Færsluflokkur: Tónlist

Klippt og skorið

Plötusnúðar eru ýmiskonar, allt frá því að sitja við spilarann og skipta um plötur næsta vélrænt í það að vera tónlistarmenn sjálfir sem leika af fingrum fram með plöturnar sem sitt hráefni, tónlist annarra. Þeir sem lengt ná í þeim efnum eru mikils metnir um heim allan, enda ekki hægt að líkja því við annað en tónleika þegar þeir troða upp, blanda saman gleymdri tónlist og alþekktri, flétta saman saman taktinn úr þessu lagi og sönginn úr hinu, ekki bara til að láta lögin renna saman heldur til að skapa eitthvað nýtt. En af hverju ekki að ganga lengra, af hverju ekki að líta á tónlistina sem hreint hráefni og fara alla leið, hrista saman það besta úr nokkrum góðum lögum svo úr verður mögnuð snilld?

Mashup kallast það þegar menn skeyta saman lögum líkt og frægt varð hér á landi þegar einhver gárunginn setti saman  Celine Dion og Sigur Rós, Sealion Dion vs. Cigar Ros. Helsti spámaður þessara tónvísinda er kanadíska tónskáldið John Oswald sem er frægast fyrir Plunderphonics sem hann kallar svo, en sú hugsun felst í því að setja saman nýja tónlist úr gömlum upptökum. Hann byrjaði á sínum klippiverkum á sjöunda áratugnum og frægt varð er hann skeytti saman gítarfrösum frá Jimmy Page og prédikun bandarísks bókstafstrúarmanns.

Oswald lét þau orð eitt sinn falla að ef við hugsum okkur tónsköpun sem sléttan völl sé höfundarrétturinn girðingarnar og hann og fleiri hafa barist gegn þeirri þróun að sífellt er verið að lengja gildistíma höfundarréttar, aðallega fyrir tilstilli fyrirtækja sem vilji halda áfram að hagnast á hugverkum löngu eftir að höfundurinn er fallinn fá og jafnvel börn hans og barnabörn líka.

Mashup er yfirleitt notað yfir það þegar lög eru felld saman í heilu lagi eða hér um bil, en ótal afbrigði eru til á því sem Oswald kallaði Plunderphonics (fyrsta Plunderphonic diskinn er hægt að sækja á vefsetur Oswalds, plunderphonics.com). Það er til að mynda aðeins útfærsluatriði að nota búta úr lögum eins og legokubba, setja saman lag úr mörgum misstuttum bútum, kannski tugum búta eða hundruðum. Bókstafstrúarmenn kalla það ekki mashup, en merkimiðinn skiptir í sjálfu sér ekki máli, heldur framkvæmdin.

Frægar plötur með tónlist þessarar gerðar eru til að mynda fyrsta platan Oswalds sem getið er og CBS og lögmenn Michaels Jacksons létu eyðileggja, plata Negativland sem U2 stoppaði, Gráa albúmið eftir Danger Mouse, sem steypti saman Hvíta albúmi Bítlanna og Svarta albúmi Jay-Z, en EMI kom í veg fyrir dreifingu hennar þó hægt sé að sækja hana á netið (sjá http://www.illegal-art.org/audio/index.html) - beinn tengill á plötuna (torrent á zip-skrá) hér). Oft eru viðkomandi verk unnin með samþykki höfundarréttareigenda eða þegjandi samþykki, en algengara þó að unnið sé í óleyfi. Dæmi um samþykki eru Radio Soulwax-plöturnar (2 Many DJs) sem á eru mashup sem leyfi fengust fyrir og dæmi um þegjandi samþykki er platan magnaða Three Sinister Syllables, 75 mínútna flétta 250 lagabúta sem margir eru ekki nema taktur eða rödd. Á þeim 75 mínutum segja þeir Jay Glaze & Pro-Celebrity Golf sögu hiphopsins með magnaðri keyrslu (en þess má og geta að á umslagi er nafn plötunnar ritað með stöfum sem klipptir hafa verið úr umslögum á ýmsum sígildum hiphop-plötum). Heyr til að mynda þessa MF Doom syrpu, 26 lög á tæpum átta mínútum.

Three Sinister Syllables var tvö ár í smíðum, enda flókin vinna að púsla saman þó notast sé við tölvur. Dæmi um verk sem enn seinlegra var að vinna er til að mynda upptökur félaganna sem kalla sig Cassetteboy, en þeir notuðu snældur og skæri við iðju sína. The Parker Tapes er frægasta verk þeirra og tók sjö ár, en á því tæta þeir í sig ýmsa frammámenn í bresku þjóðlífi í 99 lögum, til að mynda fær Jamie Oliver eftirminnilega yfirhalningu eins og heyra má með því að smella hér. Á The Parker Tapes nota Cassetteboy félagar að mestu upptökur af talmáli og verkið fellur því að miklu leyti utan viðfangsefnis þessa pistils, en þeir nota líka nota upptökurnar til að gera grín sem nýtur verndar samkvæmd dómi hæstaréttar vestan hafs í máli erfingja Roy Orbison gegn 2 Live Crew á sínum tíma vegna lagsins Pretty Woman (útgáfa 2 Live Crew er ömurleg eins og heyra má með því að smella hér).

Margir klippararnir líta á iðju sína sem hálfgert hugsjónastarf og kæra sig ekki um að leyfi þó það standi til boða, en fleiri virðast þó gjarnan vilja hafa allt á þurru, en það getur verið snúið að afla heimilda fyrir bútum. Dæmi um það er lagið 99 Problems sem Danger Mouse bræðir saman við Helter Skelter á Gráu plötunni.

Á Svörtu plötunni, plötu Jay-Z, eru fjórir útgefendur skráðir fyrir laginu. Til þess að nota lagið þurfti Danger Mouse því að fá leyfi frá þeim útgefendum öllum að ekki sér talað um útgefanda Helter Skelter. Gera má því skóna að þeir hefðu krafið hann um fulla greiðslu fyrir fyrirframgreitt og engar líkur á að hann gæti náð þeim peningum til baka. Kemur ekki á óvart að margir fara þá leið að spyrja hvorki kóng né prest og gefa lögin síðan út á Netinu þar sem hver sem vill getur sótt þau.

Einn af þeim sem sigla milli skers og báru í þessum efnum er tónlistarmaðurinn Girl Talk sem sendi frá sér sérdeilis skemmtilega plötu fyrr á árinu, Night Ripper. Á bak við Girl Talk nafnið er lífefnafræðingurinn Greg Gillis - dagfarsprúður verkfræðingur í hvítum slopp á virkum dögum, en hálfber villtur plötusnúður um helgar. Hann lifir því tvöföldu lífi og vill víst helst hafa það svo, sem sést meðal annars af því að hann neitar blöðum í heimaborg sinni, Pittsburgh, um viðtöl til að halda því leyndu hvað hann gerir í frítíma sínum.

Gillis lærði tónlist sem barn, spilaði á trompet, en fór síðan að fást við óhljóðalist sem unglingur, segist hafa verið í hljómsveit sem framleiddi hávaða og braut hluti. Þegar það bráði af honum fór hann að hlusta á poppmúsík en nálgaðist hana út annarri átt en gengur og gerist. Fyrsta Girl Talk platan kom út 2002 eftir að Gillis hafði setið við klippingar í á annað ár.

Fyrsta plata hans var tilraunakenndari en síðar varð en Gillis segist hafa fljótlega hafa misst áhugann á tilraununum og sneri sér því að hiphopi og poppi. Hiphop er reyndar obbinn af hráefninu sem Gillis notar, enda falla pælingar hans vel að grunninum að góðu hiphopi - smalatækni og liprar klippingar.

Á Night Ripper eru brot úr lögum 167 listamanna eða hljómsveita, um 250 bútar alls, enda notaði hann fleiri en einn bút frá sumum, en alls segist hann hafa haft undir um 6.000 búta þegar hann var að setja plötuna saman. Þetta er mögnuð blanda, en ef marka má tónleikaumsagnir er Gillis enn magnaðri á tónleikum, en þar blandar hann á staðnum, skeytir saman bútum úr öllum áttum eftir stemningunni á staðnum og því í hvaða stuði hann er. Á slíkum tónleikum eru ekki eiginleg lög, frekar eins mögnuð löng syrpa og reyndar hefur hann látið þau orð falla að lögin á Night Ripper séu ekki eiginleg lög, það megi líta á plötuna sem eitt 42 mínútna lag, en þeim hafi verið skipt niður í hæfilega skammta til að tryggja að þeir renni ljúflegar niður.

Skoðum til að mynda upphafslag plötunnar með aðstoð Wikipedia: Lagið, sem er 2:40 mínútur og hægt að sækja með því að smella hér, heitir Once Again og hefst með broti úr Goodies sem crunk-gellan Chiara flutti 2004. Síðan er framvindan þessi:

0:09 Boston - Foreplay/Long Time
0:12 Ludacris - Pimpin' All Over The World
0:32 Fabolous - Breathe
1:16 Ying Yang Twins - Wait
1:25 The Verve - Bittersweet Symphony
1:44 Slim Thug - I Ain't Heard Of That
1:57 Oasis - Wonderwall
2:06 Arrested Development - Tennessee
2:08 Webbie - Give Me That
2:08 Young Jeezy ft. Mannie Fresh - And Then What
2:19 Genesis - Follow You Follow Me
2:19 Ratatat - Bustelo
2:19 Boredoms - Acid Police
2:30 The Five Stairsteps - O-o-h Child
2:38 Eminem - Ass Like That

Nokkuð dæmigert fyrir plötuna alla og takturinn þrælþéttur og drífandi. Partíplata frá helvíti og allt kolólöglegt miðað við dómaframkvæmd vestan hafs. Enginn eigandi höfundarréttar hefur þó enn gripið til varna og óvíst hvort nokkur geri slíkt, litlir peningar í spilinu og það hefur skaðað fyrirtæki þegar þau hafa gengið of hart fram í slíkum efnum. Girl Talk og útgefandi hans, Illegal Art, er þó á gráu svæði ef ekki svörtu í þessu máli og segir sitt að fyrirtækið lenti í erfiðleikum með framleiðslu á disknum vegna tregðu framleiðenda þó tekist hafi að komam plötunni út um síðir.

(Hluti af þessari færslu birtist í Morgunblaðinu 19. sept.)


Tónlist er ómeðvituð talning

Í bréfi sem Gottfried Leibniz skrifaði Christian Goldbach vini sínum 27. apríl 1712 varpaði hann fram þeirri tilgátu að sú sæla sem skapast af því að hlusta á tónlist sé í raun sælan af því að telja óafvitandi - tónlist sé ómeðvituð talning.

Þetta rímar við allar gerðir tónlistar þegar grannt er skoðað, enda felur hún í sér ýmist takt eða taktleysi og ótal tilbrigði við það. Gott dæmi er kajagum-tónlist frá Kóreu sem er með svo torræðum takti að spennan sem felst í að greina takt eða taktleysi gerir að verkum að maður hlustar dolfallinn.

Í nýrri bók, This Is Your Brain on Music, eftir Daniel J. Levitin er þessi tilgáta síðan sönnuð með því að fylgjast með heilastarfsemi fólks sem hlustaði á tónlist. Að sögn Levitins mátti sjá á starfsemi heilahnykils viðkomandi að hann var að fylgjast með taktinum hvort sem hann vissi af því eða ekki og síðan að þar spratt fram ánægjutilfinning við taktbreytingar.

Í ljósi þess að heilahnykillinn gegnir veigamiklu hlutverki í líkamshreyfingu, meðal annars í samhæfingu hreyfinga, kemur varla á óvart að flestir eiga erfitt með að hemja sig undir grípandi takti og standa sig jafnvel að því að slá taktinn sér þvert um geð.

 


Noruwei no mori

Fyrir stuttu kom út á íslensku skáldsagan Norwegian Wood eftir Haruki Murakami og kominn tími til finnst eflaust einhverjum, enda nauðsynleg bók að lesa til að fá sem besta mynd af þessum merkilega rithöfundi, en nítján ár eru síðan bókin kom út í Japan. Bjartur gefur út.

Aftan á íslenskri útgáfu bókarinnar stendur þessi setning: "Þessi áhrifamikla saga skaut Haruki Murakami upp á stjörnuhimin bókmenntanna (og metsölulista heimsins)."

Víst er það rétt að bókin varð metsölubók í Japan, en hitt er della að hún hafi skotið honum á metsölulista heimsins, enda kom hún ekki út utan Japans fyrr en mörgum árum eftir að Murakami sló í gegn sem rithöfundur utan heimalandsins.

Samkvæmt Wikipedia er útgáfuröðin þessi: 

Kaze no uta wo kike / Hear the Wind Sing 1979
1973-nen no pinboru / Pinball 1980
Hitsuji o meguru boken / A Wild Sheep Chase 1982
Sekai no owari to hadoboirudo wandarando / Hard-Boiled Wonderland and the End of the World 1985
Noruwei no mori / Norwegian Wood 1987
Dansu dansu dansu / Dance Dance Dance 1988
Kokkyo no minami, taiyo no nishi / South of the Border, West of the Sun 1992
Nejimaki-dori kuronikuru / The Wind-Up Bird Chronicle 1992-1995
Suputoniku no koibito / Sputnik Sweetheart 1999
Umibe no Kafuka / Kafka on the Shore 2002
Afutadaku / After Dark 2004

Noruwei no mori, sem heitir eftir Bítlalaginu Norwegian Wood (og þó ekki, betur útskýrt síðar í þessu bloggi), var semsé fimmta skáldsaga Murakamis og sú sem gerði hann að stjörnu í heimalandi sínu. Fram að því höfðu bækur hans selst þokkalega, í 50.000-100.000 eintökum hver. Murakami hefur lýst því að vinsældir Noruwei no mori / Norwegian Wood hafi komið sér óþægilega á óvart; hann hafi verið sáttur við að hafa í kringum 100.000 lesendur sem dáðu hann og elskuðu en þegar Norwegian Wood skreið yfir milljón eintaka múrinn hafi honum þótt sem allir hafi farið að hata hann. Í kjölfarið treysti hann sér ekki til að skrifa skáldsögu í nokkur ár, en hann lauk við Dance Dance Dance um það leyti sem Norwegian Wood æðið hófst.

Fyrir ókunnugan er erfitt að gera sér grein fyrir því hvers vegna Norwegian Wood sló svo rækilega í gegn í Japan, en í ljósi þess að það voru víst unglingsstúlkur sem féllu fyrst fyrir bókinni má gera því skóna að það sé hvaða tökum Murakami tekur ást og kynlíf í bókinni. Unglingsstúlkurnar hrifust af bókinni og síðan aðeins eldri stúlkur, svo ungar konur, þá konur á miðjum aldri og svo koll af kolli. Síðan bættust piltar við, þá ungir menn og svo má telja. Í lok árs 1988, ári eftir að bókin kom út, hafði hún selst í hálfri fjórðu milljón eintaka í Japan sem var og er fáheyrt.

Um gervallt Japan var Murakami æði, eða réttara sagt Norwegian Wood æði og ýmis annar varningur kom á markað til að nýta æðið - hægt var að kaupa gríðarstóra veggmyndir af norskum furuskógi, sælgæti sem hét eftir bókinni, geisladiskar og fleira, aukinheldur sem sala á Rubber Soul tók kipp.

Bein þýðing á japönsku heiti bókar Murakamis er skógur í Noregi eða norskur skógur, ekki Norwegian Wood, norskur viður, en alla jafna skildu japanskir Bítlaaðdáendur titil lagsins svo að verið væri að syngja um ástarfund í norskum skógi.

Réttur skilningur á titlinum er þó annar, því hann vísar til svefnherbergisinnréttingar úr furu. Lennon var að syngja um það er hann hélt framhjá Cynthiu Lennon, en vildi þó ekki segja það svo beint að hún myndi skilja það. Hann lýsti því eitt sinn að hann hafi viljað gera grín að stúlkum sem keyptu sér ódýrar furuinnréttingar og kölluðu norskan við, en benti þó á að titillinn Cheap Pine hefði vissulega ekki hljómað eins vel.

I once had a girl, or should I say, she once had me.
She showed me her room, isn't it good, Norwegian wood?
She asked me to stay and she told me to sit anywhere,
So I looked around and I noticed there wasn't a chair.

I sat on a rug, biding my time, drinking her wine.
We talked until two and then she said, "it's time for bed".
She told me she worked in the morning and started to laugh.
I told her I didn't and crawled off to sleep in the bath.

And when i awoke I was alone, this bird had flown.
So I lit a fire, isn't it good, Norwegian wood.

Eins og sjá má segir textinn frá því er sögumaður hittir stúlku og fer með henni heim. Hún sýnir honum þó ekki þá hlýju sem hann hefði helst óskað og á endanum neyðist hann til að sofa í baðkarinu. Hann kemur þó fram hefndum að lokum því hann hann kveikir í viðarinnréttingunni góðu.

Þegar Lennon samdi lagið haustið 1965 var hann undir sterkum áhrifum frá Bob Dylan, gekk með samskonar húfu og Dylan var með á umslagi fyrstu plötu sinnar, Bob Dylan, sem kom út 1962, og var nú farinn að semja lög eins og Dylan sem heyra má af Norwegian Wood. Lennon sagði frá því í viðtali löngu síðar að félagar hans hefðu strítt honum mikið á Dylan-áráttunni, en í Revolution in the Head, því lykilverki Bítlafræða, segir Ian MacDonald frá því að Norwegian Wood sé fyrsta Bítlalagið þar sem texinn er mikilvægari en lagið. Í þeirri bók kemur og fram að þeir félaga hafi baslað talsvert við lagið og tekið það upp í mjög ólíkum. Heyr til að mynda fjórðu tökuna.

Dylan tók víst stælingunni með jafnaðargeði og svaraði fyrir sig með góðlátlegri stælingu á Norwegian Wood, laginu 4th Time Around sem er á meistarastykki hans Blonde on Blonde (kom út 1966). Ekki er bara að hann er greinilega að snúa útúr textanum heldur snýr hann líka útúr laglínunni.

Eins og getið er fjallar texti Lennons um stúlku sem dregur sögumann með sér heim en sýnir honum síðan fálæti en í 4th Time Around segir frá manni sem á stormasöm samskipti við vændiskonu, ekki síst eftir að hann reyndir að borga henni fyrir greiðann með tyggjói:

I stood there and hummed,
I tapped on her drum and asked her how come.
And she buttoned her boot,
And straightened her suit,
Then she said, dont get cute.
So I forced my hands in my pockets
And felt with my thumbs,
And gallantly handed her
My very last piece of gum.

Þeim viðskiptum lýkur með því að hún fær flog og fellur að fótum honum:

She screamed till her face got so red
Then she fell on the floor,
And I covered her up and then
Thought Id go look through her drawer.

Dylan fór ekkert leynt með að hann hefði verið að stæla Norwegian Wood og staðfesti það í viðtölum. Hann kunni víst vel að meta Lennon, en fannst lítið til Pauls McCartneys koma og finnst víst enn.

Eins og fram kemur í upptalningunni sem ég fann á Wikipedia kom Norwegian Wood út í Japan 1987. Hún var síðan gefin út á ensku í Kodansha English Library 1989, en þá aðeins til sölu í Japan. Þar keypti íslenskur vinur minn hana fyrir mig um miðjan tíunda árautuginn og reyndar líka Hear the Wind Sing og Pinball, 1973, fyrstu og aðra bókina í Rottu þríleiknum (sú þriðja er Wild Sheep Chase), en þær bækur vill Murakami víst ekki gefa út á Vesturlöndum. Það er því ljóst að Murakami var orðinn stjarna áður en Norwegian Wood kom út.


Milljónir myndbanda

YouTube er vefsetur fyrir myndskeið þar sem notendur vefsetursins lesa sjálfir inn efnið. Ef marka má stofnendur YouTube var það ætlun þeirra að vefsetrið yrði vettvangur fyrir myndbönd almennings, myndbönd sem fólk gerði sjálft, hvort sem um væri að ræða listarænar stuttmyndir eða myndir af gæludýrum eða börnum. Það hefur og orðið raunin, á YouTube eru milljónir myndbanda eftir milljónir höfunda, en einnig er þar að finna tugþúsundur myndbanda sem sett eru inn án vitundar og vilja höfundarréttareigenda; myndskeið úr íþróttakappleikjum, tónlistarmyndbönd, brot úr sjónvarpsþáttum og bíómyndum og svo má telja. Samkvæmt nýlegum upplýsingum frá fyrirtækinu senda notendur YouTube inn um 70.000 myndskeið á sólarhring.

Mest ber þó enn á því efni sem almenningur hefur sjálfur sett saman og enda eiga milljónir manna myndbandstökuvélar, enn fleiri síma með myndbandmöguleika og grúi á líka vefmyndavélar sem tengdar eru beint við tölvur. Hægðarleikur er síðan að komast yfir hugbúnað til að vinna myndböndin og hann fylgir til dæmis með helsta stýrikerfi sem notað er í dag. Þetta notar fólk sér og sem dæmi má nefna mashup-myndbönd sem eru gríðarlega vinsæl á YouTube, en þá hafa menn blandað saman efni úr ólíkum áttum til að gera út eitt verk. Dæmi um það er til að mynda myndband þar sem setningar úr The Big Lebowski er blandað saman við myndbrot He-Man, en óteljandi slíkar kássur er hægt að finna á YouTube. Eins er nokkuð um það að tónlistarmenn noti YouTube til að kynna sig sig, til að mynda með því að sýna færni á hljóðfæri. Með vinsælustu myndböndum á YouTube er þannig heimagert myndband eftir tævanskan gítarleikara sem spilar útsetningu á verki eftir Pachebel, en í myndbandinu sýnir hann ævintýralega tækni á rafgítarinn og varð heimsþekktur fyrir vikið.

Upphaflegur tilgangur YouTube, að gera fólki auðveldara að tjá sig með myndböndum, hefur því gengið eftir en einna mestur vaxtarbroddur er þó í að setja inn forvitnileg myndskeið úr sjónvarpi. Þannig rata flest þau myndskeið sem vekja athygli vestan hafs beint á YouTube og oft nánast um leið. Dæmi um það er klúðrið hjá CNN um daginn þegar spjall vinkvenna var óvart sent yfir ræðu George Bush. Öll mismæli og klúður rata þannig beint inn, umdeildar yfirlýsingar, bilanir og  klaufagangur. Gera má ráð fyrir því að í kosningarbaráttunni sem framundan er vestan hafs muni YouTube skipta miklu máli, enda lifir á YouTube öll vitleysa sem frambjóðendur láta frá sér fara in hita leiksins. Sjá til að mynda hvernig fór fyrir frambjóðandanum George Allen sem gerði lítið úr bandarískum kvikmyndatökumanni af indverskum ættum á framboðsfundi - ummælí hans fóru beint inn á YouTube og þaðan í aðra fjölmiðla og í kjölfarið hvarf forskot hans, sem var á annan tug prósenta.

Samkvæmt vefmælingum er YouTube ein af vinsælustu vefsíðum heims, í þrettánda sæti og á uppleið. Gestir á mánuði eru í kringum tuttugu milljónir og alls er horft á um hundrað milljón myndbönd á dag hjá YouTube. Mismunurinn á fjölda gesta og myndbanda skýrist af því að auðvelt er fyrir notendur að vísa á myndbönd sem vistuð eru hjá YouTube og láta þau spilast á viðkomandi vefsíðu. Gríðarlega vinsælt er að birta YouTube myndbönd á bloggsíðum og einnig hafa sprottið upp vefsíður sem veita aðgang að ýmislegu efni sem er í raun vistað hjá YouTube. Gott dæmi um það eru vefsetur sem veita aðgang að anime, japönskum teiknimyndum, en þau haga mörg málum svo að þau halda utan um lýsingar á þáttum, yfirlit yfir þá og tilheyrandi, en þegar notandi vill síðan horfa er myndbandinu streymt frá YouTube. Þar sem ekki má setja lengri myndbönd en tíu mínútur inn á YouTube sjá þannig vefsetur um að þræða efnið saman svo hálftíma þáttur virðist vera heill en ekki í þrem hlutum. (Reyndar er hægt að setja lengri myndskeið inn á YouTube, en til þess þurfa menn að skrá sig sérstakri "leikstjóraskráningu".)

Það gefur augaleið að svo mikið magn af höfundarréttarvörðu efni vekur ýmsar spurningar og þá helst af hverju þeir sem eiga höfundar- og birtingarrétt á viðkomandi efni skuli ekki hafa látið í sér heyra. Nú er því svo háttað vestan hafs að netþjónustur bera almennt ekki ábyrgð á því efni sem viðskiptavinir þeirra dreifa nema þær heykist á því að fjarlægja efnið sé þeim bent á það. YouTue hefur einmitt haft fyrir sið að taka snarlega út efnið um leið og rétthafi þess lætur í sér heyra, en þegar um 70.000 myndskeið eru sett inn á hverjum sólarhring getur nærri að erfitt er við að eiga. Varla þarf að taka fram að ógerningur er fyrir rétthafa að stefna hverjum og einum notanda og heimskulegar aðgerðir sambands hljómplötuframeiðenda vestan hafs, RIAA, gegn nokkrum einstaklingum hafa engu skilað nema aukinni óvild í garð útgefenda.

Kvikmyndafyrirtæki hafa mörg áttað sig á að YouTube er fín leið til að kynna kvikmyndir og hafa því séð í gegnum fingur sér þó einstaklingar hafu verið að setja inn brot úr myndum eða kynningarmyndbönd nýrra mynda. Eins hafa mörg plötufyrirtæki látið afskiptalaust þó á YouTube sé að finna tónlistarmyndbönd, enda eru slík myndbönd alla jafna hreinræktaðar auglýsingar hvorteðer (og geta haft mikið heimildagildi, ef leitað er að sugarcubes birthday lee finnst  myndband sem byggir á tónleikaupptöku frá öðrum tónleikum Sykurmolanna í Lundúnum (1987)).

Aðstandendur YouTube lýst því yfir að fljótlega muni fyrirtækið vista öll tónlistarmyndbönd sem gerð hafi verið vestan hafs og hvað verður þá um MTV?

(Lengri gerð greinar sem birtist í Morgunblaðinu 2. september.)


Fram og aftur tónlistargötuna

Bob Dylan varð snemma frægur fyrir það hve fljótur hann var að læra lög og sagði sjálfur að hann þyrfti ekki að heyra lag nema tvisvar til að geta spilað það sjálfur. Þessi hæfileiki kom í góðar þarfur þegar hann var að þroskast sem tónlistarmaður í lok sjötta áratugarins og upphafi þess sjöunda. Þannig lá hann yfir plötum og sótti tónleika sem mest hann mátti þegar hann var að undirbúa fyrstu plötu sína sem hann tók upp í lok nóvember 1961, en platan kom út í byrjun árs 1962.

Á fimmta og sjötta áratugnum varð mikil vakning í þjóðlagatónlist vestan hafs, meðal annars fyrir tilstilli manna eins og Pete Seeger og Woody Guthrie, en sá síðarnefndi varð ein helsta fyrirmynd hins unga Dylans. Þeir Seeger og Guthrie voru gangandi alfræðibækur af þjóðlegri tónlist og Guthrie að auki einn helsti þjóðlagasmiður Bandaríkjanna, ef við skilgreinum þjóðlög svo að þar sé komið lag sem þjóðin lærir og syngur. Seeger, sem er enn á lífi, var bjartsýnn sósíalisti, jákvæður baráttumaður fyrir jöfnuði og réttlæti. Guthrie, sem lést 1967, var öllu forvitnilegri, beittari í skoðunum og harðskeyttari, enda hafði hann kynnst skuggahliðum lífsins, fátækt og vonbrigðum í skugga ameríska draumsins eins og heyra má í laginu fræga This Land is Your Land. Guthrie var sósíalisti á ameríska vísu, sem við myndum kannski skilgreina frekar sem sósíaldemókratisma, en í lögum hans er ekki að finna sömu barnalegu bjartsýnina sem einkenndi Seeger og tónlistarfélaga hans. 

Síðasta mánuðinn áður en Dylan hélt í hljóðver lá hann yfir Anthology of American Folk Music, sex plötu safni sem Harry Smith tók saman fyrir Folkways-útgáfu Moses Asch og kom út 1952. Á því safni, sem var endurútgefið 1997, er að finna gríðarleg magn af þjóðagatónlist sem spannar flest afbrigði af  bandarískri tónlist, cajun, blús, vísnasöngur, sjómannalög og svo má telja. Í þennan sjóð sótti Dylan lög sem hann flutti á tónleikum og átti síðar eftir að taka upp, en hann nýtti þau líka sem hugmyndasjóð fyrir eigin lagasmíðar, sótti þangað textabrot, laglínur og hugmyndir ein og heyra hefur mátt í tónlist hans meira og minna upp frá því.

Á fyrstu plötu Dylans eru ekki nema tvö frumsamin lög, Talkin' New Yorkog Song to Woody (og eitt lag af Folkways safninu mikla, See That My Grave Is Kept Clean eftir Blind Lemon Jefferson). Síðarnefnda lagið er gott dæmi um hvernig Dylan nýtir sé hugmyndir frá öðrum, enda er að að miklu leyti byggt á Guthrie-laginu 1913 Massacre, sem segir frá umdeildum harmleik í Michigan. Ágæt samantekt um Guthrie-lagið hér og hægt að hlusta á það.

Því er títt haldið fram að á níunda áratugnum hafi Bob Dylan hafi ekki gefið út sín bestu verk og ágætt dæmi um það má reyndar heyra á The Bootleg Series Volumes 1-3 sem kom út 1991, en þar er meðal annars lagið frábæra Blind Willie McTell sem Dylan tók upp fyrir Infidels (og eins Foot Of Pride sem einnig var tekið upp fyrir Infidels en rataði ekki á þá plötu). Blind Willie McTell er afbragðs lag og góð vísbending um hvað væri framundan því lagið er einskonar uppgjör við nútímann - Dylan sækir sér sniðmát aftur til fimmta áratugarins, þegar hann sökkti sér niður í þjóðlagasöng og blús, og ber það við nútímann:

Seen the arrow on the doorpost
Saying, "This land is condemned
All the way from New Orleans
To Jerusalem."
I traveled through East Texas
Where many martyrs fell
And I know no one can sing the blues
Like Blind Willie McTell

[...]

Well, God is in heaven
And we all want what's his
But power and greed and corruptible seed
Seem to be all that there is
I'm gazing out the window
Of the St. James Hotel
And I know no one can sing the blues
Like Blind Willie McTell

Annað sem Dylan tók upp á þessum tíma var að miklu leyti trúarlegt, margt framúrskarandi en ekki nema ein plata sem hægt er að kalla framúrskarandi, Empire Burlesque, sem kom út 1985. Næst síðasta Dylan-plata níunda áratugarins, Oh Mercy, var þó ágæt og fékk fína dóma, en upptökustjórnin á henni (Daniel Lanois) var full tilgerðarleg fyrir minn smekk og ég kann því síður að meta hana sem ég heyri hana oftar. Síðasta platan, Under the Red Sky, sem kom út 1990, var aftur á móti mikið léttmeti með hreinum barnalögum inn á milli. Hún var tileinkuð dóttur Dylans sem þá var fimm ára, Desiree Gabrielle Dennis-Dylan, sem bar gælunafnið  Gabby Goo Goo.

Eins og Blind Willie McTell benti til var Dylan mjög farinn að velta fyrir séu tónlistarlegum uppruna sínum og á næstu plötum tók hann fyrir þjóðlagaarfinn en hann fór lengra og leitaði aftur í blúsinn. Þannig eru á plötunum Good as I Been to You (1992) og World Gone Wrong (1993) fjölmargir blúsar, þar á meðal eftir þann mæta söngvara Blind Willie McTell, en einnig lög sem Dylan hefur væntanlega heyrt fyrst í flutningi Mississippi John Hurt og fleiri Piedmont-blúsara.

Það liðu sjö ár frá því Dylan sendi frá sér Under the Red Sky að næsta plata hans með frumsömdu efni kom út, Time Out of Mind, sem gefin var út 1997. Platan var tekin upp í janúar það ár og aftur var Lanois við stjórnvölinn. Andinn á plötunni er fremur myrkur, sem skýrist kannski að einhverju leyti af því að lögin eru samin í snjóþyngslum og myrkri á búgarði Dylans í Minnesota. Plötunni var óvenju vel tekið af Dylan plötu, og rokkunnendur kunnu vel að meta hljóm á henni og stemmninguna sem skrifast á Lanois.

Eins og getið er var platan tekin upp í janúar og fyrirhugað að gefa hana út um haustið. Um vorið fékk Dylan hættulega sýkingu í hjarta og var vart hugað líf um tíma. Hann var þó fljótur að ná sér og byrjaður á tónleikahaldi að nýju um mitt sumar. Af þeim plötum sem fylgdu í kjölfarið finnst manni þó líklegt að þessi uppákoma hafi orðið til þess að hann tók að velta fyrir sér dauðanum sem síðan fléttaðist saman við títtnefndar vangaveltur um söngvasjóðinn sem kom honum af stað.

Á Love and Theft, sem kom út í september 2001, má vel heyra, að mínu mati, að Dylan var að vinna úr fortíðinni. Lögin á plötunni eru öll ný, en í þeim fléttar hann saman þræði úr fortíðinni. Hann stýrir upptökum sjálfur á plötunni undir dulnefninu  og fyrir vikið er hljómur á henni allur skemmtilegri og líflegri en þegar Lanois sat við takkana. Reyndar heyrist manni að Dylan hafi gefið mönnum lausan tauminn að mestu, en í hljóðverinu var með honum lunginn úr tónleikasveit hans til margra ára.

Bob Dylan hefur verið venju fremur duglegur undanfarin ár og eins hefur verkefnavalið verið óvenju fjölbreytt (minni á Victoria's Secret auglýsinguna alræmdu).

Hann fékkst við fleira, lék í kvikmynd, gaf út fyrsta bindi ævisögu sinnar, Chronicles Vol. 1, og svo má telja. Í febrúar sl. fór hann svo í hljóðver að taka upp nýja plötu sem nú hefur litið dagsins ljós: Modern Times. Enn stýrir Dylan upptökunum sjálfur sem Jack Frost og stemmningin á henni er ekki síður lífleg og skemmtileg en á Love and Theft.

Segja má að Modern Times sé þriðju hluti þríleiksins sem hófst með Time Out of Mind, því enn er Dylan að velta fyrir sér fortíðinni, sækir þangað yrkisefni, laglínur og textahendingar. Heiti margra laganna gæti til að mynda eins verið heiti laga í lagasafni frá því í fyrndinni og sum eru meira að segja þekkt á öðrum lögum; Thunder on the Mountain, Spirit on the Water, Rollin' and Tumblin', When the Deal Goes Down, Workingman's Blues #2 og The Levee's Gonna Break. Hann vitnar síðan beint í Muddy Waters í Rollin' and Tumblin, notar laglínu og brot úr textanum.

Well, I rolled and I tumbled,
Cried the whole night long.
Well, I rolled and I tumbled,
Cried the whole night long.
Well, I woke up this mornin,
Didn't know right from wrong

syngur Waters en Dylan bregður snemma útaf:

I rolled and I tumbled,
I cried the whole night long
I rolled and I tumbled,
I cried the whole night long
Woke up this mornin',
I must have bet my money wrong.

Sjálfur sótti Muddy grunninn að lagi og texta til Hambone Willie Newbern, sem tók upp Roll and Tumble Blues 1929. Robert Johnson notaði líka brot úr lagi Hambone Willie eins og heyra má í If I Had Possession Over Judgment Day:

And I rolled and I tumbled and I
cried the whole night long
And I rolled and I tumbled and I
cried the whole night long
Boy, I woke up this mornin'
my biscuit roller gone

(Johnson var áíka og Dylan, drakk í sig áhrif víða að og skilaði í frábærum lögum og textum. Í If I Had Possession Over Judgment Day vitnar hann til að mynda í Hambone Willie Newbern og einnig í Son House læriföður sinn. Þeir Johnson og Dylan eru svo báðir undr sterkum áhrifum frá Lonnie Johnson, en það er önnur saga.)

Annað dæmi af Modern Times: Í Nettie Moore vitnar Dylan í vinsælt lag frá átjándu öld í nafninu og viðlagi:

Oh, I miss you, Nettie Moore
And my happiness is o'r
Winter's gone, the river's on the rise
I loved you then, and ever shall
But there's no one left here to tell
The world has gone black before my eyes

syngur Dylan en upprunalegur texti er:

Oh, I miss you, Nettie Moore, and my happiness is o'er
While a spirit sad around my heart has come,
And the busy days are long, and the nights are lonely now,
For you're gone from our little cottage home.

Í textanum vitnar hann einnig í The Yellow Dog Rag eftir þann gamla þrjót William Christopher Handy sem skráði sig höfund að lögum sem hann heyrði fátæka blökkumenn syngja í Mississippi undir lok nítjándu aldar. Handy skráði textann svo:

Dear Sue, your Easy Rider struck this burg today
On a southboun' railer side-door Pullman car.
Seen him here an' he was on the hog.
  (The smoke was broke, no joke,
  not a [fifty?] on him.)
Easy Riders got a stay away,
So he had to vamp it--but the hike aint far,
He's gone where the Southern cross' the Yellow Dog.

og Dylan bregður sér í hlutverk Lee sem Sue leitar að:

I've gone where the Southern crosses The Yellow Dog
Get away from all these demagogues
And these bad luck women stick like glue
It's either one or the other or neither of the two

(Til skýringar má nefna að The Southern var járbrautalína og Yellow Dog var önnur slík lína sem hét Yazoo Delta. Þær skerast í Moorhead í Mississippi.)

Fleiri dæmi má nefna:  The Levee's Gonna Break byggir á When the Levee Breaks eftir Memphis Minnie sem Led Zeppelin tók sér til handargagns á Led Zeppelin IV. Memphis Minnie söng:

If it keeps on rainin', levee's goin' to break,
If it keeps on rainin', levee's goin' to break,
When The Levee Breaks I'll have no place to stay. 

en Dylan syngur:

If it keep on rainin', the levee gonna break
If it keep on rainin', the levee gonna break
Everybody saying this is a day only the Lord could make

og breytir laginu í persónulegt uppgjör, færir það innávið og lýsir tilfinningalegu flóði ekki síður en raunverulegu. Á sínum tíma söng Memphis Minnie um flóðin miklu í Mississippi-fljóti 1927 og ýmsir hafa viljað tengja þetta lag Dylans við flóðin miklu í kjölfar Katrinu fyrir ári, en að mínu viti er það ekki svo einfalt:

If it keep on rainin', the levee gonna break
If it keep on rainin', the levee gonna break
I tried to get you to love me, but I won't repeat that mistake

(Alla texta plötunnar má finna hér.)


Spilastokkur fyrir frelsisunnendur

Eitt af því besta við MP3-væðinguna eru spilastokkar, mikil þarfaþing og talsvert hagnýtari og þægilegri í notkun en fyrri ferðaspilarar, allt frá Walkman snældutækinu í ferðageislaspilara. Ég hef átt nokkra MP33-pilara frá því ég keypti 64 MB RCA Lyra spilastokk vorið 1999. Það var afleit græja og lítið notuð, en ágætis kynning á fyrirbærinu. Eitt af því sem mér fannst verst við Lyruna, að því frátöldu hvað lítið pláss var fyrir músík, var að tónlistin var vistuð á öðru sniði en Mp3 (MPX). Fyrir vikið tók lengri tíma að lesa tónlist inn á tækið og þurfti sérstak forrit til þess.

Frá því Lyran fór niður í skúffu hef ég keypt nokkra spilastokka til að fylgjast með tækninni, en hef ekki notað þá nema þann tíma sem þurfti til að kynnast þeim rækilega - eftir það fóru þeir niðrí skúffu eða krakkarnir tóku þá sér til handagagns. Fæstir stóðust þeir einföldustu kröfur:

Almennilegu hljómur (svo langt sem það nær - MP3 er lossy þjöppun)
Mikið rými (ekki minna en ca 50-100 plötur)
Þokkalegur skjár
Góð rafhlöðuending
Lítill um sig
Stöðluð tengi (USB eða Mini-USB tengi)
Frelsi (hægt að afrita tónlist beint á spilarann - MSC)

Þetta eru ósköp einfaldar kröfur en getur þó verið snúið að fá þær uppfylltar. iPodinn uppfyllir til að mynda ekki síðustu kröfuna, sem er þó ein sú mikilvægasta að mínu mati ef ekki sú mikilvægasta. Fyrir vikið hef ég ekki fengið af mér að nota iPod þó ég hafi átt slíkt apparat og reyndar keypt nokkra slíka til gjafa. Málið er nefnilega að mér finnst iTunes afskaplega leiðinlegur hugbúnaður og einkar gott dæmi um þráláta löngun Apple til að skerða frelsi viðskiptavina sinna. (Annað gott dæmi heitir Macintosh.)

Fyrir nokkrum árum fékk ég mér Rio spilara sem var með 4 GB hörðum disk og reyndist prýðilega. Hann uppfyllti öll ofangreind skilyrði nema eitt, skjárinn var lélegur. Þegar hann bilaði (hljóðstyrkshnappurinn) og ljóst að ekki væri hægt að gera við hann (Rio hætti að selja spilastokka), fékk ég mér 6 GB Creative Zen Micro Photo. Hann uppfyllir öll skilyrðin, nema mér finnst rafrhlöðuending ekki alveg nógu góð.

Í síðustu viku komst ég svo yfir nýjan spilara frá SanDisk, Sansa e270. Hann uppfyllir öll skilyrðin nema það með tengin, því á spilaranum er sérstakt tengi fyrir USB snúruna og því þarf maður að passa upp á snúruna. Rafhlöðuending sýnist mér mjög góð. Þeir SanDisk menn segja hana u.þ.b. 20 tíma, sem getur vel staðist.

Sansa línan frá SanDisk notar Flash-minni sem gerir þá traustari og sparneytnari en ella álíka og Nano spilastokkurinn frá Apple. Sansa e270 er álíka stór og Nano, jafn langur og breiður, en heldur þykkari. Skjárinn er talsvert stærri. Hann er með innbygt útvarp (hægt að taka upp beint úr útvarpinu) og hljóðnema fyrir upptöku. Á honum er rauf fyrir minniskort. Innra minni í spilaranum er 6 GB, en í gær kynnti SanDisk nýtt módel sem er 8 GB.

Hægt er að sýna ljósmyndir og myndbönd á spilaranum en til þess að það sé unnt verður að breyta viðkomandi skrám með hugbúnaði sem fylgir (Sansa Media Converter). Það gengur alla jafna vel og tekur skamman tíma. Ég prófaði til að mynda með teiknimynd (Wallace & Gromit: Curse of the Were-Rabbit) og leikna mynd (Life Aquatic) og þær skiluðu sér merkilega vel miðað við skjástærð. Ég rippaði Walace & Gromit myndina með DVD Decrypter og vann rippið síðan með AutoGK (Auto Gordian Knot), hvort tveggja afbragðsforrit. Það fyrrnefnda er víst ekki lengur ókeypis en hitt er opinn hugbúnaður sem finna má hér. Life Aquatic fann ég á Netinu sem 2x700 MB skrár. Það er vo skemmtilegt útaf fyrir sig að Sansa Media Converter varpar kvikmyndum yfir í QuickTime.

SanDisk hefir kynnt spilastokka sína með umdeildum auglýsingum þar sem mikið grín er gert að iPod-hjörðinni. Sjá: idont.com


Skemmtilega bresk og blátt áfram

Ekki er langt síðan söngkonan Sandi Thom var á allra vörum fyrir "útsendingar" hennar yfir Netið sem gert hefðu hana að stjörnu. Á daginn kom að útsendingarnar fóru líklega aldrei fram, en segir sitt hvað menn eru spennir yfir þeim möguleikum sem Vefurinn gefur tónlistarmönnum að allir voru tilbúnir til að trúa því. Nú hampa menn söngkonunni Lily Allen sem nýtti sér Vefinn til að safna vinum og búa þannig í haginn fyrir tónlistarferil sem hófst svo með látum í vor. Það er og hið besta mál, því Thom er óttaleg tilgerðartuðra, umbúðir án innihalds, en Allen skemmtilega bresk og blátt áfram.

Lili Allen er dóttir breska grínarans Keith Allen, en hafði víst lítið af honum að segja sem barn þó það hafi komið góðs síðar. Eins og hún hefur lýst æsku sinni var hún á síðfelldu flandri með móður sinni, alltaf að flytja milli hverfa í Lundúnum, fædd í Hammersmith en segist hafa búið einhvern tíma í öllum hverfum meira og minna sem sést meðal annars af því að hún var í þrettán skólum á aldrinum fimm til fimmtán ára. Getur nærri að henni hafi reynst erfitt að eignast vini en hún fann sér fróun í bókmenntum og tónlist.

Allen varð snemma sjálfri sé nóg og þótti ódæl, reki úr skólum og strauk að heima, fór meðal annars á Glastonbury hátíðina þegar hún var fjórtán ára. þegar hún var fimmtán ára var ljóst að hún átti ekki heima í skóla og hætti, hékk heima og samdi lög. Það haust fór hún með fjölskyldunni í sólarferð til Ibiza og fékk síðan leyfi til að vera eftir, sagðist vera komin gistingu hjá vinum, en hún var í raun ein á ferð, bjó á farfuglaheimili, vann í plötubúð á daginn og seldi alsælu á kvöldin.

Á Ibiza komst hún í kynni við útsendara plötufyrirtækis sem kom henni á samning við  Warner útgáfuna, en hún heldur því fram sjálf að samninginn hafi hún fengið vegna ætternis fyrst og fremst. Þegar til Englands var komið komst hún síðan að því að Warner var eiginlegs ekki að semja við hana vegna hennar eigin tónlistar heldur voru menn þar á bæ að leita að stúlku í stúknahljómsveit sem heita átti Sugababes.

Þetta var nokkuð annað en Allen hafði ætlað sér og kemur kannski eki á óvart að ekkert varð úr útgáfu hjá Warner að svo stöddu og samningurinn felldur út gildi. Hún var þó ekki hætt að fást við tónlist, hélt áfram að semja og tók upp lög.

Haustið 2005 gerði hún annan samning, að þessu sinni við Regal Records, sem er reyndar í eigu sama risa og á Warner. Allen segir svo frá að þessi útgefandi hafi líka viljað móta hana eftir sínu höfði, fá þautreynda lagasmiði til að semja fyrir hana lög og útlitssmiði til að kenna hennu að klæða sig og hreyfa. Hún fór þó sínu fram, kom sér upp MySpace síðu og bloggaði það sem mest hún mátti á milli þess sem hún etti inn kynningarupptökur af lögum á væntanlega sólóskífu.

MySpace svínvirkaði, svo vel reyndar að varð kveikja að umfjöllun blaða og tímarita sem ýtti svo undir enn frekara umtal. Þegar fyrsta smáskífan, LDN, kom út í apríllok var hún með tilbúinn gríðarstóran áheyrendahóp sem skilaði laginu á toppinn á breska smáskífulistanum. Fyrsta stóra platan, Alright, Still, kom svo út fyrir stuttu, fyrst í takmörkuðu vínylupplagi 3. júlí sl. og síðan almenn útgáfa 17. júlí.

Þegar hlustað er á Alright, Still kemur vel í ljós hve fjölbreyttan tónlistarsmekk Lily hefur þar ægir öllum saman frá léttu sumarlegu poppi eins og í laginu vinsæla LDN, í skalega sveiflu eins og heyra má í upphafslagi plötunnar, Smile. Söngurinn er líka fjölbreyttur, alla jafna ekki svo langt frá talsöng að hætti Mike Skinner, en hún getur líka sungið. textarnir eru svo sérstakur kapítuli útaf fyrir sig, kæruleysislegir en þó útpældir. Garnan er fjallað niðrandi um fyrrverandi kærasta eða fyrrverandi vinkonur og fyrir vikið flokka sumir Allen sem bitchpop. Hún er þó ekki bara að syngja um sína fyrrverandi - sjá til að myndatextann við LDN þar sem meðal annars er sungið um að ekki sé allt sem sýnist; strákurinn sem tekur að sér að bera þungu bónuspokana fyrir gömlu konuna er að ræna hana.

There was a little old lady who was walking down the road
She was struggling with bags from Tesco
There were people in the city having lunch in the park
I believe that is called alfresco
Then a kid came along to offer a hand
But before she had time to accept it
Hits her over the head, doesn't care if she's dead
'Cause he's got all her jewelry and wallet

MySpace hefur dugað Lili Allen vel til að komast á samning, en þó takmarkinu sé eiginlega náð heldur hún áfram að skrifa inn á það og rétt að benda fólki á að kíkja þar inn, hún er oft hressilega hreinskilin og skemmtilega ósvífin, sjá: www.myspace.com/lilymusic.


Elvis Eþíópíu

Eitt af því skemmtilegasta við þá ágætu mynd Broken Flowers var tónlistin, óhemju fjölbreytt og skemmtileg blanda af tónlist úr ólíkum áttum. Innan um klassíkina, þungarokkið og poppið var sérkennileg blanda af djass, fönki og afrískum takti sem setti sterkan svip á myndina, undirleikur leitarinnar að tilgangi sem myndin snerist um. Blandan sú var með tónlist eftir eþíópískan tónlistarmann,  Mulatu Astatke, sem var meðal frumherja í eþíópískum djass.

Eþíópískur djass varð til á næturklúbbum Addis Ababa á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar þar sem menn bræddu saman bandaríska soul-tónlist, fönk og djass og þjóðlega eþíópíska tónlits. Þannig má heyra í músíkinni djassspuna, súran fönkgítar, fjölsnærðan afrískan takt og sjóðandi hammond. Mikið af tónlistinn er sungið, megnið jafnvel, og söngvararnir alla jafna framúrskarandi, enginn þó betri en Mahmoud Ahmed, sem er sennilega þekktasti tónlistarmaður Eþíópíu hér á Vesturlöndum og einn fremsti söngvari Afríku. Hann væri eflaust enn þekktari ef heimaland hans hefði ekki verið undir marxískri harðstjórn á níunda áratugnum og ill- eða ómögulegt að fá leyfi til að fara úr landi.

Mahmoud Ahmed er fæddur í Addis Ababa 1941, af Gouragué kyni, en sá þjóðflokkur býr í suðvesturhluta landsins.  Hann fékk snemma áhuga á tónlist en lítil tækifæri til að rækta þann áhuga. Hann aflaði sér aukatekna sem skóburstari og hafði það sem aðalstarf eftir að hann flosnaði upp úr skóla og fékk svo vinnu á Arizona næturklúbbnum í Addis Ababa 1962, fyrst sem sendisveinn og síðan í eldhúsinu.

Klúbbar eins og Arizona, sem voru eiginlega ólöglegir, urðu athvarf tónlistarmanna úr her- og lögreglulúðrasveitum og á Arizona var húshljómsveitin skipuð tónlistarmönnum úr lúðrasveit lífvarða keisarans. Söngvari með þeirri sveit var Tlahoun Gèssèssè, sem þá var mesta söngstjarna Eþíópíu, og hinn ungi Ahmed komst þannig í tæri við suma fremstu listamenn Eþíópíu á þeim tíma. Hann lærði prógrammið utanað og þegar Gèssèssè forfallaðist eitt sinn bað Ahed um að fá að taka lagið með sveitinni. Það gekk svo vel að áður en varði var hann kominn með fasta vinnu sem söngvari í lúðrasveit lífarðarins og söng með þeirri sveit í ellefu ár.

Haile Selassie hafði verið við völd áratugum saman, krýndur konungur 1928 og keisari 1930. Hann hafði beitt sér fyrir ýmsum umbótum sem voru ýmist of róttækar fyrir íhaldsöfl með orþódoxkirkjuna í broddi fylkingar, eða ekki nógu róttækar að mati menntamanna. Tilraun til stjórnarbyltingar var gerð 1960 að undirlagi manna í lífvarðasveit keisarans sem nutu stuðning róttækra menntamanna. Keisarinn brást við með ýmsum tilraunum til umbóta.

Ein greina menningar sem naut takmarkaðs frelsis var tónlistarútgáfu því frá 1948 hafði rikisstofnunin Agher Feqer Mahber, föðurlandsástarsambandið, haft einkarétt til að gefa út plötur og fyrir vikið voru allar plötur sem komu út með þjóðlegri tónlist nema þegar hylla þurfti keisarann.

Fyrstur til að rjúfa einkaréttinn var armenskur kaupmaður sem flutti til landsins segulbandstæki og byrjaði að taka upp helstu hljómsveitir og gefa út kassettur. Sporgöngumaður hans var ungur áhugamaður um tónlist, Amha Eshete, sem ákvað að stofna útgáfufyrirtæki og tók að hljóðrita þessa nýju gerð eþíópískrar tónlistar og gaf svo út smáskífur og stórar plötur á merkinu Amha. þetta var í upphafi áttunda áratugarins og á var Ahmed farinn að syngja með nýrri hljómsveit, Ibiz sveitinni, sem spilaði reglulega á Ras hótelinu í Addis Ababa. Forsvarsmenn ríkisútgáfunar mótmæltu þessu en keisarinn ákvað að láta útgáfuna afskiptalausa. Alls gaf Ahma Eshèté út 250 lög á 103 tveggja laga plötum og á annan tug af breiðskífum sem voru alla jafna söfn af smáskífum.

Þetta blómaskeið eþíópískrar tónlistar stóð þó ekki lengi því spenna hafði aukist í landinu smám saman - annars vegar voru menntamenn sem vildi róttækar breytingar á eþíópísku samfélagi og hins vegar íhaldssamir sem sáu upplausn og lausung í hverju horni og vildu færa flest í gamlar skorður. Eftir að upp komst að stjórnvöld höfðu leynt fyrir þjóðinni hungursneyð vegna þurrka í Wollo héraði 1972–73 jókst verulega fylgi við maríska róttæklinga og eftir ólgu í hernum var sett saman rannsóknarnefnd liðþjálfa til að leita úrbóta. Hún var ekki lengi að gera upp við sig hvað ætti að gera, steypti keisaranum og tók völdin, kom á marxískri harðstjórn í landinu og lét myrða Haile Selassie. Í Eþíópíu kalla menn harðstjórnarárin Derg-tíma, eftir nafni nefndarinnar. Einn nefndarmanna var Mengistu Haile Mariam, sem á heiðurssess meðal helstu harðstjóra og illvirkja mannkynssögunnar.

Eitt af því fyrsta sem hreinlífismarxistarnir bönnuðu var starfsemi næturklúbba og stóð það bann í fimmtán ár. Menn máttu taka upp tónlist en ekki spila hana opinberlega nema fyrir útenda gesti eða frammámenn innan stjórnarinnar. Hvað útgáfuna varðaði var skylda að á hverri plötu (snældu) sem gefin var út urðu að vera að minnsta kosti tveir lofsöngvar um stjórnvöld. Á endanum lagðist plötuútgáfa af að mestu og þegar Mengistu var loks steypt 1991 var eiginlega áþekkt ástand í eþíópískum tónlistarheimi og menn þekkja af ævintýrinu um Buena Vista Social Club - skoðana og menningarkúgun stjórnvalda varð til þess að ríkjandi vinsæl tónlistarstefna staðnaði, hætti að þróast og breytast í takt við tímann og flestir helstu tónlistarmenn landsins hættu að spila á besta aldri. Þegar menn síðan fara að kynna sér eþíópíska tónlist frá áttunda áratugnum er það eins og að taka sér far í tímavél eða rekast á týndan fjársjóð - tónlist sem stenst samanburð við að besta sem samið var og spilað annars staðar í heiminum með skírskotun í að sem almennt var á seyði í tónlist á þessum tíma en þó gersamlega einstakt, svo framandleg þrátt fyrir kunnuglega tilburði að hún hljómar sem tónlist frá annarri vídd.

Fyrst komust menn á Vesturlöndum almennilega í tæri við Mahmoud Ahmed með plötunni Erè mèla mèla sem Crammed Discs útgáfan belgíska gaf út 1986 og Hannibal gaf síðan út í Bretlandi. Á þeirri plötu syngur Ahmed með Ibiz hljómsveitinni, en platan var tekin upp 1972. Á síðustu árum hefur plötum með honum fjölgað nokkuð, en alla jafna eru menn að gefa út gamlar upptökur. Erè mèla mèla er sígild plata og afskaplega skemmtileg en líka er óhætt að mæla með Soul of Addis sem Earthworks gaf út fyrir áratug eða svo. Live in Paris hefur stundum fengist hér á landi, en á þeirri plötu eru tónleikaupptökur frá 1994.

Þó Mahmoud Ahmed hafi notið mikilla vinsælda hjá Eþíópíumönnum víða um heim er sá áhugi á eþíópískri músík sem opinberast í Broken Flowers ekki sprottinn af vinsældum hans heldur af áhuga eins manns, Francis Falceto, sem byrjaði að gefa út gamla eþíópíska tónlist 1997. Hann samdi við Amha Eshete um afnot af upptökum Amha útgáfunnar, þar á meðal umtalsverðu af tónlist sem aldrei var gefin út, og taldi forsvarsmenn Buda útgáfunnar frönsku á að hrinda úr vör útgáfuröð sem helguð yrði þessari gósentíð tónlistarinnar í Eþíópíu. Fyrsta platan hét líka Gullár nútímatónlistar og síðan hafa þær komið út fleiri, sú 21. nú í byrjun þessa árs. 7. platan í röðinni var Erè mèla mèla með Mahmoud Ahmed endurútgefin, en alls er þrjár plötur í útgáfuröðinni helgaðar honum, en hann á að auki stök lög á mörgum af plötunum.

Ekki hef ég heyrt alla seríuna, á sennilega tíu til fimmtán af plötunum, en af þeim sem ég hef heyrt bendi ég á 1. plötuna, þá 3., 4., 7. (Erè mèla mèla), 8. 14. og 17. en á henni er einmitt goðsögnin sjálf, Tlahoun Gèssèssè.

Tóndæmi er víða að finna, til að mynda hjá WPS1, sem er netúrvarp rekið í tengslum við  MoMA listasafnið í New York. Beinn tengill er hér, en einnig er vert að vísa á síðuna sem geymir safn útvarpsþáttanna - mikið af góðri og merkilegri músík þar.


Gaman að gera ekkert

Menn hafa mikið rætt um Syd Barrett að undanförnu, sem er vonlegt, enda lést hann fyrir stuttu. Mér hefur löngum verið minnisstætt svar sem hann gaf í viðtali fyrir löngu:

What about the future, are you looking forward to singing and playing again?

S.B.: Yes that would be nice, I used to enjoy it. It was a gas, but so is doing nothing [...].

Viðtalið var víst tekið 1971 og birtist í Terrapin haustið 1974. Sjá hér.


Ensemble: taka tvö

Ensemble er listamannsnafn franska tónlistarmannsins Olivier Alary sem tók sér það fyrir átta árum um líkt leyti og hann fluttist til Lundúna. Til að byrja með notaði hann reyndar nafnið Hearing Is Our Concern og sendi til að mynda fyrstu prufu sína út undir því nafni til Fat Cat úgtáfunnar sem er Íslendingum að góðu kunn. Fyrsta platan, Sketch Proposals, kom þó út á vegum Rephlex Records árið 2000.

Sagan hermir að Björk Guðmundsdóttir hafi mikið hlustað á Sketch Proposals þegar hún vann að Vespertine og kemur ekki á óvart að hún fékk Ensemble til að véla um tvö lög af plötunni, Sun In My Mouth og Cocoon, sem voru síðan notuð sem b-hliðar. Ensemble samdi síðan með henni lag á Medulla, Desired Constellation, og gerði sérútgáfu af Triumph of a Heart.

Eins og getið er kom Sketch Proposals út fyrir sex árum en síðan ekki söguna meir - Olivier "Ensemble" Alary tók sér góðan tíma í að gera næstu skífu og það var ekki fyrr en í vor að hann lauk loks við hana eftrir þriggja ára upptökur víða um heim. Gestir á plötunni eru ýmsir, til að mynda Chan Marshall, sem flestir þekkja sem Cat Power, Lou Barlow Dinosaur Jr. bóndi og  Adam Pierce úr Mice Parade sem hefur einnig spilað með múm.

Lagið sem Cat Power syngur á plötunni heitir Disown, Delete og er öldungis frábært. Rakst á tengil á það á netinu en sá er týndur. Þessi virkar aftur á móti.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 25
  • Frá upphafi: 117564

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband