenntum og mannlegri náttúru. Vonandi öðlast beiskir íslenskir vinstrimenn meiri skilning á mannlegri náttúru og ná aftur sambandi við íslenska alþýðu.

Á myndinni er Halldór Laxness á Akureyri sumarið 1937. Með honum eru Einari Olgeirsson og Steingrímur Aðalsteinsson, sem buðu sig fram fyrir Kommúnistaflokk Íslands. Einari náði kjöri en Steingrímur ekki. Ingibjörg Einarsdóttir tók myndina.


Tunglið allt úr tómum osti

Sé tunglið allt úr tómum osti
talsvert held ég að það kosti
A Grand Day Out
hljómaði í leikritinu Ferðinni til Limbó eftir Ingibjörgu Jónsdóttur sem frumsýnt var í Þjóðleikhúsinu vorið 1964. Í því segir frá ferð músasystkinanna Magga og Möllu til plánetunnar Limbó, sem er miðja vegu milli jarðar og tunglsins, en Magga litla langar til að komast til tunglsins og í ostinn sem þar sé að finna.

Að einhver trúi því að tunglið sé úr osti er gjarnan notað til að gera gys að viðkomandi eða að sýna fram á barnaskap, enda dettur engum í hug að slík og þvílík della geti verið sönn; vísindin hafa sýnt okkur fram á að tunglið sé úr tómu grjóti. Að því sögðu þá lifir allskyns fjarstæðu- og dellutrú góðu lífi á okkar upplýstu öld, hvort sem það er trú á kókoshnetuolíu, agave-síróp og það að Bandaríkjamenn hafi sjálfir sprengt upp tvíturnana, ótti við bólusetningar eða sannfæring um að það sé ekki að hitna á jörðinni og ef svo er þá sé það örugglega ekki mannkyni að kenna.

Segjum sem svo að hópur manna takið að efast um það að tunglið sé úr grjóti. Sjáið bara, segja þeir, það er mysulitt og þar af leiðir: Það er úr osti! Þeir gætu líka gripið til röksemda á við: Til eru heimildir um að tunglið hafi verið úr osti á landnámsöld og þar af leiðir: Það er úr osti í dag! Ég er ekki í vafa um að hægt væri að finna fjölda manna sem myndu skrifa undir slíka staðhæfingu, ekki síst ef hún væri sett upp á netinu.

Fjölmiðlar myndu eflaust gefa slíkum fullyrðingum gaum og í takt við misskilið hlutleysishlutverk myndu þau gefa ostatrúarmönnum sama pláss í fjölmiðlum og raunhyggjumönnum. Í hvert sinn sem rætt væri um tunglið við stjarnvísindamann þyrfti líka að hafa tunglostafræðing með. Fyrir vikið fengi almenningur þá hugmynd í kollinn að það væri umdeilt hvort tunglið væri úr grjóti og tilgátan um að það væri úr osti væri jafn líkleg.

Ofangreint hljómar kannski eins og hver önnur þvæla, en á sér þó stað í raunveruleikanum þegar loftslagsvísindi eru annars vegar. Í þeim fræðum fær hávær minnihluti ámóta pláss í fjölmiðlum og þeir sem rannsakað hafa málið og komist að þeirri niðurstöðu að það fari hlýnandi í heiminum og að sé að miklu eða mestu leyti af okkar völdum.

Umræður um að hvort það sé að hitna í heiminum eða ekki ráðast núorðið einna helst af pólitískum skoðunum og vestan hafs skiptir líka máli hverrar trúar viðkomandi er. Í öllu argaþrasinu gleymist að 97% loftslagssérfæðinga eru sammála um að veðurfar fari hlýnandi af manna völdum. 3% þráast við fyrir einhverjar sakir, sumir sjálfsagt vegna þess að það væri svo indælt ef tunglið væri úr tómum osti því:

Þá yrði Möllu magi stór
og Maggi ekki lengu mjór.

(Á myndinni sjást ostatrúarmaðurinn Wallace og ostatrúarhundurinn Gromit gæða sér á tunglosti á tunglinu.)

Mann- og kvenfyrirlitning

Jean-Paul Sartre og Simone de BeauvoirEitt af helgiritum unglingsára minna var bókin One-Dimensional Man eftir þýska heimspekinginn Herbert Marcuse. Á þeim tíma, í upphafi áttunda áratugarins, var annar hver maður að blaða í Marcuse, þótt ekki hafi skilningurinn á verkinu kannski verið ýkja mikill. Ég man þó að mér þótti það flott greining á kapítalismanum að í neyslusamfélagi hans muni sál almúgans felast í varningi, bílum, stereógræjum (hvað er það annars), pallaraðhúsi og eldhústækjum. (Víst er þetta einföldun en á líka að vera það.)

Því er þetta rifjað upp hér að ég rakst á One-Dimensional Man í bókabúð í fyrrakvöld og fór að fletta henni mér til gamans. Þar var margt sem hefur ekki staðist tímans tönn og inn á milli gullkorn eins og óborganleg tilvitnun í annan mikinn marxista, Jean-Paul Sartre. Sartre var samtímamaður Marcuse, nokkru yngri þó, og þeirra skoðanir lágu saman að mörgu leyti. Tilvitnunin sem Marcuse tínir til er úr ritinu Critique de la raison dialectique og fjallar um erótíska drauma kvennanna við vélina. Ég man ekki eftir að hafa tekið sérstaklega eftir henni á sínum tíma, en ég tók eftir henni núna og þá sérstaklega kvenfyrirlitningunni sem bjó undir.

Víst er innbyggt í fræði Marcuse, líkt og svo oft í vinstrimennsku, lítið álit á almúganum, sem hann og aðrir marxistar vildu vernda fyrir vondu kapítalistunum, en litu um leið niður á fyrir óstéttvísi, menntunarskort og smáborgaraskap. Minna hefur farið fyrir umræðu um það hvernig eðlislæg kvenfyrirlitning þess tíma smitaðist inn í byltingarfræðin.

Svonefnd '68-kynslóð tignaði Sartre sem spámann og hann stóð líka með byltingarsinnuðum ungmennum á götum Parísar í lok sjöunda áratugarins. Sagan hefur leitt í ljós að þótt hann hafi verið merkilegur á sinn hátt var sambýliskona hans og sálufélagi í gegnum árin, Simone de Beauvoir, mun næmari á það sem fram fór. Hún sá það sem var, að í vinstrihreyfingu þess tíma var barist fyrir frelsi, og þá frelsi karla, en það var enn langt í land að konur fengju að njóta þess frelsis: „Karlar fluttu ræður, en konur vélrituðu þær. Karlar stóðu á sápukössum og í ræðupúlti, en konurnar voru inni í eldhúsi að búa til kaffi,“ er haft eftir Beauvoir, og það var ekki fyrr en konurnar áttuðu sig á því að þær þyrftu að hrinda af stað eigin byltingu að hjólin tóku að snúast: „Ég skildi það loks að konur gætu ekki vænst þess að frelsun þeirra myndi spretta af almennri byltingu, þær þyrftu að hrinda af stað eigin byltingu. Karlar voru alltaf að segja þeim að þarfir byltingarinnar gengju fyrir og síðar myndi röðin koma að þeim.“

Þess má geta að lokum að lykilrit Beauvoir, Hitt kynið, „Le Deuxieme Sexe“, kom út fyrir rúmum 60 árum. Franska dagblaðið Le Monde nefndi hana elleftu merkustu bók síðustu aldar í samantekt sem birtist um síðustu aldamót. arnim@mbl.is

Íslensk málstefna - breytingartillaga

Íslenska er tungumál landsins. Tungan er sameign þjóðarinnar.  Henni má ekki breyta nema með leyfi Málnefndar.  

(Í tilefni viðtals við Guðrúnu Kvaran í Morgunblaðinu í dag.)


Þvílík rosaleg helför!

Mótmælt við stjórnarráðiðÞað vakti athygli mína að sjá borða mótmælenda fyrir utan Stjórnarráðið með áletruninni „Helförin endurtekin" eins og sjá má á meðfylgjandi mynd af mbl.is.

Það er gagnlegt að rifja upp í þessu sambandi að orðið „helförin" er alla jafna notað sem samheiti yfir fjöldamorð Þjóðverja og fleiri á evrópskum gyðingum. Alls er talið að allt að sex milljónir manna hafi verið myrtar, skotnar, brenndar á báli, barðar til bana, hengdar, grafnar lifandi og drepnar með gasi.

(Þó orðið holocaust, sem snarað hefur verið sem helförin, nái alla jafnan aðeins yfir gyðingaofsóknir voru það ekki bara gyðingar sem, myrtir voru, því sígaunar, kommúnistar, samkynhneigðir, pólverjar, sovéskir stríðsfangar, vottar Jehóva, fatlaðir og fleiri voru líka myrtir og alls talið að fórnarlömb skipulagðra morðsveita Þjóðverja hafi samanlagt verið að minnsta kosti níu milljónir manna.)

Í allri samanlagðri glæpa- og illvirkjasögu mannkyns hefur helförin sérstöðu, því hún er eina dæmið á nútíma þegar stjórnvöld í ríki ákveða að myrða á skipulegan hátt alla þá sem tilheyra ákveðnum trúflokki (eða eru skyldir þeir sem tilheyra viðkomandi trúflokki) og þá ekki bara þegna eigin ríkis heldur alla sem hægt er að ná til. Í því ljósi verður hernaði Ísraelsmanna, hvaða augum sem menn annars líta hann, ekki jafnað við slíka voðaatburði. Þeir sem það gera gengisfella ummæli sín.

Greinilegt er að eftir því sem helförin / holocaust / shoah fjarlægist okkur í tíma gleymir fólk hvað fólst í henni og hún breytist í óljósa hugmynd. Orð dofna með tímanum, eyðast með mikilli notkun, og smám saman verða þau svo dauf að hægt verður að nota þau við hvaða tilefni sem er eða svo gott sem.

„Hvernig gekk í prófinu?" „Þetta var algjör helför, ég gat ekki neitt!" „Sástu hvernig United tók Chelsea? Þvílík rosaleg helför!"


*$€#%@&#!* +%&$$#!@€&%

MótmæliÍ kjölfar hruns íslensku bankanna hefur heldur en ekki lifnað yfir Íslandi; fjöldi fólks fengið pólitíska köllun og mótmælir sem aldrei fyrr. Síður dagblaða, fréttatímar ljósvakamiðla og vefsíður vefmiðla hafa logað af fréttum af mótmælum, yfirlýsingum og uppákomum. Á sama tíma hefur mikið fjör færst í bloggheima þar sem menn beita breiðu spjótunum og vega hvern annan í gríð og erg, aukinheldur sem nýir vefmiðlar hafa bæst við fjölmiðlaflóruna.

Það gefur augaleið að netið hefur aukið til muna upplýsingaflæði til almennings og gott dæmi um það var til að mynda Kryddsíldarslagurinn á gamlársdag þar sem myndskeiðum af atburðunum, myndum og vitnisburðum snjóaði inn á netið nánast jafnóðum og eitthvað bar við. Þeir sem skima vilja þá flóru geta séð atburðarásina frá ýmsum hliðum og lesið óteljandi túlkun á því sem fram fór. Stundum eru menn að segja frá af nokkru hlutleysi, en á öðrum síðum eru menn eindregið að halda fram tiltekinni skoðun og fara ekki leynt með það.

Allir eru væntanlega samála um að aukin upplýsingamiðlun sé af hinu góða, en ekki er eins gott að svara þeirri spurningu hvort þetta upplýsingaflæði eigi eftir að leiða til breytinga á samfélaginu og hvaða áhrif netið hafi á lýðræðisþróun almennt.

Helstu kostir netsins eru að enginn á það, ef svo má segja, og það hefur aldrei verið auðveldara fyrir menn að kveða sér hljóðs, hrinda af stað eigin vefmiðli, eða bara bloggsíðum, stofna samtök og safna undirskriftum. Hér á landi er aðgangur að netinu aukinheldur ekki sama vandamálið og víða ytra; kannanir hér á landi hafa sýnt að nær allir hafa aðgang að netinu, ýmist á heimili, í vinnu eða skólum eða á bókasöfnum.

Eins og helsti kostur netsins liggur ljós fyrir fer ekki á milli mála hver helsti ókosturinn er: Nafnleysið. Hvernig er hægt að halda uppi samræðum við „corvux corax", „Haffa" eða „skattborgara" þegar maður veit ekki hver er á bak við nafnleysið. Það er þó ekki bara það, því þó nafn viðkomandi sé gefið upp og meira að segja mynd af honum, er ekki á það að treysta - það er ekkert víst að hann sé sá sem hann segist vera og reyndar ekki einu sinni öruggt að sá Jón Jónsson sem þú spjallar við í dags sé sá sami Jón Jónsson og þú spjallaðir við í gær.

Sumir hafa litið til þess að auka megi kosningaþátttöku með því að taka upp kosningar á netinu, en á því er sá ágalli sem þegar er nefndur; enn sem komið er er engin almennt viðurkennd og nothæf leið til að tryggja það að kjósandinn sé sá sem hann segist vera. Nú kemur það kannski ekki svo að sök þó eitthvað sé um svindl ef kosningaþátttaka er mikil, mikil þátttaka þynnir út svindlið, en upp getur komið óþolandi staða ef mjótt er á munum.

Önnur hlið á nafnleysinu hefur líka verið áberandi á bloggsíðum og víðar undanfarna daga og snýr að því hve umræður eiga að til að vera harkalegri á netinu en tíðkast almennt meðal manna. Það að ekki sé hægt að vita við hvern maður er að tala skiptir eðlilega máli í lýðræðislegri umræðu, enda er engin leið að gera sér grein fyrir af hvaða hvötum eða í hvaða tilgangi viðkomandi heldur fram tiltekinni skoðun ef maður veit ekki hver hann er.

Sá plagsiður að ausa þá svívirðingum sem maður er ekki sammála er líka tengdur þessu nafnleysi og eins þeirri fjarlægð sem netið gefur frá viðmælandanum, enda sjaldan sem menn eru kallaðir skíthælar augliti til auglitis þó það sé alsiða á blogg- og spjallsíðum og á örugglega eftir að vera útbreiddara eftir því sem hiti færist í menn þegar líður á árið og ekkert bólar á byltingunni.


Augað alsjáandi

Presidio modeloUndir lok átjándu aldar hannaði enski heimspekingurinn Jeremy Bentham nýja gerð af fangelsi sem var hagkvæmari er önnur slík vegna þess hve ódýrt væri að reka það; í stað þess að verðir væru á hverju strái væri nóg að hafa einn vörð og skapa þá tilfinningu hjá föngunum að þeir gætu ekki vitað hvenær fylgst væri með þeim. Það þarf ekki mikið ímyndunarafl til að átta sig á því að fangelsi Benthams, kallað Panopticon, er spegilmynd af mannlegu samfélagi og þeim ósýnilegu og óskrifuðu reglum sem stýra lífi okkar. (Reyndar líka spegilmynd af trúarbrögðum, en það er önnur saga.)
Annar heimspekingur, Frakkinn Michel Foucault, henti hugmynd Benthams um Panopticon á lofti í verki sínu Agi og refsing (Surveiller et punir) og spann út frá því vangaveltur um það hvernig opið þjóðfélag nútímans hefur í raun orðið til þess að færa fámennum hópi manna æ meiri völd eftir því sem auðveldara verður að fylgjast með okkur.

Þessar kenningar Foucaults og fleiri álíka fræði- og spámanna hafa gert sitt til að leggja grunn að þeirri vænisýki sem einkennir svo umræðu á netinu nú um stundir, sjá til að mynda Zeitgeist-æðið og dellumakeríið hjá þeim sem halda því enn fram að bandarísk stjórnvöld hafi sjálf sprengt tvíturnana í New York. Mér eru minnisstæðar líflegar umræður uppi á Alþýðubandalagsloftinu á Tjarnargötunni fyrir mörgum árum þar sem menn ræddu í alvöru allskyns kenningar og staðhæfingar sem tíminn hefur leitt í ljós að voru tómt bull. Margar dellukenningarnar lifa þó góðu lífi á netinu, afturgöngur, því ungmenni, sem eru í stöðugri valdabaráttu við foreldra sína, falla svo gjarnan fyrir því sem varpar rýrð á yfirvald (les: foreldra).

Við fyrstu sýn hefur netið því heldur en ekki rennt stoðum undir pælingar Foucaults, því aldrei hefur verið betra að fylgjast með fólki en nú um stundir. Atvinnurekandi sem ætlar að ráða mann í vinnu byrjar þannig á að „Googla“ hann, kanna hvað hann er að gera á MySpace-síðunni sinni eða Facebook. Er þetta kannski gaur (eða gella) sem lýst hefur eftir BDSM-félögum á einkamal.is, eru myndir af viðkomandi fáklæddum og ælandi með vændiskonum (eða unglingsstúlkum) eða að fletta upp um sig á bar? Bloggsíður eru líka góð leið til að komast að því hvaða mann tilvonandi starfsmaður hefur að geyma; er hann fylgjandi dauðarefsingum fyrir stöðubrot eða áhugamaður um áhættuíþróttir eða kannabisreykingar?

Samkvæmt Foucault mætti því segja að netið sé hið fullkomna fangelsi, Panopticon, því allt sem við erum að gera á netinu er fyrir allra augum og þegar það er einu sinni komið þar inn er það þar um aldur og ævi. Er því ekki nærtækt að draga þá ályktun að netið verði til þess að við munum halda aftur af okkur, ekki skrifa neitt eða birta nema vera búin að velta því rækilega fyrir okkur hvort það sé líklegt til að hafa áhrif á framtíðarframa eða -starf?

Öðru nær. Sú hugmynd að það sé fylgst með okkur, að það séu ósýnilegir fangaverðir að lesa tölvupóstinn okkar, skanna hvaða síður við erum að skoða, hlera símtöl og skoða upptökur úr eftirlitsmyndavélum er vissulega skemmtilega galin, en eftir því sem fleiri gera sig að fíflum á netinu skiptir það eðlilega minna máli að vera fífl.

Myndin er af kúbverska fangelsinu Presidio modelo sem byggt er eftir hugmyndum Jeremys Benthams. Castro dvaldi þar um tíma. Friman tók myndina.



Vofa tíðarandans

bralds_marx-s_2.jpgVofa gengur nú ljósum logum um Evrópu – vofa Zetigeist. Kvikmyndin Zeitgeist og síðan Zeitgeist Addendum berst með ógnarhraða um heim allan og í kjölfar þeirra ótal myndir aðrar sem flestar gera sitt til að sýna fram á að hagkerfi heimsins eru sem kölkuð gröf og við öll peð á taflborði auðmanna og óþokka sem skipt hafa heiminum með sér.

Eftir loðmollulega tíma hefur pólitískur áhugi stóraukist hjá ungu fólki - í stað þess að velta helst fyrir sér tískufatnaði, glæsikerrum, skemmtiferðum og afleiðusamningum velta ungmenni nú því fyrir sér hvernig búa megi mannkyni betra líf. Sitthvað hefur ýtt undir þennan áhuga en þó helst af öllu tveir ávextir hins kapítalíska hagkerfis; netvæðing og fartölvur, en upplýsingahraðbrautina varð einmitt til sem tilraunverkefni á vegum bandaríska hersins.

Pólitísk umræða fer í sívaxandi mæli fram á netinu, það er vígvöllur hugmyndanna og þar blómstra vefsíður sem ýmist berjast fyrir tilteknum málstað eða á móti. Ekki síst hefur YouTube orðið skilvirk leið til að skila ádeilunni áfram og eins hafa ýmsir hópar nýtt sér Facebook með góðum árangri; smalað saman mannskap til aðgerða, hnýtt saman hóp óánægðra og miðlað upplýsingum þeim á milli.

Oft eru myndir eins og Zeitgeist-tvennan kallaðar samsærismyndir, enda snúast þær oft um það að á bak við tjöldin sé klíka valdamikilla manna sem véli um líf okkar án þess við fáum nokkru um það ráðið. Það er þó ekki rétt að afskrifa þær því þó sumar myndanna séu tóm steypa, eins og gengur, þá velta aðrar upp spurningum um skipan heimsmála og benda á ýmislegt sem miður hefur farið og miður gæti farið.

Fjármálakreppa sú sem nú gengur yfir heiminn er til að mynda vatn á myllu Zeitgeist-manna, enda fjallar seinni myndin í þeirri syrpu, Zeitgeist Addendum, um peningakerfi sem komið er að fótum fram, aukinheldur sem hún segir frá ýmsum skuggahliðum á Alþjóða gjaldeyrissjóðnum og svo má telja. Ekki ný sannindi en eftirtektarverð í samhengi kvikmyndarinnar. Eins er eftirtektarverður sá hluti myndarinnar sem segir frá Venusar áætluninni, The Venus Project, sem er hugarfóstur Jacque Fresco, en Fresco, sem býr í Flórída, hefur komið upp grunnmynd af samfélagsgerð sem hann tekur að muni nýtast mannkyni betur en það sem nú er við lýði.

Þó höfundur Zeitgeist-myndanna, Peter Joseph, taki ekki beina afstöðu með eða á móti hugmyndum Frescos þá kemur vel í gegn sú hugmyndafræði sem hann aðhyllist; hann er á móti græðgivæðingu heimsins, á móti hagkerfi kapítalismans sem hann segist byggja á skorti, og leggur til nýja skipan mála. Þeim sem þekkja eitthvað fyrir sér í hugmyndasögu kemur skemmtilega á óvart að það sem Joseph er að boða svipar ekki svo lítið til útópíansks kommúnisma (íslenska þýðingin á utiopia, þ.e. staðleysa, á ekki við í þessu sambandi, og þó).

Marx átti ekki sökótt við kapítalismann, hann taldi hann eðlilegan þátt í þróun samfélags mannanna og því ekkert athugavert við það að njóta góðs af auði síns helsta stuðningsmanns, Friedrich Engels. Í augum Marx yrði kapítalisminn sjálfdauður, en þar skilur með Marxistum og Zeitgeististum að þeir síðarnefndu vilja ganga af kapítalismanum dauðum og það ekki seinna en strax.

Zeitgeist-myndirnar er hægt að sjá hér: http://www.zeitgeistmovie.com/


Enginn mannvinur

Alexander SolzhenítsynMario Vargas Llosa skrifaði um Alexander Solzhenítsyn í El Comercio sl. laugardag og nefndi að hann hefði verið eins og spámaður í Gamla testamentinu. Fín samlíking í sjálfu sér því spámenn Gamla testamentisins voru alla jafna að spá vel fyrir sanntrúuðum og innvígðum en illa fyrir öllum öðrum; þeir voru engir mannvinir.

Sama má segja um Solzhenítsyn - hann var ekki mannvinur og síst af öllu einlægur baráttumaður fyrir einstaklingsfrelsi eins og menn héldu fram á Vesturlöndum (og ekki síst í Morgunblaðinu).

Solzhenítsyn má eiga það að hann barðist gegn kúgun eftir að hafa verið brýndur til þess með Gúlagdvöl. Hann fletti ofan af illvirkjum Stalíns, sem ekki er hægt að kalla annað en glæpi gegn mannkyninu, og sýndi mikið hugrekki í þeirri baráttu. Hann var þó ekki að berjast fyrir frelsi heldur rússneskri þjóðernishyggju og alræði réttrúnaraðkirkjunnar og ekki síst að berjast gegn gyðingum, enda kenndi hann þeim um rússnesku byltinguna.

Að mínu viti átti hann ekki skilið að fá Nóbelsverðlaunin - það á ekki að verðlauna menn sem sá hatri.


Gangið ekki á grasinu!

Gras10.000 áldósir segir Árni Johnsen og er ekki skemmt, nema hvað.

Hann getur þó ekki um 14.900 fermetra af grasi sem urðu fyrir átroðningi. Hræsnin í þessu náttúrupakki!


Næsta síða »

Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband