Mánudagur, 30. júní 2008
Ekki hitta höfundinn
Eitt það fyrsta sem maður lærir í bransanum er að vera við öllu búinn þegar maður hittir þá listamenn sem maður hefur sérstakt dálæti á.
Mér er minnisstætt þegar flautuleikarinn snjalli James Galway kom hingað til lands til að leika á listahátíð og blaðakona af Morgunblaðinu, sem vel kunni að meta flautuleik hans, fór spennt til að taka við hann viðtal. Hún sneri aftur úr því viðtali með grátstafinn í kverkunum yfir því hver mikill dóni Galway hafi verið, frekur og afundinn, snúið útúr öllu og ef hann svaraði ekki með svívirðingum þá svaraði hann útí hött.
Hún var svo vitni að því að þegar Sjónvarpsmenn mættu með sínar upptökugræjur birti yfir honum, heillandi brosið braust fram og hann skrúfaði frá sjarmanum.
Af hverju, spyr kannski einhver, en gefur augaleið: Hann vissi sem er að blaðamaðurinn myndi gera hið besta út textanum, vinna almennilegt viðtal uppúr öllu saman, en sjónvarpsvélarnar myndu sýna hann eins og hann er og því kaus hann að vera annar.
Nú er það eflaust leiðinlegt að verða fyrir sífelldu áreiti blaðamanna, en við því er það einfalda ráð að neita að veita viðtöl, ekki síst ef maður hefur ekki nennu í að vera kurteis.
Ekki er bara að stjarnan sem maður hefur mænt á úr fjarska getur verið óuppdreginn dóni, heldur getur líka komið í ljós að snilligáfa á einu sviði hefur útilokað gáfur á öðrum sviðum.
Dæmi um það er rithöfundurinn mikli Victor Hugo (1802-1885), höfundur Vesalinganna og Maríukirkjunnar í París (Notre-Dame de Paris). Hann var mikið undrabarn, skrifaði smásögur og leikrit þrettán ára gamall og vann sín fyrstu verðlaun fyrir ritstörf sextán ára gamall. Ég hef séð þá samantekt að hann hafi skrifað tíu milljón orð, 10.000.000 orð (orðið sem þú varst að lesa var 280. orð þessarar greinar, fyrirsögn ekki meðtalin - margfaldaðu með 35.714).
Nánar tiltekið gaf hann út 24 ljóðasöfn (3.000 ljóð eru skráð), reyting af leikritum, óteljandi ritgerðir, greinar og ferðasögur og níu skáldsögur (þrjár hafa komið út á íslensku Notre-Dame de Paris (Maríukirkjan í París, 1948), Les Misérables (Vesalingarnir, 1925 til 1928) og L'Homme qui rit (Maðurinn sem hlær, 1932)). Jón Helgason þýddi reyting af ljóðum Hugos í Tuttugu erlend kvæði og einu betur og Steingrímur Thorsteinsson þýddi líka ljóð eftir hann. Engum hefur dottið í hug að gefa út á íslensku skáldsöguna Han d'Islande, sem snarað mætti sem Íslands Hans, nú eða Hans Íslandi, en hún segir frá illmenninu Han (Hans) sem hyggst hefna sonarmissis með hrannvígum.
Þessi afkastamikli maður var einn helsti andans jöfur Frakka á sinni tíð, eða í það minnsta þar til hann opnaði munninn því samtímamenn hans eru á einu máli um að hann hafi ekki bara verið illa máli farinn, heldur var hann og grunnhygginn í samræðum, nískur og eigingjarn, smámunasamur veifiskati og tækisfærissinni (skipti þrisvar um grundvallarafstöðu í stjórnmálum til að halda þingsæti). Hann var semsagt maður sem maður ætti helst ekki að hitta - láta nægja að lesa bækurnar og ímynda sér göfuglynt gáfumenni.
Hugo og Galway eru dæmigerður fyrir listamennina sem við viljum ekki hitta, en eins getur verið óviðkunnanlegt að hitta lubbalega lúða, illa til hafða, órakað og illa lyktandi. Ég hitti eitt sinn norska rithöfundinn Lars Saabye Christensen (Hálfbróðirinn) á Holtinu og fann það á lyktinni þegar ég beygði inn á Bergstaðastræti að hann hafði verið að skemmta sér ótæpilega dagana á undan (hann var og glerþunnur, en mjög skemmtilegur svo það fór allt vel).
Mér fannst það því frábærlega til fundið þegar leikari mætti til að lesa upp úr nýrri bók eins þekktasta rithöfundar þjóðarinnar síðasta haust og mín tillaga er sú að menn geri miklu meira af því, þ.e. að fá leikara til að leika rithöfunda. Það myndi til að mynda gefa krassandi sakamálasögu meiri vigt ef Ingvar E. Sigurðsson myndi mæta á blaðamannafundi með sína ygglibrún, nú eða ef Margrét Vilhjálmsdóttir myndi kynna sig sem höfund erótískrar ættarsögu.
Þessa hugmynd má síðan þróa áfram og fá leikara í hverju landi þar sem bókin er gefin út til að leika rithöfundinn. Ég sé í anda blaðamenn taka andköf af hrifningu þegar "Arnaldur Indriðason" svarar spurningum þeirra á reiprennandi spænsku, þegar "Einar Már Jónsson" les upp úr Englum alheimsins á tærri frönsku eða "Kristín Marja" formælir karlaveldinu á lýtalausri rússnesku. Þó það kosti vissulega sitt að ráða góða leikara sparast vitanlega mikið fé í flugfargjöldum og gistingu (mínbarirnir!).
Ef allt kemst svo upp er ekki víst að það skipti máli - ekki gera Spánverjar sér veður útaf því þó frægar stjörnur tali á spænsku í öllum bíómyndum og öllu sjónvarpsefni með röddum sem alls ekki eiga við viðkomandi leikara (að því okkur finnst i að minnsta). Hví skyldu þeir, eða Frakkar og Þjóðverjar, sem leika sama leik, láta sér bregða þó andlitið sé ekki það sama? Svo geta menn alltaf gert það sama og ég mun gera næst þegar sendur er leikari fyrir rithöfundinn íslenska - senda leikara til að hlusta fyrir mig.
Es. Menn eru mis-meðvitaðir um galla sína. Skýt hér inn ljóði eftir Thomas S. Eliot:
How unpleasant to meet Mr. Eliot!
With his features of clerical cut.
And his brow so grim
And his mouth so prim
And his conversation, so nicely
Restricted to What Precisely
And If and Perhaps and But . . .
How unpleasant to meet Mr. Eliot!
(Whether his mouth be open or shut.)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Fimmtudagur, 29. maí 2008
80,8% treysta borgarstjóra
Ef marka má graf sem blaðið birti með greininni og sést hér til hliðar, voru þátttakendur í könnuninni spurðir hvort þeir bæru mjög mikið traust til borgarstjóra, mikið traust, lítið traust, mjög lítið traust eða hvorki né, hvernig sem það síðastnefnda var annars orðað.
Samkvæmt téðu grafi treysta því 80,8% Reykvíkinga borgarstjóranum Ólafi F. Magnússyni, bara mis-mikið. Til hamingju með það Ólafur!
Þriðjudagur, 20. maí 2008
Óteljandi grátónar
Eins og Baker rekur söguna hugðist hann skrifa bók um bandaríska þingbóksafnið á dögum seinni heimsstyrjaldarinnar en áttaði sig snemma á því að hann skildi ekki stríðið, gat ekki áttað sig á hvers vegna það hófst og til hvers það var háð. Hann lagðist því í rannsóknir, tók að fletta gömlum blöðum, lesa dagbækur, endurminningar og ævisögur og segist þá hafa áttað sig á því að viðtekin söguskýring - bandamenn gripu til vopna til að verjast nánast fyrirvaralausri útþenslustefnu Þjóðverja og Japana (sem stýrt var af illmennum) - var ekki alveg rétt.
Human Smoke hefst með tilvitnun í Afred Nobel þar sem hann lýsir þeirri von sinni að dýnamítið, sem hann fann upp, verði til þess að útrýma stríði því þegar eyðingarmátturinn sé orðinn svo mikill muni menn hika við að hefja átök. Annað kom á daginn og kenning Bakers er sú að ýmsir hafi róið að því öllum árum að koma á stríði, helst iðnjöfrar og stjórnmálamenn, og leiðir til vitnis tilvitnanir í blöð og bækur sem sýna meðal annars fram á að bandamenn seldu Þjóðverjum (og Japönum) vopn og verjur á millistríðsárunum og gilti einu þó þýskir lýðræðissinnar og bandarískir gyðingar hafi þrýst á um viðskiptabann.
Einnig birtir Baker heimildir um það hve gyðingahatur var víða á Vesturlöndum; það er alkunna að Hitler hataði gyðinga, en hve margir vita að Roosevelt, Neville Chamberlain og Churchill fyrirlitu og hötuðu gyðinga líka? Málið er nefnilega það að mannkynssagan er ekki eins svart/hvít og okkur hefur verið kennt - hún er óteljandi grátónar.
Að þessu sögðu þá kemur Baker ekki að ritun bókarinnar algerlega skoðanalaus, frekar en sagnfræðingar; hann er friðarsinni og það skín líka í gegn. Það fólk sem kemur best úr þessari nýstárlegu mannkynssögu eru nefnilega friðarsinnarnir, fólk sem barðist gegn stríði frá því löngu áður en það hófst og lét ekki af sannfæringu sinni hvað sem á gekk. Hann bendir líka á að það jafnan sama fólkið og vildi liðsinna gyðingum, barðist til að mynda fyrir því að tekið yrði við börnum gyðinga í Bandaríkjunum en varð ekki ágengt vegna Roosevelt.
Það kemur væntanlega ekki á óvart að Human Smoke er þegar orðin umdeild bók og ýmsir hana þannig gagnrýnt Baker fyrir að líta framhjá því hvaða örlög milljónir manna, aðallega gyðingar hlutu fyrir tilstilli þýskra nasista (og atbeina illmenna af ólíkum þjóðum) - þau örlög hljóti að undirstrika að seinni heimsstyrjöldin hafi verið réttlátt og nauðsynlegt stríð. Segja má að svarið við þeirri gagnrýni sé að finna í bókinni því úr tilvitnunum í henni má lesa að Hitler hafi komist eins langt og raun bar vitni vegna þess að valdamenn í vesturálfu óttuðust kommúnismann (og mest af öllu kommúníska gyðinga) - menn litu framhjá geðveikisglampanum í augum Hitlers vegna þess að þeir töldu hann illskárri kost en kommúnismann.
Eins og getið er er innihald bókarinnar að mestu fengið úr dagblöðum, úrklippur, dagbókum og endurminningum og hvernig heyrist í Baker. Það er þó hann sem velur úrklippurnar og raðar þeim upp, setur atburði í samhengi og gefur til kynna framvindu eins og honum sýnist hún vera. Þetta er nýstárleg aðferð og sláandi en ekki endilega betri en aðrar aðferðir til að skrá þessa hörmungasögu, því það sem ekki er sagt skiptir oft meira máli en hitt. Gleymum því þó ekki að hann er að segja sögu sem ekki hefur verið sögð, sögu þeirra sem margir létu lífið fyrir sannfæringu sína um að manndráp væri aldrei réttlætanlegt.
Bókinni lýkur 31. desember 1941 og eins og Baker nefnir í eftirmála hennar þá voru flestir þeir sem létust í seinni heimsstyrjöldinni þá enn lifandi. Þess má geta að heiti hennar er fengið úr lýsingu eins hershöfðingja Hitlers á reykflyksunum sem bárust inn í klefa hans í Auschwitz - mannareyknum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 5. maí 2008
Frægasti maður Ameríku
Ævisagan sem hér er gerð að umtalsefni hefur hið skemmtilega heiti "Frægasti maður Ameríku" og þar er ekki farið með fleipur því Henry Ward Beecher var gríðarlega vinsæll sem predikari, þekkur ræðusnillingur, frægur fyrirlesari, ritstjóri og pistlahöfundur í vinsælasta blaði Norður-Ameríku og þegar hann var sakaður um hórdóm vaktið það þvílíka athygli að annað eins hafði ekki sést; blöð um gervöll Bandaríkin voru uppfull af fréttum af dómsmálinu sem spratt í kjölfarið og annað var ekki rætt manna í millum. Við þetta má svo bæta því að hann var ötull baráttumaður gegn þrælahaldi og bróðir Harriet Beecher Stowe sem skrifaði fyrstu alþjóðlegu metsölubókina (sem margir héldu að bróðir hennar hefði í raun skrifað).
Henry Ward Beecher (1813 1887) ólst upp í kalvínisma líkt og flestir samtíðarmenn hans bandarískir, trú á náðarútvalningu og brennisteinseld helvítis, en faðir hans, Lyman Beecher, var með þekktustu predikurum í þeim afkima trúarinnar. Henry Ward varð smám saman fráhverfur þessari heimsmynd og tók að boða það sem hann kallaði kærleiksboðskapinn; lagði höfuðáherslu á elsku drottins til mannkynsins, en sú trúarsýn hafði mikil áhrif á kristna trú vestan hafs og hefur enn.
Frægðarsól Henrys Ward Beecher reis hæst eftir að hann var ráðinn sem predikari við Plymouth-kirkju í Brooklyn, sem var þá sjálfstæð borg. Þar var hann í essinu sínu sem magnaður predikari, ekki síst eftir að hann hannaði innviði nýrrar kirkju þar sem sérstakt svið var fyrir hann, en ekki bara predikunarstóll. Hann gerðist líka ötull baráttumaður gegn þrælahaldi og hélt meðal annars einskonar þrælauppboð í kirkjunni þar sem söfnuðurinn gat keypt frelsi handa þrælum, aukinheldur sem hann beitti sér sem pistlahöfundur í áhrifamesta blaði Bandaríkjanna. Svo langt gekk hann í stuðningi sínum við baráttuna gegn þrælahaldi í Suðurríkjunum að hann sendi riffla til bardagamanna og kom síðan sjálfur á fót herdeild, greiddi fyrir hana allan útbúnað, til að taka þátt í þrælastríðinu á sínum tíma.
Því hefur verið haldið fram að systkinin Harriet og Henry Ward hafi haft úrslitaáhrif í að snúa almenningi í Norður- og Miðvesturríkjum Bandaríkjanna á sveif með andstæðingum þrælahalds, hún með bókinni um kofa Tómasar frænda, sem var fyrsta bókin til að seljast í milljón eintökum í Bandaríkjunum (á þeim, tíma voru íbúar 24 milljónir), og hann með predikunum, fyrirlestrum og blaðaskrifum. Þó var Beecher lengi tvístígandi í afstöðu sinni, ekki þó að hann hafi verið fylgjandi þrælahaldi heldur vegna þess að hann vildi ekki styggja valdamikla menn. Það bráði þó af honum, ekki síst þegar hann fann undirtektir hjá safnaðabörnum sínum, og eftir það þrumaði hann yfir lýðnum af krafti og íþrótt.
Eins og sagan hefur leitt í ljós eru framúrskarandi predikarar iðulega svo þrungnir dýrslegum krafti að þeir eru bókstaflega ómótstæðilegir, ekki síst í augum kvenna. Þegar við bætist aðdáun tugþúsunda, frægð og ómælt fé kemur ekki á óvart að þeir falla fyrir freistingunum. Að því leyti var Beecher dæmigerður, reyndar einskonar frumgerð að þeim predikurum sem á eftir komu og við þekkjum flest í dag, menn sem rísa svo hátt í baráttu sinni fyrir trúna að siðferðisboð dauðlegra hætta að eiga við um þá.
Henry Ward Beecher var kraftmikill og glæsilegur maður þó ekki hafi hann verið fríður og ýmislegt bendir til þess að hann hafi átt nokkrar ástkonur. Það er reyndar erfitt eða ómögulegt að sanna slíkt svo löngu eftir daga hans, ekki síst í ljós þess að hann var uppi á Viktoríutímanum þegar kynferðismál voru ekki rædd, ekki einu sinni í einkabréfum. Eitt slíkt mál komst í hámæli og það var samband hans við eiginkonu síns nánasta samstarfsmanns, Elizebeth Tilton, en sá, Theodore Tilton, brást þannig við að hann sagði öllum sem frétta vildu og endaði fyrir dómstólum. Fyrst fór málið fyrir öldungaráð Plymouth-kirkju sem komst að þeirri niðurstöðu að ekkert ósiðlegt hefði átt sér stað og síðan fyrir almenna dómstóla þegar Tilton stefndi Beecher fyrir að hafa spillt konu sinni.
Það flækti mál til muna að Elizebeth Tilton ýmist játaði að hafa staðið í ástarsambandi við Beecher eða neitaði því; í henni togaðist ótti við fordæmingu samfélagsins sem bitna myndi á börnum hennar og löngun til að gera hreint fyrir sínum dyrum. Á endanum komst kviðdómur ekki að niðurstöðu, níu vildu sýkna Beecher en þrír sakfella.
Eins og getið er var gríðarlega mikið um málið fjallað í fjölmiðlum og það varð snemma pólitískt, bæði vegna stuðnings Beechers við nústofnaðan flokk Repúblikana og eins vegna aðkomu kvenréttindakvenna að því, en það er mál manna að þetta dómsmál og skrif um það hafi tafið fyrir réttindabaráttu kvenna vestan hafs í allmörg ár.
Málið var síðar tekið upp að nýju fyrir dómi Plymouth-kirkju en enn var Beecher sýknaður. (Þess má geta að skömmu fyrir andlát sitt játaði Elizebeth Tilton enn og aftur að hafa átt í ástarsambandi við Henry Ward Beecher.)
Frægasti maður Ameríku / The Most Famous Man in America eftir Debby Applegate er sérdeilis vel skrifuð og lífleg ævisaga. Hún er ekki bara saga Henrys Ward Beecher, heldur er sögð saga Bandaríkjanna á miklum umbrotatíma þegar grunnur er lagður að Bandaríkjum nútímans, þegar hástemmdar hugsjónir og strangur siðferðisboðskapur víkur fyrir nútímanum og að því leyti er Beecher að vissu leyti tákngervingur Bandaríkjanna; hlýr, ástríkur, óraunsær draumóramaður sem upp fullur er af starfsorku og dugnaði, alþýðumaður sem tekur fagnandi vellystingunum ríkidæmisins.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 29. apríl 2008
Ímyndaðir nasistar
Chileski rithöfundurinn Roberto Bolaño Ávalos er að margra mat með merkustu rithöfundum Suður-Ameríku á síðustu árum, en hann lést eftir alvarleg veikindi fyrir fimm árum aðeins rétt ríflega fimmtugur að aldri.
Bolaño fór víða, átti heima í Chile, Mexíkó, El Salvador og Frakklandi, en settist síðan að í strandbænum Blanes á Norður-Spáni og lést þar. Hann var vinstrisinnaður og fékk að kenna á Pinochet og hyski hans, var hnepptur í varðhald fyrir skoðanir sínar en fyrrum skólafélagar hans sem störfuðu sem fangaverður leystu hann úr prísundinni.
Meðal helstu verka Bolaños eru skáldsögurnar Los detectives salvajes, sem er margverðlaunuð, Literatura nazi en América og 2666, en einnig hlutu smásagnasöfn hans góðar viðtökur. Los detectives salvajes kom út í enskri þýðingu sem The Savage Detecives á síðasta ári og 2666 kemur út á þessu ári, en hún er ríflega 1.000 síðna skáldsaga sem byggð er á fjöldamorðunum í Ciudad Juárez.
Literatura nazi en América, sem hér er gerð að umtalsefni, kom út á ensku í lok febrúar sl. undir nafninu Nazi Literature in the Americas. Skáldsagan er nokkuð sérstætt verk því hún er eins og bókmenntasaga hægrisinnaðra rithöfunda amerískra með höfuðáherslu á suður-ameríska höfunda. Þannig eru í bókinni æviágrip á fjórða tug rithöfunda, karla og kvenna, sem allir eiga það sameiginlegt að hafa aldrei verið til. Bókinni fylgir og ítarleg skrá yfir rit þessara ímynduðu höfunda og upptalning á fjölda tilbúinna höfunda til viðbótar sem flokkaðir eru sem minni spámenn.
Væntanlega kemur það fáum á óvart að þessi sérkennilega bókmenntasaga er krydduð svörtum húmor, kolsvörtum. Öllu gamni fylgir þó nokkur alvara og undirtónn bókarinnar er myrkur því þeir rithöfundar sem nefndir eru til sögunnar eiga það sammerkt að vera erkitýpur fyrir að sem Hannah Arendt kallaði hversdagsleika hins illa í bók sinni um réttarhöldin yfir Adolf Eichmann í Jerusalem - allir feta þeir sig í átt að hinu illa skref fyrir skref, og sjá ekki hvert stefnir fyrr en það er um seinan.
Frásögnin í Literatura nazi en América / Nazi Literature in the Americas er fræðibókarleg lengstaf, einskonar upptalning í tímaröð með bókmennta- og landfræðilegri flokkun, en undir lokin, í síðasta þætti sögunnar og þeim lengsta, "The Infamous Ramírez Hoffman", birtist Bolaño sjálfur óforvarandis, þar sem hann stendur með öðrum föngum og fylgist með flugkappanum Ramírez Hoffman sem er í senn óvinur herstjórnarinnar og þátttakandi í illverkum hennar. Undir lokin tekur hann svo þátt í því að leita Hoffman uppi í strandbæ á Costa Brava, nánar tiltekið í Lloret de Mar sem er ekki svo langt frá Blanes, og þar eru gerðar upp sakir.
(Hluti úr þessari færslu birtist í Morgunblaðinu 30. apríl.)
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 8. apríl 2008
Smátt saxaður laukur
Fyrir nokkru bloggaði ég um sjálfsævisögu Günters Grass Peeling the Onion / Beim Häuten der Zwiebel. Ég jók nokkuð við þá bloggfærslu að beiðni útgefanda þess ágæta rits Þjóðmála og hún birtist í síðasta hefti ritsins og síðan hér:
Sjálfsævisaga , Laukurinn flysjaður, Beim Häuten der Zwiebel (Peeling the Onion í enskri þýðingu), vakti gríðarlegar deilur þegar hún kom út á þarsíðasta ári, enda skýrir hann frá því í bókinni, og lét þess reyndar getið skömmu áður en hún kom út, að hann hafi verið liðsmaður í Waffen-SS, úrvalssveitum þýska hersins sem höfðu mikil tengsl við nasistaflokkinn.
Þetta þótti mörgum mikið hneyksli enda Grass þekktur fyrir gagnrýni sína á auðvalds- og hernaðarhyggju alla tíð og sumir gengu svo langt fyrr á árum að kalla hann samvisku Þýskalands, ekki íslenskir vinstrimenn sem höfðu mætur á vestur-þýskum sósíaldemókratisma og fögnuðu tilraunum Willy Brants til að bæta samskiptin við ríkin austan járntjalds.
Grass ætlaði að verða listamaður, málari, en varð rithöfundur. Fyrsta bók hans var Blikktromman, Die Blechtrommel, kom út 1959, sem sagði frá drengnum of Óskari Matzerath sem neitaði að verða stór, hafnaði lygum og málamiðlunum heims hinna fullorðnu. Blikktomman var fyrsta bókin í svonefndum Danzig-þríleik, önnur bókin var Köttur og mús, Katz und Maus, sem kom út 1961 og sú þriðja Hundaár, Hundejahre, sem kom út 1963. Bækurnar tengjast allar innbyrðis, deila persónum, og segja sögu Þýskalands frá því fyrir seinna stríð og til eftirstríðsáranna.
2002 kom svo út Krabbagangur, Im Krebsgang, sem mætti telja fjórðu Danzig-bókina, enda rekur hún söguna áfram, rifjar upp þegar skipinu Wilhelm Gustloff var sökkt 30. janúar 1945 með um 10.000 manns innan borðs, en talið er að um 9.400 hafi látið lífið. Í Krabbagangi er Tulla Pokriefke ein af þeim sem komast af.
Grass var gagnrýndur fyrir Krabbagang, enda fannst mörgum sem hann væri að draga upp mynd af Þjóðverjum sem fórnarlömbum í seinni heimsstyrjöldinni, en hann lýsti því svo í viðtali við The New York Times í apríl 2003 að fyrir honum hafi vakað það eitt að koma í veg fyrir að hægriöfgamenn nýttu sér harmleikinn sem skipsskaðinn vissulega var. "[Öfgamennirnir] halda því fram að Gustloff-harmleikurinn hafi verið stríðsglæpur, en svo var ekki. Víst var hann skelfilegur, en hann var afleiðing stríðs, hræðileg afleiðing stríðs."
Blikktomman, Köttur og mús og Krabbagangur hafa komið út á íslensku en ekkert bólar á Hundaárum, en í þeirri bók gerir Grass upp við fortíðina og sjálfan sig, gerir upp við Þýskaland nasismans og Þýskaland eftirstríðsáranna sem ekki getur horfst í augu við voðaverk nasismans og lítur því undan.
Þetta var reyndar margkveðið stef í þýskum bókmenntum og vel kynnt hér á landi á sjöunda og áttunda áratugnum, meðal annars fyrir atbeina Íslendinga sem menntaðir voru í Austur-Þýskalandi og fengu þar þá innrætingu að í Vestur-Þýskalandi hefðu menn sæst við nasista á meðan hreintrúaðir sósíalistar hefðu haldið baráttunni áfram. Sjá til að mynda forvitnilega Morgunblaðsgrein 14. febrúar sl. eftir Ingimar Jónsson íþróttafræðing og rithöfund, sem menntaður var í Austur-Þýskalandi og hefur ekki kastað trúnni.
Í ljósi þess sem Günter Grass ljóstraði síðar upp er Hundaár einkar forvitnileg lesning því hann er ekki síst að lýsa því hvernig hann neitaði að horfast í augu við sjálfan sig:
Hundaár er í þrem hlutum. Í fyrsta hluta hennar segir gyðingurinn Eudard Arnsler frá Walter Matern vini sínum og lífi þeirra á árunum fyrir stríð þegar nasistaflokkurinn verður til.
Í öðrum hlutanum segir Harry Liebenau frá, rekur sögu ástar sinnar á Tulla Pokriefke, en eins og Grass nefnir í Beim Häuten der Zwiebel er hann Harry Liebenau og ekki þarf mikið ímyndunarafl til að sjá borgina Danzig í Tullu Pokriefke, borgina sem hann elskar sem heimabæ sinn en sem verður síðan ógeðfelld minning um ofsóknir og kúgun.
Walter Matern, sem var andvígur nasistum og fékk að kenna á því á árunum fyrir stríð, segir svo frá í þriðja hlutanum, rekur ferð um land í sárum til að leita hefnda fyrir allt það sem hann hlaut að þola fyrir andúð sína á nasistum.
(Þess má geta að Hundaár heitir svo eftir hundum, fyrst Senta sem gat Harras sem gat Prinz, svartan fjárhund sem borgarstjórn Danzig gaf Adolf Hitler við heimsókn kanslarans til borgarinnar. Á endanum strauk Prinz úr byrginu í Berlín og leitaði uppi nýjan eiganda - fékk nóg af nasistum.)
Í upphafi Beim Häuten der Zwiebel líkir Grass minni sínu við lauk; þegar flett er utan af lauknum ysta laginu, þurru og sprungnu, kemur í ljós annað lag safaríkt og þar fyrir innan enn annað og svo enn eitt til. "Laukurinn hefur mörg lög. Fjölda laga. Ef hann er flysjaður endurnýjar hann sig; ef hann er saxaður koma tárin; sannleikurinn birtist því aðeins að hann sé flysjaður."
Þessi samlíking er bráðsnjöll og vel nýtt í gegnum bókina. Hún kemur líka heim og saman við gríðarlegan áhuga Grass á matreiðslu sem sér stað í mörgum bóka hans, en uppspretta þess áhuga var matreiðslunámskeið sem hann fór á sem stríðsfangi Bandaríkjamanna og lýst er á óborganlegan hátt í bókinni.
Í bókinni lýsir hann æsku sinni og uppeldi og því hvað hann varð snemma listhneigður, skrifaði meira að segja snemma skáldsögu mikla, en þakkar fyrir það í dag að hún hafi glatast í umróti stríðsáranna og með með henni hugsanleg ljóðs, ljóð sem hann segir hafa hugsanlega samið það sem hann mærði leiðtogann mikla og drauminn um þriðjaríkið ; Grass var nefnilega nasisti og vildi leggja sitt af mörkum, skráði sig í herinn með á von í brjósti að verða kafbátssjómaður. Hann þótti aftur á móti ekki nógu mikill bógur í svo erfitt hlutverk, var settur í heimavarnarliðið en síðan kallaður í Waffen-SS, hernaðararm hinna innræmdu stormsveita Himmlers í nóvember 1944.
Hersveit hans var send á vígstöðvarnar í ferbúar árið eftir, en í apríl særðist hann í orrustu, var handtekinn og sendur í bandarískar stríðsfangabúðir sem varð honum væntanlega til lífs því ef hann hefði lent í klóm sovéska hersins hefði hann líkastil endað ævina í Síberíu því Sovétmenn tóku mjög hart á liðsmönnum SS og Waffen-SS.
Grass rekur þessa sögu skilmerkilega í bókinni en víða ber hann þó við minnisleysi eða fer fljótt yfir sögu. Það er til að mynda erfitt að trúa því að hann hafi aldrei hleypt af skoti, þó hersveit hans hafi ekki komist á vígstöðvarnar fyrr en stríðinu var nánast lokið.
Þegar hann lýsir bréfinu sem berst þar sem það er tilkynnt að hann sé kallaður til herþjónustu í Waffen-SS mann hann til að mynda lítið og nefni hve freistandi það sé að draga fram allskyns afsakanir og útskýringar, en vísar síðan í söguna af Harry Liebenau sem getið er hér að ofan.
Í ævisögunni segir Grass frá fyrirmyndum fjölda persóna sem við þekkjum úr verkum hans, aðallega úr Danzig-þríleiknum, Blikktrommunni, Ketti og mús og Hundaárum, en hann kynnir líka til sögunnar ýmsar persónur sem hann nýtti síðar, aukinheldur sem ýmsar uppákomur í bókum hans eiga sér stoð í raunveruleikanum.
Svo var það hermaðurinn guðhræddi sem var samfangi hans í haldi hjá bandaríska hernum í stríðslok, kýtti við hann um trúmál og heimspeki, spilaði við hann teningaspil og deildi með honum kúmenfræjum. Jósep hét hann, jafnaldri hans frá Bæjaralandi, hafði verið í Hitlersæskunni en ætlaði sér að verða kardínáli. Ætli það sé Joseph Alois Ratzinger? Grass segir það ekki beint, en hann gefur það óneitanlega sterklega í skyn.
Eftir að hafa verið í haldi Bandaríkjamanna og síðar Breta var Grass sleppt úr haldi enda var hann ekki talinn hæfur til erfiðisvinnu vegna sprengjubrots sem hann var, og ber enn, í vinstri öxlinni - fyrir vikið losnaði hann við það að vera sendur til að vinna í welskri kolanámu eins margir félagar hans. Hann lenti í basli við að eiga í sig og á, líkt og flestir samlandar hans um þessar mundir, og lýsir tilfinningum sínum svo eftir að honum var sleppt, eftir að hann fékk frelsi sem hann átti erfitt með að skilja og skilgreina:
"Notaði stefnulausi svartamarkaðsbraskarinn sem bar nafn mitt klæki sína sem afsökun til að komast hjá því að fara aftur í skóla og fresta lokaprófi sínu? Hugleiddi ég að gerast lærlingur og þá í hvaða iðn?
Saknaði ég föður míns, móður og systur svo mjög að ég var tíður gestur á skrifstofum sem birtu flóttamannalista?
Voru þrengingar mínar bundnar við mig einan eða náðu þær til heimsins alls? Nánar tiltekið, tók ég þátt í því sem þá hafði fengið heitið, gæsalappalaust, samsekt Þjóðverja? Getur verið að sorg mín hafi aðeins náð til þess að ég glataði húsi, heimili og fjölskyldu og einskis annars? Hvað syrgði ég annað sem glataðist?
Svör lauksins eru eftirfarandi, þó með eyðum:
Ég gerði engar tilraunir til að skrá mig í skóla í Köln og lærlingsstaða freistaði mín ekki.
Ég skilaði engum umsóknum til skráningarstofu sem hélt skrá yfir flóttamenn frá austurhluta landsins eða yfir þá sem misst höfðu heimili sín í loftárásum. Mynd móður minnar var skýr í huga mér, en ég saknaði hennar ekki svo mjög. Ég skrifaði engin saknaðarljóð.
Ég fann ekki til neinnar sektar."
Beim Häuten der Zwiebel lýkur um það leyti sem Blikktromman kemur út, enda sú bók vendipunktur í sögu hans, og lokaorð Grass eru þau að hann hafi hvorki lauk né löngun til að segja meira af ævi sinni - vill kannski forðast að fletta of mörgum lauklögum, enda er enginn kjarni þegar flett hefur verið öllum lögum lauksins.
(Minni myndin er af Joseph Alois Ratzinger sem síðar tók sér nafnið Benedictus, sextándi páfinn sem það gerði.)
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 7. apríl 2008
Rokkað í algleymi
Ein sú ágætasta hljómsveit sem ég hef séð í Músíktilraunum, og ég hef séð nærfellt þúsund hljómsveitir í þeirri keppni, er We Made God sem tók þátt í tilraununum 2006 og hrepptu þá þriðja sætið. Frammistaða sveitarinnar var frábær á tilraununum, sérstaklega úrslitakvöldið.
Frá þeim tíma hefur sveitin leikið á nokkrum tónleikum, hitað upp fyrir ýmsa og eins á Airwaves; á fínum tónleikum á Grand Rokk 2996 og síðan stóð hún sig frábærlega vel á Gauknum á Airwaves 2007. Meðfram þessu hefur We Made God unnið að sinni fyrstu breiðskífur og ýmislegt gengið á; upptökur gengið hægt, lög tekin upp aftur og síðan er hillti undir lokin þá var upptökunum stolið á Spáni í fyrrasumar.
Öll ég birtir þó upp upp síðir og síðastliðinn laugardag hélt We Made God útgáfutónleika frumraunarinnar, As We Sleep, í Gamla bókasafninu í Hafnarfirði.
Gamla bókasafnið er prýðilegur tónleikastaður, hljómur í salnum ágætur og aðstaða góð, þó ekkert sé sviðið, en það gefur að vísu fína stemmningu að standa í seilingarfjarlægð frá hljómsveitinni.
Gordon Riots hitaði upp, en þá ágætu sveit hef ég ekki séð á sviði síðan hún lenti í þriðja sæti sæti Músíktilrauna 2007.
Þó We made God hafi víða spilað og oft má segja að þetta hafi verið fyrstu eiginlegu tónleikar sveitarinnar, þ.e. tónleikar þar sem hún spilaði samfellt funna tónleikadagskrá og aðeins eigið efni.
Til að hita mannskapinn upp fengum við að heyra tvö ný lög, það fyrra sérdeilis eftirminnilegt, en þá var komið að As We Sleep sem spiluð var eins og hún lagði sig. þeir félagar voru eilítið óstyrkir til að byrja með en svo small allt saman - hljómsveit og áheyrendur gleymdu bæði stund og stað og úr urðu magnaðir og ógleymanlegir tónleikar. Í uppklapp fengum við svo "sjöunda lagið", aukalag á skífunni, sem hljómaði vel þó það sé ekki eins vel heppnað og annað á plötunni.
Frábærir tónleikar og vel sóttir hjá hljómsveit sem er tvímælalaust með efnilegustu sveitum hér á landi nú um stundir.
Björg Sveinsdóttir tók myndina.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 7. apríl 2008
Trommur og byssur
Næst fékkst færi að sjá Low í Nasa í nóvember 1999, en þá var skífan Things We Lost in the Fire í hávegum, þá nýútkomin, en með flutu svo frábær lög sem Smiths-slagarinn Last Night I Dreamt That Somebody Loved Me og Starfire og I Remember af Secret Name og svo jólalagið One Special Gift af jólaplötunni frábæru Christmas sem kom út um það leyti sem sveitin kom hingað.
Alan Sparhawk kom svo hingað 2003, enn um haust, og hélt sólótónleika í Listasafni Reykjavíkur með aðstoð liðsmanna Hudson Wayne og Kimono. Um það leyti glímdi hann við þunglyndi og í stað einkunnarorðanna Bíðið og vonið sem svo einkenndi fyrri skífur Low dró fyrir sólu sem heyra má á síðustu breiðskífur sveitarinnar Guns and Drums, sem kom út sl. vor og var svo mikil kúvending að gagnrýnendur vissu hvorki í þennan heim né annan. Ekki er bara að textarnir séu myrkir og dapurlegir, sungið er um stríðið hörmulega í Írak, heldur er lítið um hefðbundinn hljóðfæraleik, en þess meira af rafeindahljóðum, hvískri og braki.
Í þriðja sinn lék Low svo á Íslandi í Nasa, eins og áður er getið, sl. föstudagkvöld. Getur nærri að menn hafi beðið spenntir að sjá sveitina aftur því eins mátti búast við að hún træði upp með fartölvur í stað hljóðfæra miðað við síðustu skífu. Það var því ákveðinn léttir þegar þau mættu á svið með gítar, bassa og trommur, en Sparhawk nýtti sér líka tölvur eftir því sem honum þótti þurfa.
Fyrsta lag tónleikanna var hreint ótrúlega mögnuð útgáfa af Sandinista af Drums and Guns, rafeindahljóð og gítar úr hljóðsmala lögðu grunninn að hrífandi og um leið hrollvekjandi flutningi: "Where would you go if the gun fell in your hands? / Home to the kids or to sympathetic friends?"
Fleiri lög hljómuðu af Drums and Guns; Belarus, Dragonfly og Murderer svo dæmi séu tekin, frábærlega flutt og í talsvert frábrugðnum búningi en á plötunni, þó þau hafi svosem verið auðþekkjanleg flest. Alla jafna fannst mér meiri þungi og spenna í nýju lögunum og góðkunningjar af fyrri skífum stóðust nýju lögunum ekki snúning þó góð væru.
Undir lokin var glasaglaumur og skvaldur komið á það stig að spillti nokkuð fyrir, en álíka gerðist á Nasa-tónleikum Low 2001. Ef svo fer að Alan Sparhawk og Mimi Parker koma aftur hingað til lands þá legg ég til að þeim verði fenginn betri staður til að spila á, til að mynda Fríkirkjan - það yrðu magnaðir tónleikar.
Björg Sveinsdóttir tók myndirnar.
Tónlist | Breytt 8.4.2008 kl. 08:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 5. mars 2008
Skreytt og logið
Aftur á móti telst það íþrótt að kunna að færa í stílinn, að barna frásögn til að gera hana eftirminni- og skemmtilegri og allir góðir sögumenn búa yfir slíku í ríkum mæli, hvort sem þeir eru að skreyta sögur af öðrum eða þeim sjálfum. Það kemur líka ekki að sök - allir sem á hlýða vita væntanlega að inntak frásagnarinnar er satt þó að umbúðirnar, smáatriðin, séu login.
Það er alsiða að stjórnmálamenn og aðrar sjónvarpsstjörnur lappi upp á mannorð sitt í sjálfsævisögum og eins hefur það reynst ábatasamt ef ævisagan er harmsaga. Það sannaðist vissulega á James Frey sem skrifaði metsölubókina Mölbrotinn (A Million Little Pieces) fyrir nokkrum árum. Í bókinni segir Frey frá ömurlegri ævi, glímu upp á líf og dauða við fíkniefni og erfiða fangavist. Síðar kom í ljós að megnið af sögunni væri lygi, að Frey krítaði liðugt, þó að hann og útgefandi hans hafi kynnt bókina sem sannleik.
James Frey gerðist sekur um ýkjur og fékk að vonum bágt fyrir, gekk of langt í skreytninni, en Laura Albert gekk enn lengra þegar hún bjó til sögupersónuna Jeremiah Terminator" LeRoy / JT LeRoy, og skrifaði sjálfsævisögu" LeRoys, The Heart Is Deceitful Above All Things. Hlutskipti LeRoys var enn ömurlegra en Freys og svo ömurlegt reyndar að ekki er eftir hafandi á prenti í virðulegu dagblaði, en margir vildu lesa um það og lásu. Blekkingin var svo umfangsmikil að Albert fékk vinkonu sína til að þykjast vera LeRoy búin hárkollu og sólgleraugum og eignaðist þannig fullt af vinum", en upp komust svik um síðir og í dag vilja margir helst gleyma samskiptum sínum við LeRoy.
Álíka bar og við í vikunni þegar spurðist að ævisagan" Love and Consequences eftir Margaret B. Jones væri lygasaga. Bókin segir frá ungri stúlku, að hálfu indíáni og að hálfu hvít, sem elst upp hjá fósturforeldrum meðal blökkumanna í glæpahverfi í Los Angeles og byrjar snemma að selja eiturlyf með alvæpni. Sá er hængurinn á sögunni, sem fengið hafði fína dóma og þótti átakanleg, að höfundurinn er í raun hvít stúlka sem alin var upp við allsnægtir í friðsælu hverfi menntamanna og gekk í fyrirmyndarskóla þar sem kennd var önnur og heilsusamlegri iðja en selja krakk og skjóta fólk.
Fyrirtækið sem gaf bókina út, Riverhead Books, sem er í eigu Penguin-útgáfurisans, kynnti bókina af krafti og mikið var fjallað um höfundinn í helstu dagblöðum, þar á meðal í New York Times, sem má alla jafna ekki vamm sitt vita. Það var þó einmitt mikil grein í New York Times sem varð til þess að allt komst upp því þegar systir Margaret Seltzer sá hana kynnta í blaðinu sem rithöfundinn Margaret B. Jones og las um ömurlega æsku hennar gat hún ekki orða bundist og hafði samband við blaðið.
Í kjölfar þeirrar afhjúpunar hafa menn gagnrýnt höfundinn, nema hvað, en mest gagnrýni hefur þó beinst að útgefandanum og New York Times fyrir að hafa ekki kynnt sér uppruna höfundarins og fyrir að hafa látið nægja þær skýringar að allir sem staðfest gætu söguna væru ýmist dauðir, týndir eða tröllum gefnir og því yrðu þeir bara að trúa. Gleymum því ekki að New York Times gekk í vatnið með James Frey (líkt og aðrir fjölmiðlar reyndar) og eins með JT LeRoy og svo má líka rifja upp að Riverhead gerði einmitt útgáfusamning við James Frey á sínum tíma.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 5. mars 2008
Nígerískar fornminjar
Þó svo mörg þjóðarbrot séu í Nígeríu láta menn sé nægja að skipta landinu í þrjá meginhluta, Yoruba til vesturs, Ibo í austri og Hausa-Fulani í norðri. Spenna milli íbúa þessara þriggja landshluta hefur sett svip sinn á Nígeríu, meðal annars með illvígri borgarastyrjöld undir lok sjöunda áratugarins sem kostaði hundruð þúsunda lífið, aðallega úr hungri.
Líkt og fleiri ríki í Afríku sem losnuðu undan nýlendustjórn Evrópuríkja á sjöunda áratugnum var sjálfstæðið mikil lyftistöng fyrir tónlist og aðra menningu í Nígeríu, en í Nígeríu skipti borgarastyrjöldin, sem Íslendingar kalla Biafrastríðið, gríðarlegu máli í tónlistarsögu landsins.
Í upphafi síðustu aldar var jujutónlist nánast allsráðandi í Nígeríu, bræðingur af afríkum töktum, af pálmavínstónlist, kántrítónlist, kúbversk tónlist og ensk balltónlist. Jujutónlist er Yoruba-tónlist fyrst og fremst og naut mikilla vinsælda í vesturhluta landsins og í höfuðborginni Lagos (margir þekkja jujutónlist eflaust helst af plötum Sunny Ade).
Á sjötta áratugnum barst ný tónlistarstefna til landsins, highlife, enda gerði ganaíski hljómsveitarstjórinn og trompetleikarinn E.T. Mensah allt vitlaust í tónleikaferðum sínum um gervalla Vestur-Afríku, þar með talið Nígeríu. Fjölmargar hljómsveitir sneru sér að highlifetónlist og juju hvarf í skuggann um tíma.
Eins og getið er skiptist Nígería í þrjú meginsvæði og fyrstu árin eftir að landið fékk sjálfstæði 1960 stýrði því bandalag stærstu stjórnmálaflokkar Hausa og Ibo en Yoruba-menn sátu eftir á meðan Ibomenn komu sér vel fyrir í stjórnunarstöðum og náðu ítökum í helstu fyrirtækjum. um miðjan áratuginn færðist helstu stjórnmálaflokkur Yorubamanna í átt að miðju stjórnmálanna og í kjölfar kosninga 1965 myndaði hann stjórn með helsta flokki Hausamanna og ógnaði eðlilega ítökum og völdum Ibomanna. Þeir brugðust svo við að lýsa yfir sjálfstæði í austurhluta landsins, stofnuðu ríkið Biafra 6. júlí 1967. Hófst þá illvíg borgarastyrjöld sem lauk með algerum ósigri Ibomanna 13. janúar 1970.
Þessi átök höfðu mikil áhrif á tónlistarsögu Nígeríu því ekki var bara að þeir Ibomenn sem leikið höfðu highlife hurfu heim til austurhéraðanna, heldur varð það liður í aukinni þjóðarvitund Yorubamanna að jujutónlist sótti í sig veðrið að nýju. Fyrir vikið má segja að highlife hafi nánast horfið af sjónarsviðinu um tíma og bar reyndar ekki sitt barr eftir hörmungarnar.
Menn héldu þó áfram að spila highlife, en fyrir tilstilli manna eins og Fela Ransome Kuti, sem síðar tók sér nafnið Fela Anikulapo-Kuti, komu inn áhrif frá djass, soul og rokki, aukinheldur sem afrísku áhrifin styrktust enn frekar. Það kom líka fleira til; fram að þessu var það alsiða að hótel og helstu skemmtistaður "ættu" hljómsveitir, réðu yfir nafni þeirra, réðu hljómsveitarmeðlimi og ákváðu stefnuna sem sveitin skyldi taka. Nú voru komnir nýir tímar, ungir menn stofnuðu eigin hljómsveitir og spiluðu það sem þeim sýndist og starfræktu meira að segja eigin næturklúbba til að njóta frelsisins. Enn aðrir tónlistarmenn gengu skrefinu lengra í að nútímavæða tónlistina, þeir létu sér ekki nægja að skreyta highlife með rokkgíturum og fönki heldur sneru þeir sé alfarið að því að stæla diskó og rokksveitir frá Bretlandi og Bandaríkjunum.
Að þessu sögðu þá voru fjölmargir tónlistarmenn enn að fást við highlife og ýmis afbrigði þess. Fjölmargir tónlistarmenn í héruðunum austur af Lagos spiluðu highlife og tóku upp eins og heyra má á framúrskarandi safnskífu, Nigeria Special: Modern Highlife, Afro-Sounds & Nigerian Blues 1970-6, sem kom út fyrir stuttu.
Á skífunni, sem er reyndar tvær plötur í einu diskahulstri (líka hægt að fá hana á tveimur tvöföldum LP-plötum með frábærum hljómi) eru tuttugu og sex dæmi um það sem var á seyði á þessum árum. Sumt er nokkuð dæmigert highlife (og gamaldags á þeim árum), en í öðrum lögum hleypa menn á skeið, til að mynd í einu lagi Mono Mono þar sem highlife er kryddað með erkassatónlist og gítarstælum að hætti Jimi Hendrix.
Fyrirtækið Soundway gefur diskinn út, en hann er afrakstur fimm ára rannsókna eiganda útgáfunnar sem skilaði miklu safni tónlistar sem ekki hefur hljómað frá því hún var gefin út í lok sjöundaáratugarins. Eins og eigandinn, Miles Cleret, rekur söguna var helsta vandamálið við að ná tónlistinni saman að alla jafna voru útgáfufyrirtæki og hljóðver búin að henda frumupptökunum og eins var erfitt að finna heil eintök af smáskífum sem hægt væri að nota við endurútgáfu því alla jafna var illa hirt um tónlist sem menn voru almennt búnir að gleyma og að auki voru plöturnar oft spilaðar á lélegum tækjum þar sem menn notuðu stálnagla sem nál á plötuspilaranum.
Hvað sem því líður þá er hér komið frábært safn smámynda af því sem helst var á seyði utan sviðljóssins í Nígeríu á umbrotatímum í sögu þjóðarinnar, frábær samantekt sem eykur til muna skilning á merkri tónlistarsögu
Tónlist | Breytt s.d. kl. 09:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Tenglar
Vefgreinar
- Dont Legalize Drugs by Theodore Dalrymple, City Journal Spring 1997 Advocates have almost convinced Americans that legalization will remove most of the evil that drugs inflict on society. Dont believe them. City Journal - Spring 1997
Vefmiðlar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar