Færsluflokkur: Bloggar
Mánudagur, 23. janúar 2006
Kvikmyndafyrirtæki í tilvistarkreppu
Kvikmyndafyrirtæki eru komin í sömu tilvistarkreppu og plötufyrirtæki hvað varðar dreifingu á efni yfir netið. Undanfarin ár hafa menn getað sótt sér kvikmyndir á netinu jafnharðan og þær hafa verið frumsýndar og oft nokkur áður en þær koma á almennan markað. Ekki er svo bara það að hægt hefur verið að finna myndirnar á netinu heldur hefur einnig verið hægt að kaupa þær á mörkuðum og hjá götusölum víða um heim löngu áður en þær koma á markað. (Það er reyndar ekkert nýtt, ég keypti From Dusk Till Dawn á VHS spólu á Brick Lane markaðnum nokkrum dögum eftir að hún var frumsýnd vestan hafs 1996.)
Framan af var tiltölulega algengt að menn væru að dreifa Cam-útgáfum, þ.e. myndum sem teknar voru upp á stafrænar vídeóvélar í bíói og gæðin eftir því. Það var reyndar eitt af atriðinum í átaki kvikmyndaframleiðenda gegn ólöglegri dreifingu á bíómyndum að leggja áherslu á hve gæðin á slíkum myndum væru lítil. Sá tími er þó löngu liðinn og nú lítur enginn við Cam-útgáfum, allir vilja DVD-ripp af myndum, þ.e. afrit sem tekið er af DVD disk með viðkomandi mynd, en af slíku er alltaf slatti í gangi, ýmist sem eintök sem send eru til gagnrýnenda, til meðlima kvikmyndaakademíunnar vegna óskarsverðlauna, eða til bíóhúsa víða um heim.
Dreifing á kvikmyndum á Netinu er orðin álíka algeng og á tónlist sýnist mér, þó framboðið sé vitanlega minna og enn sem komið er fátítt að menn sendi heilar myndir sin á milli í tölvupósti. Annað sem spilar hér inní er lítil apparöt sem hægt er að nota til að horfa á kvikmyndir, því þó lengi hafi verið hægt að fá DVD ferðaspilara er nú ekki þverfótað fyrir spilastokkum sem sýnt geta kvikmyndir, allt frá iPod í Archos. Sumir framleiðendur slíkra tækja vilja vingast við kvikmyndaframleiðendur, til að mynda Apple sem leggur talsvert uppúr að dreifa tónlist og kvikmyndum í DRM-umbúðum. Aðrir vilja vingast við notendur og gera þeim kleift að horfa a það sem þeir vilja, til að mynda Archos sem spilarar frá þeim framleiðanda spila DiVX:), og Creative, en nýr spilari frá Creative, Zen Vision:M, sem er býsna flottur, spilar eiginlega hvað sem er.
Innlegg í þessa umræðu var er Steven Soderbergh frumsýndi mynd sína Bubble vestan hafs um daginn. Sú mynd er merkileg fyrir ýmislegt. Soderberg notar þannig ekki atvinnuleikara, heldur eru áhugaleikarar í öllum hlutverkum og myndin tekin upp á stafrænar vélar og unnin í háskerpu. Kostaði enda ekki nema um 100 milljónir kr. sem er ævintýralega lítið fyrir kvikmynd þar í landi. Mesta byltingin er þó að myndin kom út á DVD og var sýnd á kapalstöð daginn eftir að hún var frumsýnd. Stóru kvikmyndahúsakeðjurnar vestan hafs neituðu að sýna myndina enda þykir mönnum þar á bæ þetta háttarlag ógnun við framtíð sína.
Alla jafna hafa menn hagað því svo að fyrst er mynd frumsýnd í kvikmyndahúsi, nokkru síðan er hún gefin út á sölumyndbandi og þá fer hún í sjónvarp. Þetta er einfölduð mynd af því hvernig kvikmyndir eru markaðssettar, en almennt er reglan sú að hver sérmarkaður er mjólkaður eftir megni áður en haldið er inn á þann næsta. Þetta módel er nú búið að syngja sitt síðasta og gildir einu þó menn reyni að neita því að breytingin sé að eiga sér stað eins og stóru bíóhúsakeðjurnar og samtök myndrétthafa. Málsóknir og kergja munu ekki koma í veg fyrir að fólk sæki sér myndir á Netið.
Það sem vakir fyrir aðstandendum myndar Soderbergs, sem högnuðust gríðarlega á netviðskiptum, er að spara sér kostnað vegna markaðssetningar myndarinnar. Með því að frumsýna hana, selja sjónvarpsrétt og gefa út á myndbandi nánast samtímis spara þeir mikið fé og þurfa því eðlilega ekki eins miklar tekjur til að skila góðum hagnaði. Ýmsir sem starfa í kvikmyndaiðnaðinum hafa reyndar rætt opinberlega að ástæða sé til að bregðast við og til að mynda er ekki langt síðan eitt stóru kvikmyndafyrirtækjanna lýsti því yfir að það myndi gefa myndir út samtímis á DVD og í sjónvarp. Hvort þar sé nog að gert þykir mér ólíklegt.
Kvikmyndafyrirtækin hafa skákað í því skjólinu að kvikmyndaskrár eru svo stórar að erfitt er að dreifa þeim um Netið. Það breytist þó hratt og ekki gott fyrir fyrirtæki að treysta á það að tæknin þróist eftir þeim hraða sem þau helst kjósa. Á þessu sviði, líkt og með tónlistina, geirir fólk það sem því langar, notar kvikmyndir eins og því finnst hentugast, og ef stórfyrirtækin svara ekki kalli tímans gera það aðrir.
Bloggar | Breytt 20.4.2006 kl. 12:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 18. janúar 2006
Vandi vestan hafs
- Universal bætti við sig, náði 32% markaðshlutdeild og átti sex af tíu mest seldu plötum ársins. Enginn samdráttur var hjá Warner. EMI hélt í horfinu, sala dróst saman um 0,4%. Sony BMG átti erfiða daga; valdabarátta, klúður vegna falins hugbúnaðar á geisladiskum, milljónasekt vegna útvarpsspilunarsvika (sem Warner tók reyndar þátt í líka) og 3% minni markaðshlutdeild.
- Smáfyrirtækjum gekk almennt vel, enda treysta þau ekki á milljónasölu stórstjörnu eins og stórfyrirtækin heldur að selja margar plötur vel. Markaðshlutdeild þeirra jókst og, er nú í kringum 18%.
- Söluaukning á lögum á Netinu er um 150%, alls seldust 352 milljónir laga. Enn deila menn um verð á þeim vígstöðvum, fyrirtækin vilja hækka verðið , sætta sig ekki við 99 cent, um 60 kr., fyrir hvert lag, en skerfur þeirra af því er almennt um 17 cent, 10 kr. Þau vilja hærra verð til að vinna upp tap á geisladiskasölu. Dæmigerð rökleysa.
- Barátta útgefenda vestan hafs gegn þeim sem sækja sér tónlist á netinu, hundruð málshöfðana, skilaði litlu að því best verður séð, því samkvæmt mælingum voru þeir sem skiptust á tónlist á Netinu 21% fleiri í nóvember 2005 en í nóvember 2004. (Nú segja eflaust einhverjir: Aukningin hefði örugglega verið 210% ef ekkert hefði verið að gert, en hefði eins getað orðið 2,1% ef útgefendur hefðu haldið sig á mottunni.)
Bloggar | Breytt 20.4.2006 kl. 12:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 12. janúar 2006
Pjátur og látún
Tónlist er list en hún er líka varningur. Hún byggist á beislun hins óræða og óáþreifanlega en þarfnast hins áþreifanlega og hversdagslega til að listamaðurinn sem skapar geti haft af henni eitthvert viðurværi og eins að gera þeim kleift að njóta listarinnar sem vilja. Þetta tvennt togast jafnan á, gleymum því ekki að fremstu listamenn hafa skapað sín helstu verk eftir pöntun og til að hafa í sig og á, en um hver jól nær hið síðarnefnda yfirhöndinni.
Ekki þarf að orðlengja það hve kjánalegt það er þegar list er metin á mælikvarða íþrótta, hver selur mest eða hraðast eða víðast. Skondin var til að mynda sú markaðssetning á skáldverki fyrir jól að hún væri helst eiguleg fyrir það í hve mörgum löndum hún myndi hugsanlega koma út. Eins má segja með tónlistina, því þó það sé fréttnæmt ef íslendingum gengur vel verður listaverk ekki merkilegra fyrir það að margir vilji eiga það.
Bóka- og plötuútgáfa hér á landi nær jafnan hæst síðustu mánuðina fyrir jól, enda kemur þá út obbinn af þeim bókum og plötum sem koma út á hverju ári. Skýring á þessu er aðallega sú að jólamarkaðurinn er aðallega gjafamarkaður, þ.e. fólk er að kaupa bækur eða plötur til að gjafa en alla jafna síður fyrir sjálft sig.
Þetta má til að mynda sjá á því hvernig Tónlistinn, sem birtur er vikulega í Morgunblaðinu og byggist á sölutölum úr nokkrum helstu plötuverslunum, gerbreytist um hver áramót. Síðasti listi ársins er þannig allt öðruvísi en fyrsti listi næsta árs enda eru fjöldi eintaka sem skilað dreginn frá þeim sem keypt eru og oftar en ekki mikill halli (mínustala). Þannig háttaði því svo til á tónlistanum fyrir 52. viku liðins árs að nærfellt allar metsöluplöturnar voru horfnar sem sátu á toppnum í 51. viku. Ekki var nema ein plata eftir, plata Magnúsar Þórs Sigmundssonar, sem bendir til þess að þá plötu hafi fólk fyrst og fremst verið að kaupa fyrir sjálft sig (þó víst geti það verið að þeir sem gefið hafa þá plötu séu naskari að velja gjafir en gengur og gerist). Það er svo ekki nema eðlilegt að þær plötur sem mest seljast séu og þær plötur sem mest er skilað.
Snar þáttur í markaðssetningu gjafamarkaði, eins og háttar með íslenskan plötu- og bókamarkað, er að vekja athygli á því hvað sé vinsælast, hvað flesta langi til að fá í jólagjöf. Gæði eða listrænt inntak hugverkanna sem um ræðir skiptir vissulega einnig máli, en minna máli. Þegar bækur eru annars vegar er það gert með bóksölulistanum og með auglýsingum um að upplag sé búið og því meiri spenna eftir því sem hærri raðtölu er skeytt framan við. Á plötumarkaði, sem er meginviðfangsefni þessa pistils, nýta menn Tónlistann og auglýsa vel hvar þeirra plötur hafa lent, en líka eru þeir duglegir við að senda frá sér fréttatilkynningar um plötusölu, sérstaklega ef hægt er að skreyta slíkar tilkynningar með gulli og platínu.
Veittar eru tvær viðurkenningar fyrir plötusölu, annars vegar gullviðurkenning fyrir 5.000 seld eintök og svo platínuviðurkenning fyrir 10.000 seld eintök. Nú er málum svo háttað á plötumarkaði að plötur eru almennt seldar með skilarétti, þ.e. annarsvegar hafa verslanir alla jafna heimild til að skila til útgefanda óseldum eintökum og svo hinsvegar hafa viðskiptavinir skilarétt á þeim plötum sem þeir hafa keypt eða fengið að gjöf. Um þetta gilda ýmsar reglur sem þarflaust er að tíunda hér, en gefur augaleið að erfitt er að gefa upp af nokkurri nákvæmni hve mikið hefur selst af plötu á þeim tíma sem mest sala er í gangi (gleymum því ekki að að þær plötur sem mest seljast séu og þær plötur sem mest er skilað).
Í raun er eini marktæki mælikvarðinn á árssölu á plötu sú tala sem útgefandinn gefur upp við STEF, Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar, að loknu ársuppgjöri, því hann þarf að greiða höfundarréttargjöld af þeirri tölu og þá kostar skreytnin (helstu útgefendur greiða aðeins af seldum eintökum, aðrir af hverju framleiddu eintaki). Dæmi eru um það að uppgefin sala við STEF hafi verið lægri en auglýst var og tilkynnt fyrir jólin á undan og jafnvel að listamenn hefðu þurft að skila gullplötu sem þeir fengu afhenta ef nokkur hefði gengið eftir slíku.
Þrátt fyrir þennan vankanta, þ.e. að erfitt sé að meta hve mikið hefur raunverulega selst af plötu í miðri jólaösinni, hafa útgefendur ekki hikað við að gefa hástemmdar yfirlýsingar um glæsilega sölu og raðað á listamenn sína gull- og platínuplötum. Í því tilviki eru þeir að notfæra sér að plötumarkaðurinn fyrir jól er gjafamarkaður að stærstum hluta, eins og getið er, og því skipti máli að koma því sem best á framfæri hvað sé vinsælast.
Vissulega hafa þeir nokkuð til síns máls, því seld plata er seld plata á því augnabliki sem hún er seld, og í mörgum tilfellum, kannski flestum, eru sölutölurnar sannar þegar þeim er slegið fram, þó framtíðin eigi kannski eftir að leiða annað í ljós. Á móti kemur að söluviðurkenningar eins og gull- eða platínuplötur hljóta að þurfa að byggja á traustari grunni en æsing jólavertíðar. Það er varla skemmtilegt fyrir listamann að hafa hangandi upp á vegg hjá sér gullplötu sem er er í raun glópagull og ekki sanngjarnt gagnavart plötukaupendum að viðurkenningar sem alla jafna hafa notið virðingar skuli verðfelldar með þessum hætti.
Í eina tíð staðfesti samband hljómplötuframleiðenda söluna sem lá að baki gull- og platínuviðurkenningum, en ekki veit ég hvaða háttur er hafður á núorðið. Mín tillaga er sú að menn láti af þessu gull- og platínuskrumi fyrir jólin og geri að alvöru viðurkenningum að nýju. Vilji þeir hengja skraut á listamenn sína fyrir jól má eins kalla það látúns- og pjáturplötur.
Bloggar | Breytt 20.4.2006 kl. 12:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 9. janúar 2006
Náttúruvakningarsamkona
Það besta við Nattúrutónleikana sl. laugardagskvöld var að þetta voru ekki bara tónleikar, ekki bara tónlistarsamkoma heldur var tilgangurinn með öllu saman alltaf ljós. Í stað þess að vera með endalausar ræður og yfirlýsingar ræddu menn lítið um náttúruvernd, tónlistarmennirnir nánast ekkert, en létu myndskeið á milli atriða tala, sýndu skýringarmyndir, línurit og landslagsmyndir. Það var gríðarlega áhrifamikið og því áhrifameira sem leið á tónleikana. Það var óneitanlega gaman að heyra fimm þúsund manns baula á Friðrik Sophusson og Landsvirkjun og víst að þær Sif Friðleifsdóttir og Valgerður Sverrisdóttir eru ekki hátt skrifaðar hjá þeim ungmennum sem sóttu tónleikana, sérstaklega þó Sif enda klaufalegum yfirlýsingum hennar gerð góð skil. Smám saman urðu tónleikarnir að vakningarsamkomu
Það var ævintýralegt hve vel allt var heppnað, hve hratt gekk að skipta út sviðsbúnaði milli atriða og í raun hve kvöldið var vel upp sett, vel skipulagt hvað varðar hljómsveitir. Grímur Atlason og sviðsstjóri stóðu sig frábærlega. Það eina sem ég saknaði var ein eða fleiri unghljómsveitir, til að mynda Mammút eða Jakobínarína, og líka hefði mátt gefa þeim NBC félögum eða Forgotten Lores færi á að láta í sér heyra, til að mynda með Hjálmum eða Ghostigital.
KK byrjaði kvöldið mjög skemmtilega, sérstaklega fannst mér fyrsta lagið gott hjá honum. Fólk tók honum líka vel og gaman hvað unga liði virtist þekkja Paradís vel.
Björk og Zeena Parkins voru ekki síður góðar, sérstaklega fannst mér Generous Palmstroke frábærlega flutt. Múm voru venju fremur frábær. allt gekk upp hjá þeim og inpromptu kór, sem kallaður var víst saman með litlum fyrirvara, stóð sig með prýði, hvort sem hann var að humma, spila á bjöllur eða syngja með. Skildist á Kristínu Björk að kórinn ætlaði að halda hópinn og fá menn til að semja fyrir sig lög eða tónverk sem er frábær hugmynd.
Sigur Rós spilaði Heysátuna og gerði það vel, ætla víst að spila hana fyrir Conan O'Brien í næsta mánuði. Þeir eru greinilega búnir að æfa það vel - takturinn á hreinu.
Mikið var gaman að sjá Möggu Stínu á sviði aftur þó hún væri að spila eldgömul lög. Það er tími til kominn að hún snúi sig í gang aftur, kalli saman heimsmeistarana og búi til nýja tónlist. Fílahirðirinn frá Súrinn var í frábærri útsetningu og sungið af mikilli tilfinningu. Björgvin Gíslason fór á kostum á sítareinn. Mikið er gaman að hann sé kominn upp úr kjallaranum og vonandi á maður eftir að sjá meira af honum.
Aðal rokkband kvöldsins var Rass, greinilegt að unglingarnir kunnu vel að meta andstöðurokkið því þeim var innilega fagnað, aðallega þó Óttarri sem átti eftir að koma tvívegis á svið til viðbótar, fyrst með Dr. Spock, sem tók því miður bara eitt lag, og svo með Ham. Meira um það síðar.
Það fór ekki á milli mála þegar Damien Rice kom á svið að fyrir mörgum var hann aðalnúmer kvöldsins. Hann er fínn lagasmiður með einkar innilega og ljúfa rödd. Mér fannst hann full daufur framan af en svo setti hann í gang með miklum látum í lokalaginu og rokkaði sem mest hann mátti á kassagítarinn vel studdur skælifetlum.
Mugison var einn með gítarinn til að byrja með, en kallaði svo á Hjálma og tók með þeim eitt lag. Hann fór á kostum pilturinn og vakti mikla hrifningu viðstaddra, sérstaklega þegar hann tók sólóið sitt. Gríðarleg útgeislun.
Hjálmar voru eitt besta band kvöldsins, hápunktarnir reyndar Hjálmar, Rass og Múm. Sérstaklega var flutningur þeirra Húsið hrynur magnaður og mjög viðeigandi á þessum stað þar sem kalkaða gröfin Landsvirkjun var í aðalhlutverki.
Gaman þótti mér að sjá hve fólk var ringlað yfir Ghostigital, skildi ekki hvar var í gangi framan af en fór svo smám saman að komast í samband. Bibbi var gríðarhress og dansaði af list og stýrði fjöldaklappi. In Cod We Trust var frábært hjá þeim fannst mér. Damon Albarn spilaði smá melódíku í In Cod We Trust og síðan flutti hann nýtt lag með þeim félögum þar sem sungið var um land og ál. Ekki merkilegt lag en fínt á þessum stað og þessari stund.
Ólíklegt þykir mér að margir viðstaddra hafi nokkurn tíman séð Ham spila, nema þá þeir sem mættu á fyrri Rammstein-tónleikana. Partíbær (The Groove of Hafnir City) er löngu orðið klassískt lag og eftirminnilegt er ég heyrði Buttercup spila það eitt sinn fyrir löngu. Mér fannst þó upphafslag þeirra félaga að þessu sinni enn betra, Rape Machine hét það á demóum en fékk síðan nafnið Animalia. Það var aðeins frábrugðið frumgerðinni, sérstaklega í viðlaginu (engin Super Maxima-gól) og eins var 2000 talsvert breytt. Alltaf gaman að sjá Ham og Sigurjón Kjartansson er mesti riffsmiður íslands.
Bubbi Morthens og Egó áttu svo lokaorðið að þessu sinni og mættu á svið með látum. Bubbi var ekki að keyra á fullum krafti, nýstiginn uppúr veikindum, en það var þó kraftur í honum. Þeir félagar beittu líka flugeldasprengingum af kappi og vel til fundið. Sérstaklega var sjónarspilið mikið í Fjöllin hafa vakað, sem er náttúrlega virkjanalag eða í það minnsta í samhengi kvöldsins. Merkileg hvað krakkarnir, sem almennt voru ekki fædd þegar Egó-lögin komu út á sínum tíma, kunnu textana vel, upp á tíu sýndist mér.
Bloggar | Breytt 20.4.2006 kl. 12:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 4. janúar 2006
Karlmennskan óbeisluð
Fræg eru þau ummæli Dino De Laurentiis: "When the monkey die, everybody cry", sem hann lét falla um endurgerð sína af King Kong frá 1976. Laurentiis var þá að vísa í Jaws, enda felldi enginn tár þegar óvætturinn sá gaf upp öndina ólíkt því þegar apinn mikli fellur til jarðar í King Kong Peters Jacksons sem ég sá í gærkvöldi með félögum mínum.
Jackson er um margt gallaður kvikmyndagerðarmaður eins og sást af sögunni um Frodo og félaga hans þar sem langdregnar bardagasenur voru að drepa mann, sérstaklega í þriðju og síðustu myndinni (mér fannst hún miklu betri er ég horfði á hana í annað sinn, enda þá með fjarstýringu og gat hraðspólað yfir mesta bardagaruglið). En í Kong tekst honum býsna vel upp, missir reyndar aðeins um miðjuna, en annað er fyrsta flokks, ekki mikið innihald en þess meiri og glæsilegri umbúðir.
Ágætt dæmi um það hve Jackson á erfitt með sig var hremmingar leitarmanna á ferð um eyna, fyrst glíma við risaeðlur og svo ógeðsleg skorkvikindi og mannætusæbjúgu (vel lýst á Salon: " ... a squad of vicious sea-cucumber-type things that resemble uncircumcised penises outfitted with vagina dentata. Sjá hér. ) Mér Jóhanni Páll bíófélagi minn líka lýsa þessu vel: Allt of mikið dýralíf um miðjuna.
Það má reyndar líta á þennan langdregna eltingarleik og skrímslastríðið sem gamaninnskot því Jackson er býsna mikill húmoristi. Þannig er í myndinni fjöldi broslegra smáatriða og þá ekki bara mannskapurinn á skipinu (upp til hópa skrípamyndir) heldur einnig hinar merkingaþrungnu setningar sem hann skýtur inn í hér og þar, nefni sem dæmi það sem Carl Denham (Jack Black) segir við Ann Darrow (Naomi Watts) þegar hann gefur henni að borða (makkarónur með osti): "You're the saddest girl I've ever met."
Fyndin tilgerð en mjög í takt við myndina - í henni er allt stórskorið, ekki bara apinn. Þau atriði þar sem skipið er við að steyta á höfuðskeljasker eru þannig frábærlega útfærð og ná vel að draga það fram hve menn eru í raun hjálparvana í greipum hafsins, sama hve skipið er stórt eða traustbyggt. (Gaman væri að sjá Jackson glíma við hvíta hvalinn.)
Mér finnst hann líka fara vel með frumbyggjana sem eru gersamlega búnir á sálinni eftir nábýlið við Toru Kong (ætlaði að segja sál og líkama, en þeir voru nú margir býsna massaðir sem er svosem á skjön við ömurlegar aðstæður).
Mér skilst að Jackson hafi ætlað sér að gera King Kong áður en hann tók til við hringaþríleikinn mikla og hugsanlega hefði myndin verið betri þá, ekki eins miklir peningar og fyrir vikið ekki eins mikið tölvudót.
Það er svo langt síðan ég sá fyrstu myndina (af myndbandi) að ég man varla eftir henni en þó það að í henni var apinn ófreskja og ekkert reynt að vekja samúð með honum. Í myndinni hans Laurentiis, sem John Guillermin leikstýrði, er höfuðáherslan lögð á samband fríðu og dýrsins og eins í myndinni hans Jacksons - ástin milli þeirra Kong og Darrow er ekki andleg. Apinn mikli karlmennskan óbeisluð, þrótt- og kraftmikil, og stúlkan girnilegur biti fyrir slíkan hlunk.
Þegar King Kong fyrsti var sýndur var þekkt minni í bandarísku samfélagi hve blökkumenn þráðu að hafa mök við ungar ljóshærðar stúlkur, ímynd hreinleika og fegurðar. Það var því vel til fundið að nýta sér þennan undirliggjandi ótta og Kong-höfundar voru ekki einir um það - á næstu árum var gerður grúi slíkra mynda þar sem mis-hávaxinn api réðst á fáklæddar stúlkur, til að mynda Bride of the Gorilla (1951), Nabonga (1944), Zamba (1949) og Konga (1961). Sumar þessara mynda gengu býsna langt í átt að erótíkinni, enda kjörið tækifæri til að sýna túttur þegar menn voru að sýna myndir af frumstæðum ættbálkum, og sumar nánast alla leið eins og sjá má á myndinni sem fylgir, en hún er úr kanadísku myndinni Tanya's Island frá 1980.
(Kannski viðeigandi að minnast þess að í King Kong mynd Laurentiis léku tvíturnarnir í New York eitt aðalhlutverkanna, þessir miklu minnisvarðar um græðgi áttunda áratugarins sem sýnast nú í öðru ljósi er maður sér þeim bregða fyrir í gamalli kvikmynd. Svona leikur sagan okkur, snýr ólund í einskonar trega.)
Bloggar | Breytt 20.4.2006 kl. 12:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 4. janúar 2006
Enn um Gunnar og Halldór
Deilurnar um Gunnar Gunnarsson, Halldór Laxness tóku á sig skondna mynd þegar leynd var aflétt af skjölum sænsku nóbelsakademíunnar og í ljós kom að enginn fótur var fyrir flökkusögunni sem fjölskylda Gunnars Gunnarssonar hafði nært með sér árum saman. Menn láta þó ekki deigan síga eins og sjá mátti á spjalli við þá Hannes Hólmstein Gissurarson og Gunnar Björn Gunnarsson í Morgunblaðinu í gær og svo grein Hannesar Hólmsteins í blaðinu í dag.
Eftir Gunnari Birni er til að mynda hafðar þessar skemmtilegu setningar: "[Halldór Guðmundsson] er að reyna að halda sig við staðreyndir og ég skil það vel. Ég get leyft mér að tala öðruvísi, sem hluti af fjölskyldu Gunnars." Þetta þykir mér býsna vel að orði komist - ég veit að þetta byggist ekki á staðreyndum, en kýs að trúa því samt.
Álíka segir Hannes Hólmsteinn reyndar líka: "Ég tók þá afstöðu í [þriðja bindi ævisögu Halldórs Laxness] að trúa sögunni um símskeytið því ég tel enga ástæðu til að rengja hana."
Semsé: Fræðimaðurinn telur rétt að taka inn í ævisögu, sem alla jafna eiga að byggja á staðreyndum, munnmælasögu sem ekki er hægt að staðreyna. Hann bætir um betur með grein í Morgunblaðinu í dag þar sem lýkur á þessum merkilegu orðum: "Hitt er annað mál, að sennilega hefðu menn eins og Bjarni Benediktsson, Ólafur Thors og Kristján Albertsson frekar viljað, að verðlaununum yrði skipt en að Laxness fengi þau einn. Það hefði að mínum dómi verið heppileg niðurstaða."
Ekki fer milli mála að Hannes Hólmsteinn vísar hér til pólitísks andrúmsloft hér á landi á þeim tíma þar sem tókust á vinstrisinnaðir rithöfundar og hægrisinnaðir og gerir því skóna að hægrimenn hefðu gjarnan viljað að "sinn maður" hlyti Nóbelsverðlaunin, ekki vegna ritsnilli heldur vegna pólitískra skoðana. (Eina bókin sem ég man eftir að Ólafur Thors hafi lofað opinberlega var Sturla í Vogum eftir Guðmund Gíslason Hagalín. Segir sitt um bókmenntasmekk hans.) Gaman væri svo að fá einhverntímann útleggingu Hannesar Hólmsteins á því hvers vegna hann telur að það hefði verið "heppileg niðurstaða" ef verðlaununum hefði verið skipt og þá ekki síst fyrir hvern slík niðurstaða hefði verið heppilegri.
Grein Jóns Óttars Ragnarssonar í blaðinu í dag er gott innlegg í þessa umræðu, kominn tími til að einhver taki upp þykkjuna fyrir Ragnar í Smára vegna þessara fáránlegu ásakana að hann beitt eins lágkúrulegum vinnubrögðum og Hannes Hólmstein Gissurarson og Gunnar Björn Gunnarsson hafa haldið fram. Í greininni segir Jón Óttar meðal annars: "Í samanburði við sína samtíðarmenn - Gunnar Gunnarsson meðtalinn - var Halldór Laxness eins konar atómklukka sem allir aðrir neyddust til að stilla úrin sín eftir hvort sem þeim líkaði það betur eða verr" og dregur síðan fram það sem akademíumenn hafa eflaust sett fyrir sig (að frátöldu því að Halldór var merkari rithöfundur en Gunnar): a. Gunnar skrifaði ekki á íslensku. b. Hann heimsótti Hitler í mars 1940, eftir upphaf seinni heimsstyrjaldarinnar og fór lofsamlegum orðum um hann opinberlega skömmu áður en Þjóðverjar hernámu Danmörku og Noreg.
Það er mín skoðun að Gunnar Gunnarsson hefði aldrei fengið Nóbelsverðlaunin jafnvel þó Halldór Laxness hefði ekki verið til.
Er ekki tími til kominn fyrir þá Hannes Hólmstein og Gunnar Björn til að biðja fjölskyldur Jóns Helgasonar, Peters Hallbergs og Ragnars í Smára afsökunar fyrir að hafa borið upp á þá samblástur og undirferli og fjölskyldu Andrésar Þormar fyrir að hafa borið upp á hann alvarlegt trúnaðarbrot í starfi?
Bloggar | Breytt 20.4.2006 kl. 12:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 30. desember 2005
Langt mál um lágstemmda tónlist
Einn leiðinlegasti maður sem ég hef tekið viðtal við er Michael Gira, leiðtogi Swans sem léku á tónleikum hér á landi fyrir löngu, líklega í janúar 1988, þarf að kanna málið. Ég hringdi í Gira út til Lundúna og vissi ekki betur en ég væri að fara að taka viðtal við hvern annan rokkara sem vildi tala um sína tónlist og annarra. Annað kom á daginn. Þegar ég impraði á því við Gira að ég vildi ræða við hann um tónlistina sem Swans væri að spila þrumaði hann í símann: "I don't want to talk about my music!" Ég fitjaði því upp á textunum, enda þeir mikið dómadagsvæl og þunglyndisraus og höfundar slíkra texta hafa jafnan yndi af því að ræða um innitak þeirra. Svarið kom að bragði: "I don't want to talk about my lyrics." Aðrar tilraunir til að fá hann til að setja eitthvað af viti fóru á sömu leið þar til ég spurði hann hvern fjandann hann vildi þá tala um og hann hóf að lesa yfirlýsingu sem var eins og ræða fíflsins í Skoska leikritinu: "full af fimbulglamri - alveg marklaus" (þýð. M.Joch.). Eftir nokkrar línur slökki ég á bandinu og lagði frá mér símtólið. Tók það upp til að kveðja þegar ég heyrði að Gira var búinn.
(Eftir á að hyggja var Gira kannski spældur yfir því hvernig Sykurmolarnir léku Swans í Town & Country klúbbnum í Lundúnum í desember 1987, en Molunum var skotið þar inn til að kynna sveitina, fyrstu tónleikar þeirra í Lundúnum og lítill fyrirvari. Það voru fínir tónleikar fyrir Sykurmolana, en ekki eins fínir fyrir Swans, því þegar Molarnir voru búnir (mögnuð frammistaða reyndar) fóru allir blaðamenn af tónleikunum og hluti tónleikagesta.)
Tónleikarnir Swans í hátíðarsal Menntaskólans við Hamrahlíð voru ekki merkilegir fannst mér, dynjandi, læti og lítið innihald.
Á næstu árum fjarlægðist Swans hávaðann og reyndi fyrir sér með aðgengilegri tónlist (heyr Burning World) og fór þaðan í þyngri músík aftur. Gira leysti sveitina upp 1997 en síðasta platan var tónleikaskífa sem kom út 1999.
Gira hætti þó ekki í músík, hefur sent frá sér sólóskífur og rekur plötufyrirtækið Young God Records. Fyrsta sólóverkefni hans var undir nafninu Angels of Light og platan The Angels Of Light Sing 'Other People' sem kom út í vor er fín. (Smellið hér til að komast á vefsetur Young God Records, en ég vara eindregið við því að menn lesi ævisögu Gira á vefsetrinu - eintóm uppskrúfuð steypa.)
Hvað sem segja má annars um Gira má hann eiga það að hann er ótrúlega fundvís á góða músík til að gefa út. Þannig var hann fyrstur til að átta sig á ágæti Devendra Banhart og rétt að þakka honum fyrir það. Hann hefur einnig gefið út fínar plötur með Akron/Family, fyrsta platan samnefnd sveitinni, sem kom út á þessu ári og líka Akron/Family & Angels of Light, sem er einkar skemmtileg.
Eftir þennan langa inngang komum við svo að kveikjunni að þessum skrifum öllum, semsé ný plata sem mér barst í gær með pari sem kallar sig Mi and L'au, en fyrsta plata þeirra kom út í októberlok vestan hafs og í byrjun desember austan.
Ef marka má kynningartexta um þau hjúin kynntust þau í París þar sem hún (Mi) vann fyrir sér sem fyyrirsæta, en hann (L'au) samdi kvikmyndatónlist. Þau felldu hugi saman og byrjuðu að semja og taka upp tónlist. Fljótlega fannst þeim París þrengja að sér og héldu því til heimalands Mi, Finnlands, þar sem þau settust að í afskekktum kofa þar sem friður fannst til að semja lögin á frumrauninni, Mi and L'au.
Tónlistin er mjög viðkvæmnisleg, fínleg og útsetningar einkar naumhyggjulegar í mjög hægum takti. Slík músík verður oft tilgerðarleg og/eða drepleiðinleg, en söngurinn og skemmtilega útfærðar laglínur, sumar afskaplega fínar, lyfta plötunni. Besta lag hennar er Older, sem minnir um margt á frábæra stuttskífu Espers, The Weed Tree, sem kom út í haust. Fiðla og plokkaður gítar gefa laginu mjög seiðandi blæ og Mi syngur það afskaplega vel. Hún hefur skemmtilega rödd, brothætta og fínlega, en L'au er heldur síðri söngvari eins og heyra má á laginu New Born Child (kannski bara hallærislegt að heyra fullorðinn karlmann syngja viðkvæmnislega "I am a newborn child" hvað eftir annað (i ammmm aaa neeew borrrrnn chiillld).
Til gamans má geta þess að þeim Devendra Banhart og L'au er vel til vina og lagið Gentle Soul á Oh Me Oh My, plötu Banharts, er um Lau.
(Kanski rétt að bæta því við að einn af Swans-mönnum var Roli Mosiman sem ber ábyrgð á bestu upptökunum sem til eru með Ham. Hitti hann hér heima þegar hann tók Ham upp og datt í það með honum einu sinni í New York, mjög skemmtilegur náungi.)
Bloggar | Breytt 20.3.2006 kl. 13:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 30. desember 2005
Frelsi eða helsi?
Ekki er svo langt síðan samband hljómplötuútgefenda fékk liðsinni STEFs við að koma á sérstökum skatti á óbrennda diska sem átti að bæta upp að fólk væri að brenna diska útum allan bæ með tilheyrandi samdrætti á sölu og tekjutapi íslenskra tónlistarmanna. Nú þegar við stöndum frammi fyrir því að þetta heimsendatal var þvæla geri ég ráð fyrir því að þessi félög muni taka höndum saman í baráttu fyrir því að skatturinn verður felldur niður og að menntamálaráðherra muni taka því vel.
Það er annars fróðlegt að rýna aðeins í það sem haft er eftir Birni.
Í fyrsta lagi er sú staðhæfing hans að "niðurhalið" sé ólöglegt della ef marka má Eirík Tómasson, sem verður að teljast með fróðustu mönnum um höfundarrétt. Í viðtali í Morgunblaðsinu 1. október 2004 segir þannig:
"[Eiríkur Tómasson] segir að það sé tvímælalaust brot á höfundarrétti að setja verk á Netið, án samþykkis höfundar, þar sem það sé gert aðgengilegt hverjum sem er. [...] Samkvæmt lögunum sé þó heimilt að gera eintök af myndverkum og tónlist, m.a. með því að hala það niður af Netinu, til einkanota."
Það er því ljóst að þau orð Björns "um ólöglegt niðurhal á tónlist" benda til þess að hann hafi takmarkaða þekkingu á veigamiklu atriði sem snýr að starfi hans.
Í öðru lagi gefur Björn í skyn að "ólöglegt niðurhal" á tónlist hafi aðeins áhrif á erlenda tónlist ("Aukningin verður væntanlega um 30% í íslenskri tónlist en töluvert minni í erlendri tónlist, eða um 5%, en þar er aukning engu að síður, þrátt fyrir áframhaldandi ólöglegt niðurhal á tónlist.") Varla þarf að taka fram hve mikil rökleysa þetta er því ef svo mikill áhugi er fyrir íslenskri tónlist hlýtur líka að vera mikill áhugi fyrir "ólöglegu niðurhali" á íslenskri tónlist. (Honum hefur væntanlega þótt það hallærislegt að skeyta "þrátt fyrir áframhaldandi ólöglegt niðurhal" aftan við er hann hreykir sér af 30% söluaukningu.)
Í þriðja lagi er það svo skondið útaf fyrir sig að ýmist dregst sala saman vegna "ólöglegs niðurhals" eða hún eykst þrátt fyrir "ólöglegt niðurhal".
Leitin að patentlausninni
Þeir sem enn muna eftir vínylplötunni muna væntanlega líka eftir því að plötusala var á niðurleið um það leyti sem fyrsti geisladiskurinn kom á markað. Geisladiskurinn var því eins og að gefa lafmóðum örvandi innspýtingu, enda stórjókst sala á tónlist í kjölfarið og var svo um hríð að hún tók að falla aftur, aðallega vega aukinnar samkeppni frá kvikmyndum, tölvuleikjum, neti og álíka afþreyingu.
Á sinum tíma byggðist markaðssetning á geisladiskum aðallega á því að selja tæknina, mikið var gert úr endingu diskanna, hagræðinu af þeim (stærð og meðfærileiki) og hve hljómur væri góðum. Flest reyndist það hálfgerð della, diskarnir voru vandmeðfarnir, þó þeir væru slitsterkari en vínylplötur, og ending þeirra umdeilanleg, enda ekki allir framleiddir af mikilli vandvirkni. Eins var hljómur á þeim fræðilega góður en ekki endilega raunverulega (mannseyrað er nú einu sinni hliðrænt). Notagildið var þó óumdeilt, ekki síst er fyrstu ferðaspilararnir komu á markað og urðu til þess að auka hlustun á tónlist umtalsvert.
Ekki var þó bara að geisladiskurinn væri meðfæri- og þægilegur heldur fólst framtíðin í því að snúa tónlistinni yfir á stafrænt snið eins og síðar kom í ljós. Það var þó annmörkum háð að koma henni á milli manna með öðrum hætti en á diskum, því hljóðskrár eru svo stórar, hve mínúta um 10 MB miðað við 44,1 kílóriða 16 bita tónlist á geisladiski. Svarið við því er að þjappa músíkinni með sérstökum hugbúnaði eftir ákveðnum reiknireglum. Mörg gagnsnið eru til fyrir tónlist sem búið er að þjappa saman, þeirra vinsælast MP3.
MP-gagnasniðið er lossy þjöppun, þ.e. upplýsingum sem ekki eru taldar skipta máli er hent út og síðan þjappa menn því sem eftir er eftir mætti. Miklu skiptir hvaða algrími er notað við þjöppunina og líka hvernig valið er það sem sleppa má. Smám saman hefur gagnasniðið farið batnandi (128 Kbita á sek. MP3 skilar sömu gæðum og 192 Kbita á sek. MP2).
Hér hefði maður talið að væri komin ný innspýting fyrir tónlistarbransann, ný tækni sem gæti haft álíka áhrif og geisladiskurinn á sínum tíma. Annað kom á daginn. Til að byrja með voru plötufyrirtæki algerlega úti að aka, vissu ekki hvað var í gangi, og þegar þau svo áttuðu sig byrjaði ruglið, vonlausar tilraunir til að koma í veg fyrir að fólk nýtti sér kostina sem fólust í nýrri tækni. Það segir sitt að allar tilraunir sem plötuútgefendur hafa gert til að nýta stafræna tækni hafa gengið út á það meira og minna að skerða frelsi notenda, gera þeim erfiðara fyrir að hlusta á músík þar sem þeim þóknast og þegar þeim hentar og helst að láta þá borga meira fyrir minna frelsi en þeir höfðu með vínyl og kassettutækjum. Það er svo til að bíta höfuðið að skömminni að víða um heim hafa stéttarfélög tónlistarmanna lagt útgefendum lið í heimskunni, til að mynda hér á landi. (Víst liggja hagsmunir útgefenda og tónlistarmanna saman á ýmsum sviðum, en gleymum því ekki að markmið útgáfufyrirtækja er að skila eigendum sínum sem mestum arði, skítt með músíkantana.)
Netið = Frelsið
Plötuútgefendur eru sérkennilegt fyrirbæri. Í fyrndinni völdust í það starf aðallega tónlistar- eða tónlistaráhugamenn, stundum til að gefa út eigin efni, stundum til að gefa út tónlist vina eða kunningja, eða jafnvel í menningarlegum tilgangi. Á síðustu árum hafa orðið talsverðar eignarhaldsbreytingar á tónlistarútgáfufyrirtækjum og ekki svo langt síðan stærsti (eða einn stærsti) plötuútgefandi heims var viskíframleiðandi (Seagram). Segir líka sitt að eigandi Dags Group, sem fyrirtæki hans kemur við sögu í upphafi þessarar alltoflöngu bloggfærslu (sem á þó eftir að lengjast enn, sýnið biðlund) var umsvifamikill í lyfjainnflutningi og sölu áður en hann sneri sér að afþreyingunni.
Útgefendur hafa gegnt veigamiklu hlutverki í gegnum tíðina, þeir hafa (yfirleitt) tekið fjárhagslega áhættu af útgáfunni og eðlilegt að þeir njóti þess þegar vel gengur alveg eins og þeir fá skellinn þegar illa fer. Þeir hafa líka verið einskonar hliðverðir, valið úr það sem þeir telja að markaðurinn vilji heyra og stundum það sem er best. Margir hafa líka reynst tónlistarmönnum vel með ráðgjöf og aðstoð varðandi útsetningar og lagasmíðar - óteljandi sögur eru til um útgefendur sem gert hafa góðar plötu betri með sínu framlagi, þó ekki sé þeim alltaf þakkað á umslagi.
Á milli plötukaupenda og -útgefenda hefur verið einskonar óskrifaður samningur sem byggst hefur á trausti, þ.e. að plötukaupendur geti treyst því að útgefandinn sé að gefa út tónlist sem þeir vilji heyra og að sú tónlist sé í hæsta gæðaflokki (og útgefandinn að plötukaupendur muni kaupa þá tónlist sem hann kýs að gefa út).
Það er vitanlega allur gangur á því hvernig þau samskipti hafa gengið og verður ekki farið nánar út í það hér, en meginþáttur málsins er að mínu viti sá að kaupandinn hefur ekki getað fylgst með því hvernig útgefandinn stendur við sinn hluta af samningnum. Hann getur til dæmis ekki vitað hvað liggur á bak við ákvörðun útgefanda um að gefa út plötu, hvort það sé vegna gæða tónlistarinnar eða sérhagsmuna útgefandans. Hann hefur heldur engar forsendur til að meta hvort verðið sem hann greiðir fyrir diskinn sé sanngjarnt, þ.e. hve mikið kostaði að taka plötuna upp og hve mikið hver listamaður fær í sinn hlut (kostnaður við framleiðslu á hverjum disk, prentun og steypu, er hverfandi og skiptir ekki máli í þessu samhengi).
Allt breyttist þetta með Netinu - skyndilega er hliðvörðurinn óþarfur og valdalaus því mun auðveldara er að afla sér upplýsinga um tónlist, kynnast nýrri tónlist, sækja lög af nýútkomnum plötum og meta gæði þeirra áður en viðskiptin eiga sér stað, jafnvel að kaupa þær beint af höfundum og flytjendum eða kaupa beint af fyrirtækinu sem gefur þær út (eins og vill verða með nýrri tækni hefur orðið valdatilfærsla).
Neyslan á tónlist hefur og aldrei verið meiri, það hlusta fleiri en nokkru sinni, sem hefur sitt að segja með aukna sölu. Það er svo aftur annað mál hvort stóru plötufyrirtækin eigi eftir að nýta sér þessa aukningu, reyndar ótrúlegt í ljósi þess hvernig þau hafa staðið sig hingað til. Flest bendir nefnilega til þess að markaðurinn sé að breytast þvert ofan í vilja þeirra, smáfyrirtækjum fjölgar sem aldrei fyrr og salan dreifist á fleiri titla. Þannig eru á lista yfir helstu erlendu plötur ársins að mati gagnrýnenda Morgunblaðsins, annarra en mín, sem birtur verður á morgun, ekki nema tvær plötur sem gefnar eru út af stórfyrirtækjum þó stórfyrirtæki dreifi sumum hinna. (Áhugavert í sjálfu sér að helsta plötufyrirtæki landsins, sem áður hefur verið getið í langloku þessari, á enga plötu á listanum yfir bestu innlendu plöturnar - ætli það verði mönnum þar á bæ tilefni til naflaskoðunar?)
Bloggar | Breytt 16.3.2006 kl. 11:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 30. desember 2005
Cat Power
Þessir tónleikar Chan Marshall rifjast upp fyrir mér þar sem ég sit og hlusta á nýju plötuna hennar, The Greatest: "Once I wanted to be the greatest" byrjar hún, "and then came the rush of the flood, stars at night turned you to dust".
Upphafslagið er nokkuð dæmigert Cat Power-lag, píanólag, en skreytt með fleiri hljóðfærum, rafgítar, trommum, fiðlum og bakröddum. Önnur lög skera sig úr, útsetningar hnitmiðaðri en vill verða á Cat Power-plötum og hrynhiti meiri. Bestu lögin: The Greatest, Could We, Lived in Bars, The Moon (sem minnir ekki svo lítið á Lucindu Williams til að byrja með í það minnsta), Living Proof, Wille (óðurinn um Willie Deadwilder genginn aftur, nú ekki nema sex mínútur en ekki rúmar átján eins og á Speaking for Trees), Hate, einkar áhrifamikið lag, og svo lokalagið Love and Communication.
Bloggar | Breytt 16.3.2006 kl. 11:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 28. desember 2005
Handahófsfréttir
"Hér eru ásakanir og reiði, illska og fulltrúi frönsku stjórnarinnar, sagði Wolf Langewitz, prófessor um stjórnarandstæðinga í áfallahjálp eftir þetta ástand en kunni að hafa gert samning um að hún vilji halda þeim lengur vegna rannsóknarnefndar Garðasóknar við djákna, prest og formann og skilji vel vonbrigði Alonsos og leikmanna á næstu mánuðum og nota við það nýja aðferð, sem jafnframt var birt í gærkvöld ásamt ákærunni. Háttsettur maður innan dómskerfis Sri Lanka og háttsettir menn í lögreglu syngja hinn ódauðlega slagara, Stairway to Heaven. Plant hlustaði á tíunda tímanum í fyrrakvöld og skoraði mark Grindvíkingar til sín þýskan miðjumaður, uppalinn hjá KA og lék þar í ágúst í fyrra lék Singh á 63 höggum á eftir efsta mann á jarðríki í hlutverkið í sjónvarpsþáttunum vinsælu, segist hafa komist inn á sem varamaður á 77. mínútu. Mældist áfengi með marga framherja sem þeir geyma til elliáranna en um leið verði iðgjöld til lífeyrisréttindi sem ekki væri hægt að anna orkuþörf Bandaríkjaher hefur staðfesti í gær gæsluvarðhaldsúrskurð í réttarhöldum í Rússlands, boðaði í dag um 0,3% og er 4137 stig en fór um tíma var refsing dómsins tekin upp og dæmd með."
Bloggar | Breytt 16.3.2006 kl. 11:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tenglar
Vefgreinar
- Dont Legalize Drugs by Theodore Dalrymple, City Journal Spring 1997 Advocates have almost convinced Americans that legalization will remove most of the evil that drugs inflict on society. Dont believe them. City Journal - Spring 1997
Vefmiðlar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar