Færsluflokkur: Vefurinn

Augað alsjáandi

Presidio modeloUndir lok átjándu aldar hannaði enski heimspekingurinn Jeremy Bentham nýja gerð af fangelsi sem var hagkvæmari er önnur slík vegna þess hve ódýrt væri að reka það; í stað þess að verðir væru á hverju strái væri nóg að hafa einn vörð og skapa þá tilfinningu hjá föngunum að þeir gætu ekki vitað hvenær fylgst væri með þeim. Það þarf ekki mikið ímyndunarafl til að átta sig á því að fangelsi Benthams, kallað Panopticon, er spegilmynd af mannlegu samfélagi og þeim ósýnilegu og óskrifuðu reglum sem stýra lífi okkar. (Reyndar líka spegilmynd af trúarbrögðum, en það er önnur saga.)
Annar heimspekingur, Frakkinn Michel Foucault, henti hugmynd Benthams um Panopticon á lofti í verki sínu Agi og refsing (Surveiller et punir) og spann út frá því vangaveltur um það hvernig opið þjóðfélag nútímans hefur í raun orðið til þess að færa fámennum hópi manna æ meiri völd eftir því sem auðveldara verður að fylgjast með okkur.

Þessar kenningar Foucaults og fleiri álíka fræði- og spámanna hafa gert sitt til að leggja grunn að þeirri vænisýki sem einkennir svo umræðu á netinu nú um stundir, sjá til að mynda Zeitgeist-æðið og dellumakeríið hjá þeim sem halda því enn fram að bandarísk stjórnvöld hafi sjálf sprengt tvíturnana í New York. Mér eru minnisstæðar líflegar umræður uppi á Alþýðubandalagsloftinu á Tjarnargötunni fyrir mörgum árum þar sem menn ræddu í alvöru allskyns kenningar og staðhæfingar sem tíminn hefur leitt í ljós að voru tómt bull. Margar dellukenningarnar lifa þó góðu lífi á netinu, afturgöngur, því ungmenni, sem eru í stöðugri valdabaráttu við foreldra sína, falla svo gjarnan fyrir því sem varpar rýrð á yfirvald (les: foreldra).

Við fyrstu sýn hefur netið því heldur en ekki rennt stoðum undir pælingar Foucaults, því aldrei hefur verið betra að fylgjast með fólki en nú um stundir. Atvinnurekandi sem ætlar að ráða mann í vinnu byrjar þannig á að „Googla“ hann, kanna hvað hann er að gera á MySpace-síðunni sinni eða Facebook. Er þetta kannski gaur (eða gella) sem lýst hefur eftir BDSM-félögum á einkamal.is, eru myndir af viðkomandi fáklæddum og ælandi með vændiskonum (eða unglingsstúlkum) eða að fletta upp um sig á bar? Bloggsíður eru líka góð leið til að komast að því hvaða mann tilvonandi starfsmaður hefur að geyma; er hann fylgjandi dauðarefsingum fyrir stöðubrot eða áhugamaður um áhættuíþróttir eða kannabisreykingar?

Samkvæmt Foucault mætti því segja að netið sé hið fullkomna fangelsi, Panopticon, því allt sem við erum að gera á netinu er fyrir allra augum og þegar það er einu sinni komið þar inn er það þar um aldur og ævi. Er því ekki nærtækt að draga þá ályktun að netið verði til þess að við munum halda aftur af okkur, ekki skrifa neitt eða birta nema vera búin að velta því rækilega fyrir okkur hvort það sé líklegt til að hafa áhrif á framtíðarframa eða -starf?

Öðru nær. Sú hugmynd að það sé fylgst með okkur, að það séu ósýnilegir fangaverðir að lesa tölvupóstinn okkar, skanna hvaða síður við erum að skoða, hlera símtöl og skoða upptökur úr eftirlitsmyndavélum er vissulega skemmtilega galin, en eftir því sem fleiri gera sig að fíflum á netinu skiptir það eðlilega minna máli að vera fífl.

Myndin er af kúbverska fangelsinu Presidio modelo sem byggt er eftir hugmyndum Jeremys Benthams. Castro dvaldi þar um tíma. Friman tók myndina.



Bloggarar eru ekki blaðamenn

Á námskeiði fyrir rokkblaðamenn í Árósum í vor var meðal fyrirlesara David Fricke, hinn kunni blaðamaður Rolling Stone. Hann hóf sitt spjall á eftirfarandi staðhæfingu: "Bloggarar eru ekki blaðamenn" og útskýrði það síðan með því að bera saman vinnubrögð á Rolling Stone og það sem bloggarar ástunda. Af lýsingu Frickes mátti reyndar ráða að íslenskir blaðamenn eru þá ekki blaðamenn heldur, enda hafa þeir ekki aðstoðarmenn og fjölda ritstjóra yfir sér (einn kannar staðreyndir, annar myndanotkun, enn annar inntak og svo má telja) líkt og stjörnublaðamenn á milljónatímariti vestan hafs. Hann hafði þó nokkuð til síns máls - vissulega eru bloggarar ekki blaðamenn þó að blaðamenn séu stundum bloggarar.

Það sem alla jafna er kallað tónlistarblogg er bloggsíður þar sem hægt er að nálgast tónlist, löglega eða ólöglega, en einnig er til legíó af bloggsíðum þar sem fjallað er um tónlist á ýmsan hátt, birtir plötudómar, viðtöl og ýmislegar greinar. Fyrir vikið hafa æ fleiri af þeim sem áhuga hafa á tónlist snúið sér að því að lesa bloggsíður samhliða lestir á músíkvefritum og því hallar heldur á tónlistartímarit, sem sum hver eiga nú erfiða daga.

Það er algengt að maður tekist á það í tónlistartímaritum að menn geri lítið úr bloggurum og því kom ádrepa Frickes ekki á óvart; einn ótíndur bloggari hefur ekki roð við apparatinu sem stendur að einu tónlistartímariti og getur til að mynda ekki skrifað eins lærðar greinar og umfangsmiklar eins og sjá má í Rolling Stone, nú eða bresku tómaritunum Mojo eða Q. Á móti kemur að hann getur komið með sjónarhorn sem er skemmtilegt, verið með aðra sýn á tónlistina er þá sem almennt er viðurkennd og leyft sér galgopaskap sem aldrei yrði liðinn á virðulegum prentmiðli.

Tímaritin hafa sum brugðist við þessu með því að verða blogg-legri , ef svo má segja, reynt að létta skrifin, leyfa pennum að viðra skoðanir sínar í ríkari mæli og eins hafa þau mörg farið að vísa í það að þetta og hitt sé hægt að finna á netinu, benda jafnvel á það í plötudómi hvaða lag af plötunni maður eigi að leita upp á netinu og þó gefið sé í skyn að það eigi að vera á löglegan hátt.

Það er líka hægt að fara í hina áttina, styrkja sig á sviði sem bloggaraherinn ræður ekki við, verða faglegri og vandaðri eins og Q gerði fyrir stuttu, breytti sniði blaðsins og framsetningu. Það getur þó verið hættuspil, því þeir sem hafa fræðilegan áhuga á tónlist eru ekki svo margir þegar grannt er skoðað og eins er ekki endalaust hægt að halda út mánaðarriti. Sjá til að mynda hvernig hið ágæta blað Mojo er sífellt að skrifa um sömu listamennina.



Er eitthvað að marka Amazon?

mass effectFræg er sagan af því er Jeff Bezos ákvað að stofna bókabúð á netinu; ekki var það vegna þess að hann hefði dálæti á bókum eða bókmenntum yfirleitt - hann sá einfaldlega möguleikana sem fólust í því að selja varning á netinu og valdi bækur vegna þess að þær hentuðu til slíkrar sölu. Sú ákvörðun hans hefur haft gríðarleg áhrif á sölu á músík vestan hafs og austan og þeir sem þetta lesa hafa væntanlega flestir keypt sér bók á Amazon eða þekkja einhvern sem það hefur gert. Þá kannast margir líka við það umsagnakerfi sem byggt hefur verið upp á Amazon þar sem lesendur skrifa um umsagnir bók þá sem maður er að skoða þá stundina, mæla með henni eða ekki og benda kannski á aðrar bækur sé eru betri / síðri / jafn góðar. Þar er kominn vísir að afgreiðslumanninum í bókabúðinni sem alltaf var búinn að lesa bestu bækurnar eða vissi í það minnsta hvað þær hétu, gat ráðlagt manni eftir því hvað maður las síðast og þar fram eftir götunum. Eða hvað?

Fyrir stuttu gerðist það vestur í Amríku að rithöfundur kom sem gestur í sjónvarpsþátt og tjáði sig um eitthvað sem hann hafði ekkert vit á. Nú er það alsiða víða um heim að rithöfundar geri slíkt, ekki síst hér á landi, en svo vildi til að rithöfundurinn, Cooper Lawrence, sem skrifar sjálfshjálparbækur, lét þau orð falla um tölvuleikinn Mass Effect að hann væri dæmigerður karlaleikur sem hlutgerði konur og hefði sem kynlífsleikföng. Nú er það svo að leikurinn, sem er vísindasagnaævintýri, snýst um allt annað en kynlíf, það kemur varla fyrir í honum, og hægt að spila hann hvort sem kona eða karl. Því tóku þeir sem spila leikinn, hálf önnur milljón manna, umsögninni illa og voru fljótir að svara fyrir sig.

cooper lawrenceLawrence var í sjónvarpsþættinum sem getið er meðal annars til að kynna nýja bók sína, The Cult of Perfection, sem er einmitt til sölu á Amazon. Eins og hendi væri veifað tóku hundruð manna að skrifa "umsagnir" um bókina og allar neikvæðar. Í New York Times kemur fram að skömmu eftir ummælin, sem Lawrence hefur reyndar beðist afsökunar á (og viðurkennt að hún vissi ekkert um hvað hún var að tala), voru komnar 472 umsagnir um bókina og af þeim 412 með lægstu einkunn sem hægt er að gefa, eina stjörnu, og 48 gáfu bókinni tvær stjörnur. Að auki var búið að hengja við bókina ýmis lykilorð, sem eiga að hjálpa fólki við leit að bókum, og þau voru ekki af veri endanum (fjöldi þeirra sem hengdu þau við í sviga): óupplýst (1444), rusl (1172), hræsni (1136), hræsnari (1099) og svo má telja. Alls eru nú 884 orð tengd við bókina þannig að sá sem leitar til að mynda eftir lykilorðunum "yfirborðskennt", "klám", "versta bók allra tíma", "peningasóun", "illa skrifuð" eða "dýrahneigð". svo dæmi séu tekin, myndi finna bók Cooper Lawrence.

Amazon er reyndar búið að hreinsa út tölvuvert af umsögnum um bókina, tók til að mynda allar umsagnir sem voru augljóslega eftir þá sem ekki höfðu lesið bókina, en eftir stendur 51 umsögn; ein með fjórar stjörnur, sjö með tvær og 43 með eina (þess má geta að 1.361 hefur lýst ánægju sinni með tveggja stjörnu umsögnina, og 1.229 með vinsælasta einnar stjörnu dóminn). Bók Lawrence er nú í 426.891. sæti á sölulista Amazon og hefur lækkað um 80.000 sæti í vikunni.

Þetta segir eðlilega sitt um umsagnirnar sem fylgja bókum á Amazon, þeim er ekki alltaf treystandi (frekar en sumum afgreiðslumönnum í bókabúðum sjálfsagt). Það kemur í sjálfu sér ekki á óvart, enda ótal dæmi um að menn skrifi umsagnir um bækur með rýting í erminni eða í bakinu. Eins hafa höfundar verið staðnir að því að skrifa jákvæðar umsagnir um sjálfa sig, útgefendur um bækur sem þeir gefa út og svo má telja.

Amazon hefur brugðist við þessu að vissu leyti; nú gefa menn umsögninni einkunn (þó það sé ekki alltaf að marka eins sjá má í dæminu hér fyrir ofan) og fyrir vikið ættu góðir (les: vandaðir) gagnrýnendur að njóta meiri virðingar. Þegar litið er á þann hóp gagnrýnenda sem afkastamestir eru og því ofarlega á gagnrýnendalista Amazon, kemur sitthvað sérkennilegt í ljós.

Slagurinn um að komast á toppinn hófst eiginlega um leið og kerfinu var komið á laggirnar fyrir rúmum sjö árum og gekk á ýmsu (algengt var að menn stálu umsögnum af bloggsíðum og úr blöðum, breyttu lítillega og settu inn sem sínar eigin). Enginn hefur náð að skáka Harriet Klausner sem er nú í efsta sæti á gagnrýnendalistanum og hefur verið frá upphafi; bókavörður frá Pennsylvaníu sem segist vera svo hraðlæs að hún komist yfir tvær bækur á dag. Hún gerir reyndar gott betur því hún skrifar líka um þessar tvær bækur og ríflega það; miðað við umsagnirnar sem birtar eru undir hennar nafni á Amazon, 15.584 talsins, skrifar hún um 40 bækur á viku.

Aðrir á topplistanum eru álíka afkastamiklir, sá í öðru sæti hefur til að mynda skrifað um 6.666 bækur, sem gerir þó ekki nema tuttugu bækur á viku, og svo má telja. Ekki er þetta til að auka traust manna á umsögnum á Amazon, eða hvað sýnist þér?

Svo er það aftur annað mál og síst skemmtilegra hvernig þeir svo skrifa sem á annað borð setja inn umsagnir um bækur. Iðulega verður manni gramt í geði við að lesa umsögn um bók þar sem veður uppi misskilningur og vanþekking en einnig er oft hægt að skella uppúr yfir gagnrýninni, ekki síst þegar maður er eiginlega sammála gagnrýnandanum án þess þó að vilja segja það upphátt.

Í góðri samantekt á vefsetri The Morning News tekur Matthew Baldwin saman nokkur dæmi um bækur sem fengið hafa eina stjörnu í umsögn á Amazon, en eru þó á nýlegum lista Time yfir 100 bestu skáldsögur sem ritaðar hafa verið á enska tungu frá 1923 til okkar daga. Nú er það svo að slíkir listar byggjast á smekk þeirra sem taka þá saman, en engu að síður geta menn væntanlega sammælst um það að allar bækur á slíkum gagnrýnendalistum hljóti að vera framúrskarandi eða þar um bil. Þrátt fyrir það telja sumir gagnrýnendur að Bjargvætturinn í grasinu, Á hverfanda hveli og Þrúgur reiðinnar séu ekki betri en svo að þeim hæfi ein stjarna. Á stundum rökstyðja þeir mál sitt reyndar skemmtilega og stundum svo vel að maður er eiginlega sammála. Nokkur dæmi:

Hringadrottins saga e. Tolkien: "Ekki er hægt að lesa bókina vegna ofnotkunar atviksorða."

Gaukshreiðrið e. Ken Kesey: "Þetta er kannski bók fyrir þá sem hafa áhuga á geðveikum"

The Sound and the Fury e. Faulkner: "Þessi bók er eins og vanþakklát kærasta. Maður gerir sitt besta til að skilja hana og fær ekkert útúr því."

Tropic of Cancer e. Henry Miller: "Þetta er ein versta bók sem ég hef lesið. Ég komst ekki lengra en að síðu 3 eða 4."

(Um Time listann má svo endalaust deila; hvað er The French Lieutenant's Woman eftir Fowles að gera þarna? Nú eða The Lion, The Witch and the Wardrobe eftir C.S. Lewis? Aftur á móti lýsi ég ángægju minni með að á honum séu bækur eins og Ubik eftir Philip K. Dick, The Sot-Weed Factor eftir John Barth og ekki síst The Man Who Loved Children eftir Christina Stead, enda eiga menn til að gleyma henni.)


Kjöt með götum

Snow GatheringMikið hefur verið fjallað um ráðstefnu klámframleiðenda sem halda átti á Hótel Sögu, en var aflýst þegar hótelið afturkallaði bókun vegna gistingar ráðstefnugesta. Frétt á mbl.is um afturköllun bókunarinnar vakti mikla athygli og margir kusu að tjá sig um hana, blogga um hana, 73 alls frá því fréttin birtist rétt fyrir kl. 14:00 á fimmtudag og til miðnættis. Af þeim voru 28 andvígir ákvörðun hótelsins og lýstu henni, oft með sterkum orðum. Þrjár konur voru meðal þeirra sem andmæltu ákvörðun hótelsins.

Athugasemdir voru beinskeyttar og sumar harkalegar. Margir töluðu hástöfum um að þeir væru í raun að berjast fyrir frelsið og ekki fer milli mála, að þeirra mati, hverjum var um að kenna: femínískum vælukjóum, vinstra rauðsokkuliði, fasískum femínistum, femínasistum, ferköntuðum kverúlöntum, pemprum sem væru öskrandi af fáfræði og fordómum, ofstækisfullum fasistum, feminískum beljum og þess háttar lýð, feministapakki, kvenréttindasinnum, helv. feministum, öfga feministum, fasistunum í femínistasamtökum og rasistum. " ... eigendur og hótelstjóri Radisson SAS eru búnir að drulla svo svaðalega uppá bak, að maður finnur lyktina til Danmerkur" skrifaði einn frá Danmörku.

Þær þrjár stúlkur sem samsinntu piltunum fengu klapp á bakið: "Heyr heyr! Loksins kona með eitthvað á milli eyrnanna, ólíkt fasistunum í femínistasamtökum" og "Ég er mjööööög ánægður meðað sjá konu með þroskuð viðhorf. Þú hefur, án gríns, algjörlega viðreist virðingu mína fyrir kvennþjóðinni."

Ekki nennti ég að telja athugasemdir við bloggfærslur, með og á móti, enda skiptu þær hundruðum. Margir þeirra sem skrifuðu þær endurnýttu athugasemdir á milli blogga, til að mynda "Geir" og "Fannar frá Rifi" sem settu sömu athugasemdina inn ótal sinnum.

Karlarnir voru flestir á aldrinum 23 til 26 ára gamlir sýndist mér, af klámkynslóðinni, fyrstu kynslóðinni sem fékk Netið beint í æð, fyrsta kynslóðin sem gat komist í klámefni á Netinu á mótunarskeiði kynþroska. Þeir líta það greinilega öðrum augum en þeir sem eldri eru, finnst klám eiginlega vera hið besta mál. Kannski dreymdi einhverja þeirra um að vera foli í klámmynd.

"Konurnar eru á hærri taxta," segja þeir til sannindamerkis um það að klámleikkonur hafi það í raun bara gott. "Ættu þessar kerlingar ekki frekar að vera að berjast fyrir launajafnrétti í kámmyndum," sagði einn við mig. Annar skrifaði svo: "Afhverju er svo alltaf talað um að þær konur sem leika í klámmyndum séu fórnarlömbin??? Þær eru á mun hærri launum heldur en karlmennirnir sem leika á móti þeim.  Engin minnist á það að karlmennirnir í kláminu séu tilneyddir til þess að leika í klámmyndum."

Málið er bara það að konur í klámmyndum eru ekki í hlutverki kvenna, þær eru bara kjöt með götum, "fucktoys" segja folarnir kampakátir.


Klippt og skorið

Plötusnúðar eru ýmiskonar, allt frá því að sitja við spilarann og skipta um plötur næsta vélrænt í það að vera tónlistarmenn sjálfir sem leika af fingrum fram með plöturnar sem sitt hráefni, tónlist annarra. Þeir sem lengt ná í þeim efnum eru mikils metnir um heim allan, enda ekki hægt að líkja því við annað en tónleika þegar þeir troða upp, blanda saman gleymdri tónlist og alþekktri, flétta saman saman taktinn úr þessu lagi og sönginn úr hinu, ekki bara til að láta lögin renna saman heldur til að skapa eitthvað nýtt. En af hverju ekki að ganga lengra, af hverju ekki að líta á tónlistina sem hreint hráefni og fara alla leið, hrista saman það besta úr nokkrum góðum lögum svo úr verður mögnuð snilld?

Mashup kallast það þegar menn skeyta saman lögum líkt og frægt varð hér á landi þegar einhver gárunginn setti saman  Celine Dion og Sigur Rós, Sealion Dion vs. Cigar Ros. Helsti spámaður þessara tónvísinda er kanadíska tónskáldið John Oswald sem er frægast fyrir Plunderphonics sem hann kallar svo, en sú hugsun felst í því að setja saman nýja tónlist úr gömlum upptökum. Hann byrjaði á sínum klippiverkum á sjöunda áratugnum og frægt varð er hann skeytti saman gítarfrösum frá Jimmy Page og prédikun bandarísks bókstafstrúarmanns.

Oswald lét þau orð eitt sinn falla að ef við hugsum okkur tónsköpun sem sléttan völl sé höfundarrétturinn girðingarnar og hann og fleiri hafa barist gegn þeirri þróun að sífellt er verið að lengja gildistíma höfundarréttar, aðallega fyrir tilstilli fyrirtækja sem vilji halda áfram að hagnast á hugverkum löngu eftir að höfundurinn er fallinn fá og jafnvel börn hans og barnabörn líka.

Mashup er yfirleitt notað yfir það þegar lög eru felld saman í heilu lagi eða hér um bil, en ótal afbrigði eru til á því sem Oswald kallaði Plunderphonics (fyrsta Plunderphonic diskinn er hægt að sækja á vefsetur Oswalds, plunderphonics.com). Það er til að mynda aðeins útfærsluatriði að nota búta úr lögum eins og legokubba, setja saman lag úr mörgum misstuttum bútum, kannski tugum búta eða hundruðum. Bókstafstrúarmenn kalla það ekki mashup, en merkimiðinn skiptir í sjálfu sér ekki máli, heldur framkvæmdin.

Frægar plötur með tónlist þessarar gerðar eru til að mynda fyrsta platan Oswalds sem getið er og CBS og lögmenn Michaels Jacksons létu eyðileggja, plata Negativland sem U2 stoppaði, Gráa albúmið eftir Danger Mouse, sem steypti saman Hvíta albúmi Bítlanna og Svarta albúmi Jay-Z, en EMI kom í veg fyrir dreifingu hennar þó hægt sé að sækja hana á netið (sjá http://www.illegal-art.org/audio/index.html) - beinn tengill á plötuna (torrent á zip-skrá) hér). Oft eru viðkomandi verk unnin með samþykki höfundarréttareigenda eða þegjandi samþykki, en algengara þó að unnið sé í óleyfi. Dæmi um samþykki eru Radio Soulwax-plöturnar (2 Many DJs) sem á eru mashup sem leyfi fengust fyrir og dæmi um þegjandi samþykki er platan magnaða Three Sinister Syllables, 75 mínútna flétta 250 lagabúta sem margir eru ekki nema taktur eða rödd. Á þeim 75 mínutum segja þeir Jay Glaze & Pro-Celebrity Golf sögu hiphopsins með magnaðri keyrslu (en þess má og geta að á umslagi er nafn plötunnar ritað með stöfum sem klipptir hafa verið úr umslögum á ýmsum sígildum hiphop-plötum). Heyr til að mynda þessa MF Doom syrpu, 26 lög á tæpum átta mínútum.

Three Sinister Syllables var tvö ár í smíðum, enda flókin vinna að púsla saman þó notast sé við tölvur. Dæmi um verk sem enn seinlegra var að vinna er til að mynda upptökur félaganna sem kalla sig Cassetteboy, en þeir notuðu snældur og skæri við iðju sína. The Parker Tapes er frægasta verk þeirra og tók sjö ár, en á því tæta þeir í sig ýmsa frammámenn í bresku þjóðlífi í 99 lögum, til að mynda fær Jamie Oliver eftirminnilega yfirhalningu eins og heyra má með því að smella hér. Á The Parker Tapes nota Cassetteboy félagar að mestu upptökur af talmáli og verkið fellur því að miklu leyti utan viðfangsefnis þessa pistils, en þeir nota líka nota upptökurnar til að gera grín sem nýtur verndar samkvæmd dómi hæstaréttar vestan hafs í máli erfingja Roy Orbison gegn 2 Live Crew á sínum tíma vegna lagsins Pretty Woman (útgáfa 2 Live Crew er ömurleg eins og heyra má með því að smella hér).

Margir klippararnir líta á iðju sína sem hálfgert hugsjónastarf og kæra sig ekki um að leyfi þó það standi til boða, en fleiri virðast þó gjarnan vilja hafa allt á þurru, en það getur verið snúið að afla heimilda fyrir bútum. Dæmi um það er lagið 99 Problems sem Danger Mouse bræðir saman við Helter Skelter á Gráu plötunni.

Á Svörtu plötunni, plötu Jay-Z, eru fjórir útgefendur skráðir fyrir laginu. Til þess að nota lagið þurfti Danger Mouse því að fá leyfi frá þeim útgefendum öllum að ekki sér talað um útgefanda Helter Skelter. Gera má því skóna að þeir hefðu krafið hann um fulla greiðslu fyrir fyrirframgreitt og engar líkur á að hann gæti náð þeim peningum til baka. Kemur ekki á óvart að margir fara þá leið að spyrja hvorki kóng né prest og gefa lögin síðan út á Netinu þar sem hver sem vill getur sótt þau.

Einn af þeim sem sigla milli skers og báru í þessum efnum er tónlistarmaðurinn Girl Talk sem sendi frá sér sérdeilis skemmtilega plötu fyrr á árinu, Night Ripper. Á bak við Girl Talk nafnið er lífefnafræðingurinn Greg Gillis - dagfarsprúður verkfræðingur í hvítum slopp á virkum dögum, en hálfber villtur plötusnúður um helgar. Hann lifir því tvöföldu lífi og vill víst helst hafa það svo, sem sést meðal annars af því að hann neitar blöðum í heimaborg sinni, Pittsburgh, um viðtöl til að halda því leyndu hvað hann gerir í frítíma sínum.

Gillis lærði tónlist sem barn, spilaði á trompet, en fór síðan að fást við óhljóðalist sem unglingur, segist hafa verið í hljómsveit sem framleiddi hávaða og braut hluti. Þegar það bráði af honum fór hann að hlusta á poppmúsík en nálgaðist hana út annarri átt en gengur og gerist. Fyrsta Girl Talk platan kom út 2002 eftir að Gillis hafði setið við klippingar í á annað ár.

Fyrsta plata hans var tilraunakenndari en síðar varð en Gillis segist hafa fljótlega hafa misst áhugann á tilraununum og sneri sér því að hiphopi og poppi. Hiphop er reyndar obbinn af hráefninu sem Gillis notar, enda falla pælingar hans vel að grunninum að góðu hiphopi - smalatækni og liprar klippingar.

Á Night Ripper eru brot úr lögum 167 listamanna eða hljómsveita, um 250 bútar alls, enda notaði hann fleiri en einn bút frá sumum, en alls segist hann hafa haft undir um 6.000 búta þegar hann var að setja plötuna saman. Þetta er mögnuð blanda, en ef marka má tónleikaumsagnir er Gillis enn magnaðri á tónleikum, en þar blandar hann á staðnum, skeytir saman bútum úr öllum áttum eftir stemningunni á staðnum og því í hvaða stuði hann er. Á slíkum tónleikum eru ekki eiginleg lög, frekar eins mögnuð löng syrpa og reyndar hefur hann látið þau orð falla að lögin á Night Ripper séu ekki eiginleg lög, það megi líta á plötuna sem eitt 42 mínútna lag, en þeim hafi verið skipt niður í hæfilega skammta til að tryggja að þeir renni ljúflegar niður.

Skoðum til að mynda upphafslag plötunnar með aðstoð Wikipedia: Lagið, sem er 2:40 mínútur og hægt að sækja með því að smella hér, heitir Once Again og hefst með broti úr Goodies sem crunk-gellan Chiara flutti 2004. Síðan er framvindan þessi:

0:09 Boston - Foreplay/Long Time
0:12 Ludacris - Pimpin' All Over The World
0:32 Fabolous - Breathe
1:16 Ying Yang Twins - Wait
1:25 The Verve - Bittersweet Symphony
1:44 Slim Thug - I Ain't Heard Of That
1:57 Oasis - Wonderwall
2:06 Arrested Development - Tennessee
2:08 Webbie - Give Me That
2:08 Young Jeezy ft. Mannie Fresh - And Then What
2:19 Genesis - Follow You Follow Me
2:19 Ratatat - Bustelo
2:19 Boredoms - Acid Police
2:30 The Five Stairsteps - O-o-h Child
2:38 Eminem - Ass Like That

Nokkuð dæmigert fyrir plötuna alla og takturinn þrælþéttur og drífandi. Partíplata frá helvíti og allt kolólöglegt miðað við dómaframkvæmd vestan hafs. Enginn eigandi höfundarréttar hefur þó enn gripið til varna og óvíst hvort nokkur geri slíkt, litlir peningar í spilinu og það hefur skaðað fyrirtæki þegar þau hafa gengið of hart fram í slíkum efnum. Girl Talk og útgefandi hans, Illegal Art, er þó á gráu svæði ef ekki svörtu í þessu máli og segir sitt að fyrirtækið lenti í erfiðleikum með framleiðslu á disknum vegna tregðu framleiðenda þó tekist hafi að komam plötunni út um síðir.

(Hluti af þessari færslu birtist í Morgunblaðinu 19. sept.)


Milljónir myndbanda

YouTube er vefsetur fyrir myndskeið þar sem notendur vefsetursins lesa sjálfir inn efnið. Ef marka má stofnendur YouTube var það ætlun þeirra að vefsetrið yrði vettvangur fyrir myndbönd almennings, myndbönd sem fólk gerði sjálft, hvort sem um væri að ræða listarænar stuttmyndir eða myndir af gæludýrum eða börnum. Það hefur og orðið raunin, á YouTube eru milljónir myndbanda eftir milljónir höfunda, en einnig er þar að finna tugþúsundur myndbanda sem sett eru inn án vitundar og vilja höfundarréttareigenda; myndskeið úr íþróttakappleikjum, tónlistarmyndbönd, brot úr sjónvarpsþáttum og bíómyndum og svo má telja. Samkvæmt nýlegum upplýsingum frá fyrirtækinu senda notendur YouTube inn um 70.000 myndskeið á sólarhring.

Mest ber þó enn á því efni sem almenningur hefur sjálfur sett saman og enda eiga milljónir manna myndbandstökuvélar, enn fleiri síma með myndbandmöguleika og grúi á líka vefmyndavélar sem tengdar eru beint við tölvur. Hægðarleikur er síðan að komast yfir hugbúnað til að vinna myndböndin og hann fylgir til dæmis með helsta stýrikerfi sem notað er í dag. Þetta notar fólk sér og sem dæmi má nefna mashup-myndbönd sem eru gríðarlega vinsæl á YouTube, en þá hafa menn blandað saman efni úr ólíkum áttum til að gera út eitt verk. Dæmi um það er til að mynda myndband þar sem setningar úr The Big Lebowski er blandað saman við myndbrot He-Man, en óteljandi slíkar kássur er hægt að finna á YouTube. Eins er nokkuð um það að tónlistarmenn noti YouTube til að kynna sig sig, til að mynda með því að sýna færni á hljóðfæri. Með vinsælustu myndböndum á YouTube er þannig heimagert myndband eftir tævanskan gítarleikara sem spilar útsetningu á verki eftir Pachebel, en í myndbandinu sýnir hann ævintýralega tækni á rafgítarinn og varð heimsþekktur fyrir vikið.

Upphaflegur tilgangur YouTube, að gera fólki auðveldara að tjá sig með myndböndum, hefur því gengið eftir en einna mestur vaxtarbroddur er þó í að setja inn forvitnileg myndskeið úr sjónvarpi. Þannig rata flest þau myndskeið sem vekja athygli vestan hafs beint á YouTube og oft nánast um leið. Dæmi um það er klúðrið hjá CNN um daginn þegar spjall vinkvenna var óvart sent yfir ræðu George Bush. Öll mismæli og klúður rata þannig beint inn, umdeildar yfirlýsingar, bilanir og  klaufagangur. Gera má ráð fyrir því að í kosningarbaráttunni sem framundan er vestan hafs muni YouTube skipta miklu máli, enda lifir á YouTube öll vitleysa sem frambjóðendur láta frá sér fara in hita leiksins. Sjá til að mynda hvernig fór fyrir frambjóðandanum George Allen sem gerði lítið úr bandarískum kvikmyndatökumanni af indverskum ættum á framboðsfundi - ummælí hans fóru beint inn á YouTube og þaðan í aðra fjölmiðla og í kjölfarið hvarf forskot hans, sem var á annan tug prósenta.

Samkvæmt vefmælingum er YouTube ein af vinsælustu vefsíðum heims, í þrettánda sæti og á uppleið. Gestir á mánuði eru í kringum tuttugu milljónir og alls er horft á um hundrað milljón myndbönd á dag hjá YouTube. Mismunurinn á fjölda gesta og myndbanda skýrist af því að auðvelt er fyrir notendur að vísa á myndbönd sem vistuð eru hjá YouTube og láta þau spilast á viðkomandi vefsíðu. Gríðarlega vinsælt er að birta YouTube myndbönd á bloggsíðum og einnig hafa sprottið upp vefsíður sem veita aðgang að ýmislegu efni sem er í raun vistað hjá YouTube. Gott dæmi um það eru vefsetur sem veita aðgang að anime, japönskum teiknimyndum, en þau haga mörg málum svo að þau halda utan um lýsingar á þáttum, yfirlit yfir þá og tilheyrandi, en þegar notandi vill síðan horfa er myndbandinu streymt frá YouTube. Þar sem ekki má setja lengri myndbönd en tíu mínútur inn á YouTube sjá þannig vefsetur um að þræða efnið saman svo hálftíma þáttur virðist vera heill en ekki í þrem hlutum. (Reyndar er hægt að setja lengri myndskeið inn á YouTube, en til þess þurfa menn að skrá sig sérstakri "leikstjóraskráningu".)

Það gefur augaleið að svo mikið magn af höfundarréttarvörðu efni vekur ýmsar spurningar og þá helst af hverju þeir sem eiga höfundar- og birtingarrétt á viðkomandi efni skuli ekki hafa látið í sér heyra. Nú er því svo háttað vestan hafs að netþjónustur bera almennt ekki ábyrgð á því efni sem viðskiptavinir þeirra dreifa nema þær heykist á því að fjarlægja efnið sé þeim bent á það. YouTue hefur einmitt haft fyrir sið að taka snarlega út efnið um leið og rétthafi þess lætur í sér heyra, en þegar um 70.000 myndskeið eru sett inn á hverjum sólarhring getur nærri að erfitt er við að eiga. Varla þarf að taka fram að ógerningur er fyrir rétthafa að stefna hverjum og einum notanda og heimskulegar aðgerðir sambands hljómplötuframeiðenda vestan hafs, RIAA, gegn nokkrum einstaklingum hafa engu skilað nema aukinni óvild í garð útgefenda.

Kvikmyndafyrirtæki hafa mörg áttað sig á að YouTube er fín leið til að kynna kvikmyndir og hafa því séð í gegnum fingur sér þó einstaklingar hafu verið að setja inn brot úr myndum eða kynningarmyndbönd nýrra mynda. Eins hafa mörg plötufyrirtæki látið afskiptalaust þó á YouTube sé að finna tónlistarmyndbönd, enda eru slík myndbönd alla jafna hreinræktaðar auglýsingar hvorteðer (og geta haft mikið heimildagildi, ef leitað er að sugarcubes birthday lee finnst  myndband sem byggir á tónleikaupptöku frá öðrum tónleikum Sykurmolanna í Lundúnum (1987)).

Aðstandendur YouTube lýst því yfir að fljótlega muni fyrirtækið vista öll tónlistarmyndbönd sem gerð hafi verið vestan hafs og hvað verður þá um MTV?

(Lengri gerð greinar sem birtist í Morgunblaðinu 2. september.)


Uppskrúfaður ritstjóri

Naumast hann er uppskrúfaður ritstjóri væntanlegs (hugsanlegs?) blaðs Dagsbrúnar í Danmörku, Nyhedavisen. Á meðan þarlendir bíða þess að útgáfa hefst bloggar ritstjórinn, David Trads, á léni blaðsins, avisen.dk og er svo hástemmdur að manni þykir nóg um:

"Hvordan sikrer jeg, at avisen.dk (og dermed Nyhedsavisen) blir selve det danske medie, hvor elitens barrierer blir trukket væk – og hvor alles holdning er lige meget værd?"

Einfalt svar við þessu er að þetta er ekki hægt þar sem eigendur hvers blaðs hljóti alltaf að fá aðra meðferð en utanaðkomandi, eins og dæmin sanna (og ekkert að því, þ.e. að eigendur fjölmiðils beiti honum eins og þeim þykir henta). Rómantíkin sem felst í þessum orðum ritstjórans nýja er því í besta falli hjákátleg.

Það er svo annað mál hvernig Nyhedsavisen mun takast að gera avisen.dk að einu vinsælasta vefsetri Danmerkur sem er markmið þeirra ("Avisen.dk vil være blandt landets fem mest læste websites").  Það eru örugglega sóknarfæri á vefnum í Danmörku svo framarlega sem menn fara aðrar leiðir en Dagsbrún hefur fetað hér á landi.


Enginn er annars bróðir í leik

Góð þykir mér sú ábending að tónlistin sé fögur en mögur, enda verður seint sagt að það sé vel borgað starf að vera tónlistarmaður. Vissulega nær nokkur hópur því að verða vinsæll og vellauðugur, en fyrir hvern einn sem nær því eru tugþúsundir sem svelta hálfu hungri þar til þeir gefast upp, fara að afgreiða í plötubúð eða hverfa til annarra starfa.

Skýringin á því hvers vegna svo erfitt er að lifa af því að vera tónlistarmaður hér á landi liggur eiginlega í augum uppi - í landi þar sem ekki búa fáir neytendur er aldrei hægt að selja margar plötur. Málið er þó ekki svo einfalt, því úti í heimi, þar sem neytendur eru margir, er ekki endilega auðveldara að lifa af músík, til að mynda vestan hafs. Þar kemur margt til, til að mynda mikill markaðskostnaður, en líka það hve tónlistarmenn fá litla sneið af kökunni þegar sölutekjum er skipt. Kíkjum á dæmi:

Tónlistarmaður fær ákveðna prósentu af smásöluverði plötu, mis-háa prósentu eftir því hvernig samning hann er með við viðkomandi útgáfu. Alla jafna fá menn í kringum 10% af smásöluverðinu, en það er reyndar að frádregnum ýmsum kostnaði. Til að mynda er dreginn frá kostnaður vegna umbúða, sem er jafnan fjórðungur af smásöluverðinu, dreginn er frá kostnaður vegna affalla í flutningi, þ.e. diska sem skemmast í flutningi (10%), og  dreginn er frá kostnaður vegna "nýrrar tækni" sem settur var á þegar geisladiskar komu á markað og er enn í notkun, 25% þar. Þegar upp er staðið fær listamaðurinn því 10% af helmingi smásöluverðsins. Ekki þarf að taka fram að hann fær ekkert fyrr en búið að er að selja plötur upp í allan kostnað af af framleiðslunni, upptökum hljóðvinnslu og frumeintaki, og svo ákveðinn hluta af markaðskostnaði, til að mynda myndbandagerð og álíka. Gefur augaleið að margt af þeim frádrætti sem hér er tíndur til er útí hött, til að mynda frádráttur vegna nýrrar tækni og eins eru afföll vegna flutninga langt frá því að vera 10%, þó þau hafi kannski nálgast það á meðan menn voru enn að fást við lakkplötur.

Margir tónlistarmenn hafa gert sér vonir um að sala á Netinu myndi skila þeim stærri sneið af kökunni, enda kostnaður þar allt annar; dreifing kostar ekki nema brot af því sem kostar að dreifa tónlist á plötum eða diskum, engin afföll eru vegna afffalla í flutningi, umbúðir kosta ekkert og svo má telja. Raunin hefur þó verið önnur, því smásalar á tónlist á Netinu, þar fremst í flokki Apple fyrirtækið, hafa séð sér leik á borði og maka nú krókinn.

Undanfarna mánuði hafa útgefendur glímt við Apple um að hafa verðlagningu fjölbreyttari innan iTunes, hafa meðal annars lagt til að eldri tónlist sé seld á 60 sent og 80 sent, en nýrri og vinsælli tónlist á hærra verði en 99 sent. Þeir segjast einnig vilja geta boðið tónlist nýrra listamanna á sérstöku kynningarverði. Apple-menn hafa hinsvegar staðið fast á sínu - hvert lag kosti 99 sent. Síðustu fréttir benda til þess að þeir muni hafa sitt fram, enda hafa þeir hótað því að þau fyrirtæki sem krefjist breyttrar verðlagningar verði einfaldlega ekki með í iTunes.

Þegar Apple selur lag í gegnum iTunes fær fyrirtækið 35% af þeim 99 centum sem hver lag selst á, 26 kr. af þeim 77 sem lagið kostar skv. meðalgengi þegar þetta er skrifað. Útgefandinn fær þau 65% sem eftir eru. Ólíklegt verður að teljast að inni í frádrætti sem fyrirtækið notar til að stækka sinn skerf séu fyrirbæri eins og umbúðakostnaður, enda er hann enginn, eða afföll, enda eru þau engin, en vel hugsanlegt að 25% frádráttur vegna nýrrar tækni sé enn inni.

Það þýðir þá að tónlistarmaðurinn fær minna fyrir sinn snúð en hann fékk forðum og því skiptir það hann litlu sem engu hvort tónlistin sé seld í gegnum iTunes, Sony-sjoppuna (Sony Connect) eða á diskum. Þegar iTunes er annars vegar fær útgefandinn fær aftur á móti minna, hefur til að mynda ekki sömu tækifæri til að nýta sér frumlegan frádrátt.

Fréttin sem þessi færsla tengist sýnir svo hvernig plötufyrirtæki starfa - Sony dregur af Allman bræðrum og Cheap Trick, og væntanlega tugum tónlistamanna annarra, kostnað vegna umbúða og dreifingar við netsölu þó hvorugu sé til að dreifa (og örugglega vegna nýrrar tækni). Fyrir tónlistarmenn hjá Sony skiptir því engu hvort tónlist sé seld á diskum eða á netinu með minni tilkostnaði en nokkru sinn hingað til, en fyrirtækin fitna. Á meðan tónlistarmenn leggja fyrirtækjunum lið í baráttu gegn dreifingu á tónlist á Netinu hagnast fyrirtækin meira á hverju lagi seldu á Netinu en á diskum með því að arðræna listamennina - enginn er annars bróðir í leik.

(Til skýringar má nefna að myndin sem fylgir er af umslagi Eat a Peach, bestu Allman Brothers Band plötunni. Á henni er hið magnaða lag Little Martha þar sem Duane Allman fer á kostum, eitt af því síðasta sem hann tók upp.)


mbl.is Cheap Trick og Allman Brothers lögsækja Sony Music
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslands versti vefur ...

ParísÞví hefur verið haldið fram að vefur Flugleiða sé dýrasti vefur Íslandssögunnar, þ.e. að meiri peningum hafi verið eytt í hann en nokkurn annan vef. Nú veit ég ekki hvort það er rétt að meira fé hafi farið í hann en aðra vefi en þar víst rétt að miklu hefur verið eytt í vefinn í gegnum tíðina og sorglegt að þeir peningar virðast hafa farið í að gera vefinn sem glæsilegastan, en minni peningur farið í að huga að notagildi hans.

Fyrir mörgum árum skrifaði ég bréf til vefstjóra Flugleiðavefsins og vottaði honum samúð yfir því að þurfa að stýra handónýtum vef og fékk það merkilega svar að vefurinn væri ekki síðri en aðrir flugfélagavefir. Sú staðhæfing var reyndar ekki rétt, til mun þægilegri vefsíður flugfélaga, en mjög skrýtið að metnaður Flugleiðamanna hafi ekki verið að vera með besta vefinn, heldur hafi þeir miðað starf sitt við að vera eins og hinir.

Síðan eru mörg ár liðin og enn er Flugleiðavefurinn óþægilegur og illskiljanlegur þó fyrirtækið heiti nú Icelandair. Eitt lítið dæmi um það er það ef maður vill komast að því hvernig háttað sé flugi til Parísar. Nú hefði maður haldið að besta leiðin til þess sé að smella á "Áfangastaðir" á forsíðu og síðan á parís. Þar er tengill sem heitir Flugáætlun. Þá kemur aftur á móti upp leitargluggi (!) þar sem ætlast er til að maður velji áfangastað þó smellt hafi verið á tengilinn Flugáætlun frá Parísarsíðu vefsins sem er innan um fyrirbæri eins og "Almennt um París", "Hótel í París" og "Hvað er að gerast?".

Ef maður síðan velur París sem áfangastað í leitaglugganum þarf maður líka að vita hvaða daga er flogið til Parísar því ef valinn er dagur sem ekki er flogið kemur upp síða með skilaboðunum:

"Icelandair fljúga ekki milli þessara borga. Ekki er hægt að panta flug með öðrum flugfélögum eingöngu. Það þarf að vera a.m.k. eitt flug með Icelandair til að halda áfram bókun. (9100)"

Geggjað ekki satt? Nú segir kannski einhver: "Ef ég veit hvaða daga flogið er til Parísar þarf ég ekki að gá að því." - Nokkuð til í því, en þeir sem ekki vita hvaða daga flogið er til Parísar geta svosem komist að því að vefsíðunni með því að sækja PDF-skjal með flugáætlun félagsins.

Til stóð að kanna flug í apríl. Þegar þetta er skrifað, 17. mars, er enn vetur (sumardagurinn fyrsti er 20. apríl). Þegar "Vetraráætlun Icelandair 2005 - 2006 á pdf formi" er sótt kemur aftur á móti í ljós að hún nær aðeins til 25. mars (hvergi getið um það). Þá er ekki annað að gera en sækja "Sumaráætlun Icelandair 2006".

Í ljós kemur að "Sumaráætlun Icelandair 2006" er á ensku (vetraráætlunin reyndar líka) og þarf smá þekkingu til að átta sig á að talnarunan sem stendur á undan orðinu Nonstop í áætluninni þýðir hvaða daga er flogið og hjá Icelandair byrjar vikan á mánudegi (þ.e. 1 = mánudagur, 2 = þriðjudagur o.s.frv.). Þetta má sjá ef menn byrja að lesa neðstu línu í næstsíðustu og síðustu síðu í skjalinu ("Days: 1=Monday, 2= Tuesday, 3=Wednesday," stendur á 14. síðu, "4=Thursday, 5=Friday, 6=Saturday, 7=Sunday" stendur á 15. síðu).

Ég hef ekki svar við því hvers vegna jafn stórt fyrirtæki og Icelandair sem hefur væntanlega á að skipa netdeild (get ekki aflað upplýsinga um það hvort slíkt deild er til og hvað margir vinna þar - ef smellt er á tengil við "Grunnupplýsingar um félagið, stærð og starfsemi, rekstur og starfsmenn" kemur upp "Síðan sem þú baðst um finnst því miður ekki...") getur ekki komið svo einföldum upplýsingum sem flugáætlun í nothæfan gagnagrunn (pdf-skjal er heldur hallærislegt sem einu almennilegu upplýsingarnar anno 2006). Hugsanlega felst það að einhverju leyti í því að metnaður manna þar á bæ er ekki að vera bestir, heldur að vera ekki verri en hinir.


Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband