Færsluflokkur: Tónlist
Þriðjudagur, 4. júlí 2006
Natchez brennur
Hinn 23. apríl 1940 var haldin skemmtun í Natchez, smábæ í Mississippi, um 200 kílómetra norðvestur af New Orleans. Skemmtunin var í gamalli bárujárnsskemmu og neglt fyrir gluggana til að koma í veg fyrir að menn svindluðu sér inn. Skemman var um 70 metrar að lengd og á henni einar dyr, fyrir endanum, og eina loftræsingin var vifta sem blés lofti í átt að þeim dyrum. Í nokkur ár hafði verið rekin í henni hrynklúbburinn, The Rhythm Club, vinsæll staður til að skvetta úr klaufunum, en hann var ætlaður svertingjum.
Skemmst er frá því að segja að það kviknaði í mosaskreytingu sem var um allan skálann að innan. Mosinn sem notaður var, spánarmosi, sem er reyndar ekki mosi, er mjög eldfimur og klúbburinn, sem var troðfullur af fólki, varð alelda á svipstundu. Erfitt var fyrir fólk að komast út vegna troðnings og æsings og ekki bætti úr skák að dyrnar einu opnuðust inn og fyrir vikið komust fáir út. Alls létust 212 í brunanum, 212 negrar, eins og tekið var fram í dagblaðinu Nashville Banner daginn eftir.
Hljómsveitin sem spilaði þetta kvöld hét Walter Barnes and his Royal Creolians Orchestra, en Barnes var vinsæll hljómsveitastjóri á sinni tíð og virtur. Sagan segir að Barnes hafi verið eini rólegi maðurinn í eldhafinu, hann hafi reynt að róa fólk niður, en allt kom fyrir ekki. Hljómsveitin hélt þó áfram að spila þótt hljómsveitarmenn væru banvænir - síðasta lagið sem spilað var hét Marie og það síðasta sem heyrðist frá hljómsveitinni var tær trompettónn um leið og þakið hrundi.
Þessi fallega saga og átakanlega er meðal annars rakin í bókinni Lost Delta Found sem Vanderbilt-háskóli gefur út, en í þeirri bók er safnað saman áður týndum rannsóknarskjölum þriggja litra fræðimanna. Fræðimennirnir héldu til Mississippi á vegum Fisk-háskóla, háskóla svartra, 1942 meðal annars til að leita laga sem samin hefðu verið um þennan hörmulega atburð, en þar sem stærstur hluti negra var ólæs og óskrifandi á þeim slóðum á þessum tíma var munnleg geymd mjög mikilvæg til að miðla fréttum, frásögnum og skoðunum manna á milli. Í kafla sem segir frá brunanum er meðal annars vitnað í einn þeirra sem komust úr eldinum við illan leik og hann lýsir þessu svo: "[Hljómsveitin kaus] ekki hlutverk hugleysingjans. Þeir voru eins og hugdjarfur skipstjóri og áhöfn hans sem fer í dauðann með skipi sínu."
Ég geri ráð fyrir að eins sé farið flestum þeim sem þetta lesa og mér - ósjálfrátt kemur upp í hugann hljómsveitin á ólánsfleyinu Titanic sem lék undir harmleiknum og fór síðan niður með skipinu vorið 1912. Sá harmleikur átti sér líka stað í apríl, ólánsdaginn 14. apríl sem blökkumenn nefndu svo því þann dag 1985 féll lausnarinn mikli Abraham Lincoln fyrir morðingjahendi. Lincoln var að vísu ekki lýstur látinn fyrr en morguninn fimmtánda apríl, en 14., föstudagurinn langi, var ólánsdagurinn. Uppáhaldssálmur Lincolns var "Nearer, My God, to Thee" eftir ensku skáldkonuna Sarah Flower Adams og var sunginn við útför hans. Eftir andlát og útför Lincolns varð sálmurinn gríðarlega vinsæll vestan hafs.
(Matthías Jochumsson heyrði sálminn sunginn í Chicago-för sinni 1893 og hreifst af, snaraði honum á íslensku sem "Hærra minn Guð til þín" og birti í tímaritinu Sameiningunni í Winnipeg sama ár.)
Á Titanic var átta manna hljómsveit undir stjórn Englendingsins Wallaces Hartleys. Skipið sigldi á ísjaka að kvöldi 14. apríl 1912 og hóf þegar að sökkva. Upp úr miðnætti aðfaranótt fimmtánda apríl kom hljómsveitin sér fyrir í stássstofu fyrsta farrýmis og byrjaði að spila til að reyna að róa fólk. Síðar færði hljómsveitin sig framarlega á bátadekkið og spilaði á meðan skipið sökk. Ýmsar sögur hafa verið uppi um hvaða lag hljómsveitin lék er hún hvarf í djúpið en mestra vinsælda naut snemma sú að það hefði verið sálmurinn "Hærra minn Guð til þín".
Fræðimennirnir frá Fisk-háskóla héldu til Mississippi að leita að söngvum um brunann í Natchez og af slíkum söngvum er líka til nóg. Það var líka til gríðarmikið af söngvum um Titanic-slysið. Einn af þeim sem sömdu slíka söngva, slíka blúsa, var Blind Lemon Jefferson.
Framan af tónlistarferlinum framfleytti Blind Lemon Jefferson sér með því að syngja á götum úti, í samkvæmum og á skemmtunum blökkumanna, jafnan við annan mann. Einn af þeim sem spiluðu með honum á þeim tíma var Huddie William Ledbetter sem þekktur varð sem Lead Belly eða Leadbelly. Hann spilaði með Jefferson í Dallas og eitt laganna sem hann sagðist hafa lært af honum var "The Titanic", fyrsta lagið sem hann lærði að spila á tólfstrengja gítar.
Lead Belly tók The Titanic í tveimur útgáfum, en hann breytti textanum ef hann var að syngja fyrir hvíta. Texti annarrar útgáfunnar hefst svo:
"It was midnight on the sea,
Band playin' "Nearer My Got to Thee".
Cryin' "Fare thee, Titanic, fare the well"."
Það var hluti af þjóðtrú bandarískra negra að hnefaleikakappinn Jack Johnson hefði verið meðal þeirra sem ætluðu að fara með Titanic frá Liverpool til New York en honum hefði verið neitað um pláss á fyrsta farrými þar sem hann var svartur. Leadbelly segir frá þessu í útgáfunni sem hvítir fengu helst ekki að heyra:
"Jack Johnson wanted to ge on boa'd;
Captain Smith hollered, "I ain' haulin' no coal."
Cryin', "Fare thee, Titanic, fare thee well"."
Fyrir vikið, sagði sagan, fórst enginn svartur maður með Titanic og þegar Johnson heyrði um skipsskaðann dansaði hann og söng:
"Black man oughta shout for joy.
Never lost a girl or either a boy.
Cryin', "Fare thee, Titanic, fare thee well."
Tónlist | Breytt s.d. kl. 10:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Föstudagur, 30. júní 2006
Gamalt og gott
Spoon átti eina ágætustu plötu síðasta árs, Gimme Fiction, og fyrri verk hafa einnig verið góð, Kill The Moonlight og Girls Can Tell. Erfiðlega hefur þó gengið að ná í eldra efni sveitarinnar, en á meðan menn bíða eftir nýrri plötu sem kemur væntanlega ekki út fyrr en á næsta ári, hafa þeir Merge-menn (útgefandinn góði) tekið sig til og pakkað saman á einn tvöfaldan disk fyrstu plötum Spoon, breiðskífunni Telephono og stuttskífunni Soft Effects sem hafa verið ófáanlega lengi (Telephono kom út 1996 og Soft Effects 1997, báðar á vegum Matador). Útgáfudagur er 25. júlí.
Tvö Spoon-lög frá í fornöld:
Idiot Driver (af Telephono)
Mountain To Sound (af Soft Effects)
Tónlist | Breytt 30.8.2006 kl. 13:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 29. júní 2006
Einfaldlega flókið
Mér þótti merkileg þessi staðhæfing í fréttaskýringu Viðskiptablaði Morgunblaðsins í morgun:
"En hvers vegna leitast fyrirtækin við að sameinast? Jú, ástæðan er í raun sáraeinföld. Ólöglegt niðurhal á tónlist hefur gert það að verkum að risarnir fjórir sjá tekjur sínar dragast saman ár frá ári, og stjórnendur þeirra telja að eitthvað verði að gera til að sporna við því að þau leggi upp laupana."
Það er sjaldgæft að eins umdeild staðhæfing sé stimpluð eins og afdráttarlaus sannleikur í fréttaskýringu, enda átta blaðamenn sig yfirleitt á því að í heimi viðskipta (líka heimi tónlistarviðskipta) er fátt ef nokkuð "sáraeinfalt".
Það er nefnilega langtífrá að það sé viðurkenndur sannleikur að "ólöglegt" niðurhal á tónlist (sett í gæsalappir vegna þess að það er ekki ólöglegt hér á landi) sé eina ástæðan fyrir því að það halli undan fæti fyrir fyrirtækjunum.
Blaðamaður hefði til að mynda mátt kynna sér hvernig sölu var háttað á tónlist vestan hafs á síðasta ári og þá hefði komið í ljós að þessi staðhæfing sem hann slær fram á ekki við traust rök að styðjast. Til að mynda jókst sala hjá Universal á síðasta ári og enginn samdráttur varð hjá Warner þó samdráttur hafi orðið hjá hinum. Sala jókst einnig hjá fjölmörgum smáfyrirtækjum og markaðshlutdeild þeirra jókst umtalsvert.
Vissulega verður ekki litið hjá því að heldur hefur hallað undan fæti fyrir plöturisunum á síðustu árum, en ekki hægt að halda því fram að ástæðan sé sáraeinföld. Þar spilar margt inní. Neysla á tónlist hefur til að mynda breyst verulega, er sennilega útbreiddari en nokkru sinni en flest bendir til þess að dagar plötunnar séu taldir að miklu leyti, þ.e. fólk hlustar á tónlist á annan hátt, er gefnara fyrir stök lög en heilar plötur með sama listamanninum. Þannig vilja margir kaupa eitt eða tvö lög með viðkomandi listamanni, en ekki heila plötu, en vill svo til að það er mun meiri velta og hagnaður í því fyrir fyrirtækin að selja heila plötu en eitt eða tvö lög (að vísu minni framleiðslukostnaður að hluta (upptaka og hljóðvinnsla), en hann er bara brot af heildarkostnaðinum, markaðssetning og dreifing er svo stór kostnaðarliður og hann minnkar lítið sem ekkert þó lögunum fækki á hverjum disk).
Það eru einnig breytt valdahlutföll á markaðnum frá því að plötukaupendur þurftu að treysta útgefendum fyrir því að velja til útgáfu þá tónlist sem best væri og vönduðust. Gallinn við þá högun var að kaupandinn gat ekki fylgst með því hvernig útgefandinn stóð við sína hlið mála, gat ekki metið hvað lá á bak við ákvörðun útgefanda um að gefa út tiltekna plötu, hvort væri vegna gæða hennar eða sérhagsmuna útgefandans. Eins gat hann ekki metið hvort hann væri að greiða sanngjarnt verð fyrir plötuna, því allar plötur voru á sama eða áþekku verði þó vitað væri að kostnaður við gerð hverrar plötu væri mjög ólíkur.
Netið breytti þessu og nú getur kaupandinn aflað sér ítarlegra upplýsinga, kynnt sér tónlistina rækilega áður en hann ákveður að kaupa hana, til að mynda á MySpace-síðu listamannsins eða með því að skiptast á skrám við aðra áhugamenn. Við þetta hefur meðal annars komið í ljós að smekkur manna er ekki eins einsleitur og útgefendur vildu halda fram og þó stöku listamaður eigi eftir að ná að krossa, eins og menn kalla það í bransanum, þ.e. ná til margra ólíkra hópa samtímis, eru dagar stórstjörnunnar að mestu liðnir. Þetta kemur eðlilega einna verst við þau fyrirtæki sem byggja allt sitt á að selja stórstjörnur, þ.e. semja við grúa af listamönnum í þeirri von að nokkrar stórstjörnur borgi tapið og gott betur á öllum þeim sem ekki selja fyrir kostnaði.
Það er því fjölmargt sem veldur breyttu landslagi á markaði:
- Ólögleg dreifing á tónlist (á Netinu, ólögleg framleiðsla (sem er veruleg) o.fl.)
- Samkeppni við aðra skemmtun (DVD, tölvuleiki, sjónvarp, Netið)
- Breytt neyslumynstur (færri stórstjörnur, dreifðari sala)
- Nýjar dreifingarleiðir (sala á Netinu sem stórfyrirtækin ráða ekki, bein sala listamanna o.fl.)
- Léleg stjórnun (vandræði Sony á síðustu árum skrifast að stærstum hluta á valdabaráttu og klúður)
Meira um þetta: Frelsi eða helsi? og Vandi vestan hafs
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Laugardagur, 24. júní 2006
Einkaleyfi á skoðunum
Undarleg þykir mér árátta margra hægrimanna í fjölmiðlastétt vestan hafs að amast sífellt við því er listamenn, tónlistarmenn, leikarar eða rithöfundar, svo dæmi séu tekin, láta í ljós pólitískar skoðanir. (Fyrir einhver sérkennilegheit hnýta menn reyndar aðeins í þá sem ekki eru sammála forseta Bandaríkjanna og liðsmönnum hans - enginn amast við Toby Keith en allir hamast að Dixie Chicks.)
Menn stilla því gjarnan svo upp að svo og svo mikil hætta sé á að aðdáendur viðkomandi eigi eftir að snúa baki við þeim, en alla jafna er það nú svo að ef aðdáendur þekkja sín átrúnaðargoð á annað borð þá kippa þeir sér varla upp við það þó viðkomandi hafi skoðanir. Þannig kom Living with War Neil Young-vinum varla í opna skjöldu, nú eða þá aðdáendum Bruce Springsteen að hann kunni lítt að meta George Bush.
Í viðtali við sjónvarpsfréttamanninn Soledad O'Brien á CNN fyrir skemmstu svaraði Springsteen vel fyrir sig og sumt býsna eitrað, en Soledad O'Brien er þekkt fyrir annað en skynsamlegar spurningar:
O'BRIEN: In 2004 you came out very strongly in support of John Kerry and performed with him - your fellow guitarist, I think is how you introduced him to the crowd. And some people gave you a lot of flack for being a musician who took a political stand. I remember ...
SPRINGSTEEN: Yeah, they should let Ann Coulter do it instead.
O'BRIEN: There is a whole school of thought, as you well know, that says that musicians I mean you see it with the Dixie Chicks - you know, go play your music and stop.
SPRINGSTEEN: Well, if you turn it on, present company included, the idiots rambling on on cable television on any given night of the week, and youre saying that musicians shouldnt speak up? Its insane. Its funny.
O'BRIEN: As a musician though, Id be curious to know if there is a concern that you start talking about politics, you came out at one point and said, I think in USA Today listen, the country would be better off if George Bush were replaced as President. Is there a worry where you start getting political and you could alienate your audience?
SPRINGSTEEN: Well thats called common sense. I dont even see that as politics at this point. So I mean thats, you know, you can get me started, Ill be glad to go. [ ] You dont take a country like the United States into a major war on circumstantial evidence. You lose your job for that. Thats my opinion, and I have no problem voicing it. And some people like it and some people boo ya, you know?
Það komast ekki margir upp með það að kalla spyril sinn hálfvita í beinni útsendingu ("Well, if you turn it on, present company included, the idiots rambling on on cable television on any given night of the week"). Svar hans við spurningunni um ummæli hans úr USA Today (að tímabært sé að skipta um forseta) er líka eitrað: "Well thats called common sense. I dont even see that as politics at this point."
Tengill á síðu með viðtalinu er hér.
Tónlist | Breytt 28.6.2006 kl. 08:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 20. júní 2006
Hiphop rifjað upp
Tók til í tónlistarherberginu í vikunni og fyllti kassa af diskum til að gefa, sennileg í kringum 300 stykki - nennti ekki að telja þá. Megnið tónlist frá síðustu tveimur árum, óáhugavert dót, en líka plötur sem ég veit að ég á aldrei eftir að hlusta á aftur. Ástandið varð bærilegra þar inni fyrir vikið, engir staflar á gólfinu eða á borðum og þarf ekki að fjölga hillum nema um tvær til að koma öllu á sinn stað.
Hliðarverkan af slíkri tiltekt er að ýmislegt rifjast upp, nema hvað, og í framhaldinu hlustaði ég varla á annað en hiphop í nokkra daga. Margt eltist illa í þeim pakka en að sama skapi hljómaði annað betur en nokkru sinni. Eyedea lét til að mynda nokkuð á sjá, þó The Many Faces of Oliver Hart sé skemmtileg plata, en Hip Hop Wieners (All Beef, No Chicken) voru aftur á móti betri en mig hafði minnt.
Eftir þessa hlustunarrispu setti ég saman lista yfir nokkrar bestu (erlendu) hiphopskífur sem fengið hafa að hljóma í bílnum undanfarið (þar er hægt að spila hátt). Þær fá allar bestu meðmæli:
Hip Hop Wieners - All Beef, No Chicken
Buck 65 - Square, Secret House Against the World og Vertex - erfitt að gera upp á milli þeirra, enda mjög ólíkar plötur
Noah 23 - Quicksand. Neophyte Phenotype hefur ekki elst vel en á Quicksand eru frábær lög eins og Saw Palmetto, Banded Hairstreak (frábær útsetning) Crypto Sporidian og Resistance, það besta sem hann hefur gert; lesið uppátt:
check the junglistic jibber jaw
at the drum and bass seminar
with the troubadour peep the metaphor
less is more when you're at the reservoir
glass half empty glass half full
keep your eyes out for the crystal skulls
rock the riddim with thoughts intelligent
carve my name in it on the wet cement
i triple the syllable with a titanium telescope
medicine vehicle then i defeated the simpletons
taking a chance on the nanobot bicycle
delegate melting your element into a vacuous nebula
gravity gripping up everything
retina spotting the obvious entity
coagulate caligula
boiling point gwan culminate
sustain the pulserate with a dubplate
Wu-Tang Clan - Enter The Wu-Tang - enn klassísk. Man enn hve geggjað var að heyra þessa plötu í desemberbyrjun 1993. Læt fylgja með þennan bút sem vakti ýmsar spurningar um tungumál og tjáningu. (Skýringar hér fyrir þá sem eiga erfitt með að hlusta á hiphop.)
GZA - Liquid Swords
Raekwon - Only Built 4 Cuban Linx - Næstbesta Wu-Tang platan
Disposable Heroes of Hiphoprisy - Hypocrisy Is the Greatest Luxury Frábærar línur í Famous and Dandy (Like Amos 'n' Andy):
My pockets are so empty I can feel my testicles
'cause I spent all my money on some plastic African necklaces
and I still don't know what the colors mean ...
RED, BLACK AND GREEN
Binary Star - Masters of the Universe
cLOUDDEAD - cLOUDDEAD - Óhlutbundin snilld.
Goats - Tricks of the Shade Do the Digs Dug? er spurt en fátt um svör. Sjá þó hér og hér (þið sem nennið ekki að smella: Pooka er persóna í leiknum sígilda Dig Dug, en birtingarmynd ævintýraverunnar púca (Pooka, Phooka, Phouka, Púka, Pwca) er meðal annars geit.
Aesop Rock - Float
Tónlist | Breytt s.d. kl. 13:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 13. júní 2006
Roger Waters í Egilshöll
Tónleikar Rogers Waters í Egilshöll voru um margt magnaðir, í það minnsta það sem ég entist til að horfa á. Það var gaman að sjá hann á sviði og hafa þannig samanburð við þær tónleikaupptökur sem ég hef sé að Pink Floyd undir stjórn David Gilmours, því meir hlýju og einlægni stafaði af Waters en sjá má á tónleikaupptökum með Gilmour og félögum. Kannski ekki alveg að marka en merkilegt í ljósi þess að myndin sem gefin hefur verið af Waters er af sjálfumglöðum hrokagikk. Hann kom mér fyrir sjónir sem einlægur og blátt áfram í Egilshöll, maður sem er ekki alveg sáttur við stjörnuhlutverkið en lætur slag standa til að gefa áheyrendum sem mest. Geðflækjurnar eru svo annað mál því ef hann var ekki að syngja um mömmu sína þá var hann að syngja um pabba sinn. Nú eða þá Syd Barrett.
Pink Floyd kynntist ég þegar Steini bróðir spilaði fyrir mig eintak af Ummagumma 1970 eða þar um bil. Það þótti mér sérkennileg tónlist, en kunni vel að meta tónleikahlutann, sérstaklega Set the Controls for the Heart of the Sun og lögin sem Waters átti einn á skífunni, Grantchester Meadows og Several Species of Small Furry Animals Gathered Together in a Cave and Grooving With a Pict, hvorugt eiginlegt lag en það fyrra fannst mér býsna gott
Seinna kom svo Atom Heart Mother, sem ég var ekki svo hrifinn af, og Meddle sem ég féll algerlega fyrir, man enn hvað mér fannst magnað að heyra Echoes í fyrsta sinn - þvílík snilld! Obscured by Couds var líka í uppáhaldi um tíma, kannski aðallega fyrir það hvað hún var sjaldséð, enda ekki hlaupið að komst yfir plötur á þessum tíma, að ekki sé talað um ef þær höfðu ekki að geyma tónlist sem naut almennar hylli.
Svo kom Dark Side of the Moon. Sumir keyptu sér tvö eintök af þeirri plötu, eitt til að eiga og eitt til að hlusta. Dögum saman lágum við yfir þeirri plötu og lærðum hana utanað, gæti væntanlega enn spilað hana í huganum. Byrjun plötunnar, fyrsta rúma mínútan af Breathe, þótti mér mikið meistaraverk og ég man eftir einu sérstaklega súru kvöldi þar sem hlustað var aftur og aftur á upphaf plötunnar og spilað hátt með áherslu á bilið frá 1:12 til 1:13 - gott ef við vorum ekki búnir að finna það út félagarnir að í þeirri sekúndu eða þar um bil lægi allur leyndardómur plötunnar.
Aðrar plötur Pink Floyd voru ekki síður merkilegar hver á sinn hátt. Meira að segja fannst mér The Final Cut fín plata textalega þó músíkin væri ekki eins vel heppnuð og fyrri verk.
Síðan eru þó liðin mörg ár, smekkurinn breyttur, skoðanir á músík talsvert breyttar og lítil þolinmæði fyrir gömlu dóti almennt. Mér þótti þó gaman að sjá Waters spila í Egilshöll, gaman að upplifa sömu tilfinningar og bærðust með manni á sínu tíma, að finna sömu hughrifin og forðum, en svo fékk ég eiginlega nóg. Ekki af Waters þó, heldur nóg af sjálfum mér anno 1970-og-eitthvað. Fór snemma heim.
Tónlist | Breytt 14.6.2006 kl. 21:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Mánudagur, 12. júní 2006
Elvis Aron og Jesse Garon
Sérkennilegasta platan í safni mínu er eflaust Tilt með bandaríska tónlistarmanninum Scott Walker sem kom út 1995. Scott Walker, sem hét eitt sinn Scott Engel, hefur búið í Englandi í áratugi eða allt frá því hann sló í gegn með söngflokknum Walker Brothers á sjöunda áratugnum. Walker bræður sungu létta popptónlist og urðu gríðarlega vinsælir, en Scott vildi feta aðra slóð eins og sjá mátti og heyra á sólóskífum hans eftir að Walker bræður lögðu upp laupana.
Fyrsta sólóplata Scott Walker kom út 1967 og síðan sendi hann frá sér plötur nokkuð reglulega allt til 1974 að hann hvarf eiginlega sjónum manna að mestu, hætti að sjást opinberlega og hætti að gefa út plötur. Áratug síðar kom út platan Climate of Hunter, 1984, en á henni er laglínan í aukahlutverki en þess meira lagt í stemmningu og áhrifshljóð.
Ellefu árum síðar kom svo út platan sem getið er í upphafi, Tilt, þar sem hann hefur lag laglínuna á hilluna fyrir fullt og fast á Tilt er ekkert til að halda sér í, ekkert stef sem bindur lögin saman, engin eiginleg framvinda, upphaf eða endir. Textarnir eru einskonar klippimynd sem gefur í skyn en segir ekkert beint, það er helst að hinir sérkennilegu og sundurlausu textar mundi samhengið með honum sérkennilegu og sundurlausu hljómum sem lögin eru gerð úr, ef það er þá hægt að tala um lög í þessu samhengi.
Um daginn kom út enn ný plata með Scott Walker, The Drift, ellefu árum eftir að Tilt kom út. The Drift hefur víðast fengið fínar viðtökur eða þá verið jörðuð rækilega - það er nú svo að ýmist hrífast menn af því sem þeir eiga erfitt með að skilja eða þeir finna því allt til foráttu. The Drift er þó heldur aðgengilegri en Tilt, lögin að mestu tiltölulega mótuð og auðveldara að skilja textana. Hugsanlega er að þó fyrst og fremst vegna þess að maður lærði af að hlusta á Tilt.
Við fyrstu hlustun á The Drift vakti þriðja lagið einna mesta athygli, Jesse. Það hefst með lágstemmdum drungalegum rafgítar og draugalegri röddun Walkers þar sem hann hvíslar taktinn, "Pow, Pow" syngur/hvíslar hann eins og tvær flugvéar sem lenda á háhýsi . Í bakgrunninum birtist síðan útúrsnúningur á upphafsstefi Scotty Moore í Elvislaginu Jailhouse Rock, hægfara og drungalegt eins og það sé spilað neðansjávar.
Walker lét þau orð falla í viðtali fyrir skemmstu að lagið fjallaði um árásirnar á tvíturnana í New York 9. september fyrir fimm árum, enda er fyrsta textalínan svo: "Nose Holes Caked in Black Cocaine". Útúrsnúningurinn á Jailhouse Rock er viðeigandi því lagið er lagt í munn Elvis Presley þar sem hann situr á veröndinni heima í Memphis og talar við tvíbura sinn, Jesse Garon, sem var andvana fæddur og grafinn í skókassa. Elvis ræddi reyndar iðulega við Jesse Garon þegar mikið lá við en væntanlega var fátt um svör og hugsanlega hefur hann sagt í sífellu: "Jesse, Are You Listening?", eins og Walker syngur í sífellu, og jafnvel vælt undir lokin í angist: "Alive / Im the only one / Left alive / Im the only one / Left alive"
Hægt er að hlusta á Jesse og fleiri lög af plötunni á vefsetri hennar, the-drift.net.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 2. júní 2006
Satt og logið
Í mars síðastliðnum gafst skoska söngkonan Alexandria "Sandi" Thom upp á því að þurfa að þvælast um landið í lélegum sendibíl og spila fyrir 200 manns á hverju kvöldi. Þegar bíllinn gaf endanlega upp öndina settist hún niður með félögum sínum og þau einsettu sér að finna nýja leið til að ná til fólks. Á endanum ákváðu þau að halda tónleika á Netinu, fara sýndartónleikaferð úr kjallara í Lundúnum. Tónleikaferðin fékk yfirskriftina 21 Nights From Tooting og hófst 24. febrúar sl. Fyrstu tónleikana voru áheyrendur aðeins 70 en tólftu tónleikana voru þeir 182.000. Síðustu tónleikana í röðinni hlustuðu 70.000 manns að jafnaði. Útgefendur sperrtu eyrun og buðu stúlkunni og félögum hennar miljónasamning sem síðan var undirritaður í kjallaranum í beinni útsendingu á netinu, nema hvað.
Þetta hljómar ósköp vel og rómantísk sú mynd sem dregin er upp af fátækum listamanni sem brýst áfram fyrir hæfileika og hugvit. Netfróðir sjá þó strax að hér er mjög vafasöm saga á ferð svo ekki sé meira sagt. Vel má vera að Sandi Thom hafi fengið sér vefmyndavél og notað hana til að senda út tónleika heiman úr kjallaranum hjá sér. Það getur líka verið að það hafi hún gert marga daga í röð. En ef menn eiga að trúa því að 70.000 manns hafi verið að horfa á tónleika hennar samtímis undir það síðasta hættir maður að trúa.
Til þess að geta sent út á netinu þarf vefmyndavél, sem þarf í sjálfu sér ekki að vera svo dýr ef maður sættir sig við lélega útsendingu, þokkalega öfluga tölvu og nettengingu. Líkt og vefmyndavélin þarf tölvan ekki að kosta svo mikið og það er í sjálfu sér ekki dýrt að vera með nettengingu. Ef senda á út á netinu dugir venjuleg nettenging á meðal fáir eru að horfa, helst ekki fleiri en tveir eða þrír, því slík útsending kallar á talsvert gagnamagn og því meira eftir því sem fleiri horfa, nema hvað.
Rifjum það upp að Sandi Thom var svo fátæk að hún hafði ekki efni á að fara um og spila fyrir 200 manns í hvert sinn (sem flestum hljómsveitum sem eru að stíga fyrstu skrefin finnst reyndar harla gott) og þegar bíldruslan hennar bilaði hafði hún ekki efni á að láta gera við hann. Við eigum síðan að trúa því að hún hafi aftur á móti haft efni á nettengingu sem þjónað gat 70.000 samtímanotendum. Ekki þarf mikla þekkingu á netfræðum til að finna það út að gagnamagn slíkrar útsendingar væri nálægt hálfu fimmta terabæti fyrir klukkutíma tónleika. 4.500.000 GB. Ekki veit ég hvernig samninga hún á að hafa haft við netþjónustu sína, hugsanlega með góðan afslátt fyrir svo mikið gagnamagn, en hjá netþjónustu sem valin var af handahófi hefði slík útsending kostað hálfa sjöundu milljón króna.
Þessi fallega saga er því dæmigerð lygasaga og þarf smá rannsóknir til að komast að hinu sanna. Eftir því sem ég kemst næst var Sandi Thom með útgáfusamning þegar hún byrjaði á netútsendingum sínum, þó við smáfyrirtæki, og líka búin að gera samning við kynningarfyrirtæki.
Ef marka má fyrirtæki sem starfa við að greina netumferð var ekkert sérstakt á seyði um það leyti sem Sandi Thom var að senda út tónleika sína og engin merki um það verið væri að senda út tónleika fyrir 70-100.000 manns á hverju kvöldi. Eins sjá fyrirtæki sem fylgjast með bloggum ekki í sínum skrám að mikið hafi verið bloggað um Thom á þeim tíma, þó hennar sé víða getið í dag.
Nýtt innlegg í þetta mál er svo innlegg gamla Who-foringjans Pete Townsend frá því á þriðjudag en þar segir hann að útsendingarnar hafi ekki verið beinar, heldur hafi tónleikarnir verið hljóðritaðir og svo sendir út yfir netið. Bandvíddin hafi svo fengist fyrir lítið eða jafnvel fyrir ekkert að hann telur og kostnaður Thom af öllu saman ekki verið nema nema um fimmtán milljónir króna fyrir allan pakkann.
Townsend tekur upp þykkjuna fyrir Thom, segir að hún sé fín listakona og eigi allt gott skilið. Látum vera hversu góður tónlistarmaður hún er, það skiptir eiginlega ekki máli í þessu sambandi að mínu mati, en ef það er rétt hjá Townsend að ekki hafi verið logið um fjölda áhorfenda, sem er ósannað, finnst mér lítil vörn í þeirri uppljóstrun hans að logið hafi verið til um að tónleikarnir hafi verið sendir út beint og eins að Thom hafi gripið til þessa ráðs sökum fátæktar. Eins kostar sama gagnamagn að senda út tónleika af bandi og beint ef að er rétt að samtímanotendurnir voru að jafnaði 70.000. (Bloggið hans Townsend er annars ágætar pælingar um Netið og útsendingar á því, en óneitanlega fyndið hvernig hann reynir að stilla sér upp sem miklum spámanni.)
Fleiri hafa gripið til varna fyrir Thom, aðallega með það að vopni að ekkert sé að því að ljúga smá og menn hafi gengið lengra í þá átt en Sandi Thom (Townsend segir að hún sé kannski að segja ósatt, en menn hafi nú logið meiru um Írakstríðið; "But the Sandi Thom story is not the Iraq war.").
Eftir stendur þó að Sandi Thom lét markaðsfyrirtæki sitt véla sig út í ósannindi, spilaði með þó henni hefði svosem átt að vera ljóst að verið væri að ljúga um netvinsældir hennar. Hvort það eigi svo eftir að skaða tónlistarferil hennar er ekki gott að segja, en sem stendur er í það minnsta meira rætt um lygar hennar en tónlistina á netinu.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Miðvikudagur, 3. maí 2006
Sufjan í aðsigi
Væntanlega gera flestir sér grein fyrir því að Sufjan Stevens er snillingur, einn sá helsti sem er að fást við tónlist í vestan hafs nú um stundir. Síðustu plötur hans hafa verið einkar vel heppnaðar, þá helst þemaplöturnar Michigan og Illinois, og víða á þeirri síðustu stóð maður á öndinni yfir snilldinni í útsetningum og lagasmíðum.
Á sínum tíma stóð víst til að hafa Illinois tvöfalda plötu, enda var lagasafnið 50 lög þegar upptökur hófust. Á endanum var ákveðið að láta eina plötu nægja að sinni, en í haust hófst Sufjan svo handa um að tína saman úr þeim lögum sem eftir sátu og úr varð platan The Avalanche sem kemur út í júlí næskomandi. Læt fylgja lag af plötunni mönnum til skemmtunar, The Henney Buggy Band.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 3. maí 2006
Játningar rafgítarræfils
Ég hef löngum verið hálfgerður rafgítarræfill, veikur fyrir því ef menn spila hátt og lengi á slík apparöt. Set þó þann fyrirvara að mér finnst eiginlega því meira gaman sem spilamennskan er óhreinni, ef svo má segja; mér finnst skipta miklu máli að verið sé að spila með hjaertanu, en ekki endilega með heilanum. Þannig getur verið meira gaman að heyra músíktilraunastrák rembast við að gera meira en hann getur en að heyra einhvern íþróttamnninn spila ógnarhraða skala af vísndalegri nákvæmi. Víst er gaman að heyra slika spilamennsku, einu sinni, en svo er það líka búið - er hægt að taka mark á mönnum sem rembast sem mest við að spila eins og vélar?
Að þessu sögðu er óneitanlega gríðarlega gtaman að heyra færa gítarleikara spila af tilfinningu þar sem meira skiptir að skila réttri tilfinningu en réttri tónregund. Neil Young er dæmi um slíka spilamennsku og Dimebag Darrell sálugi var líka þannig gítarleikari, líka Frank Zappa svo fleiri framliðnir séu tíndir til sögunnar. Ég ætla þó ekki að fara út í þá sálma að nefna góða gítarleikara, dauða eða lifandi, heldur kviknaði þessi pæling er ég var að hlusta á nýju Built to Spill plötuna, You in Reverse.
Built to Spill er rokksveit frá Boise í Idaho, Doug Martsch heitir höfuðpaur hennar, gítarleikari, lagasmiður og söngvari. Gott ef hann lék ekki á flest hljóðfærin framan af. Fyrsta breiðskifa sveitarinnar kom út 1993, Ultimate Alternative Wavers. Ári síðar kom There's Nothing Wrong with Love og svo 1997 kom fyrsta platan fyrir stórfyrirtæki, og þar af leiðandi fyrsta platan með almennilega dreifingu, Perfect From Now On, fín plata. Enn betri var Keep It Like a Secret sem kom út 1999. Það var eiginlega fullmikið af gítar á tónleikaplötu sem sveitin sendi frá sér 2000, en Ancient Melodies of the Future, sem kom út 2001, var góð plata þó greina hafi mátt þreytumerki á svetinni og það örlaði á stöðnun.
Lítið hefur heyrst frá sveitinni síðan Ancient Melodies of the Future kom út, svo lítið reyndar að flestir héldu að sveitin væri búin að syngja sitt síðasta. Það dró ekki úr þeim vangaveltum að Martsch gaf út sólóskífu 2002, en á endanum kom sveitin saman aftur, hóf æfingar á síaðsta ári og afraksturinn af þeim æfingum var sú ágæta plata You in Reverse.
Tónlistin á skífunni er venju fremur fjölbreytt þó hún fari aldrei langt frá því að vera Built to Spill plata. Greinilegt að þeir félagar hafa fundið spilagleðina að nýju og sveitin hefur eiginlega ekki hljómað betur að mínu viti. Fjögur tóndæmi til sannindamerkis má finna á MySpace-síðu Built to Spill, http://www.myspace.com/builttospill. Heyr til að mynda lagið Liar, sem stingur mjög í stúf við það sem sveitin hefur áður gert, en þó ekki - gítarhljómurinn er til að mynda mjög kunnuglegur og svo vitanlega söngurinn. Upphafslag plötunnar er líka aðgengilegt þar, Goin' Against Your Mind, sem er um margt klassískt Built to Spill lag, tæpar níu mínútur af nútímalegu indíproggi. (Flottar þessar línur í því lagi: When I was a kid I saw a light / Floating high above the trees one night / I thougt it was an alien / Turned out to be just god.)
Tónlist | Breytt s.d. kl. 19:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Tenglar
Vefgreinar
- Dont Legalize Drugs by Theodore Dalrymple, City Journal Spring 1997 Advocates have almost convinced Americans that legalization will remove most of the evil that drugs inflict on society. Dont believe them. City Journal - Spring 1997
Vefmiðlar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (19.4.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar