Færsluflokkur: Bloggar

Konungurinn kveður

Kveðjustund

Var á tónleikum í fyrradag með BB King og hljómsveit í Wembley íþróttahölinni.

Það var sérkennilegt upplifun að vera innan um alla þá gamlingja sem þar voru saman komnir, lunginn af áheyrendum hvítir karlmenn á fimmtugs- og sextugsaldri. Karlar eins og ég, eiginlega, en þrátt fyrir það fannst mér ég ekki heima í þessum hópi, sjálfsagt vegna þess að ég er vanur að vera innan um mun yngra fólk á tónleikum alla jafna.

BB King var magnaður, eiginlega mun betri en ég átti von á, enda karlinn kominn á níræðisaldur, varð áttræður 16. september sl. ferðin hans út þetta ár er kveðjutónleikaferð, þ.e. hann er að kveðja Evrópu þó hann eigi eflaust eftir að halda áfram að spila vestan hafs.

Það er eins og annað hjá karlinum að hann er með 89 tónleika á planinu hjá sér fyrir þetta kveðjuár og enn eftir að bóka einhverja tónleika í september, október og nóvember sýnist mér. Ekki eins mikið og í þá gömlu góðu daga þegar hann lék á yfir 300 tónleikum á ári (og hélt þeirri háttsemi í áratugi), en ansi gott samt af áttræðum manni.

King var með framúrskarandi hljómsveit með sér, fjóra blásara, bassa, gítar, trommur og hljómborð. Sveitin sú byrjaði líka að hita upp fyrir hann, spilaði tvö lög áður en kóngurinn birtist.

BB King hefur verið allt of feitur árum saman og þegar við bætist að flest kvöld undanfarin ár hefur hann staðið upp á endann að spila kemur ekki á óvart að lappirnar eru orðnar lélegar. Svo lélegar að hann getur ekki lengur spilað standandi. Það kom þó ekki niður á spilamennskunni.

Framan af var mikið stuð á mönnum, hornaflokkurinn í stuði og fullmikið í gangi fannst mér. Síðan hægði sá gamli á öllu saman og þeir settust hvor sínu megin við hann, bassaleikarinn og gítarleikarinn. Þá fékk maður að heyra að King er enn fanta söngvari og frábær gítarleikari. Tónninn í Lucille var harðari en ég átti von á, en spilamennskan söm við sig, nett fimleg gítarinnskot og snyrtilegar fléttur. Gaman að bera þessa spunakafla Kings saman við það sem Gary Moore bauð upp á til upphitunar fyrir tónleikana, hátt í klukkutíma af gítarsólóum, eiginlega sama sólóið endurtekið með tilbrigðum - drepleiðinlegt.

Stemmningin undir lokin hja King var tregablandin, enda var hann að kveðja þá sem best hafa stutt hann í gegnum árin, hann hefur nánast alltaf leikið fyrir fullu húsi í Bretlandi á sinni löngu tónlistarævi, líka þegar hann átti dapra daga heima fyrir. Gæti svosem trúað því að hann ætti eftir að spila einhvern tímann í Evrópu aftur að loknum kveðjutúrnum sem stendur eiginlega út árið - á meðan hann er í þessu formi er ekki ástæða til að draga sig í hlé.


Stanislaw Lem, 1921 - 2006

Einu sinni las ég mikið af vísindaskáldsögum, svo mikið að ég las þær eiginlega mér til óbóta, sérstaklega af bandarískum vísindaskáldskap frá sjötta og sjöunda áratugnum. Þær bækur voru upp fullar með gríðarlegri bjartsýni og trú á manninn, að vísindin myndu sigra allt, leggja heiminn að fótum okkar, þ.e. þeirra okkar sem vorum svo heppin að búa í Bandaríkjum Norður-Ameríku.

Þegar mest var átti ég sennilega á fjórða þúsund vísindaskáldsagna sem ég hafði safnað frá því ég las fyrstu vísindaskáldsöguna á tíunda ári (The Voyage of the Space Beagle eftir Alfred Elton Van Vogt. Þegar ég sá Alien löngu síðar kannaðist ég við söguþráðinn, enda er sú mynd bygð á síðasta hluta bókarinnar).

Á endanum óx ég upp úr vísindaskáldskapnum og losaði mig við allar bækurnar á nokkrum dögum, seldi Ingvari á Laufásveginum þær. Þær fóru þó ekki allar; ég hélt eftir öllu sem átti eftir Philip K. Dick, nokkrum bókum eftir Jack Vance, Clifford Simak, Robert Sheckley og reyting af öðrum höfundum sem mér fast eitthvað spunnið (enginn Heinlein, Asimov, Pohl, Varderman, Niven eða Farmer). Tvo höfunda hélt ég mest upp á, og finnst merkilegir enn þann dag í dag, Philip Kindred Dick og Stanislav Lem, en sá síðarnefndi er einmitt kveikjan að þessum skrifum, því hann lést í vikubyrjun, háaldraður. Dick er löngu látinn.

Stanislav Lem var pólskur, lifði heimsstyrjöldina síðari og bjó í alræðisríki. kemur væntanlega ekki á óvart að hann hafði tölvuvert aðra sýn á heiminn en amrískir vísindaskáldsagnahöfundar, átti til að mynda ekki þá barnalegu trú á vísindin sem gegnsýrði skrif samhöfunda hans eða var eins bjartsýnn á mannlegt eðli. lem var efahyggjumaður á flest og þess sér stað í bókum hans. Einna þekktust er sjálfsagt bókin Solaris, sem hefur verið kvikmynduð tvívegis, fyrst af Andrei Tarkovskíj 1972 og síðan af Steven Soderbergh 2002.

Stanislaw LemBáðar myndirnar eru prýðilegar, sú fyrrnefnda þó betri finnst mér, en hef reyndar ekki séð hana síðan ég sá hana í MÍR fyrir tuttugu átum eða svo. Þær eru þó báðar nokkuð á skjön við inntak bókarinnar að mér finnst - að mínu viti snýst Solaris um það að þrátt fyrir leit að vitsmunalífi um alheiminn muni menn aðeins finna sjálfa sig, ef svo má segja, aðeins skilja það sem passar í ramma mannlegrar þekkingar.

Fyrir stuttu las ég skemmtilega bók eftir Lem sem ég fann á útsölu í Bóksölu stúdenta, Highcastle: A Remembrance, þar sem Lem skrifar um æsku sína eins og hann man hana, en bókin nær fram til 1940. Bókin er ekki venjuleg ævisaga, heldur tilraun Lems til að draga fram úr skúmaskotum minnis síns raunsanna frásögn af því hvernig æsku hans var háttað, reyna gefa hlutlausa mynd af sannleikanum sem er vitanlega óráð, eins og hann játar í lokin; minnið er ekki vinur okkar, frekar óvinur, samskipti okkar við minnið er eins og hesta sem fara vilja hvor sína leið með vagninn, segir hann. (sama samlíking reyndar og hann notaði um Tarkovskíj og sig í viðtali um kvikmyndum Solaris skömmu eftir að hún var frumsýnd.)


Himneskt samræmi

Svarta bókinHvíta bókinÞað telst eðlileg afleiðing margra ára bóklesturs að bækur safnist fyrir á heimilinu og þó reglulega sé gripið til þess að hreinsa það út sem maður ekki vill eiga fyrir einhverjar sakir (lélegt, engin fræðileg not, afgreitt) hlýtur að fara svo að bókunum fjölgi með tímanum. (Engin góð formúla er til yfir að hvað margar bækur þarf til að mynda það sem maður myndi kalla gott bókasafn, en hleypur á einhverjum þúsundum - ég er kominn með nálægt 5.000 en vantar talsvert uppá).

Eitt af því sem auðveldast er að losa sig er tvítakið, bækur sem maður á í fleiri en einu eintaki, hefur til að mynda fengið annað eintak að gjöf, komist yfir bók í betra bandi, eða fullkomnari útgáfu til að mynda. Þegar maður rekst á slíkt er auðvelt að hreinsa út, gefa aukaeintökin eða henda þeim (enginn bissness í að selja gamlar bækur lengur, þær hafa fallið svo í verði að þær eru nánast einskis virði). Inn á milli eru þó alltaf bækur sem maður verður eiginlega að eiga í tvítaki, þrátt fyrir samviskubitið (plássið, rykið og kostnaðurinn) og sumar vill maður eiginlega eiga í fleiri eintökum.

Það vakti að vonum mikla athygli þegar sá kunni höfundur Neil Gaiman lét þau orð falla að bókin Jonathan Strange & Mr. Norrell eftir Susanna Clarke væri besta ævintýrabók, fantasía, sem komið hefði út á Bretlandseyjum síðustu 70 ár. Undrun manna var ekki síst til kominn vegna þess að bækur J.R.R. Tolkien um hringinn magnaða komu út fyrir minna en 70 árum, The Hobbit 1937, The Fellowship of the Ring og The Two Towers 1954 og The Return of the King 1955.

Það þarf kannski ekki að koma á óvart að einhver ævintýrabók sé betri en sagan af hringnum og föruneyti hans, þær eru fjölmargar betri, enda var Tolkien merkilegur hugsuður og hugmyndasmiður en minna fór fyrir stílsnilld hans. Það er aftur á móti sjaldgæfara að menn taki svo stórt upp í sig þegar verk eru mærð og Gaiman gerði, en þeir sem lesið hafa bók Clarkes hljóta að taka undir orð hans að einhverju eða öllu leyti - mér er til efs að skrifuð hafi verið betri ævintýrabók á síðustu áratugum austan hafs eða vestan.

Fyrir þá sem ekki vita þá gerist bókin Jonathan Strange & Mr. Norrell á Bretlandi á öndverðri nítjándu öld um það leyti er Bretar glíma við Napoleon og heri hans. Í því Bretlandi sem sagt er frá hafa galdrar nánast gleymst, en þó eru til menn sem kalla sig galdramenn, aðallega sagfræðingar sem fæstir trúa því að menn hafi í raun stundað galdur, heldur sé allt að sem til er af frásögnum um slíkt, bækur og annað, hindurvitni og þjóðögur.

Í borginni Jórvík er til félagsskapur áhugamanna um galdrafræði og hafa spurnir af einrænum manni sem búi í Jórvíkurskíri og eigi mikið safn af galdrabókum, mesta safn sem um geti reyndar. Þeir bjóða honum í félagsskap sinn, félagsskap galdramanna sem þeir kalla svo. Náunginn sá, hr. Norrell, tekur boðinu illa, enda geti þeir menn ekki kallað sig galdramenn sem ekki geti galdrað. Félagarnir fróðu taka afsvarinu illa og krefja hann um galdra þá sem hann segist kunna. Hann fellst að lokum á að sýna þeim galdur með því skilyrði þó að eftir þá sýningu hætti þeir allir að kalla sig galdramenn.

Í framhaldinu stefnir hr. Norell galdramönnunum sjálfskipuðu í Jórvíkurdómkirkju og fremur þar býsna eftirminnilegan galdur því líkneski öll í kirkjunni taka að mæla og segja því sem fyrir augu hefur borið þau hundruð ára sem þau hafa verið lífvana.

Svo vindur fram sögunni að smám saman fá menn trú á að galdrar séu raunverulegir og sannast fyrir fullt og fast er Norrell áskotnast einskonar lærisveinn, Jonathan Strange, sem skoðanir hans á göldrum ganga mjög á skjön við skoðanir lærimeistara síns sem síðan verður fjandi hans.

Ekki verður hér rakinn söguþráður þessar merku bókar, enda ekki rúm til þess að endursegja bók upp á mörg hundruð síður (kiljan er 1.066 síður, innbundin er bókin ríflega 800 síður). Nægir að nefna að bókin er öll ævintýraleg og þá ekki bara söguþráðurinn heldur allt það mikla verk sem Susanna Clarke lagði í verkið á þeim áratug sem það tók hana að skrifa það. Út um alla bók eru þannig óteljandi neðanmálsgreinar, sumar með eigin neðanmálsgreinar, þar sem finna má allskyns fróðleik og fjöldann allan af þjóð- og munnmælasögur sem koma sögunni ekki við í sjálfu sér en sem gerir heiminn sem hún gerist í stærri og veigameiri, svo stóran og veigamikinn reyndar að hann sprengir af sér viðjar bókarinnar, nær langt út fyrir hana.

Jonathan Strange & Mr. Norrell kom út haustið 2004 og bar svo við að ég var staddur í Lundúnum útgáfudaginn. Ekkert vissi ég um bókina þá, en fannst hún fróðleg er ég rakst á hana í Borders búðinni á Tottenham Court Road. Í stæðunni þar var bókin til í tveimur útgáfum, annars vegar til með hvítri kápu, hvít í skurðinn, og svartri með svörtum skurði. Ég var ekki lengi að hugsa mig um, keypti þá með svörtu kápunni, enda hljótum við að sækja í myrkrið.

Komum við nú að því er ég nefni í upphafi - tvítakinu. Málið er nefnilega það að varla var ég búinn að leggja bókina frá mér lesna ekki löngu síðar að að mér sótti efi, hvíta útgáfan sótti á huga minn. Víst gerði ég rétt í að taka þá svörtu, en hefði ég ekki átt að taka hvítu líka? Sjúklegt segir einhver, en það er bara svo heillandi samhverfa í því að hafa bækurnar í hillu hlið við hlið, hvíta og svarta, og mjög viðeigandi fyrir bók eins og þá sem hér um ræðir. Það vita þeir sem hafa lesið hana.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að freistingar eru til að falla fyrir þeim og fyrir stuttu keypti ég mér eintak af hvítu útgáfunni. Áritað eintak meira að segja. Fann það á abebooks.com, sem allir þeir sem haldnir eru bókaáráttu ættu að forðast. Það kemur málinu ekki við hvað það kostaði, en mér fannst verðið sanngjarnt þegar ég sá bækurnar saman í hillunni, hvíta og svarta. Himneskt samræmi.


Sagan endalausa

Skjáborð Windows VistaFréttir af því að Microsoft muni ekki ná að gefa út næstu útgáfu af Windows, Windows Vista, á réttum tíma koma í sjálfu sér ekki á óvart - þær eru í takt við eðli þess hvernig fyrirtækið hefur starfað hingað til, þar sem sífellt hefur sigið á ógæfuhliðina hvað varðar umfang hugbúnaðarverkefna fyrirtækisins.

Ýmsar kenningar eru til um forritun og stór forritunarverkefni. Eitt af þeim lögmálum sem mönnum er hollt að hafa í huga er kennt við Frederick P. Brooks, prófessor í tölvunarfræðum, og hljóðar eitthvað á þessa leið: Sé forriturum fjölgað við hugbúnaðarverkefni sem er á eftir áætlun seinkar því enn. Í því felst sá kjarni að þann tíma sem tekur að koma nýjum mönnum inn í viðkomandi verkefni muni ekki nást að vinna upp. Af því leiðir svo að eftir því sem lengra er liðið á verkefnið skapar það meiri vandræði að fjölga forriturum. Fyrir vikið dugði ekki að setja meiri kraft í verkið þegar nær dró fyrirhuguðum útgáfudegi og þó menn segi nú að Vista eigi að koma út í janúar, en ljóst að þá er engin pressa að gefa búnaðinn út, ekkert sölutímabil í vændum, þannig að líklegt verður að teljast að útgáfa dragist enn lengur, líklega fram á vor eða sumar 2007.

Ef marka má frásagnir starfsmanna Microsoft, sem ekki hafa viljað koma fram undir nafni, hafa ýmsir alvarlegir vankantar komið í ljós á síðustu mánuðum, til að mynda hvað varða öryggismál, en helstu gallarnir hafi aftur á móti verið í því sem Microsoft kallar Media Centre, MCE, en það er hugbúnaðarsyrpa sem ætlað er að gera heimilistölvu að skemmtunarmiðstöð, stjórnstöð fyrir DVD myndir, sjónvarpsáhorf og -upptökur, tónlistarsafn heimilisins og einnig ljósmyndasafnið, netgátt heimilisins og svo má telja. Þetta er vitanlega hið versta mál því einn af helstu sölupunktum Vista átti einmitt að vera ný og fullkomin útgáfa af MCE og fjöldi vélbúnaðarframleiðenda hefur einmitt hagað framleiðslu og markaðssetningu á vélbúnaði með vísan til þess, enda hafa menn sé þar ört vaxandi markað eftir því sem heimilin verða stafrænni.

Sagan af Vista er orðin býsna löng, nær allt frá því fréttir bárust af því að næsta útgáfa af Windows á eftir XP væri á teikniborðinu og ætti að heita Longhorn. Á næstu árum bárist reglukega fréttir af því hvernig miðaði og í viðtali við Newsweek haustið 2003 ræpddi William Gates III þessa miklu uppfærslu á Windows og sagði Longhorn verða "stærra framfaraskref en nokkurt annað á síðustu 10 árum". Hann var varla búinn að sleppa orðinu er fregnir bárust af því að enn yrði bið á Longhorn, en ef allt færi á besta veg myndi það koma á markað haustið 2006, að mestu fullbúið en nýja skráarkerfið, sem átti að vera helsta byltingin í öllu saman, átti að koma á markað ári síðar, 2007.

Það hefur kostað smá yfirlegu að átta sig á Vista, eins og nýja útgáfan heitir sem stendur, enda herma fregnir að til verði sjö gerðir af Vista, mismunandi eftir því hvað eigi að nota hugbúnaðinn. Fyrst er þar að telja Starter Edition, sem er þannig gerð að aðeins er hægt að keyra þrjú forrit samtímis. Home Basic útgáfan kemur í stað Windows XP Home, en Home Premium útgáfan er Home Basic að viðbættum áðurnefndum Media Centre vöndli. Næstu útgáfur eru svo Windows Vista Professional, Small Business og Enterprise útgáfur, mis-öflugar eftir því sem menn (fyrirtæki) vilja. Að lokum er svo Ultimate útgáfan sem aðallega er ætluð fyrir áhugamenn um tónlist og kvikmyndir og leikjavini, en í henni verður sérstakt stjórnborð fyrir leikjakeyrslu, podcast-græja og ýmislegar viðbætur sem hægt er að sækja yfir netið, tónlist og kvikmyndir og svo má telja.

Apple-áhugamenn hafa tekið þessum fréttum fagnandi og sjá sóknarfæri hjá Apple, enda hefur það fyrirtæki haldið vel á sínum uppfærslumálum undanfarin ár, gefið út fjórar útgáfu af MacOS á síðustu fimm árum, og sú nýjasta er óneitanlega mögnuð. Ekki sýnist mér þó ástæða til að ætla að fólk muni skipta yfir í Macintosh bara vegna þess að þeir þurfa að keyra Windows XP einhverjum mánuðum lengur - slíkar vangaveltur eru álíka barnalegar og sá draumur að aukin sala á iPod myndi verða til þess að fólk skipti yfir í Makka, enda þá komið í Makkaumhverfi.

Í New York Times mátti lesa þá skemmtilegu ábendingu fyrir stuttu að þegar bandarísk yfirvöld beittu sér gegn ólögmætum viðskiptaháttum Microsoft 1998 hafi það verið á þeim forsendum að fyrirtækið beitti sér á þann veg að drægi úr nýsköpun í hugbúnaði almennt. Nú, segja þeir New York Times menn, hefur það og komið fram að Windows dregur úr nýsköpun, en það er þá nýsköpun innan Microsoft sem er í voða. Málið er nefnilega að verkefnið er orðið svo risavaxið að gríðarlega erfitt er að hafa yfirsýn yfir það, að tryggja að allir hlutar þess starfi rétt saman og séu á sama þróunarstigi.

Á sínum tíma var það sagt að Windows 2000 væri mesta hugbúnaðarverkefni sögunnar. Þegar stýrkerfið kom á markað snemma árs 2000 lá að baki starf 5.000 forritara í fjögur ár sem kostaði yfir 150 milljarða króna, en einnig komu að verkinu 750.000 sjálfboðaliðar sem betaprófuðu stýrikerfið (þrátt fyrir þann mikla fjölda voru 63.000 atriði ófrágengin þegar hugbúnaðurinn kom út, þar á meðal um 20.000 böggar sem vitað var um). Alls voru í stýrikerfinu um 40 milljón línur af kóða. Til gamans má geta þess að í Windows 3.1 voru 2,5 milljón línur og 15 milljónir í Windows 95.

Á þeim tíma sem Windows 2000 kom út var fyrirtækið með tvær gerðir af stýrikerfinu á markaði, Windows 95, 98 og Me sem voru ætluð heimilisnotendum og NT-línuna sem var fyrir fyrirtæki. Windows 2000 var í raun útgáfa NT 5.0 og var nokkuð frábrugðið Windows ME, til að mynda, mun öruggari útgáfa sem notaði til að mynda aðra rekla en 95, 98 og Me eins og margir komust að er þeir skiptu yfir í Windows 2000. XP var síðan ætlað að steypa þessum tveim afbrigðum af Windows saman en þegar kíkt er undir húddið kemur í ljós að í raun er hér á ferð NT 5.1.

Windows Longhorn sem síðan varð að Windows Vista er allmiklu meira verkefni en Windows 2000 og breytingar svo miklar að ekki er um að ræða púnktúgáfu heldur væntanlega hækkað um heilan, þ.e. Windows Vista verði þá Windows NT 6.0 á sama kvarða og venjuleg tölvufyrirtæki nota.

Fimm ár eru liðin síðan Windows XP kom á markað og getur nærri að kerfið sé orðið gloppótt og gamaldags, enda gríðarlega mikið breyst á síðustu fimm árum. (Internet Explorer er mun eldri, hefur ekki verið endurskrifaður af neinu viti í átta ár.) Smám saman hefur verkið stækkað í höndum þeirra Microsoft-manna, enda metnaður fyrirtækisins eins og áður að hægt verði að nota ekki bara allan nýjan og nýlegan vélbúnað, heldur líka sem mest af gömlum búnaði (nokkuð sem Apple blæs á til að mynda). Línurnar í Windows Vista eru víst orðnar fimmtíu milljónir og sumir gera því skóna ef svo fer fram sem horfir gæti Vista-verkefnið orðið svo stórt að ekki verði hægt að ljúka við það - svo margir séu í forritarateyminu að allur tími þeirra fari í að tala saman, sitja stöðufundi og skrifa nýjar þarfagreiningar.


Hvað eiga Dan Brown og Anthony Trollope sameiginlegt?

Antony Trollope

Skemmtilegur þykir mér sá slagur sem nú stendur í dómhúsi í Lundúnum þar sem menn deila um Da Vinci lykil Dans Browns. Áður hefur verið rætt á þessum vettvangi um hvað málið snýst og verður því ekki rætt frekar hér, en angi af þessu máli er sú mynd sem birst hefur af Dan Brown, en hingað til hefur hann ekki verið ýkja gefinn fyrir að tala um sjálfan sig og sín vinnubrögð.

Lundúnablaðið The Times birti á dögunum greinargerð Dans Browns sem lögð var fyrir dóminn við upphaf málsins. Í þeirri greinargerð, sem má nálgast á vef Times, segir Brown ævisögu sína og upplýsir um það hvað hafi komið honum til að skrifa bækur, metsölubækur. Uppljómunin varð þegar hann las spennubók eftir Sidney Sheldon, en fram af því hafði hann helst lesið alvarlegri og veigameiri bókmenntir, nefnir Faulkner, Steinbeck, Dostoyevsky og Shakespeare, og ekki neitt léttmeti frá því hann var barn.

Í greinargerðinni lýsir Brown því hvernig hann heillaðist svo af bók Sheldons að hann gat ekki lagt hana frá sér fyrr en hún var búin, „hún minnti mig á hve gaman það getur verið að lesa" segir Brown í greinargerðinni Eftir þessa upplifun, þegar Brown sá hvað söguþráðurinn var einfaldur og textinn léttvægur, eins og hann orðar það, „fór mig að gruna að ég gæti skrifað slíka spennusögu". Það gerði hann síðan eftir að hafa reynt um tíma að hasla sér völl sem lagasmiður.

Annað sem mér fannst skemmtilegt að lesa í þessari ágætu greinargerð Browns sem er bæði opinská og einlæg, er hvernig hann vinnur bækur sínar. Hann byrjar semsagt að skrifa kl. 4:00 á hverjum morgni, alla daga vikunnar, enda eru þá aðrir í fasta svefni og hann hefur vinnufrið. Á skrifborðinu er hann með stundaglas og hvert sinn sem tíminn rennur úr, tekur hann sér smá hlé til að gera líkamsæfingar.

Þessi uppljóstrun á væntanlega ekki eftir að draga úr sölu á bókum Browns, enda ekki ástæða til. Ekki geri ég heldur ráð fyrir að fleira það sem fram kemur eigi eftir að halda vöku fyrir útgefendum hans um allan heim, sé til að mynda ekki að það skipti máli að hann skrifar allar sínar bækur meira og minna eftir sömu formúlunni: Takið umdeilda staðreynd eða hugmynd, bætið útí saklausum vegfaranda og hrærið skammti af fjársjóðsleit saman við. Látið allt síðan gerast á einum sólarhring.
Þeir sem lesið hafa Brown geta væntanlega staðfest að þessi formúla á við um allar bækur hans, en ég get ekki nema staðfest að hún passar við þær sem ég hef lesið, Digital Fortress, Angels & Demons og The Da Vinci Code. Í þeirri fyrstu er starf NSA, þjóðaröryggisstofnunar Bandaríkjanna, umdeilda staðreyndin, saklausi vegfarandinn heitir David Becker og fjársjóðurinn gullhringur. Í Angels & Demons er staðreyndin umdeilda átök vísinda og kirkju krydduð með illvígu leynifélagi, vegfarandinn Robert Langdon og fjársjóðurinn andefni. Í þeirri síðastnefndu er síðan sú „staðreynd" sem tekist er á um fyrir rétti að út frá Jesú og Maríu sé mikill ættbogi, vegfarandinn aftur Robert Langdon og fjársjóðurinn gralið helga.

Frásögn Dans Browns af vinnusiðum hans minnti mig ekki lítið þá högun sem Antony Trollope hafði á sínum ritstörfum á átjándu öld.

Á nítjánda ári, 1934, byrjaði Trollope að vinna hjá enska póstinum og vann þar næstu 33 árin. Samhliða vinnunni á póstinum skrifaði hann svo 47 skáldsögur, 40 smásögur, 3 ævisögur, 5 ferðabækur og á annað hundrað lengri greina um ýmis málefni, póstleg og listræn. Þessu til viðbótar reið hann til veiða þrisvar í viku á veiðitíma, spilaði vist við hvert tækifæri og var tíður gestur í samkvæmum. Lykillinn að þessum miklu afköstum var að hann vaknaði kl. hálf sex á hverjum morgni, fékk sér te og settist við skriftir næstu þrjá tímana, eða þar til tími var til kominn að halda til vinnu.
Trollope skipulagði hverja bók nákvæmlega - áður en haldið var af stað var hann búinn að ákveða söguþráð, helstu persónur, kaflafjölda og lengd hvers kafla og hve marga daga tæki að skrifa hana.

Alla jafna skrifaði Trollope 40 blaðsíður á viku, en það fór þó nokkuð eftir önnum; stundum skrifaði hann ekki nema 20 síður og stundum upp undir 120. Á hverja síðu skammtaði hann sér 250 orð, en hann reyndi að halda þeim hraða að skrifa 250 orð á hverjum stundarfjórðungi, semsagt fjórar síður á klukkutíma. Eftir hvern dag merkti hann síðan við í kladdanum hvernig hefði miðað með verkið. Ef svo vildi til að hann lauk við skáldsögu en var ekki búinn með tímana þrjá þann daginn byrjaði hann þegar á næsta verki.

Sagan segir að þegar útgefendur höfðu samband við Trollope og báðu um skáldsögu, smásögu eða grein spurði hann alltaf fyrst af öllu, hvað þeir vildu mörg orð og síðan hvenær viltu fá verkið. Hann skilaði víst alltaf á réttum tíma.

Vitneskja um þessi vinnubrögð er fengin fá Trollope sjálfum því í ævisögu hans, sem kom út að honum látnum, segir hann skilmerkilega frá öllu saman.

Heldur varð þessi opinskáa frásögn Trollope til nokkurs álitshnekkis, því í stað hinnar rómantísku myndar af innblásna snillingnum birtist lúsiðinn embættismaður.

Trollope hefur eiginlega ekki borið sitt barr upp frá því og það þó til sé félagsskapur sem hefur að markmiði að auka veg hans, The Trollope Society (sem ég var reyndar félagi í um tíma). Vissulega eru bækur hans mis-merkilegar, margar dægurbókmenntir síns tíma, en aðrar hafa staðist tímans tönn að mínu mati, til að mynda Orley Farm, þar sem réttlæti og störf lögmanna eru undir smásjánni, He Knew He Was Right þar sem Trollope segir frá manni sem gengur af vitinu af afbrýðisemi, og svo meistaraverk hans, The Way We Live Now, sem segir meðal annars frá athafnamanninum Auguste Melmotte - ókræsileg persóna sem maður hefur þó vissa samúð með.

(Þess má geta að Trollope fór víða um heim í erindum ensku póstþjónustunnar og kom meðal annars hingað til lands. Gaman væri að komast í heimildir um þá heimsókn.)


Íslands versti vefur ...

ParísÞví hefur verið haldið fram að vefur Flugleiða sé dýrasti vefur Íslandssögunnar, þ.e. að meiri peningum hafi verið eytt í hann en nokkurn annan vef. Nú veit ég ekki hvort það er rétt að meira fé hafi farið í hann en aðra vefi en þar víst rétt að miklu hefur verið eytt í vefinn í gegnum tíðina og sorglegt að þeir peningar virðast hafa farið í að gera vefinn sem glæsilegastan, en minni peningur farið í að huga að notagildi hans.

Fyrir mörgum árum skrifaði ég bréf til vefstjóra Flugleiðavefsins og vottaði honum samúð yfir því að þurfa að stýra handónýtum vef og fékk það merkilega svar að vefurinn væri ekki síðri en aðrir flugfélagavefir. Sú staðhæfing var reyndar ekki rétt, til mun þægilegri vefsíður flugfélaga, en mjög skrýtið að metnaður Flugleiðamanna hafi ekki verið að vera með besta vefinn, heldur hafi þeir miðað starf sitt við að vera eins og hinir.

Síðan eru mörg ár liðin og enn er Flugleiðavefurinn óþægilegur og illskiljanlegur þó fyrirtækið heiti nú Icelandair. Eitt lítið dæmi um það er það ef maður vill komast að því hvernig háttað sé flugi til Parísar. Nú hefði maður haldið að besta leiðin til þess sé að smella á "Áfangastaðir" á forsíðu og síðan á parís. Þar er tengill sem heitir Flugáætlun. Þá kemur aftur á móti upp leitargluggi (!) þar sem ætlast er til að maður velji áfangastað þó smellt hafi verið á tengilinn Flugáætlun frá Parísarsíðu vefsins sem er innan um fyrirbæri eins og "Almennt um París", "Hótel í París" og "Hvað er að gerast?".

Ef maður síðan velur París sem áfangastað í leitaglugganum þarf maður líka að vita hvaða daga er flogið til Parísar því ef valinn er dagur sem ekki er flogið kemur upp síða með skilaboðunum:

"Icelandair fljúga ekki milli þessara borga. Ekki er hægt að panta flug með öðrum flugfélögum eingöngu. Það þarf að vera a.m.k. eitt flug með Icelandair til að halda áfram bókun. (9100)"

Geggjað ekki satt? Nú segir kannski einhver: "Ef ég veit hvaða daga flogið er til Parísar þarf ég ekki að gá að því." - Nokkuð til í því, en þeir sem ekki vita hvaða daga flogið er til Parísar geta svosem komist að því að vefsíðunni með því að sækja PDF-skjal með flugáætlun félagsins.

Til stóð að kanna flug í apríl. Þegar þetta er skrifað, 17. mars, er enn vetur (sumardagurinn fyrsti er 20. apríl). Þegar "Vetraráætlun Icelandair 2005 - 2006 á pdf formi" er sótt kemur aftur á móti í ljós að hún nær aðeins til 25. mars (hvergi getið um það). Þá er ekki annað að gera en sækja "Sumaráætlun Icelandair 2006".

Í ljós kemur að "Sumaráætlun Icelandair 2006" er á ensku (vetraráætlunin reyndar líka) og þarf smá þekkingu til að átta sig á að talnarunan sem stendur á undan orðinu Nonstop í áætluninni þýðir hvaða daga er flogið og hjá Icelandair byrjar vikan á mánudegi (þ.e. 1 = mánudagur, 2 = þriðjudagur o.s.frv.). Þetta má sjá ef menn byrja að lesa neðstu línu í næstsíðustu og síðustu síðu í skjalinu ("Days: 1=Monday, 2= Tuesday, 3=Wednesday," stendur á 14. síðu, "4=Thursday, 5=Friday, 6=Saturday, 7=Sunday" stendur á 15. síðu).

Ég hef ekki svar við því hvers vegna jafn stórt fyrirtæki og Icelandair sem hefur væntanlega á að skipa netdeild (get ekki aflað upplýsinga um það hvort slíkt deild er til og hvað margir vinna þar - ef smellt er á tengil við "Grunnupplýsingar um félagið, stærð og starfsemi, rekstur og starfsmenn" kemur upp "Síðan sem þú baðst um finnst því miður ekki...") getur ekki komið svo einföldum upplýsingum sem flugáætlun í nothæfan gagnagrunn (pdf-skjal er heldur hallærislegt sem einu almennilegu upplýsingarnar anno 2006). Hugsanlega felst það að einhverju leyti í því að metnaður manna þar á bæ er ekki að vera bestir, heldur að vera ekki verri en hinir.


Dómgreindarlaus ritstjóri

Hún er óneitanlegs sérkennileg deilan sem sprottin er milli Jótlandspóstsins og múslima víða um heim. Það er að segja sérkennileg fyrir það Jótlandspósturinn skuli hafa látið sér detta í huga að móðga trúarsannfæringu tugmilljóna á svo ósvífin hátt og ætla svo að skjóta sér á bak við prentfrelsið. Aumkvunarverð er sú staðhæfing að þeir hafi viljað vekja umræðu um málfrelsi. Ef þeir Jótlandspótsmenn vildi endilega láta reyna á málfrelsið af hverju birtu þeir ekki skopmyndir af Margréti Þórhildi Danadrottningu að hafa mök við hunda sína? Nú eða skrípamynd af gyðing á leið í gasklefann? Það var svo til að bíta höfuðið af skömminni að heyra Anders Fogh Rasmussen ræða það á blaðamannafundi að sér þyki það sérstaklega slæmt að mótmælt sé á svæðum sem notið hafa góðs af þróunaraðstoð Dana í gegnum árin(!) - Hann var semsé að kveinka sér yfir því að Dönum hafi ekki tekist að kaupa sér nægilega undirgefna vini. Mér sýnist það borðleggjandi að svo dómgreindarlaus ritstjóri sem Carsten Juste augljóslega er segi af sér. "Jyllands-Posten lægger vægt på at holde en høj etisk standard, som bygger på respekt for vore grundlæggende værdier" segir hann í bréfi í blaðinu í dag. Annað hefur komið á daginn.

Bókahelgin mikla

Lagðist í lestur um helgina og náði að vinna aðeins á bunkaum á skrifborðinu. Reyndar ekki mikill tími til að lesa á laugardaginn, enda var ég þá með afmælisboð, en náði þó að lesa eina bók á föstudagkvöldið og aðra á laugardagskvöld og þrjár lágu síðan eftir sunnudaginn, tvær sem ég hafði gripið í öðru hvoru í vikunni og svo ein sem rann ljúflega um kvöldið.

Þrjár bókanna eru óútgefnar, The Lost Railway Porter eftir Andrew Martin, Angel Blood eftir John Singleton og We're All in This Together eftir Owen King - eiga allar að koma út í maí næstkomandi.

Andrew Martin hefur skrifað bækur sem gerast um aldamótin þarsíðustu og segja frá Jim Stringer sem dreymir um að verða lestarstjóri en örlögin haga því svo að hann verður lögregluþjónn. Ég las fyrstu bókina í seríunni fyrir nokkrum árum og fannst hún þokkaleg, The Necropolis Railway, en söguþráður hennar snýst á skemmtilegan hátt um greftrunarsiði í Englandi á öndverðri tuttugustu öld, hvernig þeir voru að breytast og hvernig fjárglæframenn nýttu sér það. Stíllinn á bókinni féll mér ekki í geð, fannst hann of tilgerðar- og þunglamalegur og tilraunir h0fundar til að skapa drungalegt andrúmsloft voru á tíðum hlægilegar. The Lost Railway Porter, sem er þriðja bókin um Stringer að mér sýnist, er ekki gallalaust en þó mun betur skrifuð en fyrsta bókin. Sérstaklega eru mannlýsingar betur úr hendi gerðar þó persónurnar vilji of vera hálfgert skrípafólk. Best tekst Martin upp í að lýsa ofbeldi í bókinni sem er mátulega handahófskennt til að geta verið ekta.

We're All in This Together er fyrsta bók Owens Kings, sem er kynntur á kápu sem "brilliant young writer of impressive maturity" sem útgefandinn, Faber and Faber, telur greinilega að verði einn af helstu höfundum sínum í framtíðinni. Má vel vera, það er margt vel gert í bókinni sem segir frá ungum pilti sem á í hálfgerðri tilvistarkreppu, glímir við vonbiðil móður sinnar og hálfgeggjaðan afa sem er gömul verkalýðshetja og ekki við það að láta deigan sína þó hann sé komin á grafarbakkann. Sagan er fjörlega skrifuð, kannski ekki svo sannfærandi á köflum, en fríkuð og frumleg. Sérstaklega er samband afans og besta vinar hans snúið og í raun algeggjað eins og kemur í ljós undir lokin. Mér fannst endir bókarinnar sístur, eins og höfund þryti hugmyndir eða orka til að loka bókinni á almennilegan hátt. Víst er King efnilegur en ekki gott að segja hvort hann sé sú vonarstjarna sem þeir Faber-menn ætla.

Þriðja bókin er svo Angel Blood eftir John Singleton, bók fyrir ungmenni eða unglinga. Singletron hefur skrifað þrjár slíkar bækur, Skinny B, Skaz and Me og Star sem fengið hafa fína dóma. Angel Blood segir frá börnum sem haldið er nauðugum á hæli og þar pínd og kvalin á ýmsan hátt. Börnin er fötluð eða vansköpuð eins og smám saman kemur í ljós í eintali eins þeirra, en heimsmynd þeirra er býsna sérkennileg þar sem þau hafa aldrei komið út undir bert loft og þekkja engan nema hjúkrunarfólk og lækna sem annast þau. Starfsmenn hælisins eða heimilisins sem börnunum er haldið á eru ýmist grimmir sadistar eða kærulausir aumingjar og yfirlæknirinn Mengele holdtekinn, enda gerir hann á börnunum ýmsar voðlegar tilraunir í rannsóknarskyni. Inni í þessar hörmungarsögu flækjast svo tvö ungmenni, vandræðastúlka og vandræðapiltur. Hún er áfram um að bjarga börnunum þegar ghún kemst á snoðir um aðstæður þeirra en hann flækist með nauður viljugur, til að byrja með í það minnsta.

Singleton er fínn penni, með bestu unglingabókahöfundum breskum um þessar mundir, áþekkur höfundur og David Almond (las reyndar nýjustu bóka hans um daginn, Clay, frábær bók og eftirminnileg). Söguþráðurinn er vitanlega fyrirsjáanlegur um margt, en Singleton tekst mjög vel að gera sögupersónurnar sannfærandi, meira að segja fötluðu / vansköpuðu börnin, en líka verður óknyttapilturinn lifandi fyrir manni, þó hann sé klisjukenndur á stundum. Endirinn á bókinni kom svo vel á óvart og það má mikið vera ef þessi bók verður ekki talin með þeim bestu þegar árið verður gert upp.

Fjórða bókin sem lá eftir þessa helgi var Nomadin, barnabók eftir Shwan P. Cormier sem gefin var út 2003, í þriðju útgáfu. Höfundur gefur bókina sjálfur út og ekki þarf að lesa lengi áður en maður áttar sig á hvers vegna. Í bókinni eru allt of margar persónu og allt of mikið í gangi í einu. Sagan segir af ungum pilti sem nemur galdra hjá galdramanni sem starfsheiti hans er Nomadin. Óvættur birtist skyndilega og piltur heldur af stað með lærimeistara sínum að leita hjálpar. nenni eiginlega ekki að rekja atburðarásina frekar, enda er stokkið úr einu í annað, sífellt birtast nýjar og nýjar persónur sem ýmist deyja eða gleymast eins og hendi sé veifað. Ég varð að beita mig hörðu til að nenna að lesa lokaþáttinn - þegar spennan á að vera mest, og þó allt endi í uppnámi á ég ekki eftir að lesa framhaldið. Mér er slétt saman um hvað verður um galdrastrákinn, prinsessuna hugrökku, töfrasvaninn, risann hugumprúða, stríðsmanninn trausta, hundinn talandi, galdrameistarann mikla, býantinn talandi og töfraljósið, svo fátt eitt sé talið af veigamiklum liðsmönnum hins góða. Óþokkarnir voru mun skemmtilegri, enda færri.

Fimmta bókin er svo Finding George Orwell in Burma eftir Emmu Larkin, mjög fróðleg og skemmtileg bók sem gefur einkar áhrifamikla mynd af ástandinu í Burma, eða Myanmar eins og það land heitir víst í dag að geðþótta brjálaðra einræðisherra sem stjórna því. Fyrsta bókin sem Orwell sendi frá sér var Burmese days og er hann lést var hann með í smíðum aðra bók sem einnig átti að gerast í Burma. Þó honum hafi þannig ekki tekist að ljúka við nema eina bók sem beinlínis gerðist í Burma sem Larkin að hann hafi í raun skrifað þrjár bækur um landið, Burmese days, Animal Farm og 1984. Eftir lestur bókarinn er ekki hægt annað en taka undir þessi orð hennar. Mögnuð bók.


Íslenskan bráðum mun útaf deyja

Óttalegt væl fannst mér í Andra Snæ í útvarpinu í gær þegar hann var að tala um íslensku og hve allt breyttist hratt, eiginlega svo hratt, svo ógnarhratt að ég fékk áhyggjur af því að ég myndi ekki skilja hvað hann væri að segja áður en viðtalið væri búið. Hann (og fleiri væluskjóður) talar eins og það séu að myndast eyður í málfari ungmenna, það detti út orð og ekkert komi í staðinn ... geri ráð fyrir að hvaðsemþaðheitir verði algengasta orð í íslensku innan skamms, kannski strax í næstu viku ... nema það verði þá dottið út.

Svona hugsaði ég í fyrstu, en svo áttaði ég mig á því hvað hann væri að fara þegar ég var að fylgjast með yngra barnabarninu í baði í morgun. Þar sat drengurinn, nýorðinn tveggja ára, og var að leika sér með leikfang sem hann lét hrapa í vatnið hvað eftir annað: Þyrla sagði hann hróðugur og lyfti á loft grænu plastleikafangi. Þyrla, hugsaði ég, af hverju segir hann ekki helíkopter. Það setti að mér trega - orðið helikopter var að hverfa úr íslensku máli. Hver hélt uppi vörum fyrir það!? Hvað með það góða orð úr minni barnæsku og önnur álíka eins og fortó, sem hún amma notaði, eða skrípó eða kames? Horfin, horfin!

"Annars þjer einlæglega að segja held jeg, að íslenskan bráðum muni útaf deyja; reikna jeg, að varla muni nokkur skilja hana í Reykjavík að 100 árum liðnum, en varla nokkur í landinu að öðrum 200 árum þar upp frá, ef allt fer eins og hingað til og ekki verða rammar skorður við reistar; jafnvel hjá beztu mönnum er annaðhvort orð á dönsku; hjá almúganum mun hún haldast við lengst."

Svo segir í bréfi þess mæta manns Rasmus Kristians Rask til Bjarna Thorsteinssonar sem hann skrifaði 30. ágúst og 2. september 1813. Tekið upp úr minningarriti Björns Magnússonar Ólsen um Rask, Reykjavík 1888. Frá því Rask skrifaði þessi orð eru liðin 193 ár nú í haust. Kannski geta bara fræðimenn lesið þennan texta þá.


Tónlistarverðlaunin og ég

Þá eru afstaðin íslensku tónlistarverðlaunin eitt árið til, mikill glaumur og einhver gleði í Þjóðleikhúsinu sl. miðvikudagskvöld. Ég var ekki á staðnum, hef reyndar aldrei verið á staðnum frá því verðlaunin voru endurvakin fyrir nokkrum árum. Af hverju ekki? Tja, ýmsar ástæður, aðallega þó að mér finnst svona samkomur alla jafna leiðinlegar. ("It's always entertaining when you're hanging out with entertainers" söng Neil Finn í Hold Steady og víst er skemtilegt að skemmta sér með skemmtikröftum, ekki síst ef þeir eru að taka við verðlaunum, en ekki súrir á barnum.)

Lengi vel þótti mér tónlistarverðlaunin ekki marktæk vegna nálægðar þeirra við DV, þetta voru eiginlega DV-verðlaun framan af, hálfgerð Stjörunmessa, en síðan kom alltaf eitthvað uppá þegar á reyndi. Eitt árið ætlaði ég að fara til að mynda, en miðinn týndist í höndum skipuleggjenda. Annað árið átti ég að afhenda verðlaun en var upptekinn við annað og svo má telja. Með tímanum hafa verðlaunin þó fengið á sig klúðurslegt yfirbragð, tilnefningar kjánalegar og jafnvel þvert á reglur verðlaunanna, verðlaunin út í hött, skipast í flokka í tómu tjóni og svo má telja. Keyrði svo um þverbak á síðustu verðlaunahátíð að ég held þau eigi varla viðreisnar von

Verðlaunin voru nú veitt í tólfta sinn. Stjórn verðlaunanna skipa Margrét Bóasdóttir, sem er stjórnarformaður, Pétur Grétarsson, Sigurgeir Sigmundsson og Björn Th. Árnson. Berglind María Tómasdóttir er framkvæmdastjóri þeirra.

Reglur verðlaunanna eru ekki tiltækar öllum og ekki gott að átta sig á því hversu vel menn þekkja þær almennt. Framkvæmd verðlaunanna er að einhverju leyti níu manna nefndar sem skipuð er þeim Frey Eyjólfssyni, Lísu Pálsdóttur, Ragheiði Eiríksdóttur, Bjarna Braga Kjartanssyni, Skarphéðni Guðmundssyni, Pálma Sigurhjartarsyni, Birgi Nielsen, Andreu Jónsdóttur og Trausta Júlíussyni. Allt klúður skrifast á ofangreinda.

Ég tók einu sinni þátt í að tilnefna plötur til verðlauna og kom á óvart hve skipulagning væri ófullkomin og eins hvað þeir sem störfuðu með mér að því vali væru illa að sér um þá tónlist sem við vorum með í höndunum. Í einhverjum tilfellum var viðkomandi ekki búinn að hlusta á nema lítinn hluta af þeim plötum sem hann síðan tók þátt í að tilnefna. Það er nefnilega svo að þeir sem starfa að tónlist hafa oft ekki áhuga á tónlist nema á sínu þrönga áhugasviði, eða jafnvel alls engan. Það er þó erfitt við að eiga fyrir aðstandendur þykist ég vita, því ekki er hægt að hlýða fólki yfir.

Rétt er að hafa það í huga þegar amast er yfir Íslensku tónlistarverðlaununum að ekki er verið að velja bestu plötur / listamenn / lög eða umslög ársins. Slíkt væri ómögulegt, enda byggist þannig val á smekk viðkomandi en ekki vísindalegu mati. Þrátt fyrir það eru tilnefningar og verðlaun oft sérkennileg, eiginlega óskiljanleg á köflum. Ég sæki þó skýringar í reynslu mína af störfum dómnefnda.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband