Katalónskuspursmálið

Í minningarriti Björns Magnússonar Ólsen um Rasmus Kristian Rask sem gefið var út í Reykjavík 1888 er birt brot úr bréfi sem Rask skrifaði Bjarna Thorsteinssyni vini sínum 30. ágúst og 2. september 1813. Þar fjallar Rask um stöðu íslenskunnar gagnvart dönsku og segir meðal annars: "Annars þjer einlæglega að segja held jeg, að íslenskan bráðum muni útaf deyja; reikna jeg, að varla muni nokkur skilja hana í Reykjavík að 100 árum liðnum, en varla nokkur í landinu að öðrum 200 árum þar upp frá, ef allt fer eins og hingað til og ekki verða rammar skorður við reistar; jafnvel hjá beztu mönnum er annaðhvort orð á dönsku; hjá almúganum mun hún haldast við lengst."

Allt fór það þó á annan veg, meðal annars fyrir tilstilli manna eins og Rask - íslenskan lifir góðu lífi þó hún hafi vissulega gengið í gegnum talsverðar breytingar á þeim tæpu 200 árum sem liðin eru frá því Rask skrifaði bréfið.

Því er þetta rifjað upp hér að ég var á ferð í Barcelona fyrir skemmstu og hitti þá að máli katalónska rithöfundinn Albert Sánchez Piñol sem skrifaði bókin mögnuðu La pell freda, sem gefin var út á ensku undir nafninu Cold Skin. Piñol er katalóni, talar helst katalónsku og skrifar á katalónsku þó það sé honum átak, því hann er alinn upp á spænsku ef svo má segja, öll hans skólaganga fór fram á spænsku þó að katalónska hafi verið móðurmálið. Þannig segist hann þurfa að leggja nokkuð á sig til að skrifa á katalónsku, því orðaforði hans í spænsku sé meiri en á katalónsku.

Álíka sagði mér katalónska skáldið Carles Duarte i Montserrat sem kom hingað til lands fyrir tveimur árum. Hann byrjaði þannig að yrkja á spænsku, fannst hann ekki kunna katalónsku nógu vel enda var bannað að kenna hana þegar hann var að alast að fyrirmælum Francos. Katalónska var þó móðurmál hans og eftir að hann hafði ort á spænsku í nokkur ár sagði hann að sér hefði orðið ljóst að hann yrði að yrkja á móðurmálinu til að vera heiðarlegur gagnvart sjálfum sér.

Fyrir nokkrum árum lét Jordi Pujol, þáverandi forseti Katalóníu (og einn af helstu spámönnum katalónskrar þjóðernishyggju), þau orð falla að katalónskan væri í álíka stöðu og íslenskan hafi fimmtíu árum fyrr, þjóðtunga sem átt hafi í vök að verjast vegna áhrifa frá tungu stórþjóðar - ósk hans væri að katalónum tækist að fóta sig eins vel í að varðveita sína þjóðtungu og Íslendingum.

Í gegnum árin hefur katalónsku vaxið mjög fiskur um hrygg og mér finnst ég til að mynda sjá mikinn mun í Barcelona frá því ég kom þar fyrst fyrir tæpum tveimur áratugum. katalónskan verður æ sýnilegri og maður heyrir hana talaða mun víðar. Ekki þarf síðan að fara langt frá Barcleona að spænskan lætur undan síga og í mörgum bæjum austan við borgina en hending ef maður sér skilti á spænsku og því færri sem austar dregur. 

Um sjö milljónir mann tala katalónsku að einhverju marki og þá talið með það sem sumir vilja telja sérmál en aðrir sjá bara mállýskumun (Valencíumenn vilja þannig taka um valensíönsku en ekki katalónsku - aðrir heyra eiginlega ekki mun). Það er því markaður fyrir katalónskar bókmenntir, ólíkt meir markaður en fyrir íslenskar, en eins og íslenskir rithöfundar hafa reyndar margir fengið að finna fyrir þá verður bókaútgáfa sífellt alþjóðlegri og þó ekki sé hægt að lifa af að selja 3.000 eintök á ári á Íslandi geta menn kannski haft það þokkalegt með því að selja 30.000 eintök af enskri útgáfu út um allan heim.

Það er því ekki endilega fjöldi lesenda sem ræður því hvort katalónskir rithöfundar skrifi á spænsku eða katalónsku (kastilönsku eða katalónsku sega katalónarnir, skilja á milli þjóðar og tungumáls) heldur frekar uppeldi þeirra og eftirhreytur af menningarlegri kúgun fyrri tíma. Það kostar katalónskan rithöfund á miðjum aldri mikið átak að skrifa á katalónsku því gera má ráð fyrir því að menntunarferill hans hafi allir verið á spænsku. Átakið verður þó minna eftir með tímanum, eftir því sem nýjar kynslóðir slást í hópinn. Hvað verður svo um þá sem skrifa á spænsku vissi Piñol ekki. Fannst þó forvitnilegt að heyra það að Íslendingar hafa átt tvo mikla rithöfunda í sögu sinni. Annar er flestum gleymdur - hinn skrifaði á íslensku.

(Biðst afsökunar á því að ég skuli nota tilvitnunina í Rask öðru sinni á árinu - notaði hana í bloggfærslu 28. janúar sl. Þá var ég reyndar að nota hana öðruvísi, var að skensa Andra Snæ.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 20
  • Frá upphafi: 117509

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 20
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband