Miskunnsami Morðinginn

MorðingjarnirFyrir stuttu var ég á tónleikum í Nasa og gekk þar inn eftir pallinum hægra megin í húsinu á leið að hljómsveitaaðstöðunni. Ég var með símann á lofti, að skrifa tölvupóst, og gáði því ekki að mér, steig niður í efstu tröppu en hitti ekki betur en svo að ég flaug á hausinn og sneri mig illa í leiðinni.

Þar sem ég sat á gólfinu í rökkrinu bölvandi og reyndi að ljúka við tölvupóstinn kom Morðingi og stumraði yfir mér, aðrir létu sér fátt um finnast. Takk fyrir Haukur Viðar.

(Björg Sveinsdóttir tók myndina.)

1001 bók fyrir andlátið

1001 Books you must read before you dieFáir komast yfir það að lesa allar þær bækur sem gefnar eru út hér á landi á ári hverju og væntanlega langar engan til þess. Það er þó fyrst þegar menn átta sig hve mikið er gefið út af bókum í heiminum sem þeim fallast hendur; samkvæmt tölum frá UNESCO koma út um 800.000 titlar í þeim tíu löndum sem gefa mest út, Bretlandi, Bandaríkjunum, Kína, Þýskalandi, Japan, Spáni, Rússlandi, Ítalíu, Frakklandi og Hollandi (á listanum, sem byggist reyndar að nokkru á heldur gömlum upplýsingum, er Ísland í 29. sæti.

Til að nýta lestímann sem best er gott að leita til annarra, lesa tímarit sem fjalla um bækur, umsagnir í dagblöðum og bloggsíður, en þó helst að hlusta á það sem almennir lesendur segja, enda meta þeir bækur ekki eftir bókmenntafræðilegum dellukvörðum heldur eftir því eina sem skiptir máli: Var bókin skemmtileg eða ekki.

Ekki hef ég tölu á þeim bókum sem fjalla um bækur og þá helst hvaða bækur maður á að lesa. Eitt dæmi um slíka bók er doðranturinn 1001 bók sem maður ætti að lesa fyrir andlátið. Hér er reyndar ekki verið að vísa í 1001 bók um það hvernig eigi að gera upp liðinn ævitíma og búa sig undir lokaferðina, heldur bækur sem vert sé að lesa um ævina, 1001 úrvalsbók, ef svo má segja.

Það er vitanlega ákveðin skemmtun við að fletta slíkri bók og telja hvað maður er nú kominn langt (eða skammt) í menningarlegum þroska, en líka skemmtilegt að velta fyrir sér hvað vantar í slíka bók. Áberandi er til að mynda að þó talsvert sé af kvenrithöfundum í bókinni þá vantar sumar helstu konur í rithöfundastétt, til að mynda er Christinu Stead að engu getið (höfundur The Man Who Loved Children, meðal annars), sú stórmerkilega Ivy Compton-Burnett sést ekki heldur og ekkert eftir Floru Thompson, Edith Wharton (fyrst kvenna til að vinna Pulitzer-verðlaun fyrir The Age of Innocence), Beatrice Webb, Sigrid Undset og svo framvegis.

Í raun má endalaust bæta við í slíkan lista sem þennan; hvar eru Carlo Collodi (höfundur Gosa), Robertson Davies (einn helsti rithöfundur Kanada), Damon Runyon, Orhan Pamuk, Thomas M. Disch, Eduardo Mendoza, T.E. Lawrence, J.B. Priestley, Raymond Carver, Lewis Wallace, Nahgib Mahfouz, Zane Grey og svo má lengi, lengi telja.

Kvarðinn sem beitt er liggur ekki fyrir í inngangi að bókinni og því ekki hægt að meta hvort allri þeir framúrskarandi höfundar sem hér er getið hafi dottið út á tæknilegu atriði, en víst að menningarsögulegt mikilvægi þeirra var mikið þó ekki séu þeir miklir rithöfundar. Nefni sem dæmi í því tilliti mergjaðan stíl Damons Runyons og mikil áhrif bóka hans um bísa í New York, merkisritið Riders of the Purple Sage eftir Zane Grey sem skapaði erki-kúrekann, svipmyndir Edith Wharton af menningar- og hóglífi yfirstétta New York í upphafi 20. aldar og barnabækur Beatrice Webb sem fengu gríðarlega útbreiðslu (skrifaði sem Beatrice Potter).

Vitanlega er til grúi rithöfunda sem ætti heima í slíkri bók og bækurnar þyrftu að vera mun fleiri en 1001, en það er líka gaman að sjá hverjir komust þó inn. Mér er til að mynda spurn af hverju þurfum við að lesa sjö bækur eftir nasistann gamla Wyndham Lewis? Er ekki nóg að lesa The Apes of God og Tarr og láta þar við sitja? Mátti ekki skipta hinni drepleiðinlegu The Childermass út fyrir The Good Companions Priestleys (kom út um líkt leyti)? Af hverju eru níu (!) bækur eftir Graham Greene í bókinni? Er verið að hefna fyrir það að hann fékk aldrei Nóbelinn? Og að lokum: Hvers vegna eiga menn að eitra líf sitt með því að lesa níu bækur eftir Paul Auster og svo aðrar sjö eftir Don DeLillo? Er ekki betra að deyja áður en að því kemur?


Bestu tímar allra tíma

Haukur MorthensÍ viðtali við Þjóðviljann 24. október 1976 var Haukur Morthens spurður um tildrög þess að hann fór að gefa út sjálfur:

"Ég gerði það nú vegna þess að mér fannst það ekki skipta máli, hvort maður stæði í þessu sjálfur og léti plötuna standa undir kostnaði, því það hefur aldrei fengist neitt út úr plötuútgáfu hér. Ekki úr því að syngja inn á þær. Engin laun."

Og síðar í svarinu segir hann þetta: " - ég er ekki að horfa í aurinn, en það er bara það, hver fær peninginn? Á ég ekki að njóta góðs af því eins og einhver maður úti í bæ sem ég er að raula fyrir."

Þessi ummæli Hauks hefði eins getað fallið á síðustu mánuðum; þau gætu verið þrjátíu daga gömul, en ekki þrjátíu ára, því síðustu ár hefur það verið vinsælt umræðuefni hvort og þá hvernig bjarga eigi plötufyrirtækjunum. Málið er nefnilega það að varla er til eins óskilvirkur iðnaður og plötuútgáfa og lítill gróðabisness fyrir útgefendur og hvað þá fyrir listamennina.

Við getum tekið dæmi um vinsæla hljómsveit sem er á mála hjá íslensku útgáfufyrirtæki og með hefðbundinn útgáfusamning. Ef við segjum sem svo að plata sveitarinnar seljist mjög vel, til að mynda í 8.000 eintökum, má gera ráð fyrir að hljómsveitin fái út úr því um tvær milljónir sem skiptist svo niður eftir meðlimafjölda. Ef viðkomandi hljómsveit gefur út sjálf og nær sömu sölu yrði þessi tala talsvert hærri ef sama sala næst.

Víst eru í þessu fjölmargir óvissuþættir; getur sveitin náð niður upptökukostaði með því að taka plötuna að mestu upp heima í stofu eða í félagsheimilinu á Flúðum? Verða auglýsingar dýrari vegna þess að hún hefur ekki sömu samningsstöðu og stórfyrirtæki, eða ódýrari vegna þess að samskipti eru á persónulegri nótum? Myndi sveitarmenn vinna meira sjálfir og spara þannig ýmislegan kostnað? Fær hún sama aðgang að stórmörkuðum og sömu uppstillingu í plötuverslunum? og svo má lengi telja.

Ofangreind orð Hauks Morthens eiga ekki að öllu leyti eins vel við í dag og þau gerðu áður, ástandið er mun betra í dag hvað varðar réttindi listamanna og greiðslur til þeirra vegna plötuútgáfu, enda tíðkaðist víða á árum áður hálfgerð sjóræningjamennska í útgáfumálum, menn fengu lítið borgað eða ekki neitt, voru jafnvel ekki beðnir leyfis áður en tónlistar var gefin út og fengu engu um ráðið í hvaða búningi það var gert.

Á undanförnum árum hefur þeim fjölgað mikið sem gefa sjálfir út sína tónlist; af 151 plötu sem fjallað var um í Morgunblaðinu á síðasta ári voru 88 eigin útgáfa og stefni í álíka á þessu ári því af þeim 63 plötum sem teknar hafa verið til umfjöllunar hingað til eru 27 eigin útgáfa. Skýringarnar á því að hverju menn kjósa að gefa út sjálfir eru eðlilega fjölmargar. Oft er það eflaust vegna þess að engin fannst útgáfan, en æ oftar heyrir maður þá skýringu frá tónlistarmönnum  að þeim hafi þótt eðlilegast að gera þetta allt sjálfir, þeir eigi þá ekkert undir öðrum með þau mál, fái meira í sinn snúð af hverju seldu eintaki og eigi allan rétt sjálfir.

Fyrr í sumar var ég leiðbeinandi á námskeiði fyrir norræna tónlistarblaðamenn í Árósum. Það var fróðlegt að fá innsýn inn í það hvaða vandamál tónlistarblaðamenn glíma við á hinum Norðurlöndunum þó það hafi reyndar komið í ljós að það voru sömu vandamál og menn fást við hér á landi (nema hvað!). Einn dönsku blaðamannanna kom mér þó verulega á óvart er hann barmaði sér yfir því hve lífið væri orðið erfitt.

Hann lýsti því hvað það hefði verið þægilegt að mæta í vinnuna á hverjum mánudagsmorgni og þá beið hans kassi frá útgefendum með nýútkomnum og væntanlegum plötum sem hann gat svo tekið til kosta og umfjöllunar. "Nú flæðir þetta yfir mann," sagði hann mæddur, "og hvernig á maður að ná að fylgjast með öllu því sem gefið er út?"

Þetta þótti mér skondin ræða enda finnst mér sem sá tími sem nú er uppi sé besti tími allra tíma, í það minnsta þegar tónlist er annars vegar - það hefur aldrei verið auðveldara að nálgast tónlist hvort sem maður kaupir hana á plasti í eða sem niðurhal í plötu- og tónlistarverslunum á netinu. Einnig er hægt að nálgast milljónir ókeypis laga á netinu, til að mynda í gegnum MySpace þar sem þrjár milljónir tónlistarmanna bjóða fólki að hlusta, en einnig er hægt að sækja tugmilljónir ókeypis laga úr ýmsum áttum.

Að þessu sögðu hafði blaðamaðurinn danski nokkuð til síns máls; plötufyrirtækin hafa virkað eins og nokkurskonar sía, hafa helst gefið það út sem var gott og/eða söluvænlegt. Eins og áður hefur komið fram er hængurinn á því  fyrirkomulagi sá að engin leið hefur verið að sannreyna að þeir séu í raun að gefa út það besta, en ekki bara það sem þeim hentar að gefa út fyrir einhverjar sakir. Nú þegar við höfum frelsið til að kynna okkur málin sjálf kallar það á aðrar síur, aðra sem hafa tíma og þekkingu til að hlusta og meta og geta síðan miðlað þeim upplýsingum skammlaust. Útgefendur koma vitanlega þar að áfram, en einnig útvarpsmenn og tónlistarblaðamenn.

(Hluti úr þessum pistli birtist í Morgunblaðinu. Sverrir Vilhelmsson tók myndina á Hótel Borg í nóvember 1987.) 


Tölvupóstur til Falklandseyja

Steve ToltzFleyg urðu þau orð Halldórs Laxness að menn ættu að skrifa skáldsögur eins og væru þeir að semja símskeyti til Falklandseyja – orðið er dýrt! Hann beitti hnífnum líka óspart sjálfur, skar og tálgaði, stytti og stýfði, snyrti og snikkaði þar til tvö þúsund síður voru orðnar tvö hundurð og jafnvel minna. Það er kúnst og víst mættu fleiri tileinka sér þá kúnst; Paul Auster gerast smásagnahöfundur, Ólafur Jóhann skrifa vinjettur, Tom Wolfe skrifa ferskeytlur og Hallgrímur Helgason, tja, væri hann ekki fínn í málshætti?

Sumir höfundar gleyma sér líka við skrifin, týna sér í smáatriðum, klifa sífellt á sömu hugsun og eru ýmist of duglegir að búa til nýjar persónur eða ekki nógu duglegir við að drepa þær sem fyrir eru. Hvað á það til dæmis að þýða þegar Neal Stephenson skrifar fyrst Cryptonomicon upp á 918 síður og svo forleik hennar á 944+815+912 síðum (The Baroque Cycle: Quicksilver, The Confusion og The System of the World)? Mig þraut örendi á síðu 2.318 af 2.671. Ég klára hana í sumar. Eða ekki. Á borðinu hjá mér liggur svo næsta bók hans, Anathem, sem ég ætla líka að lesa í sumar, 935 síður.

Hvað sem því líður eru sumar bækur góðar fyrir orðaflauminn, gaman að stinga sér í hann og svamla dagsstund, eða nokkra daga ef út í það er farið. Hver myndi þannig treysta sér til að stytta Sacred Games eftir Vikram Chandra án þess að glata keimnum af Mumbay sem gegnsýrir bókina (915 síður)? Hver getur tálgað af Tom Jones eftir Henry Fielding á þess að spilla framvindu hennar (hvert einasta atvik í bókinni miðar frásögninni áfram – 981 síður). Sama má eiginlega segja um Gravity's Rainbow eftir Thomas Pynchon; þegar maður er loks búinn að þræla sér í gegnum hana, 760 síður, áttaði maður sig á því að hún er meistaraverk og þá aðallega fyrir orðbólguna, ruglið, subbuskapinn, stílleysið.

Oftar en ekki eru það ungir rithöfundar sem eiga svo erfitt með að hemja sig, kunna sér ekki læti, að úr verður doðrantur, „doorstopper“ segja enskumælandi. Þeir skrifa líka oft eins og þeir eigi lífið að leysa, fái aðeins þetta eina tækifæri til að koma öllu frá sér sem hefur ólgað í hausnum á þeim í ár eða áratugi. Það getur verið þreytandi að lesa slíkan texta, sjá til að mynda þá annars ágætu bók Special Topics in Calamity Physics eftir Marisha Pessl (528 síður) sem er eiginlega allt of löng, þó í henni séu snilldarsprettir. Það getur þó líka verið gaman að ungæðiskap og orðfimi og þar komum við loks að frumlaginu – nýrri skáldsögu, fyrstu skáldsögu, Ástralans Steve Tolzs sem heitir Fraction of the Whole, 710 síður og engu ofaukið.

Steve Toltz er á fertugsaldri, fæddur í Sidney, en hefur víða farið, búið og starfað í Montreal, Vancouver, New York, Barcelona og París, unnið sem myndatökumaður, handritshöfundur, símasölumaður, öryggisvörður, einkaspæjari og enskukennari.

Líkt og vill vera með rithöfunda var hann sífellt að skrifa frá barnsaldri, ljóð og hugleiðingar ýmsar en þrátt fyrir ýmsar atlögur að skáldsögum segir hann aldrei hafa komist nema nokkrar síður inn í þær þegar hann var búinn að fá leið á sögunni. Í viðtali við netmiðilinn BookBrowse segir hann að hann hafi ekki endilega langað til að verða rithöfundur þó hann hafi alltaf verið að skrifa, en eftir því sem láglaunadjobbunum fjölgaði á ferilskránni áttaði hann sig á því að líklega væru ritstörf eina vinnan sem hann gæti stundað skammlaust.

Fyrir rúmum fjórum árum komast hann svo vel af stað með skáldsögu þegar hann bjó úti í Barcelona og hélt dampi þau ár sem þurfti til að skrifa bókina. Hann segir reyndar að fyrsta árið hafi hann verið í tómu tjóni og endað í körfunni, enda kom í ljós eftir því sem honum miðaði áfram að hann var einfaldlega ekki eins góður og honum fannst þegar hann byrjaði á bókinni. „Það að skrifa skáldsögu gerir mann að rithöfundi,“ sagði hann í viðtali við BookPage fyrir stuttu og má til sanns vegar færa, það er eiginlega handverk sem menn læra af því að gera.

Toltz er iðinn við að vitna í aðra höfunda sem hann segir hafa haft áhrif á sig og á vefsetri hans, www.stevetoltz.com, mætir manni bunki af bókum eftir aðra höfunda, þeir eru í öndvegi á upphafssíðunni: Louis-Ferdinand Celine, John Fante (margar bækur), John Cheever, Henry Miller, Sherwood Anderson, Jorge Louis Borges, Emile Michel Cioran og Knut Hamsun (margar bækur), en einnig nefnir hann Woody Allen, Thomas Bernhard, Ralph Waldo Emerson, Júrí Lemertov og Raymond Chandler sem áhrifavalda.

Í áðurnefndu viðtali segist Toltz hafa velt því fyrir sér eitt sinn hvernig það sé að vera barn manns sem sífellt sé í sviðsljósinu, hvort sem það er vegna þess að viðkomandi sé hataður af öllum þorra manna eða dáður. Upp úr eim vangavelta varð þessi mikla bók, enda er sögumaður hennar, Jasper Dean, sonur manns sem er fyrst elskaður af Áströlum öllum, en síðan svo hataður að hann hrökklast úr landi.

Sagan er ekki svo flókin á yfirborðinu: Jasper Dean situr í fangaklefa og hefur lýsingu á föður sínum, Martin Dean, heimspekingi og draumóramanni, mannhatara sem á þá ósk heitasta að vera almenningi að gagni („lík hans mun aldrei finnast“ eru síðustu orð fyrsta kafla). Það segir sitt um söguna að Martin Dean er hataðasti maður ástralskrar sögu en Terry Dean hálfbróðir hans, siðblindur glæpamaður og ofbeldisseggur, ástmögur Ástrala. Martin á í stöðugum erfiðleikum í samskiptum við fólk, skilur það ekki og fólk skilur ekki hann; hugsanlega vegna þess að hann liggur í dái í fjögur ár og fjóra mánuði og kemst eiginlega aldrei í samband aftur.

Þrátt fyrir það fór hann víða og gerði margt, flest sérkennilegt eða ævintýraleg. Eins og Jasper rekur söguna var Martin þó enginn ævintýramaður, þvert á móti, hann lagði hart að sér til að vera venjulegur, en gat það ekki, hausinn á honum þvældist fyrir honum hvort sem hann var að vinna sem smygill, flóttamaður, þingmaður eða velgjörðarmaður mannsins á götunni.

Svo vindur fram sögunni og Martin Dean fer úr hverju óláninu í annað, allt sem hann gerir er dæmt til að mistakast, allt verður honum að ógæfu og enginn fær að kenna á því eins og hans nánustu. Saga hans er líka saga illmennisins bróður hans, Astrid óræðu sem er móðir Jaspers, andlitsins þungbúna sem grúfir yfir lífi Jaspers og lífi Astrid, Anouk og hins dularfulla Eddie með myndavélarnar sínar. Hver er það? Hverjum er ekki sama þegar maður er að lesa tölvupóst til Falklandseyja – engin lengdartakmörk á okkar tímum.

Á hverri síðu fer Toltz heljarstökk í málfari og hugmyndaauðgi, ryður út úr sér frumlegum setningum og óvenjulegum uppákomum – svona fjörlega skrifa bara þeir sem vita ekki að þeir eiga ekki að skrifa svona. Booker-verðlaunin? Ójá!

Næturlest til Lissabon

Pascal MercierRaimund Gregorius er kennari í svissneskum menntaskóla, öðrum fremri í sínu fagi, vinsæll og vel liðinn sérfræðingur í "dauðum" tungumálum, forngrísku og latínu og að auki sérfróður í fornaldarhebresku, þó hann sé óneitanlega hálf myglaður, svo hefur hann helgað sig fræðunum að hann hefur eiginlega gleymt að lifa lífinu, gleymt að upplifa hversdagslega hluti eins og fjölskyldu og félagslíf. Víst er hann enginn furðufugl og þó; í augum nemenda sinna, sem kalla hann Mundus, er hann stofnun en ekki manneskja, 

Morgun einn er hann á leið í vinnuna er hann hittir fyrir tilviljun portúgalska konu og hrífst svo af henni og tungumálinu að hann fer og kaupir fyrstu portúgölsku bókina sem hann kemst yfir hjá fornbókasala og áður en hann veit af, samdægurs, er hann á leið til Lissabon með næturlestinni, yfirgaf skólann, og líf sitt allt reyndar, án þess að kveðja kóng eða prest.

Bókin sem hann keypti var eftir portúgalskan lækni og ljóðskáld, Amadeu de Prado, og eftir að hafa lesið bókina verður Gregorius heltekinn af löngun til að fræðast um höfundinn. í Lissabon kemst hann svo að því að Prado er allur, lést úr heilablæðingu nokkrum dögum áður, en Gregorius heldur leitinni áfram og smám saman lýkst upp líf Prados fyrir honum um leið og hann fer að fleta síðunum í sinni eigin lífsbók.

Þetta er nokkurn veginn lýsing á söguþræðinum á nýrri bók svissneska heimspekingsins Pascal Merciers (sem heitir í raun Peter Bieri). Bókin, Night Train to Lisbon heitir hún upp á ensku, vakti mikla athygli er hún kom út í Þýskalandi og hefur einnig ver vel tekið víðar, selst í ríflega tveimur milljónum eintaka. Hún fellur í flokk bóka sem er á köflum frekar heimspeki- eða bókmenntalegar hugleiðingar og ná oftar en ekki milljónasölu; sjá til að mynda verk Umberto Ecos, Antonio Tabucchis, Carlos Ruiz Zafóns og Bernhard Schlinks. Í bókum þeirra er atburðarásin og spennan undirliggjandi, það gerist ekkert á yfirborðinu en undir niðri eru átök; menn takast á við hinstu rök tilverunnar og þroskast á glímunni.

Sumir hafa gagnrýnt bókina fyrir það að í henni gerist ekkert og víst hefði Mercier mátt vera gagnorðari. Það þó svo að það hversu hæg framvindan er í bókinni gerir hana skemmtilegri. Eini verulegi gallinn á henni er þó þýðingin enska sem er stirð.


Björgvin William

Úr viðtali við Björgvin Halldórsson, Morgunblaðið 12. júlí 2008:

Þú ert þekktur fyrir snögg tilsvör sem geta stundum verið ansi beitt. Hvernig verða þessar setningar til?

„Hver maður verður fyrir áhrifum af öðru fólki, umhverfi og bíómyndum. Ég hef alltaf verið hrifinn af gömlu bíómyndunum, þar sem ein setning er sögð sem skýrir allt þannig að ekki þarf að segja alla söguna. Svokallaðir „einlínungar“ eru í sérstöku uppáhaldi hjá mér. Ég hef dálæti á góðum tilsvörum. Mín tilsvör eru mörg stolin, stílfærð og alla vega og sum algjörlega heimasmíðuð. Svo þegar aðstæður skapast eða eitthvað kemur upp á þá lætur maður vaða. Maður reynir að setja aðstæður í eina setningu og málið er dautt. Flott!“

Úr Pride and Prejudice eftir Jan Austen, T. Egerton, 28. janúar 1813:

"You judge very properly," said Mr. Bennet, "and it is happy for you that you possess the talent of flattering with delicacy.  May I ask whether these pleasing attentions proceed from the impulse of the moment, or are the result of previous study?"

"They arise chiefly from what is passing at the time, and though I sometimes amuse myself with suggesting and arranging such little elegant compliments as may be adapted to ordinary occasions, I always wish to give them as unstudied an air as possible."


Pappírinn yfirgefinn

Henrici Cornelii AgrippæEngin listgrein er eins bundin miðlinum og skáldskapur; síðustu fimm þúsund árin eða svo hafa pappír og bókmenntir farið saman og gengur svo langt að árlega er haldin umbúðahátíð; 23. apríl hvert ár halda menn upp á dag bókarinnar (frá 1995 er það líka dagur höfundarréttar).

Pappír hefur vissulega reynst vel til að varðveita upplýsingar; í bókasafni mínu á ég til að mynda eitt lykilverka Henrici Cornelii Agrippæ ab Nettesheym (Heinrich Cornelius Agrippa) sem kom út í Köln 1584; hreint eintak og jafn læsilegt og það var fyrir 414 árum. Á öðrum stað geymi ég optical-disk sem ég vistaði gögn á fyrir tíu árum sem ekki er lengur hægt að lesa því búnaðurinn sem skrifaði gögnin er ekki lengur fáanlegur (nema með miklum tilkostnaði). Til viðbótar get ég ekki treyst því að diskurinn sé í lagi, þ.e. að ég geti lesið gögnin þó búnaður sé tiltækur.

Að þessu sögðu þá er varla ástæða til að halda upp á allt ritað mál; hver mun til að mynda hafa áhuga á að lesa bækur eftir Dan Brown árið 2508? Stór hluti af því sem gefið er út ár hvert, jafnvel obbinn, er nefnilega einnota bókmenntir, verk sem eru lesin í hraði og síðan aldrei lesin aftur, bækur sem deyja gamlar eftir stutta ævi eins og Bjarni Benediktsson frá Hofteigi lýsti skáldverkum Kristmanns Guðmundssonar (sem er flestum gleymdur í dag). Af hverju þurfa bókavinir framtíðarinnar að eiga til stafla af Kristmanni?

Í vesturheimi eru bókaútgefendur með böggum hildar yfir því uppátæki Amazon að setja á markað rafbókina Kindle að þeir geta ekki á heilum sér tekið - óttast að nú muni Amazon taka svo afgerandi forskot í sölu á pappírslausum bókum, rafrænum bókum, að ekki verði við neitt við ráðið. Í Bretlandi eru menn ekki síður óttaslegnir, enda er Amazon nú orðið stærsti bóksali Bretlands og þegar farið að beita útgefendur þrýstingi, neita að selja frá þeim bækur nema þeir bjóði þær á viðunandi heildsöluverði.

Allir þekkja eflaust hvernig hefur farið fyrir plötufyrirtækjum og þær píslir sem kvikmyndaframleiðendur þurfa nú að þola. Þegar bókin er annars vegar, og þá átt við innihaldið en ekki umbúðirnar, hafa bókaútgefendur treyst um of á formið, gleymt því að skáldverkið getur lifað utan pappírsins eins og það lifði góðu lífi í munnlegri geymd (eða fleygað á leirflísar)

Ég hef ekki tölu á bókunum í bókaskápunum sem þrengja að mér, þær skipta þúsundum, en ég veit að á hörðum disk við tölvuna, 8x12x1,5 sm að stærð, eru 20.387 reyfarar, afrakstur margra ára söfnunar (án þess þó að beinlínis sé verið að safna). Bækurnar eru velflestar á PDF-sniði, henta vel til að lesa í tölvu eða fartölvu og svo má snúa þeim á hvaða snið sem er með ókeypis hugbúnaði (calibre), til að mynda RB fyrir gömlu Rocket rafbókina, IMP fyrir nýrri rafbók, EBookwise 1150, eða í BBeB fyrir nýjustu græjuna, Sony Reader (sem getur reyndar birt PDF-skjöl).

Af þessum ríflega 20.000 bókum eru kannski ekki nema nokkur hundruð sem vert er að halda upp á, bækur sem maður á eftir að lesa aftur eða tímir ekki að henda, en það skiptir ekki svo miklu, með því að yfirgefa pappírinn eru að baki flest þau vandamál sem tengjast pappírsbókum.

Plötuútgefendum var kippt inn í nútímann heldur harkalega og kvikmyndafyrirtæki eru á sömu leið. Bókaútgefendur munu halda velli, enda veita þeir rithöfundum mikilvæga þjónustu sem trauðla verður fundin annars staðar. Heldur mun þó draga úr því að þeir haldi uppi norskum skógarhöggsmönnum, prentsmiðum í Kína, filippseyskum sjómönnum og íslenskum næturvörðum og ekki nema gott eitt um það að segja. Einu sinni voru lyftuverðir í öllum lyftum og enginn gat ímyndað sér að annar háttur yrði hafður á. Hvað eru þeir nú?

(Birtist í Lesbók Morgunblaðsins 12. júní sl.)

Hvað vita konur um rokk?

Dolly PartonÍ fáum listgreinum er eins mikill kynjamunur og rokkinu; það telst tíðindi ef hljómsveit er skipuð konum og konur eru í minnihluta þegar kemur að því að fjalla um tónlistina. Víst hefur konum meðal rokkkrítíkera fjölgað, til að mynda eru kynjahlutföll nánast jöfn hér á blaðinu hvað varðar rokkgagnrýni, en þrátt fyrir það er félagsskapur rokkblaðamanna karlaklúbbur.

Á námskeiði tónlistarblaðamanna í Árósum fyrir stuttu ræddu menn sérstaklega stöðu kvenna í rokkblaðamennsku, hvers vegna þær væru ekki fleiri og um leið hvort þær hefðu eitthvað fram að færa sem karlmenn hefðu ekki. Fyrirlesarar á námskeiðinu voru danska útvarpskonan Anya Mathilde Poulsen, sem skrifað hefur bók sem byggist á samtölum við tónlistarkonur, "Feminint Forstærket - syv samtaler med kvindelige musikere", Morten Michelsen, sem er prófessor við háskólann í Kaupmanahöfn og einn höfunda ritsins "Rock Criticism from the Beginning: Amusers, Bruisers & Cool-Headed Cruisers", sem fjallar um rokkblaðamennsku í gegnum tíðina, og Mone B. Riise, sem starfar hjá norska útvarpinu.

Í fyrirlestrunum kom fram að rokkkonur fá alla jafna aðra meðhöndlun í fjölmiðlum en rokkarar og sérstaklega sé það áberandi hve spurningar sem beint er til tónlistarkvenna snúist að miklu leyti um það hvers vegna þær hafi snúið sér að tónlist og hvort erfitt sé að vera kona í rokkheimi karla.

Þetta skýrist eðlilega að mestu af því hve sjaldséðar konur eru í rokkinu, en eykur varla áhuga þeirra á að hella sér í slaginn þegar öll viðtöl við þær snúast um aukaatriði í stað þess að ræða tónlistina og inntak hennar. Eins kom fram að þykir tónlistarkonum óþægilegt hve blaðamenn leggi mikla áherslu á að lýsa útliti þeirra og nefnd dæmi um það hve algengt væri að blaðamenn gerðu lítið úr Dolly Parton - spurningar og vangaveltur snerust að miklu leyti um vaxtarlag hennar ("ertu ekki að drepast í bakinu?"), en lítið væri fjallað um tónlistina, þó enginn frýi henni hæfileika á því sviði.

Síðustu ár hefur konum í rokkblaðamannastétt fjölgað og þeirri spurningu var varpað fram hvort það væri vegna þess að umfjöllun um tónlist væri orðin almennari og minni áhersla væri lögð á alfræðiþekkingarhefð rokkpælaranna. Eins var því haldið fram að umræða um tónlist myndi breytast í takt við fjölgun kvenna í gagnrýnenda- og rokkblaðamannastétt því smekkur þeirra væri alla jafnan ekki metinn jafn rétthár og karla og því væru þær ekki eins áfram um að halda honum fram, væru óöruggari með skoðanir sínar og ekki eins sannfærðar og karlarnir um að þær hefðu rétt fyrir sér.

Vel má vera að það sé rétt, en er það þá ekki hið besta mál? Eru verstu gagnrýnendurnir ekki þeir sem eru svo sannfærðir um að þeir hafi rétt fyrir sér að þeir ná ekki að koma til móts við listamanninn?

Kirkja og kynjaaðskilnaður

White Trade OnlyMjög þótti mér fróðleg umræða á BBC fyrir stuttu þar sem menn vörpuðu fram þeirri spurningu hvort við ættum að sætta okkur við það að trúarbrögð fælu í sér ójafnrétti, Is it ok for religion to enshrine inequality? (Undirliggjandi vitanlega spurningin: Hvað myndum við gera við stórfyrirtæki sem sýndu sömu kynjamismunun og kirkjur/moskur?)

Kveikjan að þessari spurningu var bréf sem 1.300 prestar í ensku biskupakirkjunni skrifuðu til kirkjuyfirvalda þar sem þeir lýstu því yfir að ef konum yrði veitt biskupstign myndu þeir yfirgefa kirkjuna og til vara að þeir þurfi ekki að lúta kennivaldi kvenbiskupa.

Nú þarf það í sjálfu sér ekki að koma á óvart að liðmenn í biskupakirkjunni séu andsnúnir konum, gleymum því ekki að hún er afkvæmi kaþólsku kirkjunnar, en fróðlegt þótti mér að hlusta á einn 1300-menninganna, prestinn Giles, að mig minnir, sem kynnti sig sem kaþólikka í ensku biskupakirkjunni (nú er ég ekki vel að mér í kirkjusögu, en í ljósi þess að á þessum kirkjum er bitamunur en ekki fjár, þykir mér líklegt að hans kennisetningar séu ekki langt frá dogma kaþólikka.

Giles fór um víðan völl í röksemdafærslu, var oft fyndinn, væntanlega án þess að ætla sér það, til að mynda þegar hann talaði um að það það að vilja verða prestur væri köllun, en konur fengju bara ekki slíka köllun.

Skemmtilegast af öllu þótti mér þó að heyra þau rök að guð hefði skapað karla og konur ólík og því ættu þau að vera ólík en jöfn, different but equal, eins og hann orðaði það. Sömu rök voru notuð af stjórnvöldum í mörgum suðurríkjum Bandaríkjanna á sjötta og sjöunda áratugnum til að rökstyðja af hverju kynþáttaaðskilnaður væri réttlætanlegur.

Gangið ekki á grasinu!

Gras10.000 áldósir segir Árni Johnsen og er ekki skemmt, nema hvað.

Hann getur þó ekki um 14.900 fermetra af grasi sem urðu fyrir átroðningi. Hræsnin í þessu náttúrupakki!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband