Færsluflokkur: Bloggar

Þvílík rosaleg helför!

Mótmælt við stjórnarráðiðÞað vakti athygli mína að sjá borða mótmælenda fyrir utan Stjórnarráðið með áletruninni „Helförin endurtekin" eins og sjá má á meðfylgjandi mynd af mbl.is.

Það er gagnlegt að rifja upp í þessu sambandi að orðið „helförin" er alla jafna notað sem samheiti yfir fjöldamorð Þjóðverja og fleiri á evrópskum gyðingum. Alls er talið að allt að sex milljónir manna hafi verið myrtar, skotnar, brenndar á báli, barðar til bana, hengdar, grafnar lifandi og drepnar með gasi.

(Þó orðið holocaust, sem snarað hefur verið sem helförin, nái alla jafnan aðeins yfir gyðingaofsóknir voru það ekki bara gyðingar sem, myrtir voru, því sígaunar, kommúnistar, samkynhneigðir, pólverjar, sovéskir stríðsfangar, vottar Jehóva, fatlaðir og fleiri voru líka myrtir og alls talið að fórnarlömb skipulagðra morðsveita Þjóðverja hafi samanlagt verið að minnsta kosti níu milljónir manna.)

Í allri samanlagðri glæpa- og illvirkjasögu mannkyns hefur helförin sérstöðu, því hún er eina dæmið á nútíma þegar stjórnvöld í ríki ákveða að myrða á skipulegan hátt alla þá sem tilheyra ákveðnum trúflokki (eða eru skyldir þeir sem tilheyra viðkomandi trúflokki) og þá ekki bara þegna eigin ríkis heldur alla sem hægt er að ná til. Í því ljósi verður hernaði Ísraelsmanna, hvaða augum sem menn annars líta hann, ekki jafnað við slíka voðaatburði. Þeir sem það gera gengisfella ummæli sín.

Greinilegt er að eftir því sem helförin / holocaust / shoah fjarlægist okkur í tíma gleymir fólk hvað fólst í henni og hún breytist í óljósa hugmynd. Orð dofna með tímanum, eyðast með mikilli notkun, og smám saman verða þau svo dauf að hægt verður að nota þau við hvaða tilefni sem er eða svo gott sem.

„Hvernig gekk í prófinu?" „Þetta var algjör helför, ég gat ekki neitt!" „Sástu hvernig United tók Chelsea? Þvílík rosaleg helför!"


*$€#%@&#!* +%&$$#!@€&%

MótmæliÍ kjölfar hruns íslensku bankanna hefur heldur en ekki lifnað yfir Íslandi; fjöldi fólks fengið pólitíska köllun og mótmælir sem aldrei fyrr. Síður dagblaða, fréttatímar ljósvakamiðla og vefsíður vefmiðla hafa logað af fréttum af mótmælum, yfirlýsingum og uppákomum. Á sama tíma hefur mikið fjör færst í bloggheima þar sem menn beita breiðu spjótunum og vega hvern annan í gríð og erg, aukinheldur sem nýir vefmiðlar hafa bæst við fjölmiðlaflóruna.

Það gefur augaleið að netið hefur aukið til muna upplýsingaflæði til almennings og gott dæmi um það var til að mynda Kryddsíldarslagurinn á gamlársdag þar sem myndskeiðum af atburðunum, myndum og vitnisburðum snjóaði inn á netið nánast jafnóðum og eitthvað bar við. Þeir sem skima vilja þá flóru geta séð atburðarásina frá ýmsum hliðum og lesið óteljandi túlkun á því sem fram fór. Stundum eru menn að segja frá af nokkru hlutleysi, en á öðrum síðum eru menn eindregið að halda fram tiltekinni skoðun og fara ekki leynt með það.

Allir eru væntanlega samála um að aukin upplýsingamiðlun sé af hinu góða, en ekki er eins gott að svara þeirri spurningu hvort þetta upplýsingaflæði eigi eftir að leiða til breytinga á samfélaginu og hvaða áhrif netið hafi á lýðræðisþróun almennt.

Helstu kostir netsins eru að enginn á það, ef svo má segja, og það hefur aldrei verið auðveldara fyrir menn að kveða sér hljóðs, hrinda af stað eigin vefmiðli, eða bara bloggsíðum, stofna samtök og safna undirskriftum. Hér á landi er aðgangur að netinu aukinheldur ekki sama vandamálið og víða ytra; kannanir hér á landi hafa sýnt að nær allir hafa aðgang að netinu, ýmist á heimili, í vinnu eða skólum eða á bókasöfnum.

Eins og helsti kostur netsins liggur ljós fyrir fer ekki á milli mála hver helsti ókosturinn er: Nafnleysið. Hvernig er hægt að halda uppi samræðum við „corvux corax", „Haffa" eða „skattborgara" þegar maður veit ekki hver er á bak við nafnleysið. Það er þó ekki bara það, því þó nafn viðkomandi sé gefið upp og meira að segja mynd af honum, er ekki á það að treysta - það er ekkert víst að hann sé sá sem hann segist vera og reyndar ekki einu sinni öruggt að sá Jón Jónsson sem þú spjallar við í dags sé sá sami Jón Jónsson og þú spjallaðir við í gær.

Sumir hafa litið til þess að auka megi kosningaþátttöku með því að taka upp kosningar á netinu, en á því er sá ágalli sem þegar er nefndur; enn sem komið er er engin almennt viðurkennd og nothæf leið til að tryggja það að kjósandinn sé sá sem hann segist vera. Nú kemur það kannski ekki svo að sök þó eitthvað sé um svindl ef kosningaþátttaka er mikil, mikil þátttaka þynnir út svindlið, en upp getur komið óþolandi staða ef mjótt er á munum.

Önnur hlið á nafnleysinu hefur líka verið áberandi á bloggsíðum og víðar undanfarna daga og snýr að því hve umræður eiga að til að vera harkalegri á netinu en tíðkast almennt meðal manna. Það að ekki sé hægt að vita við hvern maður er að tala skiptir eðlilega máli í lýðræðislegri umræðu, enda er engin leið að gera sér grein fyrir af hvaða hvötum eða í hvaða tilgangi viðkomandi heldur fram tiltekinni skoðun ef maður veit ekki hver hann er.

Sá plagsiður að ausa þá svívirðingum sem maður er ekki sammála er líka tengdur þessu nafnleysi og eins þeirri fjarlægð sem netið gefur frá viðmælandanum, enda sjaldan sem menn eru kallaðir skíthælar augliti til auglitis þó það sé alsiða á blogg- og spjallsíðum og á örugglega eftir að vera útbreiddara eftir því sem hiti færist í menn þegar líður á árið og ekkert bólar á byltingunni.


Cumbia, skælifetlar og sýrt vestrænt popp

BaretoÍ Perú, og víðar í Suður-Ameríku reyndar, panta menn chicha á veitingahúsum og malla líka heima. Í Perú er chicha búið til úr fjólubláum maís, maiz morada, en það er líka heiti á tónlistarstefnu sem náði miklu vinsældum þar í landi á áttunda áratugnum og nýtur enn hylli reyndar, eins og ég sannreyndi í Perúferð síðsumars því vinsælustu plötur landsins á þeim tíma voru ný plata með kombói Juanecos, sem naut gríðarlegrar hylli á áttunda áratugnum, og nýútkomin plata Bareto sem var einmitt hylling chicha-hefðarinnar.

Chicha morada er soðið úr maís og kryddað og tónlistarformið chicha er soðið úr cumbia og kryddað með skælifetlum og sýrðu vestrænu poppi. Cumbia er þjóðleg tónlist ættuð frá Kólumbíu, en upprunalega úr Gíneu í Vestur-Afríku. Við komuna til Suður-Ameríku blandaðist gínesk tónlistarhefð við tónlist sem tíðkaðist meðal innfæddra og úr varð Cumbia. Sú tónlist naut þó hylli víðar en í Kólumbíu, því hún náði traustri fótfestu í Amason-skógunum.

Á áttunda áratugnum varð mikil uppsveifla í Perú í kjölfar umbótahrinu, en byltingin sem varð í ungmennamenningu áttunda áratugarins í Vesturálfu barst líka til Suður-Ameríku og þar á meðal Perú. Í skógarhéruðum Amason var cumbia allsráðandi tónlistarform en þegar ungir menn tóku að nota rafgítara og skælifetla til að spila tónlistina varð til nýtt tónlistarform sem fékk nánast niðrandi heiti: chicha.

Heitið chicha var og er alla jafna notað yfir það sem er ódýrt, hversdagslegt, alþýðlegt og hverfult. Diario chicha þýðir þannig gula pressan (chicha dagblað) og cultura chicha, chicha menning, alþýðumenning. til aðgreiningar frá "alvöru" menningunni sem stunduð var í Lima.

Í bókinni Travesuras de la niña mala eftir Mario Vargas Llosa, dregur Llosa upp mynd af Lima fyrri tíma, heimi fína fólksins sem bjó í stórhýsum í Miraflores með skjólsælum garði þar sem dansað var á kvöldin um helgar mambó, guarachas, merengue, bolero og bugalú. Cumbia var lágstéttatónlist, klámfengin og ruddaleg í augum miðstéttarinnar og ekki bætti úr skák þegar menn voru búnir að flétta "dópmúsík", sýrurokki, saman við og úr varð chicha.

Kombó Juanecos, Juaneco y su Combo, sem áður var getið, er upp runnið 1964 í borginni Pucallpa í Amazon. Höfuðpaur hennar var múrsteinssmiður af kínverskum ættum og framan af hélt sveitin sig við cumbia. Sonur stofnandans tók við sveitinni 1969 og fyrsta platan var tekin upp 1970. Sveitin gekk í gegnum miklar hörmungar 1976 þegar flestir meðlimir hennar fórust í flugslysi. Einn af þeim sem lifðu slysið af var John Wong, leiðtogi hennar, en með nýjum mannskap tók sveitin stefnu í átt að því sem síðar var kallað chicha; bræðing af cumbia, kúbverskum hrynhætti, Andesfjallastemmum og brimbretta- og sýrurokki.

Chicha naut snemma gríðarlegrar hylli í skógarhéruðum Perú og barst síðan til borganna og tók enn breytingum er þangað var komið því; rokki jókst og yrkisefnið breyttist líka - það má lýsa því sem svo að tónlistin hafi orðið harðari bæði hvað varðaði anda og efni, en chicha var þó alltaf lágstéttatónlist, tónlist fyrir verkamenn og fátæklinga. Miðstéttarungmenni hlustuðu á vagg og veltu, á Los Shain's og Los Saicos.

Cumbia er enn vinsæl tónlist í Perú og líklegasta vinsælasta tónlistarformið meðal almennings því þó vestrænt popp njóti hylli þar líkt og víðast hvað annars staðar þá hljómar cumbia út um allt í Lima og víðar, í öllum þeim sæg af smárútum sem finna má í Lima, combi, ómar cumbia daginn út og daginn inn (í bland við reggaetón, en það er önnur saga). Á síðustu árum hefur orðið ákveðin vakning hvað varðar perúska tónlist fyrri tíma. Útgáfufyrirtæki keppast um að gefa út gamalt rokk og eins chicha, bugalú og fleiri tónlistarstefnur sem fallið hafa í gleymsku. Obbinn er eðlilega gefinn út fyrir perúskan markað, en talsvert er einnig alþjóðleg útgáfa, til að mynda safnplöturnar The Roots Of Chicha: Psychedelic Cumbias from Peru og skífutvennan góða Gozalo! Bugalu Tropical.

Eins og fram, kemur var önnur vinsælasta plata Perú í ágúst ný skífa með Juaneco y su Combo þar sem sveitin flytur gamla slagara frá löngum og viðburðaríkum ferli. Það segir svo sitt um vinsældir chicha að vinsælasta platan var með ungri hljómsveit, Bareto, sem var einmitt að rifja upp gamalt stuð.

Bareto er skipuð ungum tónlistarmönnum sem stofnuðu hljómsveitina meðal annars til að feta í fótspor sveita fyrrit íma eins og Black Sugar og Belkings. Fyrsta plata Bareto var stuttskífa, Ombligo, sem kom út 2005, en lengri plata, Boleto (miði) kom út 2006. Á henni leika þeir Bareto-félagar sér með ska, dub og reggí, en á Cumbia, sem kom út í haust, er þjóðlegur arfur undir, cumbia (eins og nafn skífunnar gefur til kynna) og chicha.

Ya se murerto mi abuelo er vinsælasta lag Juanecos og félaga og sló í gegn í útgáfu Bareto. Ótal útgáfur eru til af því á YouTube, en hér er textinn til að syngja með:

Ya se ha muerto mi abuelo (ayayay)
Ya se ha muerto mi abuelo (ayayay)
Tomando trago (ayayay)
Tomando trago (ayayay)

Ya se ha muerto mi abuelo (ayayay)
Ya se ha muerto mi abuelo (ayayay)
Tomando masato (ayayay)
Tomando masato (ayayay)

Casi ha muerto mi abuela (ayayay)
Casi ha muerto mi abuela (ayayay)
Comiendo suri (ayayay)
Comiendo suri (ayayay)

Þýðing:

Afi minn er dáinn (æ, æ, æ)
Afi minn er dáinn (æ, æ, æ)
Hann drakk of mikið (æ, æ, æ)
Hann drakk of mikið (æ, æ, æ)

Afi minn er dáinn (æ, æ, æ)
Afi minn er dáinn (æ, æ, æ)
Hann drakk masato (æ, æ, æ)
Hann drakk masato (æ, æ, æ)

Amma mín dó næstum (æ, æ, æ)
Amma mín dó næstum (æ, æ, æ)
Hún borðaði suri (æ, æ, æ)
Hún borðaði suri (æ, æ, æ)

Masato er áfengur drykkur úr yucarót sem tuggin er og látin gerjast með munnvatni. Suri er stórvaxtin pálmabjöllulirfa. Hvort tveggja er algeng fæða í Amason skóginum. Myndin er af Bareto-félögum.


Augað alsjáandi

Presidio modeloUndir lok átjándu aldar hannaði enski heimspekingurinn Jeremy Bentham nýja gerð af fangelsi sem var hagkvæmari er önnur slík vegna þess hve ódýrt væri að reka það; í stað þess að verðir væru á hverju strái væri nóg að hafa einn vörð og skapa þá tilfinningu hjá föngunum að þeir gætu ekki vitað hvenær fylgst væri með þeim. Það þarf ekki mikið ímyndunarafl til að átta sig á því að fangelsi Benthams, kallað Panopticon, er spegilmynd af mannlegu samfélagi og þeim ósýnilegu og óskrifuðu reglum sem stýra lífi okkar. (Reyndar líka spegilmynd af trúarbrögðum, en það er önnur saga.)
Annar heimspekingur, Frakkinn Michel Foucault, henti hugmynd Benthams um Panopticon á lofti í verki sínu Agi og refsing (Surveiller et punir) og spann út frá því vangaveltur um það hvernig opið þjóðfélag nútímans hefur í raun orðið til þess að færa fámennum hópi manna æ meiri völd eftir því sem auðveldara verður að fylgjast með okkur.

Þessar kenningar Foucaults og fleiri álíka fræði- og spámanna hafa gert sitt til að leggja grunn að þeirri vænisýki sem einkennir svo umræðu á netinu nú um stundir, sjá til að mynda Zeitgeist-æðið og dellumakeríið hjá þeim sem halda því enn fram að bandarísk stjórnvöld hafi sjálf sprengt tvíturnana í New York. Mér eru minnisstæðar líflegar umræður uppi á Alþýðubandalagsloftinu á Tjarnargötunni fyrir mörgum árum þar sem menn ræddu í alvöru allskyns kenningar og staðhæfingar sem tíminn hefur leitt í ljós að voru tómt bull. Margar dellukenningarnar lifa þó góðu lífi á netinu, afturgöngur, því ungmenni, sem eru í stöðugri valdabaráttu við foreldra sína, falla svo gjarnan fyrir því sem varpar rýrð á yfirvald (les: foreldra).

Við fyrstu sýn hefur netið því heldur en ekki rennt stoðum undir pælingar Foucaults, því aldrei hefur verið betra að fylgjast með fólki en nú um stundir. Atvinnurekandi sem ætlar að ráða mann í vinnu byrjar þannig á að „Googla“ hann, kanna hvað hann er að gera á MySpace-síðunni sinni eða Facebook. Er þetta kannski gaur (eða gella) sem lýst hefur eftir BDSM-félögum á einkamal.is, eru myndir af viðkomandi fáklæddum og ælandi með vændiskonum (eða unglingsstúlkum) eða að fletta upp um sig á bar? Bloggsíður eru líka góð leið til að komast að því hvaða mann tilvonandi starfsmaður hefur að geyma; er hann fylgjandi dauðarefsingum fyrir stöðubrot eða áhugamaður um áhættuíþróttir eða kannabisreykingar?

Samkvæmt Foucault mætti því segja að netið sé hið fullkomna fangelsi, Panopticon, því allt sem við erum að gera á netinu er fyrir allra augum og þegar það er einu sinni komið þar inn er það þar um aldur og ævi. Er því ekki nærtækt að draga þá ályktun að netið verði til þess að við munum halda aftur af okkur, ekki skrifa neitt eða birta nema vera búin að velta því rækilega fyrir okkur hvort það sé líklegt til að hafa áhrif á framtíðarframa eða -starf?

Öðru nær. Sú hugmynd að það sé fylgst með okkur, að það séu ósýnilegir fangaverðir að lesa tölvupóstinn okkar, skanna hvaða síður við erum að skoða, hlera símtöl og skoða upptökur úr eftirlitsmyndavélum er vissulega skemmtilega galin, en eftir því sem fleiri gera sig að fíflum á netinu skiptir það eðlilega minna máli að vera fífl.

Myndin er af kúbverska fangelsinu Presidio modelo sem byggt er eftir hugmyndum Jeremys Benthams. Castro dvaldi þar um tíma. Friman tók myndina.



Bloggarar eru ekki blaðamenn

Á námskeiði fyrir rokkblaðamenn í Árósum í vor var meðal fyrirlesara David Fricke, hinn kunni blaðamaður Rolling Stone. Hann hóf sitt spjall á eftirfarandi staðhæfingu: "Bloggarar eru ekki blaðamenn" og útskýrði það síðan með því að bera saman vinnubrögð á Rolling Stone og það sem bloggarar ástunda. Af lýsingu Frickes mátti reyndar ráða að íslenskir blaðamenn eru þá ekki blaðamenn heldur, enda hafa þeir ekki aðstoðarmenn og fjölda ritstjóra yfir sér (einn kannar staðreyndir, annar myndanotkun, enn annar inntak og svo má telja) líkt og stjörnublaðamenn á milljónatímariti vestan hafs. Hann hafði þó nokkuð til síns máls - vissulega eru bloggarar ekki blaðamenn þó að blaðamenn séu stundum bloggarar.

Það sem alla jafna er kallað tónlistarblogg er bloggsíður þar sem hægt er að nálgast tónlist, löglega eða ólöglega, en einnig er til legíó af bloggsíðum þar sem fjallað er um tónlist á ýmsan hátt, birtir plötudómar, viðtöl og ýmislegar greinar. Fyrir vikið hafa æ fleiri af þeim sem áhuga hafa á tónlist snúið sér að því að lesa bloggsíður samhliða lestir á músíkvefritum og því hallar heldur á tónlistartímarit, sem sum hver eiga nú erfiða daga.

Það er algengt að maður tekist á það í tónlistartímaritum að menn geri lítið úr bloggurum og því kom ádrepa Frickes ekki á óvart; einn ótíndur bloggari hefur ekki roð við apparatinu sem stendur að einu tónlistartímariti og getur til að mynda ekki skrifað eins lærðar greinar og umfangsmiklar eins og sjá má í Rolling Stone, nú eða bresku tómaritunum Mojo eða Q. Á móti kemur að hann getur komið með sjónarhorn sem er skemmtilegt, verið með aðra sýn á tónlistina er þá sem almennt er viðurkennd og leyft sér galgopaskap sem aldrei yrði liðinn á virðulegum prentmiðli.

Tímaritin hafa sum brugðist við þessu með því að verða blogg-legri , ef svo má segja, reynt að létta skrifin, leyfa pennum að viðra skoðanir sínar í ríkari mæli og eins hafa þau mörg farið að vísa í það að þetta og hitt sé hægt að finna á netinu, benda jafnvel á það í plötudómi hvaða lag af plötunni maður eigi að leita upp á netinu og þó gefið sé í skyn að það eigi að vera á löglegan hátt.

Það er líka hægt að fara í hina áttina, styrkja sig á sviði sem bloggaraherinn ræður ekki við, verða faglegri og vandaðri eins og Q gerði fyrir stuttu, breytti sniði blaðsins og framsetningu. Það getur þó verið hættuspil, því þeir sem hafa fræðilegan áhuga á tónlist eru ekki svo margir þegar grannt er skoðað og eins er ekki endalaust hægt að halda út mánaðarriti. Sjá til að mynda hvernig hið ágæta blað Mojo er sífellt að skrifa um sömu listamennina.



Vofa tíðarandans

bralds_marx-s_2.jpgVofa gengur nú ljósum logum um Evrópu – vofa Zetigeist. Kvikmyndin Zeitgeist og síðan Zeitgeist Addendum berst með ógnarhraða um heim allan og í kjölfar þeirra ótal myndir aðrar sem flestar gera sitt til að sýna fram á að hagkerfi heimsins eru sem kölkuð gröf og við öll peð á taflborði auðmanna og óþokka sem skipt hafa heiminum með sér.

Eftir loðmollulega tíma hefur pólitískur áhugi stóraukist hjá ungu fólki - í stað þess að velta helst fyrir sér tískufatnaði, glæsikerrum, skemmtiferðum og afleiðusamningum velta ungmenni nú því fyrir sér hvernig búa megi mannkyni betra líf. Sitthvað hefur ýtt undir þennan áhuga en þó helst af öllu tveir ávextir hins kapítalíska hagkerfis; netvæðing og fartölvur, en upplýsingahraðbrautina varð einmitt til sem tilraunverkefni á vegum bandaríska hersins.

Pólitísk umræða fer í sívaxandi mæli fram á netinu, það er vígvöllur hugmyndanna og þar blómstra vefsíður sem ýmist berjast fyrir tilteknum málstað eða á móti. Ekki síst hefur YouTube orðið skilvirk leið til að skila ádeilunni áfram og eins hafa ýmsir hópar nýtt sér Facebook með góðum árangri; smalað saman mannskap til aðgerða, hnýtt saman hóp óánægðra og miðlað upplýsingum þeim á milli.

Oft eru myndir eins og Zeitgeist-tvennan kallaðar samsærismyndir, enda snúast þær oft um það að á bak við tjöldin sé klíka valdamikilla manna sem véli um líf okkar án þess við fáum nokkru um það ráðið. Það er þó ekki rétt að afskrifa þær því þó sumar myndanna séu tóm steypa, eins og gengur, þá velta aðrar upp spurningum um skipan heimsmála og benda á ýmislegt sem miður hefur farið og miður gæti farið.

Fjármálakreppa sú sem nú gengur yfir heiminn er til að mynda vatn á myllu Zeitgeist-manna, enda fjallar seinni myndin í þeirri syrpu, Zeitgeist Addendum, um peningakerfi sem komið er að fótum fram, aukinheldur sem hún segir frá ýmsum skuggahliðum á Alþjóða gjaldeyrissjóðnum og svo má telja. Ekki ný sannindi en eftirtektarverð í samhengi kvikmyndarinnar. Eins er eftirtektarverður sá hluti myndarinnar sem segir frá Venusar áætluninni, The Venus Project, sem er hugarfóstur Jacque Fresco, en Fresco, sem býr í Flórída, hefur komið upp grunnmynd af samfélagsgerð sem hann tekur að muni nýtast mannkyni betur en það sem nú er við lýði.

Þó höfundur Zeitgeist-myndanna, Peter Joseph, taki ekki beina afstöðu með eða á móti hugmyndum Frescos þá kemur vel í gegn sú hugmyndafræði sem hann aðhyllist; hann er á móti græðgivæðingu heimsins, á móti hagkerfi kapítalismans sem hann segist byggja á skorti, og leggur til nýja skipan mála. Þeim sem þekkja eitthvað fyrir sér í hugmyndasögu kemur skemmtilega á óvart að það sem Joseph er að boða svipar ekki svo lítið til útópíansks kommúnisma (íslenska þýðingin á utiopia, þ.e. staðleysa, á ekki við í þessu sambandi, og þó).

Marx átti ekki sökótt við kapítalismann, hann taldi hann eðlilegan þátt í þróun samfélags mannanna og því ekkert athugavert við það að njóta góðs af auði síns helsta stuðningsmanns, Friedrich Engels. Í augum Marx yrði kapítalisminn sjálfdauður, en þar skilur með Marxistum og Zeitgeististum að þeir síðarnefndu vilja ganga af kapítalismanum dauðum og það ekki seinna en strax.

Zeitgeist-myndirnar er hægt að sjá hér: http://www.zeitgeistmovie.com/


Skreytin list eða skreytilist

Cuy í CuscoCusco (eða Qusqu) er hin forna höfuðborg Tawantinsuyu-ríkisins, sem menn kalla almennt Inka-konungdæmið (inka þýðir kóngur á quechua og því köllum við það víst konunga-konungsríkið). Þar þreifst forn og frumstæð menning sem leið undir lok að mestu er Spánverjar lögðu Perú undir sig á sextándu öld. Eitt af því sem þeir lögðu mikla áherslu á var að útrýma öllu því sem ekki féll vel að kenningakerfi kaþólsku kirkjunnar og þá helst af öllu allri menningu og list sem ekki var rammkaþólsk.

Til að tryggja að innfæddir vissu hvernig ætti að bera sig að við listsköpun fluttu Spánverjar til Perú listmálara sem kenndu fagið og til varð skóli í málaralist sem kallaður hefur verið Cuzqueña-skólinn; fjarvíddarlausar myndir í sterkum jarðlitum (rautt, brúnt og gult) og jafnan mjög gullskreyttar. Einnig er áberandi í myndum frá þeim tíma að fyrirmyndirnar (Jesú og hans hyski, nánustu ættmenni og dýrlingar) eru eins og ofur-stílfærðar myndir af blúnduskreyttu spænsku fyrirfólki.
Inn á sumar myndirnar læddust svo perúsk minni, alpaca og lamadýr, naggrísir (étnir á þeim slóðum við hátíðleg tækifæri, enda lostæti) og jafnvel stöku Jesúbarn sem var með indíánasvip (dökkan hörundslit og stóran brjóstkassa (þunna fjallaloftið)).

Eftirmyndir ef þessum myndum eru til sölu á götum úti í Cusco og atgangurinn oft harður þegar reynt er að þröngva myndum inn á ferðamenn. Hugsanlega eru einhverjar þeirra málaðar af kínverskum börnum (eins og flest það glingur sem selt er ferðamönnum hér á landi), en líklegt þykir mér að fátækir listamenn í Cusco taki sér fyrir hendur að mála slíkar myndir þegar hungrið sverfur að. Það sýndist mér í það minnsta í heimsókn í nútímalistasafnið í Cusco fyrir stuttu.

Nútímalistasafnið í Cusco er í gríðarlega fallegu húsi sem reist var á dögum spænskrar landstjórnar í Perú. Húsið er í eigu borgarstjórnar Cusco og notað í starf hennar, einskonar ráðhús sýndist mér, enda kallast það Palacio Municipal. Safnið sjálft er reyndar ekki nema í tveimur sölum eða í það minnsta voru ekki nema tveir salir opnir er ég kom þar, en í öðrum salnum var sýning á ljósmyndum frá fáförnum stöðum í Perú; myndir með takmarkað listrænt gildi, en að vissu leyti forvitnilegar fyrir ferðamenn.

Í aðalsalnum voru svo til sýnis helstu gripir úr eigu nútímalistasafnsins og að vissu leyti áfall að sjá það sem þar var til sýnis. Sitthvað af því hefði nefnilega eins getað verið til sölu á Plazoleta del Regocijo framan við safnið –dæmigert túristagums.

Eitt af því sem áberandi var við málverkin, ekki öll en býsna mörg, var að handverkið á þeim var gott, mjög gott reyndar, fínleg vinna vel unnin – líkt og með allar myndirnar sem seldar eru á torgum Cusco. Margar myndanna voru líka vel útfærðar, en þær voru handverk, ekki list, snertu mann ekki, gervilist eða skreytilist.

Í stuttu samtali við starfsmann á staðnum komst ég að því að safnið er ekki ýkja gamalt, stofnað af núverandi borgarstjóra borgarinnar sem hafi viljað vekja athygli manna á því að þótt menning Cuscverja eigi sér langa sögu (borgin var stofnuð fyrir um þúsund árum) séu listamenn enn að skapa. Í því ljósi er ekki rétt að dæma safnið hart; kannski á það bara eftir að byggja upp kost sem eitthvað kveður að, myndir sem varið er í. Kannski verða svo einhvern tímann til sölu eftirmyndir af þeim verkum á torgum Cusco.


Mér leiðist Llosa

Mari Vargas Llosa

Eflaust hefur það verið erfitt að vera rithöfundur á Íslandi á sjötta, sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar, að vera sífellt í skugga Halldórs Laxness. Það kom í hug mér í ferð til Perú fyrir skemmstu að eins hlýtur perúskum rithöfundum að líða þar sem þeir hafa Mario Vargas Llosa sífellt yfir sér, ef svo má segja, enda er hann ekki bara með helstu rithöfundum Suður-Ameríku heldur er hann enn í fullu fjöri, enn að skrifa skáldsögur (Travesuras de la niña mala kom út 2006) og mér fannst ég ekki opna Limeska dagblaðið El Comercio án þess að rekast á grein eftir hann eða um hann.

Mikill áhugi Limamanna á Vargas Llosa um þessar mundir ræðst væntanlega að einhverju leyti af því að sýning sem helguð er lífi hans, "Mario Vargas Llosa, la libertad y la vida", var opnuð í Casa Museo O'Higgins í miðborg Lima í byrjun mánaðarins, en sýningin er sett upp af kristilegum háskóla, Universidad Católica de Lima.

Llosa, sem menn kalla jafnan Vargas Llosa þar suðurfrá, er prýðilegur rithöfundur og alla jafna fer af honum gott orð; menn eru stoltir af sínum manni, dáldið fúlir yfir því að hann skuli ekki hafa hlotið Nóbelinn ennþá almennt sammála um að hann sé mikill og merku rithöfundur. Annað það sem Llosa hefur fengist við er umdeildara, til að mynda stjórnmálastarf hans. Hann er nefnilega mikill frjálshyggjumaður og var einn af stofnendum hægriflokksins Movimiento Libertad sem tók upp samstarf við tvo aðra hægriflokka í samsteypunni Frente Democrático. Llosa bauð sig svo fram sem fulltrúi Frente Democrático í forsetakjöri 1990 og boðaði róttækan uppskurð á perúsku þjóðfélagi. Hann sigraði í fyrri umferð kosninganna, fékk 34% atkvæða, en tapaði svo fyrir öðrum hægrimanni, lítt þekktum verkfræðingi, Alberto Fujimori, í annarri umferð kosninganna.

Stjórnmálavafstur Llosas og skoðanir hans hafa fallið í grýttan jarðveg hjá landsmönnum hans sem þykir mörgum sem hann sé í litlu sambandi við almenning eða það fannst mér í það minnsta á mörgum þeim sem ég ræddi við í Lima. Að því sögðu fannst mér merkilegt hve lítið var spunnið í sýninguna og hvað hún gaf í raun litla innsýn í rithöfundinn Llosa, stjórnmála- og blaðamanninn.Það var skemmtilegt í sjálfu sér að sjá gömlu ritvélina hans og líka gömul bréf, myndir og skruddur (þó ekki hafi allar bækur verið hans, í einu herberginu höfðu menn greinilega keypt nokkra metra af gömlum bókum til skrauts án þess að hirða um innihald þeirra).

Að öðru leyti var sýningin daufleg, fjórtán herbergi af leiðindum - jamm, hann var mjög hrifinn af Flaubert og Sartre, og svo hélt hann líka upp á Faulkner, og skrifaði athugasemdir í bækurnar sínar og páraði í minnisbækur og var í París ... geisp.

Einn kunningi minn perúskur sagðist sakna þess helst á sýningunni að ekki væri sagt almennilega frá sjónvarpsþáttum sem Llosa hefði gert þar sem hann ræddi við rithöfunda víða um Suður-Ameríku, en ég saknaði myndar Rodrigo Moya af Gabriel García Márquez með glóðarauga eftir að Llosa lét hendur skipta í bíói í Mexíkó 1976. Það hefði nú heldur en ekki lífgað upp á sýninguna.


Minna er meira

Ari EdwaldFyrir mörgum árum, á meðan Sovétríkin voru enn við lýði, birtist í Morgunblaðinu frásögn af því að brauðverð, sem var náttúrlega ákveðið af embættismönnum eins og annað í óskalandinu, hefði verið hækkað all svakalega. Embættismaður hjá Moskvuborg var spurður hverju þetta sætti og svaraði að bragði: Brauðverð var hækkað vegna eindreginna óska almennings.

Þessi saga rifjaðist upp fyrir mér þegar ég rakst á frétt í Fréttablaðinu þar sem skýrt var frá því að hætt hefði verið að dreifa blaðinu á hvert heimili á Selfossi, í Hveragerði, Reykjanesbæ, Akranesi og Borgarnesi, en þessi í stað verði komið fyrir "dreifikössum" á þeim stöðum. Aðspurður um ástæðu svaraði Ari Edwald, forstjóri 365-miðla svo: "Með þessu erum við að færa blaðið nær lesendunum."

Enginn mannvinur

Alexander SolzhenítsynMario Vargas Llosa skrifaði um Alexander Solzhenítsyn í El Comercio sl. laugardag og nefndi að hann hefði verið eins og spámaður í Gamla testamentinu. Fín samlíking í sjálfu sér því spámenn Gamla testamentisins voru alla jafna að spá vel fyrir sanntrúuðum og innvígðum en illa fyrir öllum öðrum; þeir voru engir mannvinir.

Sama má segja um Solzhenítsyn - hann var ekki mannvinur og síst af öllu einlægur baráttumaður fyrir einstaklingsfrelsi eins og menn héldu fram á Vesturlöndum (og ekki síst í Morgunblaðinu).

Solzhenítsyn má eiga það að hann barðist gegn kúgun eftir að hafa verið brýndur til þess með Gúlagdvöl. Hann fletti ofan af illvirkjum Stalíns, sem ekki er hægt að kalla annað en glæpi gegn mannkyninu, og sýndi mikið hugrekki í þeirri baráttu. Hann var þó ekki að berjast fyrir frelsi heldur rússneskri þjóðernishyggju og alræði réttrúnaraðkirkjunnar og ekki síst að berjast gegn gyðingum, enda kenndi hann þeim um rússnesku byltinguna.

Að mínu viti átti hann ekki skilið að fá Nóbelsverðlaunin - það á ekki að verðlauna menn sem sá hatri.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 116876

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband