Lazarus snýr aftur

mut113-001-MFÁ tónleikum Nick Cave í Hótel Íslandi fyrir nokkrum árum var stemmningin á köflum líkt og á vakningarsamkomu, áheyrendur upp fullir af heilögum anda og geislaði af þeim náðin; þegar fyrstu hljómarnir af The Mercy Seat ómuðu tók ég eftir því að kona við hlið mér fór að gráta.

Iðulega grípa menn til samlíkinga úr gamla testamentinu þegar þeir lýsa Nick Cave, líkja honum veðurbarinn hálf-bilaðan spámann sem muldrar eitthvað sem trauðla verður skilið eða má eiginlega skilja hvernig sem er eins og allir góðir trúartextar eiga sammerkt. Vísast er þessi trúartenging til komin vegna þess hve Cave er sjálfur gjarn á að grípa til Biblíunnar við textagerð.

Á meðan Cave var þannig á leið til Helvítis, þegar hann hafði sett kúrsinn kyrfilega á gröfina með sprautuna í annarri hendinni og pyttluna í hinni var gamla testamentin honum hugleikið,eldur brennisteinn, eilíf pína í díkinu mikla sem logar af eldi og brennisteini. (Svo uppgötvaði hann Nýja Testamentið og fór að syngja öllu dægilegri lög og reyndarbragðdaufari.)

Lagið The Mercy Seat sem getið er hér að ofan sækir til að mynda líkingu í aðra Mósebók, þar sem tínduð eru ákvæði um helgihald: "Þú skalt og gjöra lok af skíru gulli; skal það vera hálf þriðja alin á lengd og hálf önnur alin á breidd. Og þú skalt gjöra tvo kerúba af gulli, af drifnu smíði skalt þú gjöra þá á hvorumtveggja loksendanum. Og lát annan kerúbinn vera á öðrum endanum, en hinn á hinum endanum; þú skalt gjöra kerúbana áfasta við lokið á báðum endum þess. En kerúbarnir skulu breiða út vængina uppi yfir, svo að þeir hylji lokið með vængjum sínum, og andlit þeirra snúa hvort í mót öðru; að lokinu skulu andlit kerúbanna snúa." (II. Mósebók, 25:17-20

Nick Cave leikur sér með þessa samlíkingu í laginu The Mercy Seat (á Tender Prey, 1988), les lýsinguna á því sem kallast lok í íslenskum biblíuútgáfum en snara má sem  "líknarsæti" í enskri útgáfu, en í laginu bíður fanginn þess að setjast í rafmagnsstólinn og losna frá lífsins þraut. (The Mercy Seat fékk svo á sig enn trúarlegri blæ þegar Johnny Cash tók það upp á American III, en það er önnur saga.)

Því er þetta rifjað upp hér að á morgun kemur út ný breiðskífa Nick Cave með því magnaða heiti Dig!!! Lazarus Dig!!! sem er tvímælalaust með helstu verkum hans undanfarin ár ef ekki áratugi. Á plötunni nýtur hann fulltingis félaga sinna í The Bad Seeds, sem eru þeirra náttúru að geta spilað allt, brugðið sér í allra kvikinda líki og hreytt út úr sér kraftmikið hráslagalegt rokk, kveinandi döprum blús, tilfinningaþrungnum ballöðum eða ljúfsárum fíngerðum mæðusöng. Tónlistin á plötunni er rokk, en önnur gerð rokks en finna mátti á Grinderman-skífu Cave sem kom út á síðasta ári - nú standa menn föstum fótum í gömlum tíma, blúskennt og þróttmikið.

Líklegt verður að teljast að allir þekki líkingu þá sem titill skífunnar vísar í og á vefsetri Caves segir hann einmitt að sagan af Lazarusi hafi verið sér hugleikin frá barnsaldri og þá ekki bara hve mikið kraftaverk þetta hafi verið heldur hafi hann líka mikið hugsað um það hvernig Lazarus hafi tekið þessu öllu saman, hvað honum hafi fundist um það að hafa verið ræstur til lífs. "Sem krakki fannst mér þetta heldur óhuggulegt," segir hann á vefsetrinu og bætir við að hann hafi ekki bara endurreist Lazarus heldur skotið honum fram á tíma til New York áttunda áratugarins; hinn nýi Lazarus vaknar til lífsins á Times torgi, lastamiðstöðin mikla þar sem drukkið og hórast var út í eitt.

Ég meina, hann bað aldrei um að verða vakinn upp frá dauðum
ég meina enginn bað hann um að yfirgefa drauma sína
hann endaði, líkt og svo margir, á götunni í New York
í súpuröð, dóphaus, þræll, síðan fangelsi, þá geðveikrahæli, loks gröfin.
Æ, aumingja Larry.

Í hálfan fjórða áratug hefur Nick Cave verið að fást við tónlist og þar af hefur hann starfað með The Bad Seeds með hléum í tæpan aldarfjórðung. Á þeim árum og áratugum hefur hann glímt við spurningar um tilgang eða tilgangsleysi, leitað svara hinstu rök tilverunnar, en Lazarus frá Betaníu getur ekki svarað; hann segir ekkert frá því sem beið hans, eftir honum er ekkert haft og við erum engu nær - æ, aumingja Larry með nályktina sína.

(Hluti úr þessari færslu birtist í Morgunblaðinu 2. mars.) 


Lýsing fræðings

Rakst á skemmtilega lýsingu á manni í nýrri bók Bernhard Schlinks, Homecoming, og fannst eins og hann væri að lýsa bókmenntafræðingi (að frátöldum vísunum í Marx og Lenín, núorðið nefna menn frekar Derrida og Foucault eða Barthes og Baudry):

Then somebody I did not know took the floor. At first I listened with only half an ear, but in the end I was fascinated: he spoke without saying anything. The sentences followed one another logically enough, and each one had a beginning, middle and end; the Marx and Lenin quotations had a certain ring to them, and the references he made, the issues he brought up seemed substantive. But there was no thesis, no idea behind what he said: it was neither approving nor critical. He assiduously avoided any statement, any pronouncement he might later be called to task for, he might later have to recant. It was a brand of speech obeying it's own strict laws, which had, in this context at least, evolved into an new art form.


Lifandi tunga

Það er til marks um styrk íslenskrar tungu hve málið tekur sífelldum stakkaskiptum, ný orð slást í hópinn og önnur breyta merkingu sinni. Orðasambönd eiga það líka til að breytast, fá nýja merkingu, eins og við sáum í sjónvarpinu í gærdag:

Að axla ábyrgð hefur þannig tekið á sig sömu merkingu og að yppta öxlum.


Er eitthvað að marka Amazon?

mass effectFræg er sagan af því er Jeff Bezos ákvað að stofna bókabúð á netinu; ekki var það vegna þess að hann hefði dálæti á bókum eða bókmenntum yfirleitt - hann sá einfaldlega möguleikana sem fólust í því að selja varning á netinu og valdi bækur vegna þess að þær hentuðu til slíkrar sölu. Sú ákvörðun hans hefur haft gríðarleg áhrif á sölu á músík vestan hafs og austan og þeir sem þetta lesa hafa væntanlega flestir keypt sér bók á Amazon eða þekkja einhvern sem það hefur gert. Þá kannast margir líka við það umsagnakerfi sem byggt hefur verið upp á Amazon þar sem lesendur skrifa um umsagnir bók þá sem maður er að skoða þá stundina, mæla með henni eða ekki og benda kannski á aðrar bækur sé eru betri / síðri / jafn góðar. Þar er kominn vísir að afgreiðslumanninum í bókabúðinni sem alltaf var búinn að lesa bestu bækurnar eða vissi í það minnsta hvað þær hétu, gat ráðlagt manni eftir því hvað maður las síðast og þar fram eftir götunum. Eða hvað?

Fyrir stuttu gerðist það vestur í Amríku að rithöfundur kom sem gestur í sjónvarpsþátt og tjáði sig um eitthvað sem hann hafði ekkert vit á. Nú er það alsiða víða um heim að rithöfundar geri slíkt, ekki síst hér á landi, en svo vildi til að rithöfundurinn, Cooper Lawrence, sem skrifar sjálfshjálparbækur, lét þau orð falla um tölvuleikinn Mass Effect að hann væri dæmigerður karlaleikur sem hlutgerði konur og hefði sem kynlífsleikföng. Nú er það svo að leikurinn, sem er vísindasagnaævintýri, snýst um allt annað en kynlíf, það kemur varla fyrir í honum, og hægt að spila hann hvort sem kona eða karl. Því tóku þeir sem spila leikinn, hálf önnur milljón manna, umsögninni illa og voru fljótir að svara fyrir sig.

cooper lawrenceLawrence var í sjónvarpsþættinum sem getið er meðal annars til að kynna nýja bók sína, The Cult of Perfection, sem er einmitt til sölu á Amazon. Eins og hendi væri veifað tóku hundruð manna að skrifa "umsagnir" um bókina og allar neikvæðar. Í New York Times kemur fram að skömmu eftir ummælin, sem Lawrence hefur reyndar beðist afsökunar á (og viðurkennt að hún vissi ekkert um hvað hún var að tala), voru komnar 472 umsagnir um bókina og af þeim 412 með lægstu einkunn sem hægt er að gefa, eina stjörnu, og 48 gáfu bókinni tvær stjörnur. Að auki var búið að hengja við bókina ýmis lykilorð, sem eiga að hjálpa fólki við leit að bókum, og þau voru ekki af veri endanum (fjöldi þeirra sem hengdu þau við í sviga): óupplýst (1444), rusl (1172), hræsni (1136), hræsnari (1099) og svo má telja. Alls eru nú 884 orð tengd við bókina þannig að sá sem leitar til að mynda eftir lykilorðunum "yfirborðskennt", "klám", "versta bók allra tíma", "peningasóun", "illa skrifuð" eða "dýrahneigð". svo dæmi séu tekin, myndi finna bók Cooper Lawrence.

Amazon er reyndar búið að hreinsa út tölvuvert af umsögnum um bókina, tók til að mynda allar umsagnir sem voru augljóslega eftir þá sem ekki höfðu lesið bókina, en eftir stendur 51 umsögn; ein með fjórar stjörnur, sjö með tvær og 43 með eina (þess má geta að 1.361 hefur lýst ánægju sinni með tveggja stjörnu umsögnina, og 1.229 með vinsælasta einnar stjörnu dóminn). Bók Lawrence er nú í 426.891. sæti á sölulista Amazon og hefur lækkað um 80.000 sæti í vikunni.

Þetta segir eðlilega sitt um umsagnirnar sem fylgja bókum á Amazon, þeim er ekki alltaf treystandi (frekar en sumum afgreiðslumönnum í bókabúðum sjálfsagt). Það kemur í sjálfu sér ekki á óvart, enda ótal dæmi um að menn skrifi umsagnir um bækur með rýting í erminni eða í bakinu. Eins hafa höfundar verið staðnir að því að skrifa jákvæðar umsagnir um sjálfa sig, útgefendur um bækur sem þeir gefa út og svo má telja.

Amazon hefur brugðist við þessu að vissu leyti; nú gefa menn umsögninni einkunn (þó það sé ekki alltaf að marka eins sjá má í dæminu hér fyrir ofan) og fyrir vikið ættu góðir (les: vandaðir) gagnrýnendur að njóta meiri virðingar. Þegar litið er á þann hóp gagnrýnenda sem afkastamestir eru og því ofarlega á gagnrýnendalista Amazon, kemur sitthvað sérkennilegt í ljós.

Slagurinn um að komast á toppinn hófst eiginlega um leið og kerfinu var komið á laggirnar fyrir rúmum sjö árum og gekk á ýmsu (algengt var að menn stálu umsögnum af bloggsíðum og úr blöðum, breyttu lítillega og settu inn sem sínar eigin). Enginn hefur náð að skáka Harriet Klausner sem er nú í efsta sæti á gagnrýnendalistanum og hefur verið frá upphafi; bókavörður frá Pennsylvaníu sem segist vera svo hraðlæs að hún komist yfir tvær bækur á dag. Hún gerir reyndar gott betur því hún skrifar líka um þessar tvær bækur og ríflega það; miðað við umsagnirnar sem birtar eru undir hennar nafni á Amazon, 15.584 talsins, skrifar hún um 40 bækur á viku.

Aðrir á topplistanum eru álíka afkastamiklir, sá í öðru sæti hefur til að mynda skrifað um 6.666 bækur, sem gerir þó ekki nema tuttugu bækur á viku, og svo má telja. Ekki er þetta til að auka traust manna á umsögnum á Amazon, eða hvað sýnist þér?

Svo er það aftur annað mál og síst skemmtilegra hvernig þeir svo skrifa sem á annað borð setja inn umsagnir um bækur. Iðulega verður manni gramt í geði við að lesa umsögn um bók þar sem veður uppi misskilningur og vanþekking en einnig er oft hægt að skella uppúr yfir gagnrýninni, ekki síst þegar maður er eiginlega sammála gagnrýnandanum án þess þó að vilja segja það upphátt.

Í góðri samantekt á vefsetri The Morning News tekur Matthew Baldwin saman nokkur dæmi um bækur sem fengið hafa eina stjörnu í umsögn á Amazon, en eru þó á nýlegum lista Time yfir 100 bestu skáldsögur sem ritaðar hafa verið á enska tungu frá 1923 til okkar daga. Nú er það svo að slíkir listar byggjast á smekk þeirra sem taka þá saman, en engu að síður geta menn væntanlega sammælst um það að allar bækur á slíkum gagnrýnendalistum hljóti að vera framúrskarandi eða þar um bil. Þrátt fyrir það telja sumir gagnrýnendur að Bjargvætturinn í grasinu, Á hverfanda hveli og Þrúgur reiðinnar séu ekki betri en svo að þeim hæfi ein stjarna. Á stundum rökstyðja þeir mál sitt reyndar skemmtilega og stundum svo vel að maður er eiginlega sammála. Nokkur dæmi:

Hringadrottins saga e. Tolkien: "Ekki er hægt að lesa bókina vegna ofnotkunar atviksorða."

Gaukshreiðrið e. Ken Kesey: "Þetta er kannski bók fyrir þá sem hafa áhuga á geðveikum"

The Sound and the Fury e. Faulkner: "Þessi bók er eins og vanþakklát kærasta. Maður gerir sitt besta til að skilja hana og fær ekkert útúr því."

Tropic of Cancer e. Henry Miller: "Þetta er ein versta bók sem ég hef lesið. Ég komst ekki lengra en að síðu 3 eða 4."

(Um Time listann má svo endalaust deila; hvað er The French Lieutenant's Woman eftir Fowles að gera þarna? Nú eða The Lion, The Witch and the Wardrobe eftir C.S. Lewis? Aftur á móti lýsi ég ángægju minni með að á honum séu bækur eins og Ubik eftir Philip K. Dick, The Sot-Weed Factor eftir John Barth og ekki síst The Man Who Loved Children eftir Christina Stead, enda eiga menn til að gleyma henni.)


Ekkert að óttast með Exista

Götuhátíð í PtujÉg sé það að menn hafa áhyggjur af eignasafni Exista og nægir að vísa til fréttar í Morgunblaðinu í dag þar sem skýrt er frá því mati sænska bankans SEB Enskilda að verðmæti eigna Exista nemi nú um 485 milljörðum króna en skuldir félagsins séu 534 milljarðar. "Miðað við eignastöðuna segir bankinn að ekki þurfi nema 7,5% verðfall á eignum Exista til að eigið fé félagsins verði uppurið," segir í fréttinni. Að mínu viti er þó óþarfi að vera með áhyggjur - Exista-menn kunna fótum sínum forráð eins og sagan hefur sannað.

Í október síðastliðnum bjuggust menn til að mynda við því að tap Exista á þriðja ársfjórðungi 2007 yrði allt að tíu milljarðar, en annað kom á daginn - hagnaðurinn var 676 milljónir króna. Skýringin á þessum óvænta hagnaði var að félagið uppfærði virði á óskráðum eignum um 5,6 milljarða króna. Í frétt Morgunblaðsins 27. október sagði svo:

"Á kynningarfundi félagsins í gærmorgun kom fram að um er að ræða fjárfestingu sem Exista réðst í í A-Evrópu fyrir um 18 mánuðum, í félagi við alþjóðlega fjárfestingarbankann Lehman Brothers. Ekki voru gefnar frekari skýringar á þessu en "vegna samkeppnisástæðna"."

Einn eigenda hlutar í Exista sem ég ræddi við í nóvemberbyrjun sagði mér að hann hefði árangurslaust reynt að komast að því hvaða austur-evrópska fyrirtæki þetta væri sem hefði verið svo vanmetið í eignasafni Exista, en sagðist jafnframt hafa glaðst yfir því að hlutur hans í fyrirtækinu hafi hækkað við þessar tilfærslur (fór úr 31,10 í 33,25, er 13,26 þegar þetta er skrifað). Hann lýsti þessu svo: "Ég er viss um að þetta hefur verið einhvernveginn svona: Sveittir menn sitja yfir brunarústunum og halda um höfuð sér þegar einn þeirra segir: Hvað með bakaríið sem við keyptum í Riga? Getum við ekki metið það upp á nýtt? Heyrðu, segir annar, algjör snilld! Hvað vantar okkur mikið ... ?"

Eigendur Exista hafa áður sýnt hugkvæmni í reikningsfærslum, til að mynda þegar eigið fé Exista var aukið um ríflega 48,5 milljarða á fyrsta ársfjórðungi 2007 meðal annars með 15% hlutdeild í söluhagnaði Sampo sem Exista fékk þó aldrei krónu skv. frétt Morgunblaðsins í dag. Á næstu dögum, jafnvel strax í dag, munu Exista-menn því skyndilega eftir þjóðbúningasafninu í Ptuj og gríðarlegum vaxtarmöguleikum þess. Það er stórlega vanmetin eign og verður að leiðrétta verðmat á eignasafninu til samræmis, þó ekki verði getið um hvað búi að baki "vegna samkeppnisástæðna". 

Myndin sýnir stjórnarmenn Exista á götuhátíð í Ptuj í Slóveníu.

Nautgriparán í Ulster

Írskur herSvo uppteknir sem við erum sagnaarfi okkar gleymum við því iðulega að aðrar þjóðir eiga sinn arf síst ómerkari. Írar eru þannig auðugir að gömlum sögum, en þær eru reyndar margar öllu ævintýralegri en Íslendingasögur; minna eina helst á riddarasögur á við þær sem finna má í Fornaldarsögum Norðurlanda sem Forni gaf út á fimmta áratug síðustu aldar. Sjá og sagnir af Colm Cille sem Halldór Laxness nýtti við smíði Kólumkilla í Sjálfstæðu fólki.*

Meðal merkustu sagna Íra er þær sem segja frá hetjunni Cú Chulainn, þar helst Táin Bó Cúailnge sem kom út hjá Penguin í nýrri og einkar skemmtilegri þýðingu Ciarans Carsons sl. haust.

Táin Bó Cúailnge hafa menn ýmist snarað sem kúarekstur Coooleys eða Cooley nautgriparánið en Ciaran Carson leiðir rök að því að eins mætti snara heitinu sem sagnabálkur á skinni. Heiti bókatinnar var lengsat Táin, en í frægri útgáfu á verkinu í þýðingu Thomas Kinsella frá 1969 skeytti Kinsella ákveðnum greini framan við og sá siður hefur verið haldinn upp frá því. Myndir í þeirri bók teiknaði Louis de Brocquy og ein af myndum hans, sem fengin er að láni hjá Wikipedia, skreytir þessa færslu.

Textinn að Táin Bó Cúailnge sem almennt er stuðst við er settur saman úr tveimur textabrotum sem hafa varðveist. Textinn er ekki samfelldur, eins og sjá má á þýðingunum sem út hafa komið, enda telja menn að upprunalegt verk sé nokkuð eldra og þau brot sem til eru séu sett saman úr ýmsum afbrigðum, sumum jafnvel frá áttundu öld sem hafi því lifað í munnlegri geymd í einhver hundruð ára.

Táin segir frá því er þau eiga tal saman Medb drottning og Ailill konungur Connacht á Vestur-Írlandi. Þau eru að metast um auðævi sín (hún segist meðal annars hafa svo marga menn undir vopnum (þrjú þúsund hermenn hafði hún og fyrir hvern þeirra hafði hún tíu til og fyrir hvern þeirra níu til o.s.frv.) að nam  40.478.703.000 manns, en það voru væntanlega ýkjur). Eftir meting þeirra á milli kemur í ljós að það eina sem Ailill hefur fram fyrir Medb er geysi frjósamt risavaxið naut, Finnbhennach, sem fæddist reyndar í nautgripahjörð hennar en kærði sig ekki um að vera í eigu konu og kom sér því yfir í hjarðir Ailills. Medb finnst þetta ótækt og ákveður að komast yfir nautið mikla Donn Cuailnge frá Cooley með góðu eða illu.

Ekki tekst það með góðu og hún safnar því her manna og heldur til Ulster, sem er í dag Norður-Írland, að sækja nautið. Það vill svo til að allir karlar í Ulster eru ófærir um að berjast vegna bölvunar sem lögð var á þá löngu áður. (Crunniuc mac Agnomain óðalsbóndi í Ulster þvingaði Mache konu sína til að þreyja kapp við hesta konungs þó hún væri komin á steypirinn. Hún rann skeiðið nauðug en átti tvíbura á síðustu metrunum og orgaði þá að allir sem heyrðu hróp hennar myndu þjást af fæðingahríðum þegar verst stæði á í fimm daga og fjórar nætur. Svo var í níu ættliði.)

Einn Ulstermaður er undanskilin álögunum, hetjan Cú Chulainn (stundum ritað Cúchulainn), sautján ára gamall, og hann tekur að sér að tefja fyrir hernum með hreystiverkum og klækjum á meðan landar hans eru ófærir um að verja land sitt. Fyrir vikið er stór hluti Táin frásögn af hetjudáðum hans og þar er af nógu að taka því hann bíta engin vopn og hver Connacht-kappinn af öðrum fellur í bardaga við Cú Chulainn. Þar hjálpar vitanlega til að heiður krefst þess að ekki fari nema ein maður gegn honum í einu.

Á endanum kemst Medb yfir nautið Donn Cuailnge og flytur það með sér til Connacht en Finnbhennach kann því illa og ræðst þegar til atlögu við Donn Cuailnge. Síðarnefnda nautið hefur betur í orrahríðinni og drepur Finnbhennach, en svo er af því dregið að það gefur líka upp öndina. Í kjölfarið semja þau frið Medb og Ulstermenn.

Til eru fjórar þýðingar af Táin, en einnig hafa menn sótt innblástur í söguna og skrifað upp úr henni skáldsögur og samið tónlist; sjá til að mynda Táin með þeirri ágætu hljómsveit Horslips og kom út 1973 og samnefnda EP plötu The Decemberists sem kom út þrjátíu árum síðar.

Hluti af texta Táin er fenginn úr Leinster-bókinni sem skrásett var í Leinster-klaustri. Sá sem skráði hefur viljað hafa vaðið fyrir neðan sig því þó bókin sé skráð á fornírsku bætir hann við smá texta á latínu síðast:

En ég, sem ritað hef þessa frásögn eða réttara sagt ævintýrasögu, legg engan trúnað á þau atvik sem í henni er lýst. Því sumt í henni er klækir djöfla, annað skáldskaparórar, sumt líklegt en annað ólíklegt og enn annað er ætlað kjánum. 


* "Íslenskar bækur skýra frá því, að hér á landi hafi snemma dvalist vestrænir menn og skilið eftir sig krossa, klukkur og aðra þvílíka gripi, sem notaðir eru til galdurs. Í latneskum heimildum eru þeir menn nafngreindir sem siglt hafi hingað af vestrænum löndum á öndverðum dögum páfadómsins. Hét þeirra fyrirliði Kólumkilli hinn írski, særíngamaður mikill. Í þá daga voru hér landgæði með afbrigðum á Íslandi. En þá er norrænir menn settust hér að, flýðu hinir vestrænu galdursmenn landið, og telja fornrit að Kólumkilli hafi í hefndarskyni lagt á þjóð þá hina nýu að hún skyldi í þessu landi aldrei þrífast, og fleira í þeim anda, sem síðar hefur mjög þótt gánga eftir. Laungu síðar snerust norrænir menn á Íslandi frá réttum sið og hneigðust að töfrum óskyldra þjóðflokka. Var þá öllu snúið öfugt á Íslandi, guðir norrænna manna hafðir að spotti, en nýir uppteknir og dýrlíngar, sumir af Austurlöndum, aðrir af Vesturlöndum. Segir sagan að þá hafi Kólumkilla verið reist kirkja í þeim dal er síðar stóð bærinn Albogastaðir í Heiði."

(Sjálfstætt fólk e. Halldór Laxness, Helgafell 1934.)

Glæponagróska á Ítalíu

EndGamesÞað er góð brella hjá glæpasagnahöfundi að láta bækur sínar gerast í spennandi og helst óvenjulegu umhverfi. Það búum við Íslendingar svo vel að eiga land, borgir og bæi sem fáir þekkja, en útlendir höfundar beita öðrum brögðum, eins og til að mynda að láta söguna gerast annars staðar, í öðru landi, sem hægt er að gæða dulúð, tja, eins og til að mynda Ítalíu. Ekki gerir það eftirleikinn erfiðari að fá bókmenntaminni eru kunnuglegri en ítalskir glæponar.

Ítalskir glæpasagnahöfundar eru legíó, nema hvað, og sumir býsna bókmenntalegir. Þannig sló Umberto Eco í gegn með glæpasögu, ekki satt?, og eins hefur sá mæti rithöfundur Antonio Tabucchi skrifað glæpasögur og eins Leonardo Sciascia og Andrea Camilleri, sem skrifar um Montalbano lögregluforingja, og Massimo Carlotto, nýstirnið á þessu sviði. Svo eru fjölmargir höfundar frá öðrum löndum sem skrifa bækur um ítalska spæjara og lögregluforingja, til að mynda Donna Leon sem segir frá ævintýrum feneyska lögregluforingjans Guidos Brunettis, en hún er bandarísk, Magdalen Nabb, sem var ensk kona sem fluttist í Flórens og skrifaði glæpasögur sem gerast í þeirri borg og svo Michael Dibdin, sem skrifaði bækur um lögregluforingjann sérlundaða Aurelio Zen, en Dibdin lést skyndilega fyrir tæpu ári og síðasta bókin um Zen kom út fyrir stuttu.

Fyrsta bókin um Zen kom út 1988 og vakti þegar hrifningu, enda er hann persóna sem flestir falla yfir, lævís og þrjóskur, strangheiðarlegur en beitir brögðum þegar við á og með óhemju sterka réttlætiskennd, sem hann lætur þó ekki alltaf þvælast fyrir. Alls urðu bækurnar ellefu þar sem Zen kemur við sögu og Dibdin var einmitt rétt búinn að koma elleftu bókinni til útgefanda þegar hann lést eftir stutt en snörp veikindi.

Bækurnar um Zen eru frábrugðnar flestum glæpasögum um ítalska lögregluforingja (eða einkaspæjara) í því að þær gerast eiginlega um alla Ítalíu. Sögusvið fyrstu bókarinnar er Perugia, þar sem Dibdin bjó um tíma, en svo fer Zen um víðan völl, til Feneyja, Bologna og Rómar og lendir meira að segja á Íslandi í einni bókinni, þó atburðarásin það sé óneitanlega nokkuð sérkennileg í augum íslenskra lesenda.

Í síðustu bókunum er Zen aftur á móti staddur á Sikiley, nóg af glæpahyski þar, og meira að segja mátti skilja eina söguna, Blood Rain, sem kom út 1999, svo að mafíósar hefðu myrt lögregluforingjann sem var þeim svo mikill þyrnir í auga. Annað kom þó á daginn, því Zen sneri aftur þrem árum síðar og er sprelllifandi í síðustu bókinni, End Games.

Bækur Dibdins og annarra höfunda sem getið er hér að ofan eru að mörgu leyti eins og ferðabækur, margar lýsa mannlífi og menningu, byggingum og landslagi og matargerðarlist af svo mikilli rómantík að lesendur dauðlangar til að fara á staðinn, ganga sömu götur og Brunetti lögregluforingi eða sitja á veitingahúsi í breiskjuhita hádegisins og borða sikileyskan bændamat, einfaldan og bragðmikinn. Það umhverfi sem Dibdin lýsir er þó ekki alltaf kræsilegt; í bókum sínum lýsir hann skuggahliðum ítalsks samfélags, spillingar og siðblindu sem grasseraði í skjóli kristilegra demókrata og grasserar enn. Kannski ekki svo spennandi áfangastaður þegar grannt er skoðað.

(Hluti af þessari færslu birtist í Morgunblaðinu 23. janúar.) 


Hvert fóru allir?

theworldwithoutusBókin The World Without Us eftir Alan Weisman vakti mikla athygli vestan hafs og austan á síðasta ári enda fjallar hún um mál sem mörgum er hugleikið, en á nýstárlegan hátt. Bókin byggir nefnilega á þeirri einföldu spurningu: Hvernig yrði líf á jörðinni ef mannkynið gufaði upp? Hann leitar víða svara við spurningu sinni, heimsækir frumstæðan ættbálk indíána á bökkum Amason-fljóts, skoða neðanjarðarborg í Tyrklandi, fer á hnotskóg í síðasta stórskógi Evrópu, kafar í hákarlavöðu við Suðureyjakóralrif, gengur eftir varðstöðvum á landamærum Kóreuríkjanna, klífur fjöll í Afríku og svo má telja. Fyrir þá sem nenna ekki að lesa lengra þá er svarið alltaf það sama: heimurinn hefði það betra án okkar, en það kemur kannski ekki á óvart

Bókin er ekki bara fróðleg fyrir vangavelturnar um það hvernig heiminum reiði af án okkar, heldur eru í honum líka fjölmargar skemmtilegar staðreyndir um heiminn eins og hann er, sumt sem verður til þess að mann langar að heyra meira og skoða meira. Það er til að mynda mjög skemmtilegt að lesa um Panamaskurðinn og tilurð hans, vangaveltur um upphaf mannkyns og hvernig það breiddist um jörðina, hvað varð um stórvaxin spendýr í Norður-Ameríku og fróðlegt þótti mér að lesa um það að einn mesti mengunarvaldur okkar tíma er fegurðarsmyrsl ýmiskonar (í þeim eru örsmáar plastörður sem rata í smádýr í sjónum og drepa þau smám saman).

Alan Weisman hefur skrifað greinar í ýmis blöð og tímarit vestan hafs: Harpers, tímarit New York Times og Atlantic meðal annars. Ein af þeim greinum sem hann skrifaði var um það hvernig dýralíf tók því fagnandi þegar menn hrökkluðust undan Tsjernobyl-kjarnorkuslysinu - í nágrenni kjarnakljúfsins, sem enn er lífshættulegur og verður væntanlega í hundruð eða þúsundir ára, blómstrar dýralíf og smám saman brýtur náttúran niður allar mannvistarmenjar. Í kjölfar þeirra greinar var hann beðinn að skrifa grein um það ef allt mannkyn hyrfi á brott og sú grein endaði sem bókin sem hér er gerð að umtalsefni.

Ef mannkyn allt hyrfi skyndilega væri það ekki í fyrsta sinn sem ráðandi lífform á jörðinni stigi inn í eilífðina - gleymum því ekki að það tímaskeið sem nú er er þriðja tilraun til lífs á jörðinni - fyrst var það fornlífsöld sem iðaði af lífi þar til það eyddist nánast alveg á skömmum tíma (95% lífs á jörðinni hurfu í hamförum), síðan miðlífsöld sem endaði líka með látum og loks nýlífsöld sem við lifum. Hún gæti sem best endað með látum líka. Kannski af manna völdum

Hann skoðar líka hvað verður um mannvirkin, húsin okkar og minnisvarða, og kemst að því að þau verða ekki ýkja lengi að hverfa, stíflur fyllast og gefa sig á endanum, hús grotna niður á skemmri tíma en eiganda þeirra grunar (eða kannski þekkja þeir það manna best á eigin skrokki), bændabýli hverfa í óræktina og smám saman hristir landið af sér allt manngert. Allt tekur þetta þó mislangan tíma, hugsanlega líða þúsundir ára þar til fram koma örverur sem éta platsagnirnar, þungmálmar hverfa seint, PCB er nánast eilíft, nema einhver ördýr læri að brjóta það niður, og helmingunartími geislavirks úrgangs er talinn í þúsundum ef ekki milljónum ára (helmingunartími úrans U-238 er hálfur fimmti milljarður ára).

Það verður því ýmislegt eftir en það hverfur smám saman ofan í jörðina og á meðan ekki kemur fram önnur eins dýrategund og við sem getum ekkert séð í friði þá fer allt vel. Það er reyndar huggun að lesa í bók Weismans hve heimurinn verður fljótur að jafna sig á okkur og eins hvað þeir vísindamenn sem hann ræðir við eru rólegir yfir hugsanlegu hvarfi mannsins; allt hverfur á endanum segja þeir, engin dýrategund er eilíf - vísindin hafa kennt okkur það - og maðurinn ekki heldur.

Brotabelti hugans

Ítalska borgin Messína er á Sikiley, á norðausturenda eyjarinnar. Í lok nítjándu aldar og upphafi þeirrar tuttugustu var Messína áttunda stærsta borg Ítalíu, en þar bjuggu þá um 150.000 manns. 28. desember það ár reið jarðskjálfti yfir borgina og hafði í för með sér miklar hörmungar fyrir íbúana. Á fyrstu mínútunum fórust um 80.000 manns í Messína og um 25.000 fórust í Reggio di Calabria sem er handan við Messína-sund, sem var stærstur hluti íbúa þeirrar borgar.

Skemmdir á Messína og nálægum þorpum var ekki bara vegna skjálftans, heldur kom hann einnig af stað flóðbylgju, fimmtán metra hárri, sem skall á þorpum og borgum við ströndina og talið að á þriðja tug þorpa hafi eyðst á skömmum tíma. Alls er takið að 160.000 manns hafi farist í jarðskjálftanum og sumir halda því fram að mannfall hafi verið enn meira, jafnvel allt að 250.000.

Nánast allar byggingar hrundu í Messína, en borgin hafði verið endurbyggð af vanefnum eftir mannskæðan jarðskjálfta 1783.

Skjálftar eru tíðir á Ítalíu enda liggur brotabelti liggur eftir endilöngu landinu suður eftir Apennín-fjöllum og annað slíkt er þvert yfir landið um miðbik þess. Álíka belti, og þó öllu meira, er yfir Anatólíu þvera, hefst skammt sunnan við Izmir/Smyrnu (og um 20 kílómetra frá Istanbúl). Þar hafa orðið mannskæðir jarðskjálftar, síðast kl. 3 aðfaranótt 17. ágúst 1999 þegar skjálfti, sem átti upptök sín skammt frá Izmir, varð tugþúsundum að fjörtjóni, en talið er að um 30.000 manns hafi farist á þeim 45 sekúndum sem fyrsta skjálftahrinan varði.

orhanpamukÍ greinasafninu Other Colurs lýsir tyrkneski rithöfundurinn Orhan Pamuk því hvernig hann upplifði skjálftann. Hann var þá staddur með fjölskyldu sinni á eyju í Bosporussundi, skammt frá Istanbúl, í sumarleyfi. Hann, og fjölskyldan öll, vaknaði við gríðarlegar drunur og sótti konu sína og dætur á efri hæð sumarhússins í myrkrinu, enda varð þegar rafmagnslaust:

"Við fórum út í garð og næturkyrrðin umlukti okkur. Drunurnar hræðilegu höfðu hljóðnað og þar var eins og allt umhverfi okkar biði óttaslegið líkt og við. Garðurinn, trén, eyjan litla umkringd stórgrýti - þögn í óttunni nema fyrir dauft skrjáf í laufi og hjartað sem ólmaðist í brjósti mér sem vísbending um eitthvað skelfilegt. Í skugga trjánna hvísluðum við einkennilega hikandi - óttuðumst kannski að framkalla annan jarðskjálfta."

Pamuk hét sig fjarri hörmungunum í tvo daga, hélt kyrru fyrir á eyjunni, en hélt síðan til strandbæjarins Yalova við Izmit flóa, eftirlætis Atatürks, og lýsir aðkomunni þar, óreiðunni, hörmungunum og vonleysinu á átakanlega hátt:

"Það eru tvennskonar rústir. Annarsvegar þær sem liggja á hliðinni eins og kassastæða, sem bera enn upprunalegt svipmót þó sumar hæðirnar hafi fallið saman eins og á harmonikku; í þeim byggingum er hugsanlegt að finna eftirlifendur í lofthólfum. Í hinni gert rústa eru engin lög, engin steypubrot, og það er ógerningur að gera sér grein fyrir því hvernig húsið leit út; það er bara hrúga af ryki, járni, brotnum húsgögnum, steypumylsnu. Það er ekki hægt að trúa því að þar sé nokkurn lifandi að finna."

Skammt frá heimili Pamuks í Istanbúl, í húsi sem afi hans byggði og hann ólst upp í frá barnsaldri, er moska með háan bænaturn. Í kjölfar skjálftans við Izmir greip eðlilega mikill ótti um sig í Istanbúl, enda urðu íbúar þar vel varir jarðskjálftans.  Pamuk lýsir því í greinsafninu hvernig hann fékk sömu þráhyggjuna og aðrir, hvernig hann stóð sig að því að vera sífellt að hugsa um jarðskjálfta og gekk svo langt að hann reiknaði út með nágranna sínum hvar bænaturninn mynd lenda og hvort hann myndi lenda á húsi þeirra.

theworldwithoutusÍ bókinni The World Without Us eftir Alan Weisman, sem vakti mikla athygli ytra á síðasta ári, veltir Weisman því fyrir sér hvernig heiminum myndi farnast ef mannkynið hyrfi skyndilega eða dæi út friðsamlega á skömmum tíma. Hann kemur víða við í þessari mögnuðu bók og fer víða. Meðal annars fer hann til Istanbúl og ræðir þar um moskuna miklu Hagia Sophia, og bænaturna hennar; hvað ætli verði um hvelfinguna miklu og bænaturna hennar þegar næsti stór jarðskjálfti ríður yfir Istanbúl?

Hvelfing moskunnar, sem var þá kirkja, hefur áður hrunið í jarðskjálftum, til að mynda skömmu eftir að hún var endurbyggð í þriðja sinn árið 537 (fyrstu tvær kirkjurnar eyðilagði æstur múgur). Hvelfingin féll í jarðskjálfta 557 og þú hún hafi verið endurreist þá skemmdist hún hvað eftir annað í jarðskjálftum þar til helsti arkítekt ottómana, Miman Sinan, endurbyggði og -hannaði hana á sextándu öld. Bænaturnarnir munu falla, en hvelfingin standa eftir í árhundruð þó engir séu mennirnir til að styrkja hana.

Istanbúl á sér langa sögu, reyndar má rekja hana allt aftur til 5.500 f.Kr. Hún hefur gengið undir ýmsum nöfnum á þeim tíma en Byzantium er elsta þekkta borgarnafnið. 330 e.Kr. fékk hún heitið Nýja-Róm, Nova Roma, en var þó snemma frekar kölluð Konstantínópel, borg Konstantíns keisara. Við Íslendingar þekkjum heitið Mikligarður, en frá því í mars 1930 hefur Istanbúl verið opinbert heiti.

Á þeim tíma bjó nærfellt milljón manna  í borginni, um 1950 fóru íbúar yfir milljónina, en 2000 voru þeir orðnir fimmtán milljónir. Miklir fólksflutningar áttu sér stað til borgarinnar í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar. Þó Tyrkir hafi ekki tekið þátt í átökum í seinni heimsstyrjöldinni bitnaði kreppan í kjölfarið líka á þeim og bændur flosnuðu upp af jörðum sínum að streymdi til borganna í leit að betra lífi.

Lítið fé var til húsbyggingar en þó þurfti að byggja og byggja hratt. Það var líka gert, oft með lélegri steypu og litlu járni og tæplega hirt um burðarþol. Þannig urðu hún sem hönnuð voru fyrir tvær hæðir að hálfgerðum skýjakljúfum, gólf stóðust ekki á í húsum með samliggjandi veggi, veggir náðu ekki alltaf upp í loft (göt til kælingar) og svo má telja.

Eins og getið er ofar liggur brotabelti yfir Anatólíu þvera og spennan þar eykst jafn og þétt. Í The World Without Us segir Weisman frá því er hann hitti að máli jarðfræðing í Istanbúl, Mere Sözen, sem sagði honum að enginn vafi væri á því að jarðskjálfti væri væntanlegur í Istanbúl á næstu þrjátíu árum og hann yrði stór. Að hans mati myndu að minnsta kosti 50.000 hrynja með ólýsanlegu mannfalli.

"Þegar jarðskjálftinn ríður yfir Istanbúl stíflast þröngar krókóttar götur borgarinnar svo gersamlega við hrun þúsunda bygginga, að mati Sözens, að stórum hlutum borgarinnar verður einfaldlega lokað í þrjá áratugi á meðan hægt er að hreinsa burtu rústirnar."

Í Other Colours lýsir Pamuk því hvernig óttinn gegnsýrði allt líf í borginni í kjölfar skjálftans 1999; margir kusu að sofa utan dyra, aðrir voru ávallt reiðubúnir - með vasaljós og neyðarbúnað við rúmstokkinn, allir óttuðust dauðann, enda vissi þorri manna, að sögn Pamuks, að byggingar í borginni voru illa reistar, byggðar af vanefnum og kæruleysi, en þrátt fyrir allt geta þeir ekki hugsað sér að yfirgefa borgina:

"[É]g fór út á svalir að dást að bænaturnunum og fegurð Istanbúl og Bosporussund hulið mistri. Ég hef búið í þessari borg alla ævi. Ég hef spurt sjálfan mig sömu spurningar og maðurinn þarna sem mælir göturnar; hvers vegna ætti maður ekki að geta flutt? Það er vegna þess að ég gæti ekki einu sinni ímyndað mér að búa ekki í Istanbúl."


Hver er maðurinn?

Shakespeare fundarMeira hefur verið skrifað um William Shakespeare en nokkurn annan rithöfund lífs eða liðinn. Í nýlegri bók eftir Bill Bryson kemur þannig fram að á skrá hjá British Museum séu 13.858 skráningar undir höfundarskráningu Shakespeares og 16.092 sé leitað eftir nafni hans sem viðfangi. Í bókasafni þingsins bandaríska eru og skráðar sjö þúsund bækur um Shakespeare og í ritinu Shakespeare Quarterly kemur fram að á hverju ári séu gefin út um fjögur þúsund rit á ári um Shakespeare og verk hans, bækur, ritlingar, tímarit og tilheyrandi.
 
Þrátt fyrir allan þann hafsjó af bleki sem eytt hefur verið í Vilhjálm og verk hans vitum við raun lítið sem ekkert um hann. Við vitum ekki fyrir víst hvenær hann er fæddur en þó hvar hann fæddist. Við vitum lítið um æsku hans og uppvöxt, ekki hvaða kona hans hét, ekki hvar hann var stóran hluta ævinnar, ekkert um það hvernig hann sló svo hratt í gegn, ekki hvernig hann efnaðist og svo má lengi telja.
 
Verst af öllu finnst mönnum þó að þeir hafa litla sem enga innsýn inn í manninn, hvað þar var sem mótaði hann sem leikskáld, hvaða trúarskoðanir hafði hann (stórmál á Englandi á þessum tíma (sextándu öld)), hvernig hann vann og meira að segja hvað hann hét, eða réttara sagt hvernig hann vildi að nafn sitt væri stafsett. Þannig eru til áttatíu mismunandi rithættir á eftirnafninu á sextándu öld, en aðeins sex dæmi með eigin hendi: Willm Shaksp, William Shakespe, Wm Shakspe, Willm Shakspere, og William Shakspeare. Glöggir lesendur sjá eflaust þegar að hann skrifaði nafn sitt aldrei eins og viðtekið er í dag.
 
Það má að vissu leyti telja það kost hvað við vitum lítið um Shakespeare því fyrir vikið getur hver öld varpað sínum eigin þráhyggjum á hann, lýst honum sem samtímamanni; upplýstum menntamanni fyrr á tímum, góðlegum mannvin og viskubrunni á öðrum.

Við getum líka túlkað leikritin mjög frjálslega - sjá til að mynda hvernig við höfum breytt hörkutólinu Hamlet í tilvistarhyggjulega pissudúkku og þynnt út mergjaða illsku Makbeðs (minnist einkar þunnildislegrar uppfærslu í Iðnó fyrir þrjátíu árum eða svo).
 
Það var líka alsiða forðum, til dæmis á átjándu öldinni, að endurskrifa verkin til að þau féllu betur að tíðarandanum (saklausir máttu ekki láta lífið og ekki mátti blanda saman gamni og alvöru) og eins gera menn á okkar tímum - sjá frábæra uppsetningu Vesturports á Rómeó og Júlíu.

Líkt og William Shakespeare getur eiginlega verið hver sem er og hvað sem er geta leikritin nefnilega þýtt hvað sem er og verið hvernig sem er.

Það er líka merkilegt í sjálfu sér hvað menn hafa verið iðnir við að finna aðra höfunda að verkunum og í langflestum tilfellum án þess að hafa nokkuð fyrir sér nema hyggjuvit og óljósan innblástur. Hugsanlega er þar um að kenna að bókmenntafræðingar og aðrir sem fást við fræðigreinar geti illa sætt sig við að höfundur sem svo hafi talað til okkar að við getum ekki gleymt því hafi ekki verið háskólamenntaður dándismaður.
 
Hvernig er annars hægt að skýra það að menn hafa stungið upp á Edward de Vere, Francis Bacon, Christopher Marlowe, Sir Henry Neville og meira að segja Elísabet I. Englandsdrottning (þeir eru líka til sem segja verkin hafa verið samin af nefnd, en ekki er getið um hverjir hafi skipað þá nefnd, kannski allir ofangreindir?)

Allt er þetta aðalsfólk og engar raunhæfar vísbendingar eða sannanir til sem skjóta fótum undir þvílíkt og annað eins.  Aftur á móti eru til ýmsar vísbendingar og sannanir um að William Shakespeare hafi skrifað leikritin sem kennd eru við hann. Þannig er hans getið (niðrandi) sem höfundar Hinriks VI. í bréfi Robert Greene 1592, heimildir eru fyrir því að leikarar sem léku í verkunum hafi talið þau sem verk Shakespeares og samtíðarmenn hans og félagar gáfu út safn leikrita Shakespeare með formála eftir leikskáldið Ben Johnson. Eins má geta þess að í skjölum Johnsons fundust að honum látnum vangaveltur hans um William Shakespeare félaga sinn, hverjir hafi verið kostir hans og gallar sem leikskálds.

Við kjósum þó að líta framhjá því og enn eru skrifaðar ævisögur Williams Shakespeares sem eru meiri uppspuni en sannleikur (5% staðreyndir og 95% skáldskapur er víst normið). Það er líka býsna gott að hafa annan eins skáldjöfur sem einskonar tabula rasa og skrifa síðan það sem maður vill.

Á myndinni má sjá  fund þeirra Elísabetar I. Englandsdrottningar, Roberts Devereux jarls af Essex og Williams Shakespeares eins og málarinn Thomas Stothard sá hann fyrir sér. Stothard grunaði greinilega ekki að Elísabet og Shakespeare væru einn og sami maðurinn (ein og sama konan).

(Hluti af þessari færslu birtist í Morgunblaðinu 9. janúar.) 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 117723

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband