Færsluflokkur: Tónlist
Sunnudagur, 29. nóvember 2009
Hvenær er Kani Kani?
Þrátt fyrir unglegt útlit og æskuþrótt man ég eftir Kananum gamla, útvarpsstöð sem rekin var af bandaríska herliðinu á Keflavíkur-flugvelli frá 1952. Á þeim árum sem ég byrjaði að spekúlera í músík var nóg af klassík í Ríkisútvarpinu, sem ég hlustaði og mikið á, en erfiðara að finna aðrar gerðir af tónlist. Þá kom Kaninn sér vel enda var þar að finna kalla eins og Casey Kasem, sem spilaði vinsældalista, Wolfman Jack og fleiri músíkmenn sem miðluðu til okkar þeirri tónlist sem vinsæl var vestan hafs.
Á þeim árum sem ég hlustaði hvað mest á Kanann, í upphafi áttunda áratugarins, var heilmikið að gerast í músíkinni og ekki bara popp; í bland við Kool and the Gang, Johnny Cash, Jimmy Buffet og Stevie Wonder fékk maður meira fjör frá Lynyrd Skynrd, Mike Oldfield, Led Zeppelin, Doors, Rolling Stones, Santana, Alice Cooper, Derek and the Dominoes, James Brown og KC and The Sunshine Band (víst voru þeir frábærir!).
Ég rifja þetta upp hér í kjölfar samtals sem ég átti við gamlan kunningja fyrir stuttu þar sem hann emjaði yfir músíkinni sem spiluð er á útvarpstöðinni Kananum sem byrjaði útsendingar nýverið. Það sem hann hafði helst út á stöðina að setja var að hún var ekki eins og gamli Kaninn, þ.e. að spila tónlist frá áttunda áratugnum (af einhverjum orsökum nefndi hann ekki tónlist frá sjöunda áratugnum, nú eða þeim sjötta þegar útsendingar hófust).
Í kjölfar þessa hlustaði ég á Kanann til að grennslast fyrir um hvað væri á seyði og ekki gat ég betur heyrt en að Kaninn anno 2009 væri nákvæmlega eins og Kaninn forðum, þ.e. að spila þá tónlist sem vinsælust er hverju sinni. Til gamans kannaði ég hvað væri efst á baugi hjá þeim Kanamönnum, það er útvarpstöðvum í herstöðvum Bandaríkjamanna víða í Evrópu. Þar eru menn við sama heygarðshornið, þ.e. að spila þá músík sem er vinsælust vestan hafs; listamenn eins og Shakira, Black Eyed Peas, Mariah Carey, Sean Paul og Pink, svo dæmi séu tekin. Að vísu sýnist mér og heyrist menn vera að spila meira rokk á þeim stöðvum en í Kananum íslenska, en það er þá alloft frekar þreytt iðnaðardót og lítið eftirsjá að því: Weezer, Bon Jovi, Pearl Jam og Linkin Park.
Það er gott að minnast gömlu daganna, en óheilbrigt að fagna ekki þeim nýju. Eitt það besta við músík er að hún er síbreytileg og þeir sem hafa gaman af tónlistinni tónlistarinnar vegna hljóta að fagna því að sífellt koma nýjar stefnur og nýir straumar. Þeir sem ríghalda í gamalt dót til að reyna að halda í æskuna ættu að skafa aðeins út úr eyrunum og gefa nútímanum sjens. Kananum líka.
(Birtist í Mogunblaðinu 24. nóvember sl.)
Laugardagur, 3. janúar 2009
Cumbia, skælifetlar og sýrt vestrænt popp
Í Perú, og víðar í Suður-Ameríku reyndar, panta menn chicha á veitingahúsum og malla líka heima. Í Perú er chicha búið til úr fjólubláum maís, maiz morada, en það er líka heiti á tónlistarstefnu sem náði miklu vinsældum þar í landi á áttunda áratugnum og nýtur enn hylli reyndar, eins og ég sannreyndi í Perúferð síðsumars því vinsælustu plötur landsins á þeim tíma voru ný plata með kombói Juanecos, sem naut gríðarlegrar hylli á áttunda áratugnum, og nýútkomin plata Bareto sem var einmitt hylling chicha-hefðarinnar.
Chicha morada er soðið úr maís og kryddað og tónlistarformið chicha er soðið úr cumbia og kryddað með skælifetlum og sýrðu vestrænu poppi. Cumbia er þjóðleg tónlist ættuð frá Kólumbíu, en upprunalega úr Gíneu í Vestur-Afríku. Við komuna til Suður-Ameríku blandaðist gínesk tónlistarhefð við tónlist sem tíðkaðist meðal innfæddra og úr varð Cumbia. Sú tónlist naut þó hylli víðar en í Kólumbíu, því hún náði traustri fótfestu í Amason-skógunum.
Á áttunda áratugnum varð mikil uppsveifla í Perú í kjölfar umbótahrinu, en byltingin sem varð í ungmennamenningu áttunda áratugarins í Vesturálfu barst líka til Suður-Ameríku og þar á meðal Perú. Í skógarhéruðum Amason var cumbia allsráðandi tónlistarform en þegar ungir menn tóku að nota rafgítara og skælifetla til að spila tónlistina varð til nýtt tónlistarform sem fékk nánast niðrandi heiti: chicha.
Heitið chicha var og er alla jafna notað yfir það sem er ódýrt, hversdagslegt, alþýðlegt og hverfult. Diario chicha þýðir þannig gula pressan (chicha dagblað) og cultura chicha, chicha menning, alþýðumenning. til aðgreiningar frá "alvöru" menningunni sem stunduð var í Lima.
Í bókinni Travesuras de la niña mala eftir Mario Vargas Llosa, dregur Llosa upp mynd af Lima fyrri tíma, heimi fína fólksins sem bjó í stórhýsum í Miraflores með skjólsælum garði þar sem dansað var á kvöldin um helgar mambó, guarachas, merengue, bolero og bugalú. Cumbia var lágstéttatónlist, klámfengin og ruddaleg í augum miðstéttarinnar og ekki bætti úr skák þegar menn voru búnir að flétta "dópmúsík", sýrurokki, saman við og úr varð chicha.
Kombó Juanecos, Juaneco y su Combo, sem áður var getið, er upp runnið 1964 í borginni Pucallpa í Amazon. Höfuðpaur hennar var múrsteinssmiður af kínverskum ættum og framan af hélt sveitin sig við cumbia. Sonur stofnandans tók við sveitinni 1969 og fyrsta platan var tekin upp 1970. Sveitin gekk í gegnum miklar hörmungar 1976 þegar flestir meðlimir hennar fórust í flugslysi. Einn af þeim sem lifðu slysið af var John Wong, leiðtogi hennar, en með nýjum mannskap tók sveitin stefnu í átt að því sem síðar var kallað chicha; bræðing af cumbia, kúbverskum hrynhætti, Andesfjallastemmum og brimbretta- og sýrurokki.
Chicha naut snemma gríðarlegrar hylli í skógarhéruðum Perú og barst síðan til borganna og tók enn breytingum er þangað var komið því; rokki jókst og yrkisefnið breyttist líka - það má lýsa því sem svo að tónlistin hafi orðið harðari bæði hvað varðaði anda og efni, en chicha var þó alltaf lágstéttatónlist, tónlist fyrir verkamenn og fátæklinga. Miðstéttarungmenni hlustuðu á vagg og veltu, á Los Shain's og Los Saicos.
Cumbia er enn vinsæl tónlist í Perú og líklegasta vinsælasta tónlistarformið meðal almennings því þó vestrænt popp njóti hylli þar líkt og víðast hvað annars staðar þá hljómar cumbia út um allt í Lima og víðar, í öllum þeim sæg af smárútum sem finna má í Lima, combi, ómar cumbia daginn út og daginn inn (í bland við reggaetón, en það er önnur saga). Á síðustu árum hefur orðið ákveðin vakning hvað varðar perúska tónlist fyrri tíma. Útgáfufyrirtæki keppast um að gefa út gamalt rokk og eins chicha, bugalú og fleiri tónlistarstefnur sem fallið hafa í gleymsku. Obbinn er eðlilega gefinn út fyrir perúskan markað, en talsvert er einnig alþjóðleg útgáfa, til að mynda safnplöturnar The Roots Of Chicha: Psychedelic Cumbias from Peru og skífutvennan góða Gozalo! Bugalu Tropical.
Eins og fram, kemur var önnur vinsælasta plata Perú í ágúst ný skífa með Juaneco y su Combo þar sem sveitin flytur gamla slagara frá löngum og viðburðaríkum ferli. Það segir svo sitt um vinsældir chicha að vinsælasta platan var með ungri hljómsveit, Bareto, sem var einmitt að rifja upp gamalt stuð.
Bareto er skipuð ungum tónlistarmönnum sem stofnuðu hljómsveitina meðal annars til að feta í fótspor sveita fyrrit íma eins og Black Sugar og Belkings. Fyrsta plata Bareto var stuttskífa, Ombligo, sem kom út 2005, en lengri plata, Boleto (miði) kom út 2006. Á henni leika þeir Bareto-félagar sér með ska, dub og reggí, en á Cumbia, sem kom út í haust, er þjóðlegur arfur undir, cumbia (eins og nafn skífunnar gefur til kynna) og chicha.
Ya se murerto mi abuelo er vinsælasta lag Juanecos og félaga og sló í gegn í útgáfu Bareto. Ótal útgáfur eru til af því á YouTube, en hér er textinn til að syngja með:
Ya se ha muerto mi abuelo (ayayay)
Ya se ha muerto mi abuelo (ayayay)
Tomando trago (ayayay)
Tomando trago (ayayay)
Ya se ha muerto mi abuelo (ayayay)
Ya se ha muerto mi abuelo (ayayay)
Tomando masato (ayayay)
Tomando masato (ayayay)
Casi ha muerto mi abuela (ayayay)
Casi ha muerto mi abuela (ayayay)
Comiendo suri (ayayay)
Comiendo suri (ayayay)
Þýðing:
Afi minn er dáinn (æ, æ, æ)
Afi minn er dáinn (æ, æ, æ)
Hann drakk of mikið (æ, æ, æ)
Hann drakk of mikið (æ, æ, æ)
Afi minn er dáinn (æ, æ, æ)
Afi minn er dáinn (æ, æ, æ)
Hann drakk masato (æ, æ, æ)
Hann drakk masato (æ, æ, æ)
Amma mín dó næstum (æ, æ, æ)
Amma mín dó næstum (æ, æ, æ)
Hún borðaði suri (æ, æ, æ)
Hún borðaði suri (æ, æ, æ)
Masato er áfengur drykkur úr yucarót sem tuggin er og látin gerjast með munnvatni. Suri er stórvaxtin pálmabjöllulirfa. Hvort tveggja er algeng fæða í Amason skóginum. Myndin er af Bareto-félögum.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 29. júlí 2008
Miskunnsami Morðinginn
Þar sem ég sat á gólfinu í rökkrinu bölvandi og reyndi að ljúka við tölvupóstinn kom Morðingi og stumraði yfir mér, aðrir létu sér fátt um finnast. Takk fyrir Haukur Viðar.
(Björg Sveinsdóttir tók myndina.)
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Föstudagur, 25. júlí 2008
Bestu tímar allra tíma
Í viðtali við Þjóðviljann 24. október 1976 var Haukur Morthens spurður um tildrög þess að hann fór að gefa út sjálfur:
"Ég gerði það nú vegna þess að mér fannst það ekki skipta máli, hvort maður stæði í þessu sjálfur og léti plötuna standa undir kostnaði, því það hefur aldrei fengist neitt út úr plötuútgáfu hér. Ekki úr því að syngja inn á þær. Engin laun."
Og síðar í svarinu segir hann þetta: " - ég er ekki að horfa í aurinn, en það er bara það, hver fær peninginn? Á ég ekki að njóta góðs af því eins og einhver maður úti í bæ sem ég er að raula fyrir."
Þessi ummæli Hauks hefði eins getað fallið á síðustu mánuðum; þau gætu verið þrjátíu daga gömul, en ekki þrjátíu ára, því síðustu ár hefur það verið vinsælt umræðuefni hvort og þá hvernig bjarga eigi plötufyrirtækjunum. Málið er nefnilega það að varla er til eins óskilvirkur iðnaður og plötuútgáfa og lítill gróðabisness fyrir útgefendur og hvað þá fyrir listamennina.
Við getum tekið dæmi um vinsæla hljómsveit sem er á mála hjá íslensku útgáfufyrirtæki og með hefðbundinn útgáfusamning. Ef við segjum sem svo að plata sveitarinnar seljist mjög vel, til að mynda í 8.000 eintökum, má gera ráð fyrir að hljómsveitin fái út úr því um tvær milljónir sem skiptist svo niður eftir meðlimafjölda. Ef viðkomandi hljómsveit gefur út sjálf og nær sömu sölu yrði þessi tala talsvert hærri ef sama sala næst.
Víst eru í þessu fjölmargir óvissuþættir; getur sveitin náð niður upptökukostaði með því að taka plötuna að mestu upp heima í stofu eða í félagsheimilinu á Flúðum? Verða auglýsingar dýrari vegna þess að hún hefur ekki sömu samningsstöðu og stórfyrirtæki, eða ódýrari vegna þess að samskipti eru á persónulegri nótum? Myndi sveitarmenn vinna meira sjálfir og spara þannig ýmislegan kostnað? Fær hún sama aðgang að stórmörkuðum og sömu uppstillingu í plötuverslunum? og svo má lengi telja.
Ofangreind orð Hauks Morthens eiga ekki að öllu leyti eins vel við í dag og þau gerðu áður, ástandið er mun betra í dag hvað varðar réttindi listamanna og greiðslur til þeirra vegna plötuútgáfu, enda tíðkaðist víða á árum áður hálfgerð sjóræningjamennska í útgáfumálum, menn fengu lítið borgað eða ekki neitt, voru jafnvel ekki beðnir leyfis áður en tónlistar var gefin út og fengu engu um ráðið í hvaða búningi það var gert.
Á undanförnum árum hefur þeim fjölgað mikið sem gefa sjálfir út sína tónlist; af 151 plötu sem fjallað var um í Morgunblaðinu á síðasta ári voru 88 eigin útgáfa og stefni í álíka á þessu ári því af þeim 63 plötum sem teknar hafa verið til umfjöllunar hingað til eru 27 eigin útgáfa. Skýringarnar á því að hverju menn kjósa að gefa út sjálfir eru eðlilega fjölmargar. Oft er það eflaust vegna þess að engin fannst útgáfan, en æ oftar heyrir maður þá skýringu frá tónlistarmönnum að þeim hafi þótt eðlilegast að gera þetta allt sjálfir, þeir eigi þá ekkert undir öðrum með þau mál, fái meira í sinn snúð af hverju seldu eintaki og eigi allan rétt sjálfir.
Fyrr í sumar var ég leiðbeinandi á námskeiði fyrir norræna tónlistarblaðamenn í Árósum. Það var fróðlegt að fá innsýn inn í það hvaða vandamál tónlistarblaðamenn glíma við á hinum Norðurlöndunum þó það hafi reyndar komið í ljós að það voru sömu vandamál og menn fást við hér á landi (nema hvað!). Einn dönsku blaðamannanna kom mér þó verulega á óvart er hann barmaði sér yfir því hve lífið væri orðið erfitt.
Hann lýsti því hvað það hefði verið þægilegt að mæta í vinnuna á hverjum mánudagsmorgni og þá beið hans kassi frá útgefendum með nýútkomnum og væntanlegum plötum sem hann gat svo tekið til kosta og umfjöllunar. "Nú flæðir þetta yfir mann," sagði hann mæddur, "og hvernig á maður að ná að fylgjast með öllu því sem gefið er út?"
Þetta þótti mér skondin ræða enda finnst mér sem sá tími sem nú er uppi sé besti tími allra tíma, í það minnsta þegar tónlist er annars vegar - það hefur aldrei verið auðveldara að nálgast tónlist hvort sem maður kaupir hana á plasti í eða sem niðurhal í plötu- og tónlistarverslunum á netinu. Einnig er hægt að nálgast milljónir ókeypis laga á netinu, til að mynda í gegnum MySpace þar sem þrjár milljónir tónlistarmanna bjóða fólki að hlusta, en einnig er hægt að sækja tugmilljónir ókeypis laga úr ýmsum áttum.
Að þessu sögðu hafði blaðamaðurinn danski nokkuð til síns máls; plötufyrirtækin hafa virkað eins og nokkurskonar sía, hafa helst gefið það út sem var gott og/eða söluvænlegt. Eins og áður hefur komið fram er hængurinn á því fyrirkomulagi sá að engin leið hefur verið að sannreyna að þeir séu í raun að gefa út það besta, en ekki bara það sem þeim hentar að gefa út fyrir einhverjar sakir. Nú þegar við höfum frelsið til að kynna okkur málin sjálf kallar það á aðrar síur, aðra sem hafa tíma og þekkingu til að hlusta og meta og geta síðan miðlað þeim upplýsingum skammlaust. Útgefendur koma vitanlega þar að áfram, en einnig útvarpsmenn og tónlistarblaðamenn.
(Hluti úr þessum pistli birtist í Morgunblaðinu. Sverrir Vilhelmsson tók myndina á Hótel Borg í nóvember 1987.)
Tónlist | Breytt 26.7.2008 kl. 10:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Laugardagur, 12. júlí 2008
Hvað vita konur um rokk?
Á námskeiði tónlistarblaðamanna í Árósum fyrir stuttu ræddu menn sérstaklega stöðu kvenna í rokkblaðamennsku, hvers vegna þær væru ekki fleiri og um leið hvort þær hefðu eitthvað fram að færa sem karlmenn hefðu ekki. Fyrirlesarar á námskeiðinu voru danska útvarpskonan Anya Mathilde Poulsen, sem skrifað hefur bók sem byggist á samtölum við tónlistarkonur, "Feminint Forstærket - syv samtaler med kvindelige musikere", Morten Michelsen, sem er prófessor við háskólann í Kaupmanahöfn og einn höfunda ritsins "Rock Criticism from the Beginning: Amusers, Bruisers & Cool-Headed Cruisers", sem fjallar um rokkblaðamennsku í gegnum tíðina, og Mone B. Riise, sem starfar hjá norska útvarpinu.
Í fyrirlestrunum kom fram að rokkkonur fá alla jafna aðra meðhöndlun í fjölmiðlum en rokkarar og sérstaklega sé það áberandi hve spurningar sem beint er til tónlistarkvenna snúist að miklu leyti um það hvers vegna þær hafi snúið sér að tónlist og hvort erfitt sé að vera kona í rokkheimi karla.
Þetta skýrist eðlilega að mestu af því hve sjaldséðar konur eru í rokkinu, en eykur varla áhuga þeirra á að hella sér í slaginn þegar öll viðtöl við þær snúast um aukaatriði í stað þess að ræða tónlistina og inntak hennar. Eins kom fram að þykir tónlistarkonum óþægilegt hve blaðamenn leggi mikla áherslu á að lýsa útliti þeirra og nefnd dæmi um það hve algengt væri að blaðamenn gerðu lítið úr Dolly Parton - spurningar og vangaveltur snerust að miklu leyti um vaxtarlag hennar ("ertu ekki að drepast í bakinu?"), en lítið væri fjallað um tónlistina, þó enginn frýi henni hæfileika á því sviði.
Síðustu ár hefur konum í rokkblaðamannastétt fjölgað og þeirri spurningu var varpað fram hvort það væri vegna þess að umfjöllun um tónlist væri orðin almennari og minni áhersla væri lögð á alfræðiþekkingarhefð rokkpælaranna. Eins var því haldið fram að umræða um tónlist myndi breytast í takt við fjölgun kvenna í gagnrýnenda- og rokkblaðamannastétt því smekkur þeirra væri alla jafnan ekki metinn jafn rétthár og karla og því væru þær ekki eins áfram um að halda honum fram, væru óöruggari með skoðanir sínar og ekki eins sannfærðar og karlarnir um að þær hefðu rétt fyrir sér.
Vel má vera að það sé rétt, en er það þá ekki hið besta mál? Eru verstu gagnrýnendurnir ekki þeir sem eru svo sannfærðir um að þeir hafi rétt fyrir sér að þeir ná ekki að koma til móts við listamanninn?
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 30. júní 2008
Ekki hitta höfundinn
Eitt það fyrsta sem maður lærir í bransanum er að vera við öllu búinn þegar maður hittir þá listamenn sem maður hefur sérstakt dálæti á.
Mér er minnisstætt þegar flautuleikarinn snjalli James Galway kom hingað til lands til að leika á listahátíð og blaðakona af Morgunblaðinu, sem vel kunni að meta flautuleik hans, fór spennt til að taka við hann viðtal. Hún sneri aftur úr því viðtali með grátstafinn í kverkunum yfir því hver mikill dóni Galway hafi verið, frekur og afundinn, snúið útúr öllu og ef hann svaraði ekki með svívirðingum þá svaraði hann útí hött.
Hún var svo vitni að því að þegar Sjónvarpsmenn mættu með sínar upptökugræjur birti yfir honum, heillandi brosið braust fram og hann skrúfaði frá sjarmanum.
Af hverju, spyr kannski einhver, en gefur augaleið: Hann vissi sem er að blaðamaðurinn myndi gera hið besta út textanum, vinna almennilegt viðtal uppúr öllu saman, en sjónvarpsvélarnar myndu sýna hann eins og hann er og því kaus hann að vera annar.
Nú er það eflaust leiðinlegt að verða fyrir sífelldu áreiti blaðamanna, en við því er það einfalda ráð að neita að veita viðtöl, ekki síst ef maður hefur ekki nennu í að vera kurteis.
Ekki er bara að stjarnan sem maður hefur mænt á úr fjarska getur verið óuppdreginn dóni, heldur getur líka komið í ljós að snilligáfa á einu sviði hefur útilokað gáfur á öðrum sviðum.
Dæmi um það er rithöfundurinn mikli Victor Hugo (1802-1885), höfundur Vesalinganna og Maríukirkjunnar í París (Notre-Dame de Paris). Hann var mikið undrabarn, skrifaði smásögur og leikrit þrettán ára gamall og vann sín fyrstu verðlaun fyrir ritstörf sextán ára gamall. Ég hef séð þá samantekt að hann hafi skrifað tíu milljón orð, 10.000.000 orð (orðið sem þú varst að lesa var 280. orð þessarar greinar, fyrirsögn ekki meðtalin - margfaldaðu með 35.714).
Nánar tiltekið gaf hann út 24 ljóðasöfn (3.000 ljóð eru skráð), reyting af leikritum, óteljandi ritgerðir, greinar og ferðasögur og níu skáldsögur (þrjár hafa komið út á íslensku Notre-Dame de Paris (Maríukirkjan í París, 1948), Les Misérables (Vesalingarnir, 1925 til 1928) og L'Homme qui rit (Maðurinn sem hlær, 1932)). Jón Helgason þýddi reyting af ljóðum Hugos í Tuttugu erlend kvæði og einu betur og Steingrímur Thorsteinsson þýddi líka ljóð eftir hann. Engum hefur dottið í hug að gefa út á íslensku skáldsöguna Han d'Islande, sem snarað mætti sem Íslands Hans, nú eða Hans Íslandi, en hún segir frá illmenninu Han (Hans) sem hyggst hefna sonarmissis með hrannvígum.
Þessi afkastamikli maður var einn helsti andans jöfur Frakka á sinni tíð, eða í það minnsta þar til hann opnaði munninn því samtímamenn hans eru á einu máli um að hann hafi ekki bara verið illa máli farinn, heldur var hann og grunnhygginn í samræðum, nískur og eigingjarn, smámunasamur veifiskati og tækisfærissinni (skipti þrisvar um grundvallarafstöðu í stjórnmálum til að halda þingsæti). Hann var semsagt maður sem maður ætti helst ekki að hitta - láta nægja að lesa bækurnar og ímynda sér göfuglynt gáfumenni.
Hugo og Galway eru dæmigerður fyrir listamennina sem við viljum ekki hitta, en eins getur verið óviðkunnanlegt að hitta lubbalega lúða, illa til hafða, órakað og illa lyktandi. Ég hitti eitt sinn norska rithöfundinn Lars Saabye Christensen (Hálfbróðirinn) á Holtinu og fann það á lyktinni þegar ég beygði inn á Bergstaðastræti að hann hafði verið að skemmta sér ótæpilega dagana á undan (hann var og glerþunnur, en mjög skemmtilegur svo það fór allt vel).
Mér fannst það því frábærlega til fundið þegar leikari mætti til að lesa upp úr nýrri bók eins þekktasta rithöfundar þjóðarinnar síðasta haust og mín tillaga er sú að menn geri miklu meira af því, þ.e. að fá leikara til að leika rithöfunda. Það myndi til að mynda gefa krassandi sakamálasögu meiri vigt ef Ingvar E. Sigurðsson myndi mæta á blaðamannafundi með sína ygglibrún, nú eða ef Margrét Vilhjálmsdóttir myndi kynna sig sem höfund erótískrar ættarsögu.
Þessa hugmynd má síðan þróa áfram og fá leikara í hverju landi þar sem bókin er gefin út til að leika rithöfundinn. Ég sé í anda blaðamenn taka andköf af hrifningu þegar "Arnaldur Indriðason" svarar spurningum þeirra á reiprennandi spænsku, þegar "Einar Már Jónsson" les upp úr Englum alheimsins á tærri frönsku eða "Kristín Marja" formælir karlaveldinu á lýtalausri rússnesku. Þó það kosti vissulega sitt að ráða góða leikara sparast vitanlega mikið fé í flugfargjöldum og gistingu (mínbarirnir!).
Ef allt kemst svo upp er ekki víst að það skipti máli - ekki gera Spánverjar sér veður útaf því þó frægar stjörnur tali á spænsku í öllum bíómyndum og öllu sjónvarpsefni með röddum sem alls ekki eiga við viðkomandi leikara (að því okkur finnst i að minnsta). Hví skyldu þeir, eða Frakkar og Þjóðverjar, sem leika sama leik, láta sér bregða þó andlitið sé ekki það sama? Svo geta menn alltaf gert það sama og ég mun gera næst þegar sendur er leikari fyrir rithöfundinn íslenska - senda leikara til að hlusta fyrir mig.
Es. Menn eru mis-meðvitaðir um galla sína. Skýt hér inn ljóði eftir Thomas S. Eliot:
How unpleasant to meet Mr. Eliot!
With his features of clerical cut.
And his brow so grim
And his mouth so prim
And his conversation, so nicely
Restricted to What Precisely
And If and Perhaps and But . . .
How unpleasant to meet Mr. Eliot!
(Whether his mouth be open or shut.)
Tónlist | Breytt s.d. kl. 23:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Mánudagur, 7. apríl 2008
Rokkað í algleymi
Ein sú ágætasta hljómsveit sem ég hef séð í Músíktilraunum, og ég hef séð nærfellt þúsund hljómsveitir í þeirri keppni, er We Made God sem tók þátt í tilraununum 2006 og hrepptu þá þriðja sætið. Frammistaða sveitarinnar var frábær á tilraununum, sérstaklega úrslitakvöldið.
Frá þeim tíma hefur sveitin leikið á nokkrum tónleikum, hitað upp fyrir ýmsa og eins á Airwaves; á fínum tónleikum á Grand Rokk 2996 og síðan stóð hún sig frábærlega vel á Gauknum á Airwaves 2007. Meðfram þessu hefur We Made God unnið að sinni fyrstu breiðskífur og ýmislegt gengið á; upptökur gengið hægt, lög tekin upp aftur og síðan er hillti undir lokin þá var upptökunum stolið á Spáni í fyrrasumar.
Öll ég birtir þó upp upp síðir og síðastliðinn laugardag hélt We Made God útgáfutónleika frumraunarinnar, As We Sleep, í Gamla bókasafninu í Hafnarfirði.
Gamla bókasafnið er prýðilegur tónleikastaður, hljómur í salnum ágætur og aðstaða góð, þó ekkert sé sviðið, en það gefur að vísu fína stemmningu að standa í seilingarfjarlægð frá hljómsveitinni.
Gordon Riots hitaði upp, en þá ágætu sveit hef ég ekki séð á sviði síðan hún lenti í þriðja sæti sæti Músíktilrauna 2007.
Þó We made God hafi víða spilað og oft má segja að þetta hafi verið fyrstu eiginlegu tónleikar sveitarinnar, þ.e. tónleikar þar sem hún spilaði samfellt funna tónleikadagskrá og aðeins eigið efni.
Til að hita mannskapinn upp fengum við að heyra tvö ný lög, það fyrra sérdeilis eftirminnilegt, en þá var komið að As We Sleep sem spiluð var eins og hún lagði sig. þeir félagar voru eilítið óstyrkir til að byrja með en svo small allt saman - hljómsveit og áheyrendur gleymdu bæði stund og stað og úr urðu magnaðir og ógleymanlegir tónleikar. Í uppklapp fengum við svo "sjöunda lagið", aukalag á skífunni, sem hljómaði vel þó það sé ekki eins vel heppnað og annað á plötunni.
Frábærir tónleikar og vel sóttir hjá hljómsveit sem er tvímælalaust með efnilegustu sveitum hér á landi nú um stundir.
Björg Sveinsdóttir tók myndina.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 7. apríl 2008
Trommur og byssur
Næst fékkst færi að sjá Low í Nasa í nóvember 1999, en þá var skífan Things We Lost in the Fire í hávegum, þá nýútkomin, en með flutu svo frábær lög sem Smiths-slagarinn Last Night I Dreamt That Somebody Loved Me og Starfire og I Remember af Secret Name og svo jólalagið One Special Gift af jólaplötunni frábæru Christmas sem kom út um það leyti sem sveitin kom hingað.
Alan Sparhawk kom svo hingað 2003, enn um haust, og hélt sólótónleika í Listasafni Reykjavíkur með aðstoð liðsmanna Hudson Wayne og Kimono. Um það leyti glímdi hann við þunglyndi og í stað einkunnarorðanna Bíðið og vonið sem svo einkenndi fyrri skífur Low dró fyrir sólu sem heyra má á síðustu breiðskífur sveitarinnar Guns and Drums, sem kom út sl. vor og var svo mikil kúvending að gagnrýnendur vissu hvorki í þennan heim né annan. Ekki er bara að textarnir séu myrkir og dapurlegir, sungið er um stríðið hörmulega í Írak, heldur er lítið um hefðbundinn hljóðfæraleik, en þess meira af rafeindahljóðum, hvískri og braki.
Í þriðja sinn lék Low svo á Íslandi í Nasa, eins og áður er getið, sl. föstudagkvöld. Getur nærri að menn hafi beðið spenntir að sjá sveitina aftur því eins mátti búast við að hún træði upp með fartölvur í stað hljóðfæra miðað við síðustu skífu. Það var því ákveðinn léttir þegar þau mættu á svið með gítar, bassa og trommur, en Sparhawk nýtti sér líka tölvur eftir því sem honum þótti þurfa.
Fyrsta lag tónleikanna var hreint ótrúlega mögnuð útgáfa af Sandinista af Drums and Guns, rafeindahljóð og gítar úr hljóðsmala lögðu grunninn að hrífandi og um leið hrollvekjandi flutningi: "Where would you go if the gun fell in your hands? / Home to the kids or to sympathetic friends?"
Fleiri lög hljómuðu af Drums and Guns; Belarus, Dragonfly og Murderer svo dæmi séu tekin, frábærlega flutt og í talsvert frábrugðnum búningi en á plötunni, þó þau hafi svosem verið auðþekkjanleg flest. Alla jafna fannst mér meiri þungi og spenna í nýju lögunum og góðkunningjar af fyrri skífum stóðust nýju lögunum ekki snúning þó góð væru.
Undir lokin var glasaglaumur og skvaldur komið á það stig að spillti nokkuð fyrir, en álíka gerðist á Nasa-tónleikum Low 2001. Ef svo fer að Alan Sparhawk og Mimi Parker koma aftur hingað til lands þá legg ég til að þeim verði fenginn betri staður til að spila á, til að mynda Fríkirkjan - það yrðu magnaðir tónleikar.
Björg Sveinsdóttir tók myndirnar.
Tónlist | Breytt 8.4.2008 kl. 08:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 5. mars 2008
Nígerískar fornminjar
Þó svo mörg þjóðarbrot séu í Nígeríu láta menn sé nægja að skipta landinu í þrjá meginhluta, Yoruba til vesturs, Ibo í austri og Hausa-Fulani í norðri. Spenna milli íbúa þessara þriggja landshluta hefur sett svip sinn á Nígeríu, meðal annars með illvígri borgarastyrjöld undir lok sjöunda áratugarins sem kostaði hundruð þúsunda lífið, aðallega úr hungri.
Líkt og fleiri ríki í Afríku sem losnuðu undan nýlendustjórn Evrópuríkja á sjöunda áratugnum var sjálfstæðið mikil lyftistöng fyrir tónlist og aðra menningu í Nígeríu, en í Nígeríu skipti borgarastyrjöldin, sem Íslendingar kalla Biafrastríðið, gríðarlegu máli í tónlistarsögu landsins.
Í upphafi síðustu aldar var jujutónlist nánast allsráðandi í Nígeríu, bræðingur af afríkum töktum, af pálmavínstónlist, kántrítónlist, kúbversk tónlist og ensk balltónlist. Jujutónlist er Yoruba-tónlist fyrst og fremst og naut mikilla vinsælda í vesturhluta landsins og í höfuðborginni Lagos (margir þekkja jujutónlist eflaust helst af plötum Sunny Ade).
Á sjötta áratugnum barst ný tónlistarstefna til landsins, highlife, enda gerði ganaíski hljómsveitarstjórinn og trompetleikarinn E.T. Mensah allt vitlaust í tónleikaferðum sínum um gervalla Vestur-Afríku, þar með talið Nígeríu. Fjölmargar hljómsveitir sneru sér að highlifetónlist og juju hvarf í skuggann um tíma.
Eins og getið er skiptist Nígería í þrjú meginsvæði og fyrstu árin eftir að landið fékk sjálfstæði 1960 stýrði því bandalag stærstu stjórnmálaflokkar Hausa og Ibo en Yoruba-menn sátu eftir á meðan Ibomenn komu sér vel fyrir í stjórnunarstöðum og náðu ítökum í helstu fyrirtækjum. um miðjan áratuginn færðist helstu stjórnmálaflokkur Yorubamanna í átt að miðju stjórnmálanna og í kjölfar kosninga 1965 myndaði hann stjórn með helsta flokki Hausamanna og ógnaði eðlilega ítökum og völdum Ibomanna. Þeir brugðust svo við að lýsa yfir sjálfstæði í austurhluta landsins, stofnuðu ríkið Biafra 6. júlí 1967. Hófst þá illvíg borgarastyrjöld sem lauk með algerum ósigri Ibomanna 13. janúar 1970.
Þessi átök höfðu mikil áhrif á tónlistarsögu Nígeríu því ekki var bara að þeir Ibomenn sem leikið höfðu highlife hurfu heim til austurhéraðanna, heldur varð það liður í aukinni þjóðarvitund Yorubamanna að jujutónlist sótti í sig veðrið að nýju. Fyrir vikið má segja að highlife hafi nánast horfið af sjónarsviðinu um tíma og bar reyndar ekki sitt barr eftir hörmungarnar.
Menn héldu þó áfram að spila highlife, en fyrir tilstilli manna eins og Fela Ransome Kuti, sem síðar tók sér nafnið Fela Anikulapo-Kuti, komu inn áhrif frá djass, soul og rokki, aukinheldur sem afrísku áhrifin styrktust enn frekar. Það kom líka fleira til; fram að þessu var það alsiða að hótel og helstu skemmtistaður "ættu" hljómsveitir, réðu yfir nafni þeirra, réðu hljómsveitarmeðlimi og ákváðu stefnuna sem sveitin skyldi taka. Nú voru komnir nýir tímar, ungir menn stofnuðu eigin hljómsveitir og spiluðu það sem þeim sýndist og starfræktu meira að segja eigin næturklúbba til að njóta frelsisins. Enn aðrir tónlistarmenn gengu skrefinu lengra í að nútímavæða tónlistina, þeir létu sér ekki nægja að skreyta highlife með rokkgíturum og fönki heldur sneru þeir sé alfarið að því að stæla diskó og rokksveitir frá Bretlandi og Bandaríkjunum.
Að þessu sögðu þá voru fjölmargir tónlistarmenn enn að fást við highlife og ýmis afbrigði þess. Fjölmargir tónlistarmenn í héruðunum austur af Lagos spiluðu highlife og tóku upp eins og heyra má á framúrskarandi safnskífu, Nigeria Special: Modern Highlife, Afro-Sounds & Nigerian Blues 1970-6, sem kom út fyrir stuttu.
Á skífunni, sem er reyndar tvær plötur í einu diskahulstri (líka hægt að fá hana á tveimur tvöföldum LP-plötum með frábærum hljómi) eru tuttugu og sex dæmi um það sem var á seyði á þessum árum. Sumt er nokkuð dæmigert highlife (og gamaldags á þeim árum), en í öðrum lögum hleypa menn á skeið, til að mynd í einu lagi Mono Mono þar sem highlife er kryddað með erkassatónlist og gítarstælum að hætti Jimi Hendrix.
Fyrirtækið Soundway gefur diskinn út, en hann er afrakstur fimm ára rannsókna eiganda útgáfunnar sem skilaði miklu safni tónlistar sem ekki hefur hljómað frá því hún var gefin út í lok sjöundaáratugarins. Eins og eigandinn, Miles Cleret, rekur söguna var helsta vandamálið við að ná tónlistinni saman að alla jafna voru útgáfufyrirtæki og hljóðver búin að henda frumupptökunum og eins var erfitt að finna heil eintök af smáskífum sem hægt væri að nota við endurútgáfu því alla jafna var illa hirt um tónlist sem menn voru almennt búnir að gleyma og að auki voru plöturnar oft spilaðar á lélegum tækjum þar sem menn notuðu stálnagla sem nál á plötuspilaranum.
Hvað sem því líður þá er hér komið frábært safn smámynda af því sem helst var á seyði utan sviðljóssins í Nígeríu á umbrotatímum í sögu þjóðarinnar, frábær samantekt sem eykur til muna skilning á merkri tónlistarsögu
Tónlist | Breytt s.d. kl. 09:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Laugardagur, 1. mars 2008
Lazarus snýr aftur
Á tónleikum Nick Cave í Hótel Íslandi fyrir nokkrum árum var stemmningin á köflum líkt og á vakningarsamkomu, áheyrendur upp fullir af heilögum anda og geislaði af þeim náðin; þegar fyrstu hljómarnir af The Mercy Seat ómuðu tók ég eftir því að kona við hlið mér fór að gráta.
Iðulega grípa menn til samlíkinga úr gamla testamentinu þegar þeir lýsa Nick Cave, líkja honum veðurbarinn hálf-bilaðan spámann sem muldrar eitthvað sem trauðla verður skilið eða má eiginlega skilja hvernig sem er eins og allir góðir trúartextar eiga sammerkt. Vísast er þessi trúartenging til komin vegna þess hve Cave er sjálfur gjarn á að grípa til Biblíunnar við textagerð.
Á meðan Cave var þannig á leið til Helvítis, þegar hann hafði sett kúrsinn kyrfilega á gröfina með sprautuna í annarri hendinni og pyttluna í hinni var gamla testamentin honum hugleikið,eldur brennisteinn, eilíf pína í díkinu mikla sem logar af eldi og brennisteini. (Svo uppgötvaði hann Nýja Testamentið og fór að syngja öllu dægilegri lög og reyndarbragðdaufari.)
Lagið The Mercy Seat sem getið er hér að ofan sækir til að mynda líkingu í aðra Mósebók, þar sem tínduð eru ákvæði um helgihald: "Þú skalt og gjöra lok af skíru gulli; skal það vera hálf þriðja alin á lengd og hálf önnur alin á breidd. Og þú skalt gjöra tvo kerúba af gulli, af drifnu smíði skalt þú gjöra þá á hvorumtveggja loksendanum. Og lát annan kerúbinn vera á öðrum endanum, en hinn á hinum endanum; þú skalt gjöra kerúbana áfasta við lokið á báðum endum þess. En kerúbarnir skulu breiða út vængina uppi yfir, svo að þeir hylji lokið með vængjum sínum, og andlit þeirra snúa hvort í mót öðru; að lokinu skulu andlit kerúbanna snúa." (II. Mósebók, 25:17-20
Nick Cave leikur sér með þessa samlíkingu í laginu The Mercy Seat (á Tender Prey, 1988), les lýsinguna á því sem kallast lok í íslenskum biblíuútgáfum en snara má sem "líknarsæti" í enskri útgáfu, en í laginu bíður fanginn þess að setjast í rafmagnsstólinn og losna frá lífsins þraut. (The Mercy Seat fékk svo á sig enn trúarlegri blæ þegar Johnny Cash tók það upp á American III, en það er önnur saga.)
Því er þetta rifjað upp hér að á morgun kemur út ný breiðskífa Nick Cave með því magnaða heiti Dig!!! Lazarus Dig!!! sem er tvímælalaust með helstu verkum hans undanfarin ár ef ekki áratugi. Á plötunni nýtur hann fulltingis félaga sinna í The Bad Seeds, sem eru þeirra náttúru að geta spilað allt, brugðið sér í allra kvikinda líki og hreytt út úr sér kraftmikið hráslagalegt rokk, kveinandi döprum blús, tilfinningaþrungnum ballöðum eða ljúfsárum fíngerðum mæðusöng. Tónlistin á plötunni er rokk, en önnur gerð rokks en finna mátti á Grinderman-skífu Cave sem kom út á síðasta ári - nú standa menn föstum fótum í gömlum tíma, blúskennt og þróttmikið.
Líklegt verður að teljast að allir þekki líkingu þá sem titill skífunnar vísar í og á vefsetri Caves segir hann einmitt að sagan af Lazarusi hafi verið sér hugleikin frá barnsaldri og þá ekki bara hve mikið kraftaverk þetta hafi verið heldur hafi hann líka mikið hugsað um það hvernig Lazarus hafi tekið þessu öllu saman, hvað honum hafi fundist um það að hafa verið ræstur til lífs. "Sem krakki fannst mér þetta heldur óhuggulegt," segir hann á vefsetrinu og bætir við að hann hafi ekki bara endurreist Lazarus heldur skotið honum fram á tíma til New York áttunda áratugarins; hinn nýi Lazarus vaknar til lífsins á Times torgi, lastamiðstöðin mikla þar sem drukkið og hórast var út í eitt.
Ég meina, hann bað aldrei um að verða vakinn upp frá dauðum
ég meina enginn bað hann um að yfirgefa drauma sína
hann endaði, líkt og svo margir, á götunni í New York
í súpuröð, dóphaus, þræll, síðan fangelsi, þá geðveikrahæli, loks gröfin.
Æ, aumingja Larry.
Í hálfan fjórða áratug hefur Nick Cave verið að fást við tónlist og þar af hefur hann starfað með The Bad Seeds með hléum í tæpan aldarfjórðung. Á þeim árum og áratugum hefur hann glímt við spurningar um tilgang eða tilgangsleysi, leitað svara hinstu rök tilverunnar, en Lazarus frá Betaníu getur ekki svarað; hann segir ekkert frá því sem beið hans, eftir honum er ekkert haft og við erum engu nær - æ, aumingja Larry með nályktina sína.
(Hluti úr þessari færslu birtist í Morgunblaðinu 2. mars.)
Tónlist | Breytt 4.3.2008 kl. 09:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Tenglar
Vefgreinar
- Dont Legalize Drugs by Theodore Dalrymple, City Journal Spring 1997 Advocates have almost convinced Americans that legalization will remove most of the evil that drugs inflict on society. Dont believe them. City Journal - Spring 1997
Vefmiðlar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar