Færsluflokkur: Bloggar
Föstudagur, 5. maí 2006
NFS sekkur
Ég hef ekki alltaf verið dús við Róbert Marshall, fréttamann og nú forstöðumann NFS, en eftir frétt í Morgunblaðinu í dag, þar sem rætt er um útkomu NFS í nýjustu áhorfskönnun IMG Gallup hækkar hann óneitanlega nokkuð í áliti hjá mér.
Málið er að í téðri áhorfskönnun kemur fram meðal annars að hjá fréttavaktinni á NFS fyrir hádegi mælist áhorf 1,2% og þátturinn skelfilegi Hrafnaþing með 1,2%. Þessi niðurstaða er lakari en nokkurn hefði grunað, eða það hélt ég í það minnsta þar til ég las orð Róberts: "Áhorfið yfir daginn er í mjög miklu samræmi við það sem við áttum von á."
Ekki minnkar aðdáun mín þegar Róbert svarar spurningum vegna Kompáss (fínn þáttur reyndar), sem samsendur er á Stöð 2 og NFS. Þó hann sé í opinni dagskrá á tveimur stöðvum horfa á hann ekki nema rúm 17% og áhorf annarra en áskrifenda Stöðvar 2 lítið. "[Þ]ar eru mikil sóknarfæri," segir Róbert.
Svona eiga sýslumenn að vera, láta það ekki á sig fá þó skútan sé að sökkva og eiginlega sokkin að hluta. Það eina sem ég sakna er að hann skuli ekki hafa nefnt þau sóknarfæri sem felist í því að áhorf á suma dagskrárliði sé ekki nema í kringum eitt prósent - varla þarf mikið átak til að hífa áhorf upp um 100% eða kannski meira. Það væri þá hægt að slá því upp í næstu könnun.
(Þeir sem þekkja Supertramp, þá annars leiðinlegu hljómsveit, skilja væntanlega hvers vegna þessi myndskreyting var valin. Þeir geta þá látið ljós sitt skína í athugasemdum ef vill.)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Miðvikudagur, 3. maí 2006
Játningar rafgítarræfils
Ég hef löngum verið hálfgerður rafgítarræfill, veikur fyrir því ef menn spila hátt og lengi á slík apparöt. Set þó þann fyrirvara að mér finnst eiginlega því meira gaman sem spilamennskan er óhreinni, ef svo má segja; mér finnst skipta miklu máli að verið sé að spila með hjaertanu, en ekki endilega með heilanum. Þannig getur verið meira gaman að heyra músíktilraunastrák rembast við að gera meira en hann getur en að heyra einhvern íþróttamnninn spila ógnarhraða skala af vísndalegri nákvæmi. Víst er gaman að heyra slika spilamennsku, einu sinni, en svo er það líka búið - er hægt að taka mark á mönnum sem rembast sem mest við að spila eins og vélar?
Að þessu sögðu er óneitanlega gríðarlega gtaman að heyra færa gítarleikara spila af tilfinningu þar sem meira skiptir að skila réttri tilfinningu en réttri tónregund. Neil Young er dæmi um slíka spilamennsku og Dimebag Darrell sálugi var líka þannig gítarleikari, líka Frank Zappa svo fleiri framliðnir séu tíndir til sögunnar. Ég ætla þó ekki að fara út í þá sálma að nefna góða gítarleikara, dauða eða lifandi, heldur kviknaði þessi pæling er ég var að hlusta á nýju Built to Spill plötuna, You in Reverse.
Built to Spill er rokksveit frá Boise í Idaho, Doug Martsch heitir höfuðpaur hennar, gítarleikari, lagasmiður og söngvari. Gott ef hann lék ekki á flest hljóðfærin framan af. Fyrsta breiðskifa sveitarinnar kom út 1993, Ultimate Alternative Wavers. Ári síðar kom There's Nothing Wrong with Love og svo 1997 kom fyrsta platan fyrir stórfyrirtæki, og þar af leiðandi fyrsta platan með almennilega dreifingu, Perfect From Now On, fín plata. Enn betri var Keep It Like a Secret sem kom út 1999. Það var eiginlega fullmikið af gítar á tónleikaplötu sem sveitin sendi frá sér 2000, en Ancient Melodies of the Future, sem kom út 2001, var góð plata þó greina hafi mátt þreytumerki á svetinni og það örlaði á stöðnun.
Lítið hefur heyrst frá sveitinni síðan Ancient Melodies of the Future kom út, svo lítið reyndar að flestir héldu að sveitin væri búin að syngja sitt síðasta. Það dró ekki úr þeim vangaveltum að Martsch gaf út sólóskífu 2002, en á endanum kom sveitin saman aftur, hóf æfingar á síaðsta ári og afraksturinn af þeim æfingum var sú ágæta plata You in Reverse.
Tónlistin á skífunni er venju fremur fjölbreytt þó hún fari aldrei langt frá því að vera Built to Spill plata. Greinilegt að þeir félagar hafa fundið spilagleðina að nýju og sveitin hefur eiginlega ekki hljómað betur að mínu viti. Fjögur tóndæmi til sannindamerkis má finna á MySpace-síðu Built to Spill, http://www.myspace.com/builttospill. Heyr til að mynda lagið Liar, sem stingur mjög í stúf við það sem sveitin hefur áður gert, en þó ekki - gítarhljómurinn er til að mynda mjög kunnuglegur og svo vitanlega söngurinn. Upphafslag plötunnar er líka aðgengilegt þar, Goin' Against Your Mind, sem er um margt klassískt Built to Spill lag, tæpar níu mínútur af nútímalegu indíproggi. (Flottar þessar línur í því lagi: When I was a kid I saw a light / Floating high above the trees one night / I thougt it was an alien / Turned out to be just god.)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 3. maí 2006
Stjörnuhrap
Kaavya Viswanathan flaug hratt upp á stjörnuhimininn - síðasta haust gerði Little, Brown & Co. útgáfusamning upp á hátt í fjörutíu milljónir króna við stúlkuna um útgáfu á tveimur skáldsögum. Annar eins samningur hafði ekki verið gerður við við svo ungan höfund sem að auki hafði ekkert gefið út. Fyrri bókin, How Opal Mehta Got Kissed, Got Wild, and Got A Life, kom svo út í apríl síðastliðnum og fékk fínar viðtökur, enda fjörug og fyndin frásögn.Bókin segir frá stúlku sem þráir það helst að komast í Harvard-háskóla en fær óblíðar viðtökur þegar hún sækir um því þó einkunnir hennar séu til fyrirmyndar á hún sé ekkert líf utan námsins. Háskólinn hefur nefnilega ekki áhuga á nemendum sem eiga enga vini og stunda ekkert félagslíf. Faðir Mehta grípur í taumana, gerir áætlun um það hvernig hún geti komið sér upp félagslífi á mettíma og allir leggjast á eitt um að finna handa henni vini og kærasta.
Viswanathan, sem fædd var í Chennai (Madras) á Indlandi og fluttist með fjölskyldu sinni til Bandaríkjanna barn að aldri, gaf það í skyn að sagan væri að einhverju leyti byggð á reynslu hennar, en þegar bókin kom út stundaði hún nám í enskum fræðum við Harvard. Annað átti eftir að koma í ljós.
Útgáfa á bókum fyrir unglingsstúlkur lýtur sömu lögmálum og annar fyrirtækjarekstur vestan hafs, hagræðing og hámarkshagnaður. Það hefur lengi tíðkast að margir séu um eitt höfundarnafn, til að bmynda voru bækurnar um Tom Swift skrifaðar af mörgum höfundum, Victor Appleton var margir menn (Howard Garis, W. Bert Foster, John Duffield, Thomas M. Mitchell, Harriet S. Adams og fleiri), margir skrifuðu Nancy bækurnar og svo má telja. Slíkar bækur eru skrifaðar eftir formúlu, þurfa ekkert að vera verri fyrir það, og alla jafna sér teymi um að þróa sögupersónurnar, ákveða söguþráð, hanna kápu og myndskreytingar. Fyrirtæki sem fást við slíkt hafa lengi verið til, en uppákoman með Kaavya Viswanathan hefur beint sjónum manna að því fyrirtæki sem öflugast er og afkastamest á þessu sviði nú um stundir, Alloy Entertainment.
Umboðsmaður Viswanathan sendi Alloy fyrstu drög að bók hennar og starfsmenn Alloy unnu að fyrstu köflunum með Viswanathan. Að því fram kemur í New York Times kom fyrirtækið ekki frekar að bókinni en það, en þó er útgáfusamningurinn á milli Alloy og Little, Brown & Co. Sá háttur er einmitt hafður á alla jafna - Alloy semur við útgefendur um bækur og við höfundana um hvaða skerf þeir fá af kökunni, hvort sem þeir fá 15% af útsöluverði hverrar bókar eða eru bara á föstum launum ef þeir eru að skrifa undir dulnefni.
Útgefendur kunna vel að meta þá þjónustu sem slík fyrirtæki veita, enda fá þeir í hendurnar bók sem líkleg er til að ná metsölu tilbúna til útgáfu með kápu og öllu tilheyrandi. Slík viðskipti tíðkast líka ekki bara í unglingabókum heldur er það alsiða í æviminningum viða um heim að einhver sé ráðinn til að skrifa ævisögu, til að mynda ævisögur ungra íþróttamanna eða poppara. Eitt frægasta dæmi um slíkt á síðustu árum er rakið i bókinni Ghosting þar sem Jennie Erdal segir frá fimmtán ára starfi sínu fyrir viðskiptajöfurinn Naim Attallah, en á þeim tíma skrifaði hún blaðagreinar, ræður, ýmis bréf, þ. á m. ástarjátningar, viðtalsbækur við ýmsa og tvær skáldsögur. Allt var þetta gefið út undir nafni Attallah.
Skömmu eftir að How Opal Mehta Got Kissed, Got Wild, and Got A Life kom út fóru að heyrast raddir um að maðkur væri í mysunni, að bókin væri ekki bara eftir Kaavya Viswanathan heldur hefði hún stolið efni í hana frá öðrum höfundum. Lesendur bentu þannig á að langir kaflar í bókinni væru sláandi líkir köflum úr tveimur unglingabókum eftir Megan McCafferty, Sloppy Firsts og Second Helpings. Við nánari skoðun sást að í fjörutíu tilfellum að minnsta kosti væri sláandi líkindi með bók Viswanathan og bókum McCafferty, svo mikil líkindi að engar líkur væri að skrifa mætti það á tilviljun - atburðarás og samskipti sögupersóna eru svipuð, kaflar að segja orðréttir uppúr bókum McCafferty eða setningar.
Framan af gerði Viswanathan lítið úr ásökunum um ritstuld, en játaði síðan að vera mætti að í bókinni væri vitnað í bækur McCafferty, en slíkar tilvitnanir væri ekki vísvitandi. Hún sagðist hafa marglesið bækur McCafferty og hrifist svo af þeim að hlutar úr þeim hefðu síast inn í hana ómeðvitað og þegar hún síðan skrifaði bókina um Opal Mehta hafi hún ekki gert sér grein fyrir að hún væri ekki að skrifa eigin texta, heldur væri hún að vitna í McCafferty. Hún bar sig og vel í fyrstu yfirlýsingum sínum, sagðist ætla að endurskrifa þá kafla í bókinni sem líktust um of því sem McCafferty hefði skrifað og ný útgáfa bókarinnar kæmi á markað sem fljótt sem auðið væri. Frammámenn Little, Brown & Co. tóku í sama streng, sögðu að bókin yrði áfram á markaði þar til ný útgáfa yrði tilbúin og að fyrirtækið hefði fulla trú á Viswanathan.
Allt umtalið, þó neikvætt væri, varð til þess að auka sölu á bókinni, en gagnrýnisraddir urðu æ háværari með þeim afleiðingum að Little, Brown & Co. innkallaði bókina. Þá var búið að prenta 100.000 eintök og dreifa 50.000 þeirra til bókaverslana. Til að byrja með héldu menn fast við að til stæði að gera af bókinni nýja útgáfu, en nú er loks orðið ljóst að svo verður ekki, How Opal Mehta Got Kissed, Got Wild, and Got A Life verður ekki endurútgefin endurgerð, í það minnsta ekki af Little, Brown & Co. Það sem meira er - fyrirtækið hefur rift samningnum við Viswanathan og mun ekki gefa út aðra skáldsögu eftir hana.
Þetta eru svo sem skiljanleg viðbrögð í ljósi þess að Viswanathan stal frá fleirum en Megan McCafferty. Glöggir lesendur hafa nefnilega fundið í bókinni kafla sem rekja má til Can You Keep a Secret? eftir Sophie Kinsella, metölubókarinnar The Princess Diaries eftir Meg Cabot og Haroun and the Sea of Stories eftir Salman Rushdie. Sjá hér.
Rithöfundaferli Kaavya Viswanathan virðist því lokið eiginlega áður en hann hófst. Við þessa niðurlægingu bætist síðan að henni hefur verið vikið úr Harvard-skóla um sinn og ekki ljóst hvort hún fær aftur inngöngu í skólann. Það verður líka að teljast ólíklegt að Dreamworks geri kvikmynd eftir bókinni eins og stóð til.
Ekki verður undan því vikist að nefna annað mál álíka, þó ekki sé það jafn alvarlegt, en það var er Ólafur Jóhann Ólafsson nýtti sér hluta úr bók M.F.K. Fisher, The Gastronomical Me, í bók sinni Slóðar fiðrildanna. Í viðtali við Morgunblaðið í janúar 2002 segir Ólafur að hann hafi aldrei farið leynt með að hann hafi fengið að láni frá Fischer þó hann hafi ekki getið hennar í heimildaskrá eða inngangi að bókinni: "[Þ]egar ég hef verið að kynna bókina á upplestrarferðum og þess háttar hef ég mikið talað um þetta. Það hefur ekki verið neitt launungarmál að þegar menn skrifa skáldsögur sem gerast á árum áður viða þeir að sér ýmsu efni og það er hefð fyrir því hvað menn geta notað og hvernig, án þess að geta heimilda."
Í því viðtali segir Ólafur Jóhann að um sé að ræða tvær línur sem hann hafi fengið að láni, en áhöld eru um hvort um meiri texta sé að ræða. Í viðtölum við erlenda fjölmiðla lét Ólafur Jóhann þau orð falla að hann hefði verið að votta Fisher virðingu sína með því að vitna í hana og að allir þeir sem þekktu bók hennar myndu kannast við kaflana í bók hans og skilja að þeir væru virðingarvottur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Föstudagur, 28. apríl 2006
Enginn er annars bróðir í leik
Góð þykir mér sú ábending að tónlistin sé fögur en mögur, enda verður seint sagt að það sé vel borgað starf að vera tónlistarmaður. Vissulega nær nokkur hópur því að verða vinsæll og vellauðugur, en fyrir hvern einn sem nær því eru tugþúsundir sem svelta hálfu hungri þar til þeir gefast upp, fara að afgreiða í plötubúð eða hverfa til annarra starfa.
Skýringin á því hvers vegna svo erfitt er að lifa af því að vera tónlistarmaður hér á landi liggur eiginlega í augum uppi - í landi þar sem ekki búa fáir neytendur er aldrei hægt að selja margar plötur. Málið er þó ekki svo einfalt, því úti í heimi, þar sem neytendur eru margir, er ekki endilega auðveldara að lifa af músík, til að mynda vestan hafs. Þar kemur margt til, til að mynda mikill markaðskostnaður, en líka það hve tónlistarmenn fá litla sneið af kökunni þegar sölutekjum er skipt. Kíkjum á dæmi:
Tónlistarmaður fær ákveðna prósentu af smásöluverði plötu, mis-háa prósentu eftir því hvernig samning hann er með við viðkomandi útgáfu. Alla jafna fá menn í kringum 10% af smásöluverðinu, en það er reyndar að frádregnum ýmsum kostnaði. Til að mynda er dreginn frá kostnaður vegna umbúða, sem er jafnan fjórðungur af smásöluverðinu, dreginn er frá kostnaður vegna affalla í flutningi, þ.e. diska sem skemmast í flutningi (10%), og dreginn er frá kostnaður vegna "nýrrar tækni" sem settur var á þegar geisladiskar komu á markað og er enn í notkun, 25% þar. Þegar upp er staðið fær listamaðurinn því 10% af helmingi smásöluverðsins. Ekki þarf að taka fram að hann fær ekkert fyrr en búið að er að selja plötur upp í allan kostnað af af framleiðslunni, upptökum hljóðvinnslu og frumeintaki, og svo ákveðinn hluta af markaðskostnaði, til að mynda myndbandagerð og álíka. Gefur augaleið að margt af þeim frádrætti sem hér er tíndur til er útí hött, til að mynda frádráttur vegna nýrrar tækni og eins eru afföll vegna flutninga langt frá því að vera 10%, þó þau hafi kannski nálgast það á meðan menn voru enn að fást við lakkplötur.
Margir tónlistarmenn hafa gert sér vonir um að sala á Netinu myndi skila þeim stærri sneið af kökunni, enda kostnaður þar allt annar; dreifing kostar ekki nema brot af því sem kostar að dreifa tónlist á plötum eða diskum, engin afföll eru vegna afffalla í flutningi, umbúðir kosta ekkert og svo má telja. Raunin hefur þó verið önnur, því smásalar á tónlist á Netinu, þar fremst í flokki Apple fyrirtækið, hafa séð sér leik á borði og maka nú krókinn.
Undanfarna mánuði hafa útgefendur glímt við Apple um að hafa verðlagningu fjölbreyttari innan iTunes, hafa meðal annars lagt til að eldri tónlist sé seld á 60 sent og 80 sent, en nýrri og vinsælli tónlist á hærra verði en 99 sent. Þeir segjast einnig vilja geta boðið tónlist nýrra listamanna á sérstöku kynningarverði. Apple-menn hafa hinsvegar staðið fast á sínu - hvert lag kosti 99 sent. Síðustu fréttir benda til þess að þeir muni hafa sitt fram, enda hafa þeir hótað því að þau fyrirtæki sem krefjist breyttrar verðlagningar verði einfaldlega ekki með í iTunes.
Þegar Apple selur lag í gegnum iTunes fær fyrirtækið 35% af þeim 99 centum sem hver lag selst á, 26 kr. af þeim 77 sem lagið kostar skv. meðalgengi þegar þetta er skrifað. Útgefandinn fær þau 65% sem eftir eru. Ólíklegt verður að teljast að inni í frádrætti sem fyrirtækið notar til að stækka sinn skerf séu fyrirbæri eins og umbúðakostnaður, enda er hann enginn, eða afföll, enda eru þau engin, en vel hugsanlegt að 25% frádráttur vegna nýrrar tækni sé enn inni.
Það þýðir þá að tónlistarmaðurinn fær minna fyrir sinn snúð en hann fékk forðum og því skiptir það hann litlu sem engu hvort tónlistin sé seld í gegnum iTunes, Sony-sjoppuna (Sony Connect) eða á diskum. Þegar iTunes er annars vegar fær útgefandinn fær aftur á móti minna, hefur til að mynda ekki sömu tækifæri til að nýta sér frumlegan frádrátt.
Fréttin sem þessi færsla tengist sýnir svo hvernig plötufyrirtæki starfa - Sony dregur af Allman bræðrum og Cheap Trick, og væntanlega tugum tónlistamanna annarra, kostnað vegna umbúða og dreifingar við netsölu þó hvorugu sé til að dreifa (og örugglega vegna nýrrar tækni). Fyrir tónlistarmenn hjá Sony skiptir því engu hvort tónlist sé seld á diskum eða á netinu með minni tilkostnaði en nokkru sinn hingað til, en fyrirtækin fitna. Á meðan tónlistarmenn leggja fyrirtækjunum lið í baráttu gegn dreifingu á tónlist á Netinu hagnast fyrirtækin meira á hverju lagi seldu á Netinu en á diskum með því að arðræna listamennina - enginn er annars bróðir í leik.
(Til skýringar má nefna að myndin sem fylgir er af umslagi Eat a Peach, bestu Allman Brothers Band plötunni. Á henni er hið magnaða lag Little Martha þar sem Duane Allman fer á kostum, eitt af því síðasta sem hann tók upp.)
Cheap Trick og Allman Brothers lögsækja Sony Music | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 2.5.2006 kl. 22:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Föstudagur, 28. apríl 2006
Indælt lag
Það held ég að Crazy með Gnarls Barkley sé eitt indælasta lag sem ég hef lengi heyrt, óvenjulega smekklega útfært og nútímalegt soullag. Kemur kannski ekki á óvart í ljósi þess að þeir standa að því félagarnir Danger Mouse og Cee-Lo, sá fyrrnefndi höfundur Gráa albúmsins og meðsmiður The Mouse and the Mask með MF Doom (ein besta plata síðasta árs og gott ef hún var ekki besta hiphopskífan) og sá síðarnefndi höfundur prýðisplötunnar Cee-Lo Green Is the Soul Machine sem kom út 2004.
MySpace er óttalegt drasl, óstöðugt og erfitt viðureignar, en bendi samt á það vilji menn heyra lagið Crazy.
Bloggar | Breytt 2.5.2006 kl. 22:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 24. apríl 2006
Meiri tækni, minni gæði
Einhversstaðar las ég það að Elvis hafi hlustað á prufupressur af upptökum á ódýrum ferðaplötuspilurum til að meta mixið því þannig myndi obbinn af aðdáendum hans heyra lögin. Þarf varla að taka fram að hljómgæði í slíkum græjum eru ekki nema miðlungi góð. Kannski eru menn þegar farnir að gera eins með iPodinn og álíka spilastokka - taka upp lög og þjappa þeim síðan í mp3 eða m4a og hlusta á í spilastokk. Þarf varla að taka fram að hljómgæði í slíkum apparötum eru talsvert minni en á venjulegum geisladisk, þó þau séu vissulega meiri en á ferðaplötuspilurunum gömlu.
Undanfarna áratugi hafa menn lagt mikið á sig til að skila tónlist sem best til áheyrenda, byggt fullkomin hljóðver, bætt upptökutækni til muna, smíðað æ betri hljóðnema og beitt tölvutækni til að skila sem bestum hljómi til tónlistarunnenda. Ámóta þróun hefur verið í hljómtækjunum sjálfum, en nú verður væntanlega breyting á - vinsælasta fermingjargjöfin er græjur fyrir iPodinn.
Málið er hinsvegar að músík sem búið að er þjappa á mp3-snið tapar talsvert af gæðum við þá þjöppun, og því meiri gæðum eftir því sem þjöppunin er meiri. Mp3-sniðið byggist nefnilega á svonefndi lossy-þjöppun, þ.e. þjöppun þar sem hluta af upplýsingum er hent. (Annað dæmi um lossy-þjöppun er JPEG-þjöppun sem notuð er fyrir ljósmyndir og algengasta myndasnið á vefnum (.jpg myndir).)
Þegar tónlist er snúið á mp3-snið metur hugbúnaður hvað mannseyrað getur greint og hvað ekki. Til að mynda greinir mannseyrað ekki hljóð sem eru yfir 16.000 sveiflur á sek., 16 kílóhertz, og því er þeim öllum sleppt, menn heyra illa mjög dauft hljóð strax á eftir háværu hljóði og því má henda út þeim lágu hljóðum sem svo háttar um og svo má telja.
Hversu langt er gengið í þjöppuninni fer vitanlega eftir því hvaða gæði menn velja. Fyrir nokkrum árum var alsiða að þjappa tónlistinni í 128 Kbita gæði, síðan fór menn upp í 160, þá 192 og nú er algengt að rekast á skrár sem eru 320 K bitar á sek, sem er í áttina en ekki nógu langt - tónlist á geisladisk er vistuð í mun meiri gæðum; (16 bitar sinnum 44.100 × 2 rásir) = 1411,2 kílóbitar á sek.
Mjög er misjafnt hversu vel gengur að þjappa tónlist, fer meðal annars eftir tónlistinni, þ.e. gerð hennar, og atriðum eins og hvort um tónleikaupptöku sé að ræða, hljóðmynd upptökusalarins og svo má telja. Það hversu vel tónlistin hljómar síðan þegar búið er að þjappa henni er svo smekksatriði, sumum finnst ekkert að því að hlusta á tónlist í 128 kbita gæðum, aðrir þola það ekki og enn aðrir sætta sig ekki einu sinni við 320 kbita gæði.
Það þarf ekki mikla þjálfun eða þroskaða athyglisgáfu til að heyra að tónlist sem er í 128 kílóbita sniði hljómar illa, flatneskjuleg og köld, en ef menn hafa aldrei heyrt annað finnst þeim eflaust eins og þannig eigi þetta bara að vera, svo eigi viðkomandi lag einmitt að hljóma. Þeir kaupa sér síðan stereogræjur til að stinga iPoddnum í, jafnvel allt sambyggt, eins og til að mynda iPod Hi-Fi sem Apple mærir á vefsíðu sinni, og trúa jafnvel bullinu sem þar stendur: "Dock to turn on and tune in to digital music as you've never heard it before. From pumping bass to bright treble, iPod Hi-Fi delivers natural, room-filling sound. Close your eyes and you'd think you were listening to a huge stack of speakers." Það var og.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Laugardagur, 22. apríl 2006
Þjóðernissinnaðar verkalýðshetjur
Það er í sjálfu sér ekki tíðindi að Ásgeir Hannes Eiríksson pylsusali hyggist stofna þjóðernissinnaðan stjórnmálaflokk, hann er frægur fyrir að velja rangan málstað. Hitt þykir mér verra að samkvæmt skoaðanakönnum Gallup, sem gerð var að undirlagi hans, gæti þriðjungur aðspurðra hugsað sér að kjósa flokk sem hefði á stefnuskrá sinni að draga úr fjölda innflytjenda til landsins.
Það kemur eflaust einhverjum á óvart að andúð á útlendingum sé svo útbreidd sem þessi könnun gefur til kynna, en hvernig má annað vera þar sem menn hamast við að mála skrattann á vegginn og þeir sem gjarnan kenna sig við vinstrimennsku, sem einkennist víst af manngæsku og skilningi, ganga fram fyrir skjöldu um að breiða út fáfræði og fordóma?
Varla líður nefnilega sá fréttatími að verkalýðsforkólfar koma ekki í útvarp og sjónvarp að formæla útlendingum sem komi hingað til að vinna fyrir lægri laun en Íslendingar, að því þeir segja, og dragi þannig niður kjör íslenskra verkamanna og hafi af þeim vinnu.
Flokkar þjóðernissinna beita jafnan hræðsluáróðri og blekkingum og afskræma staðreyndir til að auka fylgi við málstað sinn. Liðsmenn þjóðernissinna í þeim slag eru verkalýðsforkólfar, forsvarsmenn ASÍ og fleiri verkalýðsfélaga og samtaka, sem verður tíðrætt um að þeir sem hingað koma til að vinna séu eiginlega að grafa undan öllu saman, erlent verkafólk sé að eyðileggja íslenskan vinnumarkað, draga niður laun og gott ef þeir eru ekki að ræna vinnu frá íslenskum verkamönnum (ÍSLENSKUM verkamönnum!!). Vatn á myllu þjóðernissinna eins og Ásgeirs Hannesar.
Þegar rýnt er í tölur um atvinnuleysi kemur aftur á móti í ljós að atvinnuleysi hér á landi er ekki nema hálft annað prósent, sem er í raun ekkert atvinnuleysi, og mikil eftirspurn eftir vinnuafli. Það er því ljóst að allir þeir Íslendingar sem vilja hafa vinnu og þeir hafa ágætis vinnu, því þeir eru almennt ekki að vinna í fiski, á dekkjaverkstæðum eða í umönnun - það sjá útlendingarnir um og það er ekki nóg af þeim.
Nú væri ráð að stjórnmálaflokkar settu á stefnuskrá sína að draga úr fjölda þjóðernisöfgamanna. Líka þeir stjórnmálaflokkar sem stæra sig af góðum tengslum við verkalýðshreyfinguna.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Fimmtudagur, 20. apríl 2006
Sherlock Holmes snýr aftur
The Italian Secretary eftir Caleb Carr, Little, Brown gaf út í ágúst 2005. 278 síður innbundin. Keypt í Máli og menningu.
Þar sem Arthur Conyan Doyle sat og lét sér leiðast sem ungur læknir byrjaði hann að skrifa sögur af einkaspæjaranum Sherlock Holmes og hlaut fyrir heimfrægð, ríkidæmi og aðalstign.
Þó Doyle hafi skrifað fjórar skáldsögur og 56 smásögur um Holmes og Watson félaga hans hafði hann aldrei mikið álit á þessari sköpun sinni og var hirðulaus um margt. Hann var til að mynda ekki viss um hvar kúlan hefði eiginlega lent í Watson í Afganistan, húr fór á milli staða í sögunum, og kona Watsons, Mary Morstan, söguhetja úr Sign of the Four, hvarf óforvarandis og ný ónefnd kom í staðinn eftir stutt hlé. Allar slíkir smágallar skipta þó ekki miklu, en verra var að Holmes var sífellt að nefna mál sem hann hafði glímt við en heimurinn væri ekki reiðubúinn að heyra af, til að mynda risarottunni frá Súmatra, ævintýrum Patterson-fjölskyldunnar á eynni Uffa og af ítalska ritaranum. Þá koma til bjargar höfundar eins og Caleb Carr, sem sendi á dögunum frá sér bók um Sherlock Holmes og ritarann ítalska.
Caleb Carr varð frægur fyrir bók sína um sálfræðinginn Lazlo Kriezler, The Alienist, og hefur skrifað sitthvað síðan. Hann hefur löngum verið meðlimur í félagsskap áhugamanna um Holmes, The Baker Street Irregulars, og kemur í sjálfu sér ekki á óvart að hann kjósi að skrifa bók um spæjarann mikla.
Í The Italian Secretary reynir Carr að fara sem næst stíl Doyles og tekst býsna vel þó hann nái eðlilega aldrei að skapa sama andrúmsloft og Doyle sem var að skrifa sögu úr samtíma sínum. Fléttan er fín, mátulega ógnvænleg og ótrúverðug eins og flétturnar flestar ef ekki allar í sögum Doyles. Það er helst að Carr leyfi sér að fara frjálslega með persónu Mycrofts Holmes, enda var hún svo lítt mótuð af Doyle að Carr getur leyft sér sitthvað með hana.
Á síðasta ári komu út tvær fínar bækur ungra höfunda þar sem Sherlock Holmes kemur við sögu, sú sem hér er gerð að umtalsefni og The Final Solution eftir Michael Chabon. Það er gott til að vita að Shelock Holmes lifir góðu lífi.
(Þess má svo geta að ítalski ritarinn var David Rizzio, tónlistarmaður og ritari Maríu Skotadrottningu, sem myrtur var 1566. Mynd af honum hér.)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fimmtudagur, 20. apríl 2006
Hver var Johnny Lim?
The Harmony Silk Factory, skáldsaga eftir malaysíska-breska rithöfundinn Tash Aw. HarperPerennial gefur út. 384 síðna kilja. Fékkst í Máli og menningu.
Sagan segir frá ómenntuðum ólæsum kínverskum verkamanni, Lim Seng Chin, sem fluttur er til Malaysíu af breskum nýlenduyfirvöldum sem ódýrt vinnuafl. Hann tekur sér nýtt nafn, Johnny Lin, eftir sjónvarpsstjörnu, og brýst til mikilla efna sem eigandi verslunarfyrirtækisins Harmony Silk Factory. Hvernig hann fór að því er aftur á móti umdeilt, eins og kemur fram í sögu hans sem þrír sögumenn segja, Jasper, eftirlifandi sonur hans, Snow, látin eiginkona hans, og Peter Wormwood, enskur vinur hans sem búið hefur í Malaysíu lungann af ævinni.
Þessir þrír sögumenn hafa hver sína sýn á Johnny Lim, Jasper hatar hann og segir sína sögu til að fletta ofan af því sem hann tekur glæpi föður síns. Snow, sem saga hennar er fengin úr dagbók hennar, er breysk og ótrú, og Wormwood er upptekinn af sjálfum sér og sínum vandamálum. Þegar frásögn þeirra þriggja er fléttuð saman bitrtist mynd af manni sem var hugmyndaríkur og handlaginn vélvirki, leiðtogi kommúnista, flugumaður Japana, margfaldur morðingi, siðlaus svartamarkaðsbraskari, dugmikil hetja, og vandræðalegur verkamaður sem gat ekki haft mök við konu sína vegna þess hve hann dáði hana.
Sonur Johnnys Lim gerir hvað hann getur til að draga fram allt það versta og ljótasta sem faðir hann hafi gert um dagana og túlkar allt á versta veg. Eiginkonan Snow er hálf flöktandi, giftist Johnny eiginlega af skyldurækni, en dagbókin, sem er að mestu frásögn hennar af sjóferð þeirra, vina og japansks njósnara, er draumkennd og óljós. Raunsannasta lýsingin kemur frá Wormwood, sem hefur þá tilfinningalegu fjarlægð sem þarf til að lýsa Johnny Lim á trúverðugan hátt, en hann er líka að skálda, ómeðvitað.
Þessi bók Tash Aw var tilnefnd til Booker-verðlaunanna síðasta haust en hlaut þau þó ekki. Hún átti tilnefninguna skilda að mínu mati, enda vel skrifuð og skemmtilega snúin. Eini galli á henni er að mér finnst frásögn Snow, í dagbók hennar, ótrúverðug. Aw tekst þó að gefa góða mynd af innviðum þeirra sem segja söguna sem er vel af sér vikið, aukinheldur sem myndin sem gefin er af Johnny Lim er líka skemmtilega brotakennd - eftir því sem líður á bókina veit maður í senn meira um Lim og minna.
Bloggar | Breytt 23.4.2006 kl. 00:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 7. apríl 2006
Ys og þys útaf Jesú
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Tenglar
Vefgreinar
- Dont Legalize Drugs by Theodore Dalrymple, City Journal Spring 1997 Advocates have almost convinced Americans that legalization will remove most of the evil that drugs inflict on society. Dont believe them. City Journal - Spring 1997
Vefmiðlar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar