Færsluflokkur: Tölvur og tækni
Mánudagur, 6. apríl 2009
Pappírinn kvaddur
Yfirlýsing Garrets beindist að umbúðum en ekki innihaldi; hann var að fjalla um pappír, ef svo má segja, því hann sá fyrir sér að tölvutæknin byði upp á svo mikla möguleika í framsetningu á efni að pappírinn hlyti að láta undan síga. Þeir sem helst hafa gagnrýnt slíka og þvílíka spádóma gleyma því líka oft að bækur eru meira en pappírsstaflar, það er innihaldið sem skiptir máli þó fallega búin bók sé listmunur í sjálfu sér.
Eitt af þeim fyrirtækjum sem mestum árangri hefur náð í netverslun er bókaverslunin Amazon, sem selur reyndar allt milli himins og jarðar í dag. Eigandi fyrirtækisins, Jeff Bezos, setti það af stað vegna áhuga síns á verslun, en ekki bókaáhuga; Bezos vildi hasla sér völl á netinu og ákvað að velja þann varning sem hentaði best að selja þar - bækur; auðvelt að geyma, auðvelt að senda, vara sem fólk þarf ekki endilega að handfjatla og þar fram eftir götunum. Í því ljósi, þ.e. að Bezos sé ekki bundinn pappír neinum tilfinningaböndum, kemur því væntanlega ekki á óvart að hann hafi séð möguleika felast í því að yfirgefa pappírinn, fara að selja bækur á rafrænu formi.
Eitt af því sem staðið hefur svonefndum rafbókum fyrir þrifum er að það er erfitt að keppa við pappír þegar þægindi eru annars vegar; það er þægilegt að lesa svart letur af hvítum pappír, ekki þarf sérstakan búnað til að lesa bækur annan en þann sem okkur er náttúrlegur, ekki sérstaka tækniþekkingu nema þá sem við tileinkum okkur sem börn (lestrarkunnátta), ekki þarf að hlaða bækur, þær þola talsvert hnjask (meðal annars að digna), hægt er að hnoða kilju í vasa og hægt er að lesa bók í dag sem prentuð var fyrir 500 árum.
Sumt af þessu verður seint jafnað, það er til að mynda ekki fyrirsjáanlegt að rafbækur geti virkað án rafmagns, en tækninni hefur fleygt svo fram að rafbækur eru bæði handhægar og hentugar og svo hafa þær líka upp á ýmislegt að bjóða sem pappírsbókin hefur ekki; hægt er að hafa margar bækur í einu í rafbók (jafnvel þúsundir bóka - hentugt fyrir skólanemendur), sumar rafbækur er hægt að nota í myrkri, hægt er að stækka og minnka letur, hægt að leita í sumum bókanna og skrifa minnispunkta án þess að skemma "bókina" og svo má nota margar rafbækur fyrir sitthvað fleira, til að mynda spila músík ef vill.
Rúmur áratugur er síðan fyrstu rafbækurnar komu á almennan markað, í það minnsta keypti ég fyrstu rafbókina 1999, Rocket eBook, sem er enn nothæf, þó hún hafi vikið fyrir nýrri bókum (fyrst GEB 1150 og síðan Sony Reader). Rocket eBook var fyrsta rafbókin sem náði einhverri útbreiðslu, en þá var aðalmálið hvernig hægt væri að koma í veg fyrir að sá sem keypti rafbók gæti miðlað henni til annarra; þ.e. hver bókin var bundin við rafbók þess sem keypti hana. Á þeim tíma, fyrir um áratug, deildu menn líka um tekjuskiptinu og olli því meðal annars að rafbækur voru síst ódýrari en innbundnar bækur, svo einkennilegt sem það kann að virðast.
Á næstu árum birtust reglulega fréttir um að nú væri þetta alveg að koma, nú myndu rafbækur slá í gegn, en allt kom fyrir ekki. meira að segja Microsoft lagði tugmilljónir í þróun og kynningu á hugbúnaði til að lesa slíkar bækur (Microsoft Reader) og ætlaði að ná markaðnum undir sig. Það var þó ekki fyrr en Sony kynnti til sögunnar Sony Reader (PRS-500) að hjólin tóku að snúast (PRS-500 kom á markað haustið 2006, PRS-505 kom 2008 og PRS-700 sama ár).
Sony varð fljótlega aðal rafbókin og reyndar nánast eina rafbókin sem skipti málið, eða þar til Kindle kom til sögunnar.
Það þótti nánast óðs manns æði þegar Amazon kynnti sína rafbók í nóvember 2007, Kindle. Menn fundu henni flest til foráttu, hún væri ljót og dýr og svo myndi enginn bókavinur sleppa hendi af pappírnum. Fljótlega kom þó í ljós að bókaáhugamenn eru ekki endilega pappírsáhugamenn því Kindle var svo vel tekið að tækið seldist upp á fyrstu fimm tímunum og löng bið var eftir fleiri rafbókum. Ný útgáfa kom svo á markað sl. haust, heitir einfaldlega Kindle 2, og verulega endurbætt, þynnri og öflugri, með betri skjá og meira minni (rúmar um 1.500 bækur). Amazon hefur ekki gefið út hve margar rafbækur fyrirtækið hefur selt, en samkvæmt upplýsingum sem birtust á TechCrunch í ágúst sl. höfðu þá selst um 240.000 eintök, sem er langt umfram spádóma, en rétt er að geta þess að Kindle fæst ekki utan Bandaríkjanna. Til samanburðar má geta þess að af Sony Reader höfðu þá selst 300.000 eintök frá því í október 2006.
Kindle er ekki bara fyrir bækur því einnig er hægt að lesa dagblöð og tímarit í tækinu og sökum þess hvernig tækið er upp sett er allt efni sent sjálfkrafa í tækið frá Amazon um þriðju kynslóðar símanet (sendingarkostnaður er innifalinn í verðinu). Hér er því komið apparat sem hægt er að taka sér í hönd við morgunverðarborðið til að lesa "blaðið", enda er hægt að kaupa áskrift að flestum helstu dagblöðum heims: Le Monde, Frankfurter Allgemeine, The Independent, New York Times, Los Angeles Times, Corriere Della Sera, Financial Times, The Wall Street Journal, The International Herald Tribune og svo má telja.
Fróðir eru ekki sammála um það hvaða áhrif Kindle muni hafa á bóka- og blaðamarkað. Á undanförnum árum hefur mjög hallað undan fæti hjá dagblöðum vestan hafs og þá aðallega fyrir tilstilli netsins; skyndilega varð til dreifileið upplýsinga sem er svo miklu ódýrari og skilvirkari en dagablöð og bókaútgefendur hafa áður þekkt að við því eiga menn engin svör.
Enn sem komið er í það minnsta er ekki svo ýkja mikill munur á verði bóka og blaða eftir því hvort maður fær efnið á pappír eða rafrænu formi þó oft sé erfitt að bera saman vegna tilboða ýmiss konar.
Mánaðaráskrift að Los Angeles Times kostar þannig um 1.200 kr. í Kindle (fyrstu tvær vikurnar ókeypis), en áskrift að pappírsútgáfunni er um 1.500 kr. (kynningartilboð).
Sem dæmi um bók má taka Breaking Dawn, lokabókina í vampírubókaröð Stephenie Meyer, sem kostar hjá Amazon um 1.600 kr. á pappír (innbundin), en um 1.200 í Kindle-útgáfu.
Þess má geta að sendingarkostnaður er ekki innifalinn í verðinu á bókum á pappír á Amazon, en hann er um 500 kr. innanlands (a.m.k. 1.000 kr. til Íslands). Hann er aftur á móti innifalinn í verði bókar á Kindle-sniði (ókeypis sending yfir 3G-farsímanet).
Öll rómantíkin sem tengd er pappírnum, hrjúf hlýleg áferðin, skrjáfið í pappírnum við morgunverðarborðið, lyktin af leðurbandinu, myglulykt af gömlum gersemum, velkta kiljan í rassvasanum - ekkert af þessu skiptir máli því lesendur framtíðarinnar eru þegar orðnir vanir því að lesa á tölvuskjá, lesa vefsíður daginn út og daginn inn, og þeir hafa ekki bundist pappír sömu tilfinningaböndum og þær kynslóðir sem brátt hverfa af sjónarsviðinu.
Þó pappír hafi haft gríðarleg áhrif á sögu Vesturálfu kom hann ekki til sögunnar fyrr en á tólftu öld og það var ekki fyrr en í upphafi nítjándu aldar að pappírsframleiðsla varð svo vélvædd og ódýrt að dreifa upplýsingum á prenti að dagblöð og bækur urðu almenningseign.
Munu menn lesa dagblöð og bækur í sérstökum rafbókum? Skiptumst við á bókum í tölvupósti? Er 2.000 ára sögu pappírs lokið? Við þessum spurningum er ekkert augljóst svar, en þó það sé í sjálfu sér engin ástæða til að halda dauðahaldi í pappírinn er ekki víst að það verði rafbækur sem hafi vinninginn; það er nefnilega ekkert mál að lesa Laxness í farsíma.
Í greinasafninu " Due Considerations: Essays and Criticism " ræðir John Updike sálugi bækur og mærir pappír eins og gamalla manna er siður; finnst það ferleg tilhugsun að hugsanlega eigi pappírinn eftir að fara sömu leið og papírusinn.
Í greinasafninu "Due Considerations: Essays and Criticism" ræðir John Updike sálugi bækur og mærir pappír eins og gamalla manna er siður; finnst það ferleg tilhugsun að hugsanlega eigi pappírinn eftir að fara sömu leið og papírusinn.
Máli sínu til stuðnings nefnir Updike nokkur atriði sem við færum á mis við, við það að hætta að nota pappír til að skrá texta, að vísu ekkert sem kemur eiginlegum skáld- eða fræðiverkum við, en meðal annars þá gleði sem menn hafa af að sjá fallega bundnar bækur í hillum og að strjúka pappír og spjöld af munúð, bók sem minjagrip og svo má telja.
Bókin Firmin eftir Sam Savage segir frá rottunni Firmin sem elst upp við það að meta bækur eftir innihaldi þeirra, frekar en umbúðum, þ.e. hann lærir sem lítill rottugríslingur (þrettándi gríslingur drykkfelldrar móður) að bækur séu hráefni í hreiðurgerð, enda býr hún gríslingunum sínum þrettán hreiður úr Finnegan's Wake, ólesandi doðranti James Joyce. Þegar Firmin litli fer síðan halloka í slagnum um spenann (rottur eru með tólf spena) fer hann að narta í pappírstæturnar í hreiðrinu og kemst á bragðið: bækur eru hinn besti matur.
Svo vindur sögu Firmin fram, hann étur hvert meistaraverkið af öðru (það er honum til happs að rottufjölskyldan býr í kjallara fornbókaverslunar), en svo kemur að hann fer að rýna í textann á síðunum og ekki verður aftur snúið; Firmin fellur gersamlega fyrir innihaldi bókanna og les allt það sem hann kemst yfir (og kemst meðal annars að því að oft er bragð og áferð viðkomandi bóka býsna líkt inntaki þeirra).
Ýmsir þeir sem fjallað hafa um Firmin hafa haft á orði að erfitt hafi verið að komast yfir það að aðalsöguhetjan sé rotta, alla jafna hafi menn á þeim illan bifur og hjálpar lítt til þó um sé að ræða víðlesna og fróða bókarottu - erfitt sé að líta fram hjá því að rottur eru óþrifaleg og illskeytt kvikindi sem bera með sér plágur og annað ógeð. Rottur eru líka óþokkarnir í sögunni af Despereaux, en mýsnar hetjur, sætar og indælar.
Sagan af Despereaux, The Tale of Despereaux, er byggð á samnefndri skáldsögu eftir Kate DiCamillo sem fékk Newberry-verðlaunin bandarísku fyrir bestu barnabók 2004. Höfuðpersóna bókarinnar er nagdýr, líkt og í Firmin, en nú er það mús og það engin venjuleg mús heldur mús sem óttast ekkert og engan. Það skapar eðlilega ýmis vandræði í heimi músanna, því mýs eiga vitanlega alltaf að vera eins og mýs undir fjalaketti.
Inn í söguna af Despereaux, sem varð að vinsælli kvikmynd og sýnd var í vor, fléttast rotta sem er góð, svo vond og svo góð aftur, óhamingjusöm prinsessa og óhamingjusöm ekki-prinsessa, súpuveisla og lútublús svo fátt eitt sé talið. Despereaux er þó málið, músin hugprúða, sem ekki tekst að skelfa þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir fjölskyldu hennar og yfirvalda í Músalandi. Gengur svo langt að þegar hún á að læra að naga bækur fer hún að lesa þær og þá tekur steininn úr: Despereaux er varpað í ystu myrkur. Updike hefði væntanlega kunnað að meta það.
(Hlutar af þessari langloku birtust í Morgunblaðinu í mars og apríl.)
Tölvur og tækni | Breytt 21.4.2009 kl. 21:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 3. maí 2007
Áttu eina svarta?
Ég fékk í hendur verkefni um daginn sem ég þarf að vinna í Makka. Ákvað því að kaupa mér vél, fartölvu, og eftir smá vangaveltur fann ég út að ég þyrfti vél með ca. 2 GHz örgjörva, um 100 GB hörðum disk og ekki minna en 1 GB í minni. Skjárinn mátti vera 13"-15". Ég hringdi því í Eplaumboðið og fékk samband við ráðgjafa:
Ég: Hæ. Ég var að spá í að kaupa mér fartölvu. Áttu vél með 2 GHz örgjörva eða meira, um 100 GB hörðum disk og 1-2 GB í minni. Skjárinn má vera þrettán til fimmtán tommur.
Ráðgjafinn: Þögn í smá stund svo: Hmm, ertu að meina svarta tölvu?
Ég: Eeee, mér er nú sama hvernig hún er á litinn, ef hún uppfyllir þetta. Áttu þannig vél á lager?
Ráðgjafinn: Já, við erum með svarta vél með 13,3" skjá. Bíddu, ég ætla að gefa þér samband niðrí búð.
---
Búðin: Halló.
Ég: Já, ég var að leita að 2 GHz vél með 1-2 GB í minni, 100 GB disk eða meira og 13,3" skjá.
Búðin: Ha, já, ertu að meina svarta tölvu?
Ég: Ja, mér er sama hvernig hún er á litinn. Eigið þið þannig vél á lager?
Búðin: Já, við eigum eina svarta.
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 17:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Fimmtudagur, 30. nóvember 2006
Vaðall um vöndul
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 22:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 12. október 2006
Sony sökkar!
Á meðan Sony heldur sig við Sonic Stage hugbúnað til að koma tónlist inn á spilara sína er engin von til þess að nokkur vilji eiga MP3-spilara frá Sony. Mér er til efs að verri hugbúnaður hafi verið fundinn upp, hægvirkur, óstöðugur og nánast óskiljanlegur. Þeir sem glíma þurfa við hann fara fljótlega að hata Sony, sjálfa sig fyrir að hafa látið blekkjast til að kaupa vöru frá fyrirtækinu og að lokum tónlist almennt. Svona fer fyrir þeim sem kjósa helsi frekar en frelsi.
Sony kynnir nýja MP3-spilara með sérstaklega góðum rafhlöðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 22. ágúst 2006
Spilastokkur fyrir frelsisunnendur
Eitt af því besta við MP3-væðinguna eru spilastokkar, mikil þarfaþing og talsvert hagnýtari og þægilegri í notkun en fyrri ferðaspilarar, allt frá Walkman snældutækinu í ferðageislaspilara. Ég hef átt nokkra MP33-pilara frá því ég keypti 64 MB RCA Lyra spilastokk vorið 1999. Það var afleit græja og lítið notuð, en ágætis kynning á fyrirbærinu. Eitt af því sem mér fannst verst við Lyruna, að því frátöldu hvað lítið pláss var fyrir músík, var að tónlistin var vistuð á öðru sniði en Mp3 (MPX). Fyrir vikið tók lengri tíma að lesa tónlist inn á tækið og þurfti sérstak forrit til þess.
Frá því Lyran fór niður í skúffu hef ég keypt nokkra spilastokka til að fylgjast með tækninni, en hef ekki notað þá nema þann tíma sem þurfti til að kynnast þeim rækilega - eftir það fóru þeir niðrí skúffu eða krakkarnir tóku þá sér til handagagns. Fæstir stóðust þeir einföldustu kröfur:
Almennilegu hljómur (svo langt sem það nær - MP3 er lossy þjöppun)
Mikið rými (ekki minna en ca 50-100 plötur)
Þokkalegur skjár
Góð rafhlöðuending
Lítill um sig
Stöðluð tengi (USB eða Mini-USB tengi)
Frelsi (hægt að afrita tónlist beint á spilarann - MSC)
Þetta eru ósköp einfaldar kröfur en getur þó verið snúið að fá þær uppfylltar. iPodinn uppfyllir til að mynda ekki síðustu kröfuna, sem er þó ein sú mikilvægasta að mínu mati ef ekki sú mikilvægasta. Fyrir vikið hef ég ekki fengið af mér að nota iPod þó ég hafi átt slíkt apparat og reyndar keypt nokkra slíka til gjafa. Málið er nefnilega að mér finnst iTunes afskaplega leiðinlegur hugbúnaður og einkar gott dæmi um þráláta löngun Apple til að skerða frelsi viðskiptavina sinna. (Annað gott dæmi heitir Macintosh.)
Fyrir nokkrum árum fékk ég mér Rio spilara sem var með 4 GB hörðum disk og reyndist prýðilega. Hann uppfyllti öll ofangreind skilyrði nema eitt, skjárinn var lélegur. Þegar hann bilaði (hljóðstyrkshnappurinn) og ljóst að ekki væri hægt að gera við hann (Rio hætti að selja spilastokka), fékk ég mér 6 GB Creative Zen Micro Photo. Hann uppfyllir öll skilyrðin, nema mér finnst rafrhlöðuending ekki alveg nógu góð.
Í síðustu viku komst ég svo yfir nýjan spilara frá SanDisk, Sansa e270. Hann uppfyllir öll skilyrðin nema það með tengin, því á spilaranum er sérstakt tengi fyrir USB snúruna og því þarf maður að passa upp á snúruna. Rafhlöðuending sýnist mér mjög góð. Þeir SanDisk menn segja hana u.þ.b. 20 tíma, sem getur vel staðist.
Sansa línan frá SanDisk notar Flash-minni sem gerir þá traustari og sparneytnari en ella álíka og Nano spilastokkurinn frá Apple. Sansa e270 er álíka stór og Nano, jafn langur og breiður, en heldur þykkari. Skjárinn er talsvert stærri. Hann er með innbygt útvarp (hægt að taka upp beint úr útvarpinu) og hljóðnema fyrir upptöku. Á honum er rauf fyrir minniskort. Innra minni í spilaranum er 6 GB, en í gær kynnti SanDisk nýtt módel sem er 8 GB.
Hægt er að sýna ljósmyndir og myndbönd á spilaranum en til þess að það sé unnt verður að breyta viðkomandi skrám með hugbúnaði sem fylgir (Sansa Media Converter). Það gengur alla jafna vel og tekur skamman tíma. Ég prófaði til að mynda með teiknimynd (Wallace & Gromit: Curse of the Were-Rabbit) og leikna mynd (Life Aquatic) og þær skiluðu sér merkilega vel miðað við skjástærð. Ég rippaði Walace & Gromit myndina með DVD Decrypter og vann rippið síðan með AutoGK (Auto Gordian Knot), hvort tveggja afbragðsforrit. Það fyrrnefnda er víst ekki lengur ókeypis en hitt er opinn hugbúnaður sem finna má hér. Life Aquatic fann ég á Netinu sem 2x700 MB skrár. Það er vo skemmtilegt útaf fyrir sig að Sansa Media Converter varpar kvikmyndum yfir í QuickTime.
SanDisk hefir kynnt spilastokka sína með umdeildum auglýsingum þar sem mikið grín er gert að iPod-hjörðinni. Sjá: idont.com
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 16:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 2. júní 2006
Satt og logið
Í mars síðastliðnum gafst skoska söngkonan Alexandria "Sandi" Thom upp á því að þurfa að þvælast um landið í lélegum sendibíl og spila fyrir 200 manns á hverju kvöldi. Þegar bíllinn gaf endanlega upp öndina settist hún niður með félögum sínum og þau einsettu sér að finna nýja leið til að ná til fólks. Á endanum ákváðu þau að halda tónleika á Netinu, fara sýndartónleikaferð úr kjallara í Lundúnum. Tónleikaferðin fékk yfirskriftina 21 Nights From Tooting og hófst 24. febrúar sl. Fyrstu tónleikana voru áheyrendur aðeins 70 en tólftu tónleikana voru þeir 182.000. Síðustu tónleikana í röðinni hlustuðu 70.000 manns að jafnaði. Útgefendur sperrtu eyrun og buðu stúlkunni og félögum hennar miljónasamning sem síðan var undirritaður í kjallaranum í beinni útsendingu á netinu, nema hvað.
Þetta hljómar ósköp vel og rómantísk sú mynd sem dregin er upp af fátækum listamanni sem brýst áfram fyrir hæfileika og hugvit. Netfróðir sjá þó strax að hér er mjög vafasöm saga á ferð svo ekki sé meira sagt. Vel má vera að Sandi Thom hafi fengið sér vefmyndavél og notað hana til að senda út tónleika heiman úr kjallaranum hjá sér. Það getur líka verið að það hafi hún gert marga daga í röð. En ef menn eiga að trúa því að 70.000 manns hafi verið að horfa á tónleika hennar samtímis undir það síðasta hættir maður að trúa.
Til þess að geta sent út á netinu þarf vefmyndavél, sem þarf í sjálfu sér ekki að vera svo dýr ef maður sættir sig við lélega útsendingu, þokkalega öfluga tölvu og nettengingu. Líkt og vefmyndavélin þarf tölvan ekki að kosta svo mikið og það er í sjálfu sér ekki dýrt að vera með nettengingu. Ef senda á út á netinu dugir venjuleg nettenging á meðal fáir eru að horfa, helst ekki fleiri en tveir eða þrír, því slík útsending kallar á talsvert gagnamagn og því meira eftir því sem fleiri horfa, nema hvað.
Rifjum það upp að Sandi Thom var svo fátæk að hún hafði ekki efni á að fara um og spila fyrir 200 manns í hvert sinn (sem flestum hljómsveitum sem eru að stíga fyrstu skrefin finnst reyndar harla gott) og þegar bíldruslan hennar bilaði hafði hún ekki efni á að láta gera við hann. Við eigum síðan að trúa því að hún hafi aftur á móti haft efni á nettengingu sem þjónað gat 70.000 samtímanotendum. Ekki þarf mikla þekkingu á netfræðum til að finna það út að gagnamagn slíkrar útsendingar væri nálægt hálfu fimmta terabæti fyrir klukkutíma tónleika. 4.500.000 GB. Ekki veit ég hvernig samninga hún á að hafa haft við netþjónustu sína, hugsanlega með góðan afslátt fyrir svo mikið gagnamagn, en hjá netþjónustu sem valin var af handahófi hefði slík útsending kostað hálfa sjöundu milljón króna.
Þessi fallega saga er því dæmigerð lygasaga og þarf smá rannsóknir til að komast að hinu sanna. Eftir því sem ég kemst næst var Sandi Thom með útgáfusamning þegar hún byrjaði á netútsendingum sínum, þó við smáfyrirtæki, og líka búin að gera samning við kynningarfyrirtæki.
Ef marka má fyrirtæki sem starfa við að greina netumferð var ekkert sérstakt á seyði um það leyti sem Sandi Thom var að senda út tónleika sína og engin merki um það verið væri að senda út tónleika fyrir 70-100.000 manns á hverju kvöldi. Eins sjá fyrirtæki sem fylgjast með bloggum ekki í sínum skrám að mikið hafi verið bloggað um Thom á þeim tíma, þó hennar sé víða getið í dag.
Nýtt innlegg í þetta mál er svo innlegg gamla Who-foringjans Pete Townsend frá því á þriðjudag en þar segir hann að útsendingarnar hafi ekki verið beinar, heldur hafi tónleikarnir verið hljóðritaðir og svo sendir út yfir netið. Bandvíddin hafi svo fengist fyrir lítið eða jafnvel fyrir ekkert að hann telur og kostnaður Thom af öllu saman ekki verið nema nema um fimmtán milljónir króna fyrir allan pakkann.
Townsend tekur upp þykkjuna fyrir Thom, segir að hún sé fín listakona og eigi allt gott skilið. Látum vera hversu góður tónlistarmaður hún er, það skiptir eiginlega ekki máli í þessu sambandi að mínu mati, en ef það er rétt hjá Townsend að ekki hafi verið logið um fjölda áhorfenda, sem er ósannað, finnst mér lítil vörn í þeirri uppljóstrun hans að logið hafi verið til um að tónleikarnir hafi verið sendir út beint og eins að Thom hafi gripið til þessa ráðs sökum fátæktar. Eins kostar sama gagnamagn að senda út tónleika af bandi og beint ef að er rétt að samtímanotendurnir voru að jafnaði 70.000. (Bloggið hans Townsend er annars ágætar pælingar um Netið og útsendingar á því, en óneitanlega fyndið hvernig hann reynir að stilla sér upp sem miklum spámanni.)
Fleiri hafa gripið til varna fyrir Thom, aðallega með það að vopni að ekkert sé að því að ljúga smá og menn hafi gengið lengra í þá átt en Sandi Thom (Townsend segir að hún sé kannski að segja ósatt, en menn hafi nú logið meiru um Írakstríðið; "But the Sandi Thom story is not the Iraq war.").
Eftir stendur þó að Sandi Thom lét markaðsfyrirtæki sitt véla sig út í ósannindi, spilaði með þó henni hefði svosem átt að vera ljóst að verið væri að ljúga um netvinsældir hennar. Hvort það eigi svo eftir að skaða tónlistarferil hennar er ekki gott að segja, en sem stendur er í það minnsta meira rætt um lygar hennar en tónlistina á netinu.
Föstudagur, 28. apríl 2006
Enginn er annars bróðir í leik
Góð þykir mér sú ábending að tónlistin sé fögur en mögur, enda verður seint sagt að það sé vel borgað starf að vera tónlistarmaður. Vissulega nær nokkur hópur því að verða vinsæll og vellauðugur, en fyrir hvern einn sem nær því eru tugþúsundir sem svelta hálfu hungri þar til þeir gefast upp, fara að afgreiða í plötubúð eða hverfa til annarra starfa.
Skýringin á því hvers vegna svo erfitt er að lifa af því að vera tónlistarmaður hér á landi liggur eiginlega í augum uppi - í landi þar sem ekki búa fáir neytendur er aldrei hægt að selja margar plötur. Málið er þó ekki svo einfalt, því úti í heimi, þar sem neytendur eru margir, er ekki endilega auðveldara að lifa af músík, til að mynda vestan hafs. Þar kemur margt til, til að mynda mikill markaðskostnaður, en líka það hve tónlistarmenn fá litla sneið af kökunni þegar sölutekjum er skipt. Kíkjum á dæmi:
Tónlistarmaður fær ákveðna prósentu af smásöluverði plötu, mis-háa prósentu eftir því hvernig samning hann er með við viðkomandi útgáfu. Alla jafna fá menn í kringum 10% af smásöluverðinu, en það er reyndar að frádregnum ýmsum kostnaði. Til að mynda er dreginn frá kostnaður vegna umbúða, sem er jafnan fjórðungur af smásöluverðinu, dreginn er frá kostnaður vegna affalla í flutningi, þ.e. diska sem skemmast í flutningi (10%), og dreginn er frá kostnaður vegna "nýrrar tækni" sem settur var á þegar geisladiskar komu á markað og er enn í notkun, 25% þar. Þegar upp er staðið fær listamaðurinn því 10% af helmingi smásöluverðsins. Ekki þarf að taka fram að hann fær ekkert fyrr en búið að er að selja plötur upp í allan kostnað af af framleiðslunni, upptökum hljóðvinnslu og frumeintaki, og svo ákveðinn hluta af markaðskostnaði, til að mynda myndbandagerð og álíka. Gefur augaleið að margt af þeim frádrætti sem hér er tíndur til er útí hött, til að mynda frádráttur vegna nýrrar tækni og eins eru afföll vegna flutninga langt frá því að vera 10%, þó þau hafi kannski nálgast það á meðan menn voru enn að fást við lakkplötur.
Margir tónlistarmenn hafa gert sér vonir um að sala á Netinu myndi skila þeim stærri sneið af kökunni, enda kostnaður þar allt annar; dreifing kostar ekki nema brot af því sem kostar að dreifa tónlist á plötum eða diskum, engin afföll eru vegna afffalla í flutningi, umbúðir kosta ekkert og svo má telja. Raunin hefur þó verið önnur, því smásalar á tónlist á Netinu, þar fremst í flokki Apple fyrirtækið, hafa séð sér leik á borði og maka nú krókinn.
Undanfarna mánuði hafa útgefendur glímt við Apple um að hafa verðlagningu fjölbreyttari innan iTunes, hafa meðal annars lagt til að eldri tónlist sé seld á 60 sent og 80 sent, en nýrri og vinsælli tónlist á hærra verði en 99 sent. Þeir segjast einnig vilja geta boðið tónlist nýrra listamanna á sérstöku kynningarverði. Apple-menn hafa hinsvegar staðið fast á sínu - hvert lag kosti 99 sent. Síðustu fréttir benda til þess að þeir muni hafa sitt fram, enda hafa þeir hótað því að þau fyrirtæki sem krefjist breyttrar verðlagningar verði einfaldlega ekki með í iTunes.
Þegar Apple selur lag í gegnum iTunes fær fyrirtækið 35% af þeim 99 centum sem hver lag selst á, 26 kr. af þeim 77 sem lagið kostar skv. meðalgengi þegar þetta er skrifað. Útgefandinn fær þau 65% sem eftir eru. Ólíklegt verður að teljast að inni í frádrætti sem fyrirtækið notar til að stækka sinn skerf séu fyrirbæri eins og umbúðakostnaður, enda er hann enginn, eða afföll, enda eru þau engin, en vel hugsanlegt að 25% frádráttur vegna nýrrar tækni sé enn inni.
Það þýðir þá að tónlistarmaðurinn fær minna fyrir sinn snúð en hann fékk forðum og því skiptir það hann litlu sem engu hvort tónlistin sé seld í gegnum iTunes, Sony-sjoppuna (Sony Connect) eða á diskum. Þegar iTunes er annars vegar fær útgefandinn fær aftur á móti minna, hefur til að mynda ekki sömu tækifæri til að nýta sér frumlegan frádrátt.
Fréttin sem þessi færsla tengist sýnir svo hvernig plötufyrirtæki starfa - Sony dregur af Allman bræðrum og Cheap Trick, og væntanlega tugum tónlistamanna annarra, kostnað vegna umbúða og dreifingar við netsölu þó hvorugu sé til að dreifa (og örugglega vegna nýrrar tækni). Fyrir tónlistarmenn hjá Sony skiptir því engu hvort tónlist sé seld á diskum eða á netinu með minni tilkostnaði en nokkru sinn hingað til, en fyrirtækin fitna. Á meðan tónlistarmenn leggja fyrirtækjunum lið í baráttu gegn dreifingu á tónlist á Netinu hagnast fyrirtækin meira á hverju lagi seldu á Netinu en á diskum með því að arðræna listamennina - enginn er annars bróðir í leik.
(Til skýringar má nefna að myndin sem fylgir er af umslagi Eat a Peach, bestu Allman Brothers Band plötunni. Á henni er hið magnaða lag Little Martha þar sem Duane Allman fer á kostum, eitt af því síðasta sem hann tók upp.)
Cheap Trick og Allman Brothers lögsækja Sony Music | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tölvur og tækni | Breytt 2.5.2006 kl. 22:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 24. apríl 2006
Meiri tækni, minni gæði
Einhversstaðar las ég það að Elvis hafi hlustað á prufupressur af upptökum á ódýrum ferðaplötuspilurum til að meta mixið því þannig myndi obbinn af aðdáendum hans heyra lögin. Þarf varla að taka fram að hljómgæði í slíkum græjum eru ekki nema miðlungi góð. Kannski eru menn þegar farnir að gera eins með iPodinn og álíka spilastokka - taka upp lög og þjappa þeim síðan í mp3 eða m4a og hlusta á í spilastokk. Þarf varla að taka fram að hljómgæði í slíkum apparötum eru talsvert minni en á venjulegum geisladisk, þó þau séu vissulega meiri en á ferðaplötuspilurunum gömlu.
Undanfarna áratugi hafa menn lagt mikið á sig til að skila tónlist sem best til áheyrenda, byggt fullkomin hljóðver, bætt upptökutækni til muna, smíðað æ betri hljóðnema og beitt tölvutækni til að skila sem bestum hljómi til tónlistarunnenda. Ámóta þróun hefur verið í hljómtækjunum sjálfum, en nú verður væntanlega breyting á - vinsælasta fermingjargjöfin er græjur fyrir iPodinn.
Málið er hinsvegar að músík sem búið að er þjappa á mp3-snið tapar talsvert af gæðum við þá þjöppun, og því meiri gæðum eftir því sem þjöppunin er meiri. Mp3-sniðið byggist nefnilega á svonefndi lossy-þjöppun, þ.e. þjöppun þar sem hluta af upplýsingum er hent. (Annað dæmi um lossy-þjöppun er JPEG-þjöppun sem notuð er fyrir ljósmyndir og algengasta myndasnið á vefnum (.jpg myndir).)
Þegar tónlist er snúið á mp3-snið metur hugbúnaður hvað mannseyrað getur greint og hvað ekki. Til að mynda greinir mannseyrað ekki hljóð sem eru yfir 16.000 sveiflur á sek., 16 kílóhertz, og því er þeim öllum sleppt, menn heyra illa mjög dauft hljóð strax á eftir háværu hljóði og því má henda út þeim lágu hljóðum sem svo háttar um og svo má telja.
Hversu langt er gengið í þjöppuninni fer vitanlega eftir því hvaða gæði menn velja. Fyrir nokkrum árum var alsiða að þjappa tónlistinni í 128 Kbita gæði, síðan fór menn upp í 160, þá 192 og nú er algengt að rekast á skrár sem eru 320 K bitar á sek, sem er í áttina en ekki nógu langt - tónlist á geisladisk er vistuð í mun meiri gæðum; (16 bitar sinnum 44.100 × 2 rásir) = 1411,2 kílóbitar á sek.
Mjög er misjafnt hversu vel gengur að þjappa tónlist, fer meðal annars eftir tónlistinni, þ.e. gerð hennar, og atriðum eins og hvort um tónleikaupptöku sé að ræða, hljóðmynd upptökusalarins og svo má telja. Það hversu vel tónlistin hljómar síðan þegar búið er að þjappa henni er svo smekksatriði, sumum finnst ekkert að því að hlusta á tónlist í 128 kbita gæðum, aðrir þola það ekki og enn aðrir sætta sig ekki einu sinni við 320 kbita gæði.
Það þarf ekki mikla þjálfun eða þroskaða athyglisgáfu til að heyra að tónlist sem er í 128 kílóbita sniði hljómar illa, flatneskjuleg og köld, en ef menn hafa aldrei heyrt annað finnst þeim eflaust eins og þannig eigi þetta bara að vera, svo eigi viðkomandi lag einmitt að hljóma. Þeir kaupa sér síðan stereogræjur til að stinga iPoddnum í, jafnvel allt sambyggt, eins og til að mynda iPod Hi-Fi sem Apple mærir á vefsíðu sinni, og trúa jafnvel bullinu sem þar stendur: "Dock to turn on and tune in to digital music as you've never heard it before. From pumping bass to bright treble, iPod Hi-Fi delivers natural, room-filling sound. Close your eyes and you'd think you were listening to a huge stack of speakers." Það var og.
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 13:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Mánudagur, 27. mars 2006
Sagan endalausa
Fréttir af því að Microsoft muni ekki ná að gefa út næstu útgáfu af Windows, Windows Vista, á réttum tíma koma í sjálfu sér ekki á óvart - þær eru í takt við eðli þess hvernig fyrirtækið hefur starfað hingað til, þar sem sífellt hefur sigið á ógæfuhliðina hvað varðar umfang hugbúnaðarverkefna fyrirtækisins.
Ýmsar kenningar eru til um forritun og stór forritunarverkefni. Eitt af þeim lögmálum sem mönnum er hollt að hafa í huga er kennt við Frederick P. Brooks, prófessor í tölvunarfræðum, og hljóðar eitthvað á þessa leið: Sé forriturum fjölgað við hugbúnaðarverkefni sem er á eftir áætlun seinkar því enn. Í því felst sá kjarni að þann tíma sem tekur að koma nýjum mönnum inn í viðkomandi verkefni muni ekki nást að vinna upp. Af því leiðir svo að eftir því sem lengra er liðið á verkefnið skapar það meiri vandræði að fjölga forriturum. Fyrir vikið dugði ekki að setja meiri kraft í verkið þegar nær dró fyrirhuguðum útgáfudegi og þó menn segi nú að Vista eigi að koma út í janúar, en ljóst að þá er engin pressa að gefa búnaðinn út, ekkert sölutímabil í vændum, þannig að líklegt verður að teljast að útgáfa dragist enn lengur, líklega fram á vor eða sumar 2007.
Ef marka má frásagnir starfsmanna Microsoft, sem ekki hafa viljað koma fram undir nafni, hafa ýmsir alvarlegir vankantar komið í ljós á síðustu mánuðum, til að mynda hvað varða öryggismál, en helstu gallarnir hafi aftur á móti verið í því sem Microsoft kallar Media Centre, MCE, en það er hugbúnaðarsyrpa sem ætlað er að gera heimilistölvu að skemmtunarmiðstöð, stjórnstöð fyrir DVD myndir, sjónvarpsáhorf og -upptökur, tónlistarsafn heimilisins og einnig ljósmyndasafnið, netgátt heimilisins og svo má telja. Þetta er vitanlega hið versta mál því einn af helstu sölupunktum Vista átti einmitt að vera ný og fullkomin útgáfa af MCE og fjöldi vélbúnaðarframleiðenda hefur einmitt hagað framleiðslu og markaðssetningu á vélbúnaði með vísan til þess, enda hafa menn sé þar ört vaxandi markað eftir því sem heimilin verða stafrænni.
Sagan af Vista er orðin býsna löng, nær allt frá því fréttir bárust af því að næsta útgáfa af Windows á eftir XP væri á teikniborðinu og ætti að heita Longhorn. Á næstu árum bárist reglukega fréttir af því hvernig miðaði og í viðtali við Newsweek haustið 2003 ræpddi William Gates III þessa miklu uppfærslu á Windows og sagði Longhorn verða "stærra framfaraskref en nokkurt annað á síðustu 10 árum". Hann var varla búinn að sleppa orðinu er fregnir bárust af því að enn yrði bið á Longhorn, en ef allt færi á besta veg myndi það koma á markað haustið 2006, að mestu fullbúið en nýja skráarkerfið, sem átti að vera helsta byltingin í öllu saman, átti að koma á markað ári síðar, 2007.
Það hefur kostað smá yfirlegu að átta sig á Vista, eins og nýja útgáfan heitir sem stendur, enda herma fregnir að til verði sjö gerðir af Vista, mismunandi eftir því hvað eigi að nota hugbúnaðinn. Fyrst er þar að telja Starter Edition, sem er þannig gerð að aðeins er hægt að keyra þrjú forrit samtímis. Home Basic útgáfan kemur í stað Windows XP Home, en Home Premium útgáfan er Home Basic að viðbættum áðurnefndum Media Centre vöndli. Næstu útgáfur eru svo Windows Vista Professional, Small Business og Enterprise útgáfur, mis-öflugar eftir því sem menn (fyrirtæki) vilja. Að lokum er svo Ultimate útgáfan sem aðallega er ætluð fyrir áhugamenn um tónlist og kvikmyndir og leikjavini, en í henni verður sérstakt stjórnborð fyrir leikjakeyrslu, podcast-græja og ýmislegar viðbætur sem hægt er að sækja yfir netið, tónlist og kvikmyndir og svo má telja.
Apple-áhugamenn hafa tekið þessum fréttum fagnandi og sjá sóknarfæri hjá Apple, enda hefur það fyrirtæki haldið vel á sínum uppfærslumálum undanfarin ár, gefið út fjórar útgáfu af MacOS á síðustu fimm árum, og sú nýjasta er óneitanlega mögnuð. Ekki sýnist mér þó ástæða til að ætla að fólk muni skipta yfir í Macintosh bara vegna þess að þeir þurfa að keyra Windows XP einhverjum mánuðum lengur - slíkar vangaveltur eru álíka barnalegar og sá draumur að aukin sala á iPod myndi verða til þess að fólk skipti yfir í Makka, enda þá komið í Makkaumhverfi.
Í New York Times mátti lesa þá skemmtilegu ábendingu fyrir stuttu að þegar bandarísk yfirvöld beittu sér gegn ólögmætum viðskiptaháttum Microsoft 1998 hafi það verið á þeim forsendum að fyrirtækið beitti sér á þann veg að drægi úr nýsköpun í hugbúnaði almennt. Nú, segja þeir New York Times menn, hefur það og komið fram að Windows dregur úr nýsköpun, en það er þá nýsköpun innan Microsoft sem er í voða. Málið er nefnilega að verkefnið er orðið svo risavaxið að gríðarlega erfitt er að hafa yfirsýn yfir það, að tryggja að allir hlutar þess starfi rétt saman og séu á sama þróunarstigi.
Á sínum tíma var það sagt að Windows 2000 væri mesta hugbúnaðarverkefni sögunnar. Þegar stýrkerfið kom á markað snemma árs 2000 lá að baki starf 5.000 forritara í fjögur ár sem kostaði yfir 150 milljarða króna, en einnig komu að verkinu 750.000 sjálfboðaliðar sem betaprófuðu stýrikerfið (þrátt fyrir þann mikla fjölda voru 63.000 atriði ófrágengin þegar hugbúnaðurinn kom út, þar á meðal um 20.000 böggar sem vitað var um). Alls voru í stýrikerfinu um 40 milljón línur af kóða. Til gamans má geta þess að í Windows 3.1 voru 2,5 milljón línur og 15 milljónir í Windows 95.
Á þeim tíma sem Windows 2000 kom út var fyrirtækið með tvær gerðir af stýrikerfinu á markaði, Windows 95, 98 og Me sem voru ætluð heimilisnotendum og NT-línuna sem var fyrir fyrirtæki. Windows 2000 var í raun útgáfa NT 5.0 og var nokkuð frábrugðið Windows ME, til að mynda, mun öruggari útgáfa sem notaði til að mynda aðra rekla en 95, 98 og Me eins og margir komust að er þeir skiptu yfir í Windows 2000. XP var síðan ætlað að steypa þessum tveim afbrigðum af Windows saman en þegar kíkt er undir húddið kemur í ljós að í raun er hér á ferð NT 5.1.
Windows Longhorn sem síðan varð að Windows Vista er allmiklu meira verkefni en Windows 2000 og breytingar svo miklar að ekki er um að ræða púnktúgáfu heldur væntanlega hækkað um heilan, þ.e. Windows Vista verði þá Windows NT 6.0 á sama kvarða og venjuleg tölvufyrirtæki nota.
Fimm ár eru liðin síðan Windows XP kom á markað og getur nærri að kerfið sé orðið gloppótt og gamaldags, enda gríðarlega mikið breyst á síðustu fimm árum. (Internet Explorer er mun eldri, hefur ekki verið endurskrifaður af neinu viti í átta ár.) Smám saman hefur verkið stækkað í höndum þeirra Microsoft-manna, enda metnaður fyrirtækisins eins og áður að hægt verði að nota ekki bara allan nýjan og nýlegan vélbúnað, heldur líka sem mest af gömlum búnaði (nokkuð sem Apple blæs á til að mynda). Línurnar í Windows Vista eru víst orðnar fimmtíu milljónir og sumir gera því skóna ef svo fer fram sem horfir gæti Vista-verkefnið orðið svo stórt að ekki verði hægt að ljúka við það - svo margir séu í forritarateyminu að allur tími þeirra fari í að tala saman, sitja stöðufundi og skrifa nýjar þarfagreiningar.
Tölvur og tækni | Breytt 30.3.2006 kl. 13:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Laugardagur, 18. febrúar 2006
Treystu viðskiptavininum
Vendipunktur í rafrænum viðskiptum með tónlist var iTunes-verslun Apple sem bauð upp á einfalda hugmynd, engin áskrift heldur gátu menn keypt það sem þeir vildu og síðan spilað að vild í iPod spilastokk sínum, á tölvunni eða brennt á disk. verðið var líka einfalt: 99 sent fyrir hvert lag, sama hver flytjandinn var. Eini gallinn að maður þurfti að eiga iPod.
Verðið er mismunandi á milli landa og þannig kostar hvert lag 79 pens hjá iTunes í Bretlandi sem samsvarar um 87 krónum. Íslensk netverslun með tónlist er Tónlist.is og þar á bæ hafa menn valið að hafa gjaldskrána fullflókna og því erfitt að átta sig á hvað hvert lag kostar. Þar stendur þó að lag sem sótt er á harðan disk tölvunnar kosti allt að 99 kr. Síðan er hægt að kaupa inneignir og í boði er streymiáskrift, hvort tveggja óttalegt rugl að mínu mati.
Engu er hægt að spá um það hvort iTunes eigi eftir að skila sér hingað til lands og reyndar segja menn að upplýsingar um það hvar næst verði opnuð slík verslun liggi sjaldnast á lausu. Fljótt á litið er íslenskur markaður það lítill að menn flýta sér ekki að sækja inn á hann, í það minnsta ekki á meðan stærri markaðssvæði eru óunnin.
Íslensk tónlist er til sölu á Tónlist.is, ýmisleg tónlist og líklega flestallt það sem komið hefur út hér á landi. Þar er einnig hægt að kaupa eitthvað af erlendri tónlist. Í þeirri sjoppu er úrval þó ekki nema meðallagi gott fyrir minn smekk í það minnsta. Víst eru í boði 250.000 lög, sem hljómar kannski gríðarlega mikið en er það reyndar ekki. Úrval íslenskra laga hjá Tónlist.is er víst um 200.000 lög og á utanáliggjandi disk sem ég er með tengdan við heimatölvuna mína eru alls 47.711 lög (3.954 plötur), sem mér þykir ekki ýkja mikið þegar ég er að leita að einhverju til að hlusta á enda skiptir í sjálfu sér ekki máli hvað lögin eru mörg ef þar er ekki að finna þau lög sem maður vill heyra.
Ég kannaði hvað til var hjá Tónlist.is af bestu tónlist liðins árs, að mínu mati að minnsta kosti, og leitaði að fjórum plötum sem ég skipaði á topp tíu: I Am A Bird Now með Antony & The Johnsons, Feels með Animal Collective, Illnoise með Sufjan Stevens og Separation Sunday með Hold Steady. Af þessum plötum fann ég eina plötu, I Am A Bird Now og gat keypt hana á 1.049 kr. Hinsvegar fann ég gríðarlegt magn af tónlist sem ég vissi ekki að væri til, mikið safn af norsku poppi og óteljandi hljómsveitir sem ég hafði hvort heyrt um né séð áður. Ekki er gott að telja það upp hér, en mér leið eins og ég væri kominn í plötubúð í annarri vídd - hugsanlega frábær tónlist en gersamlega framandi mér sem hef þó haft atvinnu af að fylgjast með tónlist í um tæpa tvo áratugi og fylgst með af áhuga í rúma fjóra.
(Það er svo annað mál hvað tækileg atriði eru í miklu ólagi hjá Tónlist.is, eins og til að mynda það hvað allt er illa skipulagt hjá þeim, óhentugt og hægvirkt, hve langan tíma það tekur að sækja sér lög og svo það að allt er bundið við Microsoft-lausnir - þegar ég reyni að tengjast með Firefox eða Opera kemur upp: "Því miður er vafrinn þinn ekki studdur af vefsvæðinu." Meiri aulagangurinn.)
Þó ekki sé hægt að komast í iTunes hér á landi og lítið af viti að finna á vefþjónum Tónlistar.is ef litið er til erlendrar tónlistar eru ýmsar leiðir færar til að skaffa tónlist. Margir sækja sér tónlist á Netið án þess að hirða um höfundarrétt og hungraða listamenn (eða sílspikaða útgefendur). Betur hugnast mér að greiða fyrir tónlistina, ekki síst ef ég kemst í nýjustu tónlist jafnharðan og hún kemur út (og þarf ekki að ösla úrgangspopp í ökkla). Í þónokkurn tíma hef ég nýtt mér þjónustu fyrirtækis sem kallast Emusic.
Emusic rekur vefverslun með tónlist og er ein sú elsta á sínu sviði. Þar var snemma tekin sú skynsamlega ákvörðun að dreifa tónlist á mp3-sniði og án þess að pakka henni svo saman að það sé ekki hægt að spila hana nema í einni gerð spilastokka, ekki hægt að gera afrit eða ámóta. Viðskiptamódelið byggist reyndar á áskrift, en þó ekki dýrari en svo að fyrir níu dali og níutíuogníu sent, um 630 kr., er hægt að sækja sér 40 lög á mánuði. Það myndi duga fyrir megninu af ofangreindum plötum og öllum ef Sufjan væri ekki svo fjandi frjór (22 lög eru á Illinoise). Það er reyndar einn af göllunum við skipulag þeirra Emusic-manna að miðað er við stök lög og þannig getur verið dýrt að sækja sér plötu með stuttum lögum. Nefni sem dæmi plötuna Sounds of North American Frogs, sem mig hefur lengi langað í. Hjá Emusic get ég sótt þá plötu alla, en það er býsna dýrt, myndi kosta hálfa þriðja mánuð af lögum því á plötunni eru 92 "lög", flest um eða innan við hálf mínuta hvert. Þá er hagkvæmara að kaupa hana á Amazon á 11,98 dali (um 760 kr.).
Emusic leggur áherslu á að semja við smáfyrirtæki og óháð og úrvalið af tónlist er einmitt mjög mér að skapi, lítið um léttasta popp, en þess meira af spennandi og forvitnilegri tónlist. Ritstjórn er starfandi við vefinn sem skrifar plötudóma og greinar um tónlistarstefnur, tímabil og tónlistarmenn þá sem tónlist eiga á vefnum. Lagasafnið er nú komið í milljón lög og salan hálf fimmta milljón laga á mánuði, en alls hefur fyrirtækið selt ríflega 45 milljón lög á síðustu tveimur árum. Talsvert minna en iTunes, en mun meira en aðrar álíka verslanir, til að mynda Rhapsody, MSN, Yahoo! og Napster. Reyndar er þetta meira en þessi fyrirtæki öll hafa selt samanlagt, svo greinilegt er að Emusic hefur valið rétta leið inn á markaðinn, annars vegar með því að treysta viðskiptavinum sínum (nota opið gagnasnið) og hins vegar með því að stíla in á tónlistaráhugamenn, því þeir hafa eðlilega fæstir beinlínis áhuga á léttri popptónlist. (Það er reyndar nokkuð af poppi til hjá Emusic, til að mynda plötur Coldplay, því útgefandi þeirra telst óháð fyrirtæki þó risi dreifi.)
Ekki er hægt að sækja allt til Íslands sem Emusic hefur upp á að bjóða, öðru hvoru rekst maður á plötur sem samningar leyfa ekki að séu seldar yfir netið hingað. Sem dæmi má nefna Bloomed, fyrstu plötu Richards Buckners sem kom út 1994, en hana er ekki hægt að sækja sem stendur í það minnsta.
Nýjar fréttir herma að Amazon hyggist hefja sölu á tónlist í rafrænu formi og að sú sala byggist á áskrift, semsé: notendur greiða fyrir ákveðið mánaðargjald og geta síðan sótt sér tónlist að vild. Í ljósi þess hve Amazon hefur lagt mikla áherslu á að vera með sem mest úrval af tónlist til sölu má gera ráð fyrir því að eins verði að málum staðið með sölu á tónlist á rafrænu sniði og þá verður erfitt að standast Amazon snúning. Þeim farnast best sem treysta viðskiptavininum
Tölvur og tækni | Breytt 16.3.2006 kl. 10:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tenglar
Vefgreinar
- Dont Legalize Drugs by Theodore Dalrymple, City Journal Spring 1997 Advocates have almost convinced Americans that legalization will remove most of the evil that drugs inflict on society. Dont believe them. City Journal - Spring 1997
Vefmiðlar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (18.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar