Færsluflokkur: Bækur

Leyndarmálið mikla

The SecretSvonefndar sjálfshjálparbækur byggjast að því mér hefur sýnst á því sem kalla má almælt sannindi eða almenna vitneskju. Til að mynda deila menn varla um það að þeim vegnar yfirleitt vel í lífinu sem skipuleggja tíma sinn vel, bægja frá sér þráhyggju og slæmum hugsunum og eru fullir sjálfstrausts. Frá því sjónarhorni eru bækur þessarar gerðar þarfaþing þeim sem á þurfa á sjálfstyrkingu að halda og reyndar má færa fyrir því rök að flestir hafi gott af að tileinka sér margt það sem kennt er í slíkum ritum þó leiðir að því marki sé alla jafna betra að finna með almennri skynsemi en með því að lesa bækur sem pakka sannindum inn í gervivísindi eða trúarstagl.

Sjálfshjálparfræðin eru arðbær í meira lagi og bækur þeirrar gerðar eru gjarnan metsölubækur víða um heim, því við viljum öll verða betri, eða flest í það minnsta. Reglulega rísa líka bylgjur sjálfshjálparfræða, allir verða að kynna sér þennan eða hinn fræðinginn, lesa allt sem hægt er um þessa eða hina aðferðina. Algengt er að þessi fræði berist hingað frá Bandaríkjunum, enda eru trúarbrögð þar markaðsvædd, sjálfshjálpartrú líka, og það sem best er gert, hannað eða útfært góð útflutningsvara. Nú ber aftur á móti svo við að mest selda sjálfshjálparbók vestan hafs er ættuð frá Ástralíu. The Secret heitir hún. 

The Secret hefur ekki enn borist hingað til lands, en á eflaust eftir að gera það, kemur örugglega út á íslensku fljótlega, kannski í sumar eða haust, enda er markaðssetning á bókinni snilldarlega útfærð; í senn höfðað til þeirra milljóna sem keyptu Da Vinci Lykilinn og þeirra sem keypt hafa bækur eftir Mitch Albom, Paulo Cohelo og Robin Sharma og ótal annarra sjálfshjálparfræðinga. leydarmálið er nefnilega sannkallað leyndarmál, eða var það í það minnsta þar til Rhonda Byrne kom upp um allt saman.

Eins og því er lýst á vefsetri útgáfunnar og ótal vefsetrum sem mæra bókina hefur leyndarmálið verið ljóst öllum helstu stórmennum sögunnar, Plato, Leonardo Da Vinci, Galileo, Napoleon, Victor Hugo, Ludwig van Beethoven, Jesú Kristur, Abraham Lincoln, Thomas A. Edison, Alfred Einstein og Dale Carnegie, svo dæmi séu tekin (ekki ætla ég að hætta mér út í deilur um það hvort Dale Carnegie eigi það skilið að vera nefndur í sömu setningu og Albert Einstein, Ludvig van Beethoven eða Abraham Lincoln). Allir þekktu þessir andans jöfrar leyndarmálið, eða réttara sagt Leyndarmálið, og nýttu það í vísindum sínum, listsköpun, heimspeki, stjórnmálastarfi, hernaðarbrölti eða gróðabralli.

Leyndarmálið mikla var aðeins varðveitt í munnlegri geymd í gegnum aldirnar og það var ekki fyrr en Rhonda Byrne, fráskilin miðalda móðir sem glímdi við þunglyndi rakst á bók frá 1910 sem hét því dægilega nafni Vísindin við að verða ríkur, The Science of Getting Rich. Í þeirri bók var því haldið fram að það eina sem þyrfti til að verða auðugur væri að hugsa sér það - ef maður hugsar nógu stíft um það sem manni langar í fær maður það. (Þetta er semsagt leyndarmálið, Leyndarmálið, sem þú, kæri lesandi, færð hér gratís.)

Gleymum því svo ekki að hvert selt eintak af Leyndarmálinu er sönnun þess að það sé sannleikur - aðstandendur útgáfunnar, sem hljóta að vera öðrum fremri í fræðunum, vaða í peningum geislandi af lífshamingju á öllum myndum. Þarf frekari vitnanna við?


Klipptur og skorinn Oliver Twist

Oliver TwistÞessi pistill byrjaði sem athugasemd við athugasemd við góða færslu um dálæti lögreglustjóra vor á Oliver Twist á Krummablogginu en teygðist svo úr henni að betur fer á að láta hana standa eina og sér.

Ekki kemur á óvart og svo grandvar og góður maður sem Stefán Eiríksson er hafi dálæti á þeirri fínu bók Oliver Twist og gera má ráð fyrir að hann sé gefinn fyrir fleiri bækur eftir þennan mikla meistara Charles Dickens. Í gegnum tíðina hafa bókmenntafræðingar átt það til að hnýta í hann fyrir að vera ekki nógu agaður, vandaður, sjálfum sér samkvæmur og guðmávitahvað, en þeir sem lesið hafa Dickens vita að það þar fer einn að helstu rithöfundum sögunnar, svo mikið er víst.

Charles Dickens var óhemju afkastamikill höfundur, eftir hann liggja fimmtán langar skáldsögur, talvert af öðrum skrifum og bréf hans skipta þúsundum (þess má geta til gamans að í bókum Dickens koma fyrir 13.143 persónur).  Áðurnefnd Oliver Twist var önnur skáldsaga hann og birtist sem framhaldssaga á árunum 1837 til 1839. Nú veit ég ekki hvaða útgáfu af Oliver Twist Stefán heldur upp á en í athugasemd Péturs Blöndal við fyrrnefnda færslu vitnar hann í bók sem bróðir hans fékk gefins "frá afa og ömmu á Rauðalæk". Af tilvitnuninni má ráða að þar sé um að ræða þýðingu Hannesar J. Magnússonar sem Æskan gaf út í fyrsta sinn 1943, en JPV gaf hana aftur út á síðasta ári. Sú þýðing er líklega gerð úr dönsku og mikið stytt; íslenska útgáfan er 367 síður með myndum og 10 punkta letri, en til samburðar má nefna að ensk útgáfa Oliver Twist frá Penguin, kilja með smáu letri, ca 8 punkta, er 477 síður.

Pétur vitnar í fræga uppákomu í bókinni þegar Oliver litli biður um meira af lapinu sem drengirnir fengu í kvöldverð:

"Ekki vænti ég, að ég megi biðja ráðsmanninn um meiri mat?"

Naumast verður með orðum lýst þeim áhrifum, sem þessi orð Olivers höfðu. Oliver var sjálfur næstum utan við sig af því að hugsa til þess, að hann hefði haft einurð til þess að mæla þessi orð. Ráðsmaður mátti ekki mæla fyrir skelfingu. Um stund starði hann á óróasegginn höggdofa, greip því næst hendi sinni til ketilsins til þess að styðja sig við falli. Eldakonurnar voru sem lostnar þrumu af undrun en drengirnir af ótta.

"Hvað var það sem þú sagðir?" mælti ráðsmaður og var þungt um mál.

"Ég bað ráðsmanninn um ofurlítið meira," svaraði Oliver aftur.

Ráðsmaður gaf nú Oliver utan undir með eysilnum, greip í öxl honum og kallaði hárri röddu á umsjónarmanninn.

Þetta kveld sat stjórnarnefndin á fundi og ræddi alvarleg málefni. Vissi hún ekki fyrr en signor Bumble æddi inn í salinn og var á honum fát mikið; gekk hann rakleiðis fyrir manninn í háastólnum og mælti:

"Herra Limbkins, Oliver Twist hefur beðið um meira!"

Felmtri sló á alla stjórnarnefndarmenn við þessi orð.

"Beðið um meira?" mælti maðurinn í háa stólnum.

"Verið þér nú rólegur, signor Bumble, og svarið mér greinilega. Á ég að skilja orð yðar svo, að hann hafði beðið um meira, eftir að hann hafði neytt þess matar, er honum bar að réttu samkvæmt reglugerðinni?"

"Já, það gerði hann, velæruverðugi herra!" svaraði Bumble.

"Hann hættir ekki fyrr en hann verður hengdur, og sannið þið nú til," mælti maðurinn í hvíta vestinu.

Enginn varð til að andmæla spádómi hans. Nú var haldinn fundur um þetta mál og var mönnum mikið niðri fyrir. Oliver var settur í varðhald þegar í stað, og næsta morgun var fest upp auglýsing og 90 krónum heitið hverjum manni, er létta vildi Oliver af sveitinni. Með öðrum orðum: 90 krónum og Oliver var heitið heitið hverjum þeim, karli eða konu, er óskaði lærlings í hverja iðn eða starf sem var.

"Aldrei hefi ég alla mína ævidaga verið eins sannfærður um nokkurn hlut, eins og ég er um það, að þessi drengur hættir ekki fyrr en hann verður hengdur," mælti maðurinn í hvíta vestinu, þegar hann las auglýsinguna næsta dag.

Þetta er skemmtileg frásögn, en heldur flöt ef litið er til upprunalegs texta:

'Please, sir, I want some more.'

The master was a fat, healthy man; but he turned very pale. He gazed in stupefied astonishment on the small rebel for some seconds, and then clung for support to the copper.  The assistants were paralysed with wonder; the boys with fear.

'What!' said the master at length, in a faint voice.

'Please, sir,' replied Oliver, 'I want some more.'

The master aimed a blow at Oliver's head with the ladle; pinioned him in his arm; and shrieked aloud for the beadle.

The board were sitting in solemn conclave, when Mr. Bumble rushed into the room in great excitement, and addressing the gentleman in the high chair, said,

'Mr. Limbkins, I beg your pardon, sir!  Oliver Twist has asked for more!'

There was a general start.  Horror was depicted on every countenance.

'For 'more'!' said Mr. Limbkins.  'Compose yourself, Bumble, and answer me distinctly.  Do I understand that he asked for more, after he had eaten the supper allotted by the dietary?'

'He did, sir,' replied Bumble.

'That boy will be hung,' said the gentleman in the white waistcoat.  'I know that boy will be hung.'

Nobody controverted the prophetic gentleman's opinion.  An animated discussion took place.  Oliver was ordered into instant confinement; and a bill was next morning pasted on the outside of the gate, offering a reward of five pounds to anybody who would take Oliver Twist off the hands of the parish.  In other words, five pounds and Oliver Twist were offered to any man or woman who wanted an apprentice to any trade, business, or calling.

'I never was more convinced of anything in my life,' said the gentleman in the white waistcoat, as he knocked at the gate and read the bill next morning: 'I never was more convinced of anything in my life, than I am that that boy will come to be hung.'

Annað dæmi um hve íslenska þýðingin er ólík frumtextanum er upphaf bókarinnar. Fyrsta málsgrein upprunalegrar útgáfa er svo:

Among other public buildings in a certain town, which for many reasons it will be prudent to refrain from mentioning, and to which I will assign no fictitious name, there is one anciently common to most towns, great or small: to wit, a workhouse; and in this workhouse was born; on a day and date which I need not trouble myself to repeat, inasmuch as it can be of no possible consequence to the reader, in this stage of the business at all events; the item of mortality whose name is prefixed to the head of this chapter.

Þýðingin hefst svo:

Í borginni Modfog var fátækrahæli, eins og í flestum öðrum borgum. Og í þessu fátækrahæli fæddist Oliver Twist.

Væntanlega hefur þessi útgáfa Æskunnar verið sérsniðin fyrir ungmenni og þýsk ungmenni fengu álíka takteringar því til er þýsk útgáfa af bókinni sem hefst svo:

Unter anderen öffentlichen Gebäuden befindet sich in Modfog, wie in den meisten großen und kleinen Städten, auch ein Armenhaus; in diesem wurde an einem Tag, dessen genaues Datum für den Leser unwichtig ist, Oliver Twist geboren.

Eins og sjá má er íslenska útgáfan enn styttri en sú þýska, þrjátíu og sex orð verða að átján. Sú þýska er líka aðeins nær upprunalegum texta, "on a day and date which I need not trouble myself to repeat" / "an einem Tag, dessen genaues Datum für den Leser unwichtig ist"

Þó er þýska útgáfan litlu betri en sú íslenska, sjá til að mynda næstu málsgrein:

Noch lange, nachdem der Arzt ihn in diese Welt der Sorgen und Mühen befördert hatte, war es sehr ungewisse ob er am Leben bleiben würde. Es war äußerst schwierig, ihn zum Atmen zu bringen; er lag keuchend und zuckend gleichsam auf der Grenzscheide dieser und jener Welt. Es war niemand in seiner Nähe außer einer alten, ein wenig vom Bier benebelten Frau und dem Armenarzt, der die Geburtshilfe kontraktmäßig leistete. Das Ergebnis war, dass Oliver endlich den Hausbewohnern sein Erscheinen in der Welt durch ein lautes Schreien ankündigte.

Als er dieses Lebenszeichen gab, hob eine bleiche, junge Frau den Kopf vom Kissen und flüsterte mit matter Stimme: "Lasst mich das Kind sehen und sterben."

Sem hljóðar svo í frumtextanum:

For a long time after it was ushered into this world of sorrow and trouble, by the parish surgeon, it remained a matter of considerable doubt whether the child would survive to bear any name at all; in which case it is somewhat more than probable that these memoirs would never have appeared; or, if they had, that being comprised within a couple of pages, they would have possessed the inestimable merit of being the most concise and faithful specimen of biography, extant in the literature of any age or country.

Although I am not disposed to maintain that the being born in a workhouse, is in itself the most fortunate and enviable circumstance that can possibly befall a human being, I do mean to say that in this particular instance, it was the best thing for Oliver Twist that could by possibility have occurred.  The fact is, that there was considerable difficulty in inducing Oliver to take upon himself the office of respiration,--a troublesome practice, but one which custom has rendered necessary to our easy existence; and for some time he lay gasping on a little flock mattress, rather unequally poised between this world and the next: the balance being decidedly in favour of the latter.  Now, if, during this brief period, Oliver had been surrounded by careful grandmothers, anxious aunts, experienced nurses, and doctors of profound wisdom, he would most inevitably and indubitably have been killed in no time.  There being nobody by, however, but a pauper old woman, who was rendered rather misty by an unwonted allowance of beer; and a parish surgeon who did such matters by contract; Oliver and Nature fought out the point between them.  The result was, that, after a few struggles, Oliver breathed, sneezed, and proceeded to advertise to the inmates of the workhouse the fact of a new burden having been imposed  upon the parish, by setting up as loud a cry as could reasonably have been expected from a male infant who had not been possessed of that very useful appendage, a voice, for a much longer space of time than three minutes and a quarter.

As Oliver gave this first proof of the free and proper action of his lungs, the patchwork coverlet which was carelessly flung over the iron bedstead, rustled; the pale face of a young woman was raised feebly from the pillow; and a faint voice imperfectly articulated the words, 'Let me see the child, and die.'

Snilldin er augljós í texta Dickens, til að mynda: "The fact is, that there was considerable difficulty in inducing Oliver to take upon himself the office of respiration,--a troublesome practice, but one which custom has rendered necessary to our easy existence" og "Now, if, during this brief period, Oliver had been surrounded by careful grandmothers, anxious aunts, experienced nurses, and doctors of profound wisdom, he would most inevitably and indubitably have been killed in no time."

Allt þetta er numið á brott til að auðvelda ungmennum að lesa söguna. Geri ekki athugasemd við það í sjálfu sér, en bendi mönnum á að lesa endilega frumútgáfur Dickens, en ekki íslenskar þýðingar (Nicholas Nickleby fær enn harkalegri meðferð, en það er önnur saga).


Pamuk fær Nóbelinn

Orhan PamukÉg er ekki hissa á því að Orhan Pamuk hafi fengið Nóbelinn - af þeim sem nefndir höfðu verið í þessu sambandi bar hann af að mínu viti og þá ekki bara sem rithöfundur, heldur líka sem samviska þjóðar sinnar. Nóbelsverðlaunanefndin sænska hefur jafnan verið veik fyrir svoleiðis mönnum og það virðist oft vera það sem ræður úrslitum, þ.e. ef nokkrir rithöfundar standa jafnir hvað varðar listfengi og íþrótt skoða menn oft stöðu þeirra í heimalandinu.

Nú hef ég ekki lesið allt sem Pamuk hefur skrifað, en það sem ég hef lesið er framúrskarandi. Hæst ber að mínu mati bækurnar Nýtt líf, (Yeni Hayat / New Life), Ég heiti rauður (Benim Adim Kirmizi / My Name is Red), Snjór (Kar / Snow) og síðan minningabók hans um Istanbul sem ég hef verið að lesa undanfarið (Istanbul - Hatiralar ve Sehir / Istanbul - Memories of a City). (Áhugasömum um Pamuk bendi ég á að í Granta 85 er að finna smásögu, A Religious Conversation, sem er einn af lyklunum að Snjó.)

Ágæt síða um hann hjá Wikipedia.


mbl.is Orhan Pamuk hlýtur bókmenntaverðlaun Nóbels
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tónlist er ómeðvituð talning

Í bréfi sem Gottfried Leibniz skrifaði Christian Goldbach vini sínum 27. apríl 1712 varpaði hann fram þeirri tilgátu að sú sæla sem skapast af því að hlusta á tónlist sé í raun sælan af því að telja óafvitandi - tónlist sé ómeðvituð talning.

Þetta rímar við allar gerðir tónlistar þegar grannt er skoðað, enda felur hún í sér ýmist takt eða taktleysi og ótal tilbrigði við það. Gott dæmi er kajagum-tónlist frá Kóreu sem er með svo torræðum takti að spennan sem felst í að greina takt eða taktleysi gerir að verkum að maður hlustar dolfallinn.

Í nýrri bók, This Is Your Brain on Music, eftir Daniel J. Levitin er þessi tilgáta síðan sönnuð með því að fylgjast með heilastarfsemi fólks sem hlustaði á tónlist. Að sögn Levitins mátti sjá á starfsemi heilahnykils viðkomandi að hann var að fylgjast með taktinum hvort sem hann vissi af því eða ekki og síðan að þar spratt fram ánægjutilfinning við taktbreytingar.

Í ljósi þess að heilahnykillinn gegnir veigamiklu hlutverki í líkamshreyfingu, meðal annars í samhæfingu hreyfinga, kemur varla á óvart að flestir eiga erfitt með að hemja sig undir grípandi takti og standa sig jafnvel að því að slá taktinn sér þvert um geð.

 


Noruwei no mori

Fyrir stuttu kom út á íslensku skáldsagan Norwegian Wood eftir Haruki Murakami og kominn tími til finnst eflaust einhverjum, enda nauðsynleg bók að lesa til að fá sem besta mynd af þessum merkilega rithöfundi, en nítján ár eru síðan bókin kom út í Japan. Bjartur gefur út.

Aftan á íslenskri útgáfu bókarinnar stendur þessi setning: "Þessi áhrifamikla saga skaut Haruki Murakami upp á stjörnuhimin bókmenntanna (og metsölulista heimsins)."

Víst er það rétt að bókin varð metsölubók í Japan, en hitt er della að hún hafi skotið honum á metsölulista heimsins, enda kom hún ekki út utan Japans fyrr en mörgum árum eftir að Murakami sló í gegn sem rithöfundur utan heimalandsins.

Samkvæmt Wikipedia er útgáfuröðin þessi: 

Kaze no uta wo kike / Hear the Wind Sing 1979
1973-nen no pinboru / Pinball 1980
Hitsuji o meguru boken / A Wild Sheep Chase 1982
Sekai no owari to hadoboirudo wandarando / Hard-Boiled Wonderland and the End of the World 1985
Noruwei no mori / Norwegian Wood 1987
Dansu dansu dansu / Dance Dance Dance 1988
Kokkyo no minami, taiyo no nishi / South of the Border, West of the Sun 1992
Nejimaki-dori kuronikuru / The Wind-Up Bird Chronicle 1992-1995
Suputoniku no koibito / Sputnik Sweetheart 1999
Umibe no Kafuka / Kafka on the Shore 2002
Afutadaku / After Dark 2004

Noruwei no mori, sem heitir eftir Bítlalaginu Norwegian Wood (og þó ekki, betur útskýrt síðar í þessu bloggi), var semsé fimmta skáldsaga Murakamis og sú sem gerði hann að stjörnu í heimalandi sínu. Fram að því höfðu bækur hans selst þokkalega, í 50.000-100.000 eintökum hver. Murakami hefur lýst því að vinsældir Noruwei no mori / Norwegian Wood hafi komið sér óþægilega á óvart; hann hafi verið sáttur við að hafa í kringum 100.000 lesendur sem dáðu hann og elskuðu en þegar Norwegian Wood skreið yfir milljón eintaka múrinn hafi honum þótt sem allir hafi farið að hata hann. Í kjölfarið treysti hann sér ekki til að skrifa skáldsögu í nokkur ár, en hann lauk við Dance Dance Dance um það leyti sem Norwegian Wood æðið hófst.

Fyrir ókunnugan er erfitt að gera sér grein fyrir því hvers vegna Norwegian Wood sló svo rækilega í gegn í Japan, en í ljósi þess að það voru víst unglingsstúlkur sem féllu fyrst fyrir bókinni má gera því skóna að það sé hvaða tökum Murakami tekur ást og kynlíf í bókinni. Unglingsstúlkurnar hrifust af bókinni og síðan aðeins eldri stúlkur, svo ungar konur, þá konur á miðjum aldri og svo koll af kolli. Síðan bættust piltar við, þá ungir menn og svo má telja. Í lok árs 1988, ári eftir að bókin kom út, hafði hún selst í hálfri fjórðu milljón eintaka í Japan sem var og er fáheyrt.

Um gervallt Japan var Murakami æði, eða réttara sagt Norwegian Wood æði og ýmis annar varningur kom á markað til að nýta æðið - hægt var að kaupa gríðarstóra veggmyndir af norskum furuskógi, sælgæti sem hét eftir bókinni, geisladiskar og fleira, aukinheldur sem sala á Rubber Soul tók kipp.

Bein þýðing á japönsku heiti bókar Murakamis er skógur í Noregi eða norskur skógur, ekki Norwegian Wood, norskur viður, en alla jafna skildu japanskir Bítlaaðdáendur titil lagsins svo að verið væri að syngja um ástarfund í norskum skógi.

Réttur skilningur á titlinum er þó annar, því hann vísar til svefnherbergisinnréttingar úr furu. Lennon var að syngja um það er hann hélt framhjá Cynthiu Lennon, en vildi þó ekki segja það svo beint að hún myndi skilja það. Hann lýsti því eitt sinn að hann hafi viljað gera grín að stúlkum sem keyptu sér ódýrar furuinnréttingar og kölluðu norskan við, en benti þó á að titillinn Cheap Pine hefði vissulega ekki hljómað eins vel.

I once had a girl, or should I say, she once had me.
She showed me her room, isn't it good, Norwegian wood?
She asked me to stay and she told me to sit anywhere,
So I looked around and I noticed there wasn't a chair.

I sat on a rug, biding my time, drinking her wine.
We talked until two and then she said, "it's time for bed".
She told me she worked in the morning and started to laugh.
I told her I didn't and crawled off to sleep in the bath.

And when i awoke I was alone, this bird had flown.
So I lit a fire, isn't it good, Norwegian wood.

Eins og sjá má segir textinn frá því er sögumaður hittir stúlku og fer með henni heim. Hún sýnir honum þó ekki þá hlýju sem hann hefði helst óskað og á endanum neyðist hann til að sofa í baðkarinu. Hann kemur þó fram hefndum að lokum því hann hann kveikir í viðarinnréttingunni góðu.

Þegar Lennon samdi lagið haustið 1965 var hann undir sterkum áhrifum frá Bob Dylan, gekk með samskonar húfu og Dylan var með á umslagi fyrstu plötu sinnar, Bob Dylan, sem kom út 1962, og var nú farinn að semja lög eins og Dylan sem heyra má af Norwegian Wood. Lennon sagði frá því í viðtali löngu síðar að félagar hans hefðu strítt honum mikið á Dylan-áráttunni, en í Revolution in the Head, því lykilverki Bítlafræða, segir Ian MacDonald frá því að Norwegian Wood sé fyrsta Bítlalagið þar sem texinn er mikilvægari en lagið. Í þeirri bók kemur og fram að þeir félaga hafi baslað talsvert við lagið og tekið það upp í mjög ólíkum. Heyr til að mynda fjórðu tökuna.

Dylan tók víst stælingunni með jafnaðargeði og svaraði fyrir sig með góðlátlegri stælingu á Norwegian Wood, laginu 4th Time Around sem er á meistarastykki hans Blonde on Blonde (kom út 1966). Ekki er bara að hann er greinilega að snúa útúr textanum heldur snýr hann líka útúr laglínunni.

Eins og getið er fjallar texti Lennons um stúlku sem dregur sögumann með sér heim en sýnir honum síðan fálæti en í 4th Time Around segir frá manni sem á stormasöm samskipti við vændiskonu, ekki síst eftir að hann reyndir að borga henni fyrir greiðann með tyggjói:

I stood there and hummed,
I tapped on her drum and asked her how come.
And she buttoned her boot,
And straightened her suit,
Then she said, dont get cute.
So I forced my hands in my pockets
And felt with my thumbs,
And gallantly handed her
My very last piece of gum.

Þeim viðskiptum lýkur með því að hún fær flog og fellur að fótum honum:

She screamed till her face got so red
Then she fell on the floor,
And I covered her up and then
Thought Id go look through her drawer.

Dylan fór ekkert leynt með að hann hefði verið að stæla Norwegian Wood og staðfesti það í viðtölum. Hann kunni víst vel að meta Lennon, en fannst lítið til Pauls McCartneys koma og finnst víst enn.

Eins og fram kemur í upptalningunni sem ég fann á Wikipedia kom Norwegian Wood út í Japan 1987. Hún var síðan gefin út á ensku í Kodansha English Library 1989, en þá aðeins til sölu í Japan. Þar keypti íslenskur vinur minn hana fyrir mig um miðjan tíunda árautuginn og reyndar líka Hear the Wind Sing og Pinball, 1973, fyrstu og aðra bókina í Rottu þríleiknum (sú þriðja er Wild Sheep Chase), en þær bækur vill Murakami víst ekki gefa út á Vesturlöndum. Það er því ljóst að Murakami var orðinn stjarna áður en Norwegian Wood kom út.


Umbúðir og innihald

Innihald bóka skiptir öllu, umbúðirnar eru bara til að auðvelda okkur að komast á bak við textann, að nálgast hugmyndaheiminn sem býr í hverri skáldsögu. þrátt fyrir það stendur maður sig að því að rétta ósjálfrátt höndina eftir bók með vel hannaða aðlaðandi kápu hvort sem það er vegna þess að hún er stílhrein og einföld eða skemmtilega snúin í fjölbreytileika sínum. Bókakápan er því mikilvæg og mér er sagt að dæmi séu um að kostnaður við gerð bókarkápu hafi verið nærfellt fjórðungur heildarkostnaðar við gerð hennar.

Sagan segir að Allen Lane hafi verið staddur á járnbrautarstöð 1934 og ekki fundið neitt að lesa af viti. Þá flaug honum í hug að gefa út almennilegar bækur, bókmenntir, í ódýrum kiljum sem seldar væru í sjálfsölum um allt Bretland. Þetta tókst bráðvel og hafði gríðarleg áhrif á bókaútgáfu eins og flestir þekkja eflaust. Eitt af því sem Allen lagði mikla áherslu á var að útlit bókanna átti að vera staðlað en mismunandi á litinn eftir því um hvað hver bók var - appelsínugult var fyrir skáldsögur, grænt fyrir spennusögur, blátt fyrir ævisögur, rautt fyrir leikrit og bleikt fyrir ferðabækur. Hann var mjög á móti kápumyndum enda var einfalt og skýrt útlit smám saman gríðarsterkt vörumerki. Með tímanum tóku þó að birtast litlar myndir á miðjum kápunum og smám saman lögðu þær framhliðina undir sig þó litaþema sé enn notað að nokkru leyti.

Þegar kápumyndir tóku að birtast á Penguin-bókum voru þær oft stílfærðar eftir einhverju í sögunni, eða eftir inntaki sögunnar, einskonar vísbending fyrir væntanlegan lesanda. Ekki voru allir útgefendur eins vandi að virðingu sinni og í mörgum tilfellum var kápan tálbeita - á henni kannski mynd af fagurri stúlku, jafnvel í klóm óþokka, en innihaldið var kannski allt annað. Þetta er nokkuð sem maður kynntist vel sem áhugamaður um vísindaskáldskap um 1970 - kápurnar á þeim bókum voru hver annarri svakalegri og alsiða að þær væru í engu samræmi við innihaldið. Þetta þóttu og ekki par fínar bókmenntir á þeim tíma, og þykja eiginlega ekki enn, og markhópurinn ekki hátt skrifaður heldur, ungir menn sem hugsuðu eiginlega ekki um annað en kynlíf og því vel móttækilegir fyrir myndum af fáklæddum konum og krassandi kynlífslýsingum (á þess tíma mælikvarða) þó alla jafna væri ekkert kynlíf að finna í bókunum sjálfum.

Um það leyti sem ég byrja að lesa vísindaskáldskap, 1966 eða 67, var gullöld vísindaskáldsagnanna liðin, eða í það minnsta gullöld vísindaskáldsagnakápumynda. Þrátt fyrir það komst ég yfir mikið magn af bókum með svo krassandi kápum hjá honum Sigurði á Laufásveginum og síðar hjá Ingvari. Með tímanum breyttust síðan kápurnar, urðu hófstilltari í takt við það að vísindaskáldskapur varð virðulegri, eða reyndi að virðast virðulegri - ég man eftir því þegar menn börðust fyrir því að hætt yrði að tala um vísindaskáldskap, SF ætti ekki lengur að vera skammstöfun á Science Fiction, heldur Spectulative Fiction - óttalega hallærisleg pæling.

Flestum SF-bókanna, einhverjum hundruðum, fargaði ég fyrir mörgum árum, og sé ekkert á eftir þeim, en sumar urðu þó eftir, jafnvel í mörgum eintökum eins og ég komst að við tiltekt um daginn. Þar rakst ég til að mynda á þrjú eintök af The Sirens of Titan eftir Kurt gamla Vonnegut. Kápurnar á þeim eintökum eru einmitt skemmtileg vísending um hvernig álit manna á Vonnegut hefur breyst í gegnum tíðina.

Fyrst er að telja útgáfu Dell frá 1959, frumútgáfu bókarinnar. Hún er lítil um sig, eins og Dell bækur voru gjarnan á þeim tíma, komust betur í vasa: 10,7x16, 319 síður. Eins og sjá má er hér verið að höfða til lægstu hvata og ýmislegt bendir til þess að kápuhönnuður hafi ekki lesið bókina. Á baksíðu hennar stendur líka þessi óborganlegi texti:

The Time: Somewere in the Near Future.
The Place: Beyond the Limits of Space.

Where the beauty of woman is without compare ... but man is without a memory of woman's delights ...

Where nothing is forbidden ... but thinking is an unforgivable sin ...

Where life is "perfect" ... but resistance to its "perfection" means death ...

 

 

 

 

Útgáfa númer tvö, sem ég man reyndar ekki eftir að hafa keypt, en á þó samt, er bresk útgáfa, gefin út af Corgi 1964. Stærðin er klassísk Penguin-stærð, 11x17,7, 222 síður. Kápan er ekki eins eggjandi og á frumútgáfunni, en óneitanlega nokkuð fríkuð samt. textinn á forsíðunni er líka magnaður ("Mankind in the nightmare age"). Á bakhliðinni er vitnað í ýmsar umsagnir, meðal annars í Books and Bookmen, Punch og ónefndan gagnrýnanda BBC og svo rithöfundana Brian Aldiss og Elizabeth Jane Howard.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Svo er það þriðja útgáfan sem birtist í safninu óforvarandis fyrir nokkrum árum. Hún er frá Dell, gefin út 1998. Eins og sjá má á kápunni hefur vegur Vonneguts heldur vaxið sem sést meðal annars á stærðinni, 13,5x20,3, 336 síður. Ekki er hægt að kalla bók í þeirri stærð vasabrotsbók, enda er hér verið að stilla Vonnegut upp við hlið veigameiri höfunda og um leið að færa hann í nútímalegri búning. Stílhrein hönnunin er líka til þess fallin að undirstrika að hér sé alvöru bókmenntaverk, en undir samheitinu The Dial Press komu út allar bækur Vonneguts áþekkar útlits.

 

 

 

 

 

 

 

 

Þegar ég var að pára þetta (ef svo má segja) leitaði ég að fleiri kápum af þessari ágætu bókar Vonneguts og rakst þá á eina sem ég átti einhvertímann. Stílinn á henni finnst mér vera frá áttunda áratugnum og ýmislegt sem bendir til þess að listamaðurinn hafi ekki lesið bókina. Hann hefur þó dísirnar þrjár, enda hnoðaði Salo, vélmennið frá Tralfamador, þrjár styttur af fögrum konum út títönskum mó. Hugsanlega er Salo maðurinn með lendarskýluna, enda fellur sú mynd illa að Malachi Constant eða Winston Niles Rumfoord að mínu mati.


Rottur!

Skemmtilegur pistill eftir Þormóð Dagsson í Morgunblaðinu í dag um þá merku menningarstarfsemi sem stunduð var í Siglufjarðarprentsmiðju á níunda áratugnum (Hasarblöðin frá Siglufirði). Þar var gefin út íslensk útgáfa hasarblaða, aðallega frá Marvel og DC Comics, meðal annars blöð um Tarsan og Korak son hans, Gög & Gokke, Superman, Hulk, Batman, Kóngulóarmanninn og Tomma & Jenna.

Eitt það skemmtilegasta við blöðin voru þýðingarnar sem voru oft frábærlega klaufalegar. Segir sitt að Superman var íslenskaður með því að skeyta n-i við titil blaðsins sem hét eftir það Supermann - merkilegur andskoti að láta hasarblað heita eftir heiti söguhetjunnar í þolfalli!

Eins var gaman að lesa (og nota upp frá því) upphrópanir eins og "úh-oh", "rottur!" og "ó, bróðir", sem Þormóður nefnir í grein sinni, og svo voru það setningar sem voru svo klunnalega þýddar að maður gleymir þeim ekki. Gott dæmi er eftirfarandi setning sem hraut af vörum Koraks í einu blaðinu: "Tennur mínar hlaupa í vatni."


Friðarsinni og mannvinur

Lauk í vikunni við A Man Without a Country, hugleiðingar Kurts Vonnegut um að hvernig sé að lifa undir stjórn George Bush og kóna hans. Bókin sú er um margt skemmtileg, kannski ekki ýkja veigamikil, en mjög í anda Vonneguts, húmorísk og meinhæðin í bland við barnaskap og yfirborðskenndara snakk. Þannig eru bækur hans, og kannski það sem gerir þær einna skemmtilegastar, hvernig hann blandar saman alvöru og barnslegri einlægni, djúpri hugsun og sakleysislegu hjali.

Vonnegut er í nöp við Bush, sem kemur víða fram í bókinni, en hann er þó aðallega að beina sjónum sínum að mannkyninu, hvernig mannkynið allt sé meira og minna á leið til helvítis. Ekki frumleg hugsun hjá gömlum manni, en hann færir þó einhver rök fyrir mati sínu, aukinheldur sem þeirri skoðun skýtur upp hjá honum, og hefur heyrst oft áður, að kárínur þær sem dunið hafa á jarðarbúum undanfarin ár séu til marks um að jörðin sé að gera sig líklega til að hreinsa sig af óværunni: "Þegar síðasta lífveran / hefur gefið upp öndina af okkar völdum / hversu ljóðrænt það þá yrði / ef Jörðin gæti sagt / í rödd sem bærist upp / kannski / frá botni / Miklagils / "það er gert". / Fólki líkaði ekki veran."

Kurt Vonnegut var meðal stríðsfanga í Dresden þegar fræg loftárás var gerð á borgina í seinni heimsstyrjöldinni og sú árás varð vendipuktur í ævi hans eins og sjá má í bókum hans, mótaði lífsskoðun hans og gerði að einlægum friðarsinna. Segir sitt um áhrif árásarinnar að í A Man Without a Country skuli hann enn vitna í árásina og afleiðingar hennar. Hann er og við sama heygarðshornið og í Slaughterhouse 5, sinni fyrstu og helstu bók, er hann heldur fram að loftárás bandamanna á Dresden hafi verið "mestu fjöldamorð í sögu Evrópu" eins og hann orðar það og heldur svo áfram: "Ég veit vitanlega um Auschwitz, en fjöldamorð er eitthvað sem gerist skyndilega, dráp á fjölda fólks á mjög skömmum tíma. Í Dresden, 13. febrúar 1945, fórust um 135.000 manns á einni nóttu í eldsprengjuárás Breta."

Þessi setning rímar vel við það sem breski rithöfundurinn David Irving hélt fram í bók sinni Apocalypse 1945: The Destruction of Dresden. (Sjá hér.) Helstu heimildir Irvings eru síðan frá áróðursteymi Göbbels sem ýkti íbúatölur og tölur yfir fjölda fallinna, en stjórnvöld í Austur-Þýskalandi beittu álíka áróðri frá 1950 og héldu því fram að árásin hefði verið að undirlagi Bandaríkjamanna. Nýnasistar hafa svo nýtt þessar staðleysur og bent á árásina á Dresden sem sönnun þess að þó nasistar hafi verið vondir þá hafi það bara verið vegna vonsku bandamanna - þýska þjóðin hafi verið að berjast fyrir lífi sínu.

Í bókinni Dresden: Tuesday 13 February 1945 eftir breska sagnfræðinginn Frederick Taylor kemur fram að þó margir hafi farist í loftárásinni á Dresden-árásinni þá bendi gögn til þess að þeir hafi verið mun færri, um 25.000 - mikið, mjög mikið reyndar en þó mun færri en Vonnegut og Irving hafa haldið fram og talsvert færri en létust í einni árás á Hamborg 27. júlí 1943 (árásin sú var kölluð "Gomorra áætlunin"). Sjá viðtal við Taylor á vef Der Spiegel og eins góða grein um loftárásirnar á Dresden á vef Wikipedia.

Í ljósi hryllingsins sem loftárásir á óbreytta borgara eru skiptir engu hvort 25.000 manns fórust eða 135.000 og það er að vissu leyti ógeðfellt að menn séu að metast um annað eins, þ.e. hvorir drápu fleiri. Mér finnst þó ólíklegt að friðarsinninn og mannvinurinn (þrátt fyrir allt) Kurt Vonnegut kunni að meta það að óþjóðalýður og nasistapakk skuli nýta orð hans til að kalla til sín fleiri fylgismenn.


Hver er bestur?

Fyrir mánuði birtist í New York Times listi yfir bestu skáldsögu bandarísks höfundar síðasta aldarfjórðunginn. Fjallað var um listann í Lesbók Morgunblaðsins, og því ekki ástæða til að tíunda hann hér, menn geta flett honum upp. Sitthvað þótti mér þó merkilegt við listann þann, meðal annars það hvað höfundahópurinn var einsleitur, valið fyrirsjáanlegt og niðurstaðan óspennandi (nema kannski fyrsta sætið). Einnig hvað fáar konur eru á honum og hvað hver bók fékk fá atkvæði, en á annað hundrað manns tók þátt í valinu. Það er svo aftur umhugsunarefni út af fyrir sig hvort yfirleitt sé hægt að flokka bækur eftir "gæðum" á þennan hátt, enda byggist allt mat á tilfinningum þegar grannt er skoðað og á bak við hvert atkvæði ýmsar flækjur sem okkur er ókunnugt um.

Að því sögðu er ekki ástæða til að amast við slíku vali, það ýtir undir umræðu um bókmenntir, vekur oft athygli á bókum sem farið hafa framhjá mönnun og þegar vel tekst til getur slík atkvæðagreiðsla gefið yfirlit yfir menningarsögu og jafnvel leitt í ljós strauma sem menn ekki áttuðu sig á - strauma í menningarumfjöllun, ef ekki annað.

Á netinu hafa ýmsir fjallað um þennan lista New York Times og sýnist sitt hverjum þó ekki sé hægt að segja að hann hafi beinlínis valdið deilum. Þetta uppátæki hefur líka orðið ýmsum tilefni til að gera eins, þ.e. að gera álíka könnun á viðhorfi lesenda sinna. Bloggarinn mapletree7 (mapletree7.blogspot.com) hrinti til að mynda af stað eigin atkvæðagreiðslu um bestu bandarísku bók síðustu 25 ára og fékk út nokkuð aðra niðurstöðu: Besta verkið töldu menn vera New York þríleik Pauls Austers. Þar næst komu Peace Like a River eftir Lief Enger, A Prayer for Owen Meany eftir John Irving, Empire Falls eftir Richard Russo, The Amazing Adventures of Kavalier and Klay eftir Michael Chabon og Gilead eftir Marilynne Robinson.

Þeir sem þátt tóku í vali á New York Times listanum voru upp til hópa menningarvitar, en á mapletree7 voru það almennir vefnotendur, að því er við best vitum, sem skýrir niðurstöðuna að einhverju leyti. Valið á mapletree7.blogspot.com fellur mér reyndar meira að skapi en á New York Times - mér finnst til að mynda Paul Auster vel að heiðrinum kominn, þó hann sé höfundur sem er betri á meðan maður er að lesa hann en þegar maður er búinn með bókina. Empire Falls eftir Russo og The Amazing Adventures of Kavalier and Klay eftir Chabon er líka báðar skemmtilegar, sérstaklega sú síðarnefnda, og átt vel heima á listanum þykir mér. Ekki finnst mér þó John Irving skemmtilegur höfundur.

Ýmsir vefir halda líka úti árlegum bókmenntaverðlaunum, fá lesendur sína til að velja þær bækur frá liðnu ári sem þeir hafa mest dálæti á. Þannig fékk BookBrowse.com lesendur sína til að taka þátt í vali á bókum ársins 2006, en í valinu komu til greina þær bækur sem mælt var með á BookBrowse-vefnum á árinu. Svosem ágæt leið til að þrengja valið, enda erfitt við að eiga að velja bestu bók þegar gefnir eru út ríflega 100.000 titlar á ári vestan hafs.

Slík verðlaun gefa einna besta mynd af því hvað fólk sé að lesa (en val eins og New York Times stóð fyrir skilar yfirliti yfir það sem fólki finnst það ætti að vera að lesa) og kemur kannski ekki á óvart að ofarlega á blaði er oft sitthvað sem menn telja yfirleitt ekki til fagurbókmennta. Bók ársins var til að mynda glæpasagan The Closers eftir Michael Connelly, reyndar eitt af hans bestu verkum. Vinsælasta frumraunin var valin The Penderwicks eftir Jeanne Birdsall og bók Joan Didion The Year of Magical Thinking fék einnig verðlaun. Um 1.000 áskrifendur að BookBrowse tóku þátt í kosningunni og greiddu atkvæði eftir gæðaskala (frábær, mjög góð, í meðallagi o.s.frv.).


Höfundurinn verður sögupersóna

Það er ekki alltaf til góðs að vita eitthvað um uppáhaldshöfund og margir muna eflaust eftir því er þeir komust að því að skáldið sem þeir héldu mikið uppá, dáðust jafnvel að fyrir mannúð og djúpan skilning, var bölvaður hórkarl og fylliraftur. Ég man það enn, til að mynda, er ég áttaði mig á því að T.S. Eliot, sem ég las mér til óbóta um það leyti sem ég fór á sjóinn sem unglingur, var uppskrúfað snobbhænsn. (Hafði þó húmor fyrir sjálfum sér, sbr. "How unpleasant to meet Mr. Eliot! / With his features of clerical cut, / And his brow so grim / And his mouth so prim" o.s.frv., sem Eliot samdi til að votta Edward Lear virðingu. Hann var nefnilega ekki alvondur.)

Oft er það því vissulega kostur að vita ekkert um höfund bókar eða ljóðs og oftast allra best að vita ekkert um viðkomandi, þekkja ekki nafnið eða upprunann, að mæta textanum í tóminu .. og þó. Gefur það manni ekki meir og betri sýn á verk rithöfundar eins og Charles Dickens að vita hvurslags hamhleypa hann var til verka, maður sem lifði af svo miklum þrótti að maður verður eiginlega hálf dasaður að lesa um hann. Hjálpar það ekki manni að skilja Georges Perec, furðufuglinn þann, þegar maður veit af dálæti hans á Raymond Queneau og þekkir til starfs OuLiPo-hópsins? Vex ekki Danzig-þríleikurinn hans Grass (reyndar orðinn kvartett í dag) eftir því sem maður fær betri sýn í æsku hans og uppvaxtarár?

Það getur því verið gott og gagnlegt að fræðast um höfunda, sérstaklega ef maður kemst ekki á snoðir um of marga galla á þeim. Reyndar mega þeir vera gallaðir (og eru það allir, meira og minna), en þá helst á skemmtilegan og skrýtinn hátt. Frásagnir af slíkur eru vitanlega ekkert annað en slúður og í sjálfu sér ekkert betra að slúðra um rithöfunda, lífs og liðna, en það flóð sem er af slúðri um þotulið nútímans. Það getur þó verið skemmtilegt, en og til að mynda í bókinni Written Lives eftir spænska rithöfundinn Javier Marías, sem segir frá nokkrum rithöfundum sem Marías hefur dálæti á. Í inngangi að bókinni, sem Canongate gaf út á ensku um miðjan febrúar sl., lýsir Marías tilurð bókarinnar og nefnir meðal annars að hann hafi einsett sér að skrifa stutta frásögn af ævi nokkurra höfunda sem hann valdi af handahófi með það eitt að skilyrði að þeir væru látnir.

Javier MaríasMarías hefur þó greinilega lagt einhverjar aðrar mælistikur á þá höfunda sem hann valdi, því velflestir hafa þeir átt frekar óskemmtilega eða ömurlega ævi og einnig hefur Marías verið ótrúlega naskur á að finna höfunda sem létu ekki nægja að vera furðufuglar á meðan þeir lifðu heldur létust þeir öðruvísi en annað fólk. Hugsanleg skýring á því er þó að hann hafi einfaldlega fært frásagnir af höfundunum í stílinn, enda segir hann frá því í innganginum að hann hafi farið með efniviðinn eins og hann væri að segja frá skáldsagnapersónum sem er óneitanlega skemmtilega til fundið - höfundurinn verður sögupersóna.

Í bókinni segir hann til að mynda frá Rimbaud, Turgenev, Rilke, di Lampedusa, Robert Louis Stevenson, Isak Dinesen, Arthur Conan Doyle, Rudyard Kipling, Joseph Conrad, James Joyce, Thomas Mann, Yukio Mishima, Malcolm Lowry og Laurence Sterne, svo dæmi séu tekin, en alls rekur hann stuttlega æviatriði tuttugu sex rithöfunda, tuttugu karla og sex kvenna. Í lokahluta bókarinnar sýnir Marías svo dæmi úr póstkortasafni sínu, en hann safnar, að því er virðist, póstkortum með myndum af rithöfundum.

Marías fer fimlega með, skreytir og ýkir og býr jafnvel til aukapersónur og uppákomur. Í bókinni segir hann frá því að Henry James var í nöp við Flaubert vegna þess að hann tók á móti honum í slopp er James heimsótti hann eitt sinn og eins hataði hann Oscar Wilde eftir að Wilde gerði lítið úr honum fyrir að sakna Lundúna. Hann hélt aftur á móti mikið upp á Maupassant, enda tók sá síðarnefndi eitt sinn á móti James í hádegismat með nakta grímuklædda konu sem sessunaut.

Annar höfundur sem Marías segir skemmtilega frá er William Faulkner, en Faulkner hafði þvílíka óbeit á pósti að hann opnaði ekki bréf eða pakka nema að væri frá útgefenda hans og þá kíkti hann aðeins í það til að kanna hvort í bréfinu leyndist ávísun.

John AubreyVið lestur bókarinnar rifjuðust upp fyrir mér nokkrar álíka bækur, til að mynda Portraits in Miniature eftir Lytton Strachey, en helst þó hið mikla mannlýsingasafn Johns Aubreys, en Aubrey var uppi 1626-1697. Úrval úr mannlýsingum hans kom út á vegum Penguin 1962 og endurprentað oft síðan. Í þeirri bók, sem kallast Aubrey's Brief Lives, er að finna um þriðjung af mannlýsingum Aubreys, gott æviágrip og fínar skýringar.

Mannlýsingar Aubreys eru óborganlegar og margar mjög opinskáar, enda fæstar ætlaðar til birtingar. Víst eru frásagnir hans hreint slúður, oft upplýsingar frá þriðju eða fjórðu hendi, en hann var skemmtilegur stílisti og laus við alla tilgerð eða tepruskap. Af skemmtilegum lýsingum má nefna það er hann segir frá Will Shakespeare, sem faðir hans var slátrari: "Nágranna hans segja að sem ungur maður hafi hann unnið við fag föður síns, en þegar hann slátraði kálfi gerði hann það með tilþrifum og ræðuhöldum."

Eins er skemmtilegt það sem Aubrey segir frá Thomas Hobbes: "Hann varð mjög sköllóttur sem gamall maður (sem veitti honum virðuleikablæ), en innan dyra sat hann jafnan berhöfðaður við fræðastörf og sagðist aldrei verða kalt á höfðinu, en mikill vandi væri þó að koma í veg fyrir að flugur settust á skallann."


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 117723

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband