Færsluflokkur: Bækur
Miðvikudagur, 23. janúar 2008
Nautgriparán í Ulster
Meðal merkustu sagna Íra er þær sem segja frá hetjunni Cú Chulainn, þar helst Táin Bó Cúailnge sem kom út hjá Penguin í nýrri og einkar skemmtilegri þýðingu Ciarans Carsons sl. haust.
Táin Bó Cúailnge hafa menn ýmist snarað sem kúarekstur Coooleys eða Cooley nautgriparánið en Ciaran Carson leiðir rök að því að eins mætti snara heitinu sem sagnabálkur á skinni. Heiti bókatinnar var lengsat Táin, en í frægri útgáfu á verkinu í þýðingu Thomas Kinsella frá 1969 skeytti Kinsella ákveðnum greini framan við og sá siður hefur verið haldinn upp frá því. Myndir í þeirri bók teiknaði Louis de Brocquy og ein af myndum hans, sem fengin er að láni hjá Wikipedia, skreytir þessa færslu.
Textinn að Táin Bó Cúailnge sem almennt er stuðst við er settur saman úr tveimur textabrotum sem hafa varðveist. Textinn er ekki samfelldur, eins og sjá má á þýðingunum sem út hafa komið, enda telja menn að upprunalegt verk sé nokkuð eldra og þau brot sem til eru séu sett saman úr ýmsum afbrigðum, sumum jafnvel frá áttundu öld sem hafi því lifað í munnlegri geymd í einhver hundruð ára.
Táin segir frá því er þau eiga tal saman Medb drottning og Ailill konungur Connacht á Vestur-Írlandi. Þau eru að metast um auðævi sín (hún segist meðal annars hafa svo marga menn undir vopnum (þrjú þúsund hermenn hafði hún og fyrir hvern þeirra hafði hún tíu til og fyrir hvern þeirra níu til o.s.frv.) að nam 40.478.703.000 manns, en það voru væntanlega ýkjur). Eftir meting þeirra á milli kemur í ljós að það eina sem Ailill hefur fram fyrir Medb er geysi frjósamt risavaxið naut, Finnbhennach, sem fæddist reyndar í nautgripahjörð hennar en kærði sig ekki um að vera í eigu konu og kom sér því yfir í hjarðir Ailills. Medb finnst þetta ótækt og ákveður að komast yfir nautið mikla Donn Cuailnge frá Cooley með góðu eða illu.
Ekki tekst það með góðu og hún safnar því her manna og heldur til Ulster, sem er í dag Norður-Írland, að sækja nautið. Það vill svo til að allir karlar í Ulster eru ófærir um að berjast vegna bölvunar sem lögð var á þá löngu áður. (Crunniuc mac Agnomain óðalsbóndi í Ulster þvingaði Mache konu sína til að þreyja kapp við hesta konungs þó hún væri komin á steypirinn. Hún rann skeiðið nauðug en átti tvíbura á síðustu metrunum og orgaði þá að allir sem heyrðu hróp hennar myndu þjást af fæðingahríðum þegar verst stæði á í fimm daga og fjórar nætur. Svo var í níu ættliði.)
Einn Ulstermaður er undanskilin álögunum, hetjan Cú Chulainn (stundum ritað Cúchulainn), sautján ára gamall, og hann tekur að sér að tefja fyrir hernum með hreystiverkum og klækjum á meðan landar hans eru ófærir um að verja land sitt. Fyrir vikið er stór hluti Táin frásögn af hetjudáðum hans og þar er af nógu að taka því hann bíta engin vopn og hver Connacht-kappinn af öðrum fellur í bardaga við Cú Chulainn. Þar hjálpar vitanlega til að heiður krefst þess að ekki fari nema ein maður gegn honum í einu.
Á endanum kemst Medb yfir nautið Donn Cuailnge og flytur það með sér til Connacht en Finnbhennach kann því illa og ræðst þegar til atlögu við Donn Cuailnge. Síðarnefnda nautið hefur betur í orrahríðinni og drepur Finnbhennach, en svo er af því dregið að það gefur líka upp öndina. Í kjölfarið semja þau frið Medb og Ulstermenn.
Til eru fjórar þýðingar af Táin, en einnig hafa menn sótt innblástur í söguna og skrifað upp úr henni skáldsögur og samið tónlist; sjá til að mynda Táin með þeirri ágætu hljómsveit Horslips og kom út 1973 og samnefnda EP plötu The Decemberists sem kom út þrjátíu árum síðar.
Hluti af texta Táin er fenginn úr Leinster-bókinni sem skrásett var í Leinster-klaustri. Sá sem skráði hefur viljað hafa vaðið fyrir neðan sig því þó bókin sé skráð á fornírsku bætir hann við smá texta á latínu síðast:
En ég, sem ritað hef þessa frásögn eða réttara sagt ævintýrasögu, legg engan trúnað á þau atvik sem í henni er lýst. Því sumt í henni er klækir djöfla, annað skáldskaparórar, sumt líklegt en annað ólíklegt og enn annað er ætlað kjánum.
* "Íslenskar bækur skýra frá því, að hér á landi hafi snemma dvalist vestrænir menn og skilið eftir sig krossa, klukkur og aðra þvílíka gripi, sem notaðir eru til galdurs. Í latneskum heimildum eru þeir menn nafngreindir sem siglt hafi hingað af vestrænum löndum á öndverðum dögum páfadómsins. Hét þeirra fyrirliði Kólumkilli hinn írski, særíngamaður mikill. Í þá daga voru hér landgæði með afbrigðum á Íslandi. En þá er norrænir menn settust hér að, flýðu hinir vestrænu galdursmenn landið, og telja fornrit að Kólumkilli hafi í hefndarskyni lagt á þjóð þá hina nýu að hún skyldi í þessu landi aldrei þrífast, og fleira í þeim anda, sem síðar hefur mjög þótt gánga eftir. Laungu síðar snerust norrænir menn á Íslandi frá réttum sið og hneigðust að töfrum óskyldra þjóðflokka. Var þá öllu snúið öfugt á Íslandi, guðir norrænna manna hafðir að spotti, en nýir uppteknir og dýrlíngar, sumir af Austurlöndum, aðrir af Vesturlöndum. Segir sagan að þá hafi Kólumkilla verið reist kirkja í þeim dal er síðar stóð bærinn Albogastaðir í Heiði."
(Sjálfstætt fólk e. Halldór Laxness, Helgafell 1934.)
Bækur | Breytt s.d. kl. 00:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 22. janúar 2008
Glæponagróska á Ítalíu
Það er góð brella hjá glæpasagnahöfundi að láta bækur sínar gerast í spennandi og helst óvenjulegu umhverfi. Það búum við Íslendingar svo vel að eiga land, borgir og bæi sem fáir þekkja, en útlendir höfundar beita öðrum brögðum, eins og til að mynda að láta söguna gerast annars staðar, í öðru landi, sem hægt er að gæða dulúð, tja, eins og til að mynda Ítalíu. Ekki gerir það eftirleikinn erfiðari að fá bókmenntaminni eru kunnuglegri en ítalskir glæponar.
Ítalskir glæpasagnahöfundar eru legíó, nema hvað, og sumir býsna bókmenntalegir. Þannig sló Umberto Eco í gegn með glæpasögu, ekki satt?, og eins hefur sá mæti rithöfundur Antonio Tabucchi skrifað glæpasögur og eins Leonardo Sciascia og Andrea Camilleri, sem skrifar um Montalbano lögregluforingja, og Massimo Carlotto, nýstirnið á þessu sviði. Svo eru fjölmargir höfundar frá öðrum löndum sem skrifa bækur um ítalska spæjara og lögregluforingja, til að mynda Donna Leon sem segir frá ævintýrum feneyska lögregluforingjans Guidos Brunettis, en hún er bandarísk, Magdalen Nabb, sem var ensk kona sem fluttist í Flórens og skrifaði glæpasögur sem gerast í þeirri borg og svo Michael Dibdin, sem skrifaði bækur um lögregluforingjann sérlundaða Aurelio Zen, en Dibdin lést skyndilega fyrir tæpu ári og síðasta bókin um Zen kom út fyrir stuttu.
Fyrsta bókin um Zen kom út 1988 og vakti þegar hrifningu, enda er hann persóna sem flestir falla yfir, lævís og þrjóskur, strangheiðarlegur en beitir brögðum þegar við á og með óhemju sterka réttlætiskennd, sem hann lætur þó ekki alltaf þvælast fyrir. Alls urðu bækurnar ellefu þar sem Zen kemur við sögu og Dibdin var einmitt rétt búinn að koma elleftu bókinni til útgefanda þegar hann lést eftir stutt en snörp veikindi.
Bækurnar um Zen eru frábrugðnar flestum glæpasögum um ítalska lögregluforingja (eða einkaspæjara) í því að þær gerast eiginlega um alla Ítalíu. Sögusvið fyrstu bókarinnar er Perugia, þar sem Dibdin bjó um tíma, en svo fer Zen um víðan völl, til Feneyja, Bologna og Rómar og lendir meira að segja á Íslandi í einni bókinni, þó atburðarásin það sé óneitanlega nokkuð sérkennileg í augum íslenskra lesenda.
Í síðustu bókunum er Zen aftur á móti staddur á Sikiley, nóg af glæpahyski þar, og meira að segja mátti skilja eina söguna, Blood Rain, sem kom út 1999, svo að mafíósar hefðu myrt lögregluforingjann sem var þeim svo mikill þyrnir í auga. Annað kom þó á daginn, því Zen sneri aftur þrem árum síðar og er sprelllifandi í síðustu bókinni, End Games.
Bækur Dibdins og annarra höfunda sem getið er hér að ofan eru að mörgu leyti eins og ferðabækur, margar lýsa mannlífi og menningu, byggingum og landslagi og matargerðarlist af svo mikilli rómantík að lesendur dauðlangar til að fara á staðinn, ganga sömu götur og Brunetti lögregluforingi eða sitja á veitingahúsi í breiskjuhita hádegisins og borða sikileyskan bændamat, einfaldan og bragðmikinn. Það umhverfi sem Dibdin lýsir er þó ekki alltaf kræsilegt; í bókum sínum lýsir hann skuggahliðum ítalsks samfélags, spillingar og siðblindu sem grasseraði í skjóli kristilegra demókrata og grasserar enn. Kannski ekki svo spennandi áfangastaður þegar grannt er skoðað.
(Hluti af þessari færslu birtist í Morgunblaðinu 23. janúar.)
Bækur | Breytt s.d. kl. 20:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 14. janúar 2008
Hvert fóru allir?
Bókin er ekki bara fróðleg fyrir vangavelturnar um það hvernig heiminum reiði af án okkar, heldur eru í honum líka fjölmargar skemmtilegar staðreyndir um heiminn eins og hann er, sumt sem verður til þess að mann langar að heyra meira og skoða meira. Það er til að mynda mjög skemmtilegt að lesa um Panamaskurðinn og tilurð hans, vangaveltur um upphaf mannkyns og hvernig það breiddist um jörðina, hvað varð um stórvaxin spendýr í Norður-Ameríku og fróðlegt þótti mér að lesa um það að einn mesti mengunarvaldur okkar tíma er fegurðarsmyrsl ýmiskonar (í þeim eru örsmáar plastörður sem rata í smádýr í sjónum og drepa þau smám saman).
Alan Weisman hefur skrifað greinar í ýmis blöð og tímarit vestan hafs: Harpers, tímarit New York Times og Atlantic meðal annars. Ein af þeim greinum sem hann skrifaði var um það hvernig dýralíf tók því fagnandi þegar menn hrökkluðust undan Tsjernobyl-kjarnorkuslysinu - í nágrenni kjarnakljúfsins, sem enn er lífshættulegur og verður væntanlega í hundruð eða þúsundir ára, blómstrar dýralíf og smám saman brýtur náttúran niður allar mannvistarmenjar. Í kjölfar þeirra greinar var hann beðinn að skrifa grein um það ef allt mannkyn hyrfi á brott og sú grein endaði sem bókin sem hér er gerð að umtalsefni.
Ef mannkyn allt hyrfi skyndilega væri það ekki í fyrsta sinn sem ráðandi lífform á jörðinni stigi inn í eilífðina - gleymum því ekki að það tímaskeið sem nú er er þriðja tilraun til lífs á jörðinni - fyrst var það fornlífsöld sem iðaði af lífi þar til það eyddist nánast alveg á skömmum tíma (95% lífs á jörðinni hurfu í hamförum), síðan miðlífsöld sem endaði líka með látum og loks nýlífsöld sem við lifum. Hún gæti sem best endað með látum líka. Kannski af manna völdum
Hann skoðar líka hvað verður um mannvirkin, húsin okkar og minnisvarða, og kemst að því að þau verða ekki ýkja lengi að hverfa, stíflur fyllast og gefa sig á endanum, hús grotna niður á skemmri tíma en eiganda þeirra grunar (eða kannski þekkja þeir það manna best á eigin skrokki), bændabýli hverfa í óræktina og smám saman hristir landið af sér allt manngert. Allt tekur þetta þó mislangan tíma, hugsanlega líða þúsundir ára þar til fram koma örverur sem éta platsagnirnar, þungmálmar hverfa seint, PCB er nánast eilíft, nema einhver ördýr læri að brjóta það niður, og helmingunartími geislavirks úrgangs er talinn í þúsundum ef ekki milljónum ára (helmingunartími úrans U-238 er hálfur fimmti milljarður ára).
Það verður því ýmislegt eftir en það hverfur smám saman ofan í jörðina og á meðan ekki kemur fram önnur eins dýrategund og við sem getum ekkert séð í friði þá fer allt vel. Það er reyndar huggun að lesa í bók Weismans hve heimurinn verður fljótur að jafna sig á okkur og eins hvað þeir vísindamenn sem hann ræðir við eru rólegir yfir hugsanlegu hvarfi mannsins; allt hverfur á endanum segja þeir, engin dýrategund er eilíf - vísindin hafa kennt okkur það - og maðurinn ekki heldur.
Bækur | Breytt 15.1.2008 kl. 14:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Miðvikudagur, 9. janúar 2008
Brotabelti hugans
Skemmdir á Messína og nálægum þorpum var ekki bara vegna skjálftans, heldur kom hann einnig af stað flóðbylgju, fimmtán metra hárri, sem skall á þorpum og borgum við ströndina og talið að á þriðja tug þorpa hafi eyðst á skömmum tíma. Alls er takið að 160.000 manns hafi farist í jarðskjálftanum og sumir halda því fram að mannfall hafi verið enn meira, jafnvel allt að 250.000.
Nánast allar byggingar hrundu í Messína, en borgin hafði verið endurbyggð af vanefnum eftir mannskæðan jarðskjálfta 1783.
Skjálftar eru tíðir á Ítalíu enda liggur brotabelti liggur eftir endilöngu landinu suður eftir Apennín-fjöllum og annað slíkt er þvert yfir landið um miðbik þess. Álíka belti, og þó öllu meira, er yfir Anatólíu þvera, hefst skammt sunnan við Izmir/Smyrnu (og um 20 kílómetra frá Istanbúl). Þar hafa orðið mannskæðir jarðskjálftar, síðast kl. 3 aðfaranótt 17. ágúst 1999 þegar skjálfti, sem átti upptök sín skammt frá Izmir, varð tugþúsundum að fjörtjóni, en talið er að um 30.000 manns hafi farist á þeim 45 sekúndum sem fyrsta skjálftahrinan varði.
Í greinasafninu Other Colurs lýsir tyrkneski rithöfundurinn Orhan Pamuk því hvernig hann upplifði skjálftann. Hann var þá staddur með fjölskyldu sinni á eyju í Bosporussundi, skammt frá Istanbúl, í sumarleyfi. Hann, og fjölskyldan öll, vaknaði við gríðarlegar drunur og sótti konu sína og dætur á efri hæð sumarhússins í myrkrinu, enda varð þegar rafmagnslaust:
"Við fórum út í garð og næturkyrrðin umlukti okkur. Drunurnar hræðilegu höfðu hljóðnað og þar var eins og allt umhverfi okkar biði óttaslegið líkt og við. Garðurinn, trén, eyjan litla umkringd stórgrýti - þögn í óttunni nema fyrir dauft skrjáf í laufi og hjartað sem ólmaðist í brjósti mér sem vísbending um eitthvað skelfilegt. Í skugga trjánna hvísluðum við einkennilega hikandi - óttuðumst kannski að framkalla annan jarðskjálfta."
Pamuk hét sig fjarri hörmungunum í tvo daga, hélt kyrru fyrir á eyjunni, en hélt síðan til strandbæjarins Yalova við Izmit flóa, eftirlætis Atatürks, og lýsir aðkomunni þar, óreiðunni, hörmungunum og vonleysinu á átakanlega hátt:
"Það eru tvennskonar rústir. Annarsvegar þær sem liggja á hliðinni eins og kassastæða, sem bera enn upprunalegt svipmót þó sumar hæðirnar hafi fallið saman eins og á harmonikku; í þeim byggingum er hugsanlegt að finna eftirlifendur í lofthólfum. Í hinni gert rústa eru engin lög, engin steypubrot, og það er ógerningur að gera sér grein fyrir því hvernig húsið leit út; það er bara hrúga af ryki, járni, brotnum húsgögnum, steypumylsnu. Það er ekki hægt að trúa því að þar sé nokkurn lifandi að finna."
Skammt frá heimili Pamuks í Istanbúl, í húsi sem afi hans byggði og hann ólst upp í frá barnsaldri, er moska með háan bænaturn. Í kjölfar skjálftans við Izmir greip eðlilega mikill ótti um sig í Istanbúl, enda urðu íbúar þar vel varir jarðskjálftans. Pamuk lýsir því í greinsafninu hvernig hann fékk sömu þráhyggjuna og aðrir, hvernig hann stóð sig að því að vera sífellt að hugsa um jarðskjálfta og gekk svo langt að hann reiknaði út með nágranna sínum hvar bænaturninn mynd lenda og hvort hann myndi lenda á húsi þeirra.
Í bókinni The World Without Us eftir Alan Weisman, sem vakti mikla athygli ytra á síðasta ári, veltir Weisman því fyrir sér hvernig heiminum myndi farnast ef mannkynið hyrfi skyndilega eða dæi út friðsamlega á skömmum tíma. Hann kemur víða við í þessari mögnuðu bók og fer víða. Meðal annars fer hann til Istanbúl og ræðir þar um moskuna miklu Hagia Sophia, og bænaturna hennar; hvað ætli verði um hvelfinguna miklu og bænaturna hennar þegar næsti stór jarðskjálfti ríður yfir Istanbúl?
Hvelfing moskunnar, sem var þá kirkja, hefur áður hrunið í jarðskjálftum, til að mynda skömmu eftir að hún var endurbyggð í þriðja sinn árið 537 (fyrstu tvær kirkjurnar eyðilagði æstur múgur). Hvelfingin féll í jarðskjálfta 557 og þú hún hafi verið endurreist þá skemmdist hún hvað eftir annað í jarðskjálftum þar til helsti arkítekt ottómana, Miman Sinan, endurbyggði og -hannaði hana á sextándu öld. Bænaturnarnir munu falla, en hvelfingin standa eftir í árhundruð þó engir séu mennirnir til að styrkja hana.
Istanbúl á sér langa sögu, reyndar má rekja hana allt aftur til 5.500 f.Kr. Hún hefur gengið undir ýmsum nöfnum á þeim tíma en Byzantium er elsta þekkta borgarnafnið. 330 e.Kr. fékk hún heitið Nýja-Róm, Nova Roma, en var þó snemma frekar kölluð Konstantínópel, borg Konstantíns keisara. Við Íslendingar þekkjum heitið Mikligarður, en frá því í mars 1930 hefur Istanbúl verið opinbert heiti.
Á þeim tíma bjó nærfellt milljón manna í borginni, um 1950 fóru íbúar yfir milljónina, en 2000 voru þeir orðnir fimmtán milljónir. Miklir fólksflutningar áttu sér stað til borgarinnar í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar. Þó Tyrkir hafi ekki tekið þátt í átökum í seinni heimsstyrjöldinni bitnaði kreppan í kjölfarið líka á þeim og bændur flosnuðu upp af jörðum sínum að streymdi til borganna í leit að betra lífi.
Lítið fé var til húsbyggingar en þó þurfti að byggja og byggja hratt. Það var líka gert, oft með lélegri steypu og litlu járni og tæplega hirt um burðarþol. Þannig urðu hún sem hönnuð voru fyrir tvær hæðir að hálfgerðum skýjakljúfum, gólf stóðust ekki á í húsum með samliggjandi veggi, veggir náðu ekki alltaf upp í loft (göt til kælingar) og svo má telja.
Eins og getið er ofar liggur brotabelti yfir Anatólíu þvera og spennan þar eykst jafn og þétt. Í The World Without Us segir Weisman frá því er hann hitti að máli jarðfræðing í Istanbúl, Mere Sözen, sem sagði honum að enginn vafi væri á því að jarðskjálfti væri væntanlegur í Istanbúl á næstu þrjátíu árum og hann yrði stór. Að hans mati myndu að minnsta kosti 50.000 hrynja með ólýsanlegu mannfalli.
"Þegar jarðskjálftinn ríður yfir Istanbúl stíflast þröngar krókóttar götur borgarinnar svo gersamlega við hrun þúsunda bygginga, að mati Sözens, að stórum hlutum borgarinnar verður einfaldlega lokað í þrjá áratugi á meðan hægt er að hreinsa burtu rústirnar."
Í Other Colours lýsir Pamuk því hvernig óttinn gegnsýrði allt líf í borginni í kjölfar skjálftans 1999; margir kusu að sofa utan dyra, aðrir voru ávallt reiðubúnir - með vasaljós og neyðarbúnað við rúmstokkinn, allir óttuðust dauðann, enda vissi þorri manna, að sögn Pamuks, að byggingar í borginni voru illa reistar, byggðar af vanefnum og kæruleysi, en þrátt fyrir allt geta þeir ekki hugsað sér að yfirgefa borgina:
"[É]g fór út á svalir að dást að bænaturnunum og fegurð Istanbúl og Bosporussund hulið mistri. Ég hef búið í þessari borg alla ævi. Ég hef spurt sjálfan mig sömu spurningar og maðurinn þarna sem mælir göturnar; hvers vegna ætti maður ekki að geta flutt? Það er vegna þess að ég gæti ekki einu sinni ímyndað mér að búa ekki í Istanbúl."
Bækur | Breytt s.d. kl. 23:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Þriðjudagur, 8. janúar 2008
Hver er maðurinn?
Meira hefur verið skrifað um William Shakespeare en nokkurn annan rithöfund lífs eða liðinn. Í nýlegri bók eftir Bill Bryson kemur þannig fram að á skrá hjá British Museum séu 13.858 skráningar undir höfundarskráningu Shakespeares og 16.092 sé leitað eftir nafni hans sem viðfangi. Í bókasafni þingsins bandaríska eru og skráðar sjö þúsund bækur um Shakespeare og í ritinu Shakespeare Quarterly kemur fram að á hverju ári séu gefin út um fjögur þúsund rit á ári um Shakespeare og verk hans, bækur, ritlingar, tímarit og tilheyrandi.
Þrátt fyrir allan þann hafsjó af bleki sem eytt hefur verið í Vilhjálm og verk hans vitum við raun lítið sem ekkert um hann. Við vitum ekki fyrir víst hvenær hann er fæddur en þó hvar hann fæddist. Við vitum lítið um æsku hans og uppvöxt, ekki hvaða kona hans hét, ekki hvar hann var stóran hluta ævinnar, ekkert um það hvernig hann sló svo hratt í gegn, ekki hvernig hann efnaðist og svo má lengi telja.
Verst af öllu finnst mönnum þó að þeir hafa litla sem enga innsýn inn í manninn, hvað þar var sem mótaði hann sem leikskáld, hvaða trúarskoðanir hafði hann (stórmál á Englandi á þessum tíma (sextándu öld)), hvernig hann vann og meira að segja hvað hann hét, eða réttara sagt hvernig hann vildi að nafn sitt væri stafsett. Þannig eru til áttatíu mismunandi rithættir á eftirnafninu á sextándu öld, en aðeins sex dæmi með eigin hendi: Willm Shaksp, William Shakespe, Wm Shakspe, Willm Shakspere, og William Shakspeare. Glöggir lesendur sjá eflaust þegar að hann skrifaði nafn sitt aldrei eins og viðtekið er í dag.
Það má að vissu leyti telja það kost hvað við vitum lítið um Shakespeare því fyrir vikið getur hver öld varpað sínum eigin þráhyggjum á hann, lýst honum sem samtímamanni; upplýstum menntamanni fyrr á tímum, góðlegum mannvin og viskubrunni á öðrum.
Við getum líka túlkað leikritin mjög frjálslega - sjá til að mynda hvernig við höfum breytt hörkutólinu Hamlet í tilvistarhyggjulega pissudúkku og þynnt út mergjaða illsku Makbeðs (minnist einkar þunnildislegrar uppfærslu í Iðnó fyrir þrjátíu árum eða svo).
Það var líka alsiða forðum, til dæmis á átjándu öldinni, að endurskrifa verkin til að þau féllu betur að tíðarandanum (saklausir máttu ekki láta lífið og ekki mátti blanda saman gamni og alvöru) og eins gera menn á okkar tímum - sjá frábæra uppsetningu Vesturports á Rómeó og Júlíu.
Líkt og William Shakespeare getur eiginlega verið hver sem er og hvað sem er geta leikritin nefnilega þýtt hvað sem er og verið hvernig sem er.
Það er líka merkilegt í sjálfu sér hvað menn hafa verið iðnir við að finna aðra höfunda að verkunum og í langflestum tilfellum án þess að hafa nokkuð fyrir sér nema hyggjuvit og óljósan innblástur. Hugsanlega er þar um að kenna að bókmenntafræðingar og aðrir sem fást við fræðigreinar geti illa sætt sig við að höfundur sem svo hafi talað til okkar að við getum ekki gleymt því hafi ekki verið háskólamenntaður dándismaður.
Hvernig er annars hægt að skýra það að menn hafa stungið upp á Edward de Vere, Francis Bacon, Christopher Marlowe, Sir Henry Neville og meira að segja Elísabet I. Englandsdrottning (þeir eru líka til sem segja verkin hafa verið samin af nefnd, en ekki er getið um hverjir hafi skipað þá nefnd, kannski allir ofangreindir?)
Allt er þetta aðalsfólk og engar raunhæfar vísbendingar eða sannanir til sem skjóta fótum undir þvílíkt og annað eins. Aftur á móti eru til ýmsar vísbendingar og sannanir um að William Shakespeare hafi skrifað leikritin sem kennd eru við hann. Þannig er hans getið (niðrandi) sem höfundar Hinriks VI. í bréfi Robert Greene 1592, heimildir eru fyrir því að leikarar sem léku í verkunum hafi talið þau sem verk Shakespeares og samtíðarmenn hans og félagar gáfu út safn leikrita Shakespeare með formála eftir leikskáldið Ben Johnson. Eins má geta þess að í skjölum Johnsons fundust að honum látnum vangaveltur hans um William Shakespeare félaga sinn, hverjir hafi verið kostir hans og gallar sem leikskálds.
Við kjósum þó að líta framhjá því og enn eru skrifaðar ævisögur Williams Shakespeares sem eru meiri uppspuni en sannleikur (5% staðreyndir og 95% skáldskapur er víst normið). Það er líka býsna gott að hafa annan eins skáldjöfur sem einskonar tabula rasa og skrifa síðan það sem maður vill.
Á myndinni má sjá fund þeirra Elísabetar I. Englandsdrottningar, Roberts Devereux jarls af Essex og Williams Shakespeares eins og málarinn Thomas Stothard sá hann fyrir sér. Stothard grunaði greinilega ekki að Elísabet og Shakespeare væru einn og sami maðurinn (ein og sama konan).
(Hluti af þessari færslu birtist í Morgunblaðinu 9. janúar.)
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Laugardagur, 15. september 2007
Kyljur í Kiljan eða kilju
Kiljan, bókmenntaþáttur Egils Helgasonar, hóf göngu sína í vikunni í Sjónvarpi ríkisins. Þátturinn fór vel af stað fannst mér og lofar góðu. Skemmtilegast af öllu var þó að heyra í Páli Baldvini Baldvinssyni, öðrum "álitsgjafa" Egils, sem hann nefndi svo, því hann var úti á þekju í gagnrýni sinni á Bókmenntahátíðina í Reykjavík 2007.
Menn með skoðanir eru skemmtilegir, en skoðanir Páls Baldvins eru skondnar fyrir það hvað hann virðist illa að sér um bókaútgáfu nú um stundir. Þannig kom fram í máli hans að "hópur útgefenda" hefði ákveðið "að dúndra [...] út þýðingum sem að væntanlegar hafa verið, rétturinn hefur verið keyptur að þeim bókum fyrir einhverjum einum, tveimur árum, af því þær gerðu það gott í útlöndum, og það er búið að þýða þær úr ýmsum málum og mér sýnist að þær séu nú flestar þýddar úr ensku".
Núorðið er það aftur á móti svo alla jafna að útgáfuréttur á bókum er keyptur mun fyrr en tíðkaðist á árum áður, bækur eru iðulega keyptar í handriti, og útgáfuréttur á mörgum af þeim bókum sem um ræðir var örugglega keyptur áður en þær komu út og líklega rétturinn á velflestum áður en þær "gerðu það gott í útlöndum".
Að sama skapi er sérkennileg sú staðhæfing að þær séu flestar þýddar úr ensku, því bókunum sem komu út um daginn var snarað úr ensku, þýsku, dönsku og ítölsku.
Það þriðja sem nefna má er að þetta er fráleitt sorplitteratúr þótt einhverjar bækurnar seljist vel og þarf eiginlega ekki að ræða það; bók verður ekki betri fyrir það að enginn vilji lesa hana og ekki verri fyrir það að margir vilji gera það.
Skemmtilegast af öllu var þó að rekast á þá gömlu goðsögn að allt hafi verið betra hér áður fyrr, eða eins og Páll Baldvin orðar það:
"[Á] síðustu öld sáum við alveg gríðarlegt magn af vönduðum þýðingarverkum [...] eru þýðingarnar að taka á sig meira iðnaðarsnið, er verið að skófla inn litteratúr sem er kannski ekki í rosalega háum gæðum?"
Nú er það vissulega svo að á árum áður, fyrri hluta síðustu aldar til að mynda, var gríðarlega mikið gefið út af vönduðum bókmenntaverkum af miklum metnaði meðal útgefenda og þýðenda (þótt margar bókanna hafi ekki verið þýddar úr frummálinu). Það vill þó gleymast að þessi tími, árin frá þarsíðustu aldamótum og fram yfir seinna stríð, voru líka blómatími reyfaranna, sem eru alla jafna taldir lakur litteratúr, þótt skemmtilegir séu. Gríðarlega mikið var gefið út af slíkum ritum aukinheldur sem legíó reyfara var birt í dagblöðum. Í því ljósi breytist menningarlega háhýsahverfið í ósköp venjulegt borgarhverfi með blöndu háhýsa og lágreistra kofa, tvílyftra tvíbýla og einlyftra heildsalahalla; ekki svo frábrugðið því sem gerist í dag, eða hvað?
Svo er það hitt, að megnið af þessari blómlegu útgáfu sem við sjáum í hillingum, gróskan og menningarleg þrekvirki síðustu aldar byggðust á hálfgerðri sjóræningjastarfsemi. Málið er nefnilega það að þessar þýðingar voru yfirleitt gefnar út án þess að spyrja kóng eða prest og án þess að borga fyrir útgáfuréttinn það þótti merkilegt ef bók var merkt svo að hún væri þýdd með leyfi höfundar.
Árið 1905 voru sett hér á landi lög um höfundarrétt og þar á meðal þýðingarrétt, en gætt að því að hafa ekki nema tíu ára vernd frá útgáfu eftir það máttu menn taka bækur frillutaki. Skömmu fyrir hvítasunnu 1947 gerðust Íslendingar síðan aðilar að Bernar-samþykktinni um "rithöfundarétt og prentfrelsi", en með þeim fyrirvara þó að 10 ára ákvæðið myndi halda.
1952 var undirritaður í Genf nýr sáttmáli sem kvað á um meiri vernd hugverka og nú kveðið á um að verndin entist ævi höfundar og fimmtíu ár til viðbótar. Þetta gátu Íslendingar ómögulega sætt sig við og fimm manna nefnd á vegum alþingis sem skipuð var fulltrúum rithöfunda og bókaútgefenda lagði til að Íslendingar gerðust ekki aðilar að sáttmálanum nema með þeim skilyrðum að þýðingarvernd erlends höfundar gilti aðeins 25 ár frá því viðkomandi rit var fyrst gefið út.
Í umræðum um þetta mál birtist heilsíðugrein í Morgunblaðinu í mars 1947 þar sem tekið var undir þetta sjónarmið, enda myndu íslenskir bóka- og blaðaútgefendur ekki geta borgað sama fyrir þýðingarrétt og erlend stórfyrirtæki. Ekki fannst höfundi þeirrar greinar svo við hæfi að bera fyrir sig smæð lands og þjóðar þegar sótt væri um leyfi til þýðinga Íslendingum væri ekki sæmandi að betla. Honum virðist aftur á móti hafa þótt í lagi að stela.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Þriðjudagur, 21. ágúst 2007
Aðskildir og ójafnir
Árin frá 1955 til 1968 voru mikill átaka og örlagatími í Bandaríkjunum. Blökkumenn í Suðurríkjunum bjuggu við mismunun og fordóma og svo kom að þeir sættu sig ekki við að vera annars flokks og hófu baráttu til að fá því breytt. Á ýmsu gekk í þeirri baráttu og í bókinni The Race Beat, eftir blaðamennina Gene Roberts og Hank Klibanoff, er því haldið fram að veigamikill þáttur í því að blökkumenn báru sigur úr býtum sé sá að þeir nýttu sér fjölmiðla á skipulegan hátt, enda gekk það gersamlega fram af þorra Bandaríkjamanna þegar þeir sáu hvaða ofbeldi fólk var beitt sem sóttist eftir mannréttindum sem áttu þó að teljast sjálfsögð þar vestan hafs.
Eitt af því sem vekur athygli við lestur bókarinnar er að á þessum árum var til grúi dagblaða og tímarita sem blökkumenn gáfu út, 1951 voru 175 slík blöð gefur út vestan hafs, og eins það hve þau voru óvægin í gagnrýni sinni á kynþáttafordómana og aðskilnaðarstefnuna sem gegnsýrði bandarískt þjóðfélag. Þessi fjöldi blaða sem gefinn var út ber því vitni að frelsi fjölmiðla var virt í Bandaríkjunum, þó hluta skýringarinnar á því af hverju þau fengu að starfa í friði sé eflaust líka að leita í því að þetta voru blöð fyrir blökkumenn og hvítum lesendum datt ekki í hug að lesa þau.
Ákveðinn vendipunktur í baráttu blökkumanna fyrir mannréttindi var þegar hæstiréttur Bandaríkjanna felldi þann úrskurð að aðskilnaðarstefnan væri brot á stjórnarskránni. Í því gekk hæstiréttur þvert á eldri dóm, mál frá 1896, en í þeim dómi var staðfest að ríki mættu koma upp aðskilnaði svo framarlega sem kynþættirnir nytu sömu réttinda; væru "separate but equal". Fljótlega varð þó ljóst að þetta voru bara orðin tóm, þ.e. það sem sneri að jafnrétti, því þó flest suðurríkjanna kæmu sér upp sérstökum skólum fyrir svarta var allur aðbúnaður þar mun lakari en í skólum fyrir hvíta, húsnæði lélegt, skólagögn fátækleg og fátt um kennara.
Þessi ákvörðum hæstaréttar hleypti illu blóði í marga suðurríkjamenn, en gagnrýni þeirra byggðist ekki bara á kynþáttafordómum. Nokkrum hóp manna fannst þannig úrskurðurinn vera íhlutun alríkisins í mál sem væri fylkjanna sjálfra að stjórna (umræða sem enn er hávær vestan hafs, þ.e. að hve miklu leyti alríkisstjórnin eigi að setja lög, til að mynda varðandi réttindi samkynhneigðra). Öllu háværari bar þó sá hópur sem byggði afstöðu sína að mestu á kynþáttafordómum, eða þannig birtist það í það minnsta lesanda uppi á Íslandi, þó eflaust hafi iðulega legið flóknari ástæður að baki. Þeirra sjónarmið urðu snemma áberandi í ljósi fjölda ofbeldisverka - líkamsárása, brennuárása og morða auk þess sem lynching, aftökur án dóms og laga, fjölgaði til muna.
Forystumönnum blökkumanna varð snemma ljóst að eina leiðin til að ná árangri í baráttunni væri að ná til almennings í norðurríkjum Bandaríkjanna og eins þóttust þeir vissir um að margir kristnir suðurríkjamenn myndu snúa baki við aðskilnaðarstefnunni ef þeir sæju harðræðið sem blökkumenn voru beittir. Baráttu þeirra var líka stýrt markvisst eftir því hvað búast mætti við ofsafengnustum viðbrögðum yfirvalda, leitaðir voru uppi þeir lögreglustjórar sem áttu erfiðast með að hemja sig og þar var látið sverfa til stáls. Fyrir vikið meiddust fleiri og líka biðu fleiri bana í baráttunni, en sjónvarpsáhorfendur og lesendur blaða og frétttímarita trúðu ekki sínum eigin augum þegar þeir sáu lögreglumenn og skríl berja snyrtilega kurteisa blökkumenn sem sóttust eftir því einu að fá að kjósa eða fá afgreiðslu á veitingastað.
Dæmi um það hvernig sterk áhrif fjölmiðlaumfjöllun hafði var er lögreglumenn réðust á friðsama göngu blökkumanna af mikilli grimmd skammt frá borginni Selma 7. mars 1965. Blaða- og sjónvarpsmenn voru þar og kvikmynduðu átökin og ein fréttastöðin, ABC, rauf dagskrá til að sýna myndir frá átökunum í miðri kvikmynd. Það var svo til að ýta enn undir reiði áhorfenda að myndin sem var rofin var Judgement at Nuremberg, leikin mynd um stríðsglæparéttarhöldin yfir frammámönnum þýskra nasista, því fyrir vikið fannst þeim sem þeir væru að horfa upp á viðlíka viðurstyggð í sínu eigin landi. Í kjölfarið stóðu hundruð manna upp frá sjónvarpstækjunum og fóru beina leið til Selma til að taka þátt í baráttu blökkumanna, sumir án þess að skipta um föt og margir án þess að hafa efni á því; fóru með bílum, lestum, hestvögnum, á puttanum eða fótgangandi.
Eftir því sem þrýstingur jókst frá stjórnvöldum hertust margir suðurríkjamenn í afstöðu sinni og aðskilnaðarstefnunni, segregationism (sem má kannski snara sem "fjölmenning"), sótti í sig veðrið. Ýmsir stjórnmálamenn gerður út á óánægju almennings með réttindabaráttu blökkumanna með góðum árangri - eftir því sem þeir voru glannalegri í yfirlýsingum þeim mun meira fylgi fengu þeir í kosningum.
Þessi bók er merkileg lesning og þó hún sé frásögn af mikilli kúgun og mannvonsku, þá er hún fyrst og fremst hylling mannsandans, þeirra fjölmörgu sem lögðu allt að veði til að berjast fyrir frelsi sínu og annarra og um leið vitnisburður um hve miklu máli það skiptir að í landi séu frjálsir fjölmiðlar.
Sovétmenn bentu iðulega á hlutskipti blökkumanna vestan hafs á sjötta og sjöunda áratugnum til að sýna fram á að líf þar væri lakara en austan járntjalds. Víst má taka undir það að þeir þurftu að þola ýmsar þrautir í baráttu sinni fyrir því sem alla jafna voru talin sjálfsögð mannréttindi fyrir hvíta, en ekki má gleyma því að fyrir tilstilli óháðs dómskerfis og frjálsra fjölmiðla vannst sigur.
The Race Beat - The Press, the Civil Rights Struggle, and the Awakening of a Nation eftir Gene Roberts og Hank Klibanoff. 528 bls. innb. Random House gefur út. Fæst í Máli og menningu.
Bækur | Breytt 28.8.2007 kl. 16:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 5. ágúst 2007
Hugsanlega hinsta kveðja
Kæri lesandi. Þegar þú lest þetta er ég væntanlega dáinn. Mér varð það nefnilega á að lesa Bókina nafnlausu eftir Ónefndan, The Book With No Name eftir Anonymous og, eins og kemur fram í bókinni, þá hafa allir lesendur bókarinnar hingað til verið myrtir. (Bókin heitir í raun , en til hægðarauka er hún kölluð Nafnlausa bókin, enda erfitt að segja .)
Nafnlaus, Anonymous, er afkastamikill höfundur, skrifaði meðal annars Bjólfskviðu, Egilssögu, Ugluspegil og Biblíuna, svo fátt sé talið og fjöldann allan af bókum um lystisemdir ástarinnar. Hann er því venju fremur fjölhæfur höfundur og afkastamikill og hefur líka látið talsvert til sín taka á spjallvefjum um allan heim, er þannig duglegur athugasemdaskrifari á Moggablogginu, hefur skrifað grúa lesendabréfa og einnig hringt óforvarandis í hina og þessa ef marka má frásagnir manna.
Fyrst bar á þessari merkilegu bók á síðasta ári þegar höfundur hennar, sem kallar sig einnig Viskístrákinn, The Bourbon Kid, kynnti hana á netinu og tók að selja eintök sem hann hafði látið prenta fyrir sig. Viskístrákurinn kemur reyndar nokkuð við sögu í bókinni, en hún hefst einmitt á því að hann kemur inn á skuggalegan bar, Tapioca-barinn, í suður-amríska nápleisinu Santa Mondega og myrðir alla nema barþjóninn (hann vildi ekki skenkja sér sjálfur). Hún er því að einhverju leyti sjálfsævisöguleg.
Barþjóninn, Sanches er áberandi í bókinni, en einnig koma við sögu engillinn Jessica, sem vaknar af fimm ára svefni snemma í bókinni og í frekar vondu skapi, konungur leigumorðingjanna sem heitir Elvis, glæpaforinginn El Santino, slagsmálahundurinn Rodeo, hótelþjónninn Dante, tveir Hubal slagsmálamunkar og fjöldinn allur af afturgöngum, vampírum, þjófahyski og almennu illþýði. Svo má ekki gleyma bláa demantinum dularfulla og gralinu helga.
Í fyrsta kafla bókarinnar, sem er stuttur, fellur fjöldi manna fyrir viskístráknum. Í öðrum kaflanum eru fimmtíu munkar drepnir. Í þriðja kaflanum eru bara þrír drepnir, en þeim fjölgar aftur er líður á bókina og endar með allsherjar skotbardaga og blóðbaði í lokin þar sem þeir eigast við Gene Simmons, Elvis, Tortímandinn (Arnold sjálfur, eða staðgengill hans), Batman, Robin, Kattakonan, Freddy Krueger, tveir Cobra Kai kappar (sjá Karate Kid), Lone Ranger (reyndar tveir slíkir svo órökrétt sem það er) og viskístrákurinn.
Reyndar eru flestir drepnir sem getið er í bókinni og líka þeir sem lesa hana, eins og getið er. Einhverjir vilja eflaust lesa Nafnlausu bókina sem ádeilu eða jafnvel sem skopstælingu; Tarantino uppgötvar Da Vinci lykilinn. Eins og nefnt er hér að ofan bendir þó sitthvað til þess að bókin sé sjálfsævisöguleg og ekki hægt að útiloka að hún segi frá raunverulegum atburðum í Santa Mondega. (Þess má geta að Santa Mondega er ekki á neinum kortum og því opinberlega ekki til. Skýring á því ósamræmi er í bókinni.)
Kannski kemur sannleikurinn betur í ljós í framhaldinu sem höfundurinn hefur rétt lokið við ef marka má MySpace-síðu hans, en samkvæmt því sem þar er ritað er enn meira mannafall í framhaldinu eins og hefð er fyrir. Hvort mér eigi eftir að endast aldur til að lesa hana, kemur í ljós, en þeir sem vilja komast að því hvers vegna allir eru myrtir sem lesa þessa merku bók verða eiginlega að lesa hans sjálfir.
Bækur | Breytt s.d. kl. 23:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Þriðjudagur, 24. júlí 2007
Saga af skjalatösku
Falling Man eftir Don DeLillo. Picador gefur út. 246 síður innb.
Ýmsir bandarískir rithöfundar (og svosem frá öðrum löndum líka) hafa glímt við árásirnar á tvíturnana í New York í verkum sínum á undanförnum árum. Það hefur gengið upp og ofan því alla jafna eru tilfinningar þeirra of sterkar eða of blendnar til að þeir nái að skapa eitthvað sem stenst listrænar kröfur og sýnir um leið á þessum voðaatburði nýjar hliðar. Þetta á og við um þann ágæta höfund Don DeLillo sem fjallar um árásirnar í nýrri bók sinni, Falling Man.
DeLillo skipaði sér sess með helstu núlifandi höfundum Bandaríkjanna með bókinni Underworld og því fengur í því að sjá hvaða höndum hann tekur viðfangsefnið. Falling Man hefst einmitt þar sem einn þeirra sem komust lífs af í árásinni gengur ringlaður út úr öskuskýinu með skjalatösku í hendinni. Sagan fylgir síðan honum, fyrrverandi eiginkonu hans og syni þeirra, en einnig kemur við sögu tengdamóðir hans fyrrverandi, kona sem missti mann sinn í árásunum og fleiri.
Mest dýpt er í frásögn af eiginkonunni, sem vinnu við það að hjálpa fólki með elliglöp og eins eru sprettir í samskiptum hennar við móður sína og sambýlismaður hennar, enda er sambýlismaðurinn fyrrverandi hryðjuverkamaður - tók þátt í stríði ofbeldissinnaðra vinstrimanna í Þýskalandi og á Ítalíu á áttunda áratugnum. Aðrir í bókinni eru nánast eins og sálarlausir statistar.
Titill bókarinnar vísar í einkar átakanlega ljósmynd af manni sem er að hrapa úr norðurturni World Trade Center og það verður að segjast eins og er að bókin er talsvert frá því að vera eins áhrifamikil þó sagan af skjalatöskunni geri sitt.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 23. júlí 2007
Laukurinn flysjaður
Sjálfsævisaga Günters Grass, Laukurinn flysjaður, eða Peeling the Onion upp á ensku, Beim Häuten der Zwiebel á frummálinu, vakti gríðarlegar deilur þegar hún kom út á síðasta ári, enda skýrir hann frá því í bókinni, og lét þess reyndar getið skömmu áður en hún kom út, að hann hafi verið liðsmaður í Waffen-SS, úrvalssveitum þýska hersins sem höfðu mikil tengsl við nasistaflokkinn. Þetta þótti mörgum mikið hneyksli enda Grass þekktur fyrir gagnrýni sína á auðvalds- og hernaðarhyggju alla tíð.
Í upphafi bókarinnar líkir Grass minni sínu við lauk; þegar flett er utan af lauknum ysta laginu, þurru og sprungnu, kemur í ljós annað lag safaríkt og þar fyrir innan enn annað og svo enn eitt til. "Laukurinn hefur mörg lög. Fjölda laga. Ef hann er flysjaður endurnýjar hann sig; ef hann er saxaður koma tárin; sannleikurinn birtist því aðeins að hann sé flysjaður."
Þessi samlíking er bráðsnjöll og vel nýtt í gegnum bókina. Hún kemur líka heim og saman við gríðarlegan áhuga Grass á matreiðslu sem sér stað í mörgum bóka hans, en uppspretta þess áhuga var matreiðslunámskeið sem hann fór á sem stríðsfangi Bandaríkjamanna og lýst er á óborganlegan hátt í bókinni.
Grass-áhugamönnum finnst eflaust einna mest um vert að í ævisögunni segir Grass frá fyrirmyndum fjölda persóna sem við þekkjum úr verkum hans, Aðallega úr Danzig-þríleiknum, Blikktrommunni, Ketti og mús og Hundaárum, sem er reyndar orðin fjórleikur eftir að Kabbagangur slóst í hópinn 2002, en hann kynnir líka til sögunnar ýmsar persónur sem hann nýtti síðar, aukinheldur sem ýmsar uppákomur í bókum hans eiga sér stoð í raunveruleikanum.
Svo var það hermaðurinn guðhræddi sem var samfangi hans í haldi hjá bandaríska hernum í stríðslok, kýtti við hann um trúmál og heimspeki, spilaði við hann teningaspil og deildi með honum kúmenfræjum. Jósep hét hann, jafnaldri hans frá Bæjaralandi og ætlaði sér að verða kardínáli. Ætli það sé Joseph Alois Ratzinger? Grass segir það ekki beint, en hann gefur það óneitanlega sterklega í skyn.
Forvitnilegt er líka að lesa um brennandi myndlistaráhuga Grass og tilraunir hans til að verða myndlistamaður sem urðu nánast að engu þegar hann tók að skrifa skáldsögur, þó hann hafi haldið áfram að vinna myndlist samhliða skrifunum.
Þessi ævisaga Grass er afskaplega vel skrifuð, eins og hans er von og vísa, og stílsnilldin engu minni en í skáldverkum hans. Í ljósi deilnanna sem spruttu af útkomunni, sem getið er að framan, verður þó að segja að minningar hans frá árunum í Waffen-SS eru býsna þokukenndar og alloft ber Grass við minnisleysi eða skautar yfir hluti. Það er til að mynda erfitt að trúa því að hann hafi aldrei hleypt af skoti, þó hersveit hans hafi ekki komist á vígstöðvarnar fyrr en stríðinu var eiginlega lokið.
Glannalegar yfirlýsingar ýmissa menningarpáfa, þýskra og annarra, um að Grass hafi glatað ærunni með þessari uppljóstrun eru þó kjánalegar og beinlínis heimskulegt þegar menn ætla að dæma ævistarf eins helsta rithöfundar Þjóðverja okkar tíma fyrir glappaskot hans sem unglings.
Ævisögunni lýkur um það leyti sem Blikktromman kemur út, enda sú bók vendipunktur í sögu hans, en ekki líkar mér þau lokaorð hans að hann hafi hvorki lauk né löngun til að segja meira af ævi sinni - hann hefur frá mörgu að segja og merkilegu að mínu viti.
Bækur | Breytt s.d. kl. 23:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tenglar
Vefgreinar
- Dont Legalize Drugs by Theodore Dalrymple, City Journal Spring 1997 Advocates have almost convinced Americans that legalization will remove most of the evil that drugs inflict on society. Dont believe them. City Journal - Spring 1997
Vefmiðlar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar